datamarket

DataMarket í Bandaríkjunum

DataMarket er að setja upp skrifstofu í Bandaríkjunum. Nánar tiltekið í Cambridge í Massachusetts, sem fyrir leikmann virkar í raun sem hverfi í Boston.

Mig langar að segja frá þessu hér af tveimur ástæðum:

 1. Fyrirbyggja misskilning: Undanfarin ár hefur verið talsvert verið fjallað um fyrirtæki sem séu að “flýja land”. Áður en einhver sér sig knúinn til að túlka okkar tilfæringar með þessum hætti og breiða út eigin misskilning, er rétt að skrásetja hið rétta í málinu.
 2. Að miðla af eigin reynslu: Það eru allnokkur önnur fyrirtæki að fást við svipuð viðfangsefni og við um þessar mundir. Ef okkar hugsanagangur og reynsla getur nýst þeim (eða öðrum) er það auðvitað hið besta mál.

Komum fyrst einu á hreint: DataMarket er ekki að flytja úr landi. Við erum að opna skrifstofu hvaðan alþjóðlegt sölu og markaðsstarf fyrirtækisins mun fara fram. Vöruþróunin og tæknivinnan mun áfram eiga sér stað á Íslandi og vaxa þar og eflast eftir því sem frekari árangur næst í sölunni. Við höfum byggt upp framúrskarandi þróunarteymi sem ég fullyrði að í eru nokkrir af bestu hugbúnaðarmönnum landsins. Ég hef ekki komið auga á neina ástæðu til annars en að þessi starfsemi verði áfram á Íslandi í fyrirsjáanlegri framtíð og að jafnvel þó við sæjum fram á margfaldan vöxt myndi kjarnaþróunin alltaf fara fram hér. Þetta er reyndar að ég held stærsti styrkleiki íslenskra sprotafyrirtækja í gegnum tíðina: Getan, hugmyndirnar og fólkið til að framleiða framleiða framúrskarandi tæknilausnir.

Vara er ekki það sama og tækni

Ein af stærri uppgötvunum mínum síðustu misseri, er að vara er ekki það sama og tækni. Sama tæknin getur verið margar mismunandi vörur, allt eftir því hverjum hún er ætluð, hvernig hún er kynnt, verðlögð, seld og innpökkuð. Fyrir hugbúnaðarfyrirtæki eru þetta auðvitað frábærar fréttir: Það getur verið að þú getir búið til margar vörur úr tækninni sem þú hefur þróað, án þess að skrfia svo mikið sem eina línu af kóða til viðbótar. Málið er samt að þú þarft ekkert margar vörur. Bara eina vel heppnaða.

Vel heppnuð vara mætir þörfum er vel skilgreinds markhóps og er seld, verðlögð og þjónustuð með hætti sem sýnir skilning á þeim þörfum.

Mjög mörg tæknifyrirtæki feila á þessu og falla í þá gryfju að lýsa kostum tækninnar frekar en því hvernig lausnin mætir þörfum viðskiptavinarins. Þetta getur orðið til þess að jafnvel hinn fullkomni kaupandi áttar sig ekki á því að tæknin þín er einmitt lausnin sem hann eða hún er að leita að, vegna þess að þú taldir upp fídusa og spekka í stað þess að lýsa því hvernig þú munt gera lífið léttara eða betra fyrir þennan tiltekna viðskiptavinahóp.

DataMarket er síst saklaust af þessu, en erum þó á batavegi hvað þetta snertir.

Selur þetta sig ekki sjálft?

Auk vörunálgunarinnar sem rakin er hér að ofan glíma tæknifyrirtæki – og undir þann hatt falla flest þau íslensku sprotafyrirtæki sem ég hef fylgst hvað mest með – við áskoranir í sölu- og markaðsmálum. Fyrsta áskorunin er einfaldlega að átta sig á því hvað þessi liður er mikilvægur og hvað það þarf að byrja snemma að sinna honum.

Hugsunin er oft eitthvað á þessa leið: Lausnin er svo góð að hún bara hlýtur að selja sig sjálf! Sölumenn kosta mikinn pening og skilja ekki út á hvað þetta gengur! Klárum bara lausnina og viðskiptavinirnir munu flykkjast að. Það er kannski rétt samt að einhver hafi þetta á sinni könnu, svona samhliða því að reka fyrirtækið, eða skrifa notendaleiðbeiningarnar með kerfinu.

Ekkert er fjær sanni. Ekkert selur sig sjálft! Meira að segja á dögum vefsins og greiðslulausna á netinu fer nánast öll sala fram með einhvers konar afbrigðum af áratuga- eða aldagömlum söluaðferðum. Að hitta fólk, átta sig á þörfum þess eða löngunum og sannfæra það um ágæti þinnar vöru til að mæta þeim. “Jæja, en hvað með t.d. Google?”, gæti einhver spurt. “Þar fer fólk bara inn á sjálfsafgreiðsluvef, setur inn kreditkortaupplýsingarnar sínar og borgar fyrir auglýsingar án þess að sala eða markaðssetning komi þar nokkuð nærri, ekki satt?”

Einmitt: Ekki satt! Á öllum helstu mörkuðum rekur Google stór úthringiver sem hringja í hugsanlega viðskiptavini, ekki ósvipað símtölunum sem við fáum um kvöldmatarleitið frá trygginga- eða fjarskiptafélögunum. Að auki fer stór hluti sölu Google fram í gegnum gamaldags sölumennsku til lykilviðskiptavina með “wining and dining” og sjálfsagt stangveiði og golfferðum líka, rétt eins og í “gamla heiminum”.

Og ef Google þarf á þessu að halda, þurfum við litlu sprotafyrirtækin það svo sannarlega líka!

Félagi minn orðaði þetta ágætlega um daginn þegar hann sagði íslensk fyrirtæki oft haga sér eins og prinsessan í kastalaturni ævintýranna. Ofsalega vel til höfð bíður hún við gluggann eftir að prinsinn eini birtist á hvíta hestinum. Sú bið vill oft verða nokkuð löng og prinsinn kannski ekki alveg sá bjargvættur sem vonast var eftir – ef einhver þá mætir.

Eftir því sem ég les og læri meira um sölumennsku, öðlast ég meiri virðingu fyrir hæfileikanum sem góðir sölumenn hafa og aðferðunum sem þeir beita. Þetta er ekki eins tilviljanakenndur ferill eins og við nördarnir viljum oft halda, og góður sölumaður er ekki steríótýpíski bílasalinn sem er góður að pranga óþarfa inn á fólk. Góðir söluferlar eru markvissir og snyrtilega “forritaðir”, og góðir sölumenn með góða vöru selja þannig að kaupandinn þarf aldrei að efast um að hann sé að gera góð kaup, hvorki á meðan á söluferlinu stendur, né eftir að varan hefur verið afhent. Góð sala er þannig að báðir aðilar “vinna” þegar hún klárast.

Verkefnið okkar hjá DataMarket núna er að byggja upp jafnsterkt söluteymi og þróunarteymi. Það er ekki hlaupið að því. Og það verður heldur ekki gert á Íslandi fyrir ýmissa hluta sakir.

Af hverju í útlöndum?

Stutta svarið er: Af því að þar er markaðurinn. Aðeins ríflega 0,004% mannkyns býr á Íslandi og þar með hugsanlega ekki mikið hærra hlutfall af mögulegum viðskiptavinum. Eftir því sem varan er sérhæfðari, því færri eru hugsanlegir viðskiptavinir hér.

Staðreyndin er svo sú að þrátt fyrir undur netsins, Skype, síma og fjarfunda, þá jafnast ekkert á við það að hitta fólk á fundi til að ná athygli þess, hlusta eftir þörfum, sjá viðbrögð við demói, sannfærast um að fólk sé traustsins vert og sýna að maður sé það sjálfur. Mín reynsla hefur verið nokkurn veginn svona: Það er hægt að kynna sig og kanna hugsanlegan áhuga með tölvupósti og símtölum. Það er hægt að fylgja samkomulagi eftir og innleiða lausnir með tölvupósti og símtölum og það er jafnvel hægt að ganga frá samningum í gegnum símtöl og tölvupóst. En lykilstundir í samningaferlinu, þegar traust myndast milli aðila og kaupandinn verður í raun ákveðinn í að kaupa nást ekki nema fólk hafi hittst augliti til auglitis.

Og þá er kostur að hafa stóran markað innan seilingar og geta mætt á þessar lykilstundir með lágmarksfyrirhöfn.

Af hverju í Bandaríkjunum?

Þegar við tókum ákvörðun um að tími væri til kominn að setja upp söluskrifstofu erlendis, fórum við í gegnum sölupípuna okkar (lista hugsanlegra viðskiptavina sem við vorum í samskiptum við) og sáum fljótt að þar voru tvö svæði sem stóðu uppúr: London og austurströnd Bandaríkjanna. Tiltölulega stutt yfirlega leiddi svo í ljós að tækifærin umfram þau sem þegar lágu fyrir voru umtalsvert fleiri og stærri í Bandaríkjunum.

Þarna spilar líka inn í aðgangurinn að fjármagni til frekari vaxtar. Við höfum byggt einhver tengsl við líklega eina 30 fjárfestingasjóði. Af þeim eru meira en 20 bandarískir. Reynsla okkar af samskiptum við þá hefur almennt verið góð, en viðbrögð þeirra má súmmera upp sirka svona: Ef þú ert með flottasta fyrirtæki í heimi, gæti það líklega verið í frumskógum Kongó og þeir myndu samt fjárfesta. Ef þú ert eitt af fyrirtækjunum 100 sem þeir eru volgir fyrir, leita þeir að hverri ástæðu sem gefst til að fjárfesta ekki. Ísland er auðveldlega ein þeirra.

Einn þeirra gekk m.a.s. svo langt að segja að loknum fundi: “So, are you moving over here? Good, b’cause you know, nobody takes you seriously coming out of Iceland!” Með því held ég að hann hafi ekkert verið að meina Ísland sérstaklega og efast um að hann hafi vitað mikið um bankahrun, gjaldeyrishöft eða takmarkaða erlenda fjárfestingu – við vorum ekki komnir þangað í samtalinu. Ég held að hann hafi átt við: “Nobody takes you seriously coming out of country-with-a-funny-name-I-don’t-know-anything-about-and-couldn’t-point-out-on-a-map!”

Í augum svona fjárfesta skiptir staðsetning máli. Bæði til að þeir geti fylgst með fjárfestingunni sinni og vegna þess að þeir eru löngu búnir að átta sig á öllu sem sagt er hér að framan.

Af hverju Boston?

Við vorum eiginlega búin að ákveða að New York væri málið, enda eru fjármála- og fjölmiðlafyrirtæki (2 af þrem skilgreindum markhópum) mörg hver með höfuðstöðvar þar. Á tveim vikum í nóvember síðastliðnum, náðum við hins vegar sölu til tveggja markaðsrannsóknafyrirtækja (þriðji markhópurinn) í Boston – og þá tók ákvörðunin sig eiginlega sjálf. Fara þangað, láta innleiðingarnar fyrir þá ganga vel upp og vinna okkur þaðan. Rannsóknargeirinn i Boston er mjög sterkur, en virðist að sama skapi þéttofinn, þannig að þar þekkja allir alla. Það er þegar farið að skila sér í nýjum tengslum og frekari tækifærum. Sem dæmi um það, kynnti annar af þeim viðskiptavinum sem við höfum þegar landað okkur fyrir hinum. Og allmargar kynningar til viðbótar síðan komnar í gegnum þessa tvo aðila. Þegar maður getur að auki farið að stunda fundi og mannfagnaði í geiranum verða þeir hlutir fljótir að gerast.

Og hvernig verður þetta þá?

Ég er s.s. að flytja til Boston með fjölskylduna. Ég verð sölumaður númer 1 til að byrja með, en er að leita að samstarfsmanni þar sem fyrst til að vinna mér við hlið. Líklega Bandaríkjamanni með sölureynslu og helst þekkingu á geiranum, sem getur unnið með mér í að landa fleiri samningum á svæðinu. Markmiðið er að með haustinu verði svo ráðið í stöðu sölustjóra, sem geti leitt uppbyggingu sölu- og markaðsmála næstu árin, en til þess að ná réttum aðila í það starf þurfum við að sýna að sölumálin séu á góðu skriði og afla okkur aðeins meiri reynslu af söluferlinum og markhópunum.

Þá tekur við næsta starf hjá mér, því að þegar maður rekur sprotafyrirtæki skiptir maður í raun um vinnu á 6 mánaða fresti, þó fyrirtækið og titillinn sé sá sami.

Tekjuskattur meðal-Jóns: Sundurliðaður reikningur

Nú er að hefjast árleg umræða um fjárlög næsta árs. Þá koma fram ýmsar mis-gáfulegar hugmyndir um tekjuöflun og niðurskurð, en flest eigum við svolítið erfitt með að átta okkur á öllum þessum tölum. 600 milljarðar króna eru ekki upphæð sem við tengjum auðveldlega við.

Í morgunútvarpinu á Rás2 í morgun gerði ég tilraun til að koma fjármálum ríkisins í persónulegara samhengi og stærðir sem fólk á auðveldara með að skilja og ræða þar með á skynsamlegum nótum.

Hugmyndin er einföld. Að setja tekjuskattinn okkar og sundurliðun hans fram eins og reikning fyrir hverri annari þjónustu sem við erum vön að kaupa:

Smellið á myndina til að sjá allan reikninginn

Viðtakandi þessa reiknings er “meðal”-Jón. Hann hefur 438 þúsund krónur í heildarlaun á mánuði (þetta er skv. skýrslu Hagstofunnar um laun á almennum vinnumarkaði 2010). Jón býr í Reykjavík og borgaði því 13,03% í útsvar. Alls greiðir Jón þá rétt rúmlega 1.500 þúsund í tekjuskatt (að útsvari meðtöldu).

Þessu deilum við svo hlutfallslega niður í sömu hlutföllum og ríkisútgjöldin deilast niður skv. nýútkomnum Ríkisreikningi 2010 og þannig fáum við upphæðina á einstökum liðum á reikningnum hans Jóns.

Það er rétt að taka fram að (skv. upplýsingum í sama Ríkisreikningi, sjá bls. 10) telur tekjuskattur einstaklinga aðeins tæp 20% af heildartekjum ríkisins og við borgum því meira fyrir þessa þjónustu í gegnum aðra skatta og gjöld s.s. virðisaukaskatt, fjármagnstekjuskatt, tekjuskatt fyrirtækja, tryggingagjald o.s.frv. Allt fer þetta þó í sömu hítina (og úr henni) og því ekki ósanngjarnt að segja að svona skiptist sú upphæð sem við vorum rukkuð um á álagningarseðlinum fyrir nokkrum dögum síðan.

Það er rétt að taka fram að þetta er auðvitað mest til gamans gert og ber því ekki að taka of alvarlega. Öll gagnrýni og pælingar eru þó auðvitað velkomin.

Sprotafyrirtæki á leið úr landi?

Í gær hringdi í mig fréttamaður frá Stöð 2. Hann hafði haft af því ávæning að DataMarket og fleiri sprotafyrirtæki væru “á leið úr landi”. Ég útskýrði fyrir honum að hvað okkur varðaði væri fyrirtækið einfaldlega komið á þann stað í lífinu að nú þyrfti að leggja áherslu á að ná erlendum viðskiptavinum og jafnvel fá erlenda fjárfesta að fyrirtækinu. Eftir stutt spjall varð úr að hann kæmi og tæki við mig stutt viðtal um þær áskoranir sem við sæum helstar í því.

Við spjölluðum vel og lengi – líklega hafa þeir tekið a.m.k. 15 mínútur af efni þar sem ég fór vítt yfir sviðið og útskýrði umfram allt að við þyrftum við að gera tvennt erlendis:

 1. Koma upp sölu- og markaðsstarfsemi þar sem við erum nær verðandi viðskiptavinum okkar, eða a.m.k. stærri hópi en þeim sem við höfum úr að moða hér á landi.
 2. Gera erlendum fjárfestum sem hugsanlega vildu koma að félaginu kleift að leggja fé inn í fyrirtæki sem starfrækt er í lagaumhverfi sem þeir þekkja, skilja og eru vanir. Fyrir bandaríska fjárfesta þýðir þetta oftast fyrirtæki sem sett eru upp í Delaware-fylki (þó starfsemin sé oftast allt annars staðar).

Þar sem mig grunaði að Stöð 2 væri jafnvel að höggva eftir því hvort gjaldeyrishöft, niðurstaðan úr Icesave-kosningunni, aðild (eða ekki) að ESB, Ríkisstjórnin, stjórnarandstaðan eða önnur heit pólitísk mál væru að þvælast fyrir okkur, lagði ég áherslu á að það væru ýmsar áskoranir tengdar því að vera á Íslandi, en áskoranir við sprotastarfsemi væru alls staðar. Helsta *landfræðilega* áskorunin við það að vera á Íslandi er sú sama í huga helstu sprota- og vaxtarfjárfestingasjóða heimsins og nánast alls staðar annars staðar í heiminum: Ísland er ekki í Silicon Valley 😉

Sömuleiðis lagði ég ríka áherslu á það að hér væri að mörgu leyti gott umhverfi til að taka fyrstu skrefin með sprotafyrirtæki. Hér er mikil og góð tækniþekking og þó atvinnulaust hæfileikafólk í upplýsingatækni finnist ekki hér frekar en annars staðar í heiminum er engu að síður hægt að setja saman mjög öfluga kjarnahópa sem stýra munu þróun um ókomna tíð þó að líklega þurfi að leita í stærra samfélag þegar og ef fyrirtæki komast á þann stað að þurfa hundruð starfsmanna við þróun.

Staða okkar væri sem sagt sú að við værum að skoða möguleikana á því að setja upp skrifstofu erlendis og að setja fyrirtækið upp með einhverjum hætti sem ekki fækkaði fjölda mögulegra fjárfesta á “tækniatriðum” eins og því að þeir þyrftu að setja sig inn í íslenskt lagaumhverfi, gjaldeyrishöft og pólitískan stöðugleika á Íslandi. Fjármögnunarferli sprotafyrirtækja snýst um að fækka ástæðum fjárfestis til að segja “nei” þangað til hann hefur enga og getur ekki annað en sagt “já”. Þetta er einfaldlega einn liður í því og flest skrefin væru alveg þau sömu og við hefðum tekið á þessu stigi á líftíma fyrirtækisins þó aldrei hefði orðið bankahrun og engin gjaldeyrishöft væru.

Að loknu þessu yfirvegaða og jákvæða spjalli kvöddumst við og fréttamaðurinn hafði úr ofangreindu og fleiru að moða til að klippa saman frétt um málið.

Viti menn! Önnur frétt í fréttatíma Stöðvar 2 er “Fimm sprotafyrirtæki á leið úr landi” og inngangurinn í svipuðum æsifréttarstíl. Smellið á myndina til að sjá innslagið í heild:

Miðað við spjallið eru nokkur atriði sem ég er svolítið hissa á í þessari frétt:

 • “Fimm sprotafyrirtæki á leið úr landi”, er ekki það sama og að þau vilji starfrækja viðskiptahluta starfseminnar erlendis. Hvað DataMarket varðar – og ég veit að það gildir um flest, ef ekki öll, hinna fyrirtækjanna sem nefnd voru – stendur ekki til og er engin ástæða til að flytja þróunarstarfið úr landi.
 • Í inngangi segir “gjaldeyrishöft gera það að verkum að erlendir fjárfestar forðast að fjárfesta hér á landi”. Það þarf nú líklega ekki að koma neinum á óvart, en eins og kemur reyndar fram í fréttinni eru höftin alls ekki upphaf og endir alls. Á þessu eru lausnir og þetta bara eitt af fjölmörgum úrlausnarefnum.
 • Hvað er Sjálfstæðisfálkinn og Valhöll að gera í bakgrunni við kynningu fréttarinnar?!? (Ég ætla reyndar að gefa mér að það séu einhver mistök, a.m.k. skil ég hvorki beina né dulda tengingu þeirra við fréttina)

…að öðru leyti er ekkert við fréttina að athuga. Þetta er veruleikinn eins og hann blasir við mér á þessum tímapunkti.

Það er hins vegar til marks um umræðuna á Íslandi í dag að fyrir þessa lýsingu mína hef ég í dag fengið að heyra að ég sé: ESB-sinni, andstæðingur ríkisstjórnarinnar, stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar, ósáttur við niðurstöðu Icesave-kosningarinnar og ýmslegt fleira … sem nota bene er allt sagt í gagnrýnistón.

Meðan þau atriði sem ég er gagnrýndur fyrir eru úr öllum – þar með talið gagnstæðum – áttum, ætti ég samt kannski ekki að hafa of miklar áhyggjur af því 😉

Vandi að spá, líka um fortíðina

Viðskiptaráð hélt Viðskiptaþing í gær. Eitt af því sem kynnt var samhliða þinginu voru fyrstu skref í átt að svokallaðri Efnahagsstofu atvinnulífsins. Starfsemi þessarar stofu er enn í mótun, en hugmyndin er að koma upp starfsemi sem muni fylgjast með og ef til vill taka þátt í spágerð og greiningarvinnu óháð hinu opinbera og stofnunum þess.

Við hjá DataMarket tókum þátt í smá “pilot”-verkefni í tengslum við þetta. Við tókum að okkur að safna og setja fram spár þriggja ólíkra aðila um hagvöxt og verðbólgu síðastliðinn áratug eða svo.

Þeir aðilar sem um ræðir eru Seðlabankinn, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Þjóðhagsspá sem gerð var af Fjármálaráðuneytinu þar til sú starfsemi var flutt til Hagstofunnar á síðasta ári.

Framsetningin á þessum gögnum er í formi nokkuð skemmtilegra, gagnvirkra mynda sem sýna rauntölur með rauðu og svo hinar ýmsu spár í daufgráum lit. Á myndinni hér að neðan má t.d. sjá verðbólguþróun born saman við verðbólguspár Seðlabanka Íslands. Mjög áhugavert að sjá hvernig verðbólguhorfurnar voru t.d. ofmetnar bæði í upphafi verðbólguskotsins í “litlu kreppunni” 2006 og svo aftur í kjölfar bankahrunsins 2008. Eins má sjá hvernig sumar spár gerðu ráð fyrir því að verðbólgan myndi minnka miklu hraðar en raun bar vitni eftir að hún náði hámarki sínu í janúar 2009.

Smellið á myndina til að skoða gagnvirka útgáfu á vef Viðskiptaráðs

Hagvaxtarspárnar eru ekki síður áhugaverðar. Ekki bara vegna þess að spárnar séu stundum aðeins úr takti við það sem síðar varð, heldur líka vegna þess að þegar spárnar eru birtar standast tölur um liðinn tíma líka mjög mis-vel. Í gamni mætti því segja að spáaðilum gangi jafnvel illa að spá um fortíðina!

Ástæðan fyrir þessu er sú að það tekur langan tíma að negla niður endanlegar tölur um landsframleiðslu (og þar með hagvöxt). Um þetta skapaðist til að mynda nokkur umræða í fyrra þegar tölur um hagvöxt tiltekinna ársfjórðunga ársins 2008 reyndust býsna fjarri því sem bráðabirgðatölur höfðu gefið til kynna. Hagstofan sendi í kjölfarið frá sér greinargóðar útskýringar á því hvernig þessar tölur eru unnar. Samkvæmt því sem þar kemur fram eru tölur um hagvöxt eru enn að breytast jafnvel 2-3 árum eftir að ári lýkur. Í millitíðinni þurfa spáaðilar að reiða sig á fyrirliggjandi bráðabirgðatölur, eða jafnvel draga eigin ályktanir um það hvernig þeim tölum sé ábótavant.

Á myndinni hér að neðan má til dæmis sjá hagvöxt (rauð lína) og hagvaxtarspár Seðlabankans. Ég dró fram hagvaxtarspá sem birt er í Peningamálum í júlí 2007. Eins og sjá má spáði bankinn því þá að hagvöxtur yfirstandandi árs yrði aðeins 0,2%. Rauntölurnar (rauða línan) sýna hins vegar að hagvöxturinn varð hvorki meira né minna en 6%, eða 5,8% prósentustigum hærri en bankinn gerir ráð fyrir. Það sem er þó enn merkilegara er að um mitt ár 2007 “spáir” bankinn því að hagvöxturinn á liðnu ári (2006) hafi verið 2,6%. Raunin var hins vegar 4,6%, sem er umtalsverður munur þegar um er að ræða tölur sem alla jafna sveiflast á milli 0% og 5-6% á vesturlöndum.

Smellið á myndina til að skoða gagnvirka útgáfu á vef Viðskiptaráðs

Fyrir þessu eru margar ástæður og hvorki við Seðlabankann né Hagstofuna að sakast, svona er bara heimur hagtalnanna. Það má hins vegar spyrja sig að því hversu áreiðanlega sé hægt að spá fyrir um framtíðina, ef ekki er meiri vissa um orðna hluti en dæmið hér að ofan sýnir.

Minn skilningur er sá að akkúrat þetta sé markmið Viðskiptaráðs með hugmyndum um Efnahagsstofuna. Ætlunin er ekki að útbúa fleiri spár eða greiningar, heldur að safna saman spám, mælingum og greiningum þeirra aðila sem fylgjast með íslensku efnahagslífi og hvetja til umræðu um þær, mismuninn á þeim og þær forsendur sem liggja að baki. Líklega er full þörf á því!

Nörd ársins!

Ég varð þess heiðurs aðnjótandi síðastliðinn föstudag að hljóta nafnbótina Nörd ársins 2010.

Ég hef lengi beðið eftir því að einhver efndi til keppni sem ég ætti möguleika á að vinna og full ástæða til að þakka Skýrr fyrir að gera það.

Reyndar grunar mig að réttnefni titilsins væri “Athyglissjúkasta nörd ársins 2010” þar sem ég á ekki roð í marga af þeim sem hlutu tilnefningu í eiginlegum nördaskap. Líklega hefur fólki dottið í hug að tilnefna mig þar sem sum þeirra nörda-verkefna sem ég hef verið að vinna að hafa hlotið töluverða athygli, en það er auðvitað ekki síður að þakka þeim eðalnördum sem hafa unnið með mér að hlutum eins og DataMarket, Já.is og öðrum nördaskap í gegnum tíðina.

Einu sinni þótti niðurlægjandi að vera kallaður “nörd”. Fólk skiptist í þrjá hópa: “nörd”, venjulegt fólk og “töffara”. Það er hins vegar alltaf að sýna sig betur og betur að 21. öldin er öld nördanna. Þrjú dæmi:

 • Þrír ríkustu menn í heimi eru nörd
 • Borgarstjórinn í Reykjavík “var einu sinni nörd”
 • Obama hefði aldrei orðið forseti Bandaríkjanna nema með hjálp nörda-vina sinna

Eða eins og Bill Gates hafði einu sinni eftir í góðri ræðu: “Verið góð við nördana, það eru góðar líkur á að þið munið vinna fyrir eitt þeirra í framtíðinni”.

Takk fyrir mig, takk Skýrr, takk allir sem hafa nördast með mér í gegnum tíðina. Eins og sjá má var ég “geðveikislega” ánægður með titilinn:

Gagnatorg DataMarket komið í loftið!

Í vikunni opnuðum við hjá DataMarket almennan aðgang að gagnatorginu okkar.

Ég ætla að skrifa meira um það á persónulegu nótunum fljótlega, en læt nægja í bili afrit af tilkynningunni sem við sendum áskrifendum að fréttabréfinu okkar í gær (þið getið gerst áskrifendur hér).

Kæri áhugamaður um DataMarket,

Miðvikudagurinn 12. maí var stór dagur fyrir okkur, en þá opnuðum við fyrir almennan aðgang að lausninni sem við erum búin að vera að þróa í rúmlega eitt og hálft ár.

Það er okkur sönn ánægja að kynna til sögunnar gagnatorgið: DataMarket.com

DataMarket tekur saman töluleg gögn frá ýmsum opinberum aðilum og gerir þau aðgengileg á einum stað með samræmdum eiginleikum, s.s. leitarmöguleikum, samanburði, tengingum við fréttaefni og aðra viðburði, og niðurhali gagna til dæmis til notkunar í Excel.

Það sem komið er inn eru meira og minna öll gögn sem birt eru opinberlega frá:

 • Hagstofu Íslands, þar með talin gögn úr ritinu Hagskinnu sem er yfirlit yfir sögulegar hagtölur.
 • Seðlabanka Íslands
 • Vinnumálastofnun
 • Fasteignaskrá
 • Orkustofnun; og
 • Ferðamálaráði

Að auki eru þar gögn frá Ríkislögreglustjóra og öll töluleg gögn úr skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.

Öll þessi gögn eru frá og með deginum í dag aðgengileg öllum netnotendum án endurgjalds á DataMarket

Þarna er að finna meira en 2.500 gagnasett frá framangreindum aðilum og samanlagt meira en sjö milljón tímaraðir um allt á milli himins og jarðar, þar á meðal: hitastig á Stykkishólmi, barnsfæðingar á mánuði frá 1853, atvinnuleysi iðnaðarmanna, raforkuframleiðslu með jarðvarma, útbreiðslu DVD spilara og kílóverð á súpukjöti svo fátt eitt sé nefnt.

Hvernig nýtist DataMarket mér?

Það fer algerlega eftir því við hvað þú starfar, á hverju þú hefur áhuga og hvaða ákvörðunum þú stendur frammi fyrir, en við erum handviss um að flestir geta notað DataMarket sér til gagns eða fróðleiks þegar þeir hafa tileinkað sér grunneiginleika þess.

Hér eru nokkur dæmi sem ef til vill kveikja einhverjar hugmyndir:

Einhverjir gætu líka haft áhuga á að bera saman mánaðarlaun bankastjóra þriggja stóru bankanna á árunum 2004-2008.

Ágæt leið til að kynnast eiginleikum DataMarket er að skoða þessi sýnidæmi og jafnvel fylgja þeim skref fyrir skref.

Innskot HG: Hér er myndband sem sýnir eitt þessarra sýnidæma:

Hafðu samband!

Þar sem DataMarket er spánný lausn, vitum við að þið eigið eftir að rekast á lausa enda sem við höfum gleymt að hnýta, hluti sem betur mega fara og fá hugmyndir sem gætu nýst okkur við áframhaldandi þróun. Þess vegna hvetjum við ykkur til að taka þátt í umræðum á spjallborðinu okkar eða senda okkur línu á hjalp@datamarket.com

Ef þið hafið áhuga á að vita meira um starfsemina, skoða samstarfsfleti eða forvitnast um hvaðeina sem snýr að lausninni eða fyrirtækinu, þá er netfangið datamarket@datamarket.com.

Takk fyrir að taka þátt í þessu með okkur. Njóttu DataMarket!

Kveðjur,

DataMarket-hópurinn

Af rökræðum og skattareiknum

Ég er landleysingi í pólitík. Hef mjög mikinn áhuga á pólitískri umræðu og sterkar skoðanir á mörgum málum, en gæti aldrei fellt mig við það að elta einhverjar flokkslínur í flestum málum. Ég hallast reyndar að því að flokkshollusta sé að mörgu leyti þægindi sem fólk sækir í til að þurfa ekki að setja sig inn í málin og mynda sér sína eigin afstöðu.

Í hverju máli reyni ég einfaldlega að afla mér upplýsinga eins og kostur er. Lesa helstu röksemdafærslu beggja hliða og mynda mér smám saman skoðun útfrá því. Mér finnst það líka styrkur að geta skipt um skoðun þegar nýjar upplýsingar eða rök í málum koma upp á yfirborðið, þó að í pólitík virðist oftast litið á það sem veikleika – næstum jafn mikinn veikleika og að vera sammála “andstæðingum” sínum. Við höfum meira að segja haft forystumenn í stjórnmálum sem hreykja sér af því að hafa aldrei skipt um skoðun!

Þetta er einn af stóru drifkröftunum að baki DataMarket. Þjóðin á gríðarlega mikið af merkilegum gögnum sem liggja lítið – eða jafnvel ekkert – notuð hér og þar í samfélaginu. Með betra aðgengi að þessum gögnum og tólum sem hjálpa fólki að setja hlutina í samhengi, hef ég trú á því að við getum tekið miklu upplýstari ákvarðanir á öllum stigum þjóðlífsins: í einkalífinu, í fyrirtækjarekstri og í stjórnsýslunni.

Góð kenning sem ég hef oft stuðst við er að skoðanamyndun verði í þremur skrefum:

 1. Fyrst þurfa nauðsynlegar staðreyndir að liggja fyrir
 2. Síðan greinum við þessi gögn og staðreyndir með tiltækum tólum
 3. Loks byggir hvert okkar niðurstöðu eða dóma á undangenginni greiningu

Við þurfum ekki öll að komast að sömu niðurstöðu. Við höfum mismunandi lífsgildi, áherslur og sýn á það hvað skipti mestu máli í lífinu. Rökræða snýst í raun að miklu leyti um skref #2, þar sem fólk tekst á um greiningu staðreyndanna og reynir svo að fikra sig – og stundum andmælendur sína eða áheyrendur með sér – í átt að niðurstöðu. Í góðri rökræðu eru menn til í að sýna öðrum lífsgildum virðingu, meta forgangsröðun sína og reyna að sjá hlutina með augum annara. Ef menn leggja samt ekki út frá sömu staðreyndum – eða gögnum – verður rökræðan aldrei góð.

Sem dæmi mætti taka að tvær fylkingar eigi að mynda sér skoðun á ágæti samnings. Önnur fylkingin hefur séð samninginn og öll undirliggjandi gögn, en hin fylkingin ekki. Í þessu tilfelli er gagnslaust að reyna nokkurskonar rökræðu um ágæti samningsins. Það er ekkert til að greina – og allar tilraunir til þess verða fálmkenndar og gerðar í lausu lofti.

Þetta er ástæðan fyrir því að gagnsæi og opið gagnaaðgengi er lykilatriði í samfélaginu. Þannig munum við taka okkar bestu ákvarðanir og vera fær um að gagnrýna, mótmæla eða styðja það sem gert er með rökum – en ekki af pólitískri flokkshlýðni.

Skattareiknir

Hvatningin til að skrifa um þetta bloggfærslu núna er umræða sem skapast hefur undanfarna daga um nýlegan skattareikni Sjálfstæðisflokksins. Eins og fram hefur komið í umræðunni, á DataMarket þar hlut að máli. Við tókum að okkur að afla ýmissa gagna varðandi skattamál fyrir flokkinn. Í framhaldi af þeirri gagnaöflun settum við upp Excel-módel sem auglýsingastofan studdist við þegar reiknirinn var forritaður. Ákvörðun um endanlegar forsendur að baki þeim útreikningum og framsetningu niðurstaðnanna er tekin af flokksmönnum.

Samkvæmt okkar bestu vitund er reiknirinn villulaus eins og hann stendur nú. Fyrstu klukkutímana fór hann í loftið án þess að tekið væri tillit til nýs frítekmarks á fjármagnstekjur, en það var lagað um leið og ábending barst þar um. Eins voru mjög afmörkuð jaðarskilyrði sem leiddu til undarlegrar niðurstöðu þegar heimili með 2 fyrirvinnur var ofarlega í 2. skattþrepinu – það hefur einnig verið lagað. DataMarket ber ábyrgð á þessum villum og ónógum prófunum á líkaninu, en þeim var á engan hátt ætlað að villa um fyrir neinum, enda hefði það verið býsna óábyrg nálgun.

Enda er það líka svo að fæstir sem stungið hafa niður penna um þessa herferð Sjálfstæðisflokksins hafa haft neitt við útreikningana að athuga, heldur forsendurnar sem miðað er við. Og þá er eðlilegt að næsta spurning sé: Hvor fylkingin hefur rétt fyrir sér?

Svarið er etv. ekki hjálplegt: Báðir hafa rétt fyrir sér.

Staðreyndirnar liggja nokkuð skýrt fyrir. Þær eru í stuttu máli þessar:

 • Tekið verður upp þriggja þrepa tekjuskattskerfi þar sem skatthlutfallið verður:
  • 24,1% af fyrstu 200þús krónum tekjuskattstofns (mánaðarlaun að frádregnu iðgjaldi í lífeyrissjóð)
  • 27,0% af 200-650þús krónum
  • 33,0% af því sem fer yfir 650þús krónur
 • Persónuafsláttur hækkar um 2.000 krónur á mánuði frá því sem nú er og verður 44.205 krónur.
 • Fjármagnstekjuskattur verður 18% en þó aðeins af fjármagntekjum umfram 100þús krónur á ári.
 • Breytingar á neyslusköttum munu hafa áhrif til hækkunar verðlags, sem mun hafa áhrif á verðtryggð lán, innkaup, afborganir lána og aðra neyslu.

Sjálfstæðismenn kusu að fara þá leið að bera þessar staðreyndir saman við skattkerfið eins og það var í upphafi þessa árs og núgildandi lög. Þetta hefur eftirfarandi í för með sér:

 • Miðað er við eitt skattþrep með 24,1% tekjuskatti eins og var fyrri helming ársins.
 • Persónuafsláttur á skv. núgildandi lögum að hækka í takt við verðlag OG skv. samkomulagi aðila á launamarkaði um 2.000 krónur að auki. Þetta myndi þýða að hann yrði á næsta ári u.þ.b. 48.000 krónur á mánuði.
 • Miðað er við 10% fjármagnstekjuskatt eins og var fyrri helming ársins í ár.
 • Verðlagshækkanir vegna breytinga á skattkerfinu fyrr á þessu ári eru teknar með í reikninginn og verðlagsáhrif skattbreytinganna verða því samanlagt 1,8% í stað 0,8% – 1,0% áhrifa af breytingunum nú um áramótin.

Ríkisstjórnin vill hins vegar miða við kerfið eins og það er núna. Það þýðir að nýja kerfið er borið saman við:

 • Tvö skattþrep sem tóku gildi um mitt ár:
  • 24,1% af tekjum upp að 700þús krónum á mánuði
  • 32,1% af tekjum yfir 700þús krónum á mánuði
 • Núgildandi 15% fjármagnstekjuskatt.
 • 0,8% – 1,0% verðlagsáhrif skattbreytinga um áramótin.
 • Persónuafslátt upp á 42.205 krónur á mánuði eins og er á yfirstandandi ári.

Deilurnar snúast því ekki um það hvernig kerfið var eða verður – gögnin – heldur um túlkun þeirra eða greiningu. Enginn leggur til röng gögn, en hvor kýs að greina þau gögn með sínum hætti, væntanlega í von um að fá fólk á sína skoðun svo vitnað sé í þrjú skref rökræðunnar hér að ofan.

Menn geta svo gagnrýnt Sjálfstæðisflokkinn fyrir að teygja sínar forsendur inn á þetta ár og fyrir að það sé auðvelt að koma með svona gagnrýni í stjórnarandstöðu þegar menn standa ekki raunverulega frammi fyrir ákvarðanatökunni.

Að sama skapi væri hægt að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að tala um lækkun skatta með hækkun persónuafsláttar um 2.000 krónur en láta hjá líða að minnast á að að óbreyttu hefði hækkun persónuafsláttarins verið mun meiri. Eða það að kalla nýja eignaskattinn “auðlegðarskatt” og að tekjuöflun af honum “gefi um 3 ma. kr., er verði nýttir til að hækka greiðslur barnabóta og vaxtabóta”. Skattur á “auðlegð” er líklegri til vinsælda en “eigna”-skattur og þessir tilteknu 3 milljarðar fara auðvitað alveg jafnt í að greiða vaxtagjöld ríkissjóðs, reka Landspítalann, greiða listamannalaun eða hvað annað sem ríkið tekur sér fyrir hendur.

Hvert og eitt okkar verður að horfa á þetta með sínum eigin gagnrýna hætti og reyna að komast að eigin niðurstöðu um það hvað okkur þyki ásættanlegt og nauðsynlegt í ljósi stöðunnar. Það er þó allavega kostur að rökrætt skuli á grunni staðreynda, en ekki tilfinninga og upphrópana eins og allt of oft vill verða í pólitíkinni.

Nýja Kauphöll takk

kauphoell.width-900.jpgUndanfarna daga hafa verið ræddar í fjölmiðlum hugmyndir um að skrá í Kauphöllina fyrirtæki sem bankarnir hafa tekið yfir og koma þeim þannig í almenningseigu.

Í grunninn held ég að þetta sé góð hugmynd. Að mörgu leiti betri en beint söluferli í umsjón bankanna sjálfra og án alls efa betra en það handstýrða og ógagnsæja ferli sem virðist vera í gangi með önnur.

Hins vegar þarf Kauphöllin að taka verulega til í sínum ranni ef hún á að verða vettvangur þessara viðskipta. Ég er ekki einu sinni viss um að Kauphöllin í þeirri mynd sem hún hefur verið starfrækt eigi sér viðreisnar von. Ástæðan? Jú, Kauphöllin er ein þeirra stofnana sem gerbrást í aðdraganda Hrunsins og þarf að líta í eigin barm, viðurkenna mistök sína og ábyrgð og breyta starfsháttum og reglum áður en hún er tilbúin til að taka þátt í endurreisnarstarfinu.

Byrjum á smá bakgrunnsupplýsingum…

Um hlutafélög
Hlutafélög eru stórmerkilegar stofnanir. Þau gera fólki úr ólíkum áttum kleift að taka saman höndum um verkefni sem hver og einn hefði verið ófær um einn og sér. Sumir geta lagt mikið til þeirrar hugmyndar eða þess verks sem fyrir höndum er og aðrir minna, en ramminn á að tryggja að allir sitji við sama borð og njóti ávaxtanna – og taki á sig áhættuna – í hlutfalli við það sem þeir leggja til.

Að auki takmarkar hlutafélagaformið ábyrgð hluthafanna við það fé sem þeir leggja félaginu til og þannig geta menn lagt verkefni lið, án þess að eiga á hættu að tapa öðru en því sem þeir hafa eyrnamerkt verkefninu. Þetta er líka mikilvægt, því fáir myndu leggja áhættusömu verkefni lið ef það gæti sjálfkrafa stofnað öllum eigum þeirra í hættu. Þetta á líka að öllu jöfnu að þýða það að hlutafélag fái aldrei að stofna til skuldbindinga umfram það sem hlutaféð, rekstur fyrirtækisins og eignir þess geti staðið undir.

Hlutafélög verða þannig til þess að margvísleg verkefni geta orðið að veruleika, sem annars yrðu ekki og ýta þannig undir nýsköpun, skapa störf og auka – þegar vel tekst til – lífsgæði okkar og samfélag. Gunnhugmyndin á bakvið hlutafélagaformið er því besta mál.

Hlutabréfamarkaðir eru að sama skapi mikilvægir. Virk viðskipti með hlutabréf í félagi mynda verð á þeim og meta þannig í raun í sífellu stöðu og framtíðarhorfur fyrirtækisins. Þetta gerir fólki sem lagt hefur verkefni til fé kleift að losa fjármuni á sanngjörnu verði á hverjum tíma og njóta þannig ávaxtanna – eða taka á sig það tap – sem orðið hefur yfir það tímabil sem viðkomandi hlutur var í þeirra eigu. Þetta minnkar enn frekar tregðu fólks við að leggja fé í hlutafélag. Ekki þarf að bíða þar til verkefninu er lokið, eða fyrirtækið fer að borga arð til að geta losað um það fé sem lagt var inn.

Það má því segja að hlutafélög og góður hlutabréfamarkaður sé forsenda fyrir kröftugu atvinnulífi, nýsköpun og uppbyggingu.

Íslenska Kauphöllin var aftur á móti ekki góður hlutabréfamarkaður – og Kofinn sem eftir stendur verður aldrei góð Höll nema til komi grundvallarbreytingar á starfsemi hennar.

Upplýsingagjöf

Lykillinn að ofangreindum kostum hlutafélaga og hlutabréfamarkaða er öflug upplýsingagjöf. Því betri upplýsingar sem kaupendur og eigendur hluta í félaginu hafa um stöðu þess á hverjum tíma, því betri aðstöðu eru þeir í til að meta áhættu og möguleika félagsins. Það er því algert lykilatriði að allir hafi jafnan og eins mikinn aðgang að upplýsingum eins og hægt er – annars skapast ójafnvægi og óvissa um þá þætti sem þurfa að liggja til grundvallar við verðmat hlutanna.

Þetta er líka reynt að tryggja með hlutafélagalögunum og starfsreglum hlutabréfamarkaða. Þeir sem hafa meiri upplýsingar um starfsemina en aðrir, s.s. stjórnendur, stjórnarmenn og í sumum tilvikum aðrir starfsmenn fyrirtækjanna, kallast innherjar – og um viðskipti þeirra með hluti gilda aðrar reglur en um almenna fjárfesta. Öllum öðrum á að tryggja jafnan og öruggan aðgang að upplýsingum. Í tilfelli kauphalla er þetta gert með reglum um birtingu ársreikninga, ársfjórðungsuppgjöra og þess á milli sérstakra tilkynninga ef ástæða er til.

Hrunið kom upp um algera brotalöm í þessari upplýsingagjöf í íslensku Kauphöllinni. Það vantaði svo sem sjaldnast upp á það að umræddum skjölum væri skilað (þó þess séu dæmi, einkum eftir Hrun), en þau sögðu bara ekki alla söguna. Reyndar má segja að þau hafi oft sagt bara einhverja allt aðra sögu – sögu af einhverjum félögum sem aldrei voru til nema í hugum eigendanna og þeirra sem sáu um “upplýsinga”-gjöfina:

 • Flókið net krosseignatengsla kom í veg fyrir að eignarhald á félögunum væri ljóst;
 • Stórlega ýktar “óefnislegar eignir” og “viðskiptavild” (sem reyndar eru hvort tveggja hugtök sem eiga fullan rétt á sér ef rétt er með farið) komu í veg fyrir að nokkuð væri hæft í efnahagsreikningum fyrirtækjanna;
 • Sýndarviðskipti – oft með lánum frá félögunum sjálfum – héldu uppi falsaðri eftirspurn eftir bréfum og þar með verði þeirra; og
 • Tap af óvarlegum viðskiptum var falið með því að selja “eitraðar eignir” inn í nýstofnuð dótturfélög sem áttu svo jafnvel ekkert annað.
 • Endurskoðendur félaganna kvittuðu upp á allt saman með glöðu geði og léðu þessum upplýsingum þar með trúverðugleika.

Þessi listi gæti hæglega verið lengri og lengist reyndar sífellt eftir því sem fleiri kurl koma til grafar.

Allt þetta átti sér stað í Kauphöllinni – þeirri sem nú ætlar að taka þátt í endurreisninni. Þeim til varnar má reyndar segja að það sama hefur að einhverju leiti átt sér stað í kauphöllum úti um allan heim, en það þýðir ekki að við eigum bara að endurvekja sama kerfið. Það partý er búið og ef það verður aftur veisla, verður hún á allt öðrum forsendum, með öðrum boðslista og mun hófstilltari skemmtiatriðum.

Við eigum ekki að sætta okkur við óbreytt fyrirkomulag. Ef við ætlum að virkja kosti hlutafélagaformsins aftur til fulls þarf nýja hugsun og nýjar reglur.

Annan október í fyrra, þegar hamfarirnar voru varla byrjaðar, skrifaði ég þessa færslu sem stendur jafnvel enn frekar fyrir sínu nú en þá. Ég held ég noti bara eftirfarandi klausu úr henni til að lýsa því hvert ég er að fara:

Lög um upplýsingagjöf í kauphallarviðskiptum eiga sér meira en aldarlanga sögu og tilgangur þeirra er að markaðsaðilar sitji við sama borð með bestu fáanlegu upplýsingar á hverjum tíma. Á þeim tíma sem lögin eru mótuð, hefur ársfjórðungsleg birting á rekstrartölum líklega verið ansi stíf krafa – jaðrað við það að vera rauntíma upplýsingagjöf með þeirra tíma tækni. Í dag er þessu öðruvísi farið. Það er ekkert sem stoppar kauphallir í að setja kröfur um rauntímaaðgengi að hverju sem þeir kjósa. Já – jafnvel inn í bókhald fyrirtækjanna, sjóðsstreymi þeirra, útistandandi kröfur og eignastöðu.

Þannig gæti fjárfestir, hvort sem hann er að fjárfesta í hlutabréfum, skuldabréfum, eða einhverjum sjóðum, grafið sig niður í minnstu smáatriði fjárfestingar sinnar. Svolítið eins og DataMarket og fjárlögin, nema bara á miklu stærri skala og með miklu meiri nákvæmni.

Ef svona hefði verið, hefðu margir verið búnir að benda á samsetninguna í Sjóði 9 og hversu mikið hékk þar á fáum, tengdum aðilum. Það hefði líka verið búið að grafa í alla undirmálsvafningana og gagnrýna þá. Hrunið stafar af miklu leiti af því að fáir, ef nokkur, hafði tækin til að sjá í gegnum flækjuna sem búið var að spinna í allskyns fjármálagjörningum.

Ég held að þegar þessum hamförum á fjármálamörkuðum lýkur og menn fara að endurskoða leikreglurnar, sé eitthvað á þessa leið líklegt til að verða ofan á. Ekkert annað en fullkomið gegnsæi á öll tiltæk gögn getur aukið tiltrú almennings á þessum mörkuðum aftur.

Warren Buffet fjárfestir aldrei í neinu sem hann skilur ekki. Með rauntímaaðgang í undirliggjandi vef fjármála- og bókhaldskerfa myndu allir hafa tólin til að skilja það sem að baki fjárfestingum þeirra og hópnum sem heild treystandi til að veita markaðsaðilum aðhald með því að rýna í þessar tölur með og beita allskyns greiningar- og birtingartólum til að koma auga á veilurnar í kerfinu.

– – –

Aðrar færslur frá mér (og DataMarket) um tengd málefni:

Fimm staðreyndir um skattkerfið – reiknilíkan

Picture 17Við hjá DataMarket vorum að uppfæra reiknilíkan sem við gerðum í fyrra til að lýsa staðgreiðsluskattakerfinu á Íslandi. Líkanið tekur núna mið af nýjustu fáanlegu gögnum um launadreifingu landsmanna, hátekjuskattinum sem lagður var á í sumar og svo er hægt að stilla upp fleiri en einu hátekjuþrepi.

Þannig má t.d. bera saman áætlaða staðgreiðslu af núverandi kerfi og þriggja þrepa kerfinu sem sagt er að sé til umræðu í stjórnkerfinu. Út frá því má áætla að samanlögð staðgreiðsla hækki um tæpa 10 milljarða við þessa breytingu (eða rúmlega 15 ef miðað er við að enginn hátekjuskattur væri tekinn, líkt og var í upphafi þessa árs).

Módelinu er – eins og öðru sem við gerum hjá DataMarket – ætlað að lýsa staðreyndum út frá bestu fáanlegu upplýsingum og stuðla að upplýstri umræðu um flókin mál sem þó skipta okkur öll máli. Við reynum okkar besta til að það sem sett er fram í nafni fyrirtækisins sé hlutlaust og sannleikanum samkvæmt. Nóg er víst af villandi umræðu samt.

Ég hvet ykkur til að skoða módelið og sjá hvaða áhrif ólíkar leiðir hafa á ykkar kjör. Á efri tveim myndunum getið þið t.d. séð hvaða áhrif skattbreytingar hafa á ykkar eigin ráðstöfunartekjur.

– – –

Að þessu sögðu langar mig að setja fram nokkrar persónulegar skoðanir og athugasemdir með hliðsjón af reiknilíkaninu. Þær eru s.s. mínar eigin og ekki settar fram í nafni fyrirtækisins (enda hafa fyrirtæki ekki skoðanir):

 • Skatthlutfall af meðaltekjum er um 28%: Þetta er staðreynd. Meðaltals heildartekjur skv. Hagstofunni voru 454þús á mánuði 2008. Þegar tekið hefur verið tillit til persónuafsláttarins þýðir það að einstaklingur með þær tekjur borgar u.þ.b. 125þús krónur á mánuði í staðgreiðsluskatt. Það sem meira er: Sá sem hefur 200þús krónur í tekjur borgar aðeins um 16% sinna tekna í skatt og sá sem hefur 1 milljón á mánuði myndi borga 33%, jafnvel þó enginn væri hátekjuskatturinn. Milljón króna maðurinn borgaði þannig um 330þús, meðan 200þús króna maðurinn borgar 32þús krónur. Það er því mikil einföldun að segja að á Íslandi sé 37% tekjuskattur.
 • Enginn mun greiða 47% skatt: Jafnvel þótt róttækustu hugmyndir sem heyrst hafa um hátekjuskattsþrepin verði að veruleika mun enginn greiða 47% skatt af heildartekjum sínum. Í því þriggja þrepa kerfi sem nefnt hefur verið myndi einstaklingur með 1,6 milljónir króna í mánaðarlaun þó “aðeins” borga rétt rúmlega 41% tekna sinna í skatt.
 • Persónuafslátturinn er einfaldasta hátekjuskattkerfið: Eins og sjá má af ofangreindum dæmum erum við erum þegar með kerfi sem leggur mun hærri skattbyrði á þá sem hafa hæstu tekjurnar. Þetta er gert með persónuafslættinum. Hann tryggir það að þeir sem hafa lægstu tekjurnar greiði litla sem enga skatta og þeir sem hafa hæstu skattana greiði meira. Takið t.d. eftir því í fyrsta punktinum hér að ofan að einstaklingur með 5 sinnum hærri tekjur (milljón á móti 200þús á mánuði) greiðir 10 sinnum hærri skatta. Án þrepa myndast svo engir skrítnir hvatar til að umbuna starfsmönnum með frídögum eða öðrum fríðindum frekar en að hækka þá í launum, eða fara á annan hátt í kringum lögin eða anda þeirra.
 • Þrepaskatturinn skapar samfélaginu kostnað: Ef þriggja þrepa skattur verður að veruleika er framundan heilmikil vinna. Gera þarf breytingar á bókhaldskerfum allra fyrirtækja, og því miður eru þau mjög mis-sveigjanleg. Aukin vinna verður við eftirlit og utanumhald á vegum skattstjóra og innheimtuaðila, skattframtal verður flóknara, meiri hætta á mistökum o.s.frv., o.s.frv. Ég leyfi mér að fullyrða að samanlagður kostnaður samfélagsins við hugbúnaðarbreytingarnar einar vegna þessa nýja kerfis verði ekki undir einum milljarði króna. Og ef einhver vill halda því fram að það sé nú bara atvinnuskapandi, skal þeim hinum sama bent á að það er ekki atvinnuleysi í stétt hugbúnaðarfólks. Þvert á móti er vöntun á hæfu fólki.
 • Hægt er að ná sama tekjuauka OG HJÁLPA ÞEIM LAUNALÆGSTU MEIRA án þrepaskattsins: Eins og sýnt var í upphafi mun 3 þrepa kerfið færa ríkinu u.þ.b. 10 milljarða tekjuauka m.v. það tveggja þrepa kerfi sem nú er í notkun. Þeir launalægstu munu njóta lítillega góðs af lækkun á grunnþrepinu og þeir tekjuhæstu munu greiða verulega meira. En sjáið nú ÞETTA DÆMI. Þarna er aðeins eitt þrep. Persónuafslátturinn hefur verið hækkaður í 58.500 kr á mánuði og skatthlutfallið í 42,8%. Tekjuauki ríkisins er sá sami en þeir tekjulægstu koma mun betur út. Sá sem hefur 200þús á mánuði greiðir í þessu módeli rúmlega 5.000 krónum minna en í núverandi kerfi og nærri 3.000 krónum minna en í fyrirhuguðu 3 þrepa kerfi. Skatturinn á þá tekjuhæstu er hins vegar nokkuð svipaður og nú er og væri t.d. enn rétt undir 40% af tekjum í kringum 1,6 milljónir á mánuði, eða mjög svipaður og í núverandi 2 þrepa kerfi.

Ef sækja á svona miklar viðbótarskatttekjur í vasa almennings á annað borð, af hverju þá að flækja hlutina þegar þeir geta verið einfaldir?

Þangað til einhver færir góð rök fyrir öðru leyfi ég mér að fullyrða: Fjölþrepa skattkerfi er heimskulegt! Það hefur fjölmarga ókosti og enga kosti sem kerfi persónuafsláttar getur ekki leyst á betri og einfaldari hátt.