General

Orka – lykill alls

Þetta er fyrsta færslan í röð hugleiðinga um orku- og auðlindamál sem ég er að grúska í um þessar mundir.

– –

Án orku gerist ekkert. Öll heimsins auðævi myndu ekki skila neinu ef ekki væri hægt að knýja eitthvað, færa eitthvað úr stað, byggja eitthvað, fara eitthvert. Með öðrum orðum: framkvæma einhverja vinnu. Reyndar er hægt að rekja allan kostnað, allt sem við kaupum til þess að einhver, einhversstaðar notaði orku, til dæmis til að breyta einhverju í eitthvað annað, eða færa eitthvað úr stað. Þetta er býsna áhugaverður punktur sem gefur t.d. hugmyndum um gjaldmiðla á “orkufæti” mjög aukna vigt. Við komum kannski aftur að því síðar.

Hvaðan kemur orkan?

Við höfum öll heyrt þetta: Öll orka á jörðinni kemur frá sólinni. Undantekningarnar eru (eiginlega) bara tvær: Kjarnorka og jarðhiti. Að auki má reyndar rekja sjávarfallaorku meira til áhrifa tunglsins en sólarinnar. Ekkert af þessu skiptir sem stendur verulegu máli í orkumálum heimsbygðarinnar. Kjarnorka er reyndar notuð til að framleiða um 13,6% af raforku heimsins, en jarðhitaorka kemst varla á blað í raforkubúskap heimsins. Hvað þá sjávarfallaorkan. Alla aðra orkugjafa sem við notum má rekja til sólarinnar: lífmassa (eldivið og annað lífrænt eldsneyti), jarðefnaeldsneyti (olía, gas og kol), vatnsorku, vindorku og augljóslega sólarorku. Þessa orku notkum við svo til að knýja öll okkar tæki og tól, hita húsin okkar, elda matinn og svo framvegis.

Miklu af orkunni sem við framleiðum er breytt í rafmagn, enda er rafmagnið þægilegur og fjölhæfur flutnings- og umbreytingarmiðill fyrir orku. Rafmagn er hins vegar mjög erfitt að geyma, nema þá í mjög litlu magni og því þarf að framleiða það jafnóðum og þess er neytt. Þetta gerir það að verkum að orkugjafar eru mjög mishentugir til að framleiða raforku. Þannig getum við t.d. geymt kolaorku (sem kol) eða vatnsfallsorku (sem vatn í lóni), en ekki vindorku eða sjávarfallaorku, sem þarf að grípa þegar hún gefst. Raforku er líka erfitt að flytja um langan veg þar sem orkutap er verulegt þegar flytja þarf orkuna um lengri veg. Raforkan er því ekki aðeins tímabundin, heldur er hún líka staðbundin og þar komum við reyndar að mjög mikilvægum punkti.

Staðbundin orka vs. færanleg

Það er gríðarlega mikið til af orkugjöfum sem hægt væri að virkja með einum eða öðrum hætti. Vindorka og sjávarfallaorka er nánast ótakmörkuð, svo ekki sé talað um sólarorkuna. Það væri t.d. hægt að framleiða alla þá orku sem heimsbyggðin notar í dag með tiltölulega “litlum” bletti af sólarspeglum (rétt um 366þús km2) ef við hefðum tæknina til að flytja og nýta þá orku hvar sem er í heiminum. Svipaða sögu er að segja um aðra orkugjafa. Ókosturinn er bara sá að flestar þessar stóru orkulindir eru fjarri mannabyggðum. Staðir þar sem er stöðugt sólskin eða endalaust hvassviðri eru almennt slæmir til búsetu. Þess vegna er stundum talað um “strandaða” orku. Nóg af henni, en hún er á afviknum stað sem gerir hana illnýtanlega. Það sama er reyndar að segja um stærstu uppsprettur jarðefnaeldsneytis. Flest stærstu olíu-, gas- og kolasvæði heims eru í eyðimörkum, frumskógum eða heimskautasvæðum og fjarri þéttustu byggðum jarðarinnar. Gas er til í gríðarlegu magni, en er erfitt að flytja. Það er því hálf-strandað líka, þó það sé flutt í verulegu magni eftir leiðslum í Evrópu, í N-Ameríku og í Asíu. Reyndar er gas víða brennt þar sem það kemur upp, t.d. við olíuvinnslu þar sem ekki eru tök á að virkja það eða leggja leiðslur að (þess má reyndar geta að þessi bruni er illskárri en að láta gasið fara óbrunnið út í andrúmsloftið með tilliti til mengunar og losunar gróðurhúsalofttegunda).

Kol eru til í enn meira magni – miklu meira en við gætum klárað í fyrirsjánlegri framtíð. Þau má flytja – en “orkuþéttnin” í þeim er ekki mjög mikil, þ.e. úr hverju tonni af kolum fæst miklu minni orka en úr sama magni af t.d. olíu. Það er því óhagkvæmt að flytja kol um langan veg, þó það sé gert í miklum mæli t.d. innan einstakra landa.

Olían er einstök

Allt þetta gerir það að verkum að olían er algerlega einstök. Fljótandi formið gerir hana meðfærilega og orkuþéttnin gerir það að verkum að það er hagkvæmt að sigla henni yfir hálfan hnöttinn og brenna hana þar. Orkuþéttnin gerir það líka að verkum að hún er nánast eini orkugjafinn sem er nothæfur til að knýja farartæki. Undantekningin er í lestarflutningum þar sem menn hafa notað raforku með góðum árangri og nú hillir loks undir það að rafbílar geti orðið samkeppnishæfir við bíla sem knúnir eru með olíu. En þar koma þó inn önnur atriði sem við munum skoða betur í málma- og jarðefnafærslunni. Engar raunhæfar tillögur eru þó á borðinu um staðgengil fyrir olíuna í flugi. Það er aðeins lífefnaeldsneyti (t.d. etanól framleitt úr sykurreyr) sem stenst olíu að einhverju leiti snúning, en það eru margvíslegar hömlur á stórkostlegri framleiðslu á slíku eldsneyti.

Olía er mikilvægasti orkugjafi veraldarinnar og það er lítið útlit fyrir að það sé að breytast í bráð. En það stórt vandamál við olíuna: Hún er að klárast!

Þetta þarf reyndar svolítilla skýringa við. Það er ekki alveg rétt að olían sé að klárast. Það verður hins vegar alltaf erfiðara og erfiðara að vinna hana. Auðunnin olía í heiminum er að klárast. Þess vegna sækja olíufyrirtækin sífellt á erfiðari svæði við olíuvinnslu. Við fengum rækilega áminningu um það þegar sprenging varð undir borpallinum Deepwater Horizon fyrr á þessu ári. Borholan sú er 400 kílómetra frá landi, á 1,2 kílómetra dýpi og þaðan nær hún nærri 11 kílómetra niður í jarðskorpuna. Samtals borað í gegnum 12 kílómetra af efni úti á ballarhafi og til hvers? Jú – til að komast í olíulind sem samsvarar notkun heimsbyggðarinnar á olíu í innan við einn sólarhring! (Macondo borholan var talin geta gefið af sér um 50 milljón tunnur af olíu, heimsnotkun er í kringum 84 milljónir tunna á dag)! Það er hellingur til af svona olíu, en það er líka töluvert fyrir haft. Enn meiri olíu má svo finna í olíusandi og jafnvel olíugrjóti sem finnst t.d. í miklu magni í Kanada, Bandaríkjunum og allvíða í S-Ameríku. Slík vinnsla er gríðarlega orkufrek. Til að vinna þrjú tonn af olíu úr tiltölulega aðgengilegum Kanadískum olíusandi þarf að brenna eitt tonn af olíu. Og smám saman versnar þetta hlutfall.

Það eru líka alvarleg vandamál við þann hluta olíubirgðanna sem þó er auðunninn, en þau eru af allt öðrum toga. Pólitísk. Sádí-Arabía, Íran, Írak, Sameinuðu-Arabísku furstadæmin, Kúvæt, Venesúela, Rússland, Líbýa og Nígería eru ekki endilega lönd sem eru þekkt fyrir pólitískan stöðugleika. Þetta eru þau lönd (í réttri röð) sem ráða yfir stærstum hluta olíubirgða heimsins – reyndar að frátöldu Kanada sem vermir annað sæti listans á eftir Sádunum. Olíunni fylgja auðæfi, auðæfum fylgja völd, völdum fylgir spilling og það er erfitt að sjá fyrir sér hvað hinir háu herrar í þessum löndum munu taka sér fyrir hendur. Eins er áhugavert að velta fyrir sér hvað gerist þegar ríki sér fram á að olían þeirra sé að verða uppurin. Hvenær ákveðurðu að hætta að flytja út og geyma “restina” til eigin nota? Eða til að selja enn dýrar í framtíðinni? Slíkt hefur þegar gerst í Dúbaí, þar sem furstarnir sáu fram á að geta gert meiri og varanlegari verðmæti með því að nota olíuna sjálfir, en með þvi að flytja hana út. Þeir drógu því stórlega úr útflutningi og lögðu áherslu á að nota orkuna í uppbygingu heima fyrir og að auka fjölbreitni í efnahagslífinu. Hvað ef Venesúela kemst að sömu niðurstöðu? Eða Sádí-Arabía? Þá fyrst verður Bandaríski flotinn nú kallaður út!

Og hvað svo?

Allt þetta ber að sama brunni. Langflestum spám ber saman um það að hámarki olíuframleiðslu í heiminum verði náð á næstu 20-30 árum og muni þá fara að dragast saman. Hafi engin stórkostleg ný tækni komið fram á þeim tíma sem geri kleift að nota orku frá öðrum orkugjöfum til flutninga, er ljóst að olíuverð mun þar eftir (og líklega mun fyrr) bara stefna í eina átt – upp. Þetta gildir sömuleiðis um allt sem þarfnast flutninga, sem í tilfelli Íslands er ansi stór hluti af öllu því sem við neytum og notum: allt kemur þetta til með að verða dýrara með hækkandi olíuverði.

Þegar horft er á svartsýnar spár er samt alltaf gott að muna eftir hestaskítskrísunni 1894. Lærdómurinn sem draga má af henni er auðvitað sá að hversu nákvæmlega sem spár eru framreiknaðar, þá verða alltaf óvæntir atburðir sem kollvarpa þeim. Í tilfelli hestaskítsins hætti hann að aukast þegar bílar komu í stað hestvagna.

En jafnvel þó slíkt gerist í tilfelli olíunnar og ný tækni komi fram á þessum tíma sem gæti mætt þessu vandamáli, þá þarf að byggja upp framleiðslugetu, flutningsnet og aðra innviði til að mæta þessari tilfærslu í orkuframleiðslu og -notkun. Þetta er gríðarlegt verkefni, líklega stærsta fjárfestingaverkefni sögunar – og við vitum ekki einu sinni enn þá í hverju á að fjárfesta.

Að ekki sé talað um þann pólitíska óróa sem myndast þegar valdahlutföllin raskast, á hvaða veg svo sem það nú verður. Aðgangur og yfirráð yfir olíuauðlindum skýra ótrúlegustu hluti í sögu 20. aldar, þ.á.m. herfræði og fall Þýskalands í seinni heimstyrjöldinni, afskipti Vesturlanda af málum í miðausturlöndum, hið sérkennilega samband Bandaríkjanna og Sádí-Arabíu og nú síðast kapphlaup og deilur um yfirráð yfir Norðurheimskautssvæðinu. Aðgangur og yfirráð yfir orkuauðlindum munu líklega líka skýra flesta stærstu atburði í sögu 21. aldarinnar.

Þetta verður rússíbani, höldum okkur fast…

Af mótmælum, ímyndarmálum og skrílslátum

Uppfært: Ég er Appelsínugulur.

Ég er sammála meginkröfum mótmælenda:

 • Ríkisstjórnin þarf að víkja
 • Stjórn og stjórnendur Seðlabanka og Fjármálaeftirlits þurfa að víkja
 • Boða þarf til kosninga sem fyrst

Framan af keypti ég þau rök að ekki væri rétt að “skipta um hest í miðri á”; að betra væri að hafa sitjandi stjórn við völd og leyfa henni að vinna sig út úr stöðunni í krafti þekkingar sinnar á aðstæðum en að nýtt fólk þyrfti að setja sig inn í stöðuna – hversu alvarleg svo sem mistök fyrri stjórnar voru.

Síðan þá hefur sýnt sig að það er ekkert plan. Sitjandi stjórn veit ekkert hvernig hún ætlar upp úr ánni og öslar hana miðja með bægslagangi og látum. Sé eitthvað plan í gangi, eru viðkomandi a.m.k. fullkomlega vanhæf um að miðla því hvert það plan er og efla trú innan lands eða utan á því að hér sé verið að vinna gott starf. Þessi skortur á miðlunarhæfileikum er í raun einn og sér nóg ástæða til að stjórnin þurfi að víkja, enda er það mikilvægasta í stöðunni að sýna að það sé eitthvað plan, að viðurkenna mistök, leita ráða hjá sér hæfara fólki og miðla þessum aðgerðum með almenningi.

Geir Haarde á að vera í sjónvarpinu í klukkutíma á hverjum mánudegi að segja okkur hvað planið er fyrir vikuna, hvaða nýju upplýsingar liggi nú fyrir, hverju hafi orðið ágengt, hvað hafi mistekist og hvernig sé verið að taka á því: Staða lýðveldisins.

Fyrir tækninördana mætti eiginlega segja að það þurfi að Scrum-a sig út úr ástandinu.

Ef boðað verður til kosninga þarf að gera það með óvenjulegum hætti. Við megum ekki við því að missa vikur eða mánuði á mikilvægustu stundum lýðveldisins í það að menn fari að heyja kosningabaráttu og ástandi versni enn hraðar með engan við stýrið. Satt best að segja held ég að það verði að finna leið til að koma á neyðarstjórn hæfra, ópólitískra (eða a.m.k. þverpólitískra) manna og kvenna á meðan kosningar eru undirbúnar. Hver sú leið er veit ég ekki enn.

Til að byggja upp traust má svo enginn koma að nýrri stjórn eða stofnunum Ríkisins hér eftir af þeim sem sannarlega má segja að hafi verið á vakt yfir þeim hlutum sem úrskeiðis fóru. Þar á meðal eru:

 • Geir H. Haarde sem forsætisráðherra á vakt og “Direktören for det hele”
 • Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sem leiðtogi í stjórnarsamstarfinu og ábyrg fyrir því
 • Árni Mathiesen sem fjármálaráðherra á vakt í versta efnahagshruni Vesturlanda í seinni tíð
 • Björgvin G. Sigurðsson sem viðskiptaráðherra á sömu vakt
 • Davíð Oddsson sem Seðlabankastjóri á sömu vakt, maðurinn sem sá allt fyrir en gerði samt ekkert í því
 • Eiríkur Guðnason og Ingimundur Friðriksson sem Seðlabankastjórar á sömu vakt
 • Jón Sigurðsson og Jónas Fr. Jónsson sem stjórnendur Fjármálaeftirlitsins sem sáu ekki á mælana meðan allt fór til fjandans
 • Aðrir stjórnarmenn Fjármálaeftirlitsins og fulltrúar í bankaráði Seðlabankans

Þetta er svo ekki tæmandi listi og er ekki í neinni sérstakri röð eftir eðli eða mikilvægi ábyrgðar.

Þrátt fyrir ofansagt, þá getur og má stjórnin ekki segja af sér eftir atburði eins og þá sem urðu í gær.

Ég VEIT að flestir mótmælendur höguðu sér vel og meintu vel, en það er líka staðreynd að þarna var allnokkur hópur fólks sem gekk fram með ofbeldi og skemmdarverkum og ögraði lögreglunni vísvitandi. Sökum slagsíðu sem alltaf er á fréttaflutningi virðist þetta án efa stærri hluti og alvarlegri en í raun var, en það breytir engu. Við viljum ekki eyðileggja ímynd okkar sem þjóðar enn meira en orðið er með því að láta líta út sem svo að við séum þjóð sem kemur stjórnvöldum frá með ofbeldi. Burtséð frá öllum staðreyndum málsins verður það sú mynd sem dregin verður upp í fjölmiðlum heimsins ef myndefni gærdagsins er sett í samhengi við það að ríkisstjórnin fari frá í dag. Ég tala nú ekki um ef þessi atburðarás vindur enn frekar upp á sig.

Við erum í nógu slæmum málum ímyndarlega – pössum okkur!

Það sem þarf eru fjölmenn, friðsöm mótmæli með skýrar kröfur.

Ég er tilbúinn að mæta til að leggja áherslu á ofansagt, en ég get ekki staðið undir því – í orðsins fyllstu merkingu – að einu sinni lítill hluti hópsins vaði uppi með þeim hætti sem sást í gær. Þá þarf ég að fara. Ég veit að það eru margir sem eru samstíga mér í þessu.

Því segi ég við mótmælendur: Fleiri og fleiri munu mæta og leggja málstað ykkar lið því fleiri klukkustundir og svo dagar líða án þess að til átaka eða skemmdarverka komi. Þetta tekur innan við viku.

Væri ekki áhrifaríkt að sjá ríkisstjórnina víkja undir tugum þúsunda þögulla, alvarlegra og yfirvegaðra mótmælenda? Væru það ekki góð skilaboð frá okkur um að Næsta Ísland verði byggt og stjórnað af skynsömu og vel meinandi fólki?

Gjaldeyrishöft og gengismál

Tveir punktar sem hafa skotið sér í kollinn á mér síðustu daga:

 • Gjaldeyrisreglur Seðlabankans: Stjórnvöld eru komin á það stig að búa til reglurnar “as they go along”. Villi var duglegur um helgina – fyrir hönd Verne og CCP – að benda á skaðsemi þessarra reglna fyrir sprotastarfsemi og erlendar fjárfestingar (nokkuð sem við þurfum einmitt nú frekar en nokkru sinni). Þessu var svarað með fundi í gær þar sem fram kom – samkvæmt fréttum“að gjaldeyrisreglurnar hefti ekki beina erlenda fjárfestingu. Túlkun Seðlabanka sé sú að bein erlend fjárfesting sé kaup á 10% eignarhlutur eða meira. Þetta þýðir að fyrirtæki hér geta fengið útlendinga til að fjárfesta í rekstrinum, ef eignarhlutur þeirra fer yfir 10%.”

  Ég er ekki að skálda þetta! Hvað gengur mönnum til? Í fyrsta lagi er ómögulegt að túlka orðanna hljóðan í reglum Seðlabankans á þennan veg. Þennan skilning fá aðeins þeir sem fara á fund hjá Seðlabanka og Viðskiptaráðherra og þá bara í orði eða hvað? Og hver eru rökin fyrir því að útlendingar megi eiga meira en 10% en ekki minna? Hvað ef þeir kaupa 15%, en svo minnkar eignahlutur þeirra síðar? Af hverju 10%? Þessu fylgja engin rök og erfitt einu sinni að ímynda sér hver þau gætu verið. Voru þeir ekki búnir að frétta að við “…kind of need the money”?

  Stærsti skaðinn af þessum gjörningi er samt sá að nú er orðið greinilegt að stjórnvöld eru komin í þann ham að þeim er trúandi til að setja hvaða reglur sem er, hvenær sem er og túlka þær svo eftir hentugleika. Undir slíkum kringumstæðum munu erlendir fjárfestar forðast Ísland eins og heitan eldinn og var nú nóg samt.

  Ég hef verið að vinna í tveimur verkefnum sem þetta hefur bein áhrif á. Nýja fyrirtækið mitt – DataMarket – mun reyndar ekki þurfa að sækja sér erlent fjármagn fyrr en líður á næsta ár, en ég óttast mjög skaðsemi þessa hringlandaháttar þá ef ekki verður búið að gerbreyta hér stjórn og skipulagi. Ég mun þurfa að íhuga mjög alvarlega að setja það upp sem erlent félag – og mig sem langar ekkert meira en að hjálpa til við að moka.

  Hitt er að ég hef verið að kynna Bandarískum fjárfestum á sviði endurnýjanlegra orkugjafa ýmis tækifæri hér. Þeir komu hér í nokkurra daga heimsókn fyrir fáum vikum síðan og sýndu ýmsum tækifærum áhuga. Uppbyggilegum tækifærum í fyrirtækjum sem þurfa að fjármagna umtalsverðar framkvæmdir á næstu árum. Við erum að fylgja þessum málum eftir núna, en ég get fullyrt að þetta rugl er ekki til að auka líkurnar á því að eitthvað verði af þeim plönum.

  Mynduð þið fjárfesta í Bólivíu ef stjórnvöld væru nýbúin að frysta peningalegar eignir útlendinga í landinu, jafnvel þó þau væru náðasamlega til í að túlka reglur sínar ykkur í hag eða veita ykkur undanþágu, a.m.k. á meðan þeim þóknast?

  Hélt ekki! En þetta er einmitt ímyndin sem tókst að búa til með laga- og reglusetningu síðustu viku. Glæsilegt alveg.

 • Lausn á krónuflóttanum? Áðurnefndar reglur eru settar til að reyna að koma í veg fyrir að gengi krónunnar falli eins og steinn við fleytinguna. Þó svo að segja öllum beri saman um að raungengi krónunnar (m.t.t. til vöruskiptajöfnuðar) sé tugum prósenta sterkara en það er nú (sjá áður í færslunni Greiningadeild Hjalla), þá gæti algert hrun nú gert það að verkum að fjármagnsflóttinn yrði enn meiri og orðið erfiðara að komast í styrkingarferli aftur. Ástæða lagasetningarinnar er því vel skiljanleg.

  Ég velti þó fyrir mér annarri leið. “Hræddustu krónurnar” eru krónur sem erlendir aðilar sem eiga í skuldabréfum hér á landi – jöklabréfin svokölluðu. Upphæð þessarra bréfa er í kringum 400 milljarðar króna. Af þeim er einhver hluti – segjum 200 milljarðar – sem munu fara um leið og þeir geta losað eitthvað af þessum fjármunum, nánast algerlega óháð gengi krónunnar eða verðinu sem þeir fá fyrir skuldabréfin. Þeir myndu ýkjulaust vera sáttir við að fá dollara fyrir krónur á genginu 250 og afar lélega ávöxtun á bréfunum sjálfum, líklega neikvæða. Að komast út með 20-25% af upphaflegri fjárfestingu myndu þeir túlka sem árangur. Þeir eru hræddir, þurfa að nota peninginn í annað og hafa engar forsendur eða aðstöðu til að meta eða nýta sér það hvort gengi krónunnar verði sterkara eftir 2 mánuði, hálft ár eða 3 ár. Þeir ætla bara að fara.

  Á móti eru svo aðilar sem hafa miklu meira innsæi í íslenskan fjármálamarkað og skilning á því hvernig gengið eigi eftir að þróast, sem eiga í dag eignir í erlendri mynt. Augljósasta dæmið eru lífeyrissjóðirnir. Eignir þeirra erlendis nema líklega um 5 milljörðum dollara (+/- milljarður til eða frá). Lífeyrissjóðirnir – og aðrir í svipaðri stöðu – gætu gert alger kostakaup núna. Samið um að kaupa hræddu krónurnar á genginu 200-250 á móti dollara og fengið um leið óviðjafnanlega ávöxtun á skuldabréfin þar sem verið væri að selja þau með verulegum afföllum. Á genginu 200 myndi þetta ekki kosta nema 1 milljarð dollara. Þó gengið myndi ekki síga nema í 110 aftur (margir trúa að 90 sé nær lagi) á næstu tveimur árum, er ljóst að kaupendurnir myndu fara hlæjandi alla leið í bankann með þennan díl.

  Og ekki nóg með það, þeir myndu á sama tíma lýsa trausti á að íslenska hagkerfið muni braggast og líklega mynda snöggan og snarpan botn í gengiskúrfuna sem marka myndi upphaf styrkingarferils hennar.

  Hvar er villan í þessu hjá mér?

Nýsköpun í Silfri Egils

Ég fékk tækifæri til að koma að nokkrum orðum um nýsköpun og uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs í Silfri Egils í dag.

Hér að neðan er upptaka af spjallinu.

P.S. Ég vona að RÚV sjái í gegnum fingur sér með að það er klárlega brot á höfundarrétti að setja efni frá þeim á YouTube. Það er bara ekki alveg nógu aðgengilegt að vísa á efni á þeirra eigin vef: Upptökur af Silfri dagsins á vef RÚV.

Svona verður Næsta Ísland

new-futureEin birtingarmynd kraftsins sem hefur verið leystur úr læðingi síðustu vikur er sú að almenn umræða er hætt að snúast um efnistökin í Séð og Heyrt og farin að snúast um stóru málin – málin sem skipta máli:

Hvernig viljum við hafa Næsta Ísland? Hvernig vinnum við okkur útúr núverandi ástandi? Hvernig á að stjórna landinu? Og hver á að gera það?

Ég hef tekið þátt í ótal samræðum um öll þessi mál síðustu vikur og tók af því tilefni saman nokkra áhugaverða punkta sem ég get sagt með nokkurri vissu að ég vilji sjá einkenna Næsta Ísland:

 • Besta mögulega umhverfi til nýsköpunar. Í slíku umhverfi byggist upp fjölbreytt atvinnulíf og útflutningstekjur okkar munu ekki standa lengur á aðeins 3-4 stoðum, heldur 10-20. Í þessu umhverfi felst m.a. einfalt og hagstætt skattkerfi, einföld fyrirtækjalöggjöf, öflugt stuðningskerfi, hvatar til áhættufjárfestinga o.fl. Sjá nánar í færslunni Af hverju nýsköpun? og á nyskopun.org.
 • Gjaldmiðill sem hefur verðgildi víðar en á Íslandi. Þetta er aðeins hægt með upptöku annars gjaldmiðils eða með því að setja traustan fót – s.s. gull – undir krónuna (sem NB er varla mögulegt úr þessu). Hugmyndir um einhliða upptöku Evru eru áhugaverðar, en líklega snúnari en gefið hefur verið í skyn. Fleytingu krónunnar með baklandi í stóru erlendu láni þarf að fylgja skýr áætlun um það hvernig gjaldeyrismálum verði háttað í framtíðinni. Slík áætlun gæti t.d. falið í sér að stefnt sé að upptöku annars gjaldmiðils innan 5 ára og hvernig gengi við þau skipti verði ákvarðað. Ég hef áður sett fram spádóm um gengi krónunnar eftir fleytingu, og hér er spádómur frá mér fróðari manni um málið.
 • Fagfólk í stöður ráðherra og helstu embættismanna. Þetta mætti t.a.m. gera á eftirfarandi hátt: Auglýst yrði eftir umsækjendum í stöðurnar. Nefndir fagfólks í hverju málefni (t.d. leiðtogar fyrirtækja og stofnana í viðkomandi greinum) myndu meta hæfi umsækjendanna og ef fleiri en einn er talinn jafnhæfastur eða -hæfust til verksins, kýs Alþingi milli þeirra. Alþingi, sem vinnuveitandi þeirra, getur svo sett viðkomandi af þyki hann eða hún ekki hafa staðið sig. Með þessu fæst líka nokkuð heilbrigður aðskilnaður alþingis og ríkisstjórnar. Á móti mætti fækka Alþingismönnum um 20.
 • Öll lög hafi “síðasta söludag”. Tryggt sé að öll lög komi til endurskoðunar ekki sjaldnar en á 10 ára fresti. Til athugunar sé hvort þau eigi enn rétt á sér eða megi að öðrum kosti bæta m.t.t. breyttra tíma. Svona má m.a. tryggja að löggjöfin taki tillit til tækninýjunga, breytinga í alþjóðaumhverfi o.s.frv.
 • Settur sé óháður verkefnastjóri yfir Alþingi. Verkefnastjórinn setur niður dagskrá ársins gróflega í upphafi árs og raðar svo nákvæmri dagskrá innan viku og dags. Enginn starfsmaður (les: alþingismaður) fær að fara heim fyrr en vinnu er lokið. Séu markmið ekki að nást, er það hins óháða verkefnisstjóra að meta mikilvægi og forgangsraða málum. Þingmenn eða flokkar mættu jafnvel fá fastan fjölda “mikilvægispunkta” sem þeir mega dreifa á sín mál yfir árið til að hafa áhrif á það hvaða mál eru tekin fyrir.
 • Landið allt eitt kjördæmi, ekkert lágmarksfylgi og röðun á kjörseðli. Kjördæmaskipanin tryggir jafnt vægi atkvæða og dregur úr kjördæmapoti (sem þá myndi líklega fá heitið “svæðapot”). Forgangsröðun á kjörseðli í stað þess að aðeins einum flokki sé greitt atkvæði (sjá t.d. löggjöf um þingkosningar í Ástralíu), hindrar öfgaöfl í að komast að, en afnám lágmarksfylgis tryggir á sama tíma að “litlar raddir” fá málsvara á þingi ef kjósendum þykir næg ástæða til.
 • Stóraukið gegnsæi í fjármálakerfinu. Skráning skulda- eða hlutabréfa á markað setji kröfur um fullkomið gagnsæi á rauntímaupplýsingum úr bókhaldi viðkomandi fyrirtækja. Þetta skapar þeim markað til að sækja sér fé, en gefur fjármagnseigendunum – í krafti hópsins – kleift að fylgjast grannt með stöðu fyrirtækjanna. Sama myndi gilda um sjóði, s.s. peningamarkaðssjóði, lífeyrissjóði eða aðra gjörninga sem mynda “strúktúra” ofan á markaðinn. Árs- og ársfjórðungsuppgjör eru úrelt fyrirbæri – rauntímaupplýsingagjöf er krafa nútímans. Ég hef áður skrifað um þetta í færslunni Framtíð viðskipta: Opið bókhald og fullkomið gegnsæi.
 • Stóraukið gegnsæi í fjármálum hins opinbera. Opið kerfi þar sem hver sem er getur skoðað, ekki bara samantekna liði í fjárlögum og rekstri, heldur kafað alveg niður í hverja einustu færslu hins opinbera og meðfylgjandi skýringar. Þetta tryggir frábært aðhald og dregur úr pólitískri fyrirgreiðslu af almannafé. Framsetningin á þessu gæti verið “glorified” útgáfa af framsetningu DataMarket á Fjárlagafrumvarpinu – þar sem hægt væri að kafa dýpra, sjá nánara niðurbrot, skoða fjármál einstakra stofnana og skýringar með öllu saman.
 • Öll samskipti við hið opinbera geti farið fram rafrænt. Þetta yrði ekki bara í formi vefsíðu, eins og við eigum t.d. að venjast með skattframtalið, heldur eiga bókhaldskerfi og önnur kerfi að geta tengst með sjálfvirkum hætti – með tímanum mætti jafnvel krefjast þess. Sjá bloggfærslu um “The Government API” sem ég skrifaði í fyrra. Þetta eykur skilvirkni, minnkar tvíverknað, fækkar villum og gerir – tvinnað saman við gagnsæiskröfurnar hér á undan – hverskyns undanskot afar erfið.
 • Skynsemi við ráðstöfun takmarkaðra auðlinda. Orkan, fiskurinn, andrúmsloftið og náttúran eru takmarkaðar, verðmætar auðlindir. Þær er rétt að nýta, en af skynsemi. Við hverja ráðstöfun á þessum gæðum, þarf að vega og meta ávinning á móti ókostum. Orkumálin eru þarna hvað umdeildust. Það er jafn vitlaust að vilja ekkert virkja framar eins og það er að vilja virkja allt sem virkjanlegt er. Okkar hagur er að sem mest fáist fyrir orkuna og ekki sé fórnað meiri hagsmunum fyrir minni. Þannig er augljóslega betra að fá marga meðalstóra kaupendur að orku – s.s. rannsóknagróðurhús, vélabú eða álþynnuverksmiðjur – en fáa stóra. Virðisauki samhliða orkusölunni er lykilatriði. Með tilliti til áherslu á fjölbreytni í atvinnulífi eru fleiri álver orðin hættuleg – eggin, körfurnar og allt það. Umfram allt þarf orkusala að fara fram á opnum markaði þar sem verð eru opinber og jafnræði gildir við tilboðsgerð.
 • Afnám hverskyns hindrana á vöruflutningum. Tollar, innflutningsgjöld og niðurgreiðslur ákveðinna framleiðslugreina búa til ójafnvægi sem býr til undarlega hvata og kemur í veg fyrir að við nýtum með besta hætti vinnuafl, landrými, fjármagn og verkvit í heiminum. Grænmetisrækt á Íslandi er því aðeins góð hugmynd að lágt orkuverð hér vegi upp kostnað við gróðurhús og mæti samt flutningskostnaði erlendis frá. Landbúnaður hér ætti að vera takmarkaður við þær greinar sem standast samkeppni við innfluttar vörur í gæðum og verði, eða eiga erindi á alþjóðamarkaði í samkeppni við erlendar vörur þar. Ég efast um að verksmiðjuframleiðsla á borð við svína- og kjúklingarækt geri það, en íslenskt kindakjöt er aftur á móti villibráð og þarf að koma á markað sem sem slíkri: munaðarvara í samkeppni við franska gæsalifur, rússneskan kavíar og lapplenskt hreindýrakjöt. Tollar og gjöld á vörur á borð við raftæki og neysluvörur eru hrein tímaskekkja.
 • Afnám hindrana á fjármagnsflutninga og eignarhald. Eignarhald einkaaðila ætti aldrei að takmarka við ákveðið þjóðerni. Viljum við (íslenska þjóðin) halda yfirráðum yfir ákveðnum auðlindum, eiga þær að vera í eigu ríksins, en nýtingarréttinn má leigja eða selja á opnum markaði. Með þessum hætti fáum við hingað erlent fjármagn í þær framkvæmdir eða verkefni sem okkur gætu reynst ofviða, aukum líkurnar á áhættufjármagni í greinum eins og orku eða sjávarútvegi og aukum samkeppni um þessar auðlindir sem leiðir af sér hærri tekjur til þjóðarbúsins.

Ég geri mér grein fyrir að margt af ofantöldu þarf að nálgast af varfærni. Sumt mun taka allmörg ár að færa til betri vegar og í mörgum tilfellum verður þörf á sérstökum aðgerðum til að gera umbreytinguna sem sársaukalausasta.

Ég tek öllum góðum rökum gegn þessum hugmyndum og áskil mér fullan rétt til að skipta um skoðun í ljósi slíkra, en tel þó að ofangreint standist allharða rökræðu.

Af hverju nýsköpun?

Þessa dagana er mikið talað um nýsköpun og hvernig hún sé lykillinn að því að byggja hér upp fjölbreytt og kraftmikið atvinnulíf eftir hrun bankanna. Sjálfur hef ég beitt mér töluvert í þessa veru með skrifum og grasrótarvinnu (1 | 2 | 3 | 4 | 5).

En af hverju nýsköpun? Er nýsköpun ekki bara næsta bóla sem mun svo enda á að springa framan í okkur með jafn háum hvelli og síldin 68, fiskeldið á níunda áratugnum, dotcom-bólan um aldamótin eða bankabólan 2008?

Svarið við þessu er sáraeinfalt og blákalt: Nei

Ástæðan: Með öflugri nýsköpun (sjá skilgreiningu) stuðlum við að fjölbreytileika. Í stað þess að gera eitthvað eitt – eins og okkur hættir augljóslega til að gera – gerum við margt og með því að gera nógu margt og nógu ólíkt, verðum við ekki lengur háð áföllum eða hörmungum sem dynja yfir einstakar greinar. Áfram erum við jú háð hagkerfi heimsins – það fær enginn flúið – en þar stöndum við einfaldlega ótrúlega vel að vígi með gjöful fiskimið, ódýra og umhverfisvæna orkugjafa og góða grunninnviði svo sem í fjarskipta- og samgöngukerfum.

Í staðinn fyrir eina stóra bólu sem springur með hvelli þegar á hana er stungið, verður atvinnulíf sem byggir á fjölbreyttri nýsköpun meira eins og bóluplast: hver lítil bóla getur sprungið án þess að allar hinar missi loft í leiðinni.

Þetta er mikilvægt að hafa í huga bæði til skemmri tíma og lengri. Það er freistandi að leita stórra skyndilausna, en hið rétta er að leita leiða til að skapa það umhverfi sem best getur gripið bæði stór og smá tækifæri.

Fólk virðist oft gleyma að í 100 fjögurra manna fyrirtækjum eru jafn mörg störf og í einu 400 manna fyrirtæki. Munurinn er sá að 100 fjögurra manna fyrirtæki verða svo að tíu 50 manna fyrirtækjum og mögulega að einni “súperstjörnu” með mörg hundruð stafsmenn.

Í réttu umhverfi fá réttu hugmyndirnar að vaxa og dafna og verða að verða að stórum og kraftmiklum fyrirtækjum og þær sem á einhvern hátt eru ófullkomnar (9 af hverjum 10) deyja drottni sínum. Reynslan af mistökunum og þekkingin sem byggð var upp hjá þeim sem ekki “meika það” skilar sér hins vegar aftur inn í umhverfið og eykur líkurnar á því að næstu tilraunir beri árangur.

Ekkert af ofansögðu útilokar aðra kosti, s.s. orkufrekan iðnað á borð við álver – satt best að segja fellur slíkt í mörgum tilfellum undir nýsköpun að hluta eða heild. Hins vegar þarf að vega og meta hvert tækifæri á móti þremur þáttum:

 • Þeim takmörkuðu auðlindum sem fyrir hendi eru, s.s.: orku, vatni, ósnortinni náttúru, mannafla o.s.frv.
 • Verðmætunum sem fást á móti nýtingu þessarra auðlinda.
 • Fjölbreytileika í heildarsamsetningu atvinnulífsins. Þetta er punkturinn frægi með eggin og körfurnar – og við erum vonandi búin að læra af reynslunni í þeim efnum.

Það getur vel verið að orkufrekur iðnaður skori á einhverjum tíma hæst á þessu prófi. Hann gerði það nánast örugglega á sínum tíma, þegar ákvörðun var tekin um að reisa álverið í Straumsvík. En það er engan veginn augljóst núna.

Hvað þarf þá að gera?
Til að svara einmitt þessari spurningu, hefur verið opnaður vettvangurinn Nýsköpun.org.

Markmið þessa vettvangs er að stuðla að því að á Íslandi verði besta hugsanlega umhverfi til nýsköpunar. Vefurinn er ekki settur fram í nafni neinnar stofnunar eða samtaka, heldur sem opinn vettvangur sem allir sem hafa áhuga á að þetta markmið verði að veruleika geta hjálpað til við að byggja upp. Samhliða þessu hefur líka verið sett upp samnefnt tengslanet á vefnum LinkedIn. LinkedIn er líklega öflugasta viðskiptatenglanet sem völ er á – eiginlega eins konar Facebook fyrir viðskiptasambönd, til að setja það í samhengi fyrir þau ykkar sem ekki þekkja til.

Ef þið hafið áhuga á að leggja ykkar af mörkum, er fátt einfaldara.

Greiningadeild Hjalla

Ég er alger amatör í hagfræði og fjármálum. Ég hef samt ekki enn séð neinn virkilega rýna í stöðuna sem upp er komin hér á landi og hvert stóra myndin í efnahag þjóðarinnar stefnir og ef enginn vill gera hlutina fyrir mann, þá verður maður að gera þá sjálfur.

Eftirfarandi hugleiðingar geta því ekki verið verri en hvað annað. Það getur þá a.m.k. vonandi einhver bent mér á það hvar ég fer útaf sporinu í þessum hugleiðingum.

Skuldbindingar þjóðarinnar vegna innlána bankanna

 • Við erum um það bil að taka á okkur þær skuldbindingar sem bankarnir höfðu skrifað okkur fyrir að okkur forspurðum. Þetta eru fjarri því allar skuldbindingar þeirra, “bara” þær sem evrópsk og alþjóðalög kveða á um að séu á ábyrgð heimalands bankaútibúa. Þessi tala virðist vera af stærðargráðunni 1.000 milljarðar króna með skekkjumörk upp á nokkur hundruð milljarða. Endanleg tala ræðst að miklu leiti af því hver túlkun þessarra alþjóðalaga er, enda hefur líklega aldrei fyrr reynt á þau með þessum hætti. Gengið sem miðað er við er augljóslega hin stóra breytan í þessu dæmi.
 • Á móti þessum skuldbindingum eru svo verðandi þrotabú gömlu bankanna. Eins og ég skil það eru ofangreindar skuldbindingar forgangskröfur í þau bú, vegna þess að um innistæður er að ræða. M.v. að eignir þeirra námu 14.437 milljörðum um mitt ár og að aðeins um 4.000 milljarðar af þeim voru fluttir yfir í nýju bankana, þá má vera ansi illa komið ef ekki fæst upp í skuldbindingarnar. Engu að síður þurfum við líklega að taka þessa upphæð að láni til að borga innistæðueigendunum á meðan verið er að koma nógu miklu af eignum í verð.

Nettóniðurstaða af þessu gæti þá verið sú að við þurfum að taka gríðarstórt lán til tiltölulega skamms tíma, en myndum enda á núlli þegar búið væri að selja eignir gömlu bankanna sem því nemur. Ofan á þetta verður þó hatrammur slagur við aðra kröfuhafa í þrotabú gömlu bankanna, enda eru 10.000 milljarðar ekki svo lítil tala. “Menn hafa beygt sig eftir minna” eins og sagt er.

Endurræsing krónunnar
Til að koma gjaldeyrisviðskiptum aftur í gang þarf verulega digran gjaldeyrissjóð. Villi Þorsteins skrifaði mjög áhugaverðan pistil um það hvernig þessi endurræsing er sambland af stærðfræði, sálfræði og leikjafræði. Helstu atriði eru þessi:

 • Eftir innstreymi fjármagns til landsins undanfarin ár er gríðarlega mikið af “hræddu fé” í íslenskum krónum. Þetta eru útlendingar sem eiga eignir í krónum og væru til í að skipta þeim út fyrir svo að segja hvað sem er á svo að segja hvaða gengi sem er. Þarna eru sannanlega 300 milljarðar sem eftir standa í jöklabréfum og að auki vafalaust nokkur hundruð milljarðar til viðbótar í öðrum eignum sem erfiðara er að henda reiður á.
 • Hræddir Íslendingar bæta ofan á þetta. Þeir sem eiga eignir í íslenskum krónum munu horfa til þess að skipta a.m.k. hluta sinna eigna í gjaldmiðil sem einhversstaðar annarsstaðar er tekinn trúanlegur – svona “just in case” að allt fari í enn meiri steik. Umfang hugsanlegs landflótta bætir enn á þennan þátt. Þessi staða er reyndar efni í heilan pistil útaf fyrir sig þar sem þetta er sennilega fyrsta dæmi sögunnar um 300.000 manna siðklemmu fangans (e. prisoner’s dilemma). Heildin nýtur góðs af því að allir sitji kyrrir, en þeir fyrstu sem fara hagnast á því. Tökum það seinna…

Við þessu virðast vera tvö svör:

 • Nægilega stórt gjaldeyrislán til að geta skipt öllum “hræddu krónunum” í erlenda mynt. Það undarlega í þessari stöðu er aftur kennslubókardæmi í leikjafræði: Ef lánið er nógu stórt til að flestallir treysti því að þeir geti skipt krónum í aðra mynt um alla fyrirsjáanlega framtíð, þá verður aðeins brot af því notað. Ef það er of lítið mun það hverfa eins og dögg fyrir sólu og við erum engu bættari! “Nóg” í þessu samhengi gæti aftur verið af stærðargráðunni 1.000 milljarðar. Í báðum tilfellum er ljóst að á meðan þeir hræddu losa sig, verður gengið á krónunni mjöööög lágt. Við erum ekki að tala um Evrur á 130-150 kall, heldur auðveldlega 300 krónur eða meira meðan það versta gengur yfir!
 • Samningur við Evrópusambandið og evrópska seðlabankann um einhverskonar vikmörk á gengi krónunnar, svipað og danska krónan er í núna (sjá þriðju málsgrein). Þessi samningur mun þó í ljósi aðstæðna aldrei verða gerður á neinu sem gæti talist “hagstætt” gengi, en myndi koma í veg fyrir fáránlegt yfirskot í genginu eins og í hinni leiðinni. Þetta myndi augljóslega aldrei vera annað en fyrsta skref í inngöngu í Evrópusambandið og upptöku Evru.

Hvorugt hljómar eins og góður kostur. Annað hvort sjáum við fram á óðaverðbólgu af því sem næst Zimbabveskri stærðargráðu á næstu mánuðum, eða við sitjum við uppi með að krónurnar okkar verða að Evrum á ömurlegu gengi. Aðrar leiðir er erfitt að sjá í stöðunni.

Góð ráð reynast sem sagt dýr – ef þau fást þá yfir höfuð.

“Rétt” gengi krónunnar
Með algeru hruni bankageirans er auðveldara en verið hefur í langan tíma að átta sig á því hvert “rétt” gengi krónunnar er.

Ef allt er eðlilegt og ekki er um stórkostlega fjármagnsflutninga inn og út úr kerfinu að ræða, á gengi gjaldmiðils að stefna nokkurnveginn á það að verðmæti innflutnings og útflutnings sé hið sama – að hinn svokallaði vöruskiptajöfnuður sé u.þ.b. 0.

Hátt gengi krónunnar undanfarin ár hefur stafað af miklu innstreymi fjármagns, bæði í fjárfestingum á borð við Kárahnjúka og Reyðarál og í kaupum á skuldabréfum, “jöklabréfunum” svokölluðu þar sem menn hafa sóst eftir háum vöxtum íslensku krónunnar. Fall krónunnar það sem af er árinu hefur svo stafað af fjármagnsflæði í hina áttina, þegar jöklabréfin hafa verið leyst út – bæði beint og óbeint – og með því að Íslendingar hafa sóst eftir að færa sínar eignir í erlenda gjaldmiðla.

Ef “hrædda fénu” er útrýmt með stóru gjaldeyrisláni (sjá að ofan) er kominn grundvöllur fyrir gengismyndun á grunni vöruskiptajöfnuðar. Hagkerfið verður með öðrum orðum farið að byggja á raunverulegum verðmætum, ekki spákaupmennsku. Aflaverðmæti (verð á fiski * aflamagn), orkuverð, álverð (að stórum hluta til afleitt af orkuverði) og dugnaður, færni og þekking íslensks vinnuafls verða allt í einu það sem skiptir máli.

Þar sem stórlega hefur dregið úr innflutningi (færri Range Roverar og flatskjáir) og útflutningsverðmæti hefur aldrei verið meira (hærra gengi, meiri álframleiðsla, og ál- og fiskverð í sögulegum hæðum þó hvert tveggja fari lækkandi akkúrat þessa mánuði) má gæla við að þetta raungengi íslensku krónunnar sé í kringum gengisvísitöluna 150-160.

Allir fjármagnsflutningar, svo sem er afborganir Íslands af svimandi háum lánum (=lægra gengi) eða fjárfestingar útlendinga hér á landi t.d. í stóriðju, orkufyrirtækjum eða mögulega olíuvinnsluleyfum (=hærra gengi) munu svo raska þessu jafnvægi sem fyrr. Ekki gleyma í þeirri jöfnu að “hærra gengi” er ekki það sama og “betra gengi”.

Niðurstaða greiningardeildar Hjalla
Það virðast vera “tvær mögulegar framtíðir” fyrir okkur núna – að því gefnu að báðar séu opnar. Við ráðum því því miður ekki lengur sjálf. Þessar leiðir eru:

 • Fljótandi króna og stórt erlent gjaldeyrislán, sem þýðir svakalegt tímabundið högg í formi óðaverðbólgu í nokkra mánuði. Því tímabili ætti svo að fylgja “óðaverðhjöðnun” þegar hrædda féð er farið og hefðbundin hagfræði tekur við. Verðbólgan og -hjöðnunin myndu reyndar sennilega mælast umtalsvert hærri en raunveruleg hækkun og lækkun útgjalda þar sem verðbólgumælingar taka ekki nærri strax tillit til breytinga eins og samdráttar í neyslu eða staðgöngu ódýrari vara (pylsur í stað piparsteikur, strætó í stað einkabíls eða núðlusúpa í stað fersks ítalsks ravioli).
 • Upptaka Evru við neyðarskilyrði á arfaslöku gengi m.v. það sem við höfum átt að venjast. Þetta jafngildir í raun stórfelldri niðurfærslu á eignum Íslendinga núna og um ókomna framtíð.

Grafið hér að neðan sýnir þessar tvær leiðir. Tímakvarðinn er viljandi án skala.

Sjálfum hugnast mér betur fyrri kosturinn, jafnvel þó hann líti út fyrir að vera sársaukafullur – að því gefnu að enginn bendi mér á alvarlega ágalla á ofangreindu. Náist þetta jafnvægi hlýtur samt sem áður að vera forgangsatriði að skapa þar eftir stöðugleika í gjaldeyrismálum. Sá stöðugleiki fæst ekki nema með kjölfestu í stærra myntkerfi. Það er orðið svo augljóst að það þarf ekki að ræða það frekar.

“Þróunarlandið” Ísland

Ég hef fengið allskonar uppbyggileg viðbrögð við þessum síðustu færslum mínum (1 | 2 | 3) um uppbyggingu í þekkingariðnaðnum hér á landi. Sjá t.d. athugasemdirnar við síðustu færslu. Að öðrum ólöstuðum, bera þó af viðbrögð félaga míns – Stefáns Baxter, snillings og frumkvöðuls par excellance.

Ég fékk leyfi hjá honum til að birta þetta, enda á þetta brýnt erindi í umræðuna. Stebba hlotnast líka sá heiður að vera fyrsti – og etv. síðasti – gestabloggarinn á hjalli.com 🙂

Það er ástæðulaust að taka fram að ég get nánast tekið undir hvert orð hér:

Sterk staða og siðferðileg skylda lífeyrissjóða
Almennar skattaívilnanir ættu vissulega að hvetja til fjárfestinga í nýsköpun en ástandið gefur ekki tilefni til að halda að það það verði mikið af fyrirtækjum sem munu geta nýtt sér það alveg á næstunni. Það er hins vegar ljóst að lífeyrissjóðirnir eru enn sterkir, þrátt fyrir áföll, og að þeir eru ekki bara í aðstöðu til að koma að þessum málum heldur ber einnig rík siðferðileg skylda til þess. Það má leiða líkum að því að breytingar á aldurssamsetningu þjóðarinnar, ef svo illa fer að ungt fólk flytjist umvörpum erlendis, myndi koma niður á þeim með nokkrum þunga.

Aðkoma lífeyrissjóða að fjárfestingarfélögum í nágrannalöndum okkar er þekkt og þar hefur verið farin sú leið, í þeim tilfellum sem ég þekki, að fjárfestingasjóðir sem eru einkareknir og skipaðir hæfu fólki fá með sér lífeyrissjóði sem bakhjarla og eftirlitsaðila frekar en að sjóðirnir sjálfir reyni að manna þetta. Það er mikilvægt að slík félög hafi á að skipa hæfu fagfólki sem nær, með gegnsæi og faglegum vinnubrögðum, að hefja sig yfir allan vafa um að þeir stjórnist af einhverju öðru en heilindum og meti verk að verðleikum.

Völd spilla. Því miður er það þannig að jafnvel vönduðustu menn venjast völdum og þegar það gerist er voðinn vís. Ég dreg það ekki í nokkurn efa að flestir þeirra sem hafa afvegaleiðst hafa í upphafi viljað vel og verið drifnir af einlægum vilja til að gera vel. Í þessu starfi, sem og annarstaðar, þarf því að huga að gegnsæi og hæfilega reglulegum mannabreytingum. Skuggi pólitískra áhrifa og vinargreiða má ekki falla á þetta starf.

Ungt fólk og nýsköpun
Án þess að aldur eigi að vera ráðandi í vali verkefna eða sérstakur áhrifavaldur þá tel ég ástæðu til að huga að þeirri einföldu staðreynd að þeir sem ekki eru bundnir átthagafjötrum munu frekar en aðrir fara af landi brott ef verulega harnar á dalnum. Íslensk ættjarðarást og samstaða mun fleyta okkur langt en við verðum að standa vörð um það unga samfélag sem við eigum hér. Aldurssamsetning þjóðarinnar [innskot HG: Sjá graf] er eitt af því allra mikilvægasta sem við eigum. Frjótt og spennandi umhverfi fyrir þá sem eru nú í þeim sporum sem við vorum í þegar Internetvæðingin hófst þarf að finna sérlega fyrir því að hér séu tækifæri til að vaxa bæði innan starfs og utan. (“Við” erum á fertugsaldrinum)

Hámarka jaðaráhrif
Ég tel nokkuð víst að þegar moldviðrinu lægir munum við sjá tæknimenntað fólk finna sér spennandi viðfangsefni, það er ekki nokkur vafi. Þá þarf að huga sérstaklega að verkefnum sem reiða sig einnig á stærri hópa, sem hugsanlega búa ekki yfir jafn mikilli sérþekkingu, því þau verkefni eru sérstaklega áhugaverð til hliðsjónar af því að hámarka jaðarverkanir. Gagnaöflun og -vinnsla eru dæmi um verkefni sem geta gert góða vöru enn betri og skapað umtalsverð störf. Eitt af því sem ég tel mig hafa lært á undanförnum árum er að gögn og viðskiptasambönd veita mun meiri samkeppnishæfni og hærri samkeppnisþröskuld en tæknilausnir geta gert einar og sér.

Virk aðkoma
Auðvitað eru til menn og konur hér sem kunna að sitja í virkri stjórn, stjórn sem aðstoðar við úrlausn verkefna og veitir þann stuðning og aðhald sem nýsköpunarfyrirtækjum er hollt að hafa, en það virðist því miður vera algengara að sjá óvirkar stjórnir eða “eftirlitshunda”. Ég tel mikilvægt að þeir aðilar sem hafa staðið sig sem best á því sviði hér verði fengnir í þetta uppbyggingarstarf og þá ekki síst til þess að fræða og þjálfa aðra í því að veita réttan stuðning og hæfilegt aðhald. Það er þarna sem reynsla þeirra sem eldri eru og brenndari nýtist sem best.

Viðskiptalíkön
Gæta þarf sérstaklega að því að tækifæri, sem kunna að vera hagkvæm við núverandi aðstæður, geti staðist breytingar þegar við færumst aftur nær fyrri stöðu og þurfa að búa yfir sveigjanleika til að bregðast við því. Það er einnig jákvætt að verkefni séu þannig að hægt sé að hluta þau niður í viðráðanlegar einingar, byrja smátt, fá tekjumyndun og halda síðan áfram til móts við stærri markmið. Ég held að það skipti máli fyrir ferlið í heild sinni og trúverðuleika þess að verkefni sem það fjárfestir í nái tiltölulega fljótt að standa undir sér, að hluta aða öllu leiti. Að minsta kosti er óæskilegt að fjárfesta í svo stórum verkefnum að árangur verður tormældur. Hlutverk þolinmóðs fjármagns er að sjálfsögðu mikilvægt en ég held þó að “Fail Fast” nálgun, sé hún ekki óbilgjörn og beinlínis óþolinmóð, sé réttari við þessar ástæður því það verður hlutverk annarra að vera langtímafjárfestar.

Höldum upp á mistökin ekki síður en árangurinn
Það er þekkt staðreynd að í svona starfi eru áræðnar hugmyndir sem virka ekki jafn mikilvægar og þær sem virka og án þess að gera því skóna að fallið sé markmiðið þá þarf að vera full meðvitund um það frá upphafi að fall er fararheill í þessu sem öðrum. Við slíkar aðstæður er því mikilvægt að halda því á lofti að verkefni sem skila ekki tilætluðum árangri séu ekki endanlegur dómur yfir einstaklingunum sem að því komu og að þeir og þekking þeirra verði virkjuð á öðrum vettvangi.

Koffice
Koffice er gömul hugmynd sem varð til á .com tímanum og snýr að nýtingu sameiginlegs svæðis til klaks. Nafnið segir eiginlega meira en allar lýsingar um hvað um er að ræða en frjótt umhverfi þar sem léttleikinn fær að ráða er eiginlega meira við hæfi núna en þegar smjör draup af hverju strái. Slík aðstaða er ekki bara frjó heldur er mikil samhjálp innbyggð í hana. Vinnu-, fundar- og samkomuaðstaða er það sem málið snýst um og ég held að þetta, ásamt hefðbundnari klak aðstöðu sé málið. Að nýta það tækjahaf sem nú stendur ónotað ætti að vera forgangsverkefni. Húsnæði og vilji er það eina sem þarf til.

Hugmyndir verða, að stóru leiti, að vera þeirra sem eiga að fórna sér fyrir þær
Að “stýrihópur” komi að hugmyndum er eitt, að forma þær og móta upp í hendurnar á öðrum er eitthað allt annað. Ég tel að hlutverk fjárfestingarsjóða, sem munu verða til við þessar aðstæður, eigi alls ekki að vera móta, hvað þá fullmóta, hugmyndir upp í hendurnar á öðrum til eftirfylgni. Áhugi og trú er drifkraftur nýsköpunar. Áhugi og trú á eigin hugmyndum er nánast undantekningalaust meiri áhugi á hugmyndum annarra. Slíkir aðilar þurfa því að einbeita sér að því að að veita aðstoð við að vinna úr þeim, brjóta þær upp í skynsamlegar einingar, skerpa sýn á hvernig hægt sé að vinna úr þeim og ná að slípa þær til frekar til en að móta þær frá grunni. Aðeins með því að virkja grasrótina að fullu er hægt að ná tilætluðum árangri og aðeins með því að nýta reynslu þeirra sem brenndastir eru styttum við okkur leið að þeim markmiðum.

Leitin að samlegðinni – komið í veg fyrir endurtekningar
Þó að miðstýring sé slæmt orð getur hún þjónað ákveðnum tilgangi hér, þeim að koma í veg fyrir endurtekningar/tvíverknað og ekki síður að til hámarka samlegðaráhrif. Of lítið hefur verið gert að því í íslenskri upplýsingatækni að fyrirtæki leiti leiða til að samnýta íslenskar lausnir erlendis. Síendurtekin gerð hjóla virðist oft hafa verið okkar sérsvið og samkeppni á heimamarkaði um íslenskar lausnir í bókhaldi, vefumsýslu, bíla- og fasteignasölukerfum, sem dæmi, hefur ætlað allt um koll að keyra. Nú þegar endurskipulagning stendur fyrir dyrum held ég að rétt sé að laga líka til í þessum málum og sjá til þess að jafnvel aðilar í samkeppni á heimamarkaði taki á sig rögg og samræmi aðgerðir erlendis. Þetta sama á við um þau nýju verkefni sem nú munu verða til. Tryggja þarf að þau séu ekki of samleit og leita þarf allra leið til að hámarka samlegðaráhrif þeirra.

Styðsta leiðin að markinu – Að byggja undir og í kring um fyrirtæki sem eru þegar til
Ég er viss um að allir þeir sem nú stjórna fyrirtækjum sem vinna að verkefnum sem þegar eru farin að afla tekna, sérstaklega erlendis, þyki ekki slæmt til þess að hugsa að nú losni hæfileikaríkt fólk úr álögum fjármálafyrirtæka landsins og að auðveldara verði að fá hæft starfsfólk á viðráðanlegum launum. Að sjálfsögðu mun hluti þess fólks sem nú “losnar” fara beint í að mæta sárri þörf þeirra og á þeim vettvangi mun það vinna að uppbyggingunni “innanfrá”. Þó eru alltaf einhverjir sem viljast gerast sinnar gæfu smiðir og ef þeir trúa á speki Andy Grove hjá Intel, um að best sé að stofna fyrirtæki í dalnum þar sem hann er dýpstur – þá sé öll uppsveiflan eftir, þá munu þeir ekki láta núverandi aðstæður aftra sér, þvert á móti.

Til að byggja brú á milli þess nýja og þess sem fyrir er vellti ég fyrir mér hvort ekki megi nýta hluta þessara nýju verkefna í beinum tengslum við þau gömlu. Nýjar lausnir sem gera núverandi lausnir betri eða stækka markhóp þeirra eru verkefni sem líklega þurfa stystan tíma til að ná árangri og í þeim eru samlegðaráhrifin mest. Ég geri mér reyndar ekki fyllilega grein fyrir því hversu raunhæft það er að skipuleggja hluta þeirrar vinnu sem nú fer í gang með þessum hætti en hugmyndin er með öðrum orðum sú að “nýjir” aðilar sem vilja starfa við sitt eigið geti gert það í fullri samvinnu við þá sem fyrir eru. Viðbótarvirkni og útvíkkun núverandi lausna gæti þannig verið sproti að einhverju nýju en á sama tíma notað viðskiptavild og viðskiptasambönd þeirra sem fyrir eru. Mjög einfalt dæmi um þetta gæti verið nýtt fyrirtæki sem sérhæfir sig í hönnun (concept, útlits etc.) og smíði þrívíddarmódela fyrir leikjaiðnaðinn en myndi byrja á því að smíða fyrir EVE (CCP).

Skjölun, prófanir og notendaþjónusta
Fyrirtæki sem myndi sérhæfa sig í tæknilegri skjölun, prófunum og þjónustu við tæknilausnir gæti eflaust nýtt starfskrafta breiðs hóps og mætt þörf sem íslensk hugbúnaðarfyrirtæki hafa mörg hver, svo ég kveði ekki of sterkt að orði, hundsað til margra ára. Því hefur verið haldið fram á gárungum að Íslendingar séu sérfræðingar í að búa til “Alpha” hugbúnað en að reynsla okkar af því að búa til fullbúnar hilluvörur sé afskaplega takmörkuð. Sameiginleg þjónusta á þessu svið er eitthvað sem mætti skoða en ég geri mér grein fyrir að umræðuefnið þykir afskaplega óspennandi og and-kúl.

Viðskiptasambönd
Það er erfitt að treysta öðrum fyrir viðskiptasamböndum sínum og erfiðast ef maður treystir því ekki að vel verði með þau farið. Fátt er verra, í því samehngi, en að nýta viðskiptasambönd sín til að koma á misheppnaðum verkefnum eða öðru sem kann að skaða sambandið til lengri eða skemmri tíma. Við núverandi aðstæður eru góð viðskiptasambönd sérstaklega mikils virði og viðskiptatækifæri sem eitt fyrirtæki getur ekki nýtt sér gæti verið sprotinn að stofnun annars á sama hátt og ónýttar markaðsleiðir eins gætu verið lífæð annarra. Það hefur að einhverju leiti verið Útflutningsráðs að huga að slíku en ég er viss um að með bættu samráði væri að hægt að nýta núverandi sambönd og söluleiðir mun betur en gert er. Þetta krefst þess þó vitanlega að allir komi fram við þessi sambönd af virðingu og skilning á því hvaða ábyrgð fylgir því að nýta viðskiptasambönd annarra.

Öflun gjaldeyristekna – Hugbúnaður sem útflutningsafurð – Ísland sem “þróunarland”
Ég gef mér í öllu þessu að við séum að beina athygli okkar að verkefnum sem eru ætluð til útflutning í einu eða öðru formi. Hugbúnaðargerð fyrir heimamarkað er blindhæð þó svo að sama hugbúnaðargerð, ætluðum til útflutnings, sem nýtir heimamarkað fyrir kjölfestu, rannsóknir og þróun sé hins vegar breiðstræti. Þarna er ábyrgð stjórnvalda og þeirra sem sjá um upplýsingatæknilega-innviði mikil. Við eigum að sjá til þess að hér sé til staðar allur sá infrastructure sem nausynlegur er til að gera Ísland að þróunarparadís í upplýsingatækni og ég er þess full viss að fullur vilji er meðal aðila tengdum þessu máli að gera Ísland að afbragðs “þróunarlandi”. Þetta mál hefur oft verið rætt og ég minnist sérstaklega umræðu um þetta 1998/1999 en nú er lag.

Vorum við öll sofandi?

Undanfarnir dagar hafa verið merkilegir. Vikurnar tvær hér á undan virðast hafa farið í þunglyndi og “refresh” á mbl.is, vb.is og Eyjunni hjá voðalega mörgum. Ég er þar engan veginn undanskilinn.

Síðustu tvo daga hef ég aftur á móti orðið þess var að þetta er mjög að snúast við. Fólk er farið að sjá tækifærin sem opnast við svona endaskipti á samfélaginu.

Ég bý svo vel að þekkja og vera tengdur stórum hópi af mjög frjóu og skapandi fólki á ótal sviðum þjóðlífsins og í kjölfar bloggfærslna (1 | 2) og “Tvitta” um ástandið hefur mikið af þessu fólki haft samband með einum eða öðrum hætti.

Það er ótrúlegur kraftur sem nú er að leysast úr læðingi og áhrifa hans mun verða vart í pólitík, listum og skapandi iðnaði á næstunni og um langa hríð.

Nýja Ísland verður bæði kraftmeira, skemmtilegra og ríkara en það gamla. Búið ykkur undir breytingar!

Peningar vs. raunveruleg verðmæti

Í hamaganginum undanfarna daga hafa sótt að mér allskyns heimspekilegar pælingar. Sumar þeirra snúast um eðli peninga og hversu mikið peningar eigi skylt við raunveruleg verðmæti. Þarna er ég ekki að tala um mjúku hliðina – að raunveruleg verðmæti felist í ást, kærleika og hamingju (slíkt er einfaldlega á öðrum kvarða) – heldur hefðbundin veraldleg verðmæti. Getur verið að tengingin þarna á milli hafi glatast einhversstaðar í hagsögunni?

Bara núna síðustu tvær vikur hafa íslenskir fjárfestar og eignamenn víst tapað eignum af stærðargráðunni 500 1.000 milljarðar bara í markaðsvirði bankanna þriggja. Manni skilst að allmörg hundruð milljarðar til viðbótar séu tapaðir eða muni tapast á næstu dögum og vikum. Nú ætla ég ekki að gera lítið úr þessum atburðum eða þeim afleiðingum sem þær þeir munu hafa í för með sér – sem eiga eftir að verða gríðarlegar. En eitthvað segir mér þó að ef “raunveruleg” verðmæti af þessari stærðargráðu hefðu tapast væri það mun alvarlegra mál.

Setjum þessar tölur í samhengi. Ef við gefum okkur að íbúðarhúsnæði meðalheimilis á landinu kosti 20-25 milljónir, þá samsvarar 1.000 milljarða króna tap því að 40-50 þúsund heimili hefðu eyðilagst fullkomlega, t.d. í jarðskjálfta! Fjöldi heimila á landinu er rétt um 110 þúsund, þannig að þetta væru um 40% íslenskra heimila.

Við getum sett þetta í annað samhengi og horft á útflutningsverðmæti fiskaflans okkar. Það var á síðasta ári tæplega 128 milljarðar króna. Þannig að 1.000 milljarðar samsvara 8 ára útflutningsverðmæti á fiski!

Ég held að við getum verið sammála um að íbúðarhúsnæði og fiskur eru “raunveruleg” verðmæti.

Ímyndum okkur svo að á fimmtudaginn hefðum við vaknað upp við þær fréttir að meira en þriðjungur íslensks íbúðarhúsnæðis væri ónýtur eða að allur fiskur væri horfinn af Íslandsmiðum næstu 8 árin. Er hrun bankanna sambærilegt? Eða getur kannski verið að eitthvað af þessum 1.000 milljörðum séu ekki og hafi aldrei verið “raunveruleg” verðmæti? Að það hafi ekki verið hægt að rekja öll þessi verðmæti niður eftir hagkerfinu á “fast”, þ.e. til vinnuframlags, orku, auðlinda eða annarra óumdeilanlega raunverulegra verðmæta?

Á mælikvarða raunverulegra verðmæta höfum við ef til vill varla tapað neinu. Bankakerfið, líkt og mörg önnur stoðþjónusta er vissulega mikilvægur þáttur í því að halda raunverulegri verðmætasköpun gangandi. Því gangverki er mikilvægt að koma af stað aftur, en við eigum næstum því, ef ekki alveg jafnmikið af raunverulegum verðmætum núna eins og við áttum fyrir 2 vikum síðan. Verst ef það þarf að nota eitthvað af þessum raunverulegum verðmætum til að borga fyrir skuldirnar sem urðu til við að kaupa allar þessar óraunverulegu eignir.

Ég trúi enn einart á markaðshagkerfið, en mér sýnist á öllu að það þurfi að spóla ansi duglega til baka og vinda ofan af allri flækjunni sem er búið að spinna ofan á grunngildi hagfræðinnar, gildin sem virðast minna á það á ca. 10 ára fresti – og í þetta sinna af óvenju miklum krafti – að eru ófrávíkjanleg. Það sem skiptir máli er að skapa eitthvað, framleiða og búa til – nokkuð sem hefur þótt allt að því hallærislegt undanfarin ár.

Vinnuframlag, orka og aðrar auðlindir – þetta eru raunverulegu verðmætin. Öll önnur starfsemi – þar með talin bankastarfsemi – snýst svo um að þessi verðmæti nýtist sem best, séu unnin sem hagkvæmast og skili sem mestu til þeirra sem að verðmætasköpuninni standa.

Þegar þetta er orðið klárt geta peningar kannski aftur orðið mælikvarði á raunveruleg verðmæti.

P.S. Þessar pælingar eru aðeins heimspekilegar vangaveltur enda er ég í besta falli amatör í hagfræði. Ef þið viljið lesa eitthvað um þessi mál frá fólki sem veit í alvöru um hvað það er að tala, þá bendi ég annars vegar á Villa Þorsteins sem skrifar þessa dagana bestu greiningarnar á stöðunni og atburðunum öllum hér heima og hins vegar á greinina The End of Prosperity? í TIME magazine (ekki missa af samhangandi 10 skrefa útlistun Time á því hvernig þetta allt byrjaði og hvert það gæti leitt).