Author: Hjalmar Gislason

About Hjalmar Gislason

Founder and CEO of DataMarket

Hlutaskrá einkahlutafélags – dæmi

Samkvæmt lögum um íslensk einkahlutafélög skal félagið sjálft halda hlutaskrá (stundum kölluð hluthafaskrá eða hluthafalisti). Kveðið er á um þetta í 19. grein laganna, en hún hljóðar svo:

19. gr. Þegar einkahlutafélag hefur verið stofnað skal stjórn þess þegar í stað gera hlutaskrá. Heimilt er að hafa skrána í tryggu lausblaða- eða spjaldaformi eða tölvuskrá hana.

 • Í hlutaskrá skulu hlutir skráðir í númeraröð og skal fyrir sérhvern hlut greint frá nafni eiganda, kennitölu og heimilisfangi.
 • Gefa má út hlutaskírteini í einkahlutafélögum.
 • Verði eigendaskipti að hlut og ákvæði 14. og 15. gr. eru þeim ekki til fyrirstöðu skal nafn hins nýja hluthafa fært í hlutaskrána þegar hann eða löglegur umboðsmaður hans tilkynnir eigendaskiptin og sannar rétt sinn. Enn fremur skal geta eigendaskipta- og skráningardags. Sá sem eignast hefur hlut getur ekki beitt réttindum sínum sem hluthafi nema nafn hans hafi verið skráð í hlutaskrá eða hann hafi tilkynnt og fært sönnur á eign sína á hlutnum.
 • Ef þess er krafist af hluthafa eða veðhafa skal félagið gefa út staðfestingu um færslu í hlutaskrána.
 • Hlutaskrá skal ætíð geymd á skrifstofu félags og eiga allir hluthafar og stjórnvöld aðgang að henni og mega kynna sér efni hennar.

Þetta er auðvitað meingallað fyrirkomulag sem býður upp á bæði mistök og margskonar sniðgöngu á lögum, t.d. í tengslum við skatta og takmarkanir á eignarhaldi. Eðlilegast væri að að Fyrirtækjaskrá héldi utan um hlutaskrá allra félaga, rétt eins og hún heldur utan um samþykktir þeirra, stjórnarsetu, prókúru og endurskoðendur. En það er alveg efni í sérstaka umfjöllun.

Ástæðan fyrir þessari færslu er sú að ég veit að fjölmörg einkahlutafélög halda ekki utan um þessi mál í samræmi við það sem kveðið er á um í lögunum – og þar sem ég er tiltölulega nýbúinn að fara í gegnum það með bæði lögfræðingum og endurskoðendum að koma þessu á form sem uppfyllir lögin í einu og öllu fannst mér um að gera að deila afrakstrinum af þeirri vinnu með öðrum sem vilja hafa þessi mál í réttum farvegi.

Excel-skráin hér að neðan sýnir ímyndaða atburðarás við stofnun, fjármögnun og eigendaskipti á hlutum í einkahlutafélagi. Þetta þarf svo að uppfæra þetta í hvert sinn sem breyting á sér stað í hluthafahópnum og tryggja að skjalið sé aðgengilegt hluthöfum og yfirvöldum þegar þess er óskað.

Úfylling skjalsins á að skýra sig nokkurnvegin sjálf, sérstaklega með hliðsjón af lögunum. Skráin er á bæði ensku og íslensku til að geta nýst ef erlendir aðilar eru (eða eru líklegir til að verða) í hluthafahópnum. Fyrir rammíslensk félög má að sjálfsögðu sleppa enskunni.

Smellið á myndina til að sækja skjalið:

Njótið!

Besta ræða Steve Jobs

Steve Jobs er fallinn frá. Hann er öllum frumkvöðlum fyrirmynd og við erum mörg sem lítum upp til hans. Í minningu kappans ákvað ég að færa í íslenska þýðingu bestu ræðu Steve Jobs, og reyndar eina bestu ræðu sögunnar að mínu mati.

Ræðan var flutt við úskrift nemenda úr Stanford-háskóla þann 12. júní árið 2005 og á erindi við alla, ekki bara tölvufólk og sprotaflón, heldur alla sem velta fyrir sér lífinu og tilverunni:

Það er mér heiður að vera með ykkur í dag þegar þið brautskráist frá einum besta háskóla heims. Í sannleika sagt er þetta það næsta sem ég hef komist slíkri útskrift. Mig langar að segja ykkur þrjár sögur úr lífi mínu. Það er allt og sumt. Engin stórræði. Bara þrjár sögur.

Fyrsta sagan fjallar um það að mynda tengingar.

Ég hætti í námi við Reed-háskóla eftir 6 mánaða skólagöngu, en var viðloðandi skólann í aðra 18 mánuði áður en ég sagði að fullu skilið við skólann. En af hverju hætti ég þá?

Sagan hefst áður en ég fæddist. Líffræðileg móðir mín var ungur og ógiftur háskólanemi og ákvað að gefa mig til ættleiðingar. Hún hafði sterka skoðun á því að fólkið sem ættleiddi mig ætti að vera háskólagengið fólk. Það hafði því verið gengið frá því að ég yrði ættleiddur af lögfræðingi og konunni hans. Nema hvað, þegar ég skaust í heiminn ákváðu þau á síðustu stundu að þau vildu heldur stelpu. Foreldrar mínir, sem voru á biðlista, fengu því símtal um miðja nótt: “Óvænt erum við hér með nýfæddan strák; viljið þið taka hann?” Þau svöruðu: “Að sjálfsögðu.” Líffræðileg móðir mín komst síðar að því að mamma hafði aldrei útskrifast úr háskóla og pabbi hafði aldrei lokið menntaskólanámi. Hún neitaði því að skrifa undir endanlegu ættleiðingarskjölin. Það var ekki fyrr enn nokkrum mánuðum síðar þegar foreldrar mínir lofuðu að ég myndi fara í háskólanám að hún féllst á að ganga frá pappírunum.

Og 17 árum síðar fór ég í háskóla. Í barnaskap mínum valdi ég skóla sem var næstum eins dýr og Stanford. Þetta þýddi að allur sparnaður verkafólksins, foreldra minna, fór í skólagjöldin mín. Að sex mánuðum liðnum sá ég ekki að námið væri þess virði. Ég hafði enga hugmynd um hvað ég vildi gera í lífinu og enga hugmynd um hvernig háskólinn myndi hjálpa mér að svara þeirri spurningu. Og hér var ég að eyða öllum þeim sparnaði sem foreldrar mínir höfðu safnað á lífsleiðinni. Þannig að ég ákvað að segja mig frá náminu og treysti því að þetta myndi allt reddast einhvern veginn. Þessi ákvörðun hræddi mig mjög, en þegar ég lít til baka sé ég að þetta var einhver besta ákvörðun sem ég hef nokkurntíman tekið. Um leið og ég hætti í formlega náminu þurfti ég ekki lengur að sækja kúrsa sem ég hafði engan áhuga á og gat laumast inn í kúrsa sem virtust áhugaverðir.

Þetta var ekki eintóm gleði og hamingja. Ég var ekki með herbergi á heimavist þannig að ég svaf á gólfinu í herbergjum vina minna. Ég safnaði flöskum sem ég seldi fyrir 5 sent til að kaupa mat og á hverjum sunnudegi gekk ég 7 mílur þvert yfir bæinn til að fá eina almennilega máltíð í Hare Krishna-hofinu. Mér fannst þetta frábært. Og margt af því sem ég rakst með því að elta forvitni mína og brjóstvit reyndist mér ómetanlegt síðar. Ég skal gefa ykkur eitt dæmi:

Reed-háskóli bauð á þessum tíma upp á nám í skrautritun. Hugsanlega besta slíka nám sem boðið var upp á í landinu. Á háskólasvæðinu var hvert einasta plakat, hver einasta merking á hverri einustu skúffu, fallega skrautrituð. Þar sem ég hafði hætt í formlegu námi og þurfti ekki að stunda hefðbundin fög, ákvað ég að læra skrautritun. Ég lærði muninn á steinskrift og þverendaletri, um breytilegt bil á milli stafa eftir samstæðum þeirra og hvað það er sem gerir framúrskarandi letur framúrskarandi. Þetta var fallegt, sagnfræðilegt og hafði listrænan blæ þeirrar gerðar sem vísindin ná ekki að fanga, og þetta heillaði mig.

Ekkert af þessu hafði minnstu möguleika til að nýtast mér seinna á ævinni. En tíu árum síðar, þegar við vorum að hanna fyrstu Macintosh tölvuna, rifjaðist þetta allt upp fyrir mér. Og við útfærðum þetta allt sem hluta af Makkanum. Hún var fyrsta tölvan með fallegu letri. Ef ég hefði ekki sótt akkúrat þennan áfanga í háskóla hefði Makkinn aldrei boðið upp á mismunandi leturgerðir eða hlutfallslegt stafabil. Og þar sem Windows apaði bara upp það sem Makkinn gerði, hefði sennilega engin einkatölva boðið upp á slíkt. Ef ég hefði ekki hætt í námi hefði ég aldrei sótt þennan áfanga í skrautritun og einkatölvur byðu ef til vill ekki upp á fallegt letur. Auðvitað var ómögulegt að átta sig á þessari tengingu þegar ég var í háskólanum, en það var mjög auðvelt þegar litið var til baka 10 árum síðar.

Ég endurtek, það er ómögulegt að sjá tengingar fyrirfram; þú getur einungis áttað þig á þeim þegar þú lítur til baka. Þú verður því að treysta því að hlutirnir tengist einhvern veginn seinna á lífsleiðinni. Þú þarft að treysta einhverju – tilfinningunni í maganum, örlögunum, lífinu, karma, einhverju. Þessi nálgun hefur aldrei svikið mig og hún hefur mótað líf mitt.

Önnur sagan fjallar um ástríðu og missi

Ég var heppinn – ég fann mína ástríðu snemma í lífinu. Við Woz stofnuðum Apple í bílskúr foreldra minna þegar ég var tvítugur. Við unnum hörðum höndum, og á 10 árum óx Apple úr því að vera við tveir í bílskúr í tveggja milljarða dollara fyrirtæki með 4.000 starfsmenn. Við hleyptum af stokkunum okkar bestu vöru – Macintosh tölvunni – ári áður og ég var rétt nýorðinn þrítugur. Og þá var mér sagt upp. Hvernig getur manni verið sagt upp störfum hjá fyrirtæki sem maður stofnar sjálfur? Tjah, samhliða vexti Apple réðum við til starfa mann sem ég taldi ákaflega hæfileikaríkan til að reka fyrirtækið með mér, og það gekk vel fyrsta árið eða svo. Þá tók framtíðarsýn okkar ólíka stefnu sem leiddi á endanum til ósættis. Stjórn fyrirtækisins tók afstöðu með honum. Þannig að þrítugur var ég settur af. Og það með mjög áberandi hætti. Allt það sem ég hafði beint kröftunum að því að byggja upp sem fullorðinn maður var farið, og það nísti inn að beini.

Ég vissi hreint ekki hvað ég átti að gera í nokkra mánuði. Mér fannst ég hafa brugðist fyrri kynslóð frumkvöðla – að ég hefði misst kyndilinn sem mér var færður. Ég fór á fund David Packard og Bob Noyce og reyndi að biðja þá afsökunar á að hafa mistekist svona hrapalega. Ég var opinberlega misheppnaður og ég hugsaði jafnvel um að flýja úr dalnum. En ég tók smám saman að átta mig á einu – ég hafði enn ástríðu fyrir því sem ég var að fást við. Atburðarásin hjá Apple hafði ekki breytt því neitt. Mér hafði verið hafnað, en ég var enn ástfanginn. Og ég ákvað að byrja upp á nýtt.

Ég áttaði mig ekki á því þá, en það kom í ljós að brottreksturinn frá Apple var það besta sem hefði getað hent mig. Í stað byrðanna sem fylgdu góðum árangri kom léttirinn af því að vera byrjandi á ný, ekki jafn viss í minni sök og áður. Þetta frelsi leiddi til einhvers frjóasta tímabils lífs míns.

Á næstu fimm árum stofnaði ég fyrirtæki sem hét NeXT, annað sem heitir Pixar og varð ástfanginn af ótrúlegri konu sem varð síðar eiginkona mín. Pixar framleiddi heimsins fyrstu tölvugerðu teiknimynd, Toy Story, og er í dag öflugasti teiknimyndaframleiðandi veraldar. Merkileg atburðarás varð til þess að Apple keypti NeXT, ég fór aftur til Apple og tæknin sem við þróuðum hjá NeXT er hjartað í endurreisn Apple. Og við Laurene eigum saman yndislega fjölskyldu.

Ég er nokkuð sannfærður um að ekkert af þessu hefði gerst ef ég hefði ekki verið rekinn frá Apple. Þetta var ekki bragðgott meðal, en það virðist vera að sjúklingurinn hafi þurft á því að halda. Stundum slær lífið mann í höfuðið með múrsteini. Ekki missa trúna. Ég er sannfærður um að það eina sem hélt mér gangandi var ástríðan fyrir því sem ég fékkst við. Maður verður að finna þessa ástríðu. Þetta gildir jafnt um lífið sem lífsförunautana. Vinnan er stór hluti af lífinu og eina leiðin til að vera virkilega ánægður er finnast maður vera að vinna framúrskarandi vinnu. Og leiðin til að vinna framúrskarandi vinnu er að hafa ástríðu fyrir því sem maður er að gera. Ef þú hefur ekki fundið hana ennþá, haltu áfram að leita. Ekki sætta þig við minna. Eins og með önnur hjartans mál, veistu þegar það rétta er fundið. Og, eins og öll góð sambönd, batnar það bara með árunum. Haldu áfram að leita þar til þú hefur fundið þína ástríðu. Ekki sætta þig við minna.

Þriðja sagan er um dauðann.

Þegar ég var 17 ára, las ég tilvitnun sem var eitthvað á þessa leið: “Ef þú verð hverjum degi eins og hann væri þinn síðasti, muntu á endanum hafa rétt fyrir þér.” Þetta hafði áhrif á mig, og síðan þá, síðustu 33 ár, hef ég litið í spegilinn á hverjum morgni og spurt sjálfan mig: “Ef dagurinn í dag væri síðasti dagur lífs míns, myndi mig langa að gera það sem ég er að fara að gera í dag?” Og í hvert skipti sem svarið hefur verið “Nei” of marga daga í röð, veit ég að ég þarf að breyta einhverju.

Hafandi í huga að innan skamms muni ég deyja er mikilvægasta tækið sem ég hef fundið til að hjálpa mér við að taka stóru ákvarðanirnar á lífsleiðinni. Vegna þess að næstum allt – allar væntingar, allt stolt, allur ótti við niðurlæginguna sem felst í mistökum – allt þetta bliknar í samanburði við dauðann og eftir stendur það sem raunverulega skiptir máli. Hafandi í huga að innan skamms muni maður deyja er besta aðferðin sem ég kann til að forðast þá hugsanavillu að maður hafi einhverju að tapa. Þú ert þegar nakinn. Það er ástæðulaust að fylgja ekki draumum sínum eftir.

Fyrir um það bil ári síðan var ég greindur með krabbamein. Ég fór í rannsókn klukkan hálf átta um morguninn og hún sýndi svo ekki var um að villast æxli í brisinu. Ég vissi ekki einu sinni hvað bris var. Læknarnir sögðu mér að þetta væri nær örugglega ólæknandi mein og að ég mætti búast við því að eiga þrjá til sex mánuði ólifaða. Læknirinn ráðlagði mér að fara heim og koma mínum málum í farveg, sem þýðir á læknamáli að maður eigi að búa sig undir dauðann. Það þýðir að reyna að segja börnunum þínum á nokkrum mánuðum allt það sem þú hélst að þú hefðir næstu 10 ár til að segja þeim. Það þýðir að ganga þannig um hnútana að fráfall þitt sé eins fyrirhafnarlítið og mögulegt er fyrir fjölskylduna. Það þýðir að kveðja fólkið sitt.

Þennan dag lifði ég við þessa greiningu. Um kvöldið fór ég í magaspeglun, þar sem þeir tróðu slöngu niður hálsinn á mér, í gegnum magann, alla leið niður í garnirnar, stungu nál í brisið og náðu nokkrum frumum úr æxlinu. Ég var í lyfjamóki, en eiginkona mín, sem var með mér á staðnum sagði að þegar læknarnir skoðuðu frumurnar í smásjá fóru þeir að gráta þar sem í ljós kom að þetta var mjög sjaldgæf gerð krabbameins í brisi sem unnt er að lækna með skurðaðgerð. Ég fór í þessa skurðaðgerð og nú er allt í góðu lagi.

Þetta er það næsta sem ég hef komist því að standa frammi fyrir dauðanum, og ég vona að þetta sé það næsta sem ég kemst því í nokkra áratugi til viðbótar. Eftir þessa upplifun get ég þó sagt ykkur af heldur meiri sannfæringu en þegar dauðinn var fyrir mér aðeins gagnlegt, en fjarlægt hugtak:

Engan langar til að deyja. Jafnvel fólk sem vill fara til himna vill ekki deyja til að komast þangað. Og samt er dauðinn það sem bíður okkar allra. Enginn hefur nokkru sinni sloppið við hann. Og þannig á það líka að vera, vegna þess að Dauðinn er líklega besta uppfinning Lífsins. Hann er það sem drífur áfram þróun Lífsins. Hann grisjar úr það gamla og býr til rými fyrir það nýja. Núna eruð þið það nýja, en einn daginn eftir ekki svo ýkja langan tíma, verðið þið smám saman það gamla og verðið grisjuð úr. Þið fyrirgefið dramatíkina, en svona er þetta.

Þið hafið takmarkaðan tíma. Ekki sóa honum í að lifa lífi einhvers annars. Ekki festast í viðjum einhverra kredda – að lifa lífinu með hliðsjón af því sem öðru fólki finnst. Ekki láta háværar skoðanir annarra yfirgnæfa ykkar innri rödd. Og mikilvægast af öllu, hafið kjark til að fylgja því sem hjartað og brjóstvitið segir ykkur. Einhvern veginn vita þau hvað þið raunverulega viljið. Allt annað er aukaatriði.

Þegar ég var ungur var gefið út magnað rit sem nefndist The Whole Earth Catalog. Þetta var ein af biblíum minnar kynslóðar. Upphafsmaðurinn var náungi hér í nágrenninu, í Menlo Park, að nafni Stewart Brand. Ljóðræn nálgun hans gaf ritinu líf. Þetta var í lok 7. áratugarins, fyrir tíma einkatölva og umbrotsforrita. Ritið var því allt unnið með ritvélum, skærum og Polaroid myndavélum. Þetta var eins konar Google í pappírsformi, 35 árum áður en Google kom til sögunnar: unnið af hugsjón og stútfullt af frábærum upplýsingum, viðhorfum og hugmyndum.

Stewart og hans fólk gáfu út nokkur tölublöð af The Whole Earth Catalog. Þegar það hafði runnið sitt skeið á enda gáfu þeir út sérstakt lokatölublað. Þetta var um miðjan 8. áratuginn og ég var á ykkar aldri. Á baksíðu síðasta tölublaðsins var ljósmynd af sveitavegi snemma morguns, sveitavegi eins og þeim sem maður gæti farið um á puttaferðalagi ef maður væri í ævintýrahug. Undir myndinni stóð: “Verið hungruð. Verið flón.” (“Stay hungry. Stay foolish.”) Þetta voru þeirra lokaorð þegar þau kvöddu. Verið hungruð. Verið flón. Og þetta er það sem ég hef alltaf óskað sjálfum mér. Og núna, þegar þið útskrifist, óska ég ykkur þess sama.

Verið hungruð. Verið flón.

Takk fyrir kærlega.

Hér má svo horfa á ræðuna í flutningi Jobs:

Og hér má svo nálgast upprunalega enska textann.

Tekjuskattur meðal-Jóns: Sundurliðaður reikningur

Nú er að hefjast árleg umræða um fjárlög næsta árs. Þá koma fram ýmsar mis-gáfulegar hugmyndir um tekjuöflun og niðurskurð, en flest eigum við svolítið erfitt með að átta okkur á öllum þessum tölum. 600 milljarðar króna eru ekki upphæð sem við tengjum auðveldlega við.

Í morgunútvarpinu á Rás2 í morgun gerði ég tilraun til að koma fjármálum ríkisins í persónulegara samhengi og stærðir sem fólk á auðveldara með að skilja og ræða þar með á skynsamlegum nótum.

Hugmyndin er einföld. Að setja tekjuskattinn okkar og sundurliðun hans fram eins og reikning fyrir hverri annari þjónustu sem við erum vön að kaupa:

Smellið á myndina til að sjá allan reikninginn

Viðtakandi þessa reiknings er “meðal”-Jón. Hann hefur 438 þúsund krónur í heildarlaun á mánuði (þetta er skv. skýrslu Hagstofunnar um laun á almennum vinnumarkaði 2010). Jón býr í Reykjavík og borgaði því 13,03% í útsvar. Alls greiðir Jón þá rétt rúmlega 1.500 þúsund í tekjuskatt (að útsvari meðtöldu).

Þessu deilum við svo hlutfallslega niður í sömu hlutföllum og ríkisútgjöldin deilast niður skv. nýútkomnum Ríkisreikningi 2010 og þannig fáum við upphæðina á einstökum liðum á reikningnum hans Jóns.

Það er rétt að taka fram að (skv. upplýsingum í sama Ríkisreikningi, sjá bls. 10) telur tekjuskattur einstaklinga aðeins tæp 20% af heildartekjum ríkisins og við borgum því meira fyrir þessa þjónustu í gegnum aðra skatta og gjöld s.s. virðisaukaskatt, fjármagnstekjuskatt, tekjuskatt fyrirtækja, tryggingagjald o.s.frv. Allt fer þetta þó í sömu hítina (og úr henni) og því ekki ósanngjarnt að segja að svona skiptist sú upphæð sem við vorum rukkuð um á álagningarseðlinum fyrir nokkrum dögum síðan.

Það er rétt að taka fram að þetta er auðvitað mest til gamans gert og ber því ekki að taka of alvarlega. Öll gagnrýni og pælingar eru þó auðvitað velkomin.

Bensínverð: Samsetning

Viðbót 6. febrúar, 2012: Þessum gögnum er nu viðhaldið mánaðarlega á DataMarket.

Uppfært 4. ágúst, 2011: Bætti við mynd af hlutfallslegri þróun.

Bensínverð var umræðuefni í vikulegu spjalli mínu í Morgunútvarpinu í morgun. Meðal þess sem var til umræðu var samsetning á verði á lítra af bensíni.

Myndin hér að neðan sýnir samsetningu á bensínverði og þróun hennar frá því í ágúst 2007 til ágúst 2011:

Í stuttu máli fær Ríkið í sinn hlut 115,48 kr af lítranum (virðisaukaskattur, almennt og sérstakt bensíngjald og kolefnisgjald). Þetta nemur u.þ.b. 47,5% af heildarverðinu. Líklegt innkaupaverð (reiknað útfrá heildsöluverði á blýlausu bensíni í Bandaríkjunum) er 92,45 kr eða u.þ.b. 38,1% og álagning olíufélagsins, flutningar o.fl. 34,57 kr eða um 14,2%.

Hlutfallslega skiptingu og þróun á henni má annars sjá á þessari mynd:

Fyrir þá sem hafa áhuga á að kafa í útreikningana og leita í upprunalegar heimildir má nálgast gögnin á bakvið myndina í þessu Excel-skjali. Gagnrýni er velkomin!

Sjá einnig umræðu á Facebook-síðu DataMarket.

– – –

E.S. Í spjallinu í morgunútvarpinu fór ég því miður með lítillega rangar tölur sem gerðu það að verkum að hlutur ríkisins var sagður hærri en raunin er og hlutur olíufélaganna (flutningar, tryggingar, álagning) minni. Biðst velvirðingar á því. Kennir manni að liggja ekki yfir útreikningum langt fram á nótt! Annað sem sagt var stendur óhaggað.

Menntunarstig Íslendinga – erum við best eða verst í heimi?

Ég sá á Facebook í dag að margir voru að vitna í aðsenda grein í Fréttablaðinu sem í stuttu máli gengur út á það að menntunarstig Íslendinga sé með því versta sem gerist.

Lykilsetning í greininni er eftirfarandi:

Um helmingur Íslendinga lýkur þannig engu framhaldsnámi eftir grunnskólanám og af þeim sem hætta í framhaldsskólanámi gera það flestir eftir aðeins eitt til tvö ár. Helmingur Íslendinga mun því ekki stunda neitt frekara skólanám eftir u.þ.b. 16-17 ára aldur sem er allt annað og verra hlutfall en í helstu löndum okkar heimsálfu.

Það ber svo mikið á milli fullyrðinga á borð við “menntaðasta þjóð í heimi” og “nánast það lakasta sem þekkist á Vesturlöndum” að mig renndi í grun að kannski væri raunveruleikinn ekki svart-/hvítur, heldur meira svona grár (eins og oft vill verða). Ég ákvað að kafa aðeins í þetta.

Sitjandi á einum stærsta gagnabanka opinberrar tölfræði sem til er, eru heimatökin hæg fyrir mig. Hér eru því nokkrir listar sem ég gat grafið upp í fljótu bragði og allir segja eitthvað um menntun á Íslandi í samanburði við aðarar þjóðir:

Fljótt á litið styður þetta hvorugan pólinn. Og það er reyndar venjan þegar svona fullyrðingum er slengt fram. Við erum bara “eitthvað svona meðal” í þessu, eins og reyndar í flestu öðru.

Að sjálfsögðu eigum við að gera sem best í að efla menntun, en þarna dregur greinarhöfundur fram einn af ótal mælikvörðum á menntunarstig og alhæfir útfrá honum.

Eigum við ekki að hætta að halda því fram að við séum alltaf annað hvort best eða verst í heimi í öllu og draga svo upp valda mælikvarða máli okkar til stuðnings?

Borgar sig að spila í Lottóinu?

Oftast ekki, en þegar fyrsti vinningur er margfaldur geta þó skapast þær aðstæður að það sé hreinlega fín hagnaðarvon í því að taka þátt í Lottóinu.

Meðfygljandi Excel-skrá svarar því þessari einföldu spurningu. Settu einfaldlega inn upplýsingar um það í hvað fyrsti vinningur stefnir, hvað hann var hár síðast og Excel sér um útreikningana:

lotto4.xls

P.S. Þetta skjal tengist spjalli um sama efni í Morgunútvarpi Rásar 2 þann 22. júní 2011.

– – –

Viðbót 28. júní, 2011: Kom fyrir leiðréttri útgáfu af Excel-skjalinu eftir góða ábendingu frá Agnari Frey Helgasyni (sjá umræður þar). Leiðréttingin breytir sáralitlu um niðurstöðuna í flestum tilfellum, en rétt skal svo sannarlega vera rétt.

Reynslusögur íslenskra frumkvöðla

Í dag var haldinn á Grand Hótel viðburðurinn “Reynslusögur íslenskra frumkvöðla” á Grand hótel. Viðburðurinn var haldinn á vegum Frumkvöðlar.is, frábæru framtaki á vegum hans Hauks hjá Búngaló.

Ég var meðal þeirra sem var fenginn til að deila minni reynslu af sprotapoti þarna. Hér má sjá glærurnar úr fyrirlestrinum mínum “9 hlutir sem enginn sagði mér um frumkvöðlastarf”:

Sprotafyrirtæki á leið úr landi?

Í gær hringdi í mig fréttamaður frá Stöð 2. Hann hafði haft af því ávæning að DataMarket og fleiri sprotafyrirtæki væru “á leið úr landi”. Ég útskýrði fyrir honum að hvað okkur varðaði væri fyrirtækið einfaldlega komið á þann stað í lífinu að nú þyrfti að leggja áherslu á að ná erlendum viðskiptavinum og jafnvel fá erlenda fjárfesta að fyrirtækinu. Eftir stutt spjall varð úr að hann kæmi og tæki við mig stutt viðtal um þær áskoranir sem við sæum helstar í því.

Við spjölluðum vel og lengi – líklega hafa þeir tekið a.m.k. 15 mínútur af efni þar sem ég fór vítt yfir sviðið og útskýrði umfram allt að við þyrftum við að gera tvennt erlendis:

 1. Koma upp sölu- og markaðsstarfsemi þar sem við erum nær verðandi viðskiptavinum okkar, eða a.m.k. stærri hópi en þeim sem við höfum úr að moða hér á landi.
 2. Gera erlendum fjárfestum sem hugsanlega vildu koma að félaginu kleift að leggja fé inn í fyrirtæki sem starfrækt er í lagaumhverfi sem þeir þekkja, skilja og eru vanir. Fyrir bandaríska fjárfesta þýðir þetta oftast fyrirtæki sem sett eru upp í Delaware-fylki (þó starfsemin sé oftast allt annars staðar).

Þar sem mig grunaði að Stöð 2 væri jafnvel að höggva eftir því hvort gjaldeyrishöft, niðurstaðan úr Icesave-kosningunni, aðild (eða ekki) að ESB, Ríkisstjórnin, stjórnarandstaðan eða önnur heit pólitísk mál væru að þvælast fyrir okkur, lagði ég áherslu á að það væru ýmsar áskoranir tengdar því að vera á Íslandi, en áskoranir við sprotastarfsemi væru alls staðar. Helsta *landfræðilega* áskorunin við það að vera á Íslandi er sú sama í huga helstu sprota- og vaxtarfjárfestingasjóða heimsins og nánast alls staðar annars staðar í heiminum: Ísland er ekki í Silicon Valley 😉

Sömuleiðis lagði ég ríka áherslu á það að hér væri að mörgu leyti gott umhverfi til að taka fyrstu skrefin með sprotafyrirtæki. Hér er mikil og góð tækniþekking og þó atvinnulaust hæfileikafólk í upplýsingatækni finnist ekki hér frekar en annars staðar í heiminum er engu að síður hægt að setja saman mjög öfluga kjarnahópa sem stýra munu þróun um ókomna tíð þó að líklega þurfi að leita í stærra samfélag þegar og ef fyrirtæki komast á þann stað að þurfa hundruð starfsmanna við þróun.

Staða okkar væri sem sagt sú að við værum að skoða möguleikana á því að setja upp skrifstofu erlendis og að setja fyrirtækið upp með einhverjum hætti sem ekki fækkaði fjölda mögulegra fjárfesta á “tækniatriðum” eins og því að þeir þyrftu að setja sig inn í íslenskt lagaumhverfi, gjaldeyrishöft og pólitískan stöðugleika á Íslandi. Fjármögnunarferli sprotafyrirtækja snýst um að fækka ástæðum fjárfestis til að segja “nei” þangað til hann hefur enga og getur ekki annað en sagt “já”. Þetta er einfaldlega einn liður í því og flest skrefin væru alveg þau sömu og við hefðum tekið á þessu stigi á líftíma fyrirtækisins þó aldrei hefði orðið bankahrun og engin gjaldeyrishöft væru.

Að loknu þessu yfirvegaða og jákvæða spjalli kvöddumst við og fréttamaðurinn hafði úr ofangreindu og fleiru að moða til að klippa saman frétt um málið.

Viti menn! Önnur frétt í fréttatíma Stöðvar 2 er “Fimm sprotafyrirtæki á leið úr landi” og inngangurinn í svipuðum æsifréttarstíl. Smellið á myndina til að sjá innslagið í heild:

Miðað við spjallið eru nokkur atriði sem ég er svolítið hissa á í þessari frétt:

 • “Fimm sprotafyrirtæki á leið úr landi”, er ekki það sama og að þau vilji starfrækja viðskiptahluta starfseminnar erlendis. Hvað DataMarket varðar – og ég veit að það gildir um flest, ef ekki öll, hinna fyrirtækjanna sem nefnd voru – stendur ekki til og er engin ástæða til að flytja þróunarstarfið úr landi.
 • Í inngangi segir “gjaldeyrishöft gera það að verkum að erlendir fjárfestar forðast að fjárfesta hér á landi”. Það þarf nú líklega ekki að koma neinum á óvart, en eins og kemur reyndar fram í fréttinni eru höftin alls ekki upphaf og endir alls. Á þessu eru lausnir og þetta bara eitt af fjölmörgum úrlausnarefnum.
 • Hvað er Sjálfstæðisfálkinn og Valhöll að gera í bakgrunni við kynningu fréttarinnar?!? (Ég ætla reyndar að gefa mér að það séu einhver mistök, a.m.k. skil ég hvorki beina né dulda tengingu þeirra við fréttina)

…að öðru leyti er ekkert við fréttina að athuga. Þetta er veruleikinn eins og hann blasir við mér á þessum tímapunkti.

Það er hins vegar til marks um umræðuna á Íslandi í dag að fyrir þessa lýsingu mína hef ég í dag fengið að heyra að ég sé: ESB-sinni, andstæðingur ríkisstjórnarinnar, stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar, ósáttur við niðurstöðu Icesave-kosningarinnar og ýmslegt fleira … sem nota bene er allt sagt í gagnrýnistón.

Meðan þau atriði sem ég er gagnrýndur fyrir eru úr öllum – þar með talið gagnstæðum – áttum, ætti ég samt kannski ekki að hafa of miklar áhyggjur af því 😉

Vandi að spá, líka um fortíðina

Viðskiptaráð hélt Viðskiptaþing í gær. Eitt af því sem kynnt var samhliða þinginu voru fyrstu skref í átt að svokallaðri Efnahagsstofu atvinnulífsins. Starfsemi þessarar stofu er enn í mótun, en hugmyndin er að koma upp starfsemi sem muni fylgjast með og ef til vill taka þátt í spágerð og greiningarvinnu óháð hinu opinbera og stofnunum þess.

Við hjá DataMarket tókum þátt í smá “pilot”-verkefni í tengslum við þetta. Við tókum að okkur að safna og setja fram spár þriggja ólíkra aðila um hagvöxt og verðbólgu síðastliðinn áratug eða svo.

Þeir aðilar sem um ræðir eru Seðlabankinn, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Þjóðhagsspá sem gerð var af Fjármálaráðuneytinu þar til sú starfsemi var flutt til Hagstofunnar á síðasta ári.

Framsetningin á þessum gögnum er í formi nokkuð skemmtilegra, gagnvirkra mynda sem sýna rauntölur með rauðu og svo hinar ýmsu spár í daufgráum lit. Á myndinni hér að neðan má t.d. sjá verðbólguþróun born saman við verðbólguspár Seðlabanka Íslands. Mjög áhugavert að sjá hvernig verðbólguhorfurnar voru t.d. ofmetnar bæði í upphafi verðbólguskotsins í “litlu kreppunni” 2006 og svo aftur í kjölfar bankahrunsins 2008. Eins má sjá hvernig sumar spár gerðu ráð fyrir því að verðbólgan myndi minnka miklu hraðar en raun bar vitni eftir að hún náði hámarki sínu í janúar 2009.

Smellið á myndina til að skoða gagnvirka útgáfu á vef Viðskiptaráðs

Hagvaxtarspárnar eru ekki síður áhugaverðar. Ekki bara vegna þess að spárnar séu stundum aðeins úr takti við það sem síðar varð, heldur líka vegna þess að þegar spárnar eru birtar standast tölur um liðinn tíma líka mjög mis-vel. Í gamni mætti því segja að spáaðilum gangi jafnvel illa að spá um fortíðina!

Ástæðan fyrir þessu er sú að það tekur langan tíma að negla niður endanlegar tölur um landsframleiðslu (og þar með hagvöxt). Um þetta skapaðist til að mynda nokkur umræða í fyrra þegar tölur um hagvöxt tiltekinna ársfjórðunga ársins 2008 reyndust býsna fjarri því sem bráðabirgðatölur höfðu gefið til kynna. Hagstofan sendi í kjölfarið frá sér greinargóðar útskýringar á því hvernig þessar tölur eru unnar. Samkvæmt því sem þar kemur fram eru tölur um hagvöxt eru enn að breytast jafnvel 2-3 árum eftir að ári lýkur. Í millitíðinni þurfa spáaðilar að reiða sig á fyrirliggjandi bráðabirgðatölur, eða jafnvel draga eigin ályktanir um það hvernig þeim tölum sé ábótavant.

Á myndinni hér að neðan má til dæmis sjá hagvöxt (rauð lína) og hagvaxtarspár Seðlabankans. Ég dró fram hagvaxtarspá sem birt er í Peningamálum í júlí 2007. Eins og sjá má spáði bankinn því þá að hagvöxtur yfirstandandi árs yrði aðeins 0,2%. Rauntölurnar (rauða línan) sýna hins vegar að hagvöxturinn varð hvorki meira né minna en 6%, eða 5,8% prósentustigum hærri en bankinn gerir ráð fyrir. Það sem er þó enn merkilegara er að um mitt ár 2007 “spáir” bankinn því að hagvöxturinn á liðnu ári (2006) hafi verið 2,6%. Raunin var hins vegar 4,6%, sem er umtalsverður munur þegar um er að ræða tölur sem alla jafna sveiflast á milli 0% og 5-6% á vesturlöndum.

Smellið á myndina til að skoða gagnvirka útgáfu á vef Viðskiptaráðs

Fyrir þessu eru margar ástæður og hvorki við Seðlabankann né Hagstofuna að sakast, svona er bara heimur hagtalnanna. Það má hins vegar spyrja sig að því hversu áreiðanlega sé hægt að spá fyrir um framtíðina, ef ekki er meiri vissa um orðna hluti en dæmið hér að ofan sýnir.

Minn skilningur er sá að akkúrat þetta sé markmið Viðskiptaráðs með hugmyndum um Efnahagsstofuna. Ætlunin er ekki að útbúa fleiri spár eða greiningar, heldur að safna saman spám, mælingum og greiningum þeirra aðila sem fylgjast með íslensku efnahagslífi og hvetja til umræðu um þær, mismuninn á þeim og þær forsendur sem liggja að baki. Líklega er full þörf á því!

Nörd ársins!

Ég varð þess heiðurs aðnjótandi síðastliðinn föstudag að hljóta nafnbótina Nörd ársins 2010.

Ég hef lengi beðið eftir því að einhver efndi til keppni sem ég ætti möguleika á að vinna og full ástæða til að þakka Skýrr fyrir að gera það.

Reyndar grunar mig að réttnefni titilsins væri “Athyglissjúkasta nörd ársins 2010” þar sem ég á ekki roð í marga af þeim sem hlutu tilnefningu í eiginlegum nördaskap. Líklega hefur fólki dottið í hug að tilnefna mig þar sem sum þeirra nörda-verkefna sem ég hef verið að vinna að hafa hlotið töluverða athygli, en það er auðvitað ekki síður að þakka þeim eðalnördum sem hafa unnið með mér að hlutum eins og DataMarket, Já.is og öðrum nördaskap í gegnum tíðina.

Einu sinni þótti niðurlægjandi að vera kallaður “nörd”. Fólk skiptist í þrjá hópa: “nörd”, venjulegt fólk og “töffara”. Það er hins vegar alltaf að sýna sig betur og betur að 21. öldin er öld nördanna. Þrjú dæmi:

 • Þrír ríkustu menn í heimi eru nörd
 • Borgarstjórinn í Reykjavík “var einu sinni nörd”
 • Obama hefði aldrei orðið forseti Bandaríkjanna nema með hjálp nörda-vina sinna

Eða eins og Bill Gates hafði einu sinni eftir í góðri ræðu: “Verið góð við nördana, það eru góðar líkur á að þið munið vinna fyrir eitt þeirra í framtíðinni”.

Takk fyrir mig, takk Skýrr, takk allir sem hafa nördast með mér í gegnum tíðina. Eins og sjá má var ég “geðveikislega” ánægður með titilinn: