nýsköpun

Eftir Covid: Leiðarljós við uppbyggingu

Ég ætla ekki að fagna sigri eða setjast í spámannssæti um það hvenær eða hvernig þessum faraldri sem nú gengur yfir lýkur, en einn daginn gerist það og þegar vísindamennirnir og heilbrigðisstarfsmennirnir hafa lokið sínu starfi við að bjarga lífi og limum, þurfum við hin að takast á við uppbyggingarstarfið sem við tekur í efnahagslífinu og samfélaginu öllu.

Þessi pistill er tilraun til að koma í orð nokkrum atriðum sem ég tel að við ættum að hafa að leiðarljósi við það starf.

Ef velja ætti eitt orð til að lýsa því sem gengið hefur á síðustu vikur er það orðið “breytingar”. Þar til fyrir fáeinum vikum var mikið talað um þær öru breytingar sem hin svokallaða 4. iðnbylting átti að hafa í för með sér, og þau tækifæri og ógnir sem í því fælust. Talað var um að hraði þessarra breytinga yrði ólíkur nokkru sem við hefðum áður séð.

Að einhverju leyti má segja að nú hafi 4. iðnbyltingunni hafi verið flýtt:

 • Tæknivæðing í skólum sem hefði auðveldlega tekið 20 ár með hefðbundinni stefnumörkun hefur orðið á 20 dögum.
 • Breytingar á ferðavenjum sem hörðustu loftslagsaðgerðir hefðu ekki getað fært í orð að ná fyrir árið 2040 eða 2050 urðu á 2-3 vikum.
 • Breyting á starfsháttum fyrirtækja og stofnana sem hefði verið óhugsandi með öllu hefur víða verið gerð á einni nóttu.

Þessar breytingar eru allar öfgakenndar og því fer fjarri að við viljum halda í þær, en þær opna líklega augu okkar fyrir því að það voru allskyns millivegir færir. Millivegir sem við hreinlega sáum ekki áður.

Þegar breytingar verða svona hratt, höfum við tilhneigingu til að halda að að þeim loknum verði ekkert eins og áður. Að allt muni breytast – og nú sé tækifæri til að laga allt og byggja nýja hluti á nýjum grunni.

Við munum það sjálfsagt mörg í bankahruninu: Þá átti allt að breytast og ekkert að verða samt aftur. Auðvitað breyttist margt, en í raun var samfélagið sem smám saman reis upp úr því sennilega líkara því sem fyrir var en nokkurn óraði fyrir á meðan á því stóð.

Íhaldssemi er nefnilega sterkt afl – og oft ágætt. Hlutirnir hafa tilhneigingu til að leita í sama farið, og ef við ætlum að breyta öllu er kröftunum dreift svo víða að ekkert breytist. Allt verður eins á ný. Fæst okkar myndu líklega gráta það. Þaðan sem við horfum í dag, er það samfélag sem við bjuggum við fyrir bara 2-3 mánuðum ákaflega eftirsóknarvert. En það var sannarlega ekki gallalaust.

Ég held að það sé hollt að nálgast uppbyggingarverkefni næstu ára með þetta í huga. Hlutirnir hafa tilhneigingu til að leita í sama farið, en við höfum tækifæri til að horfa á það far, hugsa um það sem betur mátti fara og reyna að stýra hlutunum. Þannig getum við ýtt undir æskilegar breytingar, en forðast endurhvarf til þeirra hluta sem ef til vill voru það síður.

Og hver eru þá brýnustu úrlausnarefnin þegar kemur að atvinnulífinu?

Þegar ég þarf að útskýra Ísland og íslenskt efnahagslíf fyrir fólki erlendis nota ég undantekningarlítið þessa mynd:

Tekjuöflunin okkar samanstendur af þremur stórum stoðum og svo “einhverju öðru”. Síðan ég byrjaði í “business” fyrir bráðum 25 árum hefur umræðan um þetta alltaf skotið upp kollinum öðru hverju. Fyrst var það “Fjórða stoðin” svo “Alþjóðageirinn”, en óháð því hvað það er kallað og hugsanlegum blæbrigðamun á skilgreiningum er í raun verið að kalla eftir aukinni fjölbreytni og þar með mótvægi við áföllum í einni eða jafnvel fleirum af þessum stóru stoðum.

Með þetta í huga annars vegar, og hins vegar þá staðreynd að við stöndum frammi fyrir stórri áskorun við að milda höggið nú, þurfum við að horfa á það hvernig sem mest af þeim kostnaði sem fer í björgunaraðgerðirnar getur nýst til að fjárfesta í fjölbreyttari framtíð. Beina fólkinu og fjármagninu sem nú leitar að farvegi í uppbyggingu sem leiðir af sér fjölbreyttara efnahagslíf sem er þolnara fyrir áföllum.

Og þetta má ekki gera á kostnað núverandi burðarstoða umfram þær breytingar sem óumflýjanlegar eru þar. Þessar burðarstoðir þarf að verja. En það þarf að byggja upp samhliða þeim.

Upp með innviðina

Ég ætla að koma ykkur á óvart með því að byrja á að tala um steypu. Framkvæmdir í einkageiranum munu líklega svo gott sem stöðvast í bili, en þá er tækifæri til að byggja upp innviði sem mæta kröfum framtíðarinnar.

 • Ferðamannastaðir og þjóðvegir: Verum tilbúin að taka á móti gestunum þegar þeir fara að koma aftur.
 • Umhverfis- og loftslagsmál:
  • Orkuskipti: Ef eitthvert land á að skara framúr þegar kemur að rafbílavæðingu er það Ísland. Allur fólksbílaflotinn notar innan við þriðjung þeirrar orku sem notuð er í álverinu í Straumsvík. Í dag er öll sú orka aðkeypt fyrir tugi milljarða í gjaldeyri á ári hverju. Sú innviðauppbygging sem þarf hér kallar á mörg störf iðnaðarmanna um allt land. Og ekkert eitt skref kæmi okkur nær því að standa við skuldbindingar okkar samkvæmt Parísarsamkomulaginu en einmitt þetta. Af öllu því sem unnt væri að ráðast í nú er þetta augljósasta færið. Þetta hefur hreinlega ALLT með sér.
  • Almenningssamgöngur: Herðum á uppbyggingu almenningssamgangna. Það kallar á störf, léttir á öðrum innviðum og eykur lífsgæði bæði þeirra sem nota almenningssamgöngurnar og hinna sem áfram nota (rafmangs)bílinn.
 • Stafrænt Ísland: Nú er lag. Fólk hefur þurft að læra og komist að því að það er hægt að leysa ótrúlegustu hluti yfir netið og með stafrænum hætti. Opinberir aðilar hafa dregist langt afturúr í því að veita þannig þjónustu. Hraðari uppbygging hér eykur skilvirkni og þjónustustig hins opinbera, öllum til hagsbóta.

Samt ekki “tóm steypa”

Stóru geirarnir okkar þrír eru auðlindageirar. Mér vitanlega eru ekki miklar líkur á því að við finnum nýja auðlind sem skapar viðlíka verðmæti og þess vegna þurfum við að beina sjónum okkar að hugvitinu. Það er líka á því sviði sem verðmæti geta orðið til úr “engu” öðru en því að veita hugmyndaríku og drífandi fólki gott kaffi og gott starfsumhverfi.

Það besta sem Ísland hefði getað gert til að takast á við núverandi ástand hefði verið að setja stóraukinn kraft í nýsköpun fyrir 5-10 árum síðan. Næstbesta ráðið er þess vegna að gera það núna!

 • Ekki gleyma litlu fyrirtækjunum: 70% landsmanna vinna hjá litlum fyrirtækjum (færri en 250 starfsmenn, 50% hjá fyrirtækjum með færri en 50 starfsmenn) og þar verða ný störf til hraðar en hjá stórum fyrirtækjum. Litlu fyrirtækin hafa samt ekki sterka rödd og margar þeirra aðgerða sem henta stórum fyrirtækjum, henta litlum fyrirtækjum síður – hvað þá einyrkjum.
 • Gefum fyrirtækjum sem eru komin af stað “tímavél”: Þau fyrirtæki sem eru – og hafa verið – í uppbyggingu miðað við þann raunveruleika sem þangað til nýlega var, munu eiga erfitt á næstu misserum. Margir markaðir eru í algeru frosti og fjármögnunarleiðum hefur snarlega fækkað og orðið erfiðari. Hættan er að þessi fyrirtæki falli um koll núna og verði ekki á staðnum til að grípa tækifærin þegar allt lifnar við á ný. Hvatasjóðurinn Kría er mikilvægur þáttur hér og hann þarf að komast af stað strax og jafnvel stækka. En það þarf líklega líka að skoða aðrar leiðir, eins og víkjandi lán til fyrirtækja sem lenda í þessari biðstöðu. Hið hefðbundna bankakerfi sinnir ekki þessum fyrirtækjum og mun ekki geta gert það á sínum forsendum í þessu umhverfi heldur.
 • Hjálpum nýjum að komast af stað: Þau sprotafyrirtæki sem hafa verið að ná árangri á undanförnum árum fóru nær öll af stað í síðustu kreppu. Ég þekki það ágætlega sjálfur, stofnaði fyrirtæki 2008 og seldi það 2014. Sú sala mældist alveg á hagvísum. Og aðrir sem þá fóru af stað hafa náð miklu lengra. Nú er los á góðu fólki, gefum því tækifæri til að láta hugmyndir sínar verða að veruleika. Hér liggur beint við að stórefla Tækniþróunarsjóð (og þar er hreyfing nú þegar), og stuðla að þekkingarmiðlun milli þeirra aðila sem eru að fara af stað og hinna sem hafa reynsluna með markvissum sprotahröðlum eða álíka verkefnum.

Opið og sterkt samfélag

Að lokum megum við ekki gleyma því að Ísland þarf alþjóðlegt samstarf og viðskipti eins og maraþonhlaupari þarf súrefni.

Sú lexía sem við megum allra síst draga af þessu ástandi er að nú skuli hver hugsa um sig, loka landamærum og draga sig inn í skelina. Þvert á móti þurfum við að efla alþjóðlegt samstarf og samskipti, draga hingað alþjóðlega þekkingu og fjármagn og þora að vera þjóð á meðal þjóða.

Þetta er ekki bara mikilvæg brýning vegna þess að aðgangur að alþjóðamörkuðum er nauðsynlegur bæði stóru greinum dagsins í dag og nýju greinum framtíðarinnar, heldur liggur kannski hérna eitt stærsta tækifærið í þessu öllu saman.

Krísan sem nú gengur yfir heimsbyggðina er að sýna svo ekki verður um villst hversu mikils virði það er að búa í samfélögum með öfluga innviði, öryggisnet og samfélagsgerð. Það er sannarlega of snemmt að hrósa sigri, en ef svo fer fram sem horfir er Ísland að fara nokkuð vel útúr þessum faraldri heilsufarslega séð og í sterkri stöðu til að takast á við það sem á eftir kemur efnahagslega.

Samfélög sem sýna þann styrk munu verða eftirsóknarverð samfélög. Samfélögin þar sem brestirnir koma í ljós síður. Þegar upp úr þessum átökum er staðið munu margt drífandi fólk horfa til þess hvort hagsmunum þeirra og öryggi sé kannski betur borgið á öðrum stað í heiminum. Ef vel tekst til hjá okkur munu sum þeirra horfa til Íslands. Við eigum að taka vel á móti þeim öllum, en sérstaklega ekki leggja stein í götu þeirra sem geta hjálpað til við uppbygginguna. Við þurfum ekki að mennta öll þau sem eiga að standa undir atvinnulífi framtíðarinnar – við getum boðið þau velkomin að flytja hingað. Ég trúi því að þarna verði stórt sóknarfæri á næstu árum.

Ég held með öðrum orðum að Ísland verði aftur eftirsóknarverður áfangastaður. En ekki bara fyrir ferðamennina – sem munu koma aftur – heldur líka fyrir fólk sem er að leita að betra og öruggara samfélagi til að búa og starfa í.

Lokaðra Ísland er ávísun á meiri fábreytni og færri tækifæri, en opið á fjölbreytni, aukna viðspyrnu við áföllum og fleiri tækifæri.


Vonandi berum við gæfu til að nálgast þetta uppbyggingarstarf af svipaðri ákveðni og yfirvegun og í því hvernig tekist hefur verið á við heilsufarsógnina. Þá verða einn daginn verða vonandi fleiri en 3 stórar stoðir undir íslensku efnahagslífi og fleiri greinar til að grípa okkur í fallinu þegar óvænt og áhjákvæmileg áföll dynja á.

Horft niður um glerþakið

Ég hætti nýverið í vinnunni. Við taka nokkrir mánuðir af umhugsun, hvíld og ferðalögum sem er alveg tímabært eftir 10 ára hlaup með DataMarket og svo Qlik eftir að fyrirtækin runnu saman. Í haust fer ég svo örugglega aftur að gera það sem ég kann best: Að setja af stað eitthvað nýtt.

Hvað það nákvæmlega verður er enn í mótun, en ég er eiginlega búinn að hugsa meira um það hvernig ég vil gera það, en nákvæmlega hvað ég vil gera.

Eitt af því sem mér finnst mikilvægt er að tryggja að hópurinn sem að málum standi sé fjölbreyttur. Þar spila kynjahlutföllin stóra rullu. Ég hef áður skrifað um það hversu erfiðlega gekk að fá konur til starfa hjá DataMarket þrátt fyrir nokkuð ítarlegar tilraunir, m.a. í lykilstöður.

En nú er blaðið er autt og dauðafæri að byggja upp blandaðan hóp frá upphafi. Ég veit líka að ef ég gæti ekki að verður þetta umsvifalaust hópur sem samanstendur bara af fertugum körlum eins og mér.

Eitt af því sem ég hef velt talsvert fyrir mér í þessari dínamík eru samskipti fólks af sitthvoru kyninu og hvernig óttinn um að eitthvað annað búi að baki getur litað þau. Eða jafnvel óttinn við þann ótta.

Ég hef mjög gaman af að fylgjast með því sem skapandi fólk á Íslandi er að gera. Einu sinni til tvisvar í viku heyri ég í fólki sem ég þekki lítið eða ekkert, en er að setja af stað fyrirtæki, velta fyrir sér möguleikum eða leita ráða varðandi nýsköpun, fjármögnun, markaðssókn erlendis eða annað þar sem ég hef ef til vill eitthvað fram að færa.

Langoftast er þetta fólk sem ég er kynntur fyrir, eða hefur samband við mig að fyrra bragði, en það kemur líka fyrir að ég rekst á fólk sem mér finnst vera að gera áhugaverða hluti og hef samband við það að fyrra bragði.

Hins vegar er yfirgnæfandi meirihluti þessarra samskipta við karla. Og því meira sem ég hugsa um það, þeim mun meira held ég að það sé ekki í hlutfalli við karla umfram konur sem eru að gera Góða Hluti(TM) á þessum sviðum.

Ég viðurkenni til dæmis fúslega að ég er feimnari við að hafa af fyrra bragði samband við ungar konur sem ég þekki ekki, en eru að gera áhugaverða hluti, sennilega af lítt meðvituðum (fyrr en nú) ótta um að það verði á einhvern hátt misskilið: “Hey, ég hef verið að fylgjast á netinu með því sem þú ert að gera, og mér finnst það töff! Ertu til í spjall við tækifæri?” (ég get alveg verið ótvíræðari, en þið skiljið hvað ég meina)

Og kannski er þetta svona í hina áttina líka: Kannski eru kvenkyns frumkvöðlar ragari við að setja sig í samband við karlkyns mentora/fjárfesta vegna þess að alltof margir okkar hafa hagað sér eins og fífl í gegnum tíðina.

Hver sem ástæðan er, þá er þetta samskiptahindrun sem þarf að ryðja úr vegi til að jafna kynjahlutföllin í geiranum. Þannig að: Konur, ekki hika við að setja ykkur í samband ef þið eruð í sprotahugleiðingum. Og sömuleiðis skal ég reyna að láta ekki “óttann við óttann” hafa áhrif á mín samskipti og sækjast eftir samskiptum við frumkvöðla og efnilegt sprotafólk af báðum kynjum á sama hátt og auðvitað á nákvæmlega sömu forsendum.

Loksins skil ég íslenska pólitík

Ég rakst á frábæra grein á Vox sem ber titilinn “Tech nerds are smart. But they can’t seem to get their heads around politics“. Ég tek titilinn augljóslega til mín 🙂

Greinin er löng, kemur víða við, en opnaði virkilega augu mín fyrir nýjum vinklum á þá órökréttu loðmullu sem pólitík samtímans er í augum okkar nördanna. Greinin er rituð algerlega útfrá sjónarhóli bandarískra stjórnmála, en í kjölfar lestursins kviknuðu eftirfarandi pælingar um íslenska landslagið:

Íslensk pólitík snýst ekki um hægri og vinstri, heldur um þá sem eru í meginatriðum sáttir við samfélagsgerðina og vilja sem minnstu breyta – “íhaldsvænginn”, og hina sem eru óánægðir og vilja breytingar, en eru alls ekki sammála um það hverju þeir vilja breyta – “óánægjuvænginn”.

 • Íhaldsvængurinn: Að vilja sem minnstu breyta er auðvitað orðabókarskýringin á “íhaldi” eða “conservatism”. Eðli málsins samkvæmt er þetta upp til hópa fólk sem hefur komið sér vel fyrir í lífinu, er með ágætar eða mjög góðar tekjur, hugsar hlýlega til gamalla tíma og situr oft beinlínis að kjötkötlunum hvort sem varðar peninga, völd eða áhrif. Viðhorf þeirra er eðlilegt. Af hverju að breyta reglunum í leik sem þú ert þegar að vinna?

  Þetta sama fólk er hins vegar hrætt við breytingar og sér þær sem ógn við þessa yfirburðastöðu sína: “Hnignandi fjölskyldugildi”, réttindabaráttu minnihlutahópa, innflytjendur, aðskilnað ríkis og kirkju, breytingar á stjórnun landbúnaðar eða fiskveiða, nýja stjórnarskrá (gisp!) og svo mætti lengi telja.

  Þetta fólk kýs Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn, enda hafa þeir verið duglegir að standa vörð um allt ofantalið þó þeir hafi hvor sínar áherslur og annar höfði því betur til sumra en hinn. Þessir flokkar hafa lengst af verið við völd á Íslandi og því eðlilegt að áherslur þeirra endurspeglist í þjóðfélagsgerðinni, sem kjósendur þeirra eru svo aftur sáttir við og vilja viðhalda. Dvínandi fylgi þessarra flokka síðustu ár er samkvæmt þessu skýrt merki um aukna óánægju með þjóðfélagsgerðina, hvort sem það er nú með réttu eða röngu.

 • Óánægjuvængurinn: Á hinum vængnum eru svo þeir sem eru óánægðir með þjóðfélagsgerðina og vilja breytingar. Þetta eru fjölmargir litlir hópar sem eru óánægðir með ólíka hluti og eru því í raun ekki sérlega sammála um neinar þeirra breytinga sem þeir vilja. Þeir eiga því erfitt með að finna flokka sem tala beint til þeirra, en kjósa Vinstri græna, Samfylkinguna eða eitthvert hinna skammlífu óánægjuframboða sem yfirleitt spretta einmitt upp með breytingar sem yfirlýst markmið. Þetta útskýrir líka skammvinnt ris og fall slíkra flokka mjög vel. (Einstaka sinnum tekst Framsókn að höfða til hluta þessa hóps í skamman tíma – stundum yfir kosningar – og svo falla þeir í íhaldsgírinn aftur og standa vörð um óbreytt ástand)

  Þessi sundrung sást mjög vel í tíð síðustu ríkisstjórnar þar sem óánægjuvængurinn komst til valda í kjölfar hrunsins sem margir röktu til þjóðfélagsgerðarinnar sem íhaldsvængurinn hafði byggt upp. Enda ætlaði sú stjórn að breyta öllu í stað þess að leggja áhersluna á eitt til tvö lykilmál. Það átti að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu, ganga í ESB, skrifa nýja stjórnarskrá, setja á kynjakvóta, endurskipuleggja ráðuneyti, sía internetið og svo langt fram eftir götunum. Stjórnin varð á endanum varla starfhæf af því að flokkarnir voru ekki sammála um hverju ætti að breyta og þá sjaldan þeir voru það voru þeir ósammala um hvernig ætti að breyta því.

Þessi sýn á málin útskýrir hvers vegna hugtökin “hægri” og “vinstri” passa svo illa við þá flokka sem þó jafnvel kenna sig sjálfir við þau. Þetta fellur allt eins og flís við rass þegar maður skiptir “hægri” út fyrir “íhald” og “vinstri” út fyrir “óánægju”. Og flokkarnir vita þetta alveg, a.m.k. sumir. Í dag virðist vera talsverð óánægja víða í þjóðfélaginu sem kemur fram í litlu fylgi við “íhaldsvænginn”. Þetta virðist ekki vera að breytast þrátt fyrir efnahagslegan uppgang og forsvarsmenn íhaldsflokkanna sem nú eru við völd eru alveg forviða á því að það skili þeim ekki fylginu aftur sem það hafur alltaf gert í fortíðinni.

Eina röddin sem eitthvað stendur útúr þessu pólitíska litrófi er rödd Pírata. Þó Píratar séu sannarlega sprottnir upp úr óánægjuvængnum og vilji breytingar – sumar róttækar. Þá hefur áherslan hjá þeim ekki verið á einstakar breytingar, heldur á að breyta því hvernig er breytt. Breytingum á “stýrikerfinu” á nördamáli. Það er meira að segja gert ráð fyrir því að fólk geti starfað saman í flokknum þó það hafi opinberlega heitar, andstæðar skoðanir á stórum málum – nokkuð sem í hefðbundnu flokkunum lýðst ekki – svo lengi sem að deilendurnir séu sammála um og sáttir við kerfið sem leiða skuli að niðurstöðu.

Þetta er spennandi tilraun, en þó það sé of snemmt að fullyrða neitt er hún sannast sagna líklegust til að mistakast. Þar gildir það sama og um aðra sprota sem nördar stofna til. En jafnvel ef Pírata-tilraunin mistekst, þá er eðli sprotanna líka þannig að reynslan sem verður til við kollsteypurnar leiðir til nýrra tilrauna sem eiga meiri möguleika.

Mörgum okkar finnst pólitíkin orðin úrelt á bæði íhalds- og óánægjuvængjunum og sumir eru jafnvel farnir að “tékka sig út”: hætta að fylgjast með fréttum og þjóðfélagsumræðu og einbeita sér að sér og sínum. Þetta á enn frekar við um uppvaxandi kynslóðir sem hafa um talsvert skeið einfaldlega ekki sett sig inn í pólitík og sjá ekki einu sinni ástæðu til að nýta kosningaréttinn. Ef það er einhver von á algerlega nýjum vinkli í pólitíkina sem mun breyta þessu þá mun hún spretta úr þeim jarðvegi sem nú er í kringum Pírata.

Því þó það sé líklega satt að nördarnir skilji ekki pólitíkina, þá er hafið yfir allan vafa að pólitíkusarnir skilja ekki nördana.

5 ástæður fyrir því að ég fjárfesti í Kjarnanum

Kjarninn-logoEins fram hefur komið í fréttum tók lítill hópur höndum saman nýlega og lagði Kjarnanum til aukið hlutafé. Ég var ákveðin driffjöður í því ferli og er sérstaklega stoltur af því að geta lagt mín lóð á þessar vogarskálar.

Það er greinilegt að Kjarninn á sér dyggan aðdáendahóp, sem hefur kannski komið einna best fram í því að ég held að fleiri hafi óskað mér til hamingju með fjárfestinguna í Kjarnanum, en söluna á DataMarket sem tilkynnt var um á svipuðum tíma!

Fyrir þau ykkar sem ekki þekkið til Kjarnans, þá er besta leiðin til að kynnast honum í gegnum daglega fréttabréfið, eina fréttabréfið sem ég fæ í tölvupósthólfið mitt daglega og hlakka til að lesa (ok, ég skrökva því reyndar – fréttabréfið frá Quartz er líka frábært). En endilega skráið ykkur fyrir fréttabréfi Kjarnans og prófið.

En það hafa líka margir spurt mig hver hvatinn að fjárfestingunni sé. Það hafa ekki margir – ef nokkur – orðið ríkur á rekstri fjölmiðils á Íslandi, og oftar en ekki hafa menn blandað sér í fjölmiðlarekstur í hreinu hagsmunapoti, hvort heldur er pólitísku eða viðskiptalegu.

Mér finnst þess vegna alveg tilvalið að rekja þær 5 ástæður sem liggja að baki minni fjárfestingu í Kjarnanum.

  1. Framúrskarandi fjölmiðill: Fyrst og fremst finnst mér Kjarninn einfaldlega hafa borið höfuð og herðar yfir aðra miðla þegar kemur að fréttaflutningi og fréttaskýringum af efnahagsmálum, viðskiptum og stjórnmálum á Íslandi frá því að hann kom fram á sjónarsviðið. Kjarninn hefur skrifað af dýpt og þekkingu um flókin viðfangsefni sem varða Íslendinga miklu. Þeir hafa jafnframt safnað að sér kraftmiklum hópi pistlahöfunda sem margir hverjir hafa hrist upp í landanum.

  Þýðir það að ég sé sammála öllu sem birst hefur í Kjarnanum? Alls ekki.

  Þýðir það að ég hafi ekki séð mistök eða að mér finnst undarlega vinkla á málefni í Kjarnanum? Hreint ekki.

  En þýðir það að ég muni nú, sem stjórnarformaður, skipta mér af því um hvað er skrifað og hvernig. Uuuu, nei.

  Ég satt að segja vona að ég haldi áfram að sjá þar hluti sem ég er ósammála, sem stuða mig og koma jafnvel óþægilega við mína hagsmuni. Maður lærir ekkert af því að umgangast eingögngu fólk sem maður er sammála.

  2. Sjálfstæðir blaðamenn: Það sem fær mig til að treysta því að eignarhald og hagsmunatengsl muni ekki hafa áhrif á ritstjórnarstefnu Kjarnans er það að sennilega hafa engir blaðamenn á Íslandi sýnt sjálfstæði sitt með jafn afgerandi hætti og þeir Þórður Snær og Magnús Halldórsson gerðu í aðdraganda stofnunar Kjarnans. Einhverjir munu sjálfsagt vilja draga í efa að hagsmunir eigenda og/eða auglýsenda muni ekki skipta máli hér. Gagnrýnendur munu leita færa þar, en ég óttast að þeir muni ekki finna margt til að festa hendur á. Kjarninn er ekki skoðanalaus fjölmiðill, en hann dregur ekki vagn neins stjórnmálaflokks eða viðskiptablokkar.

  3. Áhugi á viðfangsefninu: Ég er alger fjölmiðlafíkill og hef alltaf haft gaman af þjóðmálaumræðu. Ég hef sagt við þá Kjarna-menn ítrekað í þessu ferli að ef ég væri nú að stofna (mitt fimmta) nýsköpunarfyrirtæki, þá væri það á sviði fjölmiðlunar. Það er gríðarlega mikil gerjun á þessum vettvangi um þessar mundir og rótgrónir fjölmiðlar leita nánast örvæntingarfullir að nýjum viðskiptamódelum þar sem þau gömlu stráfalla. Á sama tíma hefur þörfin fyrir djúpa og greinandi fjölmiðlun sennilega sjaldan verið meiri – og miklir hagsmunir í húfi, bæði fyrir almenning og atvinnulífið. Allt þetta öskrar “tækifæri” í mín eyru. Það er gaman að fá að dýfa litlu tánni í þessa þróun, þó maður sé upptekinn við annað dags daglega.

  4. Fyrirsjáanlegar breytingar á auglýsingamarkaði: Ofantalið er gott og blessað, en það eru líka viðskiptaástæður fyrir áhuga mínum á þessum markaði og þessum miðli. Íslenski auglýsingamarkaðurinn er ótrúlega gamaldags. Eitt af því sem er gamaldags við hann er reyndar hversu litlar upplýsingar eru til um hann, en gróflega áætlað er stærð hans eitthvað yfir 10 milljarðar króna á ári. Þar af fara um 35% í prentauglýsingar, en rétt rúmlega 10% í auglýsingar á stafrænum miðlum (vef og farsíma). Sambærileg hlutföll eru 12% og 32% á Bandaríkjamarkaði, og stafræni hlutinn vex hratt. Ég er sannfærður um að íslenski markaðurinn mun færast hratt í átt að svipuðu jafnvægi og sá bandaríski. Ein helsta ástæðan fyrir því að þessi breyting hefur verið svona hæg á Íslandi er að allir stóru vefmiðlarnir eiga hagsmuna að gæta annað hvort í prenti, í ljósvakamiðlum, eða bæði. Og af hverju ættu þeir að slátra mjólkurkúnni meðan hún enn gefur.

  Þess vegna er “digitally native” miðill eins og Kjarninn, með breiðan en nokkuð skýrt skilgreindan markhóp, í lykilstöðu til að grípa skerf af þessari tilfærslu þegar hún verður. Þetta eru líklega meira en 2 milljarðar króna árlega sem munu leita í nýjan farveg. Þeir munu ekki allir fara úr prentmiðlunum í stafræna íslenska miðla. Dágóður hluti mun fara til Google og Facebook í formi auglýsinga, eða í ráðningar á fólki sem sér um markaðssetningu á samfélagsmiðlum og “content marketing” á vefjum fyrirtækjanna sjálfra, en þarna er samt mikið sóknarfæri fyrir öflugan miðil og Kjarninn ætlar sér stóra hluti þegar þessi tilfærsla verður. Þar ætlum við líka að leiða ákveðnar breytingar því framtíð auglýsinga á vefnum liggur ekki í vefborðum og Modernus-vefmælingum þó þannig fari mestöll markaðssetning á vefnum fram á Íslandi í dag. Meira um það síðar!

  5. Öflugur hópur: Umfram allt er það þó hópurinn sem að baki Kjarnanum stendur sem fær mig til að trúa á framtíð fyrirtækisins og fjölmiðilsins. Þessi hópur hefur náð miklum árangri á stuttum tíma og þó þar hafi verið lítið á milli handanna til að byggja á hafa þeir engu að síður náð að byggja upp miðil og vörumerki sem fólk treystir, stóran og dyggan lesendahóp og áhrif langt umfram það sem ætla mætti af svona litlum og ungum fjölmiðli.

Þess vegna er okkur alvara með Kjarnann, og þess vegna fjárfesti ég í honum.

Lítil fyrirtæki, lykill stórra framfara – þrjár ástæður

Setningarerindi sem ég flutti á Smáþingi nú í dag:

Komiði sæl…

Það er mér sannur heiður að fá að setja þetta Smáþing, enda er efnið brýnt og mér sérstaklega hugleikið.

Sa-litla-Island-orange-400x160pix-2_943295987Einhverra hluta vegna er það þannig að við Íslendingar virðumst hrífast af stórum lausnum; einhverju einu stóru sem á að breyta öllu. Þetta hefur síst af öllu breyst eftir að við reyndum það síðasta sem átti að breyta öllu – alþjóðlega bankastarfsemi. Til að bjarga okkur úr klandrinu sem það kom okkur í einblína margir á eina stóra lausn:

 • Taka einhliða upp annan gjaldmiðil
 • Finna olíu
 • Skipta um stjórnarskrá
 • Leggja sæstreng til Evrópu
 • Endurgreiða fólki verðbólguna
 • Byggja tvö risaálver í einu
 • Þjónusta gullæði á Grænlandi
 • o.s.frv.

Margt eru þetta auðvitað ágæt verkefni sem gaman væri að sjá verða að veruleika í hæfilegum skömmtum og umfram allt á sínum eigin forsendum.

Hin raunverulega lausn liggur hins vegar ekki í einhverju einu stóru. Hin raunverulega lausn er miklu nærtækari. Hin raunverulega lausn er sennilega líka miklu leiðinlegari. Hin raunverulega lausn er að einhverju leyti hér í þessum fundarsal.

Það er kominn tími til að hlúa að hinu smáa, hina fjölbreytta og hinu marga. Velgengni atvinnu- og efnahagslífsins er fyrst og fremst fólgin í því að tryggja litlum fyrirtækjum brautargengi. Að skapa litlum fyrirtækjum almennt, hagfellt umhverfi sem leyfir framtakssömu fólki að spreyta sig á þeim sviðum þar sem það hefur þekkingu, kraft og hugmyndir og sjá hvað verður úr því.

Og ég segi þetta ekki bara út í bláinn. Lítil fyrirtæki eru raunverulegur lykill að stórum og merkilegum hlutum.

Fyrir það fyrsta eru lítil og meðalstór fyrirtæki stærsti vinnustaður landsins. Upp undir helmingur launafólks vinnur hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum, eða líklega á milli 80 og 90 þúsund manns. Hjá litlum fyrirtækjum verða líka til flest störf. Þessari tölfræði er reyndar nokkuð ábótavant á Íslandi, en sé tekið mið af því sem gerist í löndunum í kringum okkur má gera ráð fyrir að um 2/3 hlutar nýrra starfa skapist hjá þessum hópi fyrirtækja.

Þess vegna eru lítil fyrirtæki svo mikilvæg.

Í annan stað skapa lítil fyrirtæki fjölbreytni. Margar þeirra þjóða sem best vegnar í heiminum eru þær sem eiga hvað erfiðast með að svara spurningunni: Hverjir eru ykkar helstu atvinnuvegir? Íslendingar eiga ekki erfitt með það: Ál, fiskur og túrismi. Stundum er jafnvel talað í hálfgerðum hæðnistón um “eitthvað annað”. En leiðin til að standast áföll í einstökum greinum er einmitt sú að tryggja fjölbreytni í samsetningu atinnulífsins; að gera LÍKA eitthvað annað. Ekki á kostnað stóru greinanna, heldur samhliða þeim.

Þess vegna eru lítil fyrirtæki svo mikilvæg.

Í þriðja lagi verða lítil fyrirtæki stundum stór. Það þurfa ekki öll lítil fyrirtæki að stefna að því að verða stór, en fólk virðist oft gleyma að í 100 fjögurra manna fyrirtækjum eru jafn mörg störf og í einu 400 manna fyrirtæki. Munurinn er sá að upp úr 100 fjögurra manna fyrirtæki spretta tíu 60 manna fyrirtæki og mögulega ein “stórstjarna” með mörg hundruð stafsmenn. Í réttu umhverfi fá þær framkvæmdir sem eru á einhvern hátt ófullkomnar – sem reynslan sýnir að eru stærstur hluti þeirra – að deyja drottni sínum, en réttu hugmyndirnar fá að vaxa og dafna og verða að verða að stórum og kraftmiklum fyrirtækjum af eigin rammleik.

Fyrirtæki sem byggt er upp þannig stendur á miklu traustari grunni en fyrirtæki sem er handsnúið í gang í krafti stjórnvalda.

Þess vegna eru lítil fyrirtæki svo mikilvæg.

Ráðherra … og aðrir ráðamenn.

Það er náttúrulega ýmsilegt sem þarf að laga hérna – og það er ekki bara bank í ofnunum eins og sagt var í óborganlegu Fóstbræðra-sketsji um árið. Hér væri freistandi að nefna til sögunnar gjaldeyrishöft og skort á fjármögnunarkostum. En ég ætla ekki að fara út í þá sálma hér.

Umfram allt þurfa frumkvöðlar og framtakssamt fólk nefnilega að gera hlutina sjálft. Við uppbyggingu á nær hverju fyrirtæki koma ítrekað upp augnablik þar sem kringumstæður og einstakar ákvarðanir skilja milli feigs og ófeigs. Einstigið á milli þess að slá í gegn og að fara í hundana getur verið býsna mjótt. Ég þekki það … og hef fallið útaf því, báðum megin. Umhverfið sem stjórnvöld skapa er sjaldnast það sem ríður baggamuninn.

Ef við erum ósátt við aðstæður sem stjórnvöld skapa er sjálfsagt að útskýra í hverju það felst og vinna með þeim að því að breyta og bæta, en spurningin sem fólkið á Litla Íslandi þarf samt umfram allt að spyrja sig er ekki: Hvað get ég gert fyrir tilstuðlan stjórnvalda? Heldur: hvað get ég gert óháð þeim?

Ég segi Smáþing hér með sett. Gangi ykkur vel í dag.

Íslenskt nýsköpunarumhverfi, gjaldeyrishöft og þróunarstarf

sprotiTil að sprotafyrirtæki vaxi úr grasi og verði alvöru fyrirtæki þurfa ótal ótrúlega ólíklegir hlutir að ganga upp: Teymið, markaðsþörfin, vöruþróunin, fjármögnunin, markaðssetningin, salan, vöxturinn og loks uppskeran – nokkurnveginn í þessari röð.

Íslendingar, rétt eins og aðrir, fá þá grillu í höfuðið að láta á þetta reyna. Ég myndi meira að segja ganga svo langt – og held að það sé ekki bara þjóðremba – að segja að á sviði hátækni séum við nokkuð lunkin í fyrstu þremur skrefunum: Við eigum hæfileikaríkt fólk (hráefni í teymi) með puttann á púlsinum í því sem er að gerast (auga fyrir markaðþörf og tækifærum) sem getur búið til tæknilausnir á pari við það besta sem þekkist (vöruþróun).

That’s it!

Þar með er það líka upp talið. Tækifæri til fjármögnunar á Íslandi eru afar takmörkuð, þekking á alþjóðlegri markaðssetningu og sölu er af mjög skornum skammti, hæfileikafólkið er of fátt til að standa undir miklum vexti og fyrirtækin eða fjármálamarkaðirnir sem á endanum kaupa sprotana eru ekki á Íslandi.

Það er ekkert óeðlilegt við það. Á Íslandi búa 0,3 milljónir manna. Ekki mikið fleiri en búa í Corpus Christi í Texas (já, það er borg).

Fyrirtæki sem ætla að ná árangri á sérhæfðum sviðum verða að leita út fyrir landsteinana. Þar eru viðskiptavinirnir, fjárfestarnir og tækifærin. Fyrsta spurningin sem ég spyr unga íslenska frumkvöðla þegar ég hitti þá er: “Hvert ykkar ætlar að flytja til útlanda og hvenær?”. Það er nauðsynlegt skref í uppbyggingunni. Ég hef litla sem enga trú á árangri ef einhver stofnendanna gerir það ekki – að minnsta kosti tímabundið.

Það getur meira að segja verið að fyrirtæki þurfi að flytja höfuðstöðvar sínar erlendis til að ná markmiðum sínum. Í því er alls ekki fólginn nokkurs konar “flótti” eða “föðurlandssvik”. Nákvæmlega það sama er uppi á teningnum hjá fyrirtækjum sem stofnuð eru í Corpus Christi. Þau þurfa að leita þangað sem viðskiptavini, fjárfesta og vaxtartækifæri er að finna. Sá sem ætlaði að byggja upp tæknifyrirtæki og ná árangri með því að einblína á markaðinn í Corpus Christi myndi líklega ekki ná sérlega langt!

Rétta umhverfið skiptir öllu

Lönd og borgir í heiminum keppast við að laða til sín sprotafyrirtæki og hugverkamenn. Ástæðan er einföld. Þó að fæst slík fyrirtæki gangi upp, þá er ekki nokkur angi atvinnulífsins sem heilt yfir vex jafn hratt og skapar jafnmörg hálaunastörf og einmitt þessi. Með því að búa sprotafyrirtækjum gott umhverfi geta byggðalög, landsvæði og jafnvel heilu efnahagssvæðin notið góðs af slíkum uppgangi.

Það er magnað að sjá og upplifa hvað jafnvel borgir eins og New York og Boston-svæðið – sem sumir myndu halda að hefðu nægt aðdráttarafl í sjálfu sér – leggja mikið á sig til að búa nýsköpun og hugverkaiðnaði gott umhverfi (Dæmi: NY, BOS), kynna kosti þess og sverma fyrir fyrirtækjum að setja upp starfsemi sína þar.

Stærsti kostur þess að vera hugverkamaður eða þekkingarfyrirtæki er að það sem til þarf er mjög alþjóðlegt og færanlegt. Það felur sömuleiðis í sér hættu á því að þau samfélög sem ekki hlúa að umhverfi slíkrar starfsemi missi af tækifærunum sem felast í þeirra mannauði.

Til að Ísland geti notið góðs af svona tækifærum þarf að bjóða sprotafyrirtækjum með íslenskar rætur upp á umhverfi sem hvetur þau til halda tengslum við Ísland og vaxa þar, en gerir þeim jafnframt kleift að byggja upp og flytja þá hluta starfsemi sinnar erlendis sem þarf til að styðja við og rækta íslensku starfsemina.

Tvö atriði þurfa þar sérstaka athygli:

 • Áhrif gjaldeyrishafta á uppbyggingu erlendrar starfsemi íslenskra fyrirtækja, fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum tækifærum og ekki síst á það hvar frumkvöðlar og hugverkafólk framtíðar kýs að búa og byggja upp sín fyrirtæki.
 • Áframhaldandi stuðningur við rannsóknir og þróunarstarf. Þetta á við starfsemi Tækniþróunarsjóðs, en þó sérstaklega lög um skattaafslátt vegna rannsókna og þróunarstarfs sem er sennilega stærsta einstaka framfaraskref sem tekið hefur verið til eflingar á íslenska sprotaumhverfinu.

Vonandi verður skilningur á þessu þar sem við á í umróti komandi mánaða.

P.S. Nei, DataMarket er ekki á leið úr landi

DataMarket – fyrirtæki sem ég rek í samstarfi við aðra – byggir nú upp sölu- og markaðsstarf sitt í Bandaríkjunum og mun sennilega á einhverjum tímapunkti flytja hingað höfuðstöðvar sínar. Þróunarstarf, rekstur og þjónusta við viðskiptavini verður áfram rekin á Íslandi þar sem þegar vinnur óviðjafnanlegur hópur forritara, hönnuða og gagnanörda. Sú starfsemi mun einungis vaxa eftir því sem betur gengur á viðskiptahliðinni hér hjá okkur sem stödd erum Bandaríkjamegin.

Af einhverju öðru (en áli)

sprotarVið Hrunið 2008 losnaði býsna margt úr læðingi. Margt af því er vel þekkt og sumt hreint ekki til sóma, en eitt af því sem ekki hefur farið hátt er nýsköpunin sem spratt af stað eftir ákaflega mögur ár á þeim vettvangi í skugga bankabólu og ofþenslu þar sem fólk gat gengið að “öruggum” og vel launuðum störfum sem engin innistæða reyndist svo fyrir þegar upp var staðið.

Strax á fyrstu dögunum eftir hrunið tóku allskyns hópar hugmyndaríks fólks að spretta upp og fólk að hittast til skrafs og ráðagerða um það hvernig byggja mætti upp úr öskunni fyrirtæki og atvinnu fyrir sjálfa sig og aðra. Margir höfðu reyndar gengið með hugmyndir í maganum – jafnvel um árabil – en höfðu aldrei látið vaða. Hver hættir í öruggu og vel launuðu starfi í banka eða stórfyrirtæki til að stofna eigið fyrirtæki með þeirri áhættu og erfiðisvinnu sem því fylgir? Nú loks höfðu margir þetta tækifæri með góðu eða illu. Vinnustaðirnir þeirra urðu ýmist gjaldþrota eða voru að draga saman seglin, framtíðin virtist ekki svo björt og sumir höfðu hreinlega ekki að mörgu öðru að hverfa.

Mest áberandi varð þetta starf undir merkjum hóps sem hlaut heitið Hugmyndaráðuneytið *. Þar var lengi vel haldið úti vikulegum fundum þar sem frumkvöðlar hittust, kynntu sig og kynntust öðrum, deildu af reynslu sinni og spurðu aðra ráða. Fundina sóttu oftast á bilinu 20-200 manns og það kæmi mér ekki á óvart að samanlagt hefðu 2000-3000 einstaklingar sótt þessa fundi, margir fleiri en einn og einhverjir næstum alla fundina sem voru reglulega haldnir í meira en ár.

Meðal þeirra sem ég man eftir á þessum fundum er fólk sem tengist fyrirtækjum eins og OZ, Clara, Gogogic, DataMarket (hvar ég starfa), Mobilitus, Transmit, Meniga, Carbon Recycling International, Fafu Toys, Plain Vanilla, Belgingi / SAR Weather, Búngaló, Gogoyoko, GreenQloud, Dohop, Kinwins, Reykjavík Runway, Grapewire, Karolina Fund, Citizens Foundation, Kosmos & Kaos, Gagarín, Kerfisvirkni, Controlant, Spretti, Flaumi, Locatify, Apon, Cooori, Mindgames, Skemu / ReKode, Golf80, App Dynamic, ReMake Electric og Ými Mobile. Ég er áreiðanlega að gleyma mörgum.

Langflest þessi fyrirtæki voru annað hvort að stíga sín fyrstu skref á þessum tíma, eða hafa verið stofnuð síðan. Þá er ótalið fólk sem þarna var frá eldri og stærri fyrirtækjum sem þó stunda öll nýsköpunarstarfsemi svo sem Marorku, CCP og Hugsmiðjunni – en ég undanskil þau í því sem á eftir fer.

Gengi þessarra fyrirtækja hefur verið upp og ofan og sum þeirra eru ekki einu sinni lengur “meðal vor”. Þannig gangur nýsköpun og sprotastarfsemi fyrir sig. Það merkilega er hins vegar að gróflega telst mér til að hjá þessum fyrirtækjum starfi í dag að minnsta kosti 250 manns. Tölur um veltu og afkomu liggja ekki vel fyrir, en bara hjá þeim þessarra fyrirtækja sem ég þekki til hjá veit ég af bókaðri sölu eða fjárfestingu á þessu ári upp á meira en 3 milljarða króna, nær allt í erlendum gjaldeyri. Rétt tala er líklega nær 4 milljörðum ef ég reyni að giska í eyðurnar – og árið þó ekki hálfnað.

Ef ég væri í pólitík myndi ég svo tala um “afleidd störf” og margfeldisáhrif og kæmist vafalaust mikið hærra.

Að baki þessu liggur ekki opinber stefnumörkun. Raunar hefur áhugi af hálfu hins opinbera alla tíð verið hlutfallslega lítill á þessum málaflokki (þó endurgreiðsla rannsókna- og þróunarkostnaðar sé þar mikilvæg undantekning) og ekki ein einasta ný vatnsaflsvirkjun. Hvað þá lán með ríkisábyrgð og gengisáhættu, tengdu markaðsverði á áli!

Það er í raun réttara að segja að þessi árangur hafi náðst “þrátt fyrir” en “fyrir tilstuðlan” þess umhverfis sem boðið er upp á. Ég get sagt af eigin reynslu að gjaldeyrishöft, duttlungafullar leyfisveitingar og lagasetningar og furðuleg uppátæki íslenskra stjórnmálamanna sem rata í heimspressuna eru EKKI til að gera þessa vinnu auðveldari.

Þetta eru störf og umsvif sem hafa sprottið af sjálfu sér, drifin áfram af áhugasemi og framtaki fólksins sem stendur að baki þessum fyrirtækjum. Og þannig á það að vera!

Fyrir vinstra fólkið: Umhverfisvæn og skapandi störf sem byggð eru á hugviti og spretta úr grasrótinni.

Fyrir hægri mennina: Framtak einstaklingsins í sinni fegurstu mynd, með lágmarksafskiptum ríkisins.

Oooo, en krúttlegt. Hvar er álverið mitt?!?

– – –

* Þess má geta að Hugmyndaráðuneytið hefur undanfarið rúmt ár gengið í endurnýjun lífdaga og stendur m.a. fyrir ráðstefnunni Startup Iceland sem haldin verður í Hörpu í næstu viku.

DataMarket í Bandaríkjunum

DataMarket er að setja upp skrifstofu í Bandaríkjunum. Nánar tiltekið í Cambridge í Massachusetts, sem fyrir leikmann virkar í raun sem hverfi í Boston.

Mig langar að segja frá þessu hér af tveimur ástæðum:

 1. Fyrirbyggja misskilning: Undanfarin ár hefur verið talsvert verið fjallað um fyrirtæki sem séu að “flýja land”. Áður en einhver sér sig knúinn til að túlka okkar tilfæringar með þessum hætti og breiða út eigin misskilning, er rétt að skrásetja hið rétta í málinu.
 2. Að miðla af eigin reynslu: Það eru allnokkur önnur fyrirtæki að fást við svipuð viðfangsefni og við um þessar mundir. Ef okkar hugsanagangur og reynsla getur nýst þeim (eða öðrum) er það auðvitað hið besta mál.

Komum fyrst einu á hreint: DataMarket er ekki að flytja úr landi. Við erum að opna skrifstofu hvaðan alþjóðlegt sölu og markaðsstarf fyrirtækisins mun fara fram. Vöruþróunin og tæknivinnan mun áfram eiga sér stað á Íslandi og vaxa þar og eflast eftir því sem frekari árangur næst í sölunni. Við höfum byggt upp framúrskarandi þróunarteymi sem ég fullyrði að í eru nokkrir af bestu hugbúnaðarmönnum landsins. Ég hef ekki komið auga á neina ástæðu til annars en að þessi starfsemi verði áfram á Íslandi í fyrirsjáanlegri framtíð og að jafnvel þó við sæjum fram á margfaldan vöxt myndi kjarnaþróunin alltaf fara fram hér. Þetta er reyndar að ég held stærsti styrkleiki íslenskra sprotafyrirtækja í gegnum tíðina: Getan, hugmyndirnar og fólkið til að framleiða framleiða framúrskarandi tæknilausnir.

Vara er ekki það sama og tækni

Ein af stærri uppgötvunum mínum síðustu misseri, er að vara er ekki það sama og tækni. Sama tæknin getur verið margar mismunandi vörur, allt eftir því hverjum hún er ætluð, hvernig hún er kynnt, verðlögð, seld og innpökkuð. Fyrir hugbúnaðarfyrirtæki eru þetta auðvitað frábærar fréttir: Það getur verið að þú getir búið til margar vörur úr tækninni sem þú hefur þróað, án þess að skrfia svo mikið sem eina línu af kóða til viðbótar. Málið er samt að þú þarft ekkert margar vörur. Bara eina vel heppnaða.

Vel heppnuð vara mætir þörfum er vel skilgreinds markhóps og er seld, verðlögð og þjónustuð með hætti sem sýnir skilning á þeim þörfum.

Mjög mörg tæknifyrirtæki feila á þessu og falla í þá gryfju að lýsa kostum tækninnar frekar en því hvernig lausnin mætir þörfum viðskiptavinarins. Þetta getur orðið til þess að jafnvel hinn fullkomni kaupandi áttar sig ekki á því að tæknin þín er einmitt lausnin sem hann eða hún er að leita að, vegna þess að þú taldir upp fídusa og spekka í stað þess að lýsa því hvernig þú munt gera lífið léttara eða betra fyrir þennan tiltekna viðskiptavinahóp.

DataMarket er síst saklaust af þessu, en erum þó á batavegi hvað þetta snertir.

Selur þetta sig ekki sjálft?

Auk vörunálgunarinnar sem rakin er hér að ofan glíma tæknifyrirtæki – og undir þann hatt falla flest þau íslensku sprotafyrirtæki sem ég hef fylgst hvað mest með – við áskoranir í sölu- og markaðsmálum. Fyrsta áskorunin er einfaldlega að átta sig á því hvað þessi liður er mikilvægur og hvað það þarf að byrja snemma að sinna honum.

Hugsunin er oft eitthvað á þessa leið: Lausnin er svo góð að hún bara hlýtur að selja sig sjálf! Sölumenn kosta mikinn pening og skilja ekki út á hvað þetta gengur! Klárum bara lausnina og viðskiptavinirnir munu flykkjast að. Það er kannski rétt samt að einhver hafi þetta á sinni könnu, svona samhliða því að reka fyrirtækið, eða skrifa notendaleiðbeiningarnar með kerfinu.

Ekkert er fjær sanni. Ekkert selur sig sjálft! Meira að segja á dögum vefsins og greiðslulausna á netinu fer nánast öll sala fram með einhvers konar afbrigðum af áratuga- eða aldagömlum söluaðferðum. Að hitta fólk, átta sig á þörfum þess eða löngunum og sannfæra það um ágæti þinnar vöru til að mæta þeim. “Jæja, en hvað með t.d. Google?”, gæti einhver spurt. “Þar fer fólk bara inn á sjálfsafgreiðsluvef, setur inn kreditkortaupplýsingarnar sínar og borgar fyrir auglýsingar án þess að sala eða markaðssetning komi þar nokkuð nærri, ekki satt?”

Einmitt: Ekki satt! Á öllum helstu mörkuðum rekur Google stór úthringiver sem hringja í hugsanlega viðskiptavini, ekki ósvipað símtölunum sem við fáum um kvöldmatarleitið frá trygginga- eða fjarskiptafélögunum. Að auki fer stór hluti sölu Google fram í gegnum gamaldags sölumennsku til lykilviðskiptavina með “wining and dining” og sjálfsagt stangveiði og golfferðum líka, rétt eins og í “gamla heiminum”.

Og ef Google þarf á þessu að halda, þurfum við litlu sprotafyrirtækin það svo sannarlega líka!

Félagi minn orðaði þetta ágætlega um daginn þegar hann sagði íslensk fyrirtæki oft haga sér eins og prinsessan í kastalaturni ævintýranna. Ofsalega vel til höfð bíður hún við gluggann eftir að prinsinn eini birtist á hvíta hestinum. Sú bið vill oft verða nokkuð löng og prinsinn kannski ekki alveg sá bjargvættur sem vonast var eftir – ef einhver þá mætir.

Eftir því sem ég les og læri meira um sölumennsku, öðlast ég meiri virðingu fyrir hæfileikanum sem góðir sölumenn hafa og aðferðunum sem þeir beita. Þetta er ekki eins tilviljanakenndur ferill eins og við nördarnir viljum oft halda, og góður sölumaður er ekki steríótýpíski bílasalinn sem er góður að pranga óþarfa inn á fólk. Góðir söluferlar eru markvissir og snyrtilega “forritaðir”, og góðir sölumenn með góða vöru selja þannig að kaupandinn þarf aldrei að efast um að hann sé að gera góð kaup, hvorki á meðan á söluferlinu stendur, né eftir að varan hefur verið afhent. Góð sala er þannig að báðir aðilar “vinna” þegar hún klárast.

Verkefnið okkar hjá DataMarket núna er að byggja upp jafnsterkt söluteymi og þróunarteymi. Það er ekki hlaupið að því. Og það verður heldur ekki gert á Íslandi fyrir ýmissa hluta sakir.

Af hverju í útlöndum?

Stutta svarið er: Af því að þar er markaðurinn. Aðeins ríflega 0,004% mannkyns býr á Íslandi og þar með hugsanlega ekki mikið hærra hlutfall af mögulegum viðskiptavinum. Eftir því sem varan er sérhæfðari, því færri eru hugsanlegir viðskiptavinir hér.

Staðreyndin er svo sú að þrátt fyrir undur netsins, Skype, síma og fjarfunda, þá jafnast ekkert á við það að hitta fólk á fundi til að ná athygli þess, hlusta eftir þörfum, sjá viðbrögð við demói, sannfærast um að fólk sé traustsins vert og sýna að maður sé það sjálfur. Mín reynsla hefur verið nokkurn veginn svona: Það er hægt að kynna sig og kanna hugsanlegan áhuga með tölvupósti og símtölum. Það er hægt að fylgja samkomulagi eftir og innleiða lausnir með tölvupósti og símtölum og það er jafnvel hægt að ganga frá samningum í gegnum símtöl og tölvupóst. En lykilstundir í samningaferlinu, þegar traust myndast milli aðila og kaupandinn verður í raun ákveðinn í að kaupa nást ekki nema fólk hafi hittst augliti til auglitis.

Og þá er kostur að hafa stóran markað innan seilingar og geta mætt á þessar lykilstundir með lágmarksfyrirhöfn.

Af hverju í Bandaríkjunum?

Þegar við tókum ákvörðun um að tími væri til kominn að setja upp söluskrifstofu erlendis, fórum við í gegnum sölupípuna okkar (lista hugsanlegra viðskiptavina sem við vorum í samskiptum við) og sáum fljótt að þar voru tvö svæði sem stóðu uppúr: London og austurströnd Bandaríkjanna. Tiltölulega stutt yfirlega leiddi svo í ljós að tækifærin umfram þau sem þegar lágu fyrir voru umtalsvert fleiri og stærri í Bandaríkjunum.

Þarna spilar líka inn í aðgangurinn að fjármagni til frekari vaxtar. Við höfum byggt einhver tengsl við líklega eina 30 fjárfestingasjóði. Af þeim eru meira en 20 bandarískir. Reynsla okkar af samskiptum við þá hefur almennt verið góð, en viðbrögð þeirra má súmmera upp sirka svona: Ef þú ert með flottasta fyrirtæki í heimi, gæti það líklega verið í frumskógum Kongó og þeir myndu samt fjárfesta. Ef þú ert eitt af fyrirtækjunum 100 sem þeir eru volgir fyrir, leita þeir að hverri ástæðu sem gefst til að fjárfesta ekki. Ísland er auðveldlega ein þeirra.

Einn þeirra gekk m.a.s. svo langt að segja að loknum fundi: “So, are you moving over here? Good, b’cause you know, nobody takes you seriously coming out of Iceland!” Með því held ég að hann hafi ekkert verið að meina Ísland sérstaklega og efast um að hann hafi vitað mikið um bankahrun, gjaldeyrishöft eða takmarkaða erlenda fjárfestingu – við vorum ekki komnir þangað í samtalinu. Ég held að hann hafi átt við: “Nobody takes you seriously coming out of country-with-a-funny-name-I-don’t-know-anything-about-and-couldn’t-point-out-on-a-map!”

Í augum svona fjárfesta skiptir staðsetning máli. Bæði til að þeir geti fylgst með fjárfestingunni sinni og vegna þess að þeir eru löngu búnir að átta sig á öllu sem sagt er hér að framan.

Af hverju Boston?

Við vorum eiginlega búin að ákveða að New York væri málið, enda eru fjármála- og fjölmiðlafyrirtæki (2 af þrem skilgreindum markhópum) mörg hver með höfuðstöðvar þar. Á tveim vikum í nóvember síðastliðnum, náðum við hins vegar sölu til tveggja markaðsrannsóknafyrirtækja (þriðji markhópurinn) í Boston – og þá tók ákvörðunin sig eiginlega sjálf. Fara þangað, láta innleiðingarnar fyrir þá ganga vel upp og vinna okkur þaðan. Rannsóknargeirinn i Boston er mjög sterkur, en virðist að sama skapi þéttofinn, þannig að þar þekkja allir alla. Það er þegar farið að skila sér í nýjum tengslum og frekari tækifærum. Sem dæmi um það, kynnti annar af þeim viðskiptavinum sem við höfum þegar landað okkur fyrir hinum. Og allmargar kynningar til viðbótar síðan komnar í gegnum þessa tvo aðila. Þegar maður getur að auki farið að stunda fundi og mannfagnaði í geiranum verða þeir hlutir fljótir að gerast.

Og hvernig verður þetta þá?

Ég er s.s. að flytja til Boston með fjölskylduna. Ég verð sölumaður númer 1 til að byrja með, en er að leita að samstarfsmanni þar sem fyrst til að vinna mér við hlið. Líklega Bandaríkjamanni með sölureynslu og helst þekkingu á geiranum, sem getur unnið með mér í að landa fleiri samningum á svæðinu. Markmiðið er að með haustinu verði svo ráðið í stöðu sölustjóra, sem geti leitt uppbyggingu sölu- og markaðsmála næstu árin, en til þess að ná réttum aðila í það starf þurfum við að sýna að sölumálin séu á góðu skriði og afla okkur aðeins meiri reynslu af söluferlinum og markhópunum.

Þá tekur við næsta starf hjá mér, því að þegar maður rekur sprotafyrirtæki skiptir maður í raun um vinnu á 6 mánaða fresti, þó fyrirtækið og titillinn sé sá sami.

Hlutaskrá einkahlutafélags – dæmi

Samkvæmt lögum um íslensk einkahlutafélög skal félagið sjálft halda hlutaskrá (stundum kölluð hluthafaskrá eða hluthafalisti). Kveðið er á um þetta í 19. grein laganna, en hún hljóðar svo:

19. gr. Þegar einkahlutafélag hefur verið stofnað skal stjórn þess þegar í stað gera hlutaskrá. Heimilt er að hafa skrána í tryggu lausblaða- eða spjaldaformi eða tölvuskrá hana.

 • Í hlutaskrá skulu hlutir skráðir í númeraröð og skal fyrir sérhvern hlut greint frá nafni eiganda, kennitölu og heimilisfangi.
 • Gefa má út hlutaskírteini í einkahlutafélögum.
 • Verði eigendaskipti að hlut og ákvæði 14. og 15. gr. eru þeim ekki til fyrirstöðu skal nafn hins nýja hluthafa fært í hlutaskrána þegar hann eða löglegur umboðsmaður hans tilkynnir eigendaskiptin og sannar rétt sinn. Enn fremur skal geta eigendaskipta- og skráningardags. Sá sem eignast hefur hlut getur ekki beitt réttindum sínum sem hluthafi nema nafn hans hafi verið skráð í hlutaskrá eða hann hafi tilkynnt og fært sönnur á eign sína á hlutnum.
 • Ef þess er krafist af hluthafa eða veðhafa skal félagið gefa út staðfestingu um færslu í hlutaskrána.
 • Hlutaskrá skal ætíð geymd á skrifstofu félags og eiga allir hluthafar og stjórnvöld aðgang að henni og mega kynna sér efni hennar.

Þetta er auðvitað meingallað fyrirkomulag sem býður upp á bæði mistök og margskonar sniðgöngu á lögum, t.d. í tengslum við skatta og takmarkanir á eignarhaldi. Eðlilegast væri að að Fyrirtækjaskrá héldi utan um hlutaskrá allra félaga, rétt eins og hún heldur utan um samþykktir þeirra, stjórnarsetu, prókúru og endurskoðendur. En það er alveg efni í sérstaka umfjöllun.

Ástæðan fyrir þessari færslu er sú að ég veit að fjölmörg einkahlutafélög halda ekki utan um þessi mál í samræmi við það sem kveðið er á um í lögunum – og þar sem ég er tiltölulega nýbúinn að fara í gegnum það með bæði lögfræðingum og endurskoðendum að koma þessu á form sem uppfyllir lögin í einu og öllu fannst mér um að gera að deila afrakstrinum af þeirri vinnu með öðrum sem vilja hafa þessi mál í réttum farvegi.

Excel-skráin hér að neðan sýnir ímyndaða atburðarás við stofnun, fjármögnun og eigendaskipti á hlutum í einkahlutafélagi. Þetta þarf svo að uppfæra þetta í hvert sinn sem breyting á sér stað í hluthafahópnum og tryggja að skjalið sé aðgengilegt hluthöfum og yfirvöldum þegar þess er óskað.

Úfylling skjalsins á að skýra sig nokkurnvegin sjálf, sérstaklega með hliðsjón af lögunum. Skráin er á bæði ensku og íslensku til að geta nýst ef erlendir aðilar eru (eða eru líklegir til að verða) í hluthafahópnum. Fyrir rammíslensk félög má að sjálfsögðu sleppa enskunni.

Smellið á myndina til að sækja skjalið:

Njótið!

Besta ræða Steve Jobs

Steve Jobs er fallinn frá. Hann er öllum frumkvöðlum fyrirmynd og við erum mörg sem lítum upp til hans. Í minningu kappans ákvað ég að færa í íslenska þýðingu bestu ræðu Steve Jobs, og reyndar eina bestu ræðu sögunnar að mínu mati.

Ræðan var flutt við úskrift nemenda úr Stanford-háskóla þann 12. júní árið 2005 og á erindi við alla, ekki bara tölvufólk og sprotaflón, heldur alla sem velta fyrir sér lífinu og tilverunni:

Það er mér heiður að vera með ykkur í dag þegar þið brautskráist frá einum besta háskóla heims. Í sannleika sagt er þetta það næsta sem ég hef komist slíkri útskrift. Mig langar að segja ykkur þrjár sögur úr lífi mínu. Það er allt og sumt. Engin stórræði. Bara þrjár sögur.

Fyrsta sagan fjallar um það að mynda tengingar.

Ég hætti í námi við Reed-háskóla eftir 6 mánaða skólagöngu, en var viðloðandi skólann í aðra 18 mánuði áður en ég sagði að fullu skilið við skólann. En af hverju hætti ég þá?

Sagan hefst áður en ég fæddist. Líffræðileg móðir mín var ungur og ógiftur háskólanemi og ákvað að gefa mig til ættleiðingar. Hún hafði sterka skoðun á því að fólkið sem ættleiddi mig ætti að vera háskólagengið fólk. Það hafði því verið gengið frá því að ég yrði ættleiddur af lögfræðingi og konunni hans. Nema hvað, þegar ég skaust í heiminn ákváðu þau á síðustu stundu að þau vildu heldur stelpu. Foreldrar mínir, sem voru á biðlista, fengu því símtal um miðja nótt: “Óvænt erum við hér með nýfæddan strák; viljið þið taka hann?” Þau svöruðu: “Að sjálfsögðu.” Líffræðileg móðir mín komst síðar að því að mamma hafði aldrei útskrifast úr háskóla og pabbi hafði aldrei lokið menntaskólanámi. Hún neitaði því að skrifa undir endanlegu ættleiðingarskjölin. Það var ekki fyrr enn nokkrum mánuðum síðar þegar foreldrar mínir lofuðu að ég myndi fara í háskólanám að hún féllst á að ganga frá pappírunum.

Og 17 árum síðar fór ég í háskóla. Í barnaskap mínum valdi ég skóla sem var næstum eins dýr og Stanford. Þetta þýddi að allur sparnaður verkafólksins, foreldra minna, fór í skólagjöldin mín. Að sex mánuðum liðnum sá ég ekki að námið væri þess virði. Ég hafði enga hugmynd um hvað ég vildi gera í lífinu og enga hugmynd um hvernig háskólinn myndi hjálpa mér að svara þeirri spurningu. Og hér var ég að eyða öllum þeim sparnaði sem foreldrar mínir höfðu safnað á lífsleiðinni. Þannig að ég ákvað að segja mig frá náminu og treysti því að þetta myndi allt reddast einhvern veginn. Þessi ákvörðun hræddi mig mjög, en þegar ég lít til baka sé ég að þetta var einhver besta ákvörðun sem ég hef nokkurntíman tekið. Um leið og ég hætti í formlega náminu þurfti ég ekki lengur að sækja kúrsa sem ég hafði engan áhuga á og gat laumast inn í kúrsa sem virtust áhugaverðir.

Þetta var ekki eintóm gleði og hamingja. Ég var ekki með herbergi á heimavist þannig að ég svaf á gólfinu í herbergjum vina minna. Ég safnaði flöskum sem ég seldi fyrir 5 sent til að kaupa mat og á hverjum sunnudegi gekk ég 7 mílur þvert yfir bæinn til að fá eina almennilega máltíð í Hare Krishna-hofinu. Mér fannst þetta frábært. Og margt af því sem ég rakst með því að elta forvitni mína og brjóstvit reyndist mér ómetanlegt síðar. Ég skal gefa ykkur eitt dæmi:

Reed-háskóli bauð á þessum tíma upp á nám í skrautritun. Hugsanlega besta slíka nám sem boðið var upp á í landinu. Á háskólasvæðinu var hvert einasta plakat, hver einasta merking á hverri einustu skúffu, fallega skrautrituð. Þar sem ég hafði hætt í formlegu námi og þurfti ekki að stunda hefðbundin fög, ákvað ég að læra skrautritun. Ég lærði muninn á steinskrift og þverendaletri, um breytilegt bil á milli stafa eftir samstæðum þeirra og hvað það er sem gerir framúrskarandi letur framúrskarandi. Þetta var fallegt, sagnfræðilegt og hafði listrænan blæ þeirrar gerðar sem vísindin ná ekki að fanga, og þetta heillaði mig.

Ekkert af þessu hafði minnstu möguleika til að nýtast mér seinna á ævinni. En tíu árum síðar, þegar við vorum að hanna fyrstu Macintosh tölvuna, rifjaðist þetta allt upp fyrir mér. Og við útfærðum þetta allt sem hluta af Makkanum. Hún var fyrsta tölvan með fallegu letri. Ef ég hefði ekki sótt akkúrat þennan áfanga í háskóla hefði Makkinn aldrei boðið upp á mismunandi leturgerðir eða hlutfallslegt stafabil. Og þar sem Windows apaði bara upp það sem Makkinn gerði, hefði sennilega engin einkatölva boðið upp á slíkt. Ef ég hefði ekki hætt í námi hefði ég aldrei sótt þennan áfanga í skrautritun og einkatölvur byðu ef til vill ekki upp á fallegt letur. Auðvitað var ómögulegt að átta sig á þessari tengingu þegar ég var í háskólanum, en það var mjög auðvelt þegar litið var til baka 10 árum síðar.

Ég endurtek, það er ómögulegt að sjá tengingar fyrirfram; þú getur einungis áttað þig á þeim þegar þú lítur til baka. Þú verður því að treysta því að hlutirnir tengist einhvern veginn seinna á lífsleiðinni. Þú þarft að treysta einhverju – tilfinningunni í maganum, örlögunum, lífinu, karma, einhverju. Þessi nálgun hefur aldrei svikið mig og hún hefur mótað líf mitt.

Önnur sagan fjallar um ástríðu og missi

Ég var heppinn – ég fann mína ástríðu snemma í lífinu. Við Woz stofnuðum Apple í bílskúr foreldra minna þegar ég var tvítugur. Við unnum hörðum höndum, og á 10 árum óx Apple úr því að vera við tveir í bílskúr í tveggja milljarða dollara fyrirtæki með 4.000 starfsmenn. Við hleyptum af stokkunum okkar bestu vöru – Macintosh tölvunni – ári áður og ég var rétt nýorðinn þrítugur. Og þá var mér sagt upp. Hvernig getur manni verið sagt upp störfum hjá fyrirtæki sem maður stofnar sjálfur? Tjah, samhliða vexti Apple réðum við til starfa mann sem ég taldi ákaflega hæfileikaríkan til að reka fyrirtækið með mér, og það gekk vel fyrsta árið eða svo. Þá tók framtíðarsýn okkar ólíka stefnu sem leiddi á endanum til ósættis. Stjórn fyrirtækisins tók afstöðu með honum. Þannig að þrítugur var ég settur af. Og það með mjög áberandi hætti. Allt það sem ég hafði beint kröftunum að því að byggja upp sem fullorðinn maður var farið, og það nísti inn að beini.

Ég vissi hreint ekki hvað ég átti að gera í nokkra mánuði. Mér fannst ég hafa brugðist fyrri kynslóð frumkvöðla – að ég hefði misst kyndilinn sem mér var færður. Ég fór á fund David Packard og Bob Noyce og reyndi að biðja þá afsökunar á að hafa mistekist svona hrapalega. Ég var opinberlega misheppnaður og ég hugsaði jafnvel um að flýja úr dalnum. En ég tók smám saman að átta mig á einu – ég hafði enn ástríðu fyrir því sem ég var að fást við. Atburðarásin hjá Apple hafði ekki breytt því neitt. Mér hafði verið hafnað, en ég var enn ástfanginn. Og ég ákvað að byrja upp á nýtt.

Ég áttaði mig ekki á því þá, en það kom í ljós að brottreksturinn frá Apple var það besta sem hefði getað hent mig. Í stað byrðanna sem fylgdu góðum árangri kom léttirinn af því að vera byrjandi á ný, ekki jafn viss í minni sök og áður. Þetta frelsi leiddi til einhvers frjóasta tímabils lífs míns.

Á næstu fimm árum stofnaði ég fyrirtæki sem hét NeXT, annað sem heitir Pixar og varð ástfanginn af ótrúlegri konu sem varð síðar eiginkona mín. Pixar framleiddi heimsins fyrstu tölvugerðu teiknimynd, Toy Story, og er í dag öflugasti teiknimyndaframleiðandi veraldar. Merkileg atburðarás varð til þess að Apple keypti NeXT, ég fór aftur til Apple og tæknin sem við þróuðum hjá NeXT er hjartað í endurreisn Apple. Og við Laurene eigum saman yndislega fjölskyldu.

Ég er nokkuð sannfærður um að ekkert af þessu hefði gerst ef ég hefði ekki verið rekinn frá Apple. Þetta var ekki bragðgott meðal, en það virðist vera að sjúklingurinn hafi þurft á því að halda. Stundum slær lífið mann í höfuðið með múrsteini. Ekki missa trúna. Ég er sannfærður um að það eina sem hélt mér gangandi var ástríðan fyrir því sem ég fékkst við. Maður verður að finna þessa ástríðu. Þetta gildir jafnt um lífið sem lífsförunautana. Vinnan er stór hluti af lífinu og eina leiðin til að vera virkilega ánægður er finnast maður vera að vinna framúrskarandi vinnu. Og leiðin til að vinna framúrskarandi vinnu er að hafa ástríðu fyrir því sem maður er að gera. Ef þú hefur ekki fundið hana ennþá, haltu áfram að leita. Ekki sætta þig við minna. Eins og með önnur hjartans mál, veistu þegar það rétta er fundið. Og, eins og öll góð sambönd, batnar það bara með árunum. Haldu áfram að leita þar til þú hefur fundið þína ástríðu. Ekki sætta þig við minna.

Þriðja sagan er um dauðann.

Þegar ég var 17 ára, las ég tilvitnun sem var eitthvað á þessa leið: “Ef þú verð hverjum degi eins og hann væri þinn síðasti, muntu á endanum hafa rétt fyrir þér.” Þetta hafði áhrif á mig, og síðan þá, síðustu 33 ár, hef ég litið í spegilinn á hverjum morgni og spurt sjálfan mig: “Ef dagurinn í dag væri síðasti dagur lífs míns, myndi mig langa að gera það sem ég er að fara að gera í dag?” Og í hvert skipti sem svarið hefur verið “Nei” of marga daga í röð, veit ég að ég þarf að breyta einhverju.

Hafandi í huga að innan skamms muni ég deyja er mikilvægasta tækið sem ég hef fundið til að hjálpa mér við að taka stóru ákvarðanirnar á lífsleiðinni. Vegna þess að næstum allt – allar væntingar, allt stolt, allur ótti við niðurlæginguna sem felst í mistökum – allt þetta bliknar í samanburði við dauðann og eftir stendur það sem raunverulega skiptir máli. Hafandi í huga að innan skamms muni maður deyja er besta aðferðin sem ég kann til að forðast þá hugsanavillu að maður hafi einhverju að tapa. Þú ert þegar nakinn. Það er ástæðulaust að fylgja ekki draumum sínum eftir.

Fyrir um það bil ári síðan var ég greindur með krabbamein. Ég fór í rannsókn klukkan hálf átta um morguninn og hún sýndi svo ekki var um að villast æxli í brisinu. Ég vissi ekki einu sinni hvað bris var. Læknarnir sögðu mér að þetta væri nær örugglega ólæknandi mein og að ég mætti búast við því að eiga þrjá til sex mánuði ólifaða. Læknirinn ráðlagði mér að fara heim og koma mínum málum í farveg, sem þýðir á læknamáli að maður eigi að búa sig undir dauðann. Það þýðir að reyna að segja börnunum þínum á nokkrum mánuðum allt það sem þú hélst að þú hefðir næstu 10 ár til að segja þeim. Það þýðir að ganga þannig um hnútana að fráfall þitt sé eins fyrirhafnarlítið og mögulegt er fyrir fjölskylduna. Það þýðir að kveðja fólkið sitt.

Þennan dag lifði ég við þessa greiningu. Um kvöldið fór ég í magaspeglun, þar sem þeir tróðu slöngu niður hálsinn á mér, í gegnum magann, alla leið niður í garnirnar, stungu nál í brisið og náðu nokkrum frumum úr æxlinu. Ég var í lyfjamóki, en eiginkona mín, sem var með mér á staðnum sagði að þegar læknarnir skoðuðu frumurnar í smásjá fóru þeir að gráta þar sem í ljós kom að þetta var mjög sjaldgæf gerð krabbameins í brisi sem unnt er að lækna með skurðaðgerð. Ég fór í þessa skurðaðgerð og nú er allt í góðu lagi.

Þetta er það næsta sem ég hef komist því að standa frammi fyrir dauðanum, og ég vona að þetta sé það næsta sem ég kemst því í nokkra áratugi til viðbótar. Eftir þessa upplifun get ég þó sagt ykkur af heldur meiri sannfæringu en þegar dauðinn var fyrir mér aðeins gagnlegt, en fjarlægt hugtak:

Engan langar til að deyja. Jafnvel fólk sem vill fara til himna vill ekki deyja til að komast þangað. Og samt er dauðinn það sem bíður okkar allra. Enginn hefur nokkru sinni sloppið við hann. Og þannig á það líka að vera, vegna þess að Dauðinn er líklega besta uppfinning Lífsins. Hann er það sem drífur áfram þróun Lífsins. Hann grisjar úr það gamla og býr til rými fyrir það nýja. Núna eruð þið það nýja, en einn daginn eftir ekki svo ýkja langan tíma, verðið þið smám saman það gamla og verðið grisjuð úr. Þið fyrirgefið dramatíkina, en svona er þetta.

Þið hafið takmarkaðan tíma. Ekki sóa honum í að lifa lífi einhvers annars. Ekki festast í viðjum einhverra kredda – að lifa lífinu með hliðsjón af því sem öðru fólki finnst. Ekki láta háværar skoðanir annarra yfirgnæfa ykkar innri rödd. Og mikilvægast af öllu, hafið kjark til að fylgja því sem hjartað og brjóstvitið segir ykkur. Einhvern veginn vita þau hvað þið raunverulega viljið. Allt annað er aukaatriði.

Þegar ég var ungur var gefið út magnað rit sem nefndist The Whole Earth Catalog. Þetta var ein af biblíum minnar kynslóðar. Upphafsmaðurinn var náungi hér í nágrenninu, í Menlo Park, að nafni Stewart Brand. Ljóðræn nálgun hans gaf ritinu líf. Þetta var í lok 7. áratugarins, fyrir tíma einkatölva og umbrotsforrita. Ritið var því allt unnið með ritvélum, skærum og Polaroid myndavélum. Þetta var eins konar Google í pappírsformi, 35 árum áður en Google kom til sögunnar: unnið af hugsjón og stútfullt af frábærum upplýsingum, viðhorfum og hugmyndum.

Stewart og hans fólk gáfu út nokkur tölublöð af The Whole Earth Catalog. Þegar það hafði runnið sitt skeið á enda gáfu þeir út sérstakt lokatölublað. Þetta var um miðjan 8. áratuginn og ég var á ykkar aldri. Á baksíðu síðasta tölublaðsins var ljósmynd af sveitavegi snemma morguns, sveitavegi eins og þeim sem maður gæti farið um á puttaferðalagi ef maður væri í ævintýrahug. Undir myndinni stóð: “Verið hungruð. Verið flón.” (“Stay hungry. Stay foolish.”) Þetta voru þeirra lokaorð þegar þau kvöddu. Verið hungruð. Verið flón. Og þetta er það sem ég hef alltaf óskað sjálfum mér. Og núna, þegar þið útskrifist, óska ég ykkur þess sama.

Verið hungruð. Verið flón.

Takk fyrir kærlega.

Hér má svo horfa á ræðuna í flutningi Jobs:

Og hér má svo nálgast upprunalega enska textann.