datamarket

Opin veðurgögn – skref í rétta átt

Á þriðjudaginn var stigið lítið en mikilvægt skref í átt að opnum gögnum á Íslandi.

Þá var nefnilega opnaður aðgangur almennings að Gagnatorgi veðurupplýsinga. Á þessu gagnatorgi má með einföldum hætti nálgast allar veðurathuganir Veðurstofu Íslands sem skráðar eru í gagnagrunna hennar. Þessar athuganir taka til u.þ.b. 200 veðurstöðva víðsvegar um landið og ná í sumum tilvikum allt aftur til ársins 1931.

Mörgum þeim sem e.t.v. eru ekki heitir áhugamenn um veðurfar og veðurupplýsingar kann að finnast lítið til koma, enda er virkni lausnarinnar tiltölulega afmörkuð og augljósar viðbætur sem hægt er að gera t.d. til að bæta myndræna framsetningu þessara veðurgagna og almennt upplýsingagildi. Lausninni var þó ekki ætlað að gera annað eða meira á þessu stigi málsins en að gera gögnin auðveldlega aðgengileg skólafólki, áhugamönnum um veðurfar og öðrum sem kunna að hafa gagn af þeim.

Mig langar samt að benda á að þetta er að mörgu leiti mjög merkilegt skref, því það setur það tóninn fyrir það sem koma skal í opnu gagnaaðgengi hér á landi.

Veðurgögnin sem þarna er opnað aðgengi að eru afurð áratuga starfs óeigingjarnra athugunarmanna, veðurfræðinga, tæknimanna og annara sem komið hafa að því að byggja upp öflugt kerfi veðurathugana hér á landi. Og frá og með þriðjudeginum skila þessi gögn sér jafnóðum inn í Gagnatorg veðurupplýsinga og eru samstundis aðgengileg landsmönnum öllum.

Þetta eru þau gögn sem liggja að baki þeim veðurspám, spálíkönum og veðurrannsóknum sem stundaðar hafa verið hér á landi; ómetanlegur grunnur að þekkingu, öryggi landsmanna og nýtingu okkar á gæðum lands og sjávar.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að opið aðgengi almennings, skólafólks, fræðasamfélags og einkafyrirtækja að þessum gögnum mun leiða af sér enn meiri þekkingu, fróðleik og verðmæti. Menntaskólanemendur munu nota Gagnatorgið til heimildaöflunar, grunnskólanemendur munu þar kynnast samhengi vindstyrks og vindáttar í sinni heimabyggð og af hverju afi segir að það komi alltaf þoka þegar hann er “að austan”. Flugáhugamenn munu finna flugvöllum sínum stað og ef til vill mun einhver áhugamaður um veðurfar gera merkilega uppgötvun um veðrið á Akureyri. Hver veit?

Líklega eiga merkilegustu áhrif þess að opna aðgengi að þessum gögnum eftir að vera eitthvað sem við höfum ekki hugmyndaflug til að ímynda okkur núna.

Ég tek heilshugar undir það sem Menntamálaráðherra sagði við opnun gagnatorgsins:

Opinber gögn sem safnað hefur verið fyrir opinbert fé eru fjársjóður sem enn er að stóru leiti óuppgötvaður. Veðurgögn eru aðeins eitt af ótal dæmum.

Opið gagnaaðgengi tilheyrir alls ekki einhverri ákveðinni stefnu í pólitík – þetta er eitt af þeim málum sem allir ættu að geta verið sammála um hvort sem þeir aðhyllast svokallaða hægri- eða vinstri-stefnu í pólitík. Óheft og jafnt aðgengi að upplýsingum er t.d. grundvallaratriði í frjálsum markaðsbúskap og þó ólíkar stefnur greini á um hve mikil umsvif ríkisins eigi að vera, held ég að fólk sé almennt sammála um að okkur beri að hámarka verðmæti þess sem unnið er fyrir opinbert fé.

Í opnara aðgengi að gögnum hins opinbera bíða fjölmörg tækifæri vísindamanna, skólafólks, nýsköpunar og atvinnulífs framtíðarinnar. Opnun Gagnatorgs veðurupplýsinga er bara lítið skref á þeirri braut, en ég er viss um að við munum á næstu mánuðum og árum sjá aðgengi opnað að fjölmörgum öðrum gagnasöfnum sem munu knýja nýsköpun og þekkingu og auka aðhald almennings og fjölmiðla að starfsemi jafnt hins opinbera sem einkaaðila.

Nú er undir áhugamönnum um veður, vísindi og opið gagnaaðgengi að sýna hvað í þeim – og veðurgögnunum – býr og sanna þar með hverju opið gagnaaðgengi getur áorkað.

– – –

Það eru fyrirtækin Reiknistofa í veðurfræði og DataMarket (sem undirritaður rekur ásamt öðrum) sem standa að þróun og rekstri Gagnatorgsins.

Fimm ráð handa frumkvöðlum

Start09Aðstandendur Start09 átaksins báðu mig um að skrifa nokkra punkta um það sem ég hefði lært af því að koma á fót sprotafyrirtækjum í gegnum tíðina. Textinn hér að neðan er útkoman úr því, en þessir punktar birtust á vefnum þeirra núna á mánudaginn.

Síðan ég útskrifaðist úr menntaskóla hef ég varla gert annað en að stofna og reyna að koma á legg sprotafyrirtækjum. Fyrirtækið sem ég rek núna – DataMarket – er fjórða fyrirtækið sem ég stofna í félagi við aðra undanfarin 12 ár. Sumt hefur gengið upp, annað ekki – eins og gengur. Í öllum tilfellum hafa verið bæði stórir sigrar og stór vonbrigði. Að starta sprotafyrirtæki er rússíbanareið: skemmtilegt, skelfilegt og alls ekki fyrir alla.

Hér eru fimm heilræði um sprotastarf sem ég þykist hafa lært sjálfur eða af öðrum í mínum rússíbanaferðum.

1. Haldið væntingunum í skefjum
Það er alveg saman hvað þið eruð klár, eruð með góða hugmynd, gott fólk, snjalla markaðssetningu, ómissandi vöru eða skothelt einkaleyfi – langlíklegasta niðurstaðan úr þessu sprikli er að fyrirtækið gangi ekki upp. Að það hætti rekstri eða renni út í sandinn þegar plönin ganga ekki eftir. Þetta er staðreynd. Tölfræðin einfaldlega segir það.

Langflest sprotafyrirtæki eru hætt starfsemi 3-4 árum eftir stofnun. Önnur malla áfram, etv. í ágætum rekstri en án þess að virkilega “meika það”. Mjög fá slá í gegn og í flestum tilfellum tekur það þá næstum áratug af harki. Frægð, frami og ríkidæmi er fágæt undantekning, ekki reglan. Og munið að hlutafé er einskis virði fyrr en einhver hefur keypt það af ykkur!

Þetta þýðir ekki að þið eigið ekki að hafa trú á því sem þið eruð að gera. Þið verðið að hafa það, annars eru örlögin ráðin strax. En væntingastjórnunin er mikilvæg, ekki bara fyrir þig, heldur líka fyrir fólkið í kringum ykkur: starfsfólkið, ættingja, vini og samstarfsaðila.

Hafiði fæturna á jörðinni, þó hausinn sé í skýjunum.

Það sem á að drífa ykkur áfram er möguleikinn á að dæmið gangi upp, ekki fullvissan um það… og svo auðvitað hvað þetta er fáránlega gaman!

2. Það sem þið eruð að gera er EKKI leyndarmál
Ekki hika við að segja öllum sem heyra vilja hvað þið eruð að fást við. Ekki halda að allir muni stela hugmyndinni ykkar. Þið eruð heppinn að fólk vill hlusta. Staðreyndin er sú að flestir eiga eftir að reynast hjálplegir: koma með góðar athugasemdir, tengja ykkur við verðmæta samstarfsaðila eða viðskiptavini, bera út fagnaðarerindið fyrir ykkur eða jafnvel vilja vinna með ykkur eða fjárfesta í hugmyndinni.

Veltið því fyrir ykkur eitt augnablik: Hversu margir eru í þeirri aðstöðu, skilja hugmyndina ykkar svo vel, geta komið saman þeim hóp og fjármagni sem til þarf og eru til í að leggja allt undir og um leið nógu bíræfinn til að taka YKKAR hugmynd og gera hana að veruleika fyrir framan nefið á ykkur? Enginn. Og þið mynduð hvort sem er mala þá, því það eruð þið sem eruð búin að velta fyrir ykkur öllum hliðum málsins í marga mánuði, búin að setja saman hóp, setja saman plan, átta ykkur á samkeppninni, skoða markhópinn, finna hentugustu leiðirnar til að dreifa vörunni og svo framvegis. Þið eruð fólkið til að gera þessa hugmynd að veruleika, aðrir sem hafa frumkvöðlaeðlið í sér eru hvort eð er með sínar eigin hugmyndir.

Þegar öllu er á botninn hvorlft er hugmyndin líka minnsti hlutinn af árangrinum. 99% árangursins næst með blóði svita og tárum, eða eins og Edison sagði: “It’s 1% inspiration and 99% perspiration”. Hann vissi líklega sitthvað um nýsköpun og sprotastarfsemi.

3. Leyfið ykkur að skipta um skoðun
Þegar þið eruð lögð af stað með nýsköpunarhugmynd er alveg gefið að tilviljanir munu leika stærsta hlutverkið í því hvernig til tekst. Þið leggið líklega af stað með nokkuð skýra hugmynd, en eftir því sem þið veltið henni betur fyrir ykkur, þeim mun fleiru komist þið að sem hefur áhrif á þá sýn. Hún kann jafnvel að virðast fjarlægari þegar þið áttið ykkur á því hvað það tekur langan tíma að þróa hana, hvað samkeppnin á viðkomandi markaði er í raun mikil og hversu erfitt er að ná til væntanlegra notenda hennar.

Þá er gott að muna að það er styrkleikamerki að skipta um skoðun. Ekki endilega að taka vinkilbeygju og fara að gera eitthvað allt annað, en að breyta stefnunni, forma hugmyndirnar og styrkja viðskiptaáætlunina með tilliti til nýrra upplýsinga. Ekki halda að fjárfestar eða samstarfsaðilar muni missa trúna á ykkur. Sé þetta gert með góðum rökum munu þeir þvert á móti öðlast aukna trú og nýjir aðilar fá hana.

Algengustu breytingar af þessu tagi er að finna sér smærri hillu eða áfanga á leiðinni að stóra markmiðinu. Líklega kemur í ljós að upphaflega hugmyndin var of stór í sniðum. Það reynist ekki raunhæft að sigra heiminn í einu skrefi, en það eru mögulega smærri sigrar á leiðinni þangað. Hugsanlega hefur lokatakmarkið alls ekki breyst, en þið hafið fundið ýmis smærri tækifæri á leiðinni þangað.

Ef þið hafið dottið niður á spennandi svið er eins víst að upphaflega lokatakmarkið náist aldrei, en að það séu áhugaverðar beygjur á leiðinni þangað sem etv. reynast mikið merkilegari en upphaflega takmarkið þegar allt kemur til alls.

4. Hafið góða sögu að segja
Þið þurfið að vera góðir sögumenn. Hvert er vandamálið sem er verið að leysa? Af hverju eruð þið fólkið til að gera það? Hvernig kviknaði hugmyndin? Svörin við þessum spurningum þurfa að vera spennandi sögur með upphaf, ris og endi. Helst spennu, drama, blóð og eltingaleiki líka ef vel á að vera.

Hvers vegna? Vegna þess að fólk elskar sögur. Þetta á eftir að hjálpa ykkur að komast að í fjölmiðlum, hjálpa ykkur að útskýra það sem þið eruð að fást við fyrir fjárfestum og samstarfsaðilum. Gera viðskiptavini áhugasama um að versla við ykkur. Allt er auðveldara ef þið getið sagt áhugaverðar sögur.

Hollensk verktakafyrirtæki eru það fyrsta sem fólki dettur í hug þegar á að reisa flóðvarnargarð einhversstaðar í heiminum, enda þekkja allir Holland sem landið undir sjávarmáli og hafa heyrt söguna um strákinn sem stakk puttanum í gatið. Þetta er frábær saga, en Hollensk fyrirtæki eru ekkert sérstaklega fær í að byggja flóðvarnargarða – þau sem það gera eru flest frá Belgíu!

Decode segir frábæra sögu um uppruna Íslendinga, Össur segir frábærar sögur um spretthlauparann Oscar Pistorius, Apple segir söguna af því hvernig tveir vinir smíðuðu fyrstu tölvurnar í bílskúrnum hjá foreldrum sínum, Coke segir söguna af leynilegu uppskriftinni og Richard Branson gerir í því að eltast við ævintýri til að geta vakið athygli á því sem Virgin er að fást við þá stundina. Þetta eru engar tilviljanir – fyrirtækin hafa komist áfram á þessum sögum, etv. mis-meðvituð um það hvað þau voru að gera.

5. Ógeðslega erfitt og skelfilega gaman
Það er ekkert 9-5 djobb að koma af stað nýju fyrirtæki. Þetta eru langir vinnudagar og þar fyrir utan verðiði vakin og sofin í að velta fyrir ykkur ýmsu sem við kemur fyrirtækinu. Kannski með áhyggjur af fjármálunum, kannski með frábæra nýja hugmynd sem getur betrumbætt vöruna, kannski bara lausn á vandamálinu sem þið voruð akkúrat að glíma við í dag.

Þar að auki eruð þið málsvarar fyrirtækisins hvar sem þið komið, hvort sem ykkur líkar betur eða verr. Gamlar frænkur eiga eftir að þurfa útskýringar í fermingarveislum á því “hvað það er nú eiginlega sem þú gerir?” og “hvernig færðu pening fyrir það?”, það verða líka tilviljanakennd tækifæri – þið lendið óvænt í matarboði með mikilvægum fjárfesti eða draumaviðskiptavininum og þá er betra að vera með allt á tæru.

Það verða vinnutarnir þar sem ljúka þarf hlutum fyrir mikilvægan fund, sýningu eða útgáfudagsetningu. 20 tíma vinnudagar, 3 í röð, pizzur og svefngalsi, stress, læti og jafnvel rifrildi.

Einmitt þess vegna er nauðsynlegt að þetta sé gaman. Ekki bara ánægjulegt, heldur ógeðslega gaman – það skemmtilegasta sem þið getið hugsað ykkur. Og það er akkúrat það sem á eftir að ráða mestu um það hvort vel tekst til. Ef vinnan er skemmtileg kemur allt hitt meira og minna af sjálfu sér, og jafnvel þó hlutirnir gangi ekki upp var það samt skemmtilegt. Hver getur sagt nei við því 🙂

Opin gögn og gagnsæi – yfirlýsing stjórnvalda

transparencyFyrir nokkrum vikum skrifaði ég færslu á bloggsíðu DataMarket um það sem kalla mætti “vægðarlaust gagnsæi“. Færslan gengur í stuttu máli út á það að leiðin til að endurreisa traust á Íslandi – jafnt inn á við sem út á við – felist í gagnsæi og heiðarleika á áður óþekktu stigi – að sýna svo ekki verður um villst að það sé ekkert að fela.

Færslan er skrifuð á ensku og hefur vakið dálitla athygli. Hún leiddi m.a. af sér viðtal í veftímaritinu Frontier Economy þar sem farið er dýpra í saumana á sumum þeim hugmyndum sem þar voru settar fram.

Ég hef líka skrifað og beitt mér fyrir opnum gögnum í töluverðan tíma. Opin gögn snúast í stuttu máli um það að öll gögn sem safnað er eða útbúin hjá opinberum aðilum eigi að vera opin og aðgengileg öllum, án hindrana, nema brýnar ástæður séu til annars, t.d. af persónuverndar- eða öryggissjónarmiðum. Á vefnum opingogn.net má nálgast drög að íslenskri þýðingu skilgreiningar á opnum gögnum.

Í raun má segja að opin gögn og vægðarlaust gagnsæi séu tvær hliðar á sama málinu:

  • Opin gögn snúast um meðferð gagna í umsjá hins opinbera.
  • Vægðarlaust gagnsæi snýst hins um það hvort e.t.v. sé ástæða til að safna eða framreiða einhver gögn til viðbótar við það sem þegar er í þeim tilgangi sérstaklega að upplýsa um framvindu eða stöðu mála.

obama-kundraUm þessar mundir gengur yfir heiminn vitundarvakning varðandi mikilvægi opinna gagna og þá sérstaklega “formfastra gagna” (e. structured data). Mest áberandi er þessi vakning í Bandaríkjunum, en þegar á fyrstu dögum í embætti gaf Obama út skýr fyrirmæli um það að opinberar stofnanir skyldu sem allra fyrst gera gagnasöfn sín aðgengileg almenningi á vefnum, án hindrana. Hann réð jafnframt í fyrsta skipti til starfa upplýsingatæknistjóra (CIO) við stjórnina – sá heitir Vivek Kundra og hefur lyft grettistaki á stuttum tíma. Helsta birtingarmynd þess er vefsvæðið Data.gov, þar sem nú má nálgast yfir 100 þúsund gagnasöfn frá hundruðum opinberra stofnanna. Þessi gögn hafa svo bæði fjölmiðlar, fyrirtæki og áhugasamir einstaklingar notað við afar áhugaverð verkefni sem opna ný tækifæri, auka skilning á flóknum þáttum samfélagsins og veita hinu opinbera aðhald.

berners-leeÍ Bretlandi hafa báðir stóru flokkarnir markað skýra stefnu í þessa veru. Stjórnin hefur þar að auki fengið til liðs við sig engan annan en Tim Berners-Lee. Berners-Lee hefur verið kallaður “faðir vefsins” og er vel að þeim titli kominn enda bjó hann til HTML staðalinn sem allar vefsíður og þar með vefurinn allur byggir á. Berners-Lee hefur í seinni tíð verið ötull talsmaður opinna gagna og hefur sennilega betri skilning á því en flestir hversu verðmætt opið aðgengi og samtengingar gagna úr ólíkum áttum getur verið.

roslingAð lokum má nefna sænska prófessorinn Hans Rosling, sem hefur með líflegri framsetningu gagna vakið marga – ekki síst alþjóðastofnanir á borð við Sameinuðu Þjóðirnar, OECD og jafnvel Evrópusambandið – til umhugsunar og góðra verka í því að gera sín gögn aðgengilegari en verið hefur.

Fáir hafa þó meiri þörf fyrir að meðtaka þessa hugmyndafræði en einmitt trausti rúnir Íslendingar. Ég veit fyrir víst að víða er vilji og sums staðar skilningur fyrir þessum málum, en mörg nýleg dæmi sýna mikilvægi þess að ná almennum vilja, skilningi og aðgerðum á þessu máli til þess að við getum byggt hér upp heiðarlegt samfélag trausts og samstöðu.

Í ríkjandi kerfi er litið svo á að öll gögn séu trúnaðarmál nema sérstök ástæða sé til að opna þau. Þessum hugsanahætti þarf að snúa við. Gögn opinberra aðila eiga hér eftir að vera opin nema sérstök ástæða sé til að vefja þau trúnaði.

Ég gerði mér því að leik að skrifa drög að örstuttri yfirlýsingu sem ég legg hér með til að ríkisstjórnin (og reyndar aðrir opinberir aðilar, s.s. sveitarfélög) geri að sinni og fylgi svo eftir með aðgerðum:

Öll gögn í umsjón opinberra aðila skulu hér eftir vera opin og aðgengileg almenningi án hindrana, nema brýnar ástæður séu til annars. Skilgreindar verða skýrar viðmiðunarreglur um hvað teljast ástæður til hindrana með tilliti til persónuverndar, öryggissjónarmiða og annara ríkari hagsmuna. Undantekningar skulu vera vel rökstuddar og skal ekki hindra aðgang meira en til að mæta þeim rökum.

Allar stofnanir hins opinbera skulu þegar í stað birta skrá yfir þau gögn og gagnasöfn sem þær ráða yfir og gera gögn þeirra aðgengileg á því formi sem þau eru nú á. Jafnframt skal skrá gagnasöfn sem ekki er opnaður aðgangur að, tilgreina efnistök þeirra, ástæður fyrir hindrunum á aðgengi og hvenær þeim hindrunum verði aflétt. Til lengri tíma skal leitast við að gera gögnin aðgengileg á stöðluðu, tölvutæku formi sem tekur tillit til allra þátta sem kveðið er á um í skilgreiningu opinna gagna.

Stofnanir skulu einnig gera úttekt á því hvort starfsemi þeirra gefi ástæðu til að safna sérstaklega gögnum umfram það sem þegar er gert í þeim tilgangi að auka gagnsæi á starfsemi sína eða á samfélagið almennt.

Það er ekki flókið að gefa þessa yfirlýsingu, ekki dýrt að fylgja henni eftir og reyndar að miklu leiti þegar kveðið á um þessa hluti í upplýsingalögum og annari stefnumörkun sem þegar hefur átt sér stað. Núna er bara ríkari ástæða en nokkru sinni til að láta verkin tala og endurbyggja þannig traustið sem tapaðist.

Icesave-reiknir leiðréttur

Eftir ábendingu frá vökulum notanda, fundum við villu í Icesave-reikninum sem DataMarket setti í loftið í samvinnu við mbl.is í síðustu viku. Sjá fyrri færslu.

Villan gerði það að verkum að áhrif breyttrar kröfuraðar voru ofmetin í þeim tilfellum þegar endurheimtar eignir Landsbankans verða verulegar. Þetta hefur nú verið leiðrétt.

Að öðru leiti stendur reiknilíkanið óhaggað. Allar skýringar eru óbreyttar og eftir sem áður réttar.

DataMarket – sem ber ábyrgð á reikniverki Icesave-reiknisins – biðst afsökunar á þessum mistökum.

Áhrifin eru umtalsverð. Breytingin frá grunnforsendum, við það að breyta kröfuröðinni er 87,8 milljarðar króna nú í stað ríflega 200 milljarða áður. Frávik í öðrum dæmum fara – eins og segir í tilkynningunni – eftir því hve mikið af eignum Landsbankans endurheimtast.

Leiðrétting þessa efnis mun birtast á mbl.is í fyrramálið.

Þetta særir stoltið auðvitað töluvert. Ástæðuna fyrir því að þessi villa slæddist með má rekja til ónógra prófana áður en reiknirinn fór í loftið, en forsendurnar og útreikningarnir eru – eins og sjá má í útskýringum við reikninn – býsna margslungin.

Rétt skal vera rétt og við lærum af þessum mistökum.

Þróun búsetu á Íslandi

DM-iconHjá DataMarket erum við alltaf að fikra okkur áfram í meðhöndlun og framsetningu ólíkra gagna.

Áherslan hjá okkur þessa dagana er mikið á íslenskum efnahags- og þjóðfélagsgögnum, enda stefnum við á að opna svokallað Gagnatorg um íslenskan efnahag innan skamms.

Við ákváðum að æfa okkur aðeins í framsetningu landfræðilegra gagna og reyna að gera breytingum á búsetu landsmanna síðustu öldina skil.

Gögnin sem við unnum með að þessu sinni voru mannfjöldatölur eftir sveitarfélögum sem Hagstofan heldur utan um. Afraksturinn má sjá í vídeóinu hér að neðan. Hver hringur á kortinu táknar s.s. eitt sveitarfélag og stærð hans (nánar tiltekið flatarmál) fólksfjöldann. Þar sem sveitarfélög hafa bæði sundrast og sameinast á þessum tíma, segir vídeóið einnig nokkra sögu um þá þróun, ekki síst undir það síðasta, en miklar sameingar hafa átt sér stað síðasta rúma áratuginn.

Að túlka íbúafjölda sveitarfélags í einum punkti er auðvitað aldrei yfir vafa hafið og segir aðeins hálfa söguna. Reyndar dreymir okkur um að útbúa síðar annað vídeó sem segi sýni eiginlega búsetuþróun miklu nákvæmar og betur, en það þarf að bíða – a.m.k. um hríð.

Smellið á myndina hér að neðan til að opna myndbandið í fullum gæðum.

Á glænýju bloggi DataMarket má svo finna nánari upplýsingar um það hvernig myndbandið var unnið, hvaðan gögnin eru fengin, hvernig þau voru unnin og svo framvegis.

urbanization

Iceland & Energy – presentation w. John Perkins

Just finished my previously mentioned presentation on Icelandic energy data. Some 250-300 people showed up – mostly to listen to John Perkins obviously.

Interesting audience to say the least, but a lot of fun!

My DataMarket piece went well – and putting it together at least helped me put some things in perspective. The slides are included below. As before, full screen viewing is recommended. Enjoy:

Iceland & Energy: Upcoming presentation

I have been invited – on behalf of DataMarket – to give a presentation at the University of Iceland on April 6th.

The occasion is a small conference due to the visit of “Economic Hit ManJohn Perkins to Iceland. Perkins is here to attend the premiere of “Dreamland“, a documentary on the effects that large-scale energy projects – especially for aluminum smelting – have had on the Icelandic economy and society in general.

My role will be to present data on the Icelandic energy sector and try to visualize some of the developments that can be seen in this data. I’ll try to cover some of the developments the film talks about, but also the obvious benefits that an abundance of renewable energy brings. I’ve already seen several data sets that give us laymen an interesting perspective on these things.

As a teaser I include below a few slides on the history of electricity generation in Iceland associated with key milestones in the building of our power plants. Be there on April 6th for more 🙂

(Full screen viewing recommended)

Verðtrygging vs. myntkarfa

Smá DataMarket nördaskapur í morgunsárið.

Hér er búið að teikna upp þróun 10 m.kr. láns frá 1. júlí 2007 (hátindi lánabólunnar okkar) m.v. þrenns konar mismunandi forsendur:

verdtryggt-myntkarfa

ATH: Ekki er tekið tillit til afborgana eða vaxta, bara þróun á höfuðstól m.v. gefnar forsendur.

Tölurnar á bakvið þetta (og þúsundir annarra hagvísa) verða fáanlegar í Gagnatorgi um íslenskan efnahag þegar þar að kemur.

DataMarket í Silfri Egils

Á sunnudaginn var fékk ég tækifæri til þess að kynna hugmyndir okkar DataMarket fólks um gögn og gegnsæi í Silfri Egils.

Viðbrögðin hafa verið stórgóð og gaman að þetta virðist hafa fallið í góðan jarðveg. Upptöku af innlegginu má finna hér að neðan.

Því miður tapast talsvert við það minnka vídeóið svona niður, en frásögnin vegur það upp að einhverju leiti.

Gögnin sem fram komu í kynningunni verða öll fáanleg á Gagnatorgi um íslenskan efnahag, þegar við hleypum honum af stokkunum. Á vef DataMarket má skrá sig til að fá tilkynningu þegar gagnatorgið lítur dagsins ljós.

Loks má geta þess að Háskóli Íslands hefur boðið mér að flytja erindi af svipuðum toga næstkomandi mánudag. Þá gefst tími til að fara heldur dýpra í málin og vonandi líka fyrir einhverjar spurningar og svör.

Fyrirlesturinn verður öllum opinn og hefst kl. 12:30, mánudaginn 9. mars í stofu 102 á Háskólatorgi. Nánari upplýsingar.