íslenska

Della dagsins

Della dagsins

Smellið til að fá stærri mynd

Ég hef lengi verið heillaður af “dellu dagsins” – málinu sem “allir” á Íslandi hafa sterka skoðun á í örfáa daga og hverfa svo úr umræðunni, oftast án þess að hún hafi skilað neinu.

Um jólin ákvað ég að gera mér að leik í nokkrar vikur að skrá niður helstu dellurnar sem dúkka upp. Myndin hér að ofan sýnir 42 daga af þessum dellum. Það skal tekið fram að “mælingin” er algerlega huglæg og byggir ekki á neinum vísindum eða mælanlegri stærð, heldur bara tilfinningu fyrir “umræðunni”.

Það er svolítið skondið að líta yfir þetta og hugsa til baka. Eru kannski atriði á listanum sem þið munið eftir að hafa verið “alveg brjáluð” yfir, en voruð búin að gleyma? Veriði nú heiðarleg.

Flest eru þetta smámál sem engu skipta í stóra samhengi hlutanna, en jafnvel því sem skiptir máli er svo hvort eð er aldrei fylgt eftir (né hinu ef út í það er farið). Eða hver eru t.d. svörin við eftirfarandi spurningum:

 • Er Ölgerðin hætt að selja iðnaðarsalt til matvælaframleiðenda?
 • Nærist Ölfusárlax enn á kúknum úr Selfossbúum?
 • Er hundurinn Lúkas enn á lífi?

Væri kannski hægt að nota þann tíma og þá orku sem fer í þessi upphlaup betur? Hér eru til dæmis eldri vangaveltur um heilbrigt “upplýsingaæði”. Þær gætu verið ágætur upphafspunktur.

– – –

P.S. Fyrir þá sem hafa svo áhuga á að rifja uppþotin á myndinni hér að ofan upp, þá er þetta listi þeirra atriða sem komust á myndina:

Ótalin á myndinni eru engu að síður atriði eins og:

Auk málsins sem var í gangi allan tímann, hafði verið í gangi í margar vikur fyrir jól og sér engan veginn fyrir endann á: Leki á minnisblaði innanríkisnáðuneytisins

…og svo er Icesave að koma aftur!

Lítil fyrirtæki, lykill stórra framfara – þrjár ástæður

Setningarerindi sem ég flutti á Smáþingi nú í dag:

Komiði sæl…

Það er mér sannur heiður að fá að setja þetta Smáþing, enda er efnið brýnt og mér sérstaklega hugleikið.

Sa-litla-Island-orange-400x160pix-2_943295987Einhverra hluta vegna er það þannig að við Íslendingar virðumst hrífast af stórum lausnum; einhverju einu stóru sem á að breyta öllu. Þetta hefur síst af öllu breyst eftir að við reyndum það síðasta sem átti að breyta öllu – alþjóðlega bankastarfsemi. Til að bjarga okkur úr klandrinu sem það kom okkur í einblína margir á eina stóra lausn:

 • Taka einhliða upp annan gjaldmiðil
 • Finna olíu
 • Skipta um stjórnarskrá
 • Leggja sæstreng til Evrópu
 • Endurgreiða fólki verðbólguna
 • Byggja tvö risaálver í einu
 • Þjónusta gullæði á Grænlandi
 • o.s.frv.

Margt eru þetta auðvitað ágæt verkefni sem gaman væri að sjá verða að veruleika í hæfilegum skömmtum og umfram allt á sínum eigin forsendum.

Hin raunverulega lausn liggur hins vegar ekki í einhverju einu stóru. Hin raunverulega lausn er miklu nærtækari. Hin raunverulega lausn er sennilega líka miklu leiðinlegari. Hin raunverulega lausn er að einhverju leyti hér í þessum fundarsal.

Það er kominn tími til að hlúa að hinu smáa, hina fjölbreytta og hinu marga. Velgengni atvinnu- og efnahagslífsins er fyrst og fremst fólgin í því að tryggja litlum fyrirtækjum brautargengi. Að skapa litlum fyrirtækjum almennt, hagfellt umhverfi sem leyfir framtakssömu fólki að spreyta sig á þeim sviðum þar sem það hefur þekkingu, kraft og hugmyndir og sjá hvað verður úr því.

Og ég segi þetta ekki bara út í bláinn. Lítil fyrirtæki eru raunverulegur lykill að stórum og merkilegum hlutum.

Fyrir það fyrsta eru lítil og meðalstór fyrirtæki stærsti vinnustaður landsins. Upp undir helmingur launafólks vinnur hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum, eða líklega á milli 80 og 90 þúsund manns. Hjá litlum fyrirtækjum verða líka til flest störf. Þessari tölfræði er reyndar nokkuð ábótavant á Íslandi, en sé tekið mið af því sem gerist í löndunum í kringum okkur má gera ráð fyrir að um 2/3 hlutar nýrra starfa skapist hjá þessum hópi fyrirtækja.

Þess vegna eru lítil fyrirtæki svo mikilvæg.

Í annan stað skapa lítil fyrirtæki fjölbreytni. Margar þeirra þjóða sem best vegnar í heiminum eru þær sem eiga hvað erfiðast með að svara spurningunni: Hverjir eru ykkar helstu atvinnuvegir? Íslendingar eiga ekki erfitt með það: Ál, fiskur og túrismi. Stundum er jafnvel talað í hálfgerðum hæðnistón um “eitthvað annað”. En leiðin til að standast áföll í einstökum greinum er einmitt sú að tryggja fjölbreytni í samsetningu atinnulífsins; að gera LÍKA eitthvað annað. Ekki á kostnað stóru greinanna, heldur samhliða þeim.

Þess vegna eru lítil fyrirtæki svo mikilvæg.

Í þriðja lagi verða lítil fyrirtæki stundum stór. Það þurfa ekki öll lítil fyrirtæki að stefna að því að verða stór, en fólk virðist oft gleyma að í 100 fjögurra manna fyrirtækjum eru jafn mörg störf og í einu 400 manna fyrirtæki. Munurinn er sá að upp úr 100 fjögurra manna fyrirtæki spretta tíu 60 manna fyrirtæki og mögulega ein “stórstjarna” með mörg hundruð stafsmenn. Í réttu umhverfi fá þær framkvæmdir sem eru á einhvern hátt ófullkomnar – sem reynslan sýnir að eru stærstur hluti þeirra – að deyja drottni sínum, en réttu hugmyndirnar fá að vaxa og dafna og verða að verða að stórum og kraftmiklum fyrirtækjum af eigin rammleik.

Fyrirtæki sem byggt er upp þannig stendur á miklu traustari grunni en fyrirtæki sem er handsnúið í gang í krafti stjórnvalda.

Þess vegna eru lítil fyrirtæki svo mikilvæg.

Ráðherra … og aðrir ráðamenn.

Það er náttúrulega ýmsilegt sem þarf að laga hérna – og það er ekki bara bank í ofnunum eins og sagt var í óborganlegu Fóstbræðra-sketsji um árið. Hér væri freistandi að nefna til sögunnar gjaldeyrishöft og skort á fjármögnunarkostum. En ég ætla ekki að fara út í þá sálma hér.

Umfram allt þurfa frumkvöðlar og framtakssamt fólk nefnilega að gera hlutina sjálft. Við uppbyggingu á nær hverju fyrirtæki koma ítrekað upp augnablik þar sem kringumstæður og einstakar ákvarðanir skilja milli feigs og ófeigs. Einstigið á milli þess að slá í gegn og að fara í hundana getur verið býsna mjótt. Ég þekki það … og hef fallið útaf því, báðum megin. Umhverfið sem stjórnvöld skapa er sjaldnast það sem ríður baggamuninn.

Ef við erum ósátt við aðstæður sem stjórnvöld skapa er sjálfsagt að útskýra í hverju það felst og vinna með þeim að því að breyta og bæta, en spurningin sem fólkið á Litla Íslandi þarf samt umfram allt að spyrja sig er ekki: Hvað get ég gert fyrir tilstuðlan stjórnvalda? Heldur: hvað get ég gert óháð þeim?

Ég segi Smáþing hér með sett. Gangi ykkur vel í dag.

Íslenskt nýsköpunarumhverfi, gjaldeyrishöft og þróunarstarf

sprotiTil að sprotafyrirtæki vaxi úr grasi og verði alvöru fyrirtæki þurfa ótal ótrúlega ólíklegir hlutir að ganga upp: Teymið, markaðsþörfin, vöruþróunin, fjármögnunin, markaðssetningin, salan, vöxturinn og loks uppskeran – nokkurnveginn í þessari röð.

Íslendingar, rétt eins og aðrir, fá þá grillu í höfuðið að láta á þetta reyna. Ég myndi meira að segja ganga svo langt – og held að það sé ekki bara þjóðremba – að segja að á sviði hátækni séum við nokkuð lunkin í fyrstu þremur skrefunum: Við eigum hæfileikaríkt fólk (hráefni í teymi) með puttann á púlsinum í því sem er að gerast (auga fyrir markaðþörf og tækifærum) sem getur búið til tæknilausnir á pari við það besta sem þekkist (vöruþróun).

That’s it!

Þar með er það líka upp talið. Tækifæri til fjármögnunar á Íslandi eru afar takmörkuð, þekking á alþjóðlegri markaðssetningu og sölu er af mjög skornum skammti, hæfileikafólkið er of fátt til að standa undir miklum vexti og fyrirtækin eða fjármálamarkaðirnir sem á endanum kaupa sprotana eru ekki á Íslandi.

Það er ekkert óeðlilegt við það. Á Íslandi búa 0,3 milljónir manna. Ekki mikið fleiri en búa í Corpus Christi í Texas (já, það er borg).

Fyrirtæki sem ætla að ná árangri á sérhæfðum sviðum verða að leita út fyrir landsteinana. Þar eru viðskiptavinirnir, fjárfestarnir og tækifærin. Fyrsta spurningin sem ég spyr unga íslenska frumkvöðla þegar ég hitti þá er: “Hvert ykkar ætlar að flytja til útlanda og hvenær?”. Það er nauðsynlegt skref í uppbyggingunni. Ég hef litla sem enga trú á árangri ef einhver stofnendanna gerir það ekki – að minnsta kosti tímabundið.

Það getur meira að segja verið að fyrirtæki þurfi að flytja höfuðstöðvar sínar erlendis til að ná markmiðum sínum. Í því er alls ekki fólginn nokkurs konar “flótti” eða “föðurlandssvik”. Nákvæmlega það sama er uppi á teningnum hjá fyrirtækjum sem stofnuð eru í Corpus Christi. Þau þurfa að leita þangað sem viðskiptavini, fjárfesta og vaxtartækifæri er að finna. Sá sem ætlaði að byggja upp tæknifyrirtæki og ná árangri með því að einblína á markaðinn í Corpus Christi myndi líklega ekki ná sérlega langt!

Rétta umhverfið skiptir öllu

Lönd og borgir í heiminum keppast við að laða til sín sprotafyrirtæki og hugverkamenn. Ástæðan er einföld. Þó að fæst slík fyrirtæki gangi upp, þá er ekki nokkur angi atvinnulífsins sem heilt yfir vex jafn hratt og skapar jafnmörg hálaunastörf og einmitt þessi. Með því að búa sprotafyrirtækjum gott umhverfi geta byggðalög, landsvæði og jafnvel heilu efnahagssvæðin notið góðs af slíkum uppgangi.

Það er magnað að sjá og upplifa hvað jafnvel borgir eins og New York og Boston-svæðið – sem sumir myndu halda að hefðu nægt aðdráttarafl í sjálfu sér – leggja mikið á sig til að búa nýsköpun og hugverkaiðnaði gott umhverfi (Dæmi: NY, BOS), kynna kosti þess og sverma fyrir fyrirtækjum að setja upp starfsemi sína þar.

Stærsti kostur þess að vera hugverkamaður eða þekkingarfyrirtæki er að það sem til þarf er mjög alþjóðlegt og færanlegt. Það felur sömuleiðis í sér hættu á því að þau samfélög sem ekki hlúa að umhverfi slíkrar starfsemi missi af tækifærunum sem felast í þeirra mannauði.

Til að Ísland geti notið góðs af svona tækifærum þarf að bjóða sprotafyrirtækjum með íslenskar rætur upp á umhverfi sem hvetur þau til halda tengslum við Ísland og vaxa þar, en gerir þeim jafnframt kleift að byggja upp og flytja þá hluta starfsemi sinnar erlendis sem þarf til að styðja við og rækta íslensku starfsemina.

Tvö atriði þurfa þar sérstaka athygli:

 • Áhrif gjaldeyrishafta á uppbyggingu erlendrar starfsemi íslenskra fyrirtækja, fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum tækifærum og ekki síst á það hvar frumkvöðlar og hugverkafólk framtíðar kýs að búa og byggja upp sín fyrirtæki.
 • Áframhaldandi stuðningur við rannsóknir og þróunarstarf. Þetta á við starfsemi Tækniþróunarsjóðs, en þó sérstaklega lög um skattaafslátt vegna rannsókna og þróunarstarfs sem er sennilega stærsta einstaka framfaraskref sem tekið hefur verið til eflingar á íslenska sprotaumhverfinu.

Vonandi verður skilningur á þessu þar sem við á í umróti komandi mánaða.

P.S. Nei, DataMarket er ekki á leið úr landi

DataMarket – fyrirtæki sem ég rek í samstarfi við aðra – byggir nú upp sölu- og markaðsstarf sitt í Bandaríkjunum og mun sennilega á einhverjum tímapunkti flytja hingað höfuðstöðvar sínar. Þróunarstarf, rekstur og þjónusta við viðskiptavini verður áfram rekin á Íslandi þar sem þegar vinnur óviðjafnanlegur hópur forritara, hönnuða og gagnanörda. Sú starfsemi mun einungis vaxa eftir því sem betur gengur á viðskiptahliðinni hér hjá okkur sem stödd erum Bandaríkjamegin.

Af einhverju öðru (en áli)

sprotarVið Hrunið 2008 losnaði býsna margt úr læðingi. Margt af því er vel þekkt og sumt hreint ekki til sóma, en eitt af því sem ekki hefur farið hátt er nýsköpunin sem spratt af stað eftir ákaflega mögur ár á þeim vettvangi í skugga bankabólu og ofþenslu þar sem fólk gat gengið að “öruggum” og vel launuðum störfum sem engin innistæða reyndist svo fyrir þegar upp var staðið.

Strax á fyrstu dögunum eftir hrunið tóku allskyns hópar hugmyndaríks fólks að spretta upp og fólk að hittast til skrafs og ráðagerða um það hvernig byggja mætti upp úr öskunni fyrirtæki og atvinnu fyrir sjálfa sig og aðra. Margir höfðu reyndar gengið með hugmyndir í maganum – jafnvel um árabil – en höfðu aldrei látið vaða. Hver hættir í öruggu og vel launuðu starfi í banka eða stórfyrirtæki til að stofna eigið fyrirtæki með þeirri áhættu og erfiðisvinnu sem því fylgir? Nú loks höfðu margir þetta tækifæri með góðu eða illu. Vinnustaðirnir þeirra urðu ýmist gjaldþrota eða voru að draga saman seglin, framtíðin virtist ekki svo björt og sumir höfðu hreinlega ekki að mörgu öðru að hverfa.

Mest áberandi varð þetta starf undir merkjum hóps sem hlaut heitið Hugmyndaráðuneytið *. Þar var lengi vel haldið úti vikulegum fundum þar sem frumkvöðlar hittust, kynntu sig og kynntust öðrum, deildu af reynslu sinni og spurðu aðra ráða. Fundina sóttu oftast á bilinu 20-200 manns og það kæmi mér ekki á óvart að samanlagt hefðu 2000-3000 einstaklingar sótt þessa fundi, margir fleiri en einn og einhverjir næstum alla fundina sem voru reglulega haldnir í meira en ár.

Meðal þeirra sem ég man eftir á þessum fundum er fólk sem tengist fyrirtækjum eins og OZ, Clara, Gogogic, DataMarket (hvar ég starfa), Mobilitus, Transmit, Meniga, Carbon Recycling International, Fafu Toys, Plain Vanilla, Belgingi / SAR Weather, Búngaló, Gogoyoko, GreenQloud, Dohop, Kinwins, Reykjavík Runway, Grapewire, Karolina Fund, Citizens Foundation, Kosmos & Kaos, Gagarín, Kerfisvirkni, Controlant, Spretti, Flaumi, Locatify, Apon, Cooori, Mindgames, Skemu / ReKode, Golf80, App Dynamic, ReMake Electric og Ými Mobile. Ég er áreiðanlega að gleyma mörgum.

Langflest þessi fyrirtæki voru annað hvort að stíga sín fyrstu skref á þessum tíma, eða hafa verið stofnuð síðan. Þá er ótalið fólk sem þarna var frá eldri og stærri fyrirtækjum sem þó stunda öll nýsköpunarstarfsemi svo sem Marorku, CCP og Hugsmiðjunni – en ég undanskil þau í því sem á eftir fer.

Gengi þessarra fyrirtækja hefur verið upp og ofan og sum þeirra eru ekki einu sinni lengur “meðal vor”. Þannig gangur nýsköpun og sprotastarfsemi fyrir sig. Það merkilega er hins vegar að gróflega telst mér til að hjá þessum fyrirtækjum starfi í dag að minnsta kosti 250 manns. Tölur um veltu og afkomu liggja ekki vel fyrir, en bara hjá þeim þessarra fyrirtækja sem ég þekki til hjá veit ég af bókaðri sölu eða fjárfestingu á þessu ári upp á meira en 3 milljarða króna, nær allt í erlendum gjaldeyri. Rétt tala er líklega nær 4 milljörðum ef ég reyni að giska í eyðurnar – og árið þó ekki hálfnað.

Ef ég væri í pólitík myndi ég svo tala um “afleidd störf” og margfeldisáhrif og kæmist vafalaust mikið hærra.

Að baki þessu liggur ekki opinber stefnumörkun. Raunar hefur áhugi af hálfu hins opinbera alla tíð verið hlutfallslega lítill á þessum málaflokki (þó endurgreiðsla rannsókna- og þróunarkostnaðar sé þar mikilvæg undantekning) og ekki ein einasta ný vatnsaflsvirkjun. Hvað þá lán með ríkisábyrgð og gengisáhættu, tengdu markaðsverði á áli!

Það er í raun réttara að segja að þessi árangur hafi náðst “þrátt fyrir” en “fyrir tilstuðlan” þess umhverfis sem boðið er upp á. Ég get sagt af eigin reynslu að gjaldeyrishöft, duttlungafullar leyfisveitingar og lagasetningar og furðuleg uppátæki íslenskra stjórnmálamanna sem rata í heimspressuna eru EKKI til að gera þessa vinnu auðveldari.

Þetta eru störf og umsvif sem hafa sprottið af sjálfu sér, drifin áfram af áhugasemi og framtaki fólksins sem stendur að baki þessum fyrirtækjum. Og þannig á það að vera!

Fyrir vinstra fólkið: Umhverfisvæn og skapandi störf sem byggð eru á hugviti og spretta úr grasrótinni.

Fyrir hægri mennina: Framtak einstaklingsins í sinni fegurstu mynd, með lágmarksafskiptum ríkisins.

Oooo, en krúttlegt. Hvar er álverið mitt?!?

– – –

* Þess má geta að Hugmyndaráðuneytið hefur undanfarið rúmt ár gengið í endurnýjun lífdaga og stendur m.a. fyrir ráðstefnunni Startup Iceland sem haldin verður í Hörpu í næstu viku.

Af gjaldeyrishöftum, dægurþrasi og sandkassapólitík

Árni Páll Árnason hefur verið að birta yfirvegaðar og skynsamlegar greinar um skaðsemi og leiðir til afnáms gjaldeyrishaftanna undanfarna daga. (Sjá: 1, 2, 3). Þetta er mikilvægasta mál íslensks samtíma. Miklu mikilvægara en flestir gera sér grein fyrir, enda getum við meðalfólkið enn keypt okkar bíla, farið í okkar frí erlendis einu sinni ári og keypt flest alla innflutta vöru. Það mun hins vegar breytast smám saman eins og Árni Páll bendir réttilega á í síðustu greininni.

Það sem er ekki síður hrollvekjandi er að meðan hinir þrír hlutar fjórfrelsisins eru enn óskertir, þá er hætt við að fleira og fleira ungt fólk átti sig á því að möguleikar þeirra eru takmarkaðari en jafnaldra þeirra í nágrannalöndunum. Innan hafta eru ekki sömu möguleikar til að nýta sér tækifæri á markaði, ekki sömu möguleikar til nýsköpunar og ekki sömu möguleikar til fjármögnunar eins og utan þeirra. Og þá gerist eitt af tvennu: Framtakssamasta fólkið flytur af landi brott eða stjórnmálamenn fara að fá hugmyndir um að setja höft á fleira en bara gjaldeyrinn.

“Ókosturinn” við þetta mikilvæga mál er að áhrifin felast í hægfara hnignun frekar en skyndilegu áfalli. Og þá er auðveldara að tala um hundinn Lúkas eða annað dægurþras sem upp kemur í “dellu dagsins”. Málum sem allir hafa skoðun á í 24 tíma en engu skila til framtíðar. Fjölmiðlarnir nærast á slíkum málum, enda ódýrt efni í framleiðslu með mikinn lestur og hægt að endurtaka sama leikinn dag eftir dag. Þeir hafa hins vegar engan hvata til að gera stórum málum skil á hlutlausan hátt með allri þeirri vinnu, rannsóknum og vandvirkni sem til þarf.

Það þarf að vinna hratt að lausnum á gjaldeyrismálunum og þar þarf að snúa við öllum steinum. Upptaka Evru með inngöngu í ESB er eins og Árni Páll og fleiri hafa bent á líklega viðnámsminnsta leiðin, en alls ekki án fórna og þess vegna umdeild – svo mjög að hún gæti verið ófær. Auk þess þarf að skoða fyrir alvöru hvort möguleiki sé á því að taka upp Kanadadollar með aðkomu Kanadamanna (eða Norska krónu með aðkomu Norðmanna). Loks þarf að stilla upp sviðsmyndum af því hvernig hægt væri að blása lífi í krónuna eina ferðina enn og hvaða peningamálastefnu ætti þá að nota til að stýra henni.

Að halda – og halda fram – að aðeins ein leið sé fær og skella sjálfkrafa skollaeyrum við öllum hugmyndum um annað er barnaskapur. Möguleikarnir eru fjölmargir. Viðfangsefnið er að finna þann sem hefur fæsta galla.

Það þarf að fá bestu hagfræðinga og peningamálamenn samtímans til að vega og meta þessa kosti í opnu ferli þar sem jafnframt er lögð áhersla á að útskýra stöðuna, leiðirnar og kosti og galla hverrar um sig á einfaldan og skiljanlegan hátt fyrir almenningi. Jafnframt þarf að tryggja að öllum spurningum og ábendingum sem upp koma sé svarað skýrt og skilmerkilega og þær metnar inn í leiðirnar eftir því sem við á áður en ákvörðun er tekin.

Allt þetta væri gerlegt ef ekki væri fyrir það að svona ferli þyrfti að vera þverpólitískt þar sem þingmennirnir – fulltrúar okkar á Alþingi – þyrftu að átta sig á því að þeir eru SAMAN í liði, að þeirra hlutverk er að vinna SAMANSAMEIGINLEGUM hagsmunum allra landsmanna og í SÁTT um ferlið þó tekist sé á um leiðirnar. Slíkt er nær ómögulegt að sjá fyrir sér og verður reyndar erfiðara og erfiðara eftir því sem Alþingi sekkur dýpra í forarpytti skotgrafanna.

Það er þess vegna ekki hægt að takast á við þennan vanda frekar en svo margan annan vegna þess að sandkassaleikur pólitíkurinnar stendur í veginum. Þar liggur hið raunverulega úrlausnarefni, en engin lausn í sjónmáli.

Heilsusamlegt upplýsingaæði

Ég lauk nýlega við lestur bókarinnar The Information Diet eftir Clay Johnson.

Útgangspunktur bókarinnar er nokkuð snjall. Þar er upplýsingavali okkar og -neyslu – fréttalestri, bókalestri, tölvupósti, samfélagsmiðlum, sjónvarpi og neyslu á öðrum fjölmiðlum – líkt saman við fæðuval okkar og -neyslu. Þar eru að auki færð fyrir því sterk rök að upplýsingaæði okkar flestra sé engu skárra en mataræðið – og þar steðji að engu síðri vandi en offituvandinn. Á meðan venjur okkar í mataræði gera okkur feit gera venjur okkar við upplýsingainntöku okkur fáfróð og þröngsýn. Höfundurinn vill meina að þetta sé að miklu leyti ástæðan fyrir því hversu hörð stjórnmálaátökin eru, hversu óvandaður fréttaflutningur er og hversu vanþroskuð umræða um þjóðfélagsmál sé orðin.

Já, þetta á greinilega við víðar en á Íslandi!

Höfundur líkir slúðurfréttum og öðru óvönduðu léttmeti (“- MYNDIR!”) við skyndibita og sælgæti. Margir eiga erfitt með að standast þessháttar efni og það stendur hollari upplýsingaupptöku fyrir þrifum.

Samfélagsmiðlar og tölvupóstur fá líka sinn sess, en þáttur þeirra er mun flóknari og fellur í raun undir bæði hollustu og ómeti að mati höfundar.

Eftir að hafa útskýrt þessa sýn sína á upplýsingaöldina leggur höfundur af stað til að vopna okkur aðferðafræði, tólum og tækjum til að stunda heilbrigt upplýsingaæði.

Fyrst eru taldir til þeir hæfileikar sem nútímamaðurinn þarf að hafa til að takast á við upplýsingaflæði samtímans:

 • Upplýsingaleit: Að vita hvar á að leita góðra upplýsinga og hvernig.
 • Síun: Að þekkja góðar upplýsingar frá slæmum og hvað einkennir hvorn flokk um sig.
 • Framreiðsla: Að geta komið hugsunum sínum frá sér á skiljanlegan hátt, ekki síst til að ná utan um þær sjálfur.
 • Samþætting: Að geta fellt nýfengnar upplýsingar að hugmyndum sínum um heiminn og breytt þeim – já, jafnvel skipt um skoðun!

Því næst er farið í gegnum eins konar tímastjórnun við upplýsingainntöku. Hvernig komum við í veg fyrir að skyndibitinn eða Facebook “sjúgi okkur til sín” og við komum engri annarri neyslu að, eða vinnu frá okkur (mörg vinnum við jú ekki við annað en að sanka að okkur upplýsingum og koma þeim síðan frá okkur á einhvern hátt til annarra). Þarna er að finna nokkrar sniðugar hugmyndir sem hægt er að tileinka sér, en höfundur tekur þó skýrt fram að þetta sé aðeins tiltekin aðferðafræði sem hann hafi komið sér upp og hafi reynst honum vel.

Síðasti hlutinn í sjálfum “mataræðis”-hluta bókarinnar fjallar svo um heilsusamlegt “upplýsingafæði” og þetta var sá hluti bókarinnar sem mér fannst áhugaverðastur. Hér eru þau nokkrir hlutir sem hollt upplýsingafæði samanstendur af að hans mati:

 • Ábyrg neysla: Taktu stjórn á upplýsinganeyslunni. Ekki horfa á sjónvarpsdagskrá, horfðu á það sem þú virkilega vilt horfa á: þætti eða bíómyndir á DVD eða í stafrænum þjónustum. Lestu efni sem mælt hefur verið með við þig af fólki sem þú virðir og treystir, ekki það sem er matreitt ofan í þig af dagskrár- eða ritstjórum annarra miðla. Þetta á líka við um tölvupóstinn. Skráðu þig af póstlistum og fástu við þann póst sem virkilega þarfnast athygli, en ekki láta hann taka athyglina frá mikilvægari verkum. Skilgreindu líka tiltekna tíma dagsins í neyslu ákveðinnar gerðar upplýsinga. Klukkutími í bóklestur fyrir svefninn. Tölvupóstur þrisvar á dag, o.s.frv. Með öðrum orðum: Fastir matmálstímar og ekkert snakk á milli mála!

  Annar þáttur í þessu og ekki síður mikilvægur: Forðastu mikið unnar upplýsingar rétt eins og mikið unninn mat. Leitastu við að sækja upplýsingar beint til upprunans. Því fleiri skref sem frásögnin eða fréttin hefur verið umskrifuð og umrituð, því meiri upplýsingar hafa tapast og jafnvel rangfærslur eða misskilningur slæðst inn í. Erlendar fréttir í íslenskum miðlum eru oft skýrt dæmi um þetta, sem og fréttir í almennum fjölmiðlum af vísindum. Reynum að rekja okkur til upprunans og lesa frumheimildina frekar en túlkun eða endurtúlkun annarra á henni. Og tökum öðru með fyrirvara.

 • Upplýsingar úr næsta nágrenni: Leitastu við að neyta upplýsinga um þitt næsta umhverfi í meira mæli en það sem kemur lengra að. Þetta er ekki bara hugsað landfræðilega heldur líka í efnistökum (þitt sérsvið, áhugamál eða annað). Af hverju? Jú, vegna þess að það er líklegara að þær upplýsingar skipti þig máli, geti haft áhrif á þitt daglega líf og að þú getir á einhvern hátt brugðist við eða gert eitthvað í málunum. Það er líka auðveldara að þekkja bullið eftir því sem maður þekkir viðfangsefnið betur. Hver kannast ekki við að hafa þekkt til í einhverju máli sem hefur orðið fréttamatur og séð að þar er einhverju ábótavant eða farið lauslega með staðreyndir? Það er gott að muna að allar fréttir eru þessu sama marki brenndar. Við bara vitum það ekki af því að við þekkjum ekki til þeirra. Annað efni er svo nauðsynlegt í bland, en ætti að vera stillt í hóf og því tekið með ákveðnum fyrirvara.
 • Lágt auglýsingainnihald: Forðastu auglýsingar. Þær eru hannaðar til að ná athygli þinni og trufla þig við það sem þú ert að gera. Þar að auki eru þær hannaðar til að vera gildishlaðnar, en ekki til hlutlausrar upplýsingamiðlunar. Það eru ýmsar leiðir til að draga úr áreiti auglýsinga bæði á vefnum og í öðrum miðlum. Kynntu þér þær og tileinkaðu þér.
 • Fjölbreytni og jafnvægi: Leitastu við að neyta fjölbreyttra upplýsinga og mismunandi sjónarmiða. Leitastu sérstaklega við að lesa skoðanir þeirra sem eru ósammála þér og reyna að sjá þeirra flöt á málinu og það frekar en að lesa skrif þeirra sem eru sammála þér. Slíkt efni gerir ekki annað en að fylla þig af, ef til vill, óverðskuldaðri sannfæringu um að þú hafir þegar rétt fyrir þér. Það er betra að brýna skoðanir sínar með rökum þeirra sem eru ósammála þér. Hver veit, kannski ert þú ekki handhafi hins heilaga sannleika eftir allt saman – og sértu það, ertu þá betur í stakk búin(n) til að svara mótrökunum.

  Leitastu sömuleiðis við að kynna þér í bland gæðaumfjöllun um hluti sem þú hefur aldrei kynnst áður og fá þannig nýtt efni inn í hugmyndaheim þinn. TED – einhver?

Ég verð að segja að ég er óskaplega hrifinn af þessum pælingum og margt í þessu hljómar eins og frábær tækni til að takast á við óþægilega kunnugleg stef úr íslenskum fjölmiðla- og umræðuheimi.

Þetta er sterkasti hluti bókarinnar, en ég mæli engu að síður eindregið henni allri. Mikið af góðum pælingum og hugmyndum að því hvernig við getum bætt upplýsingaæði okkar og lyft umræðunni á hærra plan. Ekki veitir af!

Af iðnaðarsalti

Ég fór í smá skoðunarleiðangur um internetið til að forvitnast um þetta iðnaðarsalt sem var í fréttunum í gær. Umræðan er að venju yfirborðskennd og lítið um nákvæmar upplýsingar í umfjöllun fjölmiðla. Hér er það sem ég komst að.

Á gömlu afriti af vefsíðu Ölgerðarinnar fann ég vöruna. Hana er ekki lengur að finna í vörulistanum á vef fyrirtækisins. Með smá fikti fann ég samt stóra og fína mynd af pakkningunum, enn á vefsvæði Ölgerðarinnar (afrit af myndinni hér ef hún skyldi hverfa).

Á pakkningunum stendur stórum stöfum “Industrial salt” og “For industrial use only”. Með góðum vilja má etv. skilja það þannig að matvælaiðnaður falli þar undir … og þó!

Innihaldslýsingin er líka vel sjáanleg þarna:

E536 virðist álitið nánast skaðlaust, en um E535 segir á Wikipedia “Despite the presence of the cyanide ligands, sodium ferrocyanide is not especially toxic (acceptable daily intake 0–0.025 mg/(kg body weight)) because the cyanides are tightly bound to the metal.” Frumheimildin þarna er þetta skjal frá WHO.

Bæði þessi efni er hins vega líka að finna í lýsingum á hefðbundnu matarsalti, enda koma þessi efni í veg fyrir að saltið kekkist.

Það virðist því ólíklegt að alvarleg hætta sé á ferðum eða einhver hafi orðið fyrir skaða af neyslu þessa iðnaðarsalts. Hins vegar falla efni til iðnaðarframleiðslu ekki undir jafn strangt eftirlit og matvara og því hefðu önnur snefilefni eða mengun verið líklegari til að komast í dreifingu með þessum hætti.

Eftir stendur því að það er alvarlegt að fyrirtækið leyfi sér að selja þessa vöru til matvælaframleiðslu á svig við lög og reglur og eins að eftirlitsstofnunin láti það óátalið.

Það er hins vegar engin ástæða til að fara á límingunum yfir því að einhver hafi orðið fyrir heilsutjóni af þessum sökum, nema fram komi nýjar og óvæntar upplýsingar.

Leikmannsrannsókn lokið 🙂

Uppfært 14. janúar kl 21:24: Herti aðeins á orðalagi varðandi “For industrial use only”. Það er erfitt að spyrja sig ekki spurninga um það hvort efnið sé raunverulega ætlað til neyslu með þessa merkingu þarna. Áréttaði líka í niðurlaginu að ekki sé ástæða til að fara á límingunum af ótta við að einhver hafi orðið fyrir heilsutjóni. Eftir sem áður er full ástæða til að taka þetta alvarlega, fara vandlega yfir starfsemi fyrirtækisins og eftirlitsaðilanna, spyrja erfiðra spurninga og grípa til aðgerða eins og tilefni reynist til.

Vaðlaheiðargöng – gögn, arðsemi og útreikningar

Ég hef aðeins verið að velta þessari Vaðlaheiðargangaframkvæmd fyrir mér. Eins og oft vill verða skiptast háværustu raddirnar í tvo hópa á sitthvorum enda litrófsins: Annars vegar þá sem finna framkvæmdinni allt til foráttu og hins vegar þá sem vilja keyra verkið í gegn nánast án frekari umræðu eða umhugsunar.

Ég settist þess vegna aðeins yfir málið í morgun og fann til eftirfarandi gögn sem sýna samanburð á umferð um Víkurskarð (sem Vaðlaheiðargöng munu að mestu leysa af hólmi) og Hvalfjarðargöng á árunum 2000-2009:

Meðalfjöldi ferða yfir allt tímabilið er 1.014 bílar á dag um Víkurskarð, en 4.459 um Hvalfjarðargöng og hefur á báðum stöðum vaxið nokkuð jafnt og þétt ár frá ári. Þannig var meðalumferð á dag árið 2000:

 • Víkurskarð: 834 ferðir
 • Hvalfjarðargöng: 3.241 ferð

…en árið 2009:

 • Víkurskarð: 1.253 ferðir
 • Hvalfjarðargöng: 5.413

Þetta samsvarar því að umferð um Víkurskarð hafi að jafnaði vaxið um ca. 4,2% á ári, en um 5,3% á ári í Hvalfjarðargöngunum.

Ég birti þessi gögn á Facebook og þar sköpuðust í framhaldinu býsna fjörugar og fróðlegar umræður um málið.

Tryggvi Þór Herbertsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins blandaði sér meðal annars í þessar umræður með fróðlegu innleggi og bauðst til að senda mér þá arðsemisútreikninga sem hann hefði notað til að mynda sér skoðun á málinu í upphafi árs 2012, en Tryggvi hefur lýst sig fylgjandi framkvæmdinni.

Ég fékk leyfi Tryggva til að birta þessa útreikninga hans. Hér eru hans forsendur og niðurstöður (smellið á myndina til að skoða útreikningana sjálfa):

Ég hafði nokkrar athugasemdir við forsendur útreikninganna, sem ég sendi Tryggva um hæl:

 • Þú reiknar með að öll umferð fari um göngin. Er ekki rétt að miða við 90%?
 • Engir vextir á framkvæmdatíma?
 • Rekstrarkostnaður Hvalfjarðarganga er 250 m.kr. á ári. Þú reiknar með 40 m.kr. á ári við Vaðlaheiðargöng. Hvernig rökstyðurðu þennan mun?
 • Þú reiknar með að meðalveggjald notanda sé 1255 krónur (með vsk). Það er verulega mikið hærra (meira en 2x) en t.d. í Hvalfjarðargöngum. Er það raunhæft?
 • Er tímasparnaðurinn ekki 11 mínútur (16 km á 90km hraða)?
 • 1,5% vöxtur á umferð kann að vera hóflegt miðað við reynslu síðustu 10 ára (sjá að ofan). Má alveg hækka það aðeins. T.d. 2%

Tryggvi benti mér réttilega á að samanlagður tímasparnaður miðast við fjölda farþega í bíl og óhætt að reikna með að það séu fleiri en einn í bílnum. 40 m.kr. rekstrarkostnaðurinn er kominn frá Vaðlaheiðargöngum ehf og skýrður með ólíkri tækni, en hann er svo mikill að þar finnst mér skorta frekari rökstuðning. Almennt hefur verið talað um að veggjald verði 1000 krónur og það hlýtur að miðast við að sú upphæð sé með VSK – ekki án. 50 m.kr. sparnaður við vetrarþjónustu hljómar nokkuð hár, en ég geri ekki athugasemdir við það fyrr en að betur athuguðu máli.

Að teknu tilliti til þessara forsendubreytinga líta uppfærðar niðurstöður svona út. Blálituðu reitirnir merkja mínar breytingar. Að vísu er enn ekki gert ráð fyrir vöxtum á framkvæmdatíma (aftur má smella á myndina til að sjá útreikningana):

Niðurstaðan er vissulega töluvert ólík eftir þessar breytingar.

Ef þið hafið aðrar forsendur eða skoðanir á því hvernig eigi að gera þetta, getið þið svo bara sótt Excel-skrána og leikið ykkur með ykkar eigin forsendur og etv. hjálpar það ykkur við að mynda ykkur upplýsta skoðun á því hvert þessi framkvæmd eigi rétt á sér eða ekki. Mér finnst þetta a.m.k. hjálpleg æfing meðan opinber gögn málsins liggja ekki fyrir.

Burtséð frá ykkar niðurstöðum og skoðunum hvers og eins á Tryggvi Þór á hrós skilið fyrir bæði vinnubrögðin og þátttöku í opnum umræðum um málið. Meira svona!

Uppfært 17. nóv, 2011 kl 11:22: Hér að neðan hafa komið fram athugasemdir við útreikningana í módeli Tryggva og hann tekið undir þær. Eins bendir Tryggvi á að virðisaukaskattur af veggjaldinu sé 7%, ekki 25,5%. Ég hef því uppfært skjölin og myndirnar til samræmis við það, enda tilgangur þessarar tilraunar að nálgast rétt módel sem hver og einn geti skoðað sínar forsendur með.

Uppfært 17. nóv, 2011 kl 11:48: Setti inn þriðju útgáfu af forsendum þar sem flestar tölur eru teknar verulega niður með varfærni að leiðarljósi. Það gæti litið einhvern veginn svona út:

Hlutaskrá einkahlutafélags – dæmi

Samkvæmt lögum um íslensk einkahlutafélög skal félagið sjálft halda hlutaskrá (stundum kölluð hluthafaskrá eða hluthafalisti). Kveðið er á um þetta í 19. grein laganna, en hún hljóðar svo:

19. gr. Þegar einkahlutafélag hefur verið stofnað skal stjórn þess þegar í stað gera hlutaskrá. Heimilt er að hafa skrána í tryggu lausblaða- eða spjaldaformi eða tölvuskrá hana.

 • Í hlutaskrá skulu hlutir skráðir í númeraröð og skal fyrir sérhvern hlut greint frá nafni eiganda, kennitölu og heimilisfangi.
 • Gefa má út hlutaskírteini í einkahlutafélögum.
 • Verði eigendaskipti að hlut og ákvæði 14. og 15. gr. eru þeim ekki til fyrirstöðu skal nafn hins nýja hluthafa fært í hlutaskrána þegar hann eða löglegur umboðsmaður hans tilkynnir eigendaskiptin og sannar rétt sinn. Enn fremur skal geta eigendaskipta- og skráningardags. Sá sem eignast hefur hlut getur ekki beitt réttindum sínum sem hluthafi nema nafn hans hafi verið skráð í hlutaskrá eða hann hafi tilkynnt og fært sönnur á eign sína á hlutnum.
 • Ef þess er krafist af hluthafa eða veðhafa skal félagið gefa út staðfestingu um færslu í hlutaskrána.
 • Hlutaskrá skal ætíð geymd á skrifstofu félags og eiga allir hluthafar og stjórnvöld aðgang að henni og mega kynna sér efni hennar.

Þetta er auðvitað meingallað fyrirkomulag sem býður upp á bæði mistök og margskonar sniðgöngu á lögum, t.d. í tengslum við skatta og takmarkanir á eignarhaldi. Eðlilegast væri að að Fyrirtækjaskrá héldi utan um hlutaskrá allra félaga, rétt eins og hún heldur utan um samþykktir þeirra, stjórnarsetu, prókúru og endurskoðendur. En það er alveg efni í sérstaka umfjöllun.

Ástæðan fyrir þessari færslu er sú að ég veit að fjölmörg einkahlutafélög halda ekki utan um þessi mál í samræmi við það sem kveðið er á um í lögunum – og þar sem ég er tiltölulega nýbúinn að fara í gegnum það með bæði lögfræðingum og endurskoðendum að koma þessu á form sem uppfyllir lögin í einu og öllu fannst mér um að gera að deila afrakstrinum af þeirri vinnu með öðrum sem vilja hafa þessi mál í réttum farvegi.

Excel-skráin hér að neðan sýnir ímyndaða atburðarás við stofnun, fjármögnun og eigendaskipti á hlutum í einkahlutafélagi. Þetta þarf svo að uppfæra þetta í hvert sinn sem breyting á sér stað í hluthafahópnum og tryggja að skjalið sé aðgengilegt hluthöfum og yfirvöldum þegar þess er óskað.

Úfylling skjalsins á að skýra sig nokkurnvegin sjálf, sérstaklega með hliðsjón af lögunum. Skráin er á bæði ensku og íslensku til að geta nýst ef erlendir aðilar eru (eða eru líklegir til að verða) í hluthafahópnum. Fyrir rammíslensk félög má að sjálfsögðu sleppa enskunni.

Smellið á myndina til að sækja skjalið:

Njótið!

Besta ræða Steve Jobs

Steve Jobs er fallinn frá. Hann er öllum frumkvöðlum fyrirmynd og við erum mörg sem lítum upp til hans. Í minningu kappans ákvað ég að færa í íslenska þýðingu bestu ræðu Steve Jobs, og reyndar eina bestu ræðu sögunnar að mínu mati.

Ræðan var flutt við úskrift nemenda úr Stanford-háskóla þann 12. júní árið 2005 og á erindi við alla, ekki bara tölvufólk og sprotaflón, heldur alla sem velta fyrir sér lífinu og tilverunni:

Það er mér heiður að vera með ykkur í dag þegar þið brautskráist frá einum besta háskóla heims. Í sannleika sagt er þetta það næsta sem ég hef komist slíkri útskrift. Mig langar að segja ykkur þrjár sögur úr lífi mínu. Það er allt og sumt. Engin stórræði. Bara þrjár sögur.

Fyrsta sagan fjallar um það að mynda tengingar.

Ég hætti í námi við Reed-háskóla eftir 6 mánaða skólagöngu, en var viðloðandi skólann í aðra 18 mánuði áður en ég sagði að fullu skilið við skólann. En af hverju hætti ég þá?

Sagan hefst áður en ég fæddist. Líffræðileg móðir mín var ungur og ógiftur háskólanemi og ákvað að gefa mig til ættleiðingar. Hún hafði sterka skoðun á því að fólkið sem ættleiddi mig ætti að vera háskólagengið fólk. Það hafði því verið gengið frá því að ég yrði ættleiddur af lögfræðingi og konunni hans. Nema hvað, þegar ég skaust í heiminn ákváðu þau á síðustu stundu að þau vildu heldur stelpu. Foreldrar mínir, sem voru á biðlista, fengu því símtal um miðja nótt: “Óvænt erum við hér með nýfæddan strák; viljið þið taka hann?” Þau svöruðu: “Að sjálfsögðu.” Líffræðileg móðir mín komst síðar að því að mamma hafði aldrei útskrifast úr háskóla og pabbi hafði aldrei lokið menntaskólanámi. Hún neitaði því að skrifa undir endanlegu ættleiðingarskjölin. Það var ekki fyrr enn nokkrum mánuðum síðar þegar foreldrar mínir lofuðu að ég myndi fara í háskólanám að hún féllst á að ganga frá pappírunum.

Og 17 árum síðar fór ég í háskóla. Í barnaskap mínum valdi ég skóla sem var næstum eins dýr og Stanford. Þetta þýddi að allur sparnaður verkafólksins, foreldra minna, fór í skólagjöldin mín. Að sex mánuðum liðnum sá ég ekki að námið væri þess virði. Ég hafði enga hugmynd um hvað ég vildi gera í lífinu og enga hugmynd um hvernig háskólinn myndi hjálpa mér að svara þeirri spurningu. Og hér var ég að eyða öllum þeim sparnaði sem foreldrar mínir höfðu safnað á lífsleiðinni. Þannig að ég ákvað að segja mig frá náminu og treysti því að þetta myndi allt reddast einhvern veginn. Þessi ákvörðun hræddi mig mjög, en þegar ég lít til baka sé ég að þetta var einhver besta ákvörðun sem ég hef nokkurntíman tekið. Um leið og ég hætti í formlega náminu þurfti ég ekki lengur að sækja kúrsa sem ég hafði engan áhuga á og gat laumast inn í kúrsa sem virtust áhugaverðir.

Þetta var ekki eintóm gleði og hamingja. Ég var ekki með herbergi á heimavist þannig að ég svaf á gólfinu í herbergjum vina minna. Ég safnaði flöskum sem ég seldi fyrir 5 sent til að kaupa mat og á hverjum sunnudegi gekk ég 7 mílur þvert yfir bæinn til að fá eina almennilega máltíð í Hare Krishna-hofinu. Mér fannst þetta frábært. Og margt af því sem ég rakst með því að elta forvitni mína og brjóstvit reyndist mér ómetanlegt síðar. Ég skal gefa ykkur eitt dæmi:

Reed-háskóli bauð á þessum tíma upp á nám í skrautritun. Hugsanlega besta slíka nám sem boðið var upp á í landinu. Á háskólasvæðinu var hvert einasta plakat, hver einasta merking á hverri einustu skúffu, fallega skrautrituð. Þar sem ég hafði hætt í formlegu námi og þurfti ekki að stunda hefðbundin fög, ákvað ég að læra skrautritun. Ég lærði muninn á steinskrift og þverendaletri, um breytilegt bil á milli stafa eftir samstæðum þeirra og hvað það er sem gerir framúrskarandi letur framúrskarandi. Þetta var fallegt, sagnfræðilegt og hafði listrænan blæ þeirrar gerðar sem vísindin ná ekki að fanga, og þetta heillaði mig.

Ekkert af þessu hafði minnstu möguleika til að nýtast mér seinna á ævinni. En tíu árum síðar, þegar við vorum að hanna fyrstu Macintosh tölvuna, rifjaðist þetta allt upp fyrir mér. Og við útfærðum þetta allt sem hluta af Makkanum. Hún var fyrsta tölvan með fallegu letri. Ef ég hefði ekki sótt akkúrat þennan áfanga í háskóla hefði Makkinn aldrei boðið upp á mismunandi leturgerðir eða hlutfallslegt stafabil. Og þar sem Windows apaði bara upp það sem Makkinn gerði, hefði sennilega engin einkatölva boðið upp á slíkt. Ef ég hefði ekki hætt í námi hefði ég aldrei sótt þennan áfanga í skrautritun og einkatölvur byðu ef til vill ekki upp á fallegt letur. Auðvitað var ómögulegt að átta sig á þessari tengingu þegar ég var í háskólanum, en það var mjög auðvelt þegar litið var til baka 10 árum síðar.

Ég endurtek, það er ómögulegt að sjá tengingar fyrirfram; þú getur einungis áttað þig á þeim þegar þú lítur til baka. Þú verður því að treysta því að hlutirnir tengist einhvern veginn seinna á lífsleiðinni. Þú þarft að treysta einhverju – tilfinningunni í maganum, örlögunum, lífinu, karma, einhverju. Þessi nálgun hefur aldrei svikið mig og hún hefur mótað líf mitt.

Önnur sagan fjallar um ástríðu og missi

Ég var heppinn – ég fann mína ástríðu snemma í lífinu. Við Woz stofnuðum Apple í bílskúr foreldra minna þegar ég var tvítugur. Við unnum hörðum höndum, og á 10 árum óx Apple úr því að vera við tveir í bílskúr í tveggja milljarða dollara fyrirtæki með 4.000 starfsmenn. Við hleyptum af stokkunum okkar bestu vöru – Macintosh tölvunni – ári áður og ég var rétt nýorðinn þrítugur. Og þá var mér sagt upp. Hvernig getur manni verið sagt upp störfum hjá fyrirtæki sem maður stofnar sjálfur? Tjah, samhliða vexti Apple réðum við til starfa mann sem ég taldi ákaflega hæfileikaríkan til að reka fyrirtækið með mér, og það gekk vel fyrsta árið eða svo. Þá tók framtíðarsýn okkar ólíka stefnu sem leiddi á endanum til ósættis. Stjórn fyrirtækisins tók afstöðu með honum. Þannig að þrítugur var ég settur af. Og það með mjög áberandi hætti. Allt það sem ég hafði beint kröftunum að því að byggja upp sem fullorðinn maður var farið, og það nísti inn að beini.

Ég vissi hreint ekki hvað ég átti að gera í nokkra mánuði. Mér fannst ég hafa brugðist fyrri kynslóð frumkvöðla – að ég hefði misst kyndilinn sem mér var færður. Ég fór á fund David Packard og Bob Noyce og reyndi að biðja þá afsökunar á að hafa mistekist svona hrapalega. Ég var opinberlega misheppnaður og ég hugsaði jafnvel um að flýja úr dalnum. En ég tók smám saman að átta mig á einu – ég hafði enn ástríðu fyrir því sem ég var að fást við. Atburðarásin hjá Apple hafði ekki breytt því neitt. Mér hafði verið hafnað, en ég var enn ástfanginn. Og ég ákvað að byrja upp á nýtt.

Ég áttaði mig ekki á því þá, en það kom í ljós að brottreksturinn frá Apple var það besta sem hefði getað hent mig. Í stað byrðanna sem fylgdu góðum árangri kom léttirinn af því að vera byrjandi á ný, ekki jafn viss í minni sök og áður. Þetta frelsi leiddi til einhvers frjóasta tímabils lífs míns.

Á næstu fimm árum stofnaði ég fyrirtæki sem hét NeXT, annað sem heitir Pixar og varð ástfanginn af ótrúlegri konu sem varð síðar eiginkona mín. Pixar framleiddi heimsins fyrstu tölvugerðu teiknimynd, Toy Story, og er í dag öflugasti teiknimyndaframleiðandi veraldar. Merkileg atburðarás varð til þess að Apple keypti NeXT, ég fór aftur til Apple og tæknin sem við þróuðum hjá NeXT er hjartað í endurreisn Apple. Og við Laurene eigum saman yndislega fjölskyldu.

Ég er nokkuð sannfærður um að ekkert af þessu hefði gerst ef ég hefði ekki verið rekinn frá Apple. Þetta var ekki bragðgott meðal, en það virðist vera að sjúklingurinn hafi þurft á því að halda. Stundum slær lífið mann í höfuðið með múrsteini. Ekki missa trúna. Ég er sannfærður um að það eina sem hélt mér gangandi var ástríðan fyrir því sem ég fékkst við. Maður verður að finna þessa ástríðu. Þetta gildir jafnt um lífið sem lífsförunautana. Vinnan er stór hluti af lífinu og eina leiðin til að vera virkilega ánægður er finnast maður vera að vinna framúrskarandi vinnu. Og leiðin til að vinna framúrskarandi vinnu er að hafa ástríðu fyrir því sem maður er að gera. Ef þú hefur ekki fundið hana ennþá, haltu áfram að leita. Ekki sætta þig við minna. Eins og með önnur hjartans mál, veistu þegar það rétta er fundið. Og, eins og öll góð sambönd, batnar það bara með árunum. Haldu áfram að leita þar til þú hefur fundið þína ástríðu. Ekki sætta þig við minna.

Þriðja sagan er um dauðann.

Þegar ég var 17 ára, las ég tilvitnun sem var eitthvað á þessa leið: “Ef þú verð hverjum degi eins og hann væri þinn síðasti, muntu á endanum hafa rétt fyrir þér.” Þetta hafði áhrif á mig, og síðan þá, síðustu 33 ár, hef ég litið í spegilinn á hverjum morgni og spurt sjálfan mig: “Ef dagurinn í dag væri síðasti dagur lífs míns, myndi mig langa að gera það sem ég er að fara að gera í dag?” Og í hvert skipti sem svarið hefur verið “Nei” of marga daga í röð, veit ég að ég þarf að breyta einhverju.

Hafandi í huga að innan skamms muni ég deyja er mikilvægasta tækið sem ég hef fundið til að hjálpa mér við að taka stóru ákvarðanirnar á lífsleiðinni. Vegna þess að næstum allt – allar væntingar, allt stolt, allur ótti við niðurlæginguna sem felst í mistökum – allt þetta bliknar í samanburði við dauðann og eftir stendur það sem raunverulega skiptir máli. Hafandi í huga að innan skamms muni maður deyja er besta aðferðin sem ég kann til að forðast þá hugsanavillu að maður hafi einhverju að tapa. Þú ert þegar nakinn. Það er ástæðulaust að fylgja ekki draumum sínum eftir.

Fyrir um það bil ári síðan var ég greindur með krabbamein. Ég fór í rannsókn klukkan hálf átta um morguninn og hún sýndi svo ekki var um að villast æxli í brisinu. Ég vissi ekki einu sinni hvað bris var. Læknarnir sögðu mér að þetta væri nær örugglega ólæknandi mein og að ég mætti búast við því að eiga þrjá til sex mánuði ólifaða. Læknirinn ráðlagði mér að fara heim og koma mínum málum í farveg, sem þýðir á læknamáli að maður eigi að búa sig undir dauðann. Það þýðir að reyna að segja börnunum þínum á nokkrum mánuðum allt það sem þú hélst að þú hefðir næstu 10 ár til að segja þeim. Það þýðir að ganga þannig um hnútana að fráfall þitt sé eins fyrirhafnarlítið og mögulegt er fyrir fjölskylduna. Það þýðir að kveðja fólkið sitt.

Þennan dag lifði ég við þessa greiningu. Um kvöldið fór ég í magaspeglun, þar sem þeir tróðu slöngu niður hálsinn á mér, í gegnum magann, alla leið niður í garnirnar, stungu nál í brisið og náðu nokkrum frumum úr æxlinu. Ég var í lyfjamóki, en eiginkona mín, sem var með mér á staðnum sagði að þegar læknarnir skoðuðu frumurnar í smásjá fóru þeir að gráta þar sem í ljós kom að þetta var mjög sjaldgæf gerð krabbameins í brisi sem unnt er að lækna með skurðaðgerð. Ég fór í þessa skurðaðgerð og nú er allt í góðu lagi.

Þetta er það næsta sem ég hef komist því að standa frammi fyrir dauðanum, og ég vona að þetta sé það næsta sem ég kemst því í nokkra áratugi til viðbótar. Eftir þessa upplifun get ég þó sagt ykkur af heldur meiri sannfæringu en þegar dauðinn var fyrir mér aðeins gagnlegt, en fjarlægt hugtak:

Engan langar til að deyja. Jafnvel fólk sem vill fara til himna vill ekki deyja til að komast þangað. Og samt er dauðinn það sem bíður okkar allra. Enginn hefur nokkru sinni sloppið við hann. Og þannig á það líka að vera, vegna þess að Dauðinn er líklega besta uppfinning Lífsins. Hann er það sem drífur áfram þróun Lífsins. Hann grisjar úr það gamla og býr til rými fyrir það nýja. Núna eruð þið það nýja, en einn daginn eftir ekki svo ýkja langan tíma, verðið þið smám saman það gamla og verðið grisjuð úr. Þið fyrirgefið dramatíkina, en svona er þetta.

Þið hafið takmarkaðan tíma. Ekki sóa honum í að lifa lífi einhvers annars. Ekki festast í viðjum einhverra kredda – að lifa lífinu með hliðsjón af því sem öðru fólki finnst. Ekki láta háværar skoðanir annarra yfirgnæfa ykkar innri rödd. Og mikilvægast af öllu, hafið kjark til að fylgja því sem hjartað og brjóstvitið segir ykkur. Einhvern veginn vita þau hvað þið raunverulega viljið. Allt annað er aukaatriði.

Þegar ég var ungur var gefið út magnað rit sem nefndist The Whole Earth Catalog. Þetta var ein af biblíum minnar kynslóðar. Upphafsmaðurinn var náungi hér í nágrenninu, í Menlo Park, að nafni Stewart Brand. Ljóðræn nálgun hans gaf ritinu líf. Þetta var í lok 7. áratugarins, fyrir tíma einkatölva og umbrotsforrita. Ritið var því allt unnið með ritvélum, skærum og Polaroid myndavélum. Þetta var eins konar Google í pappírsformi, 35 árum áður en Google kom til sögunnar: unnið af hugsjón og stútfullt af frábærum upplýsingum, viðhorfum og hugmyndum.

Stewart og hans fólk gáfu út nokkur tölublöð af The Whole Earth Catalog. Þegar það hafði runnið sitt skeið á enda gáfu þeir út sérstakt lokatölublað. Þetta var um miðjan 8. áratuginn og ég var á ykkar aldri. Á baksíðu síðasta tölublaðsins var ljósmynd af sveitavegi snemma morguns, sveitavegi eins og þeim sem maður gæti farið um á puttaferðalagi ef maður væri í ævintýrahug. Undir myndinni stóð: “Verið hungruð. Verið flón.” (“Stay hungry. Stay foolish.”) Þetta voru þeirra lokaorð þegar þau kvöddu. Verið hungruð. Verið flón. Og þetta er það sem ég hef alltaf óskað sjálfum mér. Og núna, þegar þið útskrifist, óska ég ykkur þess sama.

Verið hungruð. Verið flón.

Takk fyrir kærlega.

Hér má svo horfa á ræðuna í flutningi Jobs:

Og hér má svo nálgast upprunalega enska textann.