Virkjum Andra Snæ!

CLD160513__DSC2211-1024x576Við erum heppin í forsetakosningunum í þetta sinn. Við höfum úr nokkrum góðum kostum að velja – og það er ekki sjálfgefið. Við skulum að fagna því sérstaklega að gott fólk gefi kost á sér til opinberra starfa fyrir okkur.

Þrátt fyrir það var ég ekki í vafa um mitt val frá þeirri stundu sem ljóst var að Andri Snær Magnason myndi gefa kost á sér til embættisins. Ástæðurnar fyrir því eru einfaldar: Andri Snær hefur skýra, skemmtilega og jákvæða framtíðarsýn. Framtíðarsýn sem ég deili með honum.

Ég veit að Andri er áhugamaður um margt, en í framboði sínu til forseta hefur hann lagt áherslu á þrjú málefni öðrum fremur:

  • Umhverfið: Andri talar fyrir skýrum áherslum í umhverfismálum. Langtímasýn og skynsamlegri nýtingu á auðlindum okkar samhliða fræðslu og staðfastri stefnumótun. Við Íslendingar erfðum miklar auðlindir, Andri mun hvetja okkur til að fara vel með þann auð sjálfum okkur og komandi kynslóðum til heilla.
  • Tungumálið: Af fáu eru Íslendingar stoltari en tungumálinu sínu. Sem farsæll og óvenjulega hugmyndaríkur rithöfundur hefur Andri sýnt að hann kann svo sannarlega að fara með málið. Andri hefur verið ötull við að hvetja börn og ungt fólk til lestrar, sem og stjórnvöld til að standa að nauðsynlegum stuðningi svo íslenskan verði ekki útundan í hinni öru þróun tækninnar. Íslenskan er mikilvægt mál og forsetinn getur beitt sér í því.
  • Lýðræðið: Andri hefur tekið skýra afstöðu með því að koma á nýrri stjórnarskrá á grundvelli þeirra draga sem samin voru af Stjórnlagaráði. Nú er það raunar svo að setjist maður niður og skoði – hlutlægt – núgildandi stjórnarskrá og þau drög sem fyrir liggja að nýrri, er svo gott sem ómögulegt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að sú nýja sé ekki bara nútímalegari, heldur einnig skýrari og fallegri. Svo er hún líka íslensk, ekki dönsk. Þjóð meðal þjóða hlýtur að vilja sína eigin stjórnarskrá.

Andri Snær vill nota forsetaembættið til að vekja athygli á þessum málum og hefja upp umræðuna um þau. Hann hefur auðvitað þegar sýnt og sannað að hann getur hrifið fólk með sér og haft mikil áhrif, enda hefur hann einstaka hæfileika í því að tengja saman fólk, tengja saman hugmyndir og miðla málefnum með áhrifamiklum hætti. Í forsetaembættinu mun rödd hans heyrast enn víðar og betur en áður. Til þess ættum við að veita Andra brautargengi.

Andri sprettur úr fjölbreyttum jarðvegi. Bjó ungur í útlöndum og kynntist líklega meiri fjölbreytni þar en flest okkar íslensku heimalninganna; kynntist náið íslenskri sveit þar sem innprentuð er virðingin fyrir lífinu, landinu og náttúrúnni, en líka vinnusemi, nýtni og hugkvæmni; og hefur svo starfað með skapandi fólki sem skilur hvernig með hugvitinu einu saman er ekki aðeins hægt að skapa mikil verðmæti, heldur hreinlega framtíðina sjálfa. Þessi blanda hugnast mér vel og ég hef trú á því að hún gefi manni heilbrigða sýn á heiminn, hvert hann stefnir og hvernig hægt er að hafa áhrif á hann.

Andri Snær er frambjóðandinn sem stendur fyrir allar þær breytingar sem ég – og margir fleiri – vilja sjá á íslenskri umræðu, íslensku samfélagi og íslenskum áherslum.

Verum ekki hrædd við að kjósa breytingarnar þegar þær bjóðast: Virkjum Andra Snæ Magnason!

One comment

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s