Næsta Ísland

Íslenskt nýsköpunarumhverfi, gjaldeyrishöft og þróunarstarf

sprotiTil að sprotafyrirtæki vaxi úr grasi og verði alvöru fyrirtæki þurfa ótal ótrúlega ólíklegir hlutir að ganga upp: Teymið, markaðsþörfin, vöruþróunin, fjármögnunin, markaðssetningin, salan, vöxturinn og loks uppskeran – nokkurnveginn í þessari röð.

Íslendingar, rétt eins og aðrir, fá þá grillu í höfuðið að láta á þetta reyna. Ég myndi meira að segja ganga svo langt – og held að það sé ekki bara þjóðremba – að segja að á sviði hátækni séum við nokkuð lunkin í fyrstu þremur skrefunum: Við eigum hæfileikaríkt fólk (hráefni í teymi) með puttann á púlsinum í því sem er að gerast (auga fyrir markaðþörf og tækifærum) sem getur búið til tæknilausnir á pari við það besta sem þekkist (vöruþróun).

That’s it!

Þar með er það líka upp talið. Tækifæri til fjármögnunar á Íslandi eru afar takmörkuð, þekking á alþjóðlegri markaðssetningu og sölu er af mjög skornum skammti, hæfileikafólkið er of fátt til að standa undir miklum vexti og fyrirtækin eða fjármálamarkaðirnir sem á endanum kaupa sprotana eru ekki á Íslandi.

Það er ekkert óeðlilegt við það. Á Íslandi búa 0,3 milljónir manna. Ekki mikið fleiri en búa í Corpus Christi í Texas (já, það er borg).

Fyrirtæki sem ætla að ná árangri á sérhæfðum sviðum verða að leita út fyrir landsteinana. Þar eru viðskiptavinirnir, fjárfestarnir og tækifærin. Fyrsta spurningin sem ég spyr unga íslenska frumkvöðla þegar ég hitti þá er: “Hvert ykkar ætlar að flytja til útlanda og hvenær?”. Það er nauðsynlegt skref í uppbyggingunni. Ég hef litla sem enga trú á árangri ef einhver stofnendanna gerir það ekki – að minnsta kosti tímabundið.

Það getur meira að segja verið að fyrirtæki þurfi að flytja höfuðstöðvar sínar erlendis til að ná markmiðum sínum. Í því er alls ekki fólginn nokkurs konar “flótti” eða “föðurlandssvik”. Nákvæmlega það sama er uppi á teningnum hjá fyrirtækjum sem stofnuð eru í Corpus Christi. Þau þurfa að leita þangað sem viðskiptavini, fjárfesta og vaxtartækifæri er að finna. Sá sem ætlaði að byggja upp tæknifyrirtæki og ná árangri með því að einblína á markaðinn í Corpus Christi myndi líklega ekki ná sérlega langt!

Rétta umhverfið skiptir öllu

Lönd og borgir í heiminum keppast við að laða til sín sprotafyrirtæki og hugverkamenn. Ástæðan er einföld. Þó að fæst slík fyrirtæki gangi upp, þá er ekki nokkur angi atvinnulífsins sem heilt yfir vex jafn hratt og skapar jafnmörg hálaunastörf og einmitt þessi. Með því að búa sprotafyrirtækjum gott umhverfi geta byggðalög, landsvæði og jafnvel heilu efnahagssvæðin notið góðs af slíkum uppgangi.

Það er magnað að sjá og upplifa hvað jafnvel borgir eins og New York og Boston-svæðið – sem sumir myndu halda að hefðu nægt aðdráttarafl í sjálfu sér – leggja mikið á sig til að búa nýsköpun og hugverkaiðnaði gott umhverfi (Dæmi: NY, BOS), kynna kosti þess og sverma fyrir fyrirtækjum að setja upp starfsemi sína þar.

Stærsti kostur þess að vera hugverkamaður eða þekkingarfyrirtæki er að það sem til þarf er mjög alþjóðlegt og færanlegt. Það felur sömuleiðis í sér hættu á því að þau samfélög sem ekki hlúa að umhverfi slíkrar starfsemi missi af tækifærunum sem felast í þeirra mannauði.

Til að Ísland geti notið góðs af svona tækifærum þarf að bjóða sprotafyrirtækjum með íslenskar rætur upp á umhverfi sem hvetur þau til halda tengslum við Ísland og vaxa þar, en gerir þeim jafnframt kleift að byggja upp og flytja þá hluta starfsemi sinnar erlendis sem þarf til að styðja við og rækta íslensku starfsemina.

Tvö atriði þurfa þar sérstaka athygli:

 • Áhrif gjaldeyrishafta á uppbyggingu erlendrar starfsemi íslenskra fyrirtækja, fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum tækifærum og ekki síst á það hvar frumkvöðlar og hugverkafólk framtíðar kýs að búa og byggja upp sín fyrirtæki.
 • Áframhaldandi stuðningur við rannsóknir og þróunarstarf. Þetta á við starfsemi Tækniþróunarsjóðs, en þó sérstaklega lög um skattaafslátt vegna rannsókna og þróunarstarfs sem er sennilega stærsta einstaka framfaraskref sem tekið hefur verið til eflingar á íslenska sprotaumhverfinu.

Vonandi verður skilningur á þessu þar sem við á í umróti komandi mánaða.

P.S. Nei, DataMarket er ekki á leið úr landi

DataMarket – fyrirtæki sem ég rek í samstarfi við aðra – byggir nú upp sölu- og markaðsstarf sitt í Bandaríkjunum og mun sennilega á einhverjum tímapunkti flytja hingað höfuðstöðvar sínar. Þróunarstarf, rekstur og þjónusta við viðskiptavini verður áfram rekin á Íslandi þar sem þegar vinnur óviðjafnanlegur hópur forritara, hönnuða og gagnanörda. Sú starfsemi mun einungis vaxa eftir því sem betur gengur á viðskiptahliðinni hér hjá okkur sem stödd erum Bandaríkjamegin.

Af einhverju öðru (en áli)

sprotarVið Hrunið 2008 losnaði býsna margt úr læðingi. Margt af því er vel þekkt og sumt hreint ekki til sóma, en eitt af því sem ekki hefur farið hátt er nýsköpunin sem spratt af stað eftir ákaflega mögur ár á þeim vettvangi í skugga bankabólu og ofþenslu þar sem fólk gat gengið að “öruggum” og vel launuðum störfum sem engin innistæða reyndist svo fyrir þegar upp var staðið.

Strax á fyrstu dögunum eftir hrunið tóku allskyns hópar hugmyndaríks fólks að spretta upp og fólk að hittast til skrafs og ráðagerða um það hvernig byggja mætti upp úr öskunni fyrirtæki og atvinnu fyrir sjálfa sig og aðra. Margir höfðu reyndar gengið með hugmyndir í maganum – jafnvel um árabil – en höfðu aldrei látið vaða. Hver hættir í öruggu og vel launuðu starfi í banka eða stórfyrirtæki til að stofna eigið fyrirtæki með þeirri áhættu og erfiðisvinnu sem því fylgir? Nú loks höfðu margir þetta tækifæri með góðu eða illu. Vinnustaðirnir þeirra urðu ýmist gjaldþrota eða voru að draga saman seglin, framtíðin virtist ekki svo björt og sumir höfðu hreinlega ekki að mörgu öðru að hverfa.

Mest áberandi varð þetta starf undir merkjum hóps sem hlaut heitið Hugmyndaráðuneytið *. Þar var lengi vel haldið úti vikulegum fundum þar sem frumkvöðlar hittust, kynntu sig og kynntust öðrum, deildu af reynslu sinni og spurðu aðra ráða. Fundina sóttu oftast á bilinu 20-200 manns og það kæmi mér ekki á óvart að samanlagt hefðu 2000-3000 einstaklingar sótt þessa fundi, margir fleiri en einn og einhverjir næstum alla fundina sem voru reglulega haldnir í meira en ár.

Meðal þeirra sem ég man eftir á þessum fundum er fólk sem tengist fyrirtækjum eins og OZ, Clara, Gogogic, DataMarket (hvar ég starfa), Mobilitus, Transmit, Meniga, Carbon Recycling International, Fafu Toys, Plain Vanilla, Belgingi / SAR Weather, Búngaló, Gogoyoko, GreenQloud, Dohop, Kinwins, Reykjavík Runway, Grapewire, Karolina Fund, Citizens Foundation, Kosmos & Kaos, Gagarín, Kerfisvirkni, Controlant, Spretti, Flaumi, Locatify, Apon, Cooori, Mindgames, Skemu / ReKode, Golf80, App Dynamic, ReMake Electric og Ými Mobile. Ég er áreiðanlega að gleyma mörgum.

Langflest þessi fyrirtæki voru annað hvort að stíga sín fyrstu skref á þessum tíma, eða hafa verið stofnuð síðan. Þá er ótalið fólk sem þarna var frá eldri og stærri fyrirtækjum sem þó stunda öll nýsköpunarstarfsemi svo sem Marorku, CCP og Hugsmiðjunni – en ég undanskil þau í því sem á eftir fer.

Gengi þessarra fyrirtækja hefur verið upp og ofan og sum þeirra eru ekki einu sinni lengur “meðal vor”. Þannig gangur nýsköpun og sprotastarfsemi fyrir sig. Það merkilega er hins vegar að gróflega telst mér til að hjá þessum fyrirtækjum starfi í dag að minnsta kosti 250 manns. Tölur um veltu og afkomu liggja ekki vel fyrir, en bara hjá þeim þessarra fyrirtækja sem ég þekki til hjá veit ég af bókaðri sölu eða fjárfestingu á þessu ári upp á meira en 3 milljarða króna, nær allt í erlendum gjaldeyri. Rétt tala er líklega nær 4 milljörðum ef ég reyni að giska í eyðurnar – og árið þó ekki hálfnað.

Ef ég væri í pólitík myndi ég svo tala um “afleidd störf” og margfeldisáhrif og kæmist vafalaust mikið hærra.

Að baki þessu liggur ekki opinber stefnumörkun. Raunar hefur áhugi af hálfu hins opinbera alla tíð verið hlutfallslega lítill á þessum málaflokki (þó endurgreiðsla rannsókna- og þróunarkostnaðar sé þar mikilvæg undantekning) og ekki ein einasta ný vatnsaflsvirkjun. Hvað þá lán með ríkisábyrgð og gengisáhættu, tengdu markaðsverði á áli!

Það er í raun réttara að segja að þessi árangur hafi náðst “þrátt fyrir” en “fyrir tilstuðlan” þess umhverfis sem boðið er upp á. Ég get sagt af eigin reynslu að gjaldeyrishöft, duttlungafullar leyfisveitingar og lagasetningar og furðuleg uppátæki íslenskra stjórnmálamanna sem rata í heimspressuna eru EKKI til að gera þessa vinnu auðveldari.

Þetta eru störf og umsvif sem hafa sprottið af sjálfu sér, drifin áfram af áhugasemi og framtaki fólksins sem stendur að baki þessum fyrirtækjum. Og þannig á það að vera!

Fyrir vinstra fólkið: Umhverfisvæn og skapandi störf sem byggð eru á hugviti og spretta úr grasrótinni.

Fyrir hægri mennina: Framtak einstaklingsins í sinni fegurstu mynd, með lágmarksafskiptum ríkisins.

Oooo, en krúttlegt. Hvar er álverið mitt?!?

– – –

* Þess má geta að Hugmyndaráðuneytið hefur undanfarið rúmt ár gengið í endurnýjun lífdaga og stendur m.a. fyrir ráðstefnunni Startup Iceland sem haldin verður í Hörpu í næstu viku.

Af gjaldeyrishöftum, dægurþrasi og sandkassapólitík

Árni Páll Árnason hefur verið að birta yfirvegaðar og skynsamlegar greinar um skaðsemi og leiðir til afnáms gjaldeyrishaftanna undanfarna daga. (Sjá: 1, 2, 3). Þetta er mikilvægasta mál íslensks samtíma. Miklu mikilvægara en flestir gera sér grein fyrir, enda getum við meðalfólkið enn keypt okkar bíla, farið í okkar frí erlendis einu sinni ári og keypt flest alla innflutta vöru. Það mun hins vegar breytast smám saman eins og Árni Páll bendir réttilega á í síðustu greininni.

Það sem er ekki síður hrollvekjandi er að meðan hinir þrír hlutar fjórfrelsisins eru enn óskertir, þá er hætt við að fleira og fleira ungt fólk átti sig á því að möguleikar þeirra eru takmarkaðari en jafnaldra þeirra í nágrannalöndunum. Innan hafta eru ekki sömu möguleikar til að nýta sér tækifæri á markaði, ekki sömu möguleikar til nýsköpunar og ekki sömu möguleikar til fjármögnunar eins og utan þeirra. Og þá gerist eitt af tvennu: Framtakssamasta fólkið flytur af landi brott eða stjórnmálamenn fara að fá hugmyndir um að setja höft á fleira en bara gjaldeyrinn.

“Ókosturinn” við þetta mikilvæga mál er að áhrifin felast í hægfara hnignun frekar en skyndilegu áfalli. Og þá er auðveldara að tala um hundinn Lúkas eða annað dægurþras sem upp kemur í “dellu dagsins”. Málum sem allir hafa skoðun á í 24 tíma en engu skila til framtíðar. Fjölmiðlarnir nærast á slíkum málum, enda ódýrt efni í framleiðslu með mikinn lestur og hægt að endurtaka sama leikinn dag eftir dag. Þeir hafa hins vegar engan hvata til að gera stórum málum skil á hlutlausan hátt með allri þeirri vinnu, rannsóknum og vandvirkni sem til þarf.

Það þarf að vinna hratt að lausnum á gjaldeyrismálunum og þar þarf að snúa við öllum steinum. Upptaka Evru með inngöngu í ESB er eins og Árni Páll og fleiri hafa bent á líklega viðnámsminnsta leiðin, en alls ekki án fórna og þess vegna umdeild – svo mjög að hún gæti verið ófær. Auk þess þarf að skoða fyrir alvöru hvort möguleiki sé á því að taka upp Kanadadollar með aðkomu Kanadamanna (eða Norska krónu með aðkomu Norðmanna). Loks þarf að stilla upp sviðsmyndum af því hvernig hægt væri að blása lífi í krónuna eina ferðina enn og hvaða peningamálastefnu ætti þá að nota til að stýra henni.

Að halda – og halda fram – að aðeins ein leið sé fær og skella sjálfkrafa skollaeyrum við öllum hugmyndum um annað er barnaskapur. Möguleikarnir eru fjölmargir. Viðfangsefnið er að finna þann sem hefur fæsta galla.

Það þarf að fá bestu hagfræðinga og peningamálamenn samtímans til að vega og meta þessa kosti í opnu ferli þar sem jafnframt er lögð áhersla á að útskýra stöðuna, leiðirnar og kosti og galla hverrar um sig á einfaldan og skiljanlegan hátt fyrir almenningi. Jafnframt þarf að tryggja að öllum spurningum og ábendingum sem upp koma sé svarað skýrt og skilmerkilega og þær metnar inn í leiðirnar eftir því sem við á áður en ákvörðun er tekin.

Allt þetta væri gerlegt ef ekki væri fyrir það að svona ferli þyrfti að vera þverpólitískt þar sem þingmennirnir – fulltrúar okkar á Alþingi – þyrftu að átta sig á því að þeir eru SAMAN í liði, að þeirra hlutverk er að vinna SAMANSAMEIGINLEGUM hagsmunum allra landsmanna og í SÁTT um ferlið þó tekist sé á um leiðirnar. Slíkt er nær ómögulegt að sjá fyrir sér og verður reyndar erfiðara og erfiðara eftir því sem Alþingi sekkur dýpra í forarpytti skotgrafanna.

Það er þess vegna ekki hægt að takast á við þennan vanda frekar en svo margan annan vegna þess að sandkassaleikur pólitíkurinnar stendur í veginum. Þar liggur hið raunverulega úrlausnarefni, en engin lausn í sjónmáli.

Heilsusamlegt upplýsingaæði

Ég lauk nýlega við lestur bókarinnar The Information Diet eftir Clay Johnson.

Útgangspunktur bókarinnar er nokkuð snjall. Þar er upplýsingavali okkar og -neyslu – fréttalestri, bókalestri, tölvupósti, samfélagsmiðlum, sjónvarpi og neyslu á öðrum fjölmiðlum – líkt saman við fæðuval okkar og -neyslu. Þar eru að auki færð fyrir því sterk rök að upplýsingaæði okkar flestra sé engu skárra en mataræðið – og þar steðji að engu síðri vandi en offituvandinn. Á meðan venjur okkar í mataræði gera okkur feit gera venjur okkar við upplýsingainntöku okkur fáfróð og þröngsýn. Höfundurinn vill meina að þetta sé að miklu leyti ástæðan fyrir því hversu hörð stjórnmálaátökin eru, hversu óvandaður fréttaflutningur er og hversu vanþroskuð umræða um þjóðfélagsmál sé orðin.

Já, þetta á greinilega við víðar en á Íslandi!

Höfundur líkir slúðurfréttum og öðru óvönduðu léttmeti (“- MYNDIR!”) við skyndibita og sælgæti. Margir eiga erfitt með að standast þessháttar efni og það stendur hollari upplýsingaupptöku fyrir þrifum.

Samfélagsmiðlar og tölvupóstur fá líka sinn sess, en þáttur þeirra er mun flóknari og fellur í raun undir bæði hollustu og ómeti að mati höfundar.

Eftir að hafa útskýrt þessa sýn sína á upplýsingaöldina leggur höfundur af stað til að vopna okkur aðferðafræði, tólum og tækjum til að stunda heilbrigt upplýsingaæði.

Fyrst eru taldir til þeir hæfileikar sem nútímamaðurinn þarf að hafa til að takast á við upplýsingaflæði samtímans:

 • Upplýsingaleit: Að vita hvar á að leita góðra upplýsinga og hvernig.
 • Síun: Að þekkja góðar upplýsingar frá slæmum og hvað einkennir hvorn flokk um sig.
 • Framreiðsla: Að geta komið hugsunum sínum frá sér á skiljanlegan hátt, ekki síst til að ná utan um þær sjálfur.
 • Samþætting: Að geta fellt nýfengnar upplýsingar að hugmyndum sínum um heiminn og breytt þeim – já, jafnvel skipt um skoðun!

Því næst er farið í gegnum eins konar tímastjórnun við upplýsingainntöku. Hvernig komum við í veg fyrir að skyndibitinn eða Facebook “sjúgi okkur til sín” og við komum engri annarri neyslu að, eða vinnu frá okkur (mörg vinnum við jú ekki við annað en að sanka að okkur upplýsingum og koma þeim síðan frá okkur á einhvern hátt til annarra). Þarna er að finna nokkrar sniðugar hugmyndir sem hægt er að tileinka sér, en höfundur tekur þó skýrt fram að þetta sé aðeins tiltekin aðferðafræði sem hann hafi komið sér upp og hafi reynst honum vel.

Síðasti hlutinn í sjálfum “mataræðis”-hluta bókarinnar fjallar svo um heilsusamlegt “upplýsingafæði” og þetta var sá hluti bókarinnar sem mér fannst áhugaverðastur. Hér eru þau nokkrir hlutir sem hollt upplýsingafæði samanstendur af að hans mati:

 • Ábyrg neysla: Taktu stjórn á upplýsinganeyslunni. Ekki horfa á sjónvarpsdagskrá, horfðu á það sem þú virkilega vilt horfa á: þætti eða bíómyndir á DVD eða í stafrænum þjónustum. Lestu efni sem mælt hefur verið með við þig af fólki sem þú virðir og treystir, ekki það sem er matreitt ofan í þig af dagskrár- eða ritstjórum annarra miðla. Þetta á líka við um tölvupóstinn. Skráðu þig af póstlistum og fástu við þann póst sem virkilega þarfnast athygli, en ekki láta hann taka athyglina frá mikilvægari verkum. Skilgreindu líka tiltekna tíma dagsins í neyslu ákveðinnar gerðar upplýsinga. Klukkutími í bóklestur fyrir svefninn. Tölvupóstur þrisvar á dag, o.s.frv. Með öðrum orðum: Fastir matmálstímar og ekkert snakk á milli mála!

  Annar þáttur í þessu og ekki síður mikilvægur: Forðastu mikið unnar upplýsingar rétt eins og mikið unninn mat. Leitastu við að sækja upplýsingar beint til upprunans. Því fleiri skref sem frásögnin eða fréttin hefur verið umskrifuð og umrituð, því meiri upplýsingar hafa tapast og jafnvel rangfærslur eða misskilningur slæðst inn í. Erlendar fréttir í íslenskum miðlum eru oft skýrt dæmi um þetta, sem og fréttir í almennum fjölmiðlum af vísindum. Reynum að rekja okkur til upprunans og lesa frumheimildina frekar en túlkun eða endurtúlkun annarra á henni. Og tökum öðru með fyrirvara.

 • Upplýsingar úr næsta nágrenni: Leitastu við að neyta upplýsinga um þitt næsta umhverfi í meira mæli en það sem kemur lengra að. Þetta er ekki bara hugsað landfræðilega heldur líka í efnistökum (þitt sérsvið, áhugamál eða annað). Af hverju? Jú, vegna þess að það er líklegara að þær upplýsingar skipti þig máli, geti haft áhrif á þitt daglega líf og að þú getir á einhvern hátt brugðist við eða gert eitthvað í málunum. Það er líka auðveldara að þekkja bullið eftir því sem maður þekkir viðfangsefnið betur. Hver kannast ekki við að hafa þekkt til í einhverju máli sem hefur orðið fréttamatur og séð að þar er einhverju ábótavant eða farið lauslega með staðreyndir? Það er gott að muna að allar fréttir eru þessu sama marki brenndar. Við bara vitum það ekki af því að við þekkjum ekki til þeirra. Annað efni er svo nauðsynlegt í bland, en ætti að vera stillt í hóf og því tekið með ákveðnum fyrirvara.
 • Lágt auglýsingainnihald: Forðastu auglýsingar. Þær eru hannaðar til að ná athygli þinni og trufla þig við það sem þú ert að gera. Þar að auki eru þær hannaðar til að vera gildishlaðnar, en ekki til hlutlausrar upplýsingamiðlunar. Það eru ýmsar leiðir til að draga úr áreiti auglýsinga bæði á vefnum og í öðrum miðlum. Kynntu þér þær og tileinkaðu þér.
 • Fjölbreytni og jafnvægi: Leitastu við að neyta fjölbreyttra upplýsinga og mismunandi sjónarmiða. Leitastu sérstaklega við að lesa skoðanir þeirra sem eru ósammála þér og reyna að sjá þeirra flöt á málinu og það frekar en að lesa skrif þeirra sem eru sammála þér. Slíkt efni gerir ekki annað en að fylla þig af, ef til vill, óverðskuldaðri sannfæringu um að þú hafir þegar rétt fyrir þér. Það er betra að brýna skoðanir sínar með rökum þeirra sem eru ósammála þér. Hver veit, kannski ert þú ekki handhafi hins heilaga sannleika eftir allt saman – og sértu það, ertu þá betur í stakk búin(n) til að svara mótrökunum.

  Leitastu sömuleiðis við að kynna þér í bland gæðaumfjöllun um hluti sem þú hefur aldrei kynnst áður og fá þannig nýtt efni inn í hugmyndaheim þinn. TED – einhver?

Ég verð að segja að ég er óskaplega hrifinn af þessum pælingum og margt í þessu hljómar eins og frábær tækni til að takast á við óþægilega kunnugleg stef úr íslenskum fjölmiðla- og umræðuheimi.

Þetta er sterkasti hluti bókarinnar, en ég mæli engu að síður eindregið henni allri. Mikið af góðum pælingum og hugmyndum að því hvernig við getum bætt upplýsingaæði okkar og lyft umræðunni á hærra plan. Ekki veitir af!

Vaðlaheiðargöng – gögn, arðsemi og útreikningar

Ég hef aðeins verið að velta þessari Vaðlaheiðargangaframkvæmd fyrir mér. Eins og oft vill verða skiptast háværustu raddirnar í tvo hópa á sitthvorum enda litrófsins: Annars vegar þá sem finna framkvæmdinni allt til foráttu og hins vegar þá sem vilja keyra verkið í gegn nánast án frekari umræðu eða umhugsunar.

Ég settist þess vegna aðeins yfir málið í morgun og fann til eftirfarandi gögn sem sýna samanburð á umferð um Víkurskarð (sem Vaðlaheiðargöng munu að mestu leysa af hólmi) og Hvalfjarðargöng á árunum 2000-2009:

Meðalfjöldi ferða yfir allt tímabilið er 1.014 bílar á dag um Víkurskarð, en 4.459 um Hvalfjarðargöng og hefur á báðum stöðum vaxið nokkuð jafnt og þétt ár frá ári. Þannig var meðalumferð á dag árið 2000:

 • Víkurskarð: 834 ferðir
 • Hvalfjarðargöng: 3.241 ferð

…en árið 2009:

 • Víkurskarð: 1.253 ferðir
 • Hvalfjarðargöng: 5.413

Þetta samsvarar því að umferð um Víkurskarð hafi að jafnaði vaxið um ca. 4,2% á ári, en um 5,3% á ári í Hvalfjarðargöngunum.

Ég birti þessi gögn á Facebook og þar sköpuðust í framhaldinu býsna fjörugar og fróðlegar umræður um málið.

Tryggvi Þór Herbertsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins blandaði sér meðal annars í þessar umræður með fróðlegu innleggi og bauðst til að senda mér þá arðsemisútreikninga sem hann hefði notað til að mynda sér skoðun á málinu í upphafi árs 2012, en Tryggvi hefur lýst sig fylgjandi framkvæmdinni.

Ég fékk leyfi Tryggva til að birta þessa útreikninga hans. Hér eru hans forsendur og niðurstöður (smellið á myndina til að skoða útreikningana sjálfa):

Ég hafði nokkrar athugasemdir við forsendur útreikninganna, sem ég sendi Tryggva um hæl:

 • Þú reiknar með að öll umferð fari um göngin. Er ekki rétt að miða við 90%?
 • Engir vextir á framkvæmdatíma?
 • Rekstrarkostnaður Hvalfjarðarganga er 250 m.kr. á ári. Þú reiknar með 40 m.kr. á ári við Vaðlaheiðargöng. Hvernig rökstyðurðu þennan mun?
 • Þú reiknar með að meðalveggjald notanda sé 1255 krónur (með vsk). Það er verulega mikið hærra (meira en 2x) en t.d. í Hvalfjarðargöngum. Er það raunhæft?
 • Er tímasparnaðurinn ekki 11 mínútur (16 km á 90km hraða)?
 • 1,5% vöxtur á umferð kann að vera hóflegt miðað við reynslu síðustu 10 ára (sjá að ofan). Má alveg hækka það aðeins. T.d. 2%

Tryggvi benti mér réttilega á að samanlagður tímasparnaður miðast við fjölda farþega í bíl og óhætt að reikna með að það séu fleiri en einn í bílnum. 40 m.kr. rekstrarkostnaðurinn er kominn frá Vaðlaheiðargöngum ehf og skýrður með ólíkri tækni, en hann er svo mikill að þar finnst mér skorta frekari rökstuðning. Almennt hefur verið talað um að veggjald verði 1000 krónur og það hlýtur að miðast við að sú upphæð sé með VSK – ekki án. 50 m.kr. sparnaður við vetrarþjónustu hljómar nokkuð hár, en ég geri ekki athugasemdir við það fyrr en að betur athuguðu máli.

Að teknu tilliti til þessara forsendubreytinga líta uppfærðar niðurstöður svona út. Blálituðu reitirnir merkja mínar breytingar. Að vísu er enn ekki gert ráð fyrir vöxtum á framkvæmdatíma (aftur má smella á myndina til að sjá útreikningana):

Niðurstaðan er vissulega töluvert ólík eftir þessar breytingar.

Ef þið hafið aðrar forsendur eða skoðanir á því hvernig eigi að gera þetta, getið þið svo bara sótt Excel-skrána og leikið ykkur með ykkar eigin forsendur og etv. hjálpar það ykkur við að mynda ykkur upplýsta skoðun á því hvert þessi framkvæmd eigi rétt á sér eða ekki. Mér finnst þetta a.m.k. hjálpleg æfing meðan opinber gögn málsins liggja ekki fyrir.

Burtséð frá ykkar niðurstöðum og skoðunum hvers og eins á Tryggvi Þór á hrós skilið fyrir bæði vinnubrögðin og þátttöku í opnum umræðum um málið. Meira svona!

Uppfært 17. nóv, 2011 kl 11:22: Hér að neðan hafa komið fram athugasemdir við útreikningana í módeli Tryggva og hann tekið undir þær. Eins bendir Tryggvi á að virðisaukaskattur af veggjaldinu sé 7%, ekki 25,5%. Ég hef því uppfært skjölin og myndirnar til samræmis við það, enda tilgangur þessarar tilraunar að nálgast rétt módel sem hver og einn geti skoðað sínar forsendur með.

Uppfært 17. nóv, 2011 kl 11:48: Setti inn þriðju útgáfu af forsendum þar sem flestar tölur eru teknar verulega niður með varfærni að leiðarljósi. Það gæti litið einhvern veginn svona út:

Hlutaskrá einkahlutafélags – dæmi

Samkvæmt lögum um íslensk einkahlutafélög skal félagið sjálft halda hlutaskrá (stundum kölluð hluthafaskrá eða hluthafalisti). Kveðið er á um þetta í 19. grein laganna, en hún hljóðar svo:

19. gr. Þegar einkahlutafélag hefur verið stofnað skal stjórn þess þegar í stað gera hlutaskrá. Heimilt er að hafa skrána í tryggu lausblaða- eða spjaldaformi eða tölvuskrá hana.

 • Í hlutaskrá skulu hlutir skráðir í númeraröð og skal fyrir sérhvern hlut greint frá nafni eiganda, kennitölu og heimilisfangi.
 • Gefa má út hlutaskírteini í einkahlutafélögum.
 • Verði eigendaskipti að hlut og ákvæði 14. og 15. gr. eru þeim ekki til fyrirstöðu skal nafn hins nýja hluthafa fært í hlutaskrána þegar hann eða löglegur umboðsmaður hans tilkynnir eigendaskiptin og sannar rétt sinn. Enn fremur skal geta eigendaskipta- og skráningardags. Sá sem eignast hefur hlut getur ekki beitt réttindum sínum sem hluthafi nema nafn hans hafi verið skráð í hlutaskrá eða hann hafi tilkynnt og fært sönnur á eign sína á hlutnum.
 • Ef þess er krafist af hluthafa eða veðhafa skal félagið gefa út staðfestingu um færslu í hlutaskrána.
 • Hlutaskrá skal ætíð geymd á skrifstofu félags og eiga allir hluthafar og stjórnvöld aðgang að henni og mega kynna sér efni hennar.

Þetta er auðvitað meingallað fyrirkomulag sem býður upp á bæði mistök og margskonar sniðgöngu á lögum, t.d. í tengslum við skatta og takmarkanir á eignarhaldi. Eðlilegast væri að að Fyrirtækjaskrá héldi utan um hlutaskrá allra félaga, rétt eins og hún heldur utan um samþykktir þeirra, stjórnarsetu, prókúru og endurskoðendur. En það er alveg efni í sérstaka umfjöllun.

Ástæðan fyrir þessari færslu er sú að ég veit að fjölmörg einkahlutafélög halda ekki utan um þessi mál í samræmi við það sem kveðið er á um í lögunum – og þar sem ég er tiltölulega nýbúinn að fara í gegnum það með bæði lögfræðingum og endurskoðendum að koma þessu á form sem uppfyllir lögin í einu og öllu fannst mér um að gera að deila afrakstrinum af þeirri vinnu með öðrum sem vilja hafa þessi mál í réttum farvegi.

Excel-skráin hér að neðan sýnir ímyndaða atburðarás við stofnun, fjármögnun og eigendaskipti á hlutum í einkahlutafélagi. Þetta þarf svo að uppfæra þetta í hvert sinn sem breyting á sér stað í hluthafahópnum og tryggja að skjalið sé aðgengilegt hluthöfum og yfirvöldum þegar þess er óskað.

Úfylling skjalsins á að skýra sig nokkurnvegin sjálf, sérstaklega með hliðsjón af lögunum. Skráin er á bæði ensku og íslensku til að geta nýst ef erlendir aðilar eru (eða eru líklegir til að verða) í hluthafahópnum. Fyrir rammíslensk félög má að sjálfsögðu sleppa enskunni.

Smellið á myndina til að sækja skjalið:

Njótið!

Reynslusögur íslenskra frumkvöðla

Í dag var haldinn á Grand Hótel viðburðurinn “Reynslusögur íslenskra frumkvöðla” á Grand hótel. Viðburðurinn var haldinn á vegum Frumkvöðlar.is, frábæru framtaki á vegum hans Hauks hjá Búngaló.

Ég var meðal þeirra sem var fenginn til að deila minni reynslu af sprotapoti þarna. Hér má sjá glærurnar úr fyrirlestrinum mínum “9 hlutir sem enginn sagði mér um frumkvöðlastarf”:

Sprotafyrirtæki á leið úr landi?

Í gær hringdi í mig fréttamaður frá Stöð 2. Hann hafði haft af því ávæning að DataMarket og fleiri sprotafyrirtæki væru “á leið úr landi”. Ég útskýrði fyrir honum að hvað okkur varðaði væri fyrirtækið einfaldlega komið á þann stað í lífinu að nú þyrfti að leggja áherslu á að ná erlendum viðskiptavinum og jafnvel fá erlenda fjárfesta að fyrirtækinu. Eftir stutt spjall varð úr að hann kæmi og tæki við mig stutt viðtal um þær áskoranir sem við sæum helstar í því.

Við spjölluðum vel og lengi – líklega hafa þeir tekið a.m.k. 15 mínútur af efni þar sem ég fór vítt yfir sviðið og útskýrði umfram allt að við þyrftum við að gera tvennt erlendis:

 1. Koma upp sölu- og markaðsstarfsemi þar sem við erum nær verðandi viðskiptavinum okkar, eða a.m.k. stærri hópi en þeim sem við höfum úr að moða hér á landi.
 2. Gera erlendum fjárfestum sem hugsanlega vildu koma að félaginu kleift að leggja fé inn í fyrirtæki sem starfrækt er í lagaumhverfi sem þeir þekkja, skilja og eru vanir. Fyrir bandaríska fjárfesta þýðir þetta oftast fyrirtæki sem sett eru upp í Delaware-fylki (þó starfsemin sé oftast allt annars staðar).

Þar sem mig grunaði að Stöð 2 væri jafnvel að höggva eftir því hvort gjaldeyrishöft, niðurstaðan úr Icesave-kosningunni, aðild (eða ekki) að ESB, Ríkisstjórnin, stjórnarandstaðan eða önnur heit pólitísk mál væru að þvælast fyrir okkur, lagði ég áherslu á að það væru ýmsar áskoranir tengdar því að vera á Íslandi, en áskoranir við sprotastarfsemi væru alls staðar. Helsta *landfræðilega* áskorunin við það að vera á Íslandi er sú sama í huga helstu sprota- og vaxtarfjárfestingasjóða heimsins og nánast alls staðar annars staðar í heiminum: Ísland er ekki í Silicon Valley 😉

Sömuleiðis lagði ég ríka áherslu á það að hér væri að mörgu leyti gott umhverfi til að taka fyrstu skrefin með sprotafyrirtæki. Hér er mikil og góð tækniþekking og þó atvinnulaust hæfileikafólk í upplýsingatækni finnist ekki hér frekar en annars staðar í heiminum er engu að síður hægt að setja saman mjög öfluga kjarnahópa sem stýra munu þróun um ókomna tíð þó að líklega þurfi að leita í stærra samfélag þegar og ef fyrirtæki komast á þann stað að þurfa hundruð starfsmanna við þróun.

Staða okkar væri sem sagt sú að við værum að skoða möguleikana á því að setja upp skrifstofu erlendis og að setja fyrirtækið upp með einhverjum hætti sem ekki fækkaði fjölda mögulegra fjárfesta á “tækniatriðum” eins og því að þeir þyrftu að setja sig inn í íslenskt lagaumhverfi, gjaldeyrishöft og pólitískan stöðugleika á Íslandi. Fjármögnunarferli sprotafyrirtækja snýst um að fækka ástæðum fjárfestis til að segja “nei” þangað til hann hefur enga og getur ekki annað en sagt “já”. Þetta er einfaldlega einn liður í því og flest skrefin væru alveg þau sömu og við hefðum tekið á þessu stigi á líftíma fyrirtækisins þó aldrei hefði orðið bankahrun og engin gjaldeyrishöft væru.

Að loknu þessu yfirvegaða og jákvæða spjalli kvöddumst við og fréttamaðurinn hafði úr ofangreindu og fleiru að moða til að klippa saman frétt um málið.

Viti menn! Önnur frétt í fréttatíma Stöðvar 2 er “Fimm sprotafyrirtæki á leið úr landi” og inngangurinn í svipuðum æsifréttarstíl. Smellið á myndina til að sjá innslagið í heild:

Miðað við spjallið eru nokkur atriði sem ég er svolítið hissa á í þessari frétt:

 • “Fimm sprotafyrirtæki á leið úr landi”, er ekki það sama og að þau vilji starfrækja viðskiptahluta starfseminnar erlendis. Hvað DataMarket varðar – og ég veit að það gildir um flest, ef ekki öll, hinna fyrirtækjanna sem nefnd voru – stendur ekki til og er engin ástæða til að flytja þróunarstarfið úr landi.
 • Í inngangi segir “gjaldeyrishöft gera það að verkum að erlendir fjárfestar forðast að fjárfesta hér á landi”. Það þarf nú líklega ekki að koma neinum á óvart, en eins og kemur reyndar fram í fréttinni eru höftin alls ekki upphaf og endir alls. Á þessu eru lausnir og þetta bara eitt af fjölmörgum úrlausnarefnum.
 • Hvað er Sjálfstæðisfálkinn og Valhöll að gera í bakgrunni við kynningu fréttarinnar?!? (Ég ætla reyndar að gefa mér að það séu einhver mistök, a.m.k. skil ég hvorki beina né dulda tengingu þeirra við fréttina)

…að öðru leyti er ekkert við fréttina að athuga. Þetta er veruleikinn eins og hann blasir við mér á þessum tímapunkti.

Það er hins vegar til marks um umræðuna á Íslandi í dag að fyrir þessa lýsingu mína hef ég í dag fengið að heyra að ég sé: ESB-sinni, andstæðingur ríkisstjórnarinnar, stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar, ósáttur við niðurstöðu Icesave-kosningarinnar og ýmslegt fleira … sem nota bene er allt sagt í gagnrýnistón.

Meðan þau atriði sem ég er gagnrýndur fyrir eru úr öllum – þar með talið gagnstæðum – áttum, ætti ég samt kannski ekki að hafa of miklar áhyggjur af því 😉

Grísast gegnum bankahrun

GríslingurEftir því sem líður frá bankahruninu er að koma betur og betur í ljós hversu stálheppin við höfum verið með margt í þessari atburðarás. Það merkilega er samt að fæst af þessu voru ákvarðanir sem teknar voru af stjórnvöldum á hverjum tíma. Þetta voru heldur ekki tillögur stjórnarandstöðu eða fólksins í landinu. Þetta voru satt að segja hlutir sem gerðust ÞRÁTT FYRIR þessa aðila og það sem þeir vildu. Eða í besta falli vegna heilbrigðrar togstreitu þeirra á milli. Mest hefur þetta ferli samt verið tilviljunum háð.

Við erum sem sagt þjóðin sem grísaðist í gegnum algert bankahrun. Geri aðrir betur.

Hér eru þrjú dæmi um þessa grísni:

 • Neyðarlögin og að bjarga ekki bönkunum: Ríkið bjargaði ekki bönkunum af því að það gat það ekki. Okkar lukka hér var að enginn vildi lána okkur og kerfið var allt of stórt til að við réðum við þetta án lána. Trúið mér, ef risalán hefði fengist sumarið 2008 – eins og sannarlega stóð til – hefðu stjórnvöld tekið því fegins hendi og við hefðum farið inn í sama vítahring og Írar eru í núna. Dælt peningum inn í vitavonlausa banka og skellt reikningnum á skattgreiðendur komandi áratuga. Við erum kannski að tala um 2000 milljarða eða svo! Í raun hefðum við sett okkur í algerlega vonlausa stöðu.Kröfuhafar bankanna hefðu lítinn sem engan skell tekið, eigendurnir nokkurn, en við venjulega fólkið alveg svakalegan. Neyðarlögin hefðu aldrei verið sett með þeim hætti sem gert var, við hefðum ekki fengið neina Rannsóknarnefnd og þar með ekki fengið að vita hversu illa kerfið var statt í raun og hve rotið margt var sem þar fór fram. Það þarf enginn að segja mér að írsku bankarnir sem nú er verið að bjarga séu mikið frábrugðnir okkar bönkum – en Írar munu líklega ekki fá að vita það. Þeir fá bara að borga.

  Ólán okkar er kannski bara að þetta gerðist ekki þegar kerfið riðaði í “litlu kreppunni” árið 2006. Og þó – þá hefðum við sennilega fengið lán og bjargað bönkunum, sem hefðu haldið áfram enn keikari en fyrr með enn grlaðari kröfuhafa og eigendur með staðfesta ríkisábyrgð á bakvið sig.

 • Að samþykkja ekki arfaslæma Icesave-samninga: Ég hef alltaf verið á því að vegna neyðarlaganna beri Ísland ábyrgð á þeim innistæðum sem þrotabú Landsbankans og Tryggingasjóður innistæðueigenda eiga ekki fyrir. Á sama máli hafa æðstu ráðamenn þjóðarinnar reyndar líka verið á hverjum tíma (Bjarni Ben, 28. nóv 2008 / Steingrímur síðar), þó þeir slái aðeins öðruvísi í hestinn þegar þeir eru ekki við völd (Steingrímur J. Sigfússon, 28. nóv 2008 / Bjarni síðar).Það þýðir samt ekki að það eigi að semja á hvaða kjörum sem er. Ríkisstjórn D og S skrifaði í flýti undir viljayfirlýsingu [innskot 29.12.2010: við Hollendinga] á fáránlegum kjörum. Svavar Gests samdi um lítið skárri kjör. Með fyrirvörum Alþingis batnaði sá samningur þó töluvert (öll skjöl þessara mála hér). Þegar þessum samningi var engu að síður hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu gaf það íslensku samninganefndinni sterkt tromp á hendi og LOKSINS var leitað til erlendra fagmanna um aðstoð við að leysa málið.

  Aðkoma Lee Buchheit er líklega ein af stóru gæfunum í þessu máli. Nú liggur á borðinu samningur sem virðist á nokkuð eðlilegum kjörum. Hann er þó auðvitað ekki ásættanlegur fyrir þá sem halda því fram að við eigum ekki að borga yfir höfuð. Við þá má segja þetta: Ef minnstu líkur eru á því að Ísland tapi málaferlum vegna mismununar innistæðueigenda, þá má horfa á fyrirliggjandi Icesave-samning sem frábæra tryggingu. Við borgum áætlað 50 ma. króna til að tryggja okkur fyrir tjóni sem mundi hlaupa á u.þ.b. 1300 milljörðum.

  Reyndar hef ég rökstuddan grun um að gæfa okkar hér eigi eftir að verða enn meiri og þrotabú Landsbankans muni á endanum borga þetta svo til upp til agna.

 • Að fá Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að málum: Mig grunar að sögubækur framtíðarinnar munu segja eitthvað á þessa leið: “Framkvæmd áætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir Ísland tókst í flesta staði vel og hefur aðhaldið sem utanaðkomandi eftirlit fól í sér hefur líklega hindrað margvísleg axarsköft sem stjórnvöld hefðu annars gert í hita leiksins eða í leit að skammvinnum vinsældum.”Með þessu er ég hvorki að segja að AGS sé einhver góðgerðarstofnun, né heldur að stjórnvöld hafi engin axarsköft gert. Hlutverk AGS er hins vegar að stuðla að stöðugleika í fjármálakerfi heimsins og aðildarlandanna og hér á landi krafðist það aðallega aðstoðar við stjórnvöld og eftirfylgni með aðgerðum þeirra. Engar dómsdagsspánna um að AGS myndi selja auðlindirnar okkar eða hneppa okkur í sérstakt skuldafangelsi hafa gengið eftir.

  Og engar þeirra óskhyggju-hugmynda sem voru í gangi um flata niðurfellingu skulda, “að færa klukkuna” til 1. jan. 2008, að þjóðnýta (eða því sem næst) lífeyrissjóðina, að taka einhliða upp annan gjaldmiðil eða aðrar kanínur sem draga átti upp úr hatti urðu að veruleika – blessunarlega.

Núna, þegar 2 ár eru liðin frá bankahruninu lítur stóra myndin í efnahagsmálum Íslands í raun furðulega vel út. Það mun taka nokkurn tíma fyrir sértækari mál (einkum skuldir heimila og skuldir og eignarhald fyrirtækja) að spilast út og það verður ekki sársaukalaust. Öll merkin benda samt til þess að botninum sé náð og nú tekur við stígandi lukka.

Fyrir nú svo utan alla hina gæfuna.

Ekki búast samt við neinum kraftaverkum. Efnahagsmál heimsins líta ekki vel út, enda hafa aðrar þjóðir hamast við að blása lofti í sprungnar blöðrur. Bandaríkin, Bretland, Evrusvæðið og Kína eru öll í býsna erfiðum málum og þeirri atburðarás er engan veginn lokið.

Allt er æðislegt en enginn er ánægður!

Það kann að virðast fráleitt þegar horft er á venjulegan fréttatíma, en við lifum á tímum mestu velmegunar, öryggis og friðar sem mannkynið hefur nokkurntíman upplifað. Fólk lifir lengur, minna hlutfall mannkyns líður skort og minni líkur eru á að vera myrtur af náunganum eða drepinn í stríði en nokkru sinni fyrr.

Okkar helstu vandamál felast í því að við erum svo mörg og höfum það svo gott að við verðum orðið að fara varlega til að skemma ekki plánetuna sem við búum á og taka með því tækifæri af komandi kynslóðum til að hafa það jafn gott.

Þetta eru staðreyndir. Og þarna í allra efstu þrepunum í lífsgæðastiganum á þessum mestu velmegunartímum frá upphafi erum við Íslendingar.

Já, ennþá!

Lífsgæðin á Íslandi fóru frá því að vera á flestum mælikvörðum eins og Mónakó yfir í að vera á flestum mælikvörðum eins og í Danmörku. Frá ofurallsnægtum til allsnægta – það var nú allt fallið.

Svo tipla allir á tánum og segja að það megi ekki gera lítið úr vandamálum fólksins á Íslandi. Rugl! Það á einmitt að gera lítið úr þeim.

Enginn frasi fer meira í taugarnar á mér um þessar mundir, en að Ísland sé “orðið þriðjaheimsríki”. Þeir sem segja svona hafa svo sannarlega ekki komið til slíkra ríkja. Ég hef heimsótt þau allnokkur og veit því hvað ég er að tala um.

Hefur þú notað plastpoka sem salernisaðstöðu nýlega? Drukkið úr skólpvatninu? Hjá nágrönnunum? Efast um að eiga morgunmat í fyrramálið? Ekki vitað hvort þú þyrftir að yfirgefa heimilið í nótt vegna yfirvofandi árása?

Fæstir setja frið ofarlega á lista yfir forgangsatriði í lífinu sem aldrei hafa upplifað ófrið.

Ef þú hefur þak yfir höfuðið, mat á disknum og rennandi vatn í krananum hefur þú það betra en 5 af hverjum 6 jarðarbúum. Mér er alveg sama hvað hver segir: Á Íslandi búum við svo sannarlega við þannig kerfi að enginn þarf að lifa í ótta við að missa neitt af þessu, jafnvel þó hann missi “aleiguna” eins og það er kallað. Og langflest höfum við það reyndar miklu, miklu betra.

Það versta við Hrunið er að það er orðin ásættanleg hegðun að væla og bera sig illa. Hver er ekki lengur sinnar gæfu smiður, heldur er hin voðalega ógæfa okkar allra einhverjum öðrum að kenna. Alltaf. Öll.

Svo sannarlega var hér fólk sem framdi glæpi, gerðist sekt um vanrækslu og margir eru sekir um alvarlegan dómgreindarbrest. Flest fórum við að einhverju leyti óvarlega.

Já, glæpamönnum þarf að refsa, já, margir mega skammast sín. Engar áhyggjur, það er verið að rannasaka þessi mál og fólk mun fá sína refsingu – þetta tekur allt tíma og einn af kostunum við það að búa ekki í þróunarríki er að við höfum við lög og rétt til að takast á við svona mál. Og jafnvel þó einhverjir sleppi frá dómskerfinu þá veldur það okkur ekki meiri skaða en orðinn er. Þau þurfa aftur á móti að horfast í augu við eigin samvisku og fólkið í kringum sig. Ég ímynda mér að það sé flestu þessu fólki nú þegar ansi erfitt. Margir eiga seint og illa afturkvæmt til Íslands.

Það er rík ástæða fyrir því að hefnigirni, öfund og langrækni eru ekki talin til dyggða. Það eru aftur á móti hugrekki, samkennd og jafnaðargeð.

Það er fráleitt að bera sig saman við og sakna þess sem var á árunum 2006 og 2007. Það var ekki innistæða fyrir því góðæri sem þá var og ástæðan fyrir því að sum okkar upplifðu það að ferðast um eins og kóngar í útlöndum þar sem allt var hræódýrt og önnur okkar töldu sig hafa efni á því að taka lán fyrir alltof stórum húsum, dýrum bílum og jafnvel bara til að lifa hátt var einmitt sama ástæðan og sú sem varð til þess að allt hrundi á hliðina.

“Þá” var ekki raunverulegt. “Núna” er raunverulegt og reyndar standa öll efni til þess að raunveruleikinn verði fljótlega einhvers staðar mitt á milli.

Það er allt í lagi að gráta stundum, en það er ástæða fyrir því að við venjum börnin okkar af því að suða, nöldra og væla. Heil þjóð af vælukjóum er ekki skemmtileg þjóð. Heil þjóð af fólki sem horfir til framtíðar og gerir hluti til að breyta til hins betra og byggja upp er það hins vegar.

Í Hruninu liggja tækifæri – tækifæri til að byggja upp betra samfélag en það sem var og líka betra en það sem er, en það gerist ekki með því að væla – það gerist með því að GERA.

Hættum þessu helvítis væli og förum að gera eitthvað uppbyggilegt.

Uppfært 8. desember, 2013: Þar sem NBC hefur ákveðið að loka á myndbandið hér að ofan á YouTube, þá verðið þið að fara hingað eða hingað eða hingað til að horfa á það.