Næsta Ísland

Eftir Covid: Leiðarljós við uppbyggingu

Ég ætla ekki að fagna sigri eða setjast í spámannssæti um það hvenær eða hvernig þessum faraldri sem nú gengur yfir lýkur, en einn daginn gerist það og þegar vísindamennirnir og heilbrigðisstarfsmennirnir hafa lokið sínu starfi við að bjarga lífi og limum, þurfum við hin að takast á við uppbyggingarstarfið sem við tekur í efnahagslífinu og samfélaginu öllu.

Þessi pistill er tilraun til að koma í orð nokkrum atriðum sem ég tel að við ættum að hafa að leiðarljósi við það starf.

Ef velja ætti eitt orð til að lýsa því sem gengið hefur á síðustu vikur er það orðið “breytingar”. Þar til fyrir fáeinum vikum var mikið talað um þær öru breytingar sem hin svokallaða 4. iðnbylting átti að hafa í för með sér, og þau tækifæri og ógnir sem í því fælust. Talað var um að hraði þessarra breytinga yrði ólíkur nokkru sem við hefðum áður séð.

Að einhverju leyti má segja að nú hafi 4. iðnbyltingunni hafi verið flýtt:

  • Tæknivæðing í skólum sem hefði auðveldlega tekið 20 ár með hefðbundinni stefnumörkun hefur orðið á 20 dögum.
  • Breytingar á ferðavenjum sem hörðustu loftslagsaðgerðir hefðu ekki getað fært í orð að ná fyrir árið 2040 eða 2050 urðu á 2-3 vikum.
  • Breyting á starfsháttum fyrirtækja og stofnana sem hefði verið óhugsandi með öllu hefur víða verið gerð á einni nóttu.

Þessar breytingar eru allar öfgakenndar og því fer fjarri að við viljum halda í þær, en þær opna líklega augu okkar fyrir því að það voru allskyns millivegir færir. Millivegir sem við hreinlega sáum ekki áður.

Þegar breytingar verða svona hratt, höfum við tilhneigingu til að halda að að þeim loknum verði ekkert eins og áður. Að allt muni breytast – og nú sé tækifæri til að laga allt og byggja nýja hluti á nýjum grunni.

Við munum það sjálfsagt mörg í bankahruninu: Þá átti allt að breytast og ekkert að verða samt aftur. Auðvitað breyttist margt, en í raun var samfélagið sem smám saman reis upp úr því sennilega líkara því sem fyrir var en nokkurn óraði fyrir á meðan á því stóð.

Íhaldssemi er nefnilega sterkt afl – og oft ágætt. Hlutirnir hafa tilhneigingu til að leita í sama farið, og ef við ætlum að breyta öllu er kröftunum dreift svo víða að ekkert breytist. Allt verður eins á ný. Fæst okkar myndu líklega gráta það. Þaðan sem við horfum í dag, er það samfélag sem við bjuggum við fyrir bara 2-3 mánuðum ákaflega eftirsóknarvert. En það var sannarlega ekki gallalaust.

Ég held að það sé hollt að nálgast uppbyggingarverkefni næstu ára með þetta í huga. Hlutirnir hafa tilhneigingu til að leita í sama farið, en við höfum tækifæri til að horfa á það far, hugsa um það sem betur mátti fara og reyna að stýra hlutunum. Þannig getum við ýtt undir æskilegar breytingar, en forðast endurhvarf til þeirra hluta sem ef til vill voru það síður.

Og hver eru þá brýnustu úrlausnarefnin þegar kemur að atvinnulífinu?

Þegar ég þarf að útskýra Ísland og íslenskt efnahagslíf fyrir fólki erlendis nota ég undantekningarlítið þessa mynd:

Tekjuöflunin okkar samanstendur af þremur stórum stoðum og svo “einhverju öðru”. Síðan ég byrjaði í “business” fyrir bráðum 25 árum hefur umræðan um þetta alltaf skotið upp kollinum öðru hverju. Fyrst var það “Fjórða stoðin” svo “Alþjóðageirinn”, en óháð því hvað það er kallað og hugsanlegum blæbrigðamun á skilgreiningum er í raun verið að kalla eftir aukinni fjölbreytni og þar með mótvægi við áföllum í einni eða jafnvel fleirum af þessum stóru stoðum.

Með þetta í huga annars vegar, og hins vegar þá staðreynd að við stöndum frammi fyrir stórri áskorun við að milda höggið nú, þurfum við að horfa á það hvernig sem mest af þeim kostnaði sem fer í björgunaraðgerðirnar getur nýst til að fjárfesta í fjölbreyttari framtíð. Beina fólkinu og fjármagninu sem nú leitar að farvegi í uppbyggingu sem leiðir af sér fjölbreyttara efnahagslíf sem er þolnara fyrir áföllum.

Og þetta má ekki gera á kostnað núverandi burðarstoða umfram þær breytingar sem óumflýjanlegar eru þar. Þessar burðarstoðir þarf að verja. En það þarf að byggja upp samhliða þeim.

Upp með innviðina

Ég ætla að koma ykkur á óvart með því að byrja á að tala um steypu. Framkvæmdir í einkageiranum munu líklega svo gott sem stöðvast í bili, en þá er tækifæri til að byggja upp innviði sem mæta kröfum framtíðarinnar.

  • Ferðamannastaðir og þjóðvegir: Verum tilbúin að taka á móti gestunum þegar þeir fara að koma aftur.
  • Umhverfis- og loftslagsmál:
    • Orkuskipti: Ef eitthvert land á að skara framúr þegar kemur að rafbílavæðingu er það Ísland. Allur fólksbílaflotinn notar innan við þriðjung þeirrar orku sem notuð er í álverinu í Straumsvík. Í dag er öll sú orka aðkeypt fyrir tugi milljarða í gjaldeyri á ári hverju. Sú innviðauppbygging sem þarf hér kallar á mörg störf iðnaðarmanna um allt land. Og ekkert eitt skref kæmi okkur nær því að standa við skuldbindingar okkar samkvæmt Parísarsamkomulaginu en einmitt þetta. Af öllu því sem unnt væri að ráðast í nú er þetta augljósasta færið. Þetta hefur hreinlega ALLT með sér.
    • Almenningssamgöngur: Herðum á uppbyggingu almenningssamgangna. Það kallar á störf, léttir á öðrum innviðum og eykur lífsgæði bæði þeirra sem nota almenningssamgöngurnar og hinna sem áfram nota (rafmangs)bílinn.
  • Stafrænt Ísland: Nú er lag. Fólk hefur þurft að læra og komist að því að það er hægt að leysa ótrúlegustu hluti yfir netið og með stafrænum hætti. Opinberir aðilar hafa dregist langt afturúr í því að veita þannig þjónustu. Hraðari uppbygging hér eykur skilvirkni og þjónustustig hins opinbera, öllum til hagsbóta.

Samt ekki “tóm steypa”

Stóru geirarnir okkar þrír eru auðlindageirar. Mér vitanlega eru ekki miklar líkur á því að við finnum nýja auðlind sem skapar viðlíka verðmæti og þess vegna þurfum við að beina sjónum okkar að hugvitinu. Það er líka á því sviði sem verðmæti geta orðið til úr “engu” öðru en því að veita hugmyndaríku og drífandi fólki gott kaffi og gott starfsumhverfi.

Það besta sem Ísland hefði getað gert til að takast á við núverandi ástand hefði verið að setja stóraukinn kraft í nýsköpun fyrir 5-10 árum síðan. Næstbesta ráðið er þess vegna að gera það núna!

  • Ekki gleyma litlu fyrirtækjunum: 70% landsmanna vinna hjá litlum fyrirtækjum (færri en 250 starfsmenn, 50% hjá fyrirtækjum með færri en 50 starfsmenn) og þar verða ný störf til hraðar en hjá stórum fyrirtækjum. Litlu fyrirtækin hafa samt ekki sterka rödd og margar þeirra aðgerða sem henta stórum fyrirtækjum, henta litlum fyrirtækjum síður – hvað þá einyrkjum.
  • Gefum fyrirtækjum sem eru komin af stað “tímavél”: Þau fyrirtæki sem eru – og hafa verið – í uppbyggingu miðað við þann raunveruleika sem þangað til nýlega var, munu eiga erfitt á næstu misserum. Margir markaðir eru í algeru frosti og fjármögnunarleiðum hefur snarlega fækkað og orðið erfiðari. Hættan er að þessi fyrirtæki falli um koll núna og verði ekki á staðnum til að grípa tækifærin þegar allt lifnar við á ný. Hvatasjóðurinn Kría er mikilvægur þáttur hér og hann þarf að komast af stað strax og jafnvel stækka. En það þarf líklega líka að skoða aðrar leiðir, eins og víkjandi lán til fyrirtækja sem lenda í þessari biðstöðu. Hið hefðbundna bankakerfi sinnir ekki þessum fyrirtækjum og mun ekki geta gert það á sínum forsendum í þessu umhverfi heldur.
  • Hjálpum nýjum að komast af stað: Þau sprotafyrirtæki sem hafa verið að ná árangri á undanförnum árum fóru nær öll af stað í síðustu kreppu. Ég þekki það ágætlega sjálfur, stofnaði fyrirtæki 2008 og seldi það 2014. Sú sala mældist alveg á hagvísum. Og aðrir sem þá fóru af stað hafa náð miklu lengra. Nú er los á góðu fólki, gefum því tækifæri til að láta hugmyndir sínar verða að veruleika. Hér liggur beint við að stórefla Tækniþróunarsjóð (og þar er hreyfing nú þegar), og stuðla að þekkingarmiðlun milli þeirra aðila sem eru að fara af stað og hinna sem hafa reynsluna með markvissum sprotahröðlum eða álíka verkefnum.

Opið og sterkt samfélag

Að lokum megum við ekki gleyma því að Ísland þarf alþjóðlegt samstarf og viðskipti eins og maraþonhlaupari þarf súrefni.

Sú lexía sem við megum allra síst draga af þessu ástandi er að nú skuli hver hugsa um sig, loka landamærum og draga sig inn í skelina. Þvert á móti þurfum við að efla alþjóðlegt samstarf og samskipti, draga hingað alþjóðlega þekkingu og fjármagn og þora að vera þjóð á meðal þjóða.

Þetta er ekki bara mikilvæg brýning vegna þess að aðgangur að alþjóðamörkuðum er nauðsynlegur bæði stóru greinum dagsins í dag og nýju greinum framtíðarinnar, heldur liggur kannski hérna eitt stærsta tækifærið í þessu öllu saman.

Krísan sem nú gengur yfir heimsbyggðina er að sýna svo ekki verður um villst hversu mikils virði það er að búa í samfélögum með öfluga innviði, öryggisnet og samfélagsgerð. Það er sannarlega of snemmt að hrósa sigri, en ef svo fer fram sem horfir er Ísland að fara nokkuð vel útúr þessum faraldri heilsufarslega séð og í sterkri stöðu til að takast á við það sem á eftir kemur efnahagslega.

Samfélög sem sýna þann styrk munu verða eftirsóknarverð samfélög. Samfélögin þar sem brestirnir koma í ljós síður. Þegar upp úr þessum átökum er staðið munu margt drífandi fólk horfa til þess hvort hagsmunum þeirra og öryggi sé kannski betur borgið á öðrum stað í heiminum. Ef vel tekst til hjá okkur munu sum þeirra horfa til Íslands. Við eigum að taka vel á móti þeim öllum, en sérstaklega ekki leggja stein í götu þeirra sem geta hjálpað til við uppbygginguna. Við þurfum ekki að mennta öll þau sem eiga að standa undir atvinnulífi framtíðarinnar – við getum boðið þau velkomin að flytja hingað. Ég trúi því að þarna verði stórt sóknarfæri á næstu árum.

Ég held með öðrum orðum að Ísland verði aftur eftirsóknarverður áfangastaður. En ekki bara fyrir ferðamennina – sem munu koma aftur – heldur líka fyrir fólk sem er að leita að betra og öruggara samfélagi til að búa og starfa í.

Lokaðra Ísland er ávísun á meiri fábreytni og færri tækifæri, en opið á fjölbreytni, aukna viðspyrnu við áföllum og fleiri tækifæri.


Vonandi berum við gæfu til að nálgast þetta uppbyggingarstarf af svipaðri ákveðni og yfirvegun og í því hvernig tekist hefur verið á við heilsufarsógnina. Þá verða einn daginn verða vonandi fleiri en 3 stórar stoðir undir íslensku efnahagslífi og fleiri greinar til að grípa okkur í fallinu þegar óvænt og áhjákvæmileg áföll dynja á.

Stjórnmálaflokkarnir og ég (2017)

Hvað ég kaus. Hvað ég kaus ekki – og af hverju.

Ég kaus utan kjörfundar í síðustu viku. Að venju hugsaði ég mig nokkuð vandlega um, en á endanum gat ég raðað öllum flokkunum 10 upp í röð sem ég var sáttur við. Sú röð fylgir hér fyrir neðan ásamt útskýringu með hverjum kosti í tvít-lengd eða skemmri.

  1. Viðreisn: Ég er ekki sannfærður enn, en tilraunin til að skapa frjálslyndan, heiðarlegan, alþjóða- og markaðssinnaðan jafnaðarmannaflokk þarf að fá annað tækifæri.
  2. Björt framtíð: Málefnalega sama og Viðreisn. Þessir flokkar hefðu átt að sameinast áður en listum var skilað inn. Veikara bakland, en fyrirmyndarfólk í forsvari.
  3. Píratar: Róttæki kosturinn sem ég gat hugsað mér. Tilhugsunin um “uppfært stýrikerfi” fellur mér í geð, en hópurinn hefur verið of óstabíll og óútreiknanlegur til að ég treysti honum fyrir mínu atkvæði.
  4. Samfylkingin: Hefur flust of mikið til vinstri síðustu ár. Finnst eins og þessi flokkur viti aldrei alveg hvert hann er að fara (né hvaðan hann kom).

    — Ekkert hér fyrir neðan kom raunverulega til greina —

  5. Framsóknarflokkurinn: Gamla “góða” framsókn komin aftur. Trausta sveitafólkið sem myndi bjarga mér úr skafli ef ég festist. Fólk forfeðra minna. Verst að hagsmuna- og stefnumál þeirra fara nánast ekki saman með mínum að neinu leyti. Óþægileg forsaga sem er ef til vill ekki alveg horfin.
  6. Vinstri græn: Treysti fólkinu, en ósammála stefnunni í eiginlega öllu.
  7. Sjálfstæðisflokkurinn: Treysti ekki fólkinu, en sammála (yfirlýstri) stefnu að mörgu leyti. Ef henni væri nú fylgt eftir…
  8. Alþýðufylkingin: Var ekki búið að fullreyna þessa hugmyndafræði?
  9. Flokkur fólksins: Þjóðernis- og einangrunarhyggja sem boðuð er með hræðsluáróðri á ekkert erindi í upplýstu nútímasamfélagi.
  10. Miðflokkurinn: Málefnalega sama og Flokkur fólksins, nema með Sigmund Davíð sem hefur fyrir löngu misst alla virðingu mína – og síst gert eitthvað til að vinna hana aftur.

Er ég þá ekki örugglega búinn að móðga alla?

Borgaðu fyrir fjölmiðla – núna!

paperboyÖflugir fjölmiðlar eru samfélaginu nauðsynlegir og sjaldan frekar en einmitt nú. Ég ætla svo sem ekki að rekja í löngu máli hvers vegna, enda hafa margir gert það nýlega betur en ég nokkurn tímann gæti. Sjá til dæmis hér og hér.

Ég ætla hins vegar að skora á ykkur að taka ykkur til og borga fyrir þá fjölmiðla og þá fjölmiðlun sem ykkur líkar. Auglýsingatekjur – sem eru stærsti tekjustofn flestra fjölmiðla – eru ágætar, en þær stuðla hins vegar að einsleitri fjölmiðlun og hagsmunaárekstrar við auglýsendur geta líka dregið úr biti fjölmiðla sem reiða sig eingöngu á þær.

“Heilbrigðustu” tekjur hvers fjölmiðils eru tekjur sem koma beint frá lesendum í formi áskrifta eða beinna framlaga. Margir bestu fjölmiðlar heims sækja nú tekjur með þessum hætti í auknum mæli. Það er vel og þú ættir ekki að láta þitt eftir liggja í þeim efnum.

Hugsaðu þig um og veltu fyrir þér hvaða fjölmiðlar – innlendir og erlendir – þér finnast skerpa sýn þína á málefni líðandi stundar. Þetta snýst ekki endilega um miðla sem maður er alltaf sammála, heldur miðla sem vanda til verka, taka á mikilvægum málum og fá mann til að sjá málin frá nýju sjónarhorni. Þegar þú ert komin(n) að niðurstöðu skaltu verja 10 mínútum í að gerast áskrifandi eða vildarvinur þessarra fjölmiðla.

Þetta þarf ekki að kosta meira en andvirði fáeinna kaffibolla á mánuði, en ef allir gera þetta getum við gulltryggt framúrskarandi fjölmiðlaumhverfi.

Meðal þeirra innlendu fréttamiðla sem þú getur styrkt eða gerst áskrifandi að eru:

  • Kjarninn
    • (athugið: ég er stjórnarformaður og stærsti hluthafi Kjarnans og því ekki hlutlaus)
  • Frjáls fjölmiðlun / Fréttatíminn
    • (athugið að þetta átak er háð endurskipulagningu á rekstri Fréttatímans og ekki útséð með hvað úr verður, en sjálfsagt að setja sig á blað ef Fréttatíminn kom upp í hugann hér að ofan)
  • Stundin
  • Viðskiptablaðið
  • Morgunblaðið
  • DV

Af erlendum miðlum er af nógu að taka, en hér eru nokkrir góðir:

Mér telst til að á mínu heimili séum við áskrifendur/greiðendur að 10 ofantalinna miðla – auk 4-5 annarra með þrengri efnistök svo sem varðandi tækni, vísindi og viðskipti. Það er kannski vel í lagt (við erum heppin að vera svo vel aflögufær), en endilega finndu að minnsta kosti 3 miðla sem þér líkar og styrktu þá með framlagi eða áskrift.

Núna!

Takk 🙂

Virkjum Andra Snæ!

CLD160513__DSC2211-1024x576Við erum heppin í forsetakosningunum í þetta sinn. Við höfum úr nokkrum góðum kostum að velja – og það er ekki sjálfgefið. Við skulum að fagna því sérstaklega að gott fólk gefi kost á sér til opinberra starfa fyrir okkur.

Þrátt fyrir það var ég ekki í vafa um mitt val frá þeirri stundu sem ljóst var að Andri Snær Magnason myndi gefa kost á sér til embættisins. Ástæðurnar fyrir því eru einfaldar: Andri Snær hefur skýra, skemmtilega og jákvæða framtíðarsýn. Framtíðarsýn sem ég deili með honum.

Ég veit að Andri er áhugamaður um margt, en í framboði sínu til forseta hefur hann lagt áherslu á þrjú málefni öðrum fremur:

  • Umhverfið: Andri talar fyrir skýrum áherslum í umhverfismálum. Langtímasýn og skynsamlegri nýtingu á auðlindum okkar samhliða fræðslu og staðfastri stefnumótun. Við Íslendingar erfðum miklar auðlindir, Andri mun hvetja okkur til að fara vel með þann auð sjálfum okkur og komandi kynslóðum til heilla.
  • Tungumálið: Af fáu eru Íslendingar stoltari en tungumálinu sínu. Sem farsæll og óvenjulega hugmyndaríkur rithöfundur hefur Andri sýnt að hann kann svo sannarlega að fara með málið. Andri hefur verið ötull við að hvetja börn og ungt fólk til lestrar, sem og stjórnvöld til að standa að nauðsynlegum stuðningi svo íslenskan verði ekki útundan í hinni öru þróun tækninnar. Íslenskan er mikilvægt mál og forsetinn getur beitt sér í því.
  • Lýðræðið: Andri hefur tekið skýra afstöðu með því að koma á nýrri stjórnarskrá á grundvelli þeirra draga sem samin voru af Stjórnlagaráði. Nú er það raunar svo að setjist maður niður og skoði – hlutlægt – núgildandi stjórnarskrá og þau drög sem fyrir liggja að nýrri, er svo gott sem ómögulegt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að sú nýja sé ekki bara nútímalegari, heldur einnig skýrari og fallegri. Svo er hún líka íslensk, ekki dönsk. Þjóð meðal þjóða hlýtur að vilja sína eigin stjórnarskrá.

Andri Snær vill nota forsetaembættið til að vekja athygli á þessum málum og hefja upp umræðuna um þau. Hann hefur auðvitað þegar sýnt og sannað að hann getur hrifið fólk með sér og haft mikil áhrif, enda hefur hann einstaka hæfileika í því að tengja saman fólk, tengja saman hugmyndir og miðla málefnum með áhrifamiklum hætti. Í forsetaembættinu mun rödd hans heyrast enn víðar og betur en áður. Til þess ættum við að veita Andra brautargengi.

Andri sprettur úr fjölbreyttum jarðvegi. Bjó ungur í útlöndum og kynntist líklega meiri fjölbreytni þar en flest okkar íslensku heimalninganna; kynntist náið íslenskri sveit þar sem innprentuð er virðingin fyrir lífinu, landinu og náttúrúnni, en líka vinnusemi, nýtni og hugkvæmni; og hefur svo starfað með skapandi fólki sem skilur hvernig með hugvitinu einu saman er ekki aðeins hægt að skapa mikil verðmæti, heldur hreinlega framtíðina sjálfa. Þessi blanda hugnast mér vel og ég hef trú á því að hún gefi manni heilbrigða sýn á heiminn, hvert hann stefnir og hvernig hægt er að hafa áhrif á hann.

Andri Snær er frambjóðandinn sem stendur fyrir allar þær breytingar sem ég – og margir fleiri – vilja sjá á íslenskri umræðu, íslensku samfélagi og íslenskum áherslum.

Verum ekki hrædd við að kjósa breytingarnar þegar þær bjóðast: Virkjum Andra Snæ Magnason!

Saga af 725 krónum

Árið 1981 voru 725 krónur dágóð upphæð. Með snöggri leit á timarit.is má sjá að fyrir um það bil þá upphæð mátti m.a. fá vel með farinn Silver Cross barnavagn, leigja herbergi á stúdentagörðum í heilan mánuð og kaupa veiðileyfi í Elliðavatni í heilt sumar – en það þótti reyndar okur.

Screen Shot 2015-11-25 at 14.48.37

Á hefðbundnari mælikvarða jafngilda 725 krónur árið 1981 ríflega 30þús krónum í dag á föstu verðlagi.

En fyrir 725 krónur mátti líka fá 100 bandaríkjadali. Það er áhugavert að sjá hvernig þessum krónum – eða dollurum – hefði reitt af með mismunandi ávöxtunaraðferðum. Grafið hér að neðan sýnir einfaldasta samanburð.

ISKUSD-obundin

Eftirfarandi má lesa úr grafinu:

  • Hefði ég geymt krónurnar undir koddanum ætti ég augljóslega enn í dag 725 krónur.
  • Hefði ég geymt 100 dollara undir koddanum ætti ég jafn augljóslega ennþá 100 dollara, en þeir jafngilda í lok árs 2013† 12.223 krónum.
  • Hefði ég lagt krónurnar inn á hefðbundinn íslenskan bankareikning (Hagstofan kallar þennan flokk “almenna sparisjóðsbók”), ætti ég í árslok 2013 6.275 krónur.
  • Hefði ég lagt krónurnar inn á hefðbundinn bandarískan bankareikning, ætti ég í árslok 2013 455 dollara sem þá var jafngildi 55.574 króna.

Á þessu tímabili var með öðrum orðum tvöfalt betra að eiga dollara undir koddanum, en krónur á venjulegum íslenskum bankareikningi. Hvorugt var þó sérlega gott. Krónurnar á bankareikningnum höfðu í lok tímabilsins tapað 79% af verðgildi sínu á föstu íslensku verðlagi og dollararnir 59%. Krónurnar undir koddanum höfðu tapað 97,5% af sínu verðgildi. Aðeins bandaríski bankareikningurinn hafði skilað raunávöxtun. Sú ávöxtun nemur – í krónum – 88%, sem yfir 32 ára tímabil er rétt um 2% ársávöxtun að jafnaði.

Krónan kemur ekki sérlega vel út í þessum samanburði.

En skoðum einn möguleika í viðbót. Bundin innlán. Í því tilfelli er mjög erfitt að finna nokkuð sem kallast gætu samanburðarhæf gögn á milli íslenskra og bandarískra reikninga. Annars vegar er verðtrygging innlána nánast óþekkt fyrirbæri í Bandaríkjunum og hins vegar gekk mér erfiðlega að finna gögn yfir allt tímabilið fyrir bandaríska reikninga með langan binditíma. Eftirfarandi gefur eftir sem áður nokkuð góða mynd af þessu:

ISKUSD-bundin

Hér má lesa eftirfarandi:

  • Bundnu bandarísku innlánin gefa – eðlilega – aðeins betri ávöxtun en hefðbundnu bandarísku innlánin. 100 dollararnir okkar eru í árslok 2013 orðnir að 524 dollurum, eða sem nam þá 64.106 krónum. Það er 119% raunávöxtun í krónum talið eða sem nemur rétt tæplega 2,5% meðalávöxtun á ári.
  • Bundnir, íslenskir, verðtryggðir reikningar gefa langbestu ávöxtunina af þessum kostum. 725 krónurnar okkar eru orðnar að hvorki meira né minna en 105.604 krónum. 260,5% raunávöxtun, eða nærri 4,1% raunávöxtun á ári að jafnaði. Það þykir í öllu samhengi mjög góð áhættulaus ávöxtun.

Af ofangreindu er líklega hægt að draga margvíslegar ályktanir bæði um kosti og galla verðtryggingar, íslensku krónunnar og íslenskrar efnahagsstjórnar. Sé hins vegar eitthvað að marka söguna er að minnsta kosti óhætt að fullyrða að það borgi sig ekki að geyma íslenskar krónur til lengdar hvorki í seðlum né á veltureikningum. Sennilega er líka hægt að fullyrða að án verðtryggingar hefði áhættulítill sparnaður verið fullkomlega óraunhæfur síðustu áratugi.

Þær eru sennilega óaðskiljanlegar síamssystur, íslenska krónan og verðtryggingin.

– – –

† Gagnasett Hagstofunnar sem sýnir sögulega ávöxtun á notaði til að teikna þetta upp nær aðeins til 2013. Árin 2 síðan breyta litlu um stóru myndina sem dregin er upp hér.

Birt með fyrirvara um mistök í útreikningum. Öllum leiðréttingum og ábendingum verður tekið fagnandi.

Loksins skil ég íslenska pólitík

Ég rakst á frábæra grein á Vox sem ber titilinn “Tech nerds are smart. But they can’t seem to get their heads around politics“. Ég tek titilinn augljóslega til mín 🙂

Greinin er löng, kemur víða við, en opnaði virkilega augu mín fyrir nýjum vinklum á þá órökréttu loðmullu sem pólitík samtímans er í augum okkar nördanna. Greinin er rituð algerlega útfrá sjónarhóli bandarískra stjórnmála, en í kjölfar lestursins kviknuðu eftirfarandi pælingar um íslenska landslagið:

Íslensk pólitík snýst ekki um hægri og vinstri, heldur um þá sem eru í meginatriðum sáttir við samfélagsgerðina og vilja sem minnstu breyta – “íhaldsvænginn”, og hina sem eru óánægðir og vilja breytingar, en eru alls ekki sammála um það hverju þeir vilja breyta – “óánægjuvænginn”.

  • Íhaldsvængurinn: Að vilja sem minnstu breyta er auðvitað orðabókarskýringin á “íhaldi” eða “conservatism”. Eðli málsins samkvæmt er þetta upp til hópa fólk sem hefur komið sér vel fyrir í lífinu, er með ágætar eða mjög góðar tekjur, hugsar hlýlega til gamalla tíma og situr oft beinlínis að kjötkötlunum hvort sem varðar peninga, völd eða áhrif. Viðhorf þeirra er eðlilegt. Af hverju að breyta reglunum í leik sem þú ert þegar að vinna?

    Þetta sama fólk er hins vegar hrætt við breytingar og sér þær sem ógn við þessa yfirburðastöðu sína: “Hnignandi fjölskyldugildi”, réttindabaráttu minnihlutahópa, innflytjendur, aðskilnað ríkis og kirkju, breytingar á stjórnun landbúnaðar eða fiskveiða, nýja stjórnarskrá (gisp!) og svo mætti lengi telja.

    Þetta fólk kýs Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn, enda hafa þeir verið duglegir að standa vörð um allt ofantalið þó þeir hafi hvor sínar áherslur og annar höfði því betur til sumra en hinn. Þessir flokkar hafa lengst af verið við völd á Íslandi og því eðlilegt að áherslur þeirra endurspeglist í þjóðfélagsgerðinni, sem kjósendur þeirra eru svo aftur sáttir við og vilja viðhalda. Dvínandi fylgi þessarra flokka síðustu ár er samkvæmt þessu skýrt merki um aukna óánægju með þjóðfélagsgerðina, hvort sem það er nú með réttu eða röngu.

  • Óánægjuvængurinn: Á hinum vængnum eru svo þeir sem eru óánægðir með þjóðfélagsgerðina og vilja breytingar. Þetta eru fjölmargir litlir hópar sem eru óánægðir með ólíka hluti og eru því í raun ekki sérlega sammála um neinar þeirra breytinga sem þeir vilja. Þeir eiga því erfitt með að finna flokka sem tala beint til þeirra, en kjósa Vinstri græna, Samfylkinguna eða eitthvert hinna skammlífu óánægjuframboða sem yfirleitt spretta einmitt upp með breytingar sem yfirlýst markmið. Þetta útskýrir líka skammvinnt ris og fall slíkra flokka mjög vel. (Einstaka sinnum tekst Framsókn að höfða til hluta þessa hóps í skamman tíma – stundum yfir kosningar – og svo falla þeir í íhaldsgírinn aftur og standa vörð um óbreytt ástand)

    Þessi sundrung sást mjög vel í tíð síðustu ríkisstjórnar þar sem óánægjuvængurinn komst til valda í kjölfar hrunsins sem margir röktu til þjóðfélagsgerðarinnar sem íhaldsvængurinn hafði byggt upp. Enda ætlaði sú stjórn að breyta öllu í stað þess að leggja áhersluna á eitt til tvö lykilmál. Það átti að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu, ganga í ESB, skrifa nýja stjórnarskrá, setja á kynjakvóta, endurskipuleggja ráðuneyti, sía internetið og svo langt fram eftir götunum. Stjórnin varð á endanum varla starfhæf af því að flokkarnir voru ekki sammála um hverju ætti að breyta og þá sjaldan þeir voru það voru þeir ósammala um hvernig ætti að breyta því.

Þessi sýn á málin útskýrir hvers vegna hugtökin “hægri” og “vinstri” passa svo illa við þá flokka sem þó jafnvel kenna sig sjálfir við þau. Þetta fellur allt eins og flís við rass þegar maður skiptir “hægri” út fyrir “íhald” og “vinstri” út fyrir “óánægju”. Og flokkarnir vita þetta alveg, a.m.k. sumir. Í dag virðist vera talsverð óánægja víða í þjóðfélaginu sem kemur fram í litlu fylgi við “íhaldsvænginn”. Þetta virðist ekki vera að breytast þrátt fyrir efnahagslegan uppgang og forsvarsmenn íhaldsflokkanna sem nú eru við völd eru alveg forviða á því að það skili þeim ekki fylginu aftur sem það hafur alltaf gert í fortíðinni.

Eina röddin sem eitthvað stendur útúr þessu pólitíska litrófi er rödd Pírata. Þó Píratar séu sannarlega sprottnir upp úr óánægjuvængnum og vilji breytingar – sumar róttækar. Þá hefur áherslan hjá þeim ekki verið á einstakar breytingar, heldur á að breyta því hvernig er breytt. Breytingum á “stýrikerfinu” á nördamáli. Það er meira að segja gert ráð fyrir því að fólk geti starfað saman í flokknum þó það hafi opinberlega heitar, andstæðar skoðanir á stórum málum – nokkuð sem í hefðbundnu flokkunum lýðst ekki – svo lengi sem að deilendurnir séu sammála um og sáttir við kerfið sem leiða skuli að niðurstöðu.

Þetta er spennandi tilraun, en þó það sé of snemmt að fullyrða neitt er hún sannast sagna líklegust til að mistakast. Þar gildir það sama og um aðra sprota sem nördar stofna til. En jafnvel ef Pírata-tilraunin mistekst, þá er eðli sprotanna líka þannig að reynslan sem verður til við kollsteypurnar leiðir til nýrra tilrauna sem eiga meiri möguleika.

Mörgum okkar finnst pólitíkin orðin úrelt á bæði íhalds- og óánægjuvængjunum og sumir eru jafnvel farnir að “tékka sig út”: hætta að fylgjast með fréttum og þjóðfélagsumræðu og einbeita sér að sér og sínum. Þetta á enn frekar við um uppvaxandi kynslóðir sem hafa um talsvert skeið einfaldlega ekki sett sig inn í pólitík og sjá ekki einu sinni ástæðu til að nýta kosningaréttinn. Ef það er einhver von á algerlega nýjum vinkli í pólitíkina sem mun breyta þessu þá mun hún spretta úr þeim jarðvegi sem nú er í kringum Pírata.

Því þó það sé líklega satt að nördarnir skilji ekki pólitíkina, þá er hafið yfir allan vafa að pólitíkusarnir skilja ekki nördana.

5 einföld skref til að láta góða hluti gerast

instructions-300x292Í gegnum tíðina hef ég fylgst með og tekið þátt í fjölmörgum áhugaverðum verkefnum. Sum þeirra hafa heppnast vel og önnur síður – eins og gengur. Byggt á þessari reynslu, er ég sannfærður um að uppskriftin að því að láta góða hluti gerast – óháð viðfangsefni – sé eftirfarandi:

  1. Vinna með hópi af snjöllu fólki
  2. Móta í sameiningu framtíðarsýn sem hópurinn hefur ástríðu fyrir
  3. Festa í sessi og smita aðra af þeirri ástríðu með því að kynna, “selja” og tala opinskátt um framtíðarsýnina innan hóps og utan þangað til allir eru orðnir rauðir í framan
  4. Fjarlægja hindranir á leiðinni af ákafa
  5. Endurtaka ofangreint í smærri og stærri hópum, og yfir lengri og skemmri tímabil

Í gegnum tíðina hef ég verð einstaklega heppinn með lið #1, en ég viðurkenni fúslega að ég er enn að æfa mig í hinu. Ég held að það væri áhugavert að sjá einhvern beita þessari nálgun í íslenskum stjórnmálum. Þar virðist meira að segja fyrsta skrefið vefjast verulega fyrir fólki.

Ísland: Allir í pólitík, en enginn að stjórna

3540167945_ac260d6722_bNú er ég búinn að fylgjast með íslenskri pólitík frá útlöndum í bráðum 3 ár. Kemur í ljós að það er bráðhollt og gefur nýtt sjónarhorn á hlutina.

Með hverjum mánuðinum sem líður verð ég bæði reiðari og leiðari. Ísland er að mörgu leyti einstakt og frábært, en á engu að síður við nokkur mjög djúpstæð vandamál að etja. Sum í kjölfar hrunsins, önnur sem hafa verið lengur í gerjun, en hafa sannarlega ekki batnað eftir hrun. Þetta eru vandamál af því tagi sem munu ráða því hvort ungt og efnilegt fólk muni velja sér framtíðarbúsetu á Íslandi eða ekki og þar af leiðandi hafa meira um framtíð Íslands að segja en nokkuð annað. Með öðrum orðum, engin smámál!

Nú kann einhver að horfa á hagtölur og segja að á Íslandi sé allt í himnalagi. Vandinn er bara sá að innan fjármagnshafta er ekkert að marka hagtölurnar. Hagmælingar á Íslandi í dag eru svolítið eins og að ætla að taka veðrið uppi á jökli í hríðarkófi – en inni í tjaldi. Kannski kósí innandyra og mælarnir staðfesta það. Þú ert samt uppi á jökli, í hríðarbyl og engin björgunarsveit á leiðinni.

Gjaldeyrismálin eru eitt vandamálið. Fyrir ungt fólk sem hefur ekki stofnað til mikilla skuldbindinga á Íslandi, er heimurinn allur undir. Af hverju að velja að fá laun í gjaldmiðli sem hvergi er tekinn trúanlegur og takmarka lífeyris-, fjárfestinga- og sparnaðarkosti sína við þennan sama gjaldmiðil og örmarkað sem sagan sýnir að skoppar eins og korkur í stórsjó?

Gjaldeyrishöftin valda líka bólumyndun á öllum mörkuðum, ekki síst húsnæðismarkaði. Af hverju að velja að kaupa eða leigja íbúð sem er dýrari en sambærileg íbúð borgum með stærri og fleiri tækifæri og hærri laun? Hvað þá á markaði þar sem vextir eru margfaldir á við það sem býðst annars staðar?

Vandinn við höftin er sá að margar þær leiðir sem raunverulega munu létta á þeim munu hafa aðrar og jafnvel enn verri afleiðingar í för með sér: Gengisfall, sem leiðir af sér verðbólgu, sem hækkar lánin, sem veldur óstöðugleika á vinnumarkaði, sem…

Það eru til lausnir. Seðlabankinn hefur kortlagt þær fyrir löngu. Það eru ekki þær sem er verið að vinna að.

Samfélag sem ungt fólk vill búa í býður líka upp á gott skólakerfi á viðráðanlegum kjörum. Sérstaklega er mikilvægt að hafa nútímalegt háskólaumhverfi með öflugu samstarfi háskóla, atvinnulífs og fjárfesta. Slíkt ýtir undir nýsköpun sem skapar störf og áskoranir fyrir klárt og vel menntað fólk. Háskólarnir á Íslandi eru langt í frá fjármagnaðir með þeim hætti að þeir standi undir þessu.

Og svo þarf gott heilbrigðiskerfi. Það snýst bæði um tæki og aðstöðu, en umfram allt um fólk. Fólk sem hefur menntað sig erlendis og verður að finnast aðlaðandi að flytja heim. Til þess þarf að bjóða góð laun, en allt ofantalið þarf líka að vera á réttri leið.

Þetta eru allt leysanleg mál. Fyrsta skrefið er skýr framtíðarsýn. Að ákveða hvers konar samfélagi við viljum stefna að, ekki seinna á kjörtímabilinu, ekki eftir næstu kosningar, heldur til 20-30 ára.

Þegar ég horfi á stjórnmálin heima á Íslandi, þá sé ég enga framtíðarsýn, bara þras. Þras sem að mestu leyti snýst um fortíðina, dægurmál og tilraunir til að kenna hvert öðru um allt sem ekki er í lagi.

Það eru allir í pólitík og enginn í stjórnmálum.

(Fá)brotið þjóðfélag

Við þekkjum öll söguna um uppgang Íslands á 20. öldinni. Fátækasta ríki Evrópu varð eitt þeirra allra ríkustu.

Það má örugglega rekja þennan uppgang til margvíslegra þátta, jafnt innri sem ytri, jafnt ráðgerðum sem tilviljanakenndum. En það sem einkennir þennan tíma öðru fremur er samt aukin fjölbreytni í efnahagslífinu. Árið 1870 störfuðu meira en 80% þjóðarinnar við landbúnað. Aðrar greinar voru eðli málsins samkvæmt ekki mjög áberandi. Árið 1990 störfuðu innan við 5% í landbúnaði og er nú innan við 3%. Engin ein grein atvinnulífsins er lengur áberandi stærst þegar kemur að mannafla.

Atvinnuskipting_1801-1990

Þetta gerðist samt ekki átakalaust. Ég er ekkert óskaplega gamall, en ég man þó samt vel að þegar ég fór í fyrsta skipti til útlanda þurfti pabbi að mæta með farseðlana í Sparisjóðinn til að fá þann gjaldeyrisskammt sem ríkinu þótti hæfilegur fyrir fólk sem var að ana til útlanda að gamni sínu. Ég er líka alinn upp í dreifbýlinu og í sveitinni hjá öfum mínum og ömmum leyndi sér ekkert hvernig stuðningur við réttan stjórnmálaflokk hafði í gegnum tíðina verið nauðsynlegur fyrir framgang í þeirri stétt. Það hefði líklega á stórum hlutum 20. aldarinnar verið “pólitískur ómöguleiki” að vera bóndi og kjósa ekki Framsóknarflokkinn, eða a.m.k. segjast gera það. Þó það hafi augljóslega verið fyrir mína tíð, hafa þeir greinilega verið ansi öflug tæki, skömmtunarmiðarnir!

Tíundi áratugurinn var þess vegna glæsilegur lokahnykkur á þessu framfaraskeiði Íslands. Við tók stjórn sem tók til við að opna landið, koma á meira frelsi í viðskiptum, draga úr ríkisafskiptum á fjölmörgum sviðum og draga ríkið út úr ýmiskonar rekstri sem er miklu betur kominn í samkeppni á einkamarkaði. EES samningurinn varð að veruleika, gjaldeyrishöft hurfu, snefill af samkeppni myndaðist á fáeinum sviðum, alþjóðleg fyrirtæki urðu til og uxu og ríkisfyrirtæki voru mörg hver einkavædd. Viðskiptablokkir stjórnmálaflokkanna leystust að miklu leyti upp. Fjölbreytnin jókst enn meira og þó ástandið hafi ekki verið fullkomið má alveg halda því fram að í upphafi 21. aldarinnar hafi Ísland verið í býsna góðum málum.

Það er nefnilega erfitt að halda öðru fram en að fyrri hluti valdaskeiðs Davíðs Oddssonar hafi verið afar farsæll. Hefði Davíð hætt í stjórnmálum árið 2001 hefði krafan á Austurvelli 2008 og 2009 verið að fá Davíð aftur í stól forsætisráðherra.

En hefði þá verið einhver atburðarás sem leiddi til uppákoma á Austurvelli? Vandinn er nefnilega sá að Davíð, Sjálfstæðisflokkurinn – og auðvitað Framsókn – höfðu þrátt fyrir allt lært of mikið af forverum sínum í íslenskri pólitík. Þeir gátu ekki sleppt hendinni af fyrirgreiðslupólitíkinni og miðstýringunni: Ofvaxnar miðstýrðar framkvæmdir á Austurlandi, skelfileg handstýrð einkavæðing bankanna í hendur “hinna þóknanlegu” samkvæmt helmingaskiptareglunni og ótrúleg útþensla ríkisins. Útgjöld ríkisins jukust á árunum 1998-2007 um nærri 50% að raunvirði – og það undir stjórn fólksins sem kynnti á sínum yngri árum hugtakið “báknið burt”! Allt þetta myndaði eitraðan kokteil með þeirri furðuhugmynd Seðlabankans að hægt væri að stýra minnstu mynt í heimi – þar sem minniháttar ásláttarvilla hjá stórbanka jafnast á við stærð efnahagskerfisins – með sömu peningastefnunni og notuð er til að stýra stærstu myntkerfum heimsins þar sem utanaðkomandi áhrif eru hverfandi. Þess má geta í framhjáhlaupi að að frátöldum gjaldeyrishöftunum er þetta sú peningastefna sem Seðlabankinn virðist enn halda að sé best til fallin til að stýra smámyntinni okkar, etv. með aðeins meiri kork og kút.

Útkomuna úr þessu þarf varla að rifja upp fyrir nokkrum manni.

Vandinn sem við stöndum frammi fyrir núna er að við höfum færst ár – eða jafnvel áratugi – aftur á bak á sumum þeim sviðum þar sem framfarir höfðu orðið svo miklar. Það virðist vera verulegur vilji meðal áhrifamikilla afla í samfélaginu að halda því þannig, eða hverfa jafnvel enn lengra til fortíðar: Lokun, handstýring, miðstýring og útdeiling gæða til vildarvina. Mér finnst það ansi hart ef sonur minn þarf að alast upp við umhverfi sem – hvað höft og fyrirgreiðslur varðar – minnir meira á ástandið sem ríkti þegar afar mínar og ömmur voru upp á sitt besta, heldur en það sem gerist í dag í löndunum í kringum okkur.

En allt þetta á sér skýringar.

Þó fjölbreytileikinn hafi aukist, er hann samt ekki meiri en svo þegar kemur að útflutningi en að þrjár greinar draga í búið 75% af gjaldeyristekjunum: Fiskveiðar, stóriðja og ferðaþjónusta, því sem næst fjórðung hver. Fjórðungurinn sem eftir er kemur svo frá “einhverju öðru”. Sumir virðast túlka þetta sem augljóst merki um það að okkur beri að einbeita okkur að því að hlúa að þessum þremur greinum og allt annað sé augljóslega fánýtt. Þeim yfirsést að allar þessar þrjár greinar eru háðar takmörkuðum auðlindum: Útgerðin fisknum í sjónum, stóriðjan orkunni í fallvötnum og háhita, og ferðamannaþjónustan einstakri og víða ósnortinni náttúru sem verður fljótt minna virði við meiri átroðning og fleiri virkjanir. Vaxtarbroddurinn liggur því í “einhverju öðru”, í greinunum sem geta skapað verðmæti úr “engu”; breytt góðri hugmynd í ábatasaman rekstur með hugvitinu einu saman: Hönnun, hugbúnaðargerð, líftækni, listsköpun og svo auðvitað hugviti sem eykur verðmæti náttúruauðlindanna. Og athugið, þetta á ekki að koma í stað hinna greinanna, heldur þarf einfaldlega að geta þrifist og dafnað samhliða þeim.

Hagsmunir útgerðarinnar

Þessi mynd sýnir vel hvar hagsmunir útgerðinnar liggja:

BreytingarVNV-og-aflaverðmæta

Frá 1990-2007 hélst vísitala neysluverðs og útflutningsverðmæti sjávarafurða nokkurnveginn í hendur, þ.e. útflutningsverðmætið var svo að segja það sama að raunvirði. En með gengisfallinu 2008 dregur sundur og á hverju ári síðan hefur útflutningsverðmæti sjávarútvegsins aukist meira en sem nemur verðbólgu, m.ö.o. útgerðin fær raunverulega meira og meira greitt fyrir afurðirnar sínar að raunvirði á hverju ári frá og með 2008. Það er ekki furða að þeir vilji verja þetta ástand með kjafti og klóm.

Til þess að “eitthvað annað” gangi upp þarf umhverfið að vera hagfellt. Efnahags- og lagaumhverfið stöðugt, menntunin góð, flutningar fólks, fjármagns og þjónustu á milli landa hindrunarlitlir og frelsi til athafna sem mest. Það þarf líka að bjóða upp á lífsskilyrði sem eru eftirsóknarverð fyrir fólk með menntun, reynslu og hæfileika til að vinna slík störf. Sú þekking er nefnilega mjög alþjóðleg og fólkið sem starfar í þeim á auðvelt með að finna störf hvar sem er í heiminum – og er oft mjög opið fyrir því. Ég þekki marga Íslendinga sem falla í þennan hóp og ég heyri sífellt fleiri tala eins og Björgvin Ingi Ólafsson gerir í frábærri grein í Viðskiptablaðinu nýverið. Taugin er römm, en það er ekki hægt að láta hvað sem er yfir sig ganga.

Og þarna fara skammtímahagsmunir gömlu greinanna og þeirra nýju svo sannarlega ekki saman. Auðlindagreinarnar þrífast vel í lokuðu, handstýrðu og miðstýrðu umhverfi – þar sem stjórnmálin geta útdeilt gæðunum til vildarvina og njóta til baka stuðnings þegar kemur að kosningum; þar sem helst er hægt að fella gengið þegar afurðaverðið er ekki nógu hátt eða laun starfsfólksins ekki nógu lág; þar sem búið er að koma því þannig fyrir að orkufyrirtæki í almenningseigu niðurgreiða orku til stóriðjunnar þegar verðlag er óheppilegt á álmörkuðum – í skiptum fyrir nokkur störf í heimahéraði þess stjórnmálamanns sem réði málaflokknum fyrir áratugum, þegar viðkomandi verksmiðja var sett upp.

Að þessu leyti er Ísland skólabókardæmi um auðlindabölvunina: Það er of mikið af verðmætum náttúrugæðum á framfæri stjórnmálamanna. Úthlutunarvald þessarra gæða færir stjórnmálamönnunum gríðarleg völd en heldur á sama tíma lífskjörum viðunandi án stórkostlegrar fyrirhafnar. Á meðan svo er hafa hagsmunir og þarfir þessarrra greina forgang á allt annað í umhverfinu. En þetta er viðkvæmt jafnvægi eins og dæmin sanna og það er erfiðara að stunda þessa starfsemi jafn grímulaust og gert var í gamla daga.

Og Newton sjálfur forði okkur frá því að finna að auki olíu á meðan svona er komið fyrir okkur. Ísland sem olíuríki yrði að óbreyttu líkara Sameinuðu arabísku furstadæmunum en Noregi.

Það er auðvitað margt sem þarf að laga hérna, og það er ekki bara bankið í ofninum á langa ganginum. Þeir hlutir sem standa upp úr eru samt:

  • Nothæfur, alþjóðlegur og haftalaus gjaldmiðill
  • Almennt og stöðugt lagaumhverfi
  • Agað stjórnmálakerfi þar sem hagsmunir heildarinnar eru settir framar sérhagsmunum

En meira um hvern þessarra punkta í næsta pistli.

Lítil fyrirtæki, lykill stórra framfara – þrjár ástæður

Setningarerindi sem ég flutti á Smáþingi nú í dag:

Komiði sæl…

Það er mér sannur heiður að fá að setja þetta Smáþing, enda er efnið brýnt og mér sérstaklega hugleikið.

Sa-litla-Island-orange-400x160pix-2_943295987Einhverra hluta vegna er það þannig að við Íslendingar virðumst hrífast af stórum lausnum; einhverju einu stóru sem á að breyta öllu. Þetta hefur síst af öllu breyst eftir að við reyndum það síðasta sem átti að breyta öllu – alþjóðlega bankastarfsemi. Til að bjarga okkur úr klandrinu sem það kom okkur í einblína margir á eina stóra lausn:

  • Taka einhliða upp annan gjaldmiðil
  • Finna olíu
  • Skipta um stjórnarskrá
  • Leggja sæstreng til Evrópu
  • Endurgreiða fólki verðbólguna
  • Byggja tvö risaálver í einu
  • Þjónusta gullæði á Grænlandi
  • o.s.frv.

Margt eru þetta auðvitað ágæt verkefni sem gaman væri að sjá verða að veruleika í hæfilegum skömmtum og umfram allt á sínum eigin forsendum.

Hin raunverulega lausn liggur hins vegar ekki í einhverju einu stóru. Hin raunverulega lausn er miklu nærtækari. Hin raunverulega lausn er sennilega líka miklu leiðinlegari. Hin raunverulega lausn er að einhverju leyti hér í þessum fundarsal.

Það er kominn tími til að hlúa að hinu smáa, hina fjölbreytta og hinu marga. Velgengni atvinnu- og efnahagslífsins er fyrst og fremst fólgin í því að tryggja litlum fyrirtækjum brautargengi. Að skapa litlum fyrirtækjum almennt, hagfellt umhverfi sem leyfir framtakssömu fólki að spreyta sig á þeim sviðum þar sem það hefur þekkingu, kraft og hugmyndir og sjá hvað verður úr því.

Og ég segi þetta ekki bara út í bláinn. Lítil fyrirtæki eru raunverulegur lykill að stórum og merkilegum hlutum.

Fyrir það fyrsta eru lítil og meðalstór fyrirtæki stærsti vinnustaður landsins. Upp undir helmingur launafólks vinnur hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum, eða líklega á milli 80 og 90 þúsund manns. Hjá litlum fyrirtækjum verða líka til flest störf. Þessari tölfræði er reyndar nokkuð ábótavant á Íslandi, en sé tekið mið af því sem gerist í löndunum í kringum okkur má gera ráð fyrir að um 2/3 hlutar nýrra starfa skapist hjá þessum hópi fyrirtækja.

Þess vegna eru lítil fyrirtæki svo mikilvæg.

Í annan stað skapa lítil fyrirtæki fjölbreytni. Margar þeirra þjóða sem best vegnar í heiminum eru þær sem eiga hvað erfiðast með að svara spurningunni: Hverjir eru ykkar helstu atvinnuvegir? Íslendingar eiga ekki erfitt með það: Ál, fiskur og túrismi. Stundum er jafnvel talað í hálfgerðum hæðnistón um “eitthvað annað”. En leiðin til að standast áföll í einstökum greinum er einmitt sú að tryggja fjölbreytni í samsetningu atinnulífsins; að gera LÍKA eitthvað annað. Ekki á kostnað stóru greinanna, heldur samhliða þeim.

Þess vegna eru lítil fyrirtæki svo mikilvæg.

Í þriðja lagi verða lítil fyrirtæki stundum stór. Það þurfa ekki öll lítil fyrirtæki að stefna að því að verða stór, en fólk virðist oft gleyma að í 100 fjögurra manna fyrirtækjum eru jafn mörg störf og í einu 400 manna fyrirtæki. Munurinn er sá að upp úr 100 fjögurra manna fyrirtæki spretta tíu 60 manna fyrirtæki og mögulega ein “stórstjarna” með mörg hundruð stafsmenn. Í réttu umhverfi fá þær framkvæmdir sem eru á einhvern hátt ófullkomnar – sem reynslan sýnir að eru stærstur hluti þeirra – að deyja drottni sínum, en réttu hugmyndirnar fá að vaxa og dafna og verða að verða að stórum og kraftmiklum fyrirtækjum af eigin rammleik.

Fyrirtæki sem byggt er upp þannig stendur á miklu traustari grunni en fyrirtæki sem er handsnúið í gang í krafti stjórnvalda.

Þess vegna eru lítil fyrirtæki svo mikilvæg.

Ráðherra … og aðrir ráðamenn.

Það er náttúrulega ýmsilegt sem þarf að laga hérna – og það er ekki bara bank í ofnunum eins og sagt var í óborganlegu Fóstbræðra-sketsji um árið. Hér væri freistandi að nefna til sögunnar gjaldeyrishöft og skort á fjármögnunarkostum. En ég ætla ekki að fara út í þá sálma hér.

Umfram allt þurfa frumkvöðlar og framtakssamt fólk nefnilega að gera hlutina sjálft. Við uppbyggingu á nær hverju fyrirtæki koma ítrekað upp augnablik þar sem kringumstæður og einstakar ákvarðanir skilja milli feigs og ófeigs. Einstigið á milli þess að slá í gegn og að fara í hundana getur verið býsna mjótt. Ég þekki það … og hef fallið útaf því, báðum megin. Umhverfið sem stjórnvöld skapa er sjaldnast það sem ríður baggamuninn.

Ef við erum ósátt við aðstæður sem stjórnvöld skapa er sjálfsagt að útskýra í hverju það felst og vinna með þeim að því að breyta og bæta, en spurningin sem fólkið á Litla Íslandi þarf samt umfram allt að spyrja sig er ekki: Hvað get ég gert fyrir tilstuðlan stjórnvalda? Heldur: hvað get ég gert óháð þeim?

Ég segi Smáþing hér með sett. Gangi ykkur vel í dag.