Þriðjudagstæknin

Þriðjudagstæknin: Leitarvélaauglýsingar

Síðustu misseri hafa allmargir haft samband við mig til að forvitnast um leitarvélaauglýsingar, hvað það sé, hvernig þær virki og hvort þær séu fýsilegur auglýsingakostur.

Ég geri mig á engan hátt út sem ráðgjafi um þessi mál, en veit þó ýmislegt um þau af eigin raun, bæði sem auglýsandi og sem aðili að rekstri tveggja leitarvéla.

Í stuttu máli virka leitarvélaauglýsingar á þann hátt að auglýsendur geta keypt birtingu samhliða leitarniðurstöðum og þá tengdar því efnisorði sem leitað er að. Sem dæmi má nefna að ef ég er að selja hitakerfi fyrir gangstéttar og bílastæði, þá borga ég leitarvélinni ákveðna upphæð fyrir að birta auglýsinguna mína (“Hjallalagnir – fyrir neðan allar hellur!”) og tengil á síðuna mína í hvert sinn sem leitað er að orðum eins og “hellur”, “hitalagnir”, “bílastæði”, “gangstéttar”, “hellulagnir” og í raun allt það sem mér dettur í hug að hugsanlegir kaupendur gætu verið að leita að á Vefnum.

Á öllum betri leitarvélum eru þessar niðurstöður svo skýrt aðgreindar frá “alvöru” niðurstöðum leitarvélarinnar, en þó settar fram á áberandi hátt. Og vegna þessa að efni auglýsingarinnar er nátengt því sem notandinn var að leita að, er hann miklu líklegri til að smella á þessháttar auglýsingu, en venjulega netauglýsingu, s.s. auglýsingaborða á fréttavef eða eitthvað slíkt.

Greiðslur fyrir leitarvélaauglýsingar eru svo með ýmsum hætti, en þrjú módel eru algengust:

 • Greitt fyrir birtingu: Auglýsandinn greiðir fast verð fyrir hvert skipti sem auglýsingin birtist.
 • Greitt fyrir smell: Auglýsandinn greiðir fast verð fyrir hvert skipti sem notandi smellir á auglýsingu hans.
 • Greitt fyrir “árangur”: Auglýsandinn greiðir aðeins ef hann nær þeim árangri sem hann sækist eftir, t.d. ef sala á sér stað, notandi skráir sig í þjónustuna hans, eða annað skilgreint markmið.

Verðið hækkar svo stig af stigi á milli flokka. Algengt verð fyrir birtingu er frá sem samsvarar 1 krónu til 10 krónum. Algengt verð fyrir smell er frá 50 krónum og upp í 500 krónur og verð fyrir árangur er býsna mismunandi, en sem dæmi má nefna að flugfélagið Sterling borgar 12-15 evrur fyrir hvern seldan miða í einu slíku kerfi sem ég kannast við.

Í öllum flokkum tíðkast svo líka að einhverju marki að hafa uppboð þannig að verðið er í samræmi við eftirspurnina. Þannig verða orð sem oft er leitað að dýrari en orð sem sjaldan er leitað að. Að sama skapi verða orð sem hafa skýra viðskiptatengingu (t.d. “flug”) dýrari en orð sem erfitt er að ímynda sér vörusölu útfrá (hvað selurðu þeim sem er að leita að “setlög”?)

Hér á Íslandi er reyndar líka talsvert um módel þar sem greitt er fyrir tímabil, þ.e. föst greiðsla fyrir birtingu með hverri tengdri leit í heilan mánuð eða jafnvel heilt ár. Þetta er nær þeim hugsanahætti sem tíðkast í öðrum miðlum, en hefur hins vegar verið að hverfa erlendis eftir því sem sérstaða leitarorðaauglýsinganna hefur verið dregin fram og mun án efa gera það hér á landi einnig þegar þessi markaður þroskast.

Enn einn kostur leitarvélaauglýsinga, sem reyndar á við um netauglýsingar almennt, er mælanleiki svörunarinnar. Hægt er að fylgjast nákvæmlega með hversu oft auglýsingin hefur birst, hversu margir hafa smellt á hana og hversu margir hafa keypt vöru eða þjónustu í framhaldi hennar. Þetta er ansi langt frá “hendum-þessu-út-og-vonum-það-besta” módelinu sem hefðbundnir miðlar á borð við sjónvarp og blöð bjóða upp á. Hins vegar skal ég viðurkenna að það er þægilegara fyrir þann sem sér um auglýsingamál fyrirtækisins að eyða 500.000 krónum í heilsíðu í Mogganum sem forstjórinn sér með morgunkaffinu, en að eyða 5 krónum hér og þar í hverja snertingu við kúnnann – jafnvel þó sú snerting sé miklu verðmætari. Spurningin er bara hvort forstjórinn eða áhugasami viðskiptavinurinn sé í raun markhópurinn???

Og þá að praktísku hlutunum. Hvernig verslar maður slíkar auglýsingar?

Á heimsvísu er Google ótvírætt leiðandi í þessu. Þeir selja auglýsingasmelli í uppboðsmódeli samhliða leitarniðurstöðum á Google leitarvélinni. Þessi þjónusta þeirra heitir Adwords. Adwords kerfið er gríðaröflugt og tiltölulega þægilegt í notkun. Auglýsandi býður í þau orð sem hann vill, samþykkir ákveðið verð og getur svo til viðbótar sett ákveðna hámarksupphæð sem hann er tilbúinn að eyða í auglýsingarnar á dag. Þá birtist auglýsingin bara ákveðið oft og síðan ekki oftar yfir daginn ef kvótinn er búinn.

Hér heima má segja að þrír aðilar séu í þessum bransa. Hér er rétt að endurtaka, til að mér verði ekki gerð upp hlutdrægni, að tveir þeirra – Símaskrárleitin á Já og vefleitarvélin Embla – eru tengdar mér með einum eða öðrum hætti. Þriðji aðilinn er svo Leit.is.

Já og Leit.is selja leitarorðaauglýsingar í árgjaldi með skráningum. Þarna eru mismunandi pakkar í gangi og auglýsingunum vöndlað með öðrum gerðum auglýsinga, s.s. auglýsingaborðum og öðru, þannig að erfitt er að tala um ákveðið verð á leitarorð. Áhugasömum er einfaldlega bent á að kynna sér hvað er í boði hjá hvorum aðila fyrir sig. Upplýsingar um skráningarpakkana má finna hér () og hér (Leit.is).

Heimsóknalisti Modernus getur gefið einhverja vísbendingu um umferðina um þessa vefi og þá hversu oft auglýsingarnar séu því líklegar til að birtast, en svo verður hver og einn að meta hvar hann sé líklegastur til að ná til síns markhóps og hvar sé líklegara að notandinn sé í “kaupskapi” við leitina.

Embla selur aftur á móti auglýsingabirtingar á föstu verði. Auglýsandi getur skráð ótakmarkaðan fjölda leitarorða á hverja skráningu og borgar svo 5 krónur fyrir birtinguna. Nánari upplýsingar um auglýsingamódel Emblu er að finna hér.

Burtséð frá því hvaða leið menn velja, hvet ég auglýsendur til að prófa sig áfram með þennan nýja auglýsingamiðil. Í öllu falli er ódýrt að prófa og auðvelt að mæla árangurinn – þannig að þröskuldurinn er afar lágur. Ef þetta virkar ekki fyrir þig, þá það. En ef þetta kemur á óvart, hvet ég menn til að setja leitarauglýsingar inn í markaðsáætlun næsta árs. Ef vel er að verki staðið eru þetta markbeittustu og hagkvæmustu auglýsingar sem völ er á.

– – –

P.S. Fyrir þá sem eru forvitnir að kynna sér málið betur er auðvitað fullt af efni á Vefnum, en ég veit líka að það er í undirbúningi ráðstefna um markaðssetningu með hjálp leitarvéla á Grand Hótel Reykjavík í byrjun nóvember.


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall um tölvur og tækni á NFS á þriðjudögum kl 11:20

Þriðjudagstæknin: Rock Star – afþreying framtíðarinnar

Hvort sem fólki finnst Rock Star: Supernova það besta sem sjónvarpið hefur alið síðan Prúðuleikararnir voru og hétu eða uppblásin og oflofuð karíókíkeppni, leyfi ég mér að fullyrða að hér er um tímamótasjónvarpsefni að ræða. Þá er ég ekki að tala um þættina sjálfa eða efnistök þeirra, heldur hvernig að þeim er staðið og umgjörðina alla.

Áður en þið haldið að ég hafi misst glóruna, leyfiði mér kannski að færa lauslega rök fyrir máli mínu.

Framleiðandi þáttanna, Mark Burnett, er konungur raunveruleikasjónvarpsins. Hann framleiðir auk Rock Star, hina geysivinsælu þætti Survivor og The Apprentice, auk minni þátta á borð við The Contender og The Restaurant. Allir þættirnir byggja meira og minna á sömu formúlunni – enda er Burnett orðinn býsna sjóaður í þessu – og í Rock Star: Supernova tjaldar hann til öllu sem hann hefur lært:

 • Vefsíðan: Það fyrsta sem rétt er að veita athygli er snilldarleg Vefsíða þáttarins. Vefsíðan er nánast órjúfanlegur hluti af sjónvarpsættinum. Þar er hægt að sjá hluta af raunveruleikaþættinum áður en hann er sýndur í sjónvarpinu, þar er hægt að sjá efni sem er aldrei sýnt í sjónvarpsþáttunum. Þar er ítarefni og – síðast en ekki síst – þar er hægt að kjósa. Síðan er líka uppfærð nánast í rauntíma og þróast samhliða því sem framvindan í þáttunum gefur tilefni til. Síðan er líka gríðarlega flott – en fellur þó í pyttinn sem ég hélt að menn hefðu brennt sig nógu illa á í árdaga vefsins – flottheitin koma verulega niður á því hve einfalt er að nota síðuna. Burnett getur þá a.m.k. enn lært eitthvað 😉
 • Þátttaka áhorfenda: Annað, sem auðvitað kemur sterkt inn á Vefinn líka, er það hvernig Rock Star, í samvinnu við MSN og blogg-/kunningjanets-þjónustuna þeirra – Spaces – leyfir áhorfendum að taka þátt í herlegheitunum. Eða að minnsta kosti leyfir þeim að finnast þeir taka þátt. Í einum þættinum völdu Spaces notendur lög ofan í söngvarana með kosningu á netinu. Í hverjum þætti eru lesin valin (eða skálduð) komment frá aðdáendum. Þetta hvetur fólk til að kommenta á Spaces, hafa samband, senda inn póst – þeirra athugasemd gæti verið lesin upp í þættinum. Á Spaces-síðu Magna eru, þegar þetta er skrifað, 907 athugasemdir við nýjustu færsluna! Við margar aðrar færslur hjá honum eru meira en 500 athugasemdir. Sá sem býr til flottasta MSN Space-ið um Rock Star fær að vera viðstaddur sjálfan lokaþáttinn. MSN hefur fengið að punga laglega út fyrir þessu – og er sennilega að fá virði hverrar krónu til baka. Spaces var eiginlega hálf hallærislegt, nú keppast unglingarnir við að búa til slík. Minnir mann kannski á að gæfa MySpace gæti verið fallvölt – vinsældir svona þjónustna koma og fara á einni nóttu.
 • Meiri vörusýnd*: Annar aðili sem er líka að borga stórar summur fyrir Rock Star er farsímafyrirtækið Verizon Wireless. Tvisvar í hverjum þætti (jamm nákvæmlega tvisvar, það er líklega í samningnum) er einhver sem tekur upp Verizon Wireless símann sinn og sækir lagið sem hann á að flytja og hlustar á í símanum – eða horfir á myndbandsupptöku af síðasta giggi. “Then I looked at my performance on my Verizon Wireless Chocolate handset…” Heppin þú að vera með tilviljun með svona flottan síma – en hérna, afhverju horfðirðu ekki á þetta á Vefnum? Eða í 44 tommu flatskjánum sem þið notið þess á milli? Tíhí. Product placement eins og það gerist best. Satt best að segja hefur Choclate síminn einmitt verið að fá heldur ömurlega dóma og þykir ekki vel heppnaður, en það er ekki Rock Star að kenna.
 • Heimurinn undir: Svo má ekki gleyma því að þetta er alþjóðlegt fyrirbæri. Upphaflegu keppendurnir voru dregnir héðan og þaðan úr heiminum til að ná inn áhorfi víðar en úr Bandaríkjunum. Kanada á sinn mann, Ástralir sinn, þarna var líka Breti og eitthvað fleira. Og svo er þátturinn líka sýndur samtímis víðsvegar um heiminn. Kosningin fer fram samtímis víðsvegar um heiminn og allir geta tekið þátt. Þetta er alveg nýtt. Eiginlega algert stílbrot komandi frá Hollywood, þar sem við erum vön því að láta mata okkur svæði fyrir svæði: Fyrst Bandaríkin, svo Evrópa, svo Asía, þá Afríka og Mið-Austurlönd, o.s.frv. Burnett veit að heimurinn er orðinn eitt markaðssvæði. Það er orðið ódýrara að byggja upp eftirvæntinguna samtímis og sýna hlutina samtímis. Ef þú gerir það ekki er fólk bara búið að hlaða þessu niður á Netinu og rétthafarnir missa af auglýsingatekjum.

Það væri hægt að týna til fleira sem gerir Rock Star sérstakt sjónvarpsefni (ef það er þá lengur hægt að kalla þetta “sjónvarps”-efni). Það þarf enginn að segja mér að “óháða” áhangandasíðan supernovafans.com sé ekki afsprengi Mark Burnett og félaga líka. Síðan er búin að vera til frá því fyrir fyrsta þáttinn, hún er virkilega fagmannlega unnin og notast reyndar við grafík sem er skuggalega keimlík þeirri sem er á alvöru síðunni. Samtvinnunin við farsímamiðilinn er verulega vel útfærð með kosningum, hringitóna- og skjámyndaútgáfu, og svona mætti lengi telja.

Allir þessir hlutir eru dæmi um það hvernig afþreyingarefni framtíðarinnar verður framreitt. Að hluta til er verið að búa sig undir dauða hefðbundinna auglýsingahléa. MSN og Verizon eru sennilega að borga framleiðendunum jafn mikið eða meira en hefði náðst inn á hefðbundnum auglýsingum og leyfisgjöldum – þau eru bara bónus, hreinn gróði. Að hluta til er verið að miðla til kynslóðarinnar sem getur neytt margra miðla í einu, er óþolinmóð og vill sjá hlutina klippta og skorna – “on demand”. Og að hluta til er verið að matreiða samtímis og á sama hátt ofan í heiminn allan. Nokkuð sem hefði verið ómögulegt, bæði tæknilega og markaðslega fyrir örfáum árum síðan.

Við eigum bara eftir að sjá meira af afþreyingu sem þessari á komandi misserum. Já og EKKI GLEYMA AÐ KJÓSA Í NÓTT!

* Úff – getur ekki einhver fundið skárri þýðingu á “product placement”. Vörusýnd!


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall um tölvur og tækni á NFS á þriðjudögum kl 11:10

Þriðjudagstæknin: Skoðun

Einu sinni á ári fer ég með bílinn minn í skoðun. Þetta er lögbundið eftirlit sem tryggja á öryggi mitt og annarra í umferðinni. Ef ég trassa það að fara með bílinn í skoðun er númerið klippt af honum og hörð refsing sem liggur við því að aka honum um göturnar.

Það er sjálfsagt mál að vera með vírusvörn og eldvegg á tölvunni sinni til að koma í veg fyrir að tölvuvírusar og önnur óværa taki sér bólfestu í henni. Ef ég trassa það og tölvan mín verður alvarlega lasin er eins víst að netþjónustan mín loki á mig til að hún hætti að smita aðrar tölvur og taka bandbreidd og vinnslugetu frá venjulegri netnotkun annarra notenda.

Í sveitinni eru tekin sýni úr mjólkinni reglulega og uppfylla þarf allströng skilyrði um hreinlæti til að fá framleiðsluleyfi, hvort sem er á kjöti, mjólk eða grænmeti. Þetta er gert til að tryggja heilsu neytenda sem neyta afurðanna.

Öðru gildir hins vegar um okkur sjálf. Ef ég kýs að borða McDonalds og franskar í hvert mál er það mitt mál. Ég þarf að bera mig sjálfur eftir bólusetningu á haustin ef ég vil vera laus við skæðustu vírusana yfir veturinn og ef ég hringi í lækni eða heilsugæslustöð með þá grillu í höfðinu að fá einhver til að “bara skoða mig” – er skellt á hlæjandi. Fæ í mesta lagi tíma hjá geðlækni til að taka á sjúkdómafælninni.

Ok – fariði aðeins með mér í gegnum þetta: Ég er skyldugur til að láta skoða bílinn til að tryggja að hann sé ekki hættulegur fyrir mig og aðra, en ef ég sækist eftir því að vita hvort ég sé þegar skaddaður eða jafnvel hættulegur öðrum (t.d. með smitandi sjúkdóm), þá er það kjánalegt.

Ég hef í gegnum tíðina borið þessa skoðun mína á skoðunum undir ýmsa – suma í heilbrigðisstéttunum, aðra leikmenn eins og mig sjálfan. Einu mótrökin sem ég hef heyrt er að þetta væri einfaldlega of dýrt. Við værum að fylla tíma lækna með reglulegum skoðunum, meðan þeir gætu verið að lækna fólk sem raunverulega er eitthvað að.

Gott og vel, skoðum aðeins hvernig svona lagað gæti farið fram.

Þetta væri staðlað próf þar sem helstu heilsuþættir væru skoðaðir. Rétt eins og að í bifreiðaskoðuninni eru hjólbarðarnir, ljósin og útblásturinn skoðuð, myndi persónuskoðun kíkja á fæturna, sjónina og öndunarfærin. Heilinn og rafkerfið; mótorinn og meltingin; rúðupissið og hitt pissið – ég veit þið fylgið mér…

Ég er ekki læknisfræðimenntaður, en ég veit að stór þáttur í meðferð flestra helstu kvilla sem hrjá okkur í dag felast í að einkennin greinist snemma í ferlinu. Og við erum að tala um ferla sem taka marga mánuði og ár. Krabbamein, hjarta- og æðasjúkdómar, hrörnunarsjúkdómar, beinþynning, offita og ég veit ekki hvað og hvað. Margt af þessu er tiltölulega léttvægt ef það uppgötvast snemma í ferlinu og í VERSTA falli eykur það batahorfurnar verulega. Mörgu er hægt að afstýra með lítillega breyttu mataræði, lífsháttum eða einföldum aðgerðum eða lyfjameðferð.

Lyfjameðferð vegna “fullþroskaðs” krabbameins kostar hins vegar margföld árslaun læknis, hver dagur sjúklings á sjúkrahúsi kostar að mig minnir að ég hafi séð einhversstaðar á þriðja hundrað þúsund króna! Það má nú renna nokkrum í gegnum skoðun fyrir slíkan pening.

Hver einasti bíll á landinu er skoðaður einu sinni á ári. Við bifreiðaskoðun starfa held ég innan við 200 manns og það er einn bíll á hverja tvo íslendinga, ekki satt? 400 manns? Það er ekkert ógnvænleg tala. Ekki eru þeir sem starfa við bifreiðaskoðun síður með dýrar græjur en læknarnir. Sennilega heldur minni sérfræðiþekkingu, en það má líka vafalaust nota ódýrari starfskrafta í svona rútínutékk, heldur en fullnuma lækna.

Fordæmin eru meira að segja til: Á fyrstu árum ævinnar (og reyndar tæpt ár áður en hún hefst) er framfylgt öflugu skoðanakerfi og gripið til ráðstafana ef þroskinn er ekki í samræmi við væntingar eða einhverjir óvæntir sjúkdómar greinast. Þetta minnkar svo eftir því sem líður á grunnskólann og fjarar alveg út á unglingsárunum – eftir það erum við “on our own” þangað til eitthvað kemur upp á.

Á hinum enda skalans eru svo skoðanir sem forstjórar og mikilvægir stjórnendur – a.m.k. í Bandaríkjunum – eru sendir í reglulega af tryggingafélögunum sínum. Þar er það hagur fyrirtækisins að ekkert komi upp á og það tryggir sig fyrir því. Tryggingafélagið lætur því framkvæma ítarlegar læknisskoðanir á viðkomandi, jafnvel tvisvar á ári. Að öðrum kosti getur tryggingin fallið úr gildi.

Við þessir venjulegu fornbílar (bíll er fornbíll 20 árum eftir framleiðslu – er það ekki?) fáum hins vegar ekki kost á svona þjónustu – jafnvel þó við værum tilbúin að borga fyrir það: “Ég verð að láta þig hafa grænan miða. Aðeins að lækka kólestrólið, ná þessari vöðvabólgu úr öxlunum og svo sjáumst við aftur eftir 8 vikur – annars verðum við að láta klippa af þér…”

Þriðjudagstæknin: Kaup og sala þekkingariðnaðarmanna

Efni Þriðjudagstækninnar í dag eru samningar þekkingarfyrirtækja við starfsmenn og af hverju þeir eru ekki meira eins og samningar íþróttamanna

“Það verðmætasta sem þekkingarfyrirtæki eiga eru starfsmennirnir.” Þessu heyrir maður oft fleygt og þetta er auðvitað í flestum tilfellum dagsatt. En hversu mikils virði eru þeir nákvæmlega? Hvers virði eru starfsmenn Decode? Eða CCP? Hvað kostar efnilegur forritari beint út úr háskóla? Eða verkefnastjóri með 10 ára reynslu af hugbúnaðargerð? Eða hugmyndamaður sem sér öll nýju tækifærin og hvernig er hægt að spila úr þeim?

Akkúrat. Þið hafið ekki hugmynd. Enda ganga slíkir menn ekki kaupum og sölum – það væri fáránlegt – ekki satt? En af hverju?

Það verðmætasta sem knattspyrnulið á eru án efa starfsmennirnir – að vísu er hetjulegra að vera “leikmaður”, en það er bara annað nafn á sama hlut. Í knattspyrnunni og reyndar íþróttaheiminum öllum ganga leikmenn kaupum og sölum og ekkert þykir sjálfsagðara.

Skoðum aðeins nánar hvernig þetta gengur fyrir sig, t.d. í knattspyrnuheiminum. Efnilegir leikmenn eru uppgötvaðir af “scout”-um frá öðrum liðum. Þeir fá sér umboðsmann sem semur um kaup og kjör fyrir þeirra hönd, enda eru þetta oft ungir menn (og reyndar líka konur) og þeirra sterka hlið er að leika knattspyrnu, ekki að semja við harðsvíraða bisness-menn um kaup og kjör.

Strangar reglur gilda um slíka samninga. Samning skal gera að minnsta kosti út yfirstandandi keppnistímabil og ekki lengur en til fimm ára. Styttra ef um ungan leikmann er að ræða. Þegar samningar eru lausir er leikmanni frjálst að semja við annað lið, nú eða semja aftur við sama félag. Vilji hann skipta um lið fyrr, þarf nýja liðið að komast að samkomulagi við það gamla um greiðslu fyrir hann. Slíkar viðræður skulu fara fram að öllum málsaðilum vitandi.

Það er meira að segja þannig að þegar lið skráir leikmann sem atvinnumann í fyrsta skipti, ber því að borga því liði (eða þeim liðum) sem leikmaðurinn æfði með í yngri flokkum (frá 12-23 ára) fyrir þjálfun leikmannsins. Og reyndar ekki bara hans eins heldur einnig þess fjölda leikmanna sem þarf að þjálfa til að úr verði einn atvinnumaður. Sá fjöldi hlýtur að hlaupa á tugum, enda geta þessar greiðslur auðveldlega hlaupið á allnokkrum milljónum króna.

Kostirnir við þetta fyrirkomulag eru margir, t.d.:

 • Heiðarleiki: Kerfið hvetur alla til að starfa að heilindum, stunda ekki baktjaldamakk og láta t.d. í ljósi óánægju sé hún til staðar.
 • Umboðsmaður: Leikmaðurinn fær atvinnusamningamann til að semja um sín kaup og kjör, sjá til þess að í smáa letrinu reynist sál leikmannsins ekki með í kaupunum og veita hinum unga starfsmanni önnur ráð varðandi samningagerðina. Sá hefur svo hvata af því að gera vel, þar sem hann fær hlutfall af samningsupphæðinni.
 • Þjálfunargreiðsla: Lið sem hafa öflugt yngriflokkastarf fá greiðslu þegar vel tekst til og geta notað hana til að efla starfið enn frekar.
 • Kaup og sala: Leikmaðurinn hefur verðmat. Auðvitað geta orðið mistök. Leikmaðurinn stendur ef til vill ekki undir væntingum, en það getur líka verið stórgróðabisness að kaupa ungan og efnilegan leikmann, þjálfa hann frekar, gefa honum tækifæri með liðinu og selja hann svo aftur síðar. Tryggingar dekka meiðsli og önnur slík tilvik.

Af hverju ætti þetta ekki að vera eins í hugbúnaðarbransanum eða þekkingariðnaðnum í heild sinni? “Scout”-ar eða tilvonandi umboðsmenn fylgjast með efnilegu fólki útúr háskólunum, koma þeim að hjá góðum fyrirtækjum, hafa milliöngu um samninga og fá umbun fyrir. Háskólarnir fengju greiddar “þjálfunargreiðslur” og þannig væri hægt að halda niðri (eða líklega afnema) skólagjöld eða ríkisstyrki. Að sama skapi þyrftu þeir þá að velja nemendur af kostgæfni og nemendur að leggja sig fram til að sanna getu sína og geta búist við góðum samningum þegar þeir koma út á markaðinn.

Endur- og símenntun starfsmanna verður sjálfsagður hlutur, enda eykur það sannanlega verðmæti starfsmannsins og það verður fyrirtækinu alveg jafn mikill akkur eins og starfsmanninum sjálfum að ferilsskrá starfsmannsins sé sem best.

“Head-hunting” yrði ekki lengur óheiðarlegt baktjaldamakk, eins og oft vill verða, heldur samningur á milli þriggja aðila: nýja fyrirtækisins og starfsmannsins um kaup og kjör og gamla fyrirtækisins og þess nýja um kaupverð, þ.e. svo fremi sem starfsmaðurinn sé ekki með lausa samninga. Þá er líka eins gott fyrir gamla fyrirtækið að gera vel til að missa ekki sérþekkingu úr húsi.

Það athyglisverðasta af þessu öllu er að þarna er loksins komið verðmat á það verðmætasta sem þekkingariðnfyrirtækin eiga. Meðalstarfsmaður með fárra ára reynslu eftir skóla væri hæglega 10 milljón króna virði. “Stórstjörnurnar” gætu farið á tugi, jafnvel hudruð milljóna. Með eitthvað slíkt verðmat og hefð fyrir slíkum samningum gæti þekkingarfyrirtækjum jafnvel staðið til boða að fjármagna sig – a.m.k. að einhverju leiti – með lánum í stað áhættufjármagns. Þar með myndi losna um verðmæti sem vissulega eru til, en engum hefur tekist að meta fram til þessa.

Hver veit, kannski eiga fyrirsagnir á borð við þessar eftir að vera daglegt brauð í fréttum morgundagsins “CCP hafnar 400 milljón króna tilboði í Kjartan Pierre”, “Háskólinn í Reykjavík fær 50 milljónir fyrir lokaverkefnishóp” eða “Microsoft lánar Gísla til Tékklands í 4 mánuði” 😉

Ég held meira að segja að það sé alveg hægt að koma svona kerfi á, en við verðum að ræða það í næsta þætti.


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall um tölvur og tækni á NFS á þriðjudögum kl 11:10

Þriðjudagstæknin: Kína

Efni þriðjudagstækninnar í dag (já, á fimmtudegi) er innkoma netrisanna Google, Yahoo! og Microsoft á Kínverska netmarkaðinn.

Í Kína búa nærri 400 milljónir manna sem búa við svipuð kjör (efnahagslega) og Evrópubúar. Meðaltölur eru ósköp villandi því svo er heill milljarður kínverja í viðbót sem eiga ekkert.

400 milljónir viðskiptavina er ekki lítið og undanfarin ár hefur peningalyktin laðað að fjárfesta og fyrirtæki í öllum geirum.

Í Kína er sem sagt komið á viðskiptafrelsi, en ekki málfrelsi og þetta tvennt stangast hressilega á þegar netrisarnir koma inn á markaðinn. Leitarvélarnar fá ekki að starfa í Kína nema þær ritskoði niðurstöðurnar sínar. Upplýsingar um Falun Gong, sjálfstæði Tíbet eða atburðina á Torgi Hins Himneska Friðar eru óhollar fyrir Kínversku þjóðina – og þessvegna ófinnanlegar á leitarvélum í landinu. Rafræni Kínamúrinn – “The Great Firewall of China” – kemur svo í veg fyrir að hægt sé að nálgast þetta efni eftir öðrum leiðum.

Á þessari síðu má bera saman helstu frasa sem fram koma í leitarniðurstöðum í Bandaríkjunum annarsvegar og Kína hins vegar. Prófið t.d. að leita að Tibet þarna.

Enn alvarlegri er svo sú staðreynd að Yahoo! hefur ítrekað verið staðið að því að afhenda tölvupósta. Maður einn var dæmdur í 4 ára fangelsi fyrir að tala fyrir “lýðræði að vestrænni fyrirmynd” og meðal sönnanargagna voru tölvupóstar, sem sumir hverjir höfðu ekki sannanlega verið sendir – heldur lágu í “drafts”-möppunni á Yahoo! póstreikningnum hans!

Já, það er erfitt að vera “ekki vondur” (mottó Google) þegar 400 milljón viðskiptavinir bíða öðrum megin og yfirspenntir fjárfestar með miklar væntingar hinum megin.


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall um tölvur og tækni á NFS á þriðjudögum kl 11:10

Efni Þriðjudagstækninnar í dag eru auglýsingar og annað efni sem “pöpullinn” býr til og er í auknum mæli að ryðja sér til rúms sem áhrifavaldur í ýmiskonar efnisframleiðslu.

Pæliði til dæmis í því að þessi auglýsing frá Sony var búin til af 18 ára gömlum “amatör”, en er núna í sýningum í Bandaríksu sjónvarpi. Hún er upprunnin á síðunni Current.tv, en V-CAM (Viewer-Created Ad Message), prógrammið þeirra er eins konar miðstöð svona innsendra aulgýsinga og vinnur auk Sony, m.a. fyrir L’Oreal og Toyota.

Meira um þetta í þessari grein frá C-Net.


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall um tölvur og tækni á NFS á þriðjudögum kl 11:10

Þriðjudagstæknin: Hver á að borga hverjum hvað?

Efni þriðjudagstækninnar í dag er hver borgar hverjum hvað á Netinu og fyrir hvað. Uppbygging Internetsins kostar sitt, hverjum er réttlátt að senda reikninginn?

Lengri texti væntanlegur hér seinna, en grunnspurningin er þessi: Hvort eru það Google, BBC og aðrar efnisveitur sem gera þjónustu símafyrirtækjanna verðmæta, eða símafyrirtækin sem gera þjónustu Google og co. verðmætar?

Og þegar Google hættir að borga bandvíddargjöldin, hver á þá að taka reikninginn?

Sjá í bili hér: http://techdirt.com/articles/20060324/1829206.shtmlÞriðjudagstæknin er vikulegt spjall um tölvur og tækni á NFS á þriðjudögum kl 11:10

Þriðjudagstæknin: Með marga bolta á lofti

Efni Þriðjudagstækninnar í dag er “multitasking”. Þ.e. hvernig við og ekki síst krakkarnir tökumst á við ótal hluti í einu – og hvort við ráðum í raun og veru við það.

Þegar ég var lítill heyrði ég um mann sem gat talað í símann, skrifað bréf og hlustað á útvarpsfréttirnar, allt í einu. Þetta þótti aðdáunarverður hæfileiki. Í dag er þetta fastur hluti af daglegu lífi okkar margra og unglingarnir spjalla á MSN, hlusta á tónlist og leita á Vefnum á meðan þau vinna heimavinnuna fyrir skólann – foreldrunum oft til mikils ama og reyndar vantrúuð á að það sé virkilega hægt að sinna svo mörgum hlutum í einu með einhverri athygli.

Um þetta fjallar stórfróðleg forsíðugrein Time þessa vikuna (þeir sem ekki eru áskrifendur geta komist í greinina með því að horfa fyrst á eina stutta auglýsingu).

Sjálfur er ég dálítill “multi-tasker”, en þó nógu einhverfur til að geta sökkt mér í hluti og útilokað allt annað tímunum saman þegar svo ber undir. Ég heyrði einhverntíman þá kenningu að sá eiginleiki að glíma við marga hluti samtímis sé sérstaklega ríkur í konum, sem í gegnum aldirnar hafi þurft að sinna börnum, annast matargerð og sauma föt, allt á sama tíma. Karlmenn hafi hins vegar frekar einbeitingargenið, enda hafi ekki veitt af þegar fylgja þurfti eftir bráð í marga daga, halda kyrru fyrir og gæta þess að gefa ekki í óvarkárni frá sér hljóð sem gæti fælt mammútinn 😉

Hvað sem því líður er gaman að “multi-taska” þegar vel gengur. Maður er kannski með marga bolta á lofti í vinnunni, fer úr einu máli í annað, kemur mörgum hlutum örlítið í átt að settu marki. Ég ímynda mér að þetta sé – bókstaflega – ekki ósvipað því að læra að “juggle”-a (sem ég get nota bene ekki) – að maður verði steinhissa þegar manni tekst að halda öllum boltunum á lofti í nokkur skipti. Rétt eins og í “juggle”-inu er síðan verulega pirrandi þegar verkefni, jafnvel fleiri en eitt, lenda í vandræðum á sama tíma og maður á fullt í fangi með það bara að sópa upp – brotnum vasa eða verkefni sem er komið fram yfir skiladag.

Í áðurnefndri grein, kemur fram að samkvæmt bestu vitund vísindamanna er í raun ekki rétt að segja að heilinn fáist við mörg verkefni samtímis. Tímanum er frekar eins og skipt upp í sneiðar og þegar við eigum við margt í einu færist áherslan einfaldlega frá einu verkefni á annað, í sumum tilfellum með einhverra mínútna millibili, en allt niður í nokkrum sinnum á sekúntu ef t.d. um rauntímasamskipti er að ræða við marga í einu. Við höfum sem sagt ekki “meiri” athygli, heldur deilum við henni niður á fleiri hluti.

Vitnað er í könnun þar sem fram kemur að þrátt fyrir að bandarískir krakkar hafi ekki meiri tíma í “neyslu” á rafrænum miðlum (sjónvarpi, vef, MSN-samskiptum, DVD, tölvuleikjum, o.s.frv.), en neyti aftur á móti meira efnis en rauntíminn segir til um, eða 8,5 klukkustunda af efni á sólahring á 6,5 tímum. Með öðrum orðum er nærri þriðjungi tímans sem fer í þessa neyslu eytt í að neyta tveggja miðla samtímis (lesa vefsíðu og horfa á sjónvarpsþátt t.d.).

Það er auðvitað ekkert nýtt að eldra fólkið hafi áhyggjur af því hvernig yngra fólkið beitir nýrri tækni. Plató gamli hafði áhyggjur af því að ritmálið myndi eyðileggja sagnahefðina og hæfileika okkar til að muna. Það er reyndar rétt, en við erum samt betur stödd eftir en áður. Sömu sögu er að segja af rokktónlistinni, tölvuleikjunum og núna Netinu. Það er ekki nokkur vafi að hæfileikinn til að “multitaska” mun nýtast þeirri kynslóð sem nú vex úr grasi á vinnustöðum framtíðarinnar.

Vandinn er bara sá að þetta stöðuga áreiti veldur álagi á hugann (m.ö.o. stressi) sem getur ágerst og verður þess valdandi að sumir geta ekki eytt einum frímínútum án þess að senda SMS eða vakna jafnvel á nóttinni til að gá að tölvupósti eða SMS skilaboðum. Ekki ósvipað og spilafíkn. Ef einn leikur í kassanum stendur ekki undir væntingum setjum við annan pening í og svo koll af kolli.

Það er óumdeilt að heilinn þarf hvíld til að vinna úr þeim upplýsingum sem hann hefur meðtekið. Það er líklega þessvegna sem það er óbrigðult að í bókum þar sem menn lýsa velgengni sinni í viðskiptalífi, íþróttum eða nánast hverju sem er, að þar er heilræði um að taka sér tíma á hverjum degi í það bara að hugsa málin. Tæma hugann, t.d. í líkamsrækt, eða einrúmi einhversstaðar að minnsta kosti einu sinni á dag og leggja stöðuna fyrir sig. “Defragga” harða diskinn svo maður noti líkingamál sem þið nördarnir skiljið 🙂

Þannig að heilræði dagsins er: Multi-tasking er gott – næstum nauðsynlegt í nútíma skrifstofuumhverfi, en það þarf líka að gefa sér tíma í að einbeita sér að erfiðu hlutunum.


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall á NFS á þriðjudögum kl 11:10.

Þriðjudagstæknin: Rafhlöður, rafmagnsnotkun og þráðlaust rafmagn

Efni Þriðjudagstækninnar í dag er rafmagnsnotkun og rafhlöður í tölvur og önnur raftæki og draumurinn um þráðlaust rafmagn.

Eitt helsta vandamál stórra vélabúa* nú orðið er rafmagnsnotkun – og ef til vill ekki að undra. Að sögn eru t.d. um 200.000 tölvur í vélabúum Google í Kaliforníu. Hver um sig notar svipaða raforku og venjuleg heimilistölva, líklega um 120W. Allar þessar vélar eru svo saman komnar í þéttum lokuðum rýmum, sem veldur því að þau hitna verulega og þurfa öflug kælikerfi.

Samkvæmt heimildum frá HP fer álíka mikil orka í að kæla niður vélasal og fer í að knýja tölvurnar í honum. Sem sagt: kælingin tvöfaldar orkunotkunina. Gróflega má því áætla að vélasalir Google einir og sér noti stöðugt um 50MW af raforku, eða rúmlega 400 gígawattsstundir á ári. Heildar raforkunotkun heimila á Íslandi á síðasta ári var rétt rúmlega 2.000 gígawattsstundir. Þannig að vélasalir Google einir og sér nota álíka mikið rafmagn og 60.000 Íslendingar.

Augljóslega hefur þetta umtalsverðan kostnað í för með sér í raforkukaupum, en skapar líka önnur vandamál. Raforka í Kalíforníu er ekki ódýr og ekki mjög örugg. Kælivandamálið veldur því líka að húsnæði nýtist ekki eins vel og ella (það þarf að lofta um græjurnar) sem aftur eykur húsnæðiskostnað.

Það er því ekki að ástæðulausu sem Google sér þetta sem stórt vandamál hefur eytt umtalsverðu púðri í verkefni sem snúa að sparneytnari tölvubúnaði og hentugri tölvutækni.

Hmmm – á Íslandi er nóg af orku, nóg af plássi og meira að segja nóg af kulda. Ef snúrurnar okkar væru ekki alltaf að detta í sundur þá væru kannski einhver tækifæri þarna?

– – –

Rafmagnsnotkun tölva og annarra raftækja er líka vandamál á minni skala. Eitt stærsta vandamálið við framleiðslu fartölva og farsíma eru einmitt rafhlöðurnar. Endingargóðar, litlar og léttar rafhlöður eru dýrar og reyndar er þetta hreinlega vandamál sem enn hefur ekki verið leyst að fullu.

Tækjasýningin Cebit stendur nú yfir í Hannover í Þýskalandi og meðal þess sem hefur verið að vekja mesta athygli þar eru rafhlöður sem byggja á “fuel cell” tækni (hafa slíkar sellur ekki verið kallaðar “efnarafalar” á íslensku?). Satt best að segja er þetta tækni sem er skyldust því sem vetnisstrætóarnir okkar keyra á – þó að í tilfelli fartölvu og farsímarafhlaðnanna sé orkugjafinn metan í stað vetnis.

Efnarafalsframleiðandinn Antig, hefur verið að sýna slíkar rafhlöður á Cebit og segir að þær verði komnar á almennan markað þegar á næsta ári. Í sellunum verður til rafmagn við efnahvörf sem ég kann svo sem ekki almennilega skil á, en hægt er að fræðast nánar um hér. Miðað við þá orkunýtingu sem framleiðendur á borð við Antig eru að ná úr sellunum sínum í dag er líftími þeirra tíu sinnum lengri miðað við sömu stærð af rafhlöðum heldur en í hefðbundnum rafhlöðum í dag.

Í stað þess að hlaða rafhlöðuna með því að stinga henni í samband er fyllt á sellurnar með því að bæta á þær metani. Þannig að hægt er að hafa með sér “viðbótarorku” í þrýstibrúsa og fylla á eftir því sem þarf. Vissulega talsvert frábrugðið því sem við þekkjum í dag, en endingartíminn virkilega eftirsóknarverður. Við þyrftum t.d. ekki að hlaða símana okkar nema etv. einu sinni til tvisvar í mánuði og fartölvur án nokkurra rafmagnskapla fara að verða raunhæfur kostur (þarf að fylla kannski tvisvar í viku).

Kannski kemur þetta að stóru leiti í stað draumatækninnar sem ég ætlaði mér alltaf að finna upp (án þess að hafa nokkrar forsendur til) – þráðlausa rafmagnið. Staðreyndin er sú að þessar snúrur fara óskaplega í taugarnar á mér – og ég er engan veginn einn um það. Mig hefur alltaf dreymt um að rafmagnstæki, ekki bara tölvur og símar, heldur líka sjónvörp, hljómflutningstæki og ryksugur (ekki síst ryksugur) yrðu þráðlaus. Vandinn er bara sá að vandamálið er býsna flókið. Jú það er hægt að flytja raforku þráðlaust á milli staða í beina loftlínu með litlu orkutapi (t.d. með leysigeisla) en þá steikir það hvað (eða hvern) sem lendir fyrir geislanum ef um einhverja orku að ráði er að ræða.

Sá sem finnur lausn á þessu verður í öllu falli forríkur. Mér skilst að viðtekinn sannleikur í vísindaheiminum sé að þetta sé óframkvæmanlegt, en það er svo sem ekki í fyrsta skipti 😉

Hvað sem því líður þá er fullt af tækifærum í orkuframleiðslu, -miðlun og dreifingu til upplýsingatæknigeirans bæði í stórum og smáum skömmtum.

– – –

* uppruna orðsins “vélabú” má rekja til samræðna minna og konunnar um helgina – þetta er að sjálfsögðu íslenskum hugtaksins “server farm”. Gegnsætt og fínt.


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall á sjónvarpsstöðinni NFS – á þriðjudögum kl. 11:10.