Ideas

Hlutverk upplýsingatækni í rannsókn bankahrunsins

detectiveNú eru a.m.k. fjögur embætti að rannsaka ýmsa þætti bankahrunsins:

Talsvert hefur verið talað um verkaskiptingu þessarra embætta, hæfi þeirra og aðra umgjörð, en eitt af því sem hefur komið mér á óvart er hversu lítið hefur verið rætt um sjálfar rannsóknaraðferðirnar.

Í mínum huga er það alveg skýrt að eitt af lykilatriðunum í því að árangur náist í þessum rannsóknum er mikil og vönduð beiting upplýsingatækni. Þetta snýr bæði að því að skilja stóru mynd þeirrar atburðarásar sem átti sér stað hér á undanförnum árum sem og að finna og upplýsa einstök mál. Ég óttast hins vegar að of fáir skilji hversu mikilvægt þetta atriði er og hef flugufregnir fyrir því að a.m.k. sum þessarra embætta átti sig engan veginn á þeim verkefnum sem þau standa frammi fyrir hvað þetta varðar.

Hér eru nokkrir punktar sem etv. hjálpa til við að skilja stöðuna:

 • Allar fjármálaaðgerðir fara fram með einum eða öðrum hætti í tölvukerfum. Hjá íslensku bönkunum einum erum við að tala um hundruð þúsunda, jafnvel milljónir færslna á hverjum einasta degi í tugum ef ekki hundruðum mismunandi kerfa. Allar þessar aðgerðir eru skráðar með einhverjum hætti.
 • Auk þessarra færslna eru tölvupóstar og önnur tölvusamskipti skráð, auk þess sem öll símtöl manna á milli eru skráð og í mörgum tilfellum tekin upp skv. lögum. Um þau símtöl og tölvupóstar sem ekki eru skráð hjá bönkunum sjálfum eru til skráningar hjá fjarskiptafyrirtækjum og netveitum. Um símtölin er að lágmarki skráð að þau hafi átt sér stað og tölvupóstar og efni þeirra liggja alltaf fyrir a.m.k. í einhvern tíma hjá netveitum.
 • Afrit eru tekin af öllum gögnum bankanna – bæði úr fjármálakerfum og öðrum (t.d. skráakerfum allra vinnustöðva, póstkerfum, netþjónum o.s.fr.) – a.m.k. einu sinni á dag og þau geymd með ýmsum, öruggum hætti bæði innan og utan starfsstöðva bankanna í lengri og skemmri tíma. Sum þessarra gagna eru m.a.s. geymd í vörslu eftirlitsaðila lögum samkvæmt.
 • Ég hef nokkuð öruggar heimildir fyrir því að meðal allra fyrstu aðgerða stjórnvalda eftir hrun bankanna hafi verið að tryggja að afrit ýmissa tölvugagna kæmust í örugga vörslu þannig að ekki væri hægt að eiga við þau.
 • Mikið af þessum gögnum eru á sértæku sniði sem eiga við einstök, rándýr kerfi sem í notkun voru (og eru enn mörg hver) í bönkunum. Þessi gögn er mjög erfitt að lesa og túlka nema með notkun þessarra kerfa.
 • Allt í allt erum við hér að tala um gríðarlegt magn af gögnum – ég leyfi mér að giska á einhver hundruð terabæta fyrir þau ykkar sem sú tala segir eitthvað. Fyrir ykkur hin erum við að tala um jafngildi margra, stórra, þéttskipaðra vöruskemma ef gögnum ef prenta ætti ósköpin út.

Ef einhver hélt að svona rannsókn færi fram með aðferðafræði Matlock lögmanns með því að blaða í útprentum og afritum af pappírsskjölum, fingrafararannsókn og snjöllum yfirheyrslum á lykilvitnum, þá ættu ofangreindir punktar að sýna nokkuð glögglega að svo er ekki.

Ef ætlunin er að sanna – nú eða afsanna – kerfisbundið misferli, misræmi í afstemmingum, vísbendingar um óeðlileg verðbréfaviðskipti, samskipti aðila í tengslum við tiltekna atburði o.s.frv., þá verður það aðeins gert með býsna flókinni og sérhæfðri upplýsingatæknivinnu, mynsturgreiningum á stórum gagnasöfnum, leitarmöguleikum í hverskyns textagögnum og síðast en ekki síst þekkingu á þeim kerfum, aðferðum og starfsháttum sem viðgengust í bönkunum.

Til að taka af allan vafa um það, þá þykist ég alls ekki hafa þá þekkingu sem til þarf. Hana hefur reyndar varla nokkur einn maður. Við erum að tala um stórar og óhjákvæmilega dýrar aðgerðir, en án þeirra verður aldrei nema örlítið brot þessarar starfsemi rannsakað.

Ég vona að ofantaldir rannsóknaraðilar átti sig á þessu.

Að lokum eru hér örfá atriði sem mætti byrja á að skoða:

 • Fá a.m.k. einn stjórnanda eða millistjórnanda sem hafði með upplýsingatæknimál í hverjum banka með í rannsóknina. Ef með þarf má bjóða sektar og-/eða skuldaniðurfellingu gegnt samstarfi. Þannig fæst nauðsynleg þekking á innviðum og samhengi kerfanna, dýrmætur tími og miklir peningar sparast og líklega opnast möguleikar sem utanaðkomandi rannsakendur hefðu hreinlega ekki tök á að gera.
 • Fyrst mætti skoða afritasögu. Þar sést fljótt hvort nokkur gögn hafa horfið, átt hefur verið við skrár eftir á eða með öðrum hætti verið reynt að fela einhverjar slóðir. Þetta kynni vel að hafa verið reynt í einhverju óðagoti á ögurstundu, en er sennilega það “versta” sem einhver hefði getað gert þar sem það beinir grun beint að viðkomandi atriðum. Nær ómögulegt er að eiga þannig við gögn og afrit að slíkar slóðir sjáist ekki tiltölulega auðveldlega. Þannig er miklu líklegara að “ósnert” sönnunargögn týnist í öllu gagnaflóðinu en að tilraunir til yfirhylmingar skili árangri.
 • Greina samskiptasögu í öllum tiltækum gögnum. Hengja símanúmer og tölvupóstföng á persónur og beina sjónum að þeim sem eiga í samskiptum í kringum einstök viðskipti eða aðra atburði sem eru til rannsóknar. Eins má leita uppi öll gögn sem viðkoma tilteknum málum eða einstaklingum og rekja sig þannig í “hina áttina” frá áberandi miklum eða óvenjulegum samskiptum til viðskipta eða atburða sem eiga sér stað á svipuðum tíma. Slík greining myndi líka koma upp um samskipti milli aðila sem – ef allt væri með felldu – ættu alls ekki að eiga í samskiptum, annaðhvort vegna reglna um aðskilnað í starfsemi innan bankanna eða milli samkeppnisaðila, viðskiptablokka eða annarra.
 • Greina ýmsar lykiltölur í fjárflæði milli einstakra fyrirtækja, milli útibúa og milli landa og leita eftir skyndilegum breytingum á umfangi eða mynstrum í þessum viðskiptum.

Bara nokkrar hugmyndir – fleiri vel þegnar.

Verkefnin vantar ekki…

Áður birt á vef Hugmyndaráðuneytisins.

Á hverjum morgni labba ég fram hjá aðstöðu Listaháskólans við Skipholt. Þar í glugga stendur “Stefnumót bænda og hönnuða”. Smá Gúggl leiddi í ljós að þetta er verkefni sem hlaut styrk frá Tækniþróunarsjóði Rannís og er “frumkvöðlaverkefni í þágu atvinnulífsins þar sem tvær starfstéttir eru leiddar saman til að skapa einstaka afurð.”

Þetta er auðvitað frábært framtak, en getum við ekki tekið okkur þetta til fyrirmyndar á ótal sviðum eins og “ástandið” er?

Sem dæmi, þá varð ég undrandi á því þegar ég var að taka saman lista yfir sprotafyrirtæki hér á landi hversu mörg þeirra – sérstaklega þau sem ekki eru í hugbúnaðarbransanum – eru með arfaslakar vefsíður. Þarna er tækifæri fyrir vefsnillinga að taka til hendinni. Búa til vel útlítandi, vel skrifaða vefi, leitarvélabesta fyrir þau orð sem máli skipta, beita Facebook, YouTube og öðrum samfélagsmiðlum þar sem það á við og jafnvel búa til hnitmiðaða, en ódýra vefauglýsingaherferð, t.d. með Google Ads.

Ástæðan fyrir því að viðkomandi fyrirtæki eru ekki með betri vefsíðu eru líklega tíma- og peningaskortur og mögulega skilningsleysi, miklu frekar en áhugaleysi. Þessi fyrirtæki myndu því vafalaust taka því fegins hendi ef einhver kæmi til þeirra og bæðist til að taka vefmálin í gegn. Greiðsla gæti hreinlega falist í tekjuskiptingu á þeim tekjum sem andlitslyftingin skilaði. Þetta á í mörgum tilfellum að vera hægt að mæla býsna nákvæmlega, t.d. aukinn fjöldi (eða jafnvel upphaf) pantanna í gegnum vefinn. Ég væri til í að smíða nýjan vef fyrir sum þessarra fyrirtækja fyrir 10-20% af þeim tekjum sem ég held að hægt væri að skapa þeim með betri vef.

Útfærslur varðandi útlagðan kostnað, tekjuskiptingu, samningstíma, viðhald og annað getur verið margskonar, en grundvallaratriðið er það að hvorugur aðilinn þarf að leggja neitt til (nema vinnu sína auðvitað) til að láta á þetta reyna.

Svipað fyrirkomulag mætti sjá fyrir sér í fleiri sérfræðistörfum: sölumálum, almennum markaðsmálum, fjármálaumsjón, gerð viðskiptaáætlana og svo mætti lengi telja.

Aðalmálið er að allir græða. Verkefnalausir fá verkefni og í framhaldinu tekjur í samræmi við árangur, fyrirtækin fá ódýra aðstoð og möguleika á nýjum tekjum (eða sparnað, t.d. með betra aðhaldi í fjármálunum) og öllum er í hag að sem best takist til.

Ég hvet fyrirtæki sem etv. hafa ekki úr nægum verkefnum að moða og fólk sem misst hefur vinnuna til að hugsa út fyrir boxið og finna tækifæri af þessum toga þar sem þeir geta boðið krafta sína og þekkingu með öðru sniði en almennt tíðkast, t.d. eins og hér er lýst.

DataMarket launched

I’m pleased to announce the launch of DataMarket’s new website.

As the name implies, DataMarket is about creating a marketplace for data – structured data to be more specific. This means all sorts of statistics and tabular data, including but not limited to: market research, exchange rates, various financial information, economic indicators, weather data, sports results, EPG data and the average weight of a male wallaby.

Structured data plays a big role in company operations, government and in fact many aspects of life. It therefore continues to amaze me how hard it is to find data and retrieve it in the appropriate format, let alone merging data from different data sources or creating visualizations.

DataMarket is founded to tackle these issues.

In this first phase, we open as “DataMarket – the service company”. As such we offer companies and individuals data aggregation services and custom data related projects, such as programming of interactive data applications and visualizations.

This is just the first step towards our vision of an active marketplace for structured data. Today’s launch is a way for us to get feedback and take on real-world projects as we build towards our final product – a global marketplace that brings together data providers and data seekers in a single easy-to-use, self-service market.

There are many small steps to be taken on the way to this vision. The next phase will be launched early next year when we open a relatively simple little marketplace, focused on a narrow subject – again giving us further feedback and guidance on our way towards the long-term goal.

Any ideas, feedback and help is welcomed, either in comments below or via email.

DataMarket hleypt af stokkunum

Jæja, þá er komið að því. Fyrsti áfangi nýja fyrirtækisins – DataMarket – lítur dagsins ljós í dag.

Eins og líklega hefur mátt lesa á milli línanna (og af nafninu) snýst DataMarket um að koma upp markaði fyrir kaup og sölu á gögnum. Þarna er einkum átt við tölfræði og töflugögn hverskonar, eða það sem upp á ensku hefur verið kallað “structured data”.

Undir þessa skilgreiningu falla m.a. hagtölur, markaðsrannsóknir, gengisupplýsingar og önnur fjármálagögn, veðurupplýsingar, íþróttaúrslit, sjónvarpsdagskrár, bílategundir, þróun í meðalþyngd ástralskra karlmanna og svo framvegis. Í raun hver þau gögn sem eðlilegt væri að setja fram sem töflu.

Gögn af þessu tagi koma víða við sögu í fyrirtækjarekstri, stjórnsýslu og í raun á svo að segja öllum sviðum mannlífsins. Það kemur mér því sífellt á óvart hversu erfitt er að finna góð gögn, fá þau afhent á hentugu sniði, að ekki sé talað um hverskonar samkeyrslu eða myndræna framsetningu.

DataMarket ætlar sér að takast á við þessi vandamál.

Í þessum fyrsta fasa kynnum við “þjónustufyrirtækið DataMarket”. Frá og með deginum í dag bjóðum við fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum upp á gagnaöflunarþjónustu. Við sjáum sem sagt um að finna þau gögn sem leitað er að, göngum frá leyfismálum, samkeyrum gögn úr ólíkum áttum og vörpum gögnunum á það snið sem viðskiptavinurinn óskar. Að auki tökum við að okkur að útbúa myndræna og/eða gagnvirka framsetningu á hvers kyns gögnum – það sem við kjósum að kalla gagnagræjur.

Þetta er að miklu leyti gert til að fá betri tilfinningu fyrir markaðnum. Átta okkur á því hvar þörfin er mest, hvers konar verkefni skjóta upp kollinum og hvar mögulega viðskiptavini okkar svíður helst þegar kemur að gagnamálum. Þessa reynslu munum við svo nota til að forgangsraða við frekari uppbyggingu DataMarket.

Markmiðið er að DataMarket verði með tímanum öflugur markaður sem leiði saman kaupendur og seljendur gagna í þægilegu sjálfsafgreiðslukerfi. Mikil vinna er óunnin þar til sú sýn verður að veruleika. Fyrstu skrefin í þá átt verða þó stigin fljótlega á næsta ári. Þú munum við opna vísi að slíkum markaði sem þó mun hafa mjög afmörkuð efnistök.

Með þessum litlu skrefum vonumst við til að geta byggt fyrirtækið upp á skynsamlegan hátt með endurgjöf sem beini okkur rétta braut í átt að lagtímamarkmiðinu.

Allar ábendingar, hugmyndir og umkvartanir eru velkomin, hvort heldur er í athugasemdum hér á blogginu, eða í tölvupósti.

Presentation on Innovation (IceWeb 2008)

skjaldarmerki-2Ever since the banking crisis struck Iceland a few weeks ago, I’ve been running out and about to advocate for innovation as the way to rebuild the economy.

Yesterday, I was privileged to give a presentation on the topic at the IceWeb conference. The title of my talk was “The Innovation Renaissance” and the slides can be found below:

Með því að opna kynninguna á SlideShare er hægt að skoða hana “full screen”.

– – –

P.S. There are a few quirks in the layout as I create my presentations in Keynote, SlideShare only accepts PowerPoint files, and the conversion is not perfect. But they weren’t that pretty anyway 🙂

P.P.S. Egill Harðar “two-dot-o-ified” the Icelandic crest for my presentation – thanks!

Svona verður Næsta Ísland

new-futureEin birtingarmynd kraftsins sem hefur verið leystur úr læðingi síðustu vikur er sú að almenn umræða er hætt að snúast um efnistökin í Séð og Heyrt og farin að snúast um stóru málin – málin sem skipta máli:

Hvernig viljum við hafa Næsta Ísland? Hvernig vinnum við okkur útúr núverandi ástandi? Hvernig á að stjórna landinu? Og hver á að gera það?

Ég hef tekið þátt í ótal samræðum um öll þessi mál síðustu vikur og tók af því tilefni saman nokkra áhugaverða punkta sem ég get sagt með nokkurri vissu að ég vilji sjá einkenna Næsta Ísland:

 • Besta mögulega umhverfi til nýsköpunar. Í slíku umhverfi byggist upp fjölbreytt atvinnulíf og útflutningstekjur okkar munu ekki standa lengur á aðeins 3-4 stoðum, heldur 10-20. Í þessu umhverfi felst m.a. einfalt og hagstætt skattkerfi, einföld fyrirtækjalöggjöf, öflugt stuðningskerfi, hvatar til áhættufjárfestinga o.fl. Sjá nánar í færslunni Af hverju nýsköpun? og á nyskopun.org.
 • Gjaldmiðill sem hefur verðgildi víðar en á Íslandi. Þetta er aðeins hægt með upptöku annars gjaldmiðils eða með því að setja traustan fót – s.s. gull – undir krónuna (sem NB er varla mögulegt úr þessu). Hugmyndir um einhliða upptöku Evru eru áhugaverðar, en líklega snúnari en gefið hefur verið í skyn. Fleytingu krónunnar með baklandi í stóru erlendu láni þarf að fylgja skýr áætlun um það hvernig gjaldeyrismálum verði háttað í framtíðinni. Slík áætlun gæti t.d. falið í sér að stefnt sé að upptöku annars gjaldmiðils innan 5 ára og hvernig gengi við þau skipti verði ákvarðað. Ég hef áður sett fram spádóm um gengi krónunnar eftir fleytingu, og hér er spádómur frá mér fróðari manni um málið.
 • Fagfólk í stöður ráðherra og helstu embættismanna. Þetta mætti t.a.m. gera á eftirfarandi hátt: Auglýst yrði eftir umsækjendum í stöðurnar. Nefndir fagfólks í hverju málefni (t.d. leiðtogar fyrirtækja og stofnana í viðkomandi greinum) myndu meta hæfi umsækjendanna og ef fleiri en einn er talinn jafnhæfastur eða -hæfust til verksins, kýs Alþingi milli þeirra. Alþingi, sem vinnuveitandi þeirra, getur svo sett viðkomandi af þyki hann eða hún ekki hafa staðið sig. Með þessu fæst líka nokkuð heilbrigður aðskilnaður alþingis og ríkisstjórnar. Á móti mætti fækka Alþingismönnum um 20.
 • Öll lög hafi “síðasta söludag”. Tryggt sé að öll lög komi til endurskoðunar ekki sjaldnar en á 10 ára fresti. Til athugunar sé hvort þau eigi enn rétt á sér eða megi að öðrum kosti bæta m.t.t. breyttra tíma. Svona má m.a. tryggja að löggjöfin taki tillit til tækninýjunga, breytinga í alþjóðaumhverfi o.s.frv.
 • Settur sé óháður verkefnastjóri yfir Alþingi. Verkefnastjórinn setur niður dagskrá ársins gróflega í upphafi árs og raðar svo nákvæmri dagskrá innan viku og dags. Enginn starfsmaður (les: alþingismaður) fær að fara heim fyrr en vinnu er lokið. Séu markmið ekki að nást, er það hins óháða verkefnisstjóra að meta mikilvægi og forgangsraða málum. Þingmenn eða flokkar mættu jafnvel fá fastan fjölda “mikilvægispunkta” sem þeir mega dreifa á sín mál yfir árið til að hafa áhrif á það hvaða mál eru tekin fyrir.
 • Landið allt eitt kjördæmi, ekkert lágmarksfylgi og röðun á kjörseðli. Kjördæmaskipanin tryggir jafnt vægi atkvæða og dregur úr kjördæmapoti (sem þá myndi líklega fá heitið “svæðapot”). Forgangsröðun á kjörseðli í stað þess að aðeins einum flokki sé greitt atkvæði (sjá t.d. löggjöf um þingkosningar í Ástralíu), hindrar öfgaöfl í að komast að, en afnám lágmarksfylgis tryggir á sama tíma að “litlar raddir” fá málsvara á þingi ef kjósendum þykir næg ástæða til.
 • Stóraukið gegnsæi í fjármálakerfinu. Skráning skulda- eða hlutabréfa á markað setji kröfur um fullkomið gagnsæi á rauntímaupplýsingum úr bókhaldi viðkomandi fyrirtækja. Þetta skapar þeim markað til að sækja sér fé, en gefur fjármagnseigendunum – í krafti hópsins – kleift að fylgjast grannt með stöðu fyrirtækjanna. Sama myndi gilda um sjóði, s.s. peningamarkaðssjóði, lífeyrissjóði eða aðra gjörninga sem mynda “strúktúra” ofan á markaðinn. Árs- og ársfjórðungsuppgjör eru úrelt fyrirbæri – rauntímaupplýsingagjöf er krafa nútímans. Ég hef áður skrifað um þetta í færslunni Framtíð viðskipta: Opið bókhald og fullkomið gegnsæi.
 • Stóraukið gegnsæi í fjármálum hins opinbera. Opið kerfi þar sem hver sem er getur skoðað, ekki bara samantekna liði í fjárlögum og rekstri, heldur kafað alveg niður í hverja einustu færslu hins opinbera og meðfylgjandi skýringar. Þetta tryggir frábært aðhald og dregur úr pólitískri fyrirgreiðslu af almannafé. Framsetningin á þessu gæti verið “glorified” útgáfa af framsetningu DataMarket á Fjárlagafrumvarpinu – þar sem hægt væri að kafa dýpra, sjá nánara niðurbrot, skoða fjármál einstakra stofnana og skýringar með öllu saman.
 • Öll samskipti við hið opinbera geti farið fram rafrænt. Þetta yrði ekki bara í formi vefsíðu, eins og við eigum t.d. að venjast með skattframtalið, heldur eiga bókhaldskerfi og önnur kerfi að geta tengst með sjálfvirkum hætti – með tímanum mætti jafnvel krefjast þess. Sjá bloggfærslu um “The Government API” sem ég skrifaði í fyrra. Þetta eykur skilvirkni, minnkar tvíverknað, fækkar villum og gerir – tvinnað saman við gagnsæiskröfurnar hér á undan – hverskyns undanskot afar erfið.
 • Skynsemi við ráðstöfun takmarkaðra auðlinda. Orkan, fiskurinn, andrúmsloftið og náttúran eru takmarkaðar, verðmætar auðlindir. Þær er rétt að nýta, en af skynsemi. Við hverja ráðstöfun á þessum gæðum, þarf að vega og meta ávinning á móti ókostum. Orkumálin eru þarna hvað umdeildust. Það er jafn vitlaust að vilja ekkert virkja framar eins og það er að vilja virkja allt sem virkjanlegt er. Okkar hagur er að sem mest fáist fyrir orkuna og ekki sé fórnað meiri hagsmunum fyrir minni. Þannig er augljóslega betra að fá marga meðalstóra kaupendur að orku – s.s. rannsóknagróðurhús, vélabú eða álþynnuverksmiðjur – en fáa stóra. Virðisauki samhliða orkusölunni er lykilatriði. Með tilliti til áherslu á fjölbreytni í atvinnulífi eru fleiri álver orðin hættuleg – eggin, körfurnar og allt það. Umfram allt þarf orkusala að fara fram á opnum markaði þar sem verð eru opinber og jafnræði gildir við tilboðsgerð.
 • Afnám hverskyns hindrana á vöruflutningum. Tollar, innflutningsgjöld og niðurgreiðslur ákveðinna framleiðslugreina búa til ójafnvægi sem býr til undarlega hvata og kemur í veg fyrir að við nýtum með besta hætti vinnuafl, landrými, fjármagn og verkvit í heiminum. Grænmetisrækt á Íslandi er því aðeins góð hugmynd að lágt orkuverð hér vegi upp kostnað við gróðurhús og mæti samt flutningskostnaði erlendis frá. Landbúnaður hér ætti að vera takmarkaður við þær greinar sem standast samkeppni við innfluttar vörur í gæðum og verði, eða eiga erindi á alþjóðamarkaði í samkeppni við erlendar vörur þar. Ég efast um að verksmiðjuframleiðsla á borð við svína- og kjúklingarækt geri það, en íslenskt kindakjöt er aftur á móti villibráð og þarf að koma á markað sem sem slíkri: munaðarvara í samkeppni við franska gæsalifur, rússneskan kavíar og lapplenskt hreindýrakjöt. Tollar og gjöld á vörur á borð við raftæki og neysluvörur eru hrein tímaskekkja.
 • Afnám hindrana á fjármagnsflutninga og eignarhald. Eignarhald einkaaðila ætti aldrei að takmarka við ákveðið þjóðerni. Viljum við (íslenska þjóðin) halda yfirráðum yfir ákveðnum auðlindum, eiga þær að vera í eigu ríksins, en nýtingarréttinn má leigja eða selja á opnum markaði. Með þessum hætti fáum við hingað erlent fjármagn í þær framkvæmdir eða verkefni sem okkur gætu reynst ofviða, aukum líkurnar á áhættufjármagni í greinum eins og orku eða sjávarútvegi og aukum samkeppni um þessar auðlindir sem leiðir af sér hærri tekjur til þjóðarbúsins.

Ég geri mér grein fyrir að margt af ofantöldu þarf að nálgast af varfærni. Sumt mun taka allmörg ár að færa til betri vegar og í mörgum tilfellum verður þörf á sérstökum aðgerðum til að gera umbreytinguna sem sársaukalausasta.

Ég tek öllum góðum rökum gegn þessum hugmyndum og áskil mér fullan rétt til að skipta um skoðun í ljósi slíkra, en tel þó að ofangreint standist allharða rökræðu.

Ástæður til bjartsýni

Óformlegum samtökum bölsýnismanna hefur ekki líkað bjartsýnin í mér síðastliðna viku (meira: 1 | 2) og skorað á mig að nefna dæmi um alla þessa jákvæðu hluti sem eru í gangi eða eru að fæðast.

Gjöriði svo vel.

Þekkingariðnaður
Undanfarin ár hefur þekkingariðnaður utan bankanna hefur verið gersveltur mannafli og sprotastarfsemi skort fjármagn. Ástæðan er tvíþætt:

 • Annars vegar hefur fjármálageirinn sogað til sín hæfasta fólkið með ómótstæðilegum kjörum í því sem virtist öruggt umhverfi. Jafnvel fólk sem vissi að því myndi ekki finnast viðfangsefnin spennandi – og vildu helst vera þarna úti að skapa eitthvað – lét til leiðast, etv. með því hugarfari að njóta þessa ástands meðan það varði, koma sér upp þekkingu og etv. smá sjóði sem seinna mætti ganga á til að eltast við það sem það raunverulega vildi gera í lífinu.
 • Hins vegar voru engir í því að fjármagna frumstig fyrirtækja. Viðkvæðið hjá flestum sjóðum strax árið 2005 var orðið “við fjárfestum ekki fyrir minna en 200 milljónir”. Þessi tala var komin upp í 500 milljónir undir það síðasta. Enginn var hins vegar í því að búa til og hjálpa fyrirtækjum á þann stall að þau væru tilbúin að taka við slíkri fjárfestingu. Ef svo hefði verið, ættum við nú kannski stærri flóru fyrirtækja til að taka við yfirflæði hæfileikafólks út á markaðinn.

Gott er til þess að vita að á þessum tíma hugsuðu þó einhverjir til þessara mála. Nýsköpunarsjóður, lífeyrissjóðir og bankarnir settu fyrr á þessu ári saman sjóðinn Frumtak, með alls 4,6 milljarða króna í stofnfé. Þetta er lang-stærsti sjóður þessarar gerðar sem settur hefur verið upp hér á landi. Þeir báru meira að segja til þess gæfu að ráða reynslumikinn rað-frumkvöðul með viðskiptaþekkingu til að leiða sjóðinn og hugmyndin að sjóðnum er á markaðsforsendum. Sjóðurinn á að ávaxta sig eins og sambærilegir sjóðir og ekki vera litaður byggða-, flokka- eða annarri pólitík, en slíkt hefur viljað brenna við í svipuðu framtaki þegar það hefur verið alfarið á höndum hins opinbera. Þessi sjóður er til, hluti af peningunum hefur þegar verið greiddur inn og stjórnarfundur sjóðsins þar sem taka á afstöðu til fyrstu fjárfestinga hans verður haldinn nú á mánudag.

Því miður hefur skapast einhver óvissa um það hvort sjóðnum sé heimilt að hefja fjárfestingar strax, vegna þess að hann á enn skuldaviðurkenningar frá “gömlu” bönkunum upp á þeirra framlög. Að láta slíkan formgalla stöðva sjóðinn í að veita góðum málum brautargengi núna þegar þörfin er mest, er þó eiginlega óhugsandi. Þetta er alfarið undir Ríkisstjórninni komið og ákvörðunin er einföld. Jafnvel þó hún sem nýr eigandi bankanna dragi þeirra framlög til baka (sem hún ætti ekki að gera) er það eina sem þarf til að koma þó afganginum af þessu fé í umferð að eyða þeirri óvissu. Erfitt er að sjá fyrir sér að einhver stjórnmálamaður láti góma sig við að hafa staðið í vegi fyrir því!

Ég þykist líka hafa fyrir því traustar heimildir að a.m.k. hluta af fyrirsjáanlegum kostnaði Ríkisins vegna uppsagnarfresta og atvinnuleysisgreiðslna verði beint í annan farveg, þ.e. í gegnum fyrirtæki sem vilja ráða þetta fólk til starfa (sjá fyrri færslu).

Þekkingarfyrirtæki sem hafa glöð viljað ráða fólk og stofna til nýrra verkefna undanfarin ár eru því núna allt í einu á 2-3 vikum komin í gerbreytta stöðu: Mikið framboð af fólki, lægri launakröfur og meira að segja fjármagn til að mæta ráðningum og leggja til nýrra verka. Þarna er sko aldeilis kraftur að losna úr læðingi.

Og hvaða fyrirtæki eru þetta svo?

Verne Holdings stendur um þessar mundir í stærstu einstöku fjárfestingu í þekkingariðnaði sem hér hefur verið gerð. Áætlanir þeirra um risa-vélabú (gagnaver) í Reykjanesbæ standa óhikaðar.

Nýju sæstrengirnir Danice og Greenland Connect gera m.a. ofangreint gagnaver mögulegt og munu ýta undir frekari fjárfestingar af þessu tagi.

CCP er í gríðarlega öflugri stöðu. Reikningar félagsins eru ekki opinberir en nærri 300.000 áskrifendur borga þeim að meðaltali á bilinu 11-15$ á mánuði. “You do the math…”

Í miðjum stórstorminum gerðist hið ótrúlega. Fyrirtækið OZ, sem margir muna eftir um aldamótin var selt til Nokia. Óþolinmótt fjármagn og aðlaðandi umhverfi nýsköpunar í Kanada gerði það reyndar að verkum að fyrirtækið var jafnað við jörðu hér heima og endurreist á rústunum þar ytra. Engu að síður eru þar nokkrir öflugir íslenskir frumkvöðlar sem nú hafa efnast vel og munu – ef ég þekki þá rétt – ekki standa aðgerðalausir.

Mörg minni fyrirtæki sem lítið hefur farið fyrir eru líka í ágætum málum og eiga mörg hver enn meiri tækifæri nú en áður. Ég nefni í engri sérstakri röð: Calidris, Dohop, ORF líftækni, Caoz, Gogogic, Marimo og áfram mætti telja. Að auki eru mörg minni fyrirtæki á fyrstu metrunum, þar á meða mitt eigið DataMarket. Ég biðst afsökunar á því að listinn er litaður af fyrirtækjum í upplýsingatækni – en þar þekki ég best til.

Vonandi standa svo stóru þekkingarfyrirtækin okkar: Marel, Össur og Actavis vel að vígi, þrátt fyrir að hafa að einhverju leiti tekið þátt í skuldsettum útrásarævintýrum síðustu missera.

Síðast en ekki síst má ekki vanmeta þann mikla fjölda hugmynda- og hæfileikafólks sem núna stendur á krossgötum og þarf að velta fyrir sér hvað það eigi að gera næst í lífinu. Út úr slikum hugrenningum koma oftast góðir hlutir, þó það kunni að vera erfitt í fyrstu. Úr þessum farvegi mun spretta fjöldinn allur af fyrirtækjum og einhver þeirra munu vaxa og dafna til að verða að stórveldum.

Listir og pólitík
Það er alþekkt að í kjölfar þrenginga og hörmunga verður mikill uppgangur í listum og menningu. Að skrifa bók eða mála á striga kostar ekki mikið og fyrir skapandi fólk sem lendir í þeirri aðstöðu að hafa mikinn tíma og etv. takmörkuð fjárráð er þetta fyrirtaks hobbí. Þannig fer etv. hópur fólks núna í listsköpun sem annars hefði aldrei látið þá hæfileika njóta sín þar sem þeir voru einfaldlega of uppteknir í vinnunni!

Þessu til staðfestingar heyrði ég í vinkonu minni í vikunni sem var í áhrifastöðu í einum bankanna. Framtíðin er enn óljós frá bankans hendi, en hún er ákveðin. Hún ætlar núna að skrifa bókina sem hún hefur svo oft reynt að byrja á í flugvélum og öðrum takmörkuðum tíma sem hún hafði aflögu. Núna verður þessi bók að veruleika. Ég bíð spenntur.

Sömuleiðis heyri ég í sífellt fleira vel gefnu hæfileikafólki sem nú vill fara að láta til sín taka í pólitík. Þetta er fólk sem áður leit á pólitík sem sandkassaleikinn sem hún hefur verið, en að fólkið sem þar væri gæti þó alla vegana ekki gert mikinn skaða. Annað hefur nú aldeilis komið á daginn (þó pólitíkusarnir eigi ekki sökina einir) og fólk sér þörfina til breytinga. Algerrar hreinsunar jafnvel.

Gömlu fyrirgreiðslu- og hagsmunapólitíkusarnir eiga ekki séns ef þetta fólk fer að láta til sín taka. Staðreyndin er sú að stór hluti a.m.k. þess hóps sem ég tilheyri, hefur aldrei átt beinan samhljóm hjá neinum af þeim flokkum sem í boði eru og þess í stað sveiflast á milli illskástu kostanna. Þetta fólk er núna tilbúið að fylkja sér á bakvið nýja valkosti og jafnvel taka þátt af krafti í pólitík sem ekki er í fjötrum sögu þeirra flokka sem fyrir eru.

Mér segir svo hugur um að pólitíkst landslag verði gerbreytt þegar við förum að sjá fram út úr mesta moldviðrinu.

– – –

Þetta er meðal þess sem gefur mér tilefni til bjartsýni.

The future of finance: Total transparency?

The financial crisis hit Iceland full force last Monday. One of our banks was pretty much nationalized, followed by a large investment company filing the equivalent of Chapter 11. This led to significant losses by a large “risk free” money market fund, that stored a part or all of the personal savings of some 12 thousand people in it – yours truly included. You can read more about the macro of this all in the international press. And don’t worry about me – my personal loss is manageable.

The whole incident – however – reinforced ideas I’ve been contemplating the last few months about the future of global finance, once the current economic hurricane subsides. I’ve been coming to the conclusion that the only thing that can restore the confidence in the financial markets is total transparency.

The reinforcement came as I spoke with my contact at the bank after learning about my loss. He said that what the bank was doing to gain confidence in the money market fund (and the bank in general) was to open the books completely. Meaning – as I understood it – that they’d publish the composition of the fund in detail online and update it “live” if and when there were any changes in that composition. Something that they’ve ’till now only done once a year in an annual report.

To me, this sounded like a small-scale version of my vision for the future of finance. Total transparency, where anybody can at any time dig through any details on his or her investments.

First, some history… When financial markets – as we know them now – were forming, one of the fundamental ideas was that all players in the market should have equal access to the best possible information on any bond, security and share available. For that reason, strict rules were put in place about how and when companies filed their data. Remember that this is about a century ago – in a very different age in terms of technology and communication. Quarterly filings were pretty much “real time” and very demanding on the companies’ financial operations.

Today we live in a very different world. Real time communication and crunching of terabytes of data is within the reach of pretty much anybody. “Quarterly”, let alone “annually” is not something we settle for when it comes to news, communication or even entertainment. “On-demand” and “real time” is the name of the game. Why should we settle for anything less in our investments?

My prediction is that we’ll see the rise of exchanges were real time access to EVERYTHING is going to be a prerequisite for listing. That investors will be able to dig through the portfolio of the funds they’ve invested in, into the fundamentals of the portfolio companies, all the way down to the smallest details of their financials; their current cash flow situation, bank account balances, write-offs and salary costs – to name a few examples.

Obviously, no single person would dig through all this data, but the very possibility and the combined power of the crowd, would put all actions under scrutiny making stupendous bonuses, hiding of Bermuda straw huts as mortgage in supposedly A-rated securities funds and golden parachute executive agreements visible to the famous “hand of the market”.

Quarterly filings of creatively accounted fundamentals is soooo “twentieth century”. Total real-time transparency is the way of the future.

Framtíð viðskipta: Opið bókhald og fullkomið gegnsæi?

Ég átti umtalverða peninga í hinum “áhættulausa” og nú alræmda Sjóði 9 hjá Glitni. Það þýðir ekkert að gráta það, þó auðvitað fylgist maður með því hvernig umræðan þróast um það hvort sjóðurinn hafi verið kominn út fyrir yfirlýsta fjárfestingastefnu sína og þá möguleg eftirmál þess.

Þegar ég talaði við minn mann í bankanum í gær, fékk ég þær upplýsingar að eitt af því sem Glitnir hyggðist gera til að auka trúverðugleika bankans – og ekki síður sjóða hans – væri að opna bækur sjóðsins. Ég gat ekki skilið það öðruvísi en svo að í stað þess að gefa öðru hverju (að mér sýnist árlega) út yfirlit yfir það hvað er á bakvið eignir sjóðsins, þá yrði það gert stöðugt – jafnvel í rauntíma. Þannig gæti maður á hverjum tíma séð hvaða skuldabréf sjóðurinn ætti og metið útfrá því á eigin forsendu áhættu hans.

Þetta hitti á einhverjar taugar hjá mér, þar sem ég hef verið að velta mér mikið uppúr gögnum og þá ekki síst fjármálatengdum gögnum síðustu mánuði og hef verið að komast á þá skoðun – óháð þessu atviki – að framtíð viðskipta liggi í rauntíma upplýsingagjöf að öllu leiti.

Lög um upplýsingagjöf í kauphallarviðskiptum eiga sér meira en aldarlanga sögu og tilgangur þeirra er að markaðsaðilar sitji við sama borð með bestu fáanlegu upplýsingar á hverjum tíma. Á þeim tíma sem lögin eru mótuð, hefur ársfjórðungsleg birting á rekstrartölum líklega verið ansi stíf krafa – jaðrað við það að vera rauntíma upplýsingagjöf með þeirra tíma tækni. Í dag er þessu öðruvísi farið. Það er ekkert sem stoppar kauphallir í að setja kröfur um rauntímaaðgengi að hverju sem þeir kjósa. Já – jafnvel inn í bókhald fyrirtækjanna, sjóðsstreymi þeirra, útistandandi kröfur og eignastöðu.

Þannig gæti fjárfestir, hvort sem hann er að fjárfesta í hlutabréfum, skuldabréfum, eða einhverjum sjóðum, grafið sig niður í minnstu smáatriði fjárfestingar sinnar. Svolítið eins og DataMarket og fjárlögin, nema bara á miklu stærri skala og með miklu meiri nákvæmni.

Ef svona hefði verið, hefðu margir verið búnir að benda á samsetninguna í Sjóði 9 og hversu mikið hékk þar á fáum, tengdum aðilum. Það hefði líka verið búið að grafa í alla undirmálsvafningana og gagnrýna þá. Hrunið stafar af miklu leiti af því að fáir, ef nokkur, hafði tækin til að sjá í gegnum flækjuna sem búið var að spinna í allskyns fjármálagjörningum.

Ég held að þegar þessum hamförum á fjármálamörkuðum lýkur og menn fara að endurskoða leikreglurnar, sé eitthvað á þessa leið líklegt til að verða ofan á. Ekkert annað en fullkomið gegnsæi á öll tiltæk gögn getur aukið tiltrú almennings á þessum mörkuðum aftur.

Warren Buffet fjárfestir aldrei í neinu sem hann skilur ekki. Með rauntímaaðgang í undirliggjandi vef fjármála- og bókhaldskerfa myndu allir hafa tólin til að skilja það sem að baki fjárfestingum þeirra og hópnum sem heild treystandi til að veita markaðsaðilum aðhald með því að rýna í þessar tölur með og beita allskyns greiningar og birtingartólum til að koma auga á veilurnar í kerfinu.

Fjárlagafrumvarpið í myndum

Fjárlagafrumvarp ársins 2009 var kynnt í dag. Frumvarpið sjálft er doðrantur sem fáir hafa undir höndum. Hægt er að lesa sig í gegnum frumvarpið á Fjárlagavef Fjármálaráðuneytisins, en það er ekki beinlínis aðgengilegt og ekki auðvelt að átta sig á stóru samhengi hlutanna.

DataMarket brást skjótt við og vann gögnin á meðfærilegara form. Útkoman er vefsvæði þar sem hægt er að sjá með þægilegum hætti í hvað stjórnvöld ætla að nota peningana okkar á komandi ári.

Á forsíðunni er yfirlit yfir ráðuneytin, raðað eftir útgjaldaröð. Með því að smella á súluna fyrir eitthvert ráðuneytið birtist skipting útgjalda þess og svo koll af kolli. Gögnin ná reyndar bara 3 þrep niður og oft langar mann að komast dýpra, en fjárlagafrumvarpið nær einfaldlega ekki lengra. Næsta þrep eru rekstraráætlanir einstakra stofnana og þær eru ekki fáanlegar að svo komnu máli.

Ég fullyrði að aldrei hefur verið jafnauðvelt að túlka, rýna og gagnrýna fjárlagafrumvarp á Íslandi eins og með þessu einfalda tóli. Ég bendi á að ef þið viljið efna til umræðu um einstök ráðuneyti eða rekstrarliði, þá á hvert þeirra sér sína slóð, sem hægt er að tengja beint á í bloggi eða senda tengil í tölvupósti eða á MSN.

Hér eru – sem dæmi – áætluð útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs á komandi ári.

Skemmtið ykkur!

– – –

P.S. Þeir sem hafa áhuga á að komast í sjálf gögnin á einhverju formi sem leyfir frekari úrvinnslu (t.d. í Excel) eru hvattir til að setja sig í samband.