Þrjú leyndarmál: Útskriftarræða við ML

skoli-1Skólameistari, Bubba, fyrrverandi nemendur, aðrir gestir, en umfram allt auðvitað þið – kæru stúdentar,

Ég man vel hvað mér leiddist þetta gamla fólk sem var að koma hérna upp og halda leiðindaræður á útskriftardaginn okkar. Það var þetta gamla lið, og svo einhver formlegheit sem stóðu í vegi fyrir því að við gætum hlaupið héðan út eins og nautgripir að vori, haldið okkar útskriftarveislur og svo áfram út í lífið sem beið okkar fullt af tækifærum þarna úti.

Nú er ég einn af þessum gömlu köllum – og ég fæ tækifæri til að hefna fyrir þessi ósköp með því að halda enn lengri og leiðinlegari ræðu yfir ykkur!

Ég er bara að grínast. Ræðan sem ég ætla að halda er ekkert svo löng!

Árin á Laugarvatni eru meðal allra bestu ára ævi minnar og ég veit að margir af bekkjarfélögum mínum myndu segja það sama. Ég veit líka að þið eigið eftir að líta til baka seinna og hugsa það sama. Það sem gerist þegar stór hópur af fólki býr saman á orkumesta og hugmyndaríkasta skeiði ævi sinnar er ótrúlegt. Ég hef stundum sagt að það ætti að skylda alla til að ganga í heimavistarskóla að minnsta kosti hluta af sinni skólagöngu. Það er einstaklega þroskandi og mótandi og undirbýr mann undir margt sem seinna kemur í lífinu. Þið farið héðan með vinskap sem mun vara ævina á enda, tengsl sem munu koma sér vel við ótrúlegustu tækifæri síðar í lífinu – og auðvitað úrvalsgóða menntun sem þið munið búa að í framtíðinni.

Fyrir mig, sem dæmi, stofnaði ég mitt fyrsta fyrirtæki með þremur skólafélögum mínum frá Laugarvatni innan við ári eftir að við útskrifuðumst héðan. Og ég hef eiginlega ekki gert annað síðan. Ég hef stofnað og byggt upp fjögur hugbúnaðarfyrirtæki síðan ég var hér í skólanum og með einum eða öðrum hætti get ég sagt að fólkið sem ég kynntist á Laugarvatni hafi tengst þeim öllum – hvort sem það hefur verið samstarfsfólk mitt, viðskiptavinir eða hlaupið undir bagga með reddingar þegar mikið reið á.

Það sem mig langar að tala aðeins um í dag eru leyndarmál. Mig langar að segja ykkur þrjú leyndarmál sem ég hef lært á þessum 20 árum sem liðin eru síðan ég útskrifaðist héðan. Leyndarmál sem mig grunar að við lærum öll eftir þvi sem við eldumst og þau ykkar sem eruð enn eldri en ég eruð líklega búin að læra enn betur en ég.

En áður en ég byrja á þeim, langar mig reyndar að ljóstra upp einu leyndarmáli frá árunum hér á Laugarvatni. Þetta er eiginlega játning, og ég verð bara að treysta því að hafi annað hvort skólareglurnar eða landslög verið brotin þá séu þau brot nú fyrnd!

Þannig er að ég og ónefndur félagi minn höfðum ákaflega gaman af því að skoða afkima skólahússins. Eins og mörg ykkar örugglega vita er til dæmis stórt rými í risinu yfir aðalbyggingu menntaskólans sem hægt er að komast inn í í gegnum litla hurð í Turninum. Könnunarleiðangrar þar voru alltaf áhugaverðir og greinilegt að margir árgangar höfðu komið þar við – í margvíslegum erindagjörðum – í gegnum árin. Eru einhverjir hér sem kannast við þetta?

Aðrir vita líka sjálfsagt að undir endilangri skólabyggingunni eru lagnagöng. Göngin – ef mig misminnir ekki – eru kannski 60×60 sentimetrar að stærð og vel hægt að skríða þar inn. Einhvern daginn tókum við félagarnir okkur til og ákváðum að kanna þennan stað. Undirbúningurinn var nú ekki meiri en svo að við vorum ekki einu sinni með vasaljós og þetta var fyrir tíma farsímanna, svo ekki naut þeirrar birtu við – bara skímunnar frá opinu í vesturendanum. Það var svo sem greinilegt að við vorum ekki fyrstu landkönnuðirnir þarna heldur, en um það bil miðja vegu inn göngin voru þó lagnir á þvers og kruss og göngin þrengdust verulega. Grindhoraðir unglingarnir sem við vorum tókst okkur að smeygja okkur þarna framhjá og áfram inn. Og þegar við teljum okkur vera að nálgast enda ganganna birtist smá skíma í gegnum hringlaga op á gangnaveggnum. Við áttum okkur nú ekki alveg á þessu gati, en í gegnum það kemur nokkuð vegleg lögn. Þar sem við erum þarna að reyna að átta okkur á hvar við séum staddir og hvaðan lögnin komi heyrast talsverðir skruðningar í téðri lögn og félaga minum verður að orði stundarhátt: “Heyrðu, þetta er klósettið hjá Svenna kokki” – sem þá átti heima í íbúðinni inn af mötuneytinu. Félaganum lá hins vegar ef til vill helst til hátt rómur og handan við vegginn heyrist barnsrödd: “Pabbi! Klósettið er að tala við mig!”, hverju Svenni svarar að bragði lengra innan úr íbúðinni: “Hvaða vitleysa er þetta í þér barn!”

Þannig að: Svenni, ef þú átt ríflega tvítugan son eða dóttur sem trúir því að klósett geti talað, þá veistu a.m.k. núna hverjum þú getur kennt um!

En frá leyndarmálum menntaskólans að leyndarmálum lífsins!

1. Fullorðið fólk er ekki til

Fyrsta leyndarmálið sem ég ætla að trúa ykkur fyrir er að fullorðið fólk er ekki til! Þið hlakkið ef til þess dags þegar þið verðið svona þroskuð og fullorðin og virðist hafa svörin við öllu – eins og ég. Vera búin að átta ykkur á öllu þessu varðandi lífið sem virðist svo flókið núna: Hvað á ég að læra? Við hvað á ég að vinna? Hvernig í ósköpunum á ég að geta keypt mér íbúð? Og hvernig getur einhverjum í alvöru þótt viskí gott á bragðið?

Málið er bara að þessi dagur rennur aldrei upp. Við – “fullorðna fólkið” erum öll að “feikaða”, allan daginn. Við vitum ekkert hvað við erum að gera og lifum í sífelldum ótta um að einhver komist að því. Þetta verður alltaf augljósara eftir því sem við verðum eldri og í kringum fertugt er þetta orðið alveg augljóst. Viðbrögð sumra til að fela þetta er að taka sig voðalega alvarlega og reyna að haga okkur eins og við höldum að fullorðið fólk eigi að haga sér. En þetta eru alger mistök. Þvert á móti er mikilvægt að vernda barnaskapinn. Hlæja, leika sér, fíflast og ekki taka hlutunum of alvarlega.

Þegar konan mín var að verða þrítug lagðist það illa á sálina á henni. Henni fannst hún vera að verða gömul. Ég heimsótti vin okkar – listmálara – sem þá var nýorðinn fimmtugur og leitaði hjá honum ráða varðandi unga og upprennandi listamenn hvers listaverk ég gæti keypt til að gefa henni í tilefni tímamótanna og þessir aldurskomplexar konunnar bárust í tal. Ég rifja svarið hans upp reglulega.

“Já, ég man vel eftir þessu þegar ég var að verða þrítugur. Ég var alveg miður mín! Mér fannst ég enn svo barnalegur, engu hafa áorkað og ætti eftir að gera svo margt í lífinu. Ég man ekki eftir neinu sérstöku í kringum fertugsafmælið, en núna þegar ég var að verða fimmtugur var þessu algerlega öfugt farið. Ég var gríðarlega ánægður með aldurinn, ég var nefnilega enn svo barnalegur, hef enn engu áorkað og á enn eftir að gera svo margt í lífinu!”

Þetta er einmitt rétti andinn. Og ef þið trúið ekki enn að fullorðið fólk sé ekki til: Kíkið þá upp í matsal í kringum miðnættið í kvöld. Ég trúi því og treysti að þar verði, ekki bara 20 ára stúdentar, heldur 30, 40 og jafnvel 50 ára að haga sér alveg eins og unglingar!

2. Samkennd er mikilvægasti hæfileiki 21. aldarinnar

Annað leyndarmálið er að einn mikilvægasti hæfileikinn í lífinu er samkennd. Samkennd er er reyndar orð sem margir misskilja. Samkennd – eða það sem upp á ensku nefnist “empathy” – er ekki það sama og samúð, eða vorkunn. Samkennd er einfaldlega hæfileikinn til að setja sig í spor annarra og sjá hlutina með þeirra augum.

Þessi hæfileiki nýtist í öllum öngum lífsins, hvort heldur er til að setja okkur í spor foreldra okkar þegar þeir skilja ekki af hverju við komum ekki í sunnudagsmatinn, barnanna okkar þegar þau verða alveg ómöguleg en þurfa í rauninni bara að pissa, eða annarra í samfélaginu þegar stórar pólitískar ákvarðanir eru teknar, til að mynda um uppbyggingu heilbrigðiskerfisins eða styrkjakerfi landbúnaðar. Það er nefnilega ekki svo að einn hópur hafi endilega rétt fyrir sér og annar rangt, þeir nálgast málin einfaldlega á ólíkum forsendum og með ólíka forgangsröðun og eina leiðin að skynsamlegri niðurstöðu er að skilja sjónarhorn hinna og finna þá málamiðlun sem nýtist samfélaginu best sem heild. Við erum nefnilega ekki bara einstaklingar, heldur líka hlutar af stærri heild. Samfélagi. Og einstaklingunum farnast öllum betur þegar samfélaginu farnast betur.

Það er reyndar svo að í viðskiptalífinu – trúið því eða ekki – er mikil vitundarvakning um mikilvægi þess að geta sett sig í spor annarra. Víðlesin grein sem birtist í viðskiptatímariti fyrr á þessu ári bar titilinn “Samkennd er mikilvægasti hæfileiki 21. aldarinnar”. Sjálfur vinn ég hjá fyrirtæki sem hreinlega bara í þessari viku sendi alla æðstu stjórnendur sína – mig þar á meðal – til Miami í 3 daga til þess að taka þátt í eins konar borðspili sem setti okkur í spor annarra í fyrirtækinu við ýmiskonar ákvarðanir sem þau gætu staðið frammi fyrir við rekstur fyrirtækisins. Og já, ég hugsaði alveg eins og þið: Mikið rosalega hlýtur þetta að vera hallærislegt. Sú skoðun snerist svo sannarlega við og ég held að þetta hafi verið ein lærdómsríkasta vika ævi minnar.

Þið getið svo rétt ímyndað ykkur hvað það kostar að senda meira en 100 manns alls staðar að úr heiminum á fínt hótel í Miami til að gera eitthvað svona og taka dýrmætan tíma þeirra frá öðrum störfum á meðan. Fyrirtæki myndi aldrei leggja í slíkan kostnað nema sjá fram á að fá hann margfalt til baka.

Segið svo að það sé ekki mikilvægt að halda áfram að leika sér!

3. Heimurinn er betri en þið haldið

Þriðja og síðasta leyndarmálið sem mig langar að trúa ykkur fyrir er að öfugt við það sem halda mætti af lestri frétta eða samfélagsmiðla hefur heimurinn aldrei verið öruggari, friðsælli og aðgengilegari en einmitt um þessar mundir. Fjöldi þeirra sem látast í stríðum er minni síðasta áratuginn en nokkurn tímann síðustu 100 árin, og hlutfallslega sennilega síðan snemma á miðöldum – ef nokkurn tímann í mannkynssögunni. Þetta er meira að segja satt þrátt fyrir hörmungarnar í Sýrlandi – þó afleiðingarnar þeirra standi okkur aðeins nær heldur en flestra þeirra stríða sem geisað hafa síðan síðari heimsstyrjöldinni lauk.

Glæpum hefur snarfækkað um allan heim, sérstaklega á Vesturlöndum, langflestir skæðustu sjúkdómar sem herjuðu á mannkynið á árum áður hafa verið beislaðir og líkurnar á því að láta lífið við vinnu sína eru nánst engar miðað við það sem áður var.

Fréttirnar birta okkur nefnilega mjög skakka mynd af heiminum. Þær segja okkur frá því sem er óvenjulegt, því sem hefur breyst síðan í gær, því sem passar inn í 24 tíma fréttakvörnina. Þær segja okkur hins vegar ekkert frá stórmerkilegum hlutum sem hafa staðið yfir í langan tíma, eða breytingum sem verða hægt og rólega. Eldgos eru sem dæmi yfirleitt fréttnæm, en vissuð þið að úti fyrir Ítalíu er eldfjallaeyjan Stromboli þar sem staðið hefur yfir eldgos nánast samfellt í 2000 ár? Fréttirnar sögðu okkur heldur ekkert frá því hvernig internetið og farsíminn hafa gerbreytt daglegu lífi fólks á 1-2 áratugum. En þær segja okkur frá þessum ótrúlega fáu flugslysum sem verða á ári – og fyrir vikið verðum við flughrædd. Trúið mér, það er þegar HÆTT verður að segja frá flugslysum í fréttunum sem þið ættuð virkilega að hugsa ykkur um!

Við hræðumst flugslys, hryðjuverk og tilefnislausar árásir í miðbænum, á sama tíma og við úðum í okkur óhollum mat, hreyfum okkur ekki nóg og reykjum þó við vitum að við eigum næstum öll eftir að deyja annað hvort úr hjartasjúkdómum eða krabbameini. Hræðsla okkar er órökrétt og hún kemur í veg fyrir að við njótum lífins til fulls. Við höfum nánast ekkert að óttast.

Sjálfur hef ég verið svo heppinn að geta ferðast víða – þar á meðal á mjög fáfarnar slóðir. Þið hefðuð átt að heyra hvað ættingjar okkar, samstarfsfólk og vinir sögðu þegar við konan mín skipulögðum ferð til Úganda og Rúanda. Eða þegar ég fór einn míns liðs í gönguferð um Eþíópíu fyrr á þessu ári. Enda er það sem fólk veit um þessi lönd ekki eitthvað sem maður setur á forsíðu ferðabæklinga: Úganda = Einræðisherran ægilegi Idi Amin, Rúanda = þjóðarmorð, Eþíópía = Hungursneið. En valdatíð Idi Amin lauk 1979, átökunum í kjölfar þjóðarmorðanna lauk 1997 og efnahagur Eþíópíu hefur – þrátt fyrir að vera enn sárafátækt land – vaxið hraðar en nokkurs annars lands í heiminum síðasta áratuginn. Fjöllin í Eþíópíu eru aftur á móti engu minni að mikilfengleik en Grand Canyon, 200 kílóa fjallagórillurnar í Rúanda eru spakari en meðal íslensk rolla, og flúðasiglingarnar í Úganda miklu svakalegari en í Austari Jökulsá. Það veit bara næstum enginn af þessum stöðum.

Þannig að: Ekki vera hrædd við heiminn. Nýtið ykkur tækifærið sem felst í því að vera uppi á einstökum tímum þegar heimurinn er friðsælli og aðgengilegari en nokkru sinni fyrr. En undirbúið ykkur auðvitað vel. Hugrekki er dyggð, en fífldirfska er löstur.

Kæru stúdentar. Ég lofaði víst að þetta yrði ekki langt. Það er ekki víst að ég hafi staðið við það, en ég vona að þetta skilji eitthvað eftir til að hugsa um og muniði:

  • Fullorðnir eru ekki til
  • Samkennd er mikilvægasti hæfileiki 21. aldarinnar; og
  • Heimurinn er betri en þið haldið

Megi ykkur vegna sem allra best í hverju svo sem þið takið ykkur fyrir hendur í framtíðinni. Hún er ykkar. Til hamingju með daginn.

– – –

Flutt fyrir hönd NEMEL og 20 ára útskriftarnema við útskrift frá Menntaskólanum að Laugarvatni 28. maí 2016

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s