Author: Hjalmar Gislason

About Hjalmar Gislason

Founder and CEO of GRID (https://grid.is/). Curious about data, technology, media, the universe and everything. Founder of 5 software companies.

Þankatilraun um RÚV

RÚV-betaÞankatilraun: Hvernig stofnun væri “Ríkisútvarpið”, ef það væri stofnað í dag?

Gefum okkur að RÚV hefði einhverra hluta vegna ekki verið stofnað á sínum tíma, en menn kæmu sér saman um að Ríkið þyrfti að sinna eftirfarandi hlutverkum:

 1. Að miðla upplýsingum til landsmanna á neyðartímum (öryggishlutverk)
 2. Að stuðla að gerð vandaðs innlends dagskrárefnis (menningarhlutverk)
 3. Að miðla fréttum á vandaðan og hlutlægan hátt (fréttahlutverk)

Nú sinnir RÚV fleiri hlutverkum, en þetta er þau sem oftast koma upp í umræðunni um nauðsyn RÚV, enda má undir stærstum hluta litrófs íslenskra stjórnmálaskoðana færa góð rök fyrir þeim öllum.

Augljóst er að útfærslan yrði verulega önnur en núverandi fyrirkomulag undir hatti einnar stofnunar. Svona gæti þetta til dæmis litið út núna á tímum internetsins og nútímafjarskipta og -miðlunar:

 • Öryggishlutverkinu yrði sinnt með því að tryggja Almannavörnum útsendingar- og miðlunarbúnað og vald til að taka yfir dreifikerfi annarra fjölmiðla og fjarskiptafyrirtækja á neyðartímum. Jafnframt yrði Fjarskiptasjóður efldur til að tryggja örugg dreifikerfi á þeim svæðum sem fjarskiptafyrirtækin sjá sér ekki hag í að gera það á markaðsforsendum.
 • Menningarhlutverkinu yrði sinnt með því að efla – og helst sameina – Kvikmyndasjóð og Menningarsjóð útvarpsstöðva sem samkeppnissjóð sem aðrir miðlar gætu sótt í óháð formi efnisins. Þannig ætti slíkur sjóður ekki síður að styrkja metnaðarfull verkefni í vefmiðlun eða annarri stafrænni miðlun en kvikmynda- og útvarpsefni.
 • Fréttahlutverkinu yrði að langmestu leyti sinnt af fréttastofu, líklega ekki ósvipaðri þeirri sem nú er rekin á RÚV, sem legði megináherslu á metnaðarfulla miðlun á vefnum, þar með talið samfélagsmiðlum. Hugsanlega yrðu þar líka lesnar fréttir (á bæði útvarps- og sjónvarpsformi) sem rekstraraðilum dreifikerfa bæri að gera aðgengilega í gegnum sínar aðal-, eða aukarásir.

– – –

ATH: Þessi pistill er ekki settur fram sem gagnrýni á kjarnastarfsemi RÚV, hvað þá starfsfólkið sem þar starfar. Flest af því sem stofnunin fæst við á sér eðlilegar og skiljanlegar skýringar í sögu og þróun tækni, fjölmiðlunar og samfélags. Stundum er bara áhugavert að stíga eitt skref til baka og hugsa hlutina upp á nýtt og út fyrir kassann.

Af einhverju öðru (en áli)

sprotarVið Hrunið 2008 losnaði býsna margt úr læðingi. Margt af því er vel þekkt og sumt hreint ekki til sóma, en eitt af því sem ekki hefur farið hátt er nýsköpunin sem spratt af stað eftir ákaflega mögur ár á þeim vettvangi í skugga bankabólu og ofþenslu þar sem fólk gat gengið að “öruggum” og vel launuðum störfum sem engin innistæða reyndist svo fyrir þegar upp var staðið.

Strax á fyrstu dögunum eftir hrunið tóku allskyns hópar hugmyndaríks fólks að spretta upp og fólk að hittast til skrafs og ráðagerða um það hvernig byggja mætti upp úr öskunni fyrirtæki og atvinnu fyrir sjálfa sig og aðra. Margir höfðu reyndar gengið með hugmyndir í maganum – jafnvel um árabil – en höfðu aldrei látið vaða. Hver hættir í öruggu og vel launuðu starfi í banka eða stórfyrirtæki til að stofna eigið fyrirtæki með þeirri áhættu og erfiðisvinnu sem því fylgir? Nú loks höfðu margir þetta tækifæri með góðu eða illu. Vinnustaðirnir þeirra urðu ýmist gjaldþrota eða voru að draga saman seglin, framtíðin virtist ekki svo björt og sumir höfðu hreinlega ekki að mörgu öðru að hverfa.

Mest áberandi varð þetta starf undir merkjum hóps sem hlaut heitið Hugmyndaráðuneytið *. Þar var lengi vel haldið úti vikulegum fundum þar sem frumkvöðlar hittust, kynntu sig og kynntust öðrum, deildu af reynslu sinni og spurðu aðra ráða. Fundina sóttu oftast á bilinu 20-200 manns og það kæmi mér ekki á óvart að samanlagt hefðu 2000-3000 einstaklingar sótt þessa fundi, margir fleiri en einn og einhverjir næstum alla fundina sem voru reglulega haldnir í meira en ár.

Meðal þeirra sem ég man eftir á þessum fundum er fólk sem tengist fyrirtækjum eins og OZ, Clara, Gogogic, DataMarket (hvar ég starfa), Mobilitus, Transmit, Meniga, Carbon Recycling International, Fafu Toys, Plain Vanilla, Belgingi / SAR Weather, Búngaló, Gogoyoko, GreenQloud, Dohop, Kinwins, Reykjavík Runway, Grapewire, Karolina Fund, Citizens Foundation, Kosmos & Kaos, Gagarín, Kerfisvirkni, Controlant, Spretti, Flaumi, Locatify, Apon, Cooori, Mindgames, Skemu / ReKode, Golf80, App Dynamic, ReMake Electric og Ými Mobile. Ég er áreiðanlega að gleyma mörgum.

Langflest þessi fyrirtæki voru annað hvort að stíga sín fyrstu skref á þessum tíma, eða hafa verið stofnuð síðan. Þá er ótalið fólk sem þarna var frá eldri og stærri fyrirtækjum sem þó stunda öll nýsköpunarstarfsemi svo sem Marorku, CCP og Hugsmiðjunni – en ég undanskil þau í því sem á eftir fer.

Gengi þessarra fyrirtækja hefur verið upp og ofan og sum þeirra eru ekki einu sinni lengur “meðal vor”. Þannig gangur nýsköpun og sprotastarfsemi fyrir sig. Það merkilega er hins vegar að gróflega telst mér til að hjá þessum fyrirtækjum starfi í dag að minnsta kosti 250 manns. Tölur um veltu og afkomu liggja ekki vel fyrir, en bara hjá þeim þessarra fyrirtækja sem ég þekki til hjá veit ég af bókaðri sölu eða fjárfestingu á þessu ári upp á meira en 3 milljarða króna, nær allt í erlendum gjaldeyri. Rétt tala er líklega nær 4 milljörðum ef ég reyni að giska í eyðurnar – og árið þó ekki hálfnað.

Ef ég væri í pólitík myndi ég svo tala um “afleidd störf” og margfeldisáhrif og kæmist vafalaust mikið hærra.

Að baki þessu liggur ekki opinber stefnumörkun. Raunar hefur áhugi af hálfu hins opinbera alla tíð verið hlutfallslega lítill á þessum málaflokki (þó endurgreiðsla rannsókna- og þróunarkostnaðar sé þar mikilvæg undantekning) og ekki ein einasta ný vatnsaflsvirkjun. Hvað þá lán með ríkisábyrgð og gengisáhættu, tengdu markaðsverði á áli!

Það er í raun réttara að segja að þessi árangur hafi náðst “þrátt fyrir” en “fyrir tilstuðlan” þess umhverfis sem boðið er upp á. Ég get sagt af eigin reynslu að gjaldeyrishöft, duttlungafullar leyfisveitingar og lagasetningar og furðuleg uppátæki íslenskra stjórnmálamanna sem rata í heimspressuna eru EKKI til að gera þessa vinnu auðveldari.

Þetta eru störf og umsvif sem hafa sprottið af sjálfu sér, drifin áfram af áhugasemi og framtaki fólksins sem stendur að baki þessum fyrirtækjum. Og þannig á það að vera!

Fyrir vinstra fólkið: Umhverfisvæn og skapandi störf sem byggð eru á hugviti og spretta úr grasrótinni.

Fyrir hægri mennina: Framtak einstaklingsins í sinni fegurstu mynd, með lágmarksafskiptum ríkisins.

Oooo, en krúttlegt. Hvar er álverið mitt?!?

– – –

* Þess má geta að Hugmyndaráðuneytið hefur undanfarið rúmt ár gengið í endurnýjun lífdaga og stendur m.a. fyrir ráðstefnunni Startup Iceland sem haldin verður í Hörpu í næstu viku.

Ef Voltaire hefði verið uppi á Íslandi um þessar mundir…

candide…hæfist umsögn um hans þekktasta verk ef til vill svona:

Sagan um Myrk-Víði er sögð í þrjátíu köflum og ber hver kafli lýsandi yfirskrift. Á undan fyrsta kafla segir til að mynda: „Hér segir frá því, hvernig Myrk-Víðir var uppfóstraður í fögrum kastala, og hvernig sannfærður um að sá væri kot.“

Sagan hefst í Vesturbæju, í borginni við Sundin. Þar á Myrk-Víðir heima, ungur, óspilltur sakleysingur „sem náttúran hafði gætt mjúkátu hátterni“. Lærifaðir hans, Fjölmiðill, kennir honum að þeir lifi í hinum versta heimi hugsanlegra heima og að allt sem gerist miði til ills.

Þekkt er sena Fjölmiðils í upphafi sögu. Fjölmiðill segir að sýnt hafi verið fram á að hlutirnir geti ekki verið öðruvísi en þeir eru, því að allt sé miðað við einn endi, sem hljóti þar með að vera hinn allra versti endir – heimsendir. Hann segir: „Athugið hvernig nef manna hafa verið gerð fyrir lýtalækningar; enda höfum við líka lýtalækningar til að laga þennan óskapnað. Það er bersýnilegt að fætur manna eru ekki til þess gerðir að ganga á þeim, enda höfum við fjórhjóladrifsjeppa jafnvel til skemmri ferða. Grjót hefur orðið til svo að hægt væri að grýta með því Alþingishúsið; skattakonungurinn í landsfjórðungnum er augljóslega ótíndur glæpamaður; og til þess eru svínin gerð að maður éti þau, enda fengjum við etv. einstaka sinnum brauðskinkusneið ef launin væru mannsæmandi: þar af leiðir að þeir sem segja að alt sé í versta lagi eru hálfvitar, maður á að segja að alt sé á leiðinni þráðbeint til andskotans.“

Kannski hefði hann samt látið sér athugasemdakerfi vefmiðlanna duga … eða hugað að framboði til Alþingis?

Af netsíum, klámi og vondum hugmyndum

BigBrotherFyrir nokkrum vikum kynnti innanríkisráðherra á ríkisstjórnarfundi aðgerðir er lúta að klámi.

Í kjölfarið hefur skapast mikil umræða. Þar hafa margir orðið til þess að benda á þá stórkostlegu galla og hættur sem í þessum hugmyndum felast, þó svo þeir séu hratt og örugglega stimplaðir í “hagsmunagæslu fyrir klámiðnaðinn” af ráðherra sjálfum og af öðrum jafnvel eitthvað þaðan af verra. Ögmundur segir að þessar ábendingar séu gerðar “undir formerkjum tjáningarfrelsis”. Eins og það sé skammarlegt!

Í minnisblaði ráðherra sem vefritið Smugan hafði fengið í sínar hendur stendur orðrétt:

„Hópnum er gert að taka til sérstakrar skoðunar möguleg úrræði sem heimila lögreglu að knýja eiganda, hýsingaraðila eða fjarskiptafyrirtæki til að loka á dreifingu efnis, þ.m.t. efnis sem hýst er erlendis og/eða hýsingaraðili er óþekktur.“

Ímyndið ykkur þessa setningu í einhverju öðru samhengi. Mér er illmögulegt að lesa ofangreint á annan hátt en að til skoðunar sé að koma upp einhvers konar eftirlitsstofnun eða öðru valdi sem geti stjórnað því miðlægt hvaða efni sé aðgengilegt fólki á Íslandi á netinu.

Það er frægt að leiðin til heljar er vörðuð góðum ásetningi. Að baki þessum hugmyndum liggur meðal annars “mikilvægi þess að börn hafi ekki aðgang að grófu efni”.

Af þeim sem ég þekki og bent hafa á gallana og hætturnar við þessar hugmyndir, veit ég ekki um neinn sem er ósammála því að þetta sé mikilvægt. Til þess að sporna við því eru hins vegar ótalmargar leiðir sem ekki fela í sér miðlæga stjórnun á því hvaða efni sé aðgengilegt á Íslandi.

Fjarskiptafyrirtækin bjóða flest upp á lausnir sem leyfa foreldrum að stjórna slíku aðgengi mjög nákvæmlega (Síminn, Vodafone). Málið er mér nokkuð hugleikið, enda var ég meðal þeirra sem unnu að því að Síminn setti slíka lausn á markaðinn fyrst íslenskra fjarskiptafyrirtækja.

Jafnframt er til margskonar hugbúnaður sem setja má upp á tölvum og heimanetum til þess að stjórna aðgengi barna að netinu eða tilteknum hlutum þess. Leiðin til að taka á vandanum er nefnilega, eins og við svo mörgu öðru fræðsla og vitundarvakning. Ekki miðstýring og bönn!

Í hvert sinn sem við veitum stjórnvöldum ný tæki eða völd, verðum við líka að hugsa hvernig gætu stjórnvöld sem okkur hugnast síður nýtt sér þau sömu tæki og völd? Stjórnvöld með miðstýrð tæki og völd til að loka aðgengi að efni á internetinu og þar með – óhjákvæmilega – einnig til að fylgjast með netnotkun Íslendinga, eru stjórnvöld sem við eigum að óttast.

Í síðustu viku átti ég spjall við nokkuð áhrifamikinn bandaríkjamann sem er með áform uppi um að bjóða hýsingu á efni og þjónustu til félagasamtaka, einstaklinga og fyrirtækja sem vilja ekki vera undir ægivaldi því sem Patriot Act og önnur rannsóknaleyfi og takmörkun á frelsi sem bandarísk yfirvöld hafa sett upp í nafni hryðjuverkaógnar hafa haft í för með sér. Einn af þeim stöðum sem honum hafði þótt koma til greina fyrir slíka hýsingu var Ísland. Hann hafði hins vegar heyrt af þessum hugmyndum Ögmundar og afskrifaði landið umsvifalaust sem mögulegan hýsingarstað. Það kaldhæðnislega er að mig grunar að sumir fylgismenn hugmynda Ögmundar myndu að sama skapi rifna af stolti ef Ísland gæti veit meðlimum samtaka eins og t.d. Occupy skjól fyrir sambærilegu valdi bandaríkjastjórnar.

Að lokum: Fólk í ábyrgðarstöðum verður að tala af ábyrgð. Ágæt regla fyrir ráðamenn gæti verið að viðra hugmyndir sínar fyrst í litlum hópum áður en þeir fara með mál í formlegan feril í kerfinu. Nýlega höfum við séð fleiri mál þar sem farið er af stað með alvarlega vitleysu (t.d. græðaraályktun Ólínu og co) í feril hjá Alþingi eða ráðuneytum og því svo haldið fram – þegar umræðan leiðir þau út í horn – að þetta hafi bara verið gert “til að hefja umræðu” eða “setja mál til skoðunar”. Er virkilega “vert að efna til umræðu um” miðlægt ríkisvald til að stjórna því hvaða efni sé aðgengilegt fólki á Íslandi í upphafi 21. aldar?

Íslenskar rafbækur – bókaútgefendur í tómu rugli

Mynd: The Unquiet LibraryÓfáir Facebook-notendur í mínum kunningjahópi hafa lýst vandræðum við lestur á rafbókum sem þeir hafa keypt eða fengið að gjöf um jólin. Hér er frásögn eins þeirra:

Ég hef átt lesbretti í meira en ár og bæði sótt mér fríar íslenskar rafbækur og keypt bækur á epub-formi hér í Svíþjóð án vandamála. Taldi mig lesa mér sæmilega til á vef Forlagsins áður en ég keypti rafbók hjá þeim. Tókst ekki að setja upp á tölvuna hjá mér lesforrit (ADE) sem þeir benda á og hringdi því í forlagið, sagði frá þessum vanda og spurði jafnframt á hvaða formati bækurnar frá þeim væru. Var sagt að þær væru á epub-formi og ég taldi mér því óhætt að kaupa. Annað kom í ljós, fékk bara tengil sem ekkert forrit getur notað nema þetta ADE sem tölvan mín tekur ekki við. Fékk loforð um endurgreiðslu eftir að hafa náð símleiðis í Forlagið. Vonast til að það standi og þar var svarað í síma á laugardegi svo Forlagið fær smáplús 🙂

Þvínæst fór ég á vef Eymundsson þar sem stóð skýrum stöfum að bækurnar væru epub og bara tekið greinilega fram að þær væru ekki leshæfar í Kindle. Svo ég tók sjensinn og keypti bókina sem ég ætlaði mér. Allt fór á sama veg nema nú náði ég ekki einu sinni símasambandi við Eymundsson þótt þeir gefi upp símanúmer til að leita aðstoðar hjá. [Makinn] náði svo að setja ADE upp á tölvuna sína og tókst eftir talsverða fyrirhöfn að ná leshæfu eintaki inn á lesbrettið sitt en ekki á mitt, þar sem þó eru epub-bækur fyrir. Nú hef ég komist að því að þessir kónar eru með svokallaða DRM-afritunarvörn á söluvöru sinni til þess að valda fólki vandræðum – þykjast vera að koma í veg fyrir ólöglega fjölföldun. Skv. þeim upplýsingum gætum við verið búin að eyða 3 af 5 lesmöguleikum bókarinnar sem ég keypti þannig að ef ég fæ mér nýja tölvu og nýtt lesbretti sem tekst að ráða við þennan ófögnuð eru lesmöguleikar bókarinnar búnir. Í þetta vesen allt fór stór hluti gærkvöldsins, með takmörkuðum árnangri svo mér finnst full ástæða til að vara fólk við þessum viðskiptaháttum. Ég taldi mig fara varlega en það dugði ekki til.

(Áhugavert væri ef aðrir lýstu reynslu sinni, góðri eða slæmri af íslenskum rafbókakaupum í athugasemdum hér neðan við pistilinn)

Þar sem ég reyndi hástöfum að vara suma forsvarsmenn bókaútgefenda við einmitt þessu á sínum tíma varð ég sorgmæddari fyrir hönd íslenskra bókaunnenda með hverri svona frásögninni sem ég las. Rangar ákvarðanir bókaútgefenda við val á tæknilausnum eru að valda íslenskum neytendum og þeim sjálfum stórkostlegum skaða.

Forsagan er sú að í lok síðasta árs sammæltust íslenskir bókaútgefendur um að nota tiltekna afritunarvörn á íslenskar rafbækur. Þetta er lausn frá fyrirtækinu Adobe og þarf að setja upp sérstakan hugbúnað í hverju tæki sem lesa skal slíka bók í. Slíkur hugbúnaður er fáanlegur fyrir margar gerðir stýrikerfa, hvort heldur er fyrir spjaldtölvur, hefðbundnar tölvur eða lesbretti (e-Readers). Mikilvægar undantekningar eru þó Kindle lesbrettin frá Amazon – sem reyndar vill svo til að eru vinsælustu lesbretti veraldar – og Linux stýrikerfið. Uppsetning á umræddum hugbúnaði – eins og flestum hugbúnaði – vill líka vefjast fyrir notendum sem ekki eru þeim mun tölvuvanari.

Þar að auki eru ýmsar takmarkanir á því hvernig “eigandi” bókarinnar má nota hana eins og fram kemur í tilvitnuninni hér að ofan. Án þess að fara í smáatriðum út í þær takmarkanir leyfi ég mér að fullyrða að þær takmarkanir koma í veg fyrir að hægt sé að tala um “eiganda” með sama hætti og eiganda bókar í pappírsformi. Ég heiti hreinlega verðlaunum þeim sem mun vandræðalaust geta lesið íslenska rafbók sem keypt er í dag á sínu helsta lestæki eftir 20 ár (meðan eintökin mín tvö af “Tár, bros og takkaskór” sitja uppi í hillu tilbúin til aflestrar hvenær sem er).

Hins vegar er sáraeinfalt að gefa út rafbækur án afritunarvarnar sem lesa má beint á öllum þessum tækjum og stýrikerfum án nokkurra takmarkana á notkun bókareigandans á sínu eintaki og í flestum tilfellum án þess að til komi nokkur sérstakur hugbúnaður. Sú útgáfa væri þá jafnframt á sniði sem hægt er að fullyrða að unnt verði að lesa í stýrikerfum og með tækni fyrirsjáanlegrar framtíðar, einfaldlega vegna þess hve útbreidd notkun hennar er.

Það fyrsta sem okkur var sagt um þessa afritunarvörn var reyndar hversu óskaplega mikill kostnaður hlytist af henni fyrir bókaútgefendur, en ástæðan fyrir því að henni skal beitt er ótti útgefenda við það að Íslendingar leggist að öðrum kosti í mikinn bókastuld og ólögleg afrit muni valda hruni í bóksölu.

Við þessu eru tvenn einföld mótrök:

 1. Fólk sem á annað borð kaupir bækur er heiðarlegt og stelur ekki efni, allra síst íslensku efni og alls ekki til gjafa, en stór hluti íslenskrar bóksölu er einmitt til gjafa.
 2. Umrædd DRM vörn stoppar engan sem ætlar að afrita efnið. Vopnaður Google og meðal-tölvukunnáttu tekur það innan við 20 mínútur.

Hér er semsagt verið að leggja í “afar mikinn kostnað” (svo notuð séu orð formanns samninganefndar rithöfunda) til þess að flækja málin fyrir heiðarlegum kaupendum og þjófkenna þá um leið, en án þess að ná minnsta árangri í átt að því markmiði að hindra afritun. Hver er þá tilgangurinn? Að halda sölu rafbóka “agnarögn” af bóksölunni?

Sjálfur er ég mikill bókaunnandi og virkur kaupandi pappírsbóka og erlendra rafbóka. Með fullri virðingu fyrir bókaútgefendum og þeirra hag fyrir brjósti engu síður en okkur neytendanna segi ég því: Þið að gera alvarleg mistök og gætuð valdið óbætanlegum skaða á íslenskri bókaútgáfu ef ekki er skipt um kúrs þegar í stað.

Nútíminn – þar sem hlutfall rafbóka er allt að fjórðungur allrar bóksölu á þessu ári, og vex hratt – mun nefnilega koma til Íslands, án íslenskra bókaútgefenda ef ekki vill betur til.

Uppfært 28. desember kl 12:55: Rétt er að minnast á lofsvert framtak Emma.is sem gefur út fjölda bókatitla án afritunarvarnar. Það breytir þó því miður ekki þeirri staðreynd að meginþorri íslenskra bókatitla – og allir þeir vinsælustu – eru aðeins fáanlegir með þessari hamlandi afritunarvörn.

Af gjaldeyrishöftum, dægurþrasi og sandkassapólitík

Árni Páll Árnason hefur verið að birta yfirvegaðar og skynsamlegar greinar um skaðsemi og leiðir til afnáms gjaldeyrishaftanna undanfarna daga. (Sjá: 1, 2, 3). Þetta er mikilvægasta mál íslensks samtíma. Miklu mikilvægara en flestir gera sér grein fyrir, enda getum við meðalfólkið enn keypt okkar bíla, farið í okkar frí erlendis einu sinni ári og keypt flest alla innflutta vöru. Það mun hins vegar breytast smám saman eins og Árni Páll bendir réttilega á í síðustu greininni.

Það sem er ekki síður hrollvekjandi er að meðan hinir þrír hlutar fjórfrelsisins eru enn óskertir, þá er hætt við að fleira og fleira ungt fólk átti sig á því að möguleikar þeirra eru takmarkaðari en jafnaldra þeirra í nágrannalöndunum. Innan hafta eru ekki sömu möguleikar til að nýta sér tækifæri á markaði, ekki sömu möguleikar til nýsköpunar og ekki sömu möguleikar til fjármögnunar eins og utan þeirra. Og þá gerist eitt af tvennu: Framtakssamasta fólkið flytur af landi brott eða stjórnmálamenn fara að fá hugmyndir um að setja höft á fleira en bara gjaldeyrinn.

“Ókosturinn” við þetta mikilvæga mál er að áhrifin felast í hægfara hnignun frekar en skyndilegu áfalli. Og þá er auðveldara að tala um hundinn Lúkas eða annað dægurþras sem upp kemur í “dellu dagsins”. Málum sem allir hafa skoðun á í 24 tíma en engu skila til framtíðar. Fjölmiðlarnir nærast á slíkum málum, enda ódýrt efni í framleiðslu með mikinn lestur og hægt að endurtaka sama leikinn dag eftir dag. Þeir hafa hins vegar engan hvata til að gera stórum málum skil á hlutlausan hátt með allri þeirri vinnu, rannsóknum og vandvirkni sem til þarf.

Það þarf að vinna hratt að lausnum á gjaldeyrismálunum og þar þarf að snúa við öllum steinum. Upptaka Evru með inngöngu í ESB er eins og Árni Páll og fleiri hafa bent á líklega viðnámsminnsta leiðin, en alls ekki án fórna og þess vegna umdeild – svo mjög að hún gæti verið ófær. Auk þess þarf að skoða fyrir alvöru hvort möguleiki sé á því að taka upp Kanadadollar með aðkomu Kanadamanna (eða Norska krónu með aðkomu Norðmanna). Loks þarf að stilla upp sviðsmyndum af því hvernig hægt væri að blása lífi í krónuna eina ferðina enn og hvaða peningamálastefnu ætti þá að nota til að stýra henni.

Að halda – og halda fram – að aðeins ein leið sé fær og skella sjálfkrafa skollaeyrum við öllum hugmyndum um annað er barnaskapur. Möguleikarnir eru fjölmargir. Viðfangsefnið er að finna þann sem hefur fæsta galla.

Það þarf að fá bestu hagfræðinga og peningamálamenn samtímans til að vega og meta þessa kosti í opnu ferli þar sem jafnframt er lögð áhersla á að útskýra stöðuna, leiðirnar og kosti og galla hverrar um sig á einfaldan og skiljanlegan hátt fyrir almenningi. Jafnframt þarf að tryggja að öllum spurningum og ábendingum sem upp koma sé svarað skýrt og skilmerkilega og þær metnar inn í leiðirnar eftir því sem við á áður en ákvörðun er tekin.

Allt þetta væri gerlegt ef ekki væri fyrir það að svona ferli þyrfti að vera þverpólitískt þar sem þingmennirnir – fulltrúar okkar á Alþingi – þyrftu að átta sig á því að þeir eru SAMAN í liði, að þeirra hlutverk er að vinna SAMANSAMEIGINLEGUM hagsmunum allra landsmanna og í SÁTT um ferlið þó tekist sé á um leiðirnar. Slíkt er nær ómögulegt að sjá fyrir sér og verður reyndar erfiðara og erfiðara eftir því sem Alþingi sekkur dýpra í forarpytti skotgrafanna.

Það er þess vegna ekki hægt að takast á við þennan vanda frekar en svo margan annan vegna þess að sandkassaleikur pólitíkurinnar stendur í veginum. Þar liggur hið raunverulega úrlausnarefni, en engin lausn í sjónmáli.

DataMarket í Bandaríkjunum

DataMarket er að setja upp skrifstofu í Bandaríkjunum. Nánar tiltekið í Cambridge í Massachusetts, sem fyrir leikmann virkar í raun sem hverfi í Boston.

Mig langar að segja frá þessu hér af tveimur ástæðum:

 1. Fyrirbyggja misskilning: Undanfarin ár hefur verið talsvert verið fjallað um fyrirtæki sem séu að “flýja land”. Áður en einhver sér sig knúinn til að túlka okkar tilfæringar með þessum hætti og breiða út eigin misskilning, er rétt að skrásetja hið rétta í málinu.
 2. Að miðla af eigin reynslu: Það eru allnokkur önnur fyrirtæki að fást við svipuð viðfangsefni og við um þessar mundir. Ef okkar hugsanagangur og reynsla getur nýst þeim (eða öðrum) er það auðvitað hið besta mál.

Komum fyrst einu á hreint: DataMarket er ekki að flytja úr landi. Við erum að opna skrifstofu hvaðan alþjóðlegt sölu og markaðsstarf fyrirtækisins mun fara fram. Vöruþróunin og tæknivinnan mun áfram eiga sér stað á Íslandi og vaxa þar og eflast eftir því sem frekari árangur næst í sölunni. Við höfum byggt upp framúrskarandi þróunarteymi sem ég fullyrði að í eru nokkrir af bestu hugbúnaðarmönnum landsins. Ég hef ekki komið auga á neina ástæðu til annars en að þessi starfsemi verði áfram á Íslandi í fyrirsjáanlegri framtíð og að jafnvel þó við sæjum fram á margfaldan vöxt myndi kjarnaþróunin alltaf fara fram hér. Þetta er reyndar að ég held stærsti styrkleiki íslenskra sprotafyrirtækja í gegnum tíðina: Getan, hugmyndirnar og fólkið til að framleiða framleiða framúrskarandi tæknilausnir.

Vara er ekki það sama og tækni

Ein af stærri uppgötvunum mínum síðustu misseri, er að vara er ekki það sama og tækni. Sama tæknin getur verið margar mismunandi vörur, allt eftir því hverjum hún er ætluð, hvernig hún er kynnt, verðlögð, seld og innpökkuð. Fyrir hugbúnaðarfyrirtæki eru þetta auðvitað frábærar fréttir: Það getur verið að þú getir búið til margar vörur úr tækninni sem þú hefur þróað, án þess að skrfia svo mikið sem eina línu af kóða til viðbótar. Málið er samt að þú þarft ekkert margar vörur. Bara eina vel heppnaða.

Vel heppnuð vara mætir þörfum er vel skilgreinds markhóps og er seld, verðlögð og þjónustuð með hætti sem sýnir skilning á þeim þörfum.

Mjög mörg tæknifyrirtæki feila á þessu og falla í þá gryfju að lýsa kostum tækninnar frekar en því hvernig lausnin mætir þörfum viðskiptavinarins. Þetta getur orðið til þess að jafnvel hinn fullkomni kaupandi áttar sig ekki á því að tæknin þín er einmitt lausnin sem hann eða hún er að leita að, vegna þess að þú taldir upp fídusa og spekka í stað þess að lýsa því hvernig þú munt gera lífið léttara eða betra fyrir þennan tiltekna viðskiptavinahóp.

DataMarket er síst saklaust af þessu, en erum þó á batavegi hvað þetta snertir.

Selur þetta sig ekki sjálft?

Auk vörunálgunarinnar sem rakin er hér að ofan glíma tæknifyrirtæki – og undir þann hatt falla flest þau íslensku sprotafyrirtæki sem ég hef fylgst hvað mest með – við áskoranir í sölu- og markaðsmálum. Fyrsta áskorunin er einfaldlega að átta sig á því hvað þessi liður er mikilvægur og hvað það þarf að byrja snemma að sinna honum.

Hugsunin er oft eitthvað á þessa leið: Lausnin er svo góð að hún bara hlýtur að selja sig sjálf! Sölumenn kosta mikinn pening og skilja ekki út á hvað þetta gengur! Klárum bara lausnina og viðskiptavinirnir munu flykkjast að. Það er kannski rétt samt að einhver hafi þetta á sinni könnu, svona samhliða því að reka fyrirtækið, eða skrifa notendaleiðbeiningarnar með kerfinu.

Ekkert er fjær sanni. Ekkert selur sig sjálft! Meira að segja á dögum vefsins og greiðslulausna á netinu fer nánast öll sala fram með einhvers konar afbrigðum af áratuga- eða aldagömlum söluaðferðum. Að hitta fólk, átta sig á þörfum þess eða löngunum og sannfæra það um ágæti þinnar vöru til að mæta þeim. “Jæja, en hvað með t.d. Google?”, gæti einhver spurt. “Þar fer fólk bara inn á sjálfsafgreiðsluvef, setur inn kreditkortaupplýsingarnar sínar og borgar fyrir auglýsingar án þess að sala eða markaðssetning komi þar nokkuð nærri, ekki satt?”

Einmitt: Ekki satt! Á öllum helstu mörkuðum rekur Google stór úthringiver sem hringja í hugsanlega viðskiptavini, ekki ósvipað símtölunum sem við fáum um kvöldmatarleitið frá trygginga- eða fjarskiptafélögunum. Að auki fer stór hluti sölu Google fram í gegnum gamaldags sölumennsku til lykilviðskiptavina með “wining and dining” og sjálfsagt stangveiði og golfferðum líka, rétt eins og í “gamla heiminum”.

Og ef Google þarf á þessu að halda, þurfum við litlu sprotafyrirtækin það svo sannarlega líka!

Félagi minn orðaði þetta ágætlega um daginn þegar hann sagði íslensk fyrirtæki oft haga sér eins og prinsessan í kastalaturni ævintýranna. Ofsalega vel til höfð bíður hún við gluggann eftir að prinsinn eini birtist á hvíta hestinum. Sú bið vill oft verða nokkuð löng og prinsinn kannski ekki alveg sá bjargvættur sem vonast var eftir – ef einhver þá mætir.

Eftir því sem ég les og læri meira um sölumennsku, öðlast ég meiri virðingu fyrir hæfileikanum sem góðir sölumenn hafa og aðferðunum sem þeir beita. Þetta er ekki eins tilviljanakenndur ferill eins og við nördarnir viljum oft halda, og góður sölumaður er ekki steríótýpíski bílasalinn sem er góður að pranga óþarfa inn á fólk. Góðir söluferlar eru markvissir og snyrtilega “forritaðir”, og góðir sölumenn með góða vöru selja þannig að kaupandinn þarf aldrei að efast um að hann sé að gera góð kaup, hvorki á meðan á söluferlinu stendur, né eftir að varan hefur verið afhent. Góð sala er þannig að báðir aðilar “vinna” þegar hún klárast.

Verkefnið okkar hjá DataMarket núna er að byggja upp jafnsterkt söluteymi og þróunarteymi. Það er ekki hlaupið að því. Og það verður heldur ekki gert á Íslandi fyrir ýmissa hluta sakir.

Af hverju í útlöndum?

Stutta svarið er: Af því að þar er markaðurinn. Aðeins ríflega 0,004% mannkyns býr á Íslandi og þar með hugsanlega ekki mikið hærra hlutfall af mögulegum viðskiptavinum. Eftir því sem varan er sérhæfðari, því færri eru hugsanlegir viðskiptavinir hér.

Staðreyndin er svo sú að þrátt fyrir undur netsins, Skype, síma og fjarfunda, þá jafnast ekkert á við það að hitta fólk á fundi til að ná athygli þess, hlusta eftir þörfum, sjá viðbrögð við demói, sannfærast um að fólk sé traustsins vert og sýna að maður sé það sjálfur. Mín reynsla hefur verið nokkurn veginn svona: Það er hægt að kynna sig og kanna hugsanlegan áhuga með tölvupósti og símtölum. Það er hægt að fylgja samkomulagi eftir og innleiða lausnir með tölvupósti og símtölum og það er jafnvel hægt að ganga frá samningum í gegnum símtöl og tölvupóst. En lykilstundir í samningaferlinu, þegar traust myndast milli aðila og kaupandinn verður í raun ákveðinn í að kaupa nást ekki nema fólk hafi hittst augliti til auglitis.

Og þá er kostur að hafa stóran markað innan seilingar og geta mætt á þessar lykilstundir með lágmarksfyrirhöfn.

Af hverju í Bandaríkjunum?

Þegar við tókum ákvörðun um að tími væri til kominn að setja upp söluskrifstofu erlendis, fórum við í gegnum sölupípuna okkar (lista hugsanlegra viðskiptavina sem við vorum í samskiptum við) og sáum fljótt að þar voru tvö svæði sem stóðu uppúr: London og austurströnd Bandaríkjanna. Tiltölulega stutt yfirlega leiddi svo í ljós að tækifærin umfram þau sem þegar lágu fyrir voru umtalsvert fleiri og stærri í Bandaríkjunum.

Þarna spilar líka inn í aðgangurinn að fjármagni til frekari vaxtar. Við höfum byggt einhver tengsl við líklega eina 30 fjárfestingasjóði. Af þeim eru meira en 20 bandarískir. Reynsla okkar af samskiptum við þá hefur almennt verið góð, en viðbrögð þeirra má súmmera upp sirka svona: Ef þú ert með flottasta fyrirtæki í heimi, gæti það líklega verið í frumskógum Kongó og þeir myndu samt fjárfesta. Ef þú ert eitt af fyrirtækjunum 100 sem þeir eru volgir fyrir, leita þeir að hverri ástæðu sem gefst til að fjárfesta ekki. Ísland er auðveldlega ein þeirra.

Einn þeirra gekk m.a.s. svo langt að segja að loknum fundi: “So, are you moving over here? Good, b’cause you know, nobody takes you seriously coming out of Iceland!” Með því held ég að hann hafi ekkert verið að meina Ísland sérstaklega og efast um að hann hafi vitað mikið um bankahrun, gjaldeyrishöft eða takmarkaða erlenda fjárfestingu – við vorum ekki komnir þangað í samtalinu. Ég held að hann hafi átt við: “Nobody takes you seriously coming out of country-with-a-funny-name-I-don’t-know-anything-about-and-couldn’t-point-out-on-a-map!”

Í augum svona fjárfesta skiptir staðsetning máli. Bæði til að þeir geti fylgst með fjárfestingunni sinni og vegna þess að þeir eru löngu búnir að átta sig á öllu sem sagt er hér að framan.

Af hverju Boston?

Við vorum eiginlega búin að ákveða að New York væri málið, enda eru fjármála- og fjölmiðlafyrirtæki (2 af þrem skilgreindum markhópum) mörg hver með höfuðstöðvar þar. Á tveim vikum í nóvember síðastliðnum, náðum við hins vegar sölu til tveggja markaðsrannsóknafyrirtækja (þriðji markhópurinn) í Boston – og þá tók ákvörðunin sig eiginlega sjálf. Fara þangað, láta innleiðingarnar fyrir þá ganga vel upp og vinna okkur þaðan. Rannsóknargeirinn i Boston er mjög sterkur, en virðist að sama skapi þéttofinn, þannig að þar þekkja allir alla. Það er þegar farið að skila sér í nýjum tengslum og frekari tækifærum. Sem dæmi um það, kynnti annar af þeim viðskiptavinum sem við höfum þegar landað okkur fyrir hinum. Og allmargar kynningar til viðbótar síðan komnar í gegnum þessa tvo aðila. Þegar maður getur að auki farið að stunda fundi og mannfagnaði í geiranum verða þeir hlutir fljótir að gerast.

Og hvernig verður þetta þá?

Ég er s.s. að flytja til Boston með fjölskylduna. Ég verð sölumaður númer 1 til að byrja með, en er að leita að samstarfsmanni þar sem fyrst til að vinna mér við hlið. Líklega Bandaríkjamanni með sölureynslu og helst þekkingu á geiranum, sem getur unnið með mér í að landa fleiri samningum á svæðinu. Markmiðið er að með haustinu verði svo ráðið í stöðu sölustjóra, sem geti leitt uppbyggingu sölu- og markaðsmála næstu árin, en til þess að ná réttum aðila í það starf þurfum við að sýna að sölumálin séu á góðu skriði og afla okkur aðeins meiri reynslu af söluferlinum og markhópunum.

Þá tekur við næsta starf hjá mér, því að þegar maður rekur sprotafyrirtæki skiptir maður í raun um vinnu á 6 mánaða fresti, þó fyrirtækið og titillinn sé sá sami.

Heilsusamlegt upplýsingaæði

Ég lauk nýlega við lestur bókarinnar The Information Diet eftir Clay Johnson.

Útgangspunktur bókarinnar er nokkuð snjall. Þar er upplýsingavali okkar og -neyslu – fréttalestri, bókalestri, tölvupósti, samfélagsmiðlum, sjónvarpi og neyslu á öðrum fjölmiðlum – líkt saman við fæðuval okkar og -neyslu. Þar eru að auki færð fyrir því sterk rök að upplýsingaæði okkar flestra sé engu skárra en mataræðið – og þar steðji að engu síðri vandi en offituvandinn. Á meðan venjur okkar í mataræði gera okkur feit gera venjur okkar við upplýsingainntöku okkur fáfróð og þröngsýn. Höfundurinn vill meina að þetta sé að miklu leyti ástæðan fyrir því hversu hörð stjórnmálaátökin eru, hversu óvandaður fréttaflutningur er og hversu vanþroskuð umræða um þjóðfélagsmál sé orðin.

Já, þetta á greinilega við víðar en á Íslandi!

Höfundur líkir slúðurfréttum og öðru óvönduðu léttmeti (“- MYNDIR!”) við skyndibita og sælgæti. Margir eiga erfitt með að standast þessháttar efni og það stendur hollari upplýsingaupptöku fyrir þrifum.

Samfélagsmiðlar og tölvupóstur fá líka sinn sess, en þáttur þeirra er mun flóknari og fellur í raun undir bæði hollustu og ómeti að mati höfundar.

Eftir að hafa útskýrt þessa sýn sína á upplýsingaöldina leggur höfundur af stað til að vopna okkur aðferðafræði, tólum og tækjum til að stunda heilbrigt upplýsingaæði.

Fyrst eru taldir til þeir hæfileikar sem nútímamaðurinn þarf að hafa til að takast á við upplýsingaflæði samtímans:

 • Upplýsingaleit: Að vita hvar á að leita góðra upplýsinga og hvernig.
 • Síun: Að þekkja góðar upplýsingar frá slæmum og hvað einkennir hvorn flokk um sig.
 • Framreiðsla: Að geta komið hugsunum sínum frá sér á skiljanlegan hátt, ekki síst til að ná utan um þær sjálfur.
 • Samþætting: Að geta fellt nýfengnar upplýsingar að hugmyndum sínum um heiminn og breytt þeim – já, jafnvel skipt um skoðun!

Því næst er farið í gegnum eins konar tímastjórnun við upplýsingainntöku. Hvernig komum við í veg fyrir að skyndibitinn eða Facebook “sjúgi okkur til sín” og við komum engri annarri neyslu að, eða vinnu frá okkur (mörg vinnum við jú ekki við annað en að sanka að okkur upplýsingum og koma þeim síðan frá okkur á einhvern hátt til annarra). Þarna er að finna nokkrar sniðugar hugmyndir sem hægt er að tileinka sér, en höfundur tekur þó skýrt fram að þetta sé aðeins tiltekin aðferðafræði sem hann hafi komið sér upp og hafi reynst honum vel.

Síðasti hlutinn í sjálfum “mataræðis”-hluta bókarinnar fjallar svo um heilsusamlegt “upplýsingafæði” og þetta var sá hluti bókarinnar sem mér fannst áhugaverðastur. Hér eru þau nokkrir hlutir sem hollt upplýsingafæði samanstendur af að hans mati:

 • Ábyrg neysla: Taktu stjórn á upplýsinganeyslunni. Ekki horfa á sjónvarpsdagskrá, horfðu á það sem þú virkilega vilt horfa á: þætti eða bíómyndir á DVD eða í stafrænum þjónustum. Lestu efni sem mælt hefur verið með við þig af fólki sem þú virðir og treystir, ekki það sem er matreitt ofan í þig af dagskrár- eða ritstjórum annarra miðla. Þetta á líka við um tölvupóstinn. Skráðu þig af póstlistum og fástu við þann póst sem virkilega þarfnast athygli, en ekki láta hann taka athyglina frá mikilvægari verkum. Skilgreindu líka tiltekna tíma dagsins í neyslu ákveðinnar gerðar upplýsinga. Klukkutími í bóklestur fyrir svefninn. Tölvupóstur þrisvar á dag, o.s.frv. Með öðrum orðum: Fastir matmálstímar og ekkert snakk á milli mála!

  Annar þáttur í þessu og ekki síður mikilvægur: Forðastu mikið unnar upplýsingar rétt eins og mikið unninn mat. Leitastu við að sækja upplýsingar beint til upprunans. Því fleiri skref sem frásögnin eða fréttin hefur verið umskrifuð og umrituð, því meiri upplýsingar hafa tapast og jafnvel rangfærslur eða misskilningur slæðst inn í. Erlendar fréttir í íslenskum miðlum eru oft skýrt dæmi um þetta, sem og fréttir í almennum fjölmiðlum af vísindum. Reynum að rekja okkur til upprunans og lesa frumheimildina frekar en túlkun eða endurtúlkun annarra á henni. Og tökum öðru með fyrirvara.

 • Upplýsingar úr næsta nágrenni: Leitastu við að neyta upplýsinga um þitt næsta umhverfi í meira mæli en það sem kemur lengra að. Þetta er ekki bara hugsað landfræðilega heldur líka í efnistökum (þitt sérsvið, áhugamál eða annað). Af hverju? Jú, vegna þess að það er líklegara að þær upplýsingar skipti þig máli, geti haft áhrif á þitt daglega líf og að þú getir á einhvern hátt brugðist við eða gert eitthvað í málunum. Það er líka auðveldara að þekkja bullið eftir því sem maður þekkir viðfangsefnið betur. Hver kannast ekki við að hafa þekkt til í einhverju máli sem hefur orðið fréttamatur og séð að þar er einhverju ábótavant eða farið lauslega með staðreyndir? Það er gott að muna að allar fréttir eru þessu sama marki brenndar. Við bara vitum það ekki af því að við þekkjum ekki til þeirra. Annað efni er svo nauðsynlegt í bland, en ætti að vera stillt í hóf og því tekið með ákveðnum fyrirvara.
 • Lágt auglýsingainnihald: Forðastu auglýsingar. Þær eru hannaðar til að ná athygli þinni og trufla þig við það sem þú ert að gera. Þar að auki eru þær hannaðar til að vera gildishlaðnar, en ekki til hlutlausrar upplýsingamiðlunar. Það eru ýmsar leiðir til að draga úr áreiti auglýsinga bæði á vefnum og í öðrum miðlum. Kynntu þér þær og tileinkaðu þér.
 • Fjölbreytni og jafnvægi: Leitastu við að neyta fjölbreyttra upplýsinga og mismunandi sjónarmiða. Leitastu sérstaklega við að lesa skoðanir þeirra sem eru ósammála þér og reyna að sjá þeirra flöt á málinu og það frekar en að lesa skrif þeirra sem eru sammála þér. Slíkt efni gerir ekki annað en að fylla þig af, ef til vill, óverðskuldaðri sannfæringu um að þú hafir þegar rétt fyrir þér. Það er betra að brýna skoðanir sínar með rökum þeirra sem eru ósammála þér. Hver veit, kannski ert þú ekki handhafi hins heilaga sannleika eftir allt saman – og sértu það, ertu þá betur í stakk búin(n) til að svara mótrökunum.

  Leitastu sömuleiðis við að kynna þér í bland gæðaumfjöllun um hluti sem þú hefur aldrei kynnst áður og fá þannig nýtt efni inn í hugmyndaheim þinn. TED – einhver?

Ég verð að segja að ég er óskaplega hrifinn af þessum pælingum og margt í þessu hljómar eins og frábær tækni til að takast á við óþægilega kunnugleg stef úr íslenskum fjölmiðla- og umræðuheimi.

Þetta er sterkasti hluti bókarinnar, en ég mæli engu að síður eindregið henni allri. Mikið af góðum pælingum og hugmyndum að því hvernig við getum bætt upplýsingaæði okkar og lyft umræðunni á hærra plan. Ekki veitir af!

Af iðnaðarsalti

Ég fór í smá skoðunarleiðangur um internetið til að forvitnast um þetta iðnaðarsalt sem var í fréttunum í gær. Umræðan er að venju yfirborðskennd og lítið um nákvæmar upplýsingar í umfjöllun fjölmiðla. Hér er það sem ég komst að.

Á gömlu afriti af vefsíðu Ölgerðarinnar fann ég vöruna. Hana er ekki lengur að finna í vörulistanum á vef fyrirtækisins. Með smá fikti fann ég samt stóra og fína mynd af pakkningunum, enn á vefsvæði Ölgerðarinnar (afrit af myndinni hér ef hún skyldi hverfa).

Á pakkningunum stendur stórum stöfum “Industrial salt” og “For industrial use only”. Með góðum vilja má etv. skilja það þannig að matvælaiðnaður falli þar undir … og þó!

Innihaldslýsingin er líka vel sjáanleg þarna:

E536 virðist álitið nánast skaðlaust, en um E535 segir á Wikipedia “Despite the presence of the cyanide ligands, sodium ferrocyanide is not especially toxic (acceptable daily intake 0–0.025 mg/(kg body weight)) because the cyanides are tightly bound to the metal.” Frumheimildin þarna er þetta skjal frá WHO.

Bæði þessi efni er hins vega líka að finna í lýsingum á hefðbundnu matarsalti, enda koma þessi efni í veg fyrir að saltið kekkist.

Það virðist því ólíklegt að alvarleg hætta sé á ferðum eða einhver hafi orðið fyrir skaða af neyslu þessa iðnaðarsalts. Hins vegar falla efni til iðnaðarframleiðslu ekki undir jafn strangt eftirlit og matvara og því hefðu önnur snefilefni eða mengun verið líklegari til að komast í dreifingu með þessum hætti.

Eftir stendur því að það er alvarlegt að fyrirtækið leyfi sér að selja þessa vöru til matvælaframleiðslu á svig við lög og reglur og eins að eftirlitsstofnunin láti það óátalið.

Það er hins vegar engin ástæða til að fara á límingunum yfir því að einhver hafi orðið fyrir heilsutjóni af þessum sökum, nema fram komi nýjar og óvæntar upplýsingar.

Leikmannsrannsókn lokið 🙂

Uppfært 14. janúar kl 21:24: Herti aðeins á orðalagi varðandi “For industrial use only”. Það er erfitt að spyrja sig ekki spurninga um það hvort efnið sé raunverulega ætlað til neyslu með þessa merkingu þarna. Áréttaði líka í niðurlaginu að ekki sé ástæða til að fara á límingunum af ótta við að einhver hafi orðið fyrir heilsutjóni. Eftir sem áður er full ástæða til að taka þetta alvarlega, fara vandlega yfir starfsemi fyrirtækisins og eftirlitsaðilanna, spyrja erfiðra spurninga og grípa til aðgerða eins og tilefni reynist til.

Vaðlaheiðargöng – gögn, arðsemi og útreikningar

Ég hef aðeins verið að velta þessari Vaðlaheiðargangaframkvæmd fyrir mér. Eins og oft vill verða skiptast háværustu raddirnar í tvo hópa á sitthvorum enda litrófsins: Annars vegar þá sem finna framkvæmdinni allt til foráttu og hins vegar þá sem vilja keyra verkið í gegn nánast án frekari umræðu eða umhugsunar.

Ég settist þess vegna aðeins yfir málið í morgun og fann til eftirfarandi gögn sem sýna samanburð á umferð um Víkurskarð (sem Vaðlaheiðargöng munu að mestu leysa af hólmi) og Hvalfjarðargöng á árunum 2000-2009:

Meðalfjöldi ferða yfir allt tímabilið er 1.014 bílar á dag um Víkurskarð, en 4.459 um Hvalfjarðargöng og hefur á báðum stöðum vaxið nokkuð jafnt og þétt ár frá ári. Þannig var meðalumferð á dag árið 2000:

 • Víkurskarð: 834 ferðir
 • Hvalfjarðargöng: 3.241 ferð

…en árið 2009:

 • Víkurskarð: 1.253 ferðir
 • Hvalfjarðargöng: 5.413

Þetta samsvarar því að umferð um Víkurskarð hafi að jafnaði vaxið um ca. 4,2% á ári, en um 5,3% á ári í Hvalfjarðargöngunum.

Ég birti þessi gögn á Facebook og þar sköpuðust í framhaldinu býsna fjörugar og fróðlegar umræður um málið.

Tryggvi Þór Herbertsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins blandaði sér meðal annars í þessar umræður með fróðlegu innleggi og bauðst til að senda mér þá arðsemisútreikninga sem hann hefði notað til að mynda sér skoðun á málinu í upphafi árs 2012, en Tryggvi hefur lýst sig fylgjandi framkvæmdinni.

Ég fékk leyfi Tryggva til að birta þessa útreikninga hans. Hér eru hans forsendur og niðurstöður (smellið á myndina til að skoða útreikningana sjálfa):

Ég hafði nokkrar athugasemdir við forsendur útreikninganna, sem ég sendi Tryggva um hæl:

 • Þú reiknar með að öll umferð fari um göngin. Er ekki rétt að miða við 90%?
 • Engir vextir á framkvæmdatíma?
 • Rekstrarkostnaður Hvalfjarðarganga er 250 m.kr. á ári. Þú reiknar með 40 m.kr. á ári við Vaðlaheiðargöng. Hvernig rökstyðurðu þennan mun?
 • Þú reiknar með að meðalveggjald notanda sé 1255 krónur (með vsk). Það er verulega mikið hærra (meira en 2x) en t.d. í Hvalfjarðargöngum. Er það raunhæft?
 • Er tímasparnaðurinn ekki 11 mínútur (16 km á 90km hraða)?
 • 1,5% vöxtur á umferð kann að vera hóflegt miðað við reynslu síðustu 10 ára (sjá að ofan). Má alveg hækka það aðeins. T.d. 2%

Tryggvi benti mér réttilega á að samanlagður tímasparnaður miðast við fjölda farþega í bíl og óhætt að reikna með að það séu fleiri en einn í bílnum. 40 m.kr. rekstrarkostnaðurinn er kominn frá Vaðlaheiðargöngum ehf og skýrður með ólíkri tækni, en hann er svo mikill að þar finnst mér skorta frekari rökstuðning. Almennt hefur verið talað um að veggjald verði 1000 krónur og það hlýtur að miðast við að sú upphæð sé með VSK – ekki án. 50 m.kr. sparnaður við vetrarþjónustu hljómar nokkuð hár, en ég geri ekki athugasemdir við það fyrr en að betur athuguðu máli.

Að teknu tilliti til þessara forsendubreytinga líta uppfærðar niðurstöður svona út. Blálituðu reitirnir merkja mínar breytingar. Að vísu er enn ekki gert ráð fyrir vöxtum á framkvæmdatíma (aftur má smella á myndina til að sjá útreikningana):

Niðurstaðan er vissulega töluvert ólík eftir þessar breytingar.

Ef þið hafið aðrar forsendur eða skoðanir á því hvernig eigi að gera þetta, getið þið svo bara sótt Excel-skrána og leikið ykkur með ykkar eigin forsendur og etv. hjálpar það ykkur við að mynda ykkur upplýsta skoðun á því hvert þessi framkvæmd eigi rétt á sér eða ekki. Mér finnst þetta a.m.k. hjálpleg æfing meðan opinber gögn málsins liggja ekki fyrir.

Burtséð frá ykkar niðurstöðum og skoðunum hvers og eins á Tryggvi Þór á hrós skilið fyrir bæði vinnubrögðin og þátttöku í opnum umræðum um málið. Meira svona!

Uppfært 17. nóv, 2011 kl 11:22: Hér að neðan hafa komið fram athugasemdir við útreikningana í módeli Tryggva og hann tekið undir þær. Eins bendir Tryggvi á að virðisaukaskattur af veggjaldinu sé 7%, ekki 25,5%. Ég hef því uppfært skjölin og myndirnar til samræmis við það, enda tilgangur þessarar tilraunar að nálgast rétt módel sem hver og einn geti skoðað sínar forsendur með.

Uppfært 17. nóv, 2011 kl 11:48: Setti inn þriðju útgáfu af forsendum þar sem flestar tölur eru teknar verulega niður með varfærni að leiðarljósi. Það gæti litið einhvern veginn svona út: