nýsköpun

Reynslusögur íslenskra frumkvöðla

Í dag var haldinn á Grand Hótel viðburðurinn “Reynslusögur íslenskra frumkvöðla” á Grand hótel. Viðburðurinn var haldinn á vegum Frumkvöðlar.is, frábæru framtaki á vegum hans Hauks hjá Búngaló.

Ég var meðal þeirra sem var fenginn til að deila minni reynslu af sprotapoti þarna. Hér má sjá glærurnar úr fyrirlestrinum mínum “9 hlutir sem enginn sagði mér um frumkvöðlastarf”:

Sprotafyrirtæki á leið úr landi?

Í gær hringdi í mig fréttamaður frá Stöð 2. Hann hafði haft af því ávæning að DataMarket og fleiri sprotafyrirtæki væru “á leið úr landi”. Ég útskýrði fyrir honum að hvað okkur varðaði væri fyrirtækið einfaldlega komið á þann stað í lífinu að nú þyrfti að leggja áherslu á að ná erlendum viðskiptavinum og jafnvel fá erlenda fjárfesta að fyrirtækinu. Eftir stutt spjall varð úr að hann kæmi og tæki við mig stutt viðtal um þær áskoranir sem við sæum helstar í því.

Við spjölluðum vel og lengi – líklega hafa þeir tekið a.m.k. 15 mínútur af efni þar sem ég fór vítt yfir sviðið og útskýrði umfram allt að við þyrftum við að gera tvennt erlendis:

 1. Koma upp sölu- og markaðsstarfsemi þar sem við erum nær verðandi viðskiptavinum okkar, eða a.m.k. stærri hópi en þeim sem við höfum úr að moða hér á landi.
 2. Gera erlendum fjárfestum sem hugsanlega vildu koma að félaginu kleift að leggja fé inn í fyrirtæki sem starfrækt er í lagaumhverfi sem þeir þekkja, skilja og eru vanir. Fyrir bandaríska fjárfesta þýðir þetta oftast fyrirtæki sem sett eru upp í Delaware-fylki (þó starfsemin sé oftast allt annars staðar).

Þar sem mig grunaði að Stöð 2 væri jafnvel að höggva eftir því hvort gjaldeyrishöft, niðurstaðan úr Icesave-kosningunni, aðild (eða ekki) að ESB, Ríkisstjórnin, stjórnarandstaðan eða önnur heit pólitísk mál væru að þvælast fyrir okkur, lagði ég áherslu á að það væru ýmsar áskoranir tengdar því að vera á Íslandi, en áskoranir við sprotastarfsemi væru alls staðar. Helsta *landfræðilega* áskorunin við það að vera á Íslandi er sú sama í huga helstu sprota- og vaxtarfjárfestingasjóða heimsins og nánast alls staðar annars staðar í heiminum: Ísland er ekki í Silicon Valley 😉

Sömuleiðis lagði ég ríka áherslu á það að hér væri að mörgu leyti gott umhverfi til að taka fyrstu skrefin með sprotafyrirtæki. Hér er mikil og góð tækniþekking og þó atvinnulaust hæfileikafólk í upplýsingatækni finnist ekki hér frekar en annars staðar í heiminum er engu að síður hægt að setja saman mjög öfluga kjarnahópa sem stýra munu þróun um ókomna tíð þó að líklega þurfi að leita í stærra samfélag þegar og ef fyrirtæki komast á þann stað að þurfa hundruð starfsmanna við þróun.

Staða okkar væri sem sagt sú að við værum að skoða möguleikana á því að setja upp skrifstofu erlendis og að setja fyrirtækið upp með einhverjum hætti sem ekki fækkaði fjölda mögulegra fjárfesta á “tækniatriðum” eins og því að þeir þyrftu að setja sig inn í íslenskt lagaumhverfi, gjaldeyrishöft og pólitískan stöðugleika á Íslandi. Fjármögnunarferli sprotafyrirtækja snýst um að fækka ástæðum fjárfestis til að segja “nei” þangað til hann hefur enga og getur ekki annað en sagt “já”. Þetta er einfaldlega einn liður í því og flest skrefin væru alveg þau sömu og við hefðum tekið á þessu stigi á líftíma fyrirtækisins þó aldrei hefði orðið bankahrun og engin gjaldeyrishöft væru.

Að loknu þessu yfirvegaða og jákvæða spjalli kvöddumst við og fréttamaðurinn hafði úr ofangreindu og fleiru að moða til að klippa saman frétt um málið.

Viti menn! Önnur frétt í fréttatíma Stöðvar 2 er “Fimm sprotafyrirtæki á leið úr landi” og inngangurinn í svipuðum æsifréttarstíl. Smellið á myndina til að sjá innslagið í heild:

Miðað við spjallið eru nokkur atriði sem ég er svolítið hissa á í þessari frétt:

 • “Fimm sprotafyrirtæki á leið úr landi”, er ekki það sama og að þau vilji starfrækja viðskiptahluta starfseminnar erlendis. Hvað DataMarket varðar – og ég veit að það gildir um flest, ef ekki öll, hinna fyrirtækjanna sem nefnd voru – stendur ekki til og er engin ástæða til að flytja þróunarstarfið úr landi.
 • Í inngangi segir “gjaldeyrishöft gera það að verkum að erlendir fjárfestar forðast að fjárfesta hér á landi”. Það þarf nú líklega ekki að koma neinum á óvart, en eins og kemur reyndar fram í fréttinni eru höftin alls ekki upphaf og endir alls. Á þessu eru lausnir og þetta bara eitt af fjölmörgum úrlausnarefnum.
 • Hvað er Sjálfstæðisfálkinn og Valhöll að gera í bakgrunni við kynningu fréttarinnar?!? (Ég ætla reyndar að gefa mér að það séu einhver mistök, a.m.k. skil ég hvorki beina né dulda tengingu þeirra við fréttina)

…að öðru leyti er ekkert við fréttina að athuga. Þetta er veruleikinn eins og hann blasir við mér á þessum tímapunkti.

Það er hins vegar til marks um umræðuna á Íslandi í dag að fyrir þessa lýsingu mína hef ég í dag fengið að heyra að ég sé: ESB-sinni, andstæðingur ríkisstjórnarinnar, stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar, ósáttur við niðurstöðu Icesave-kosningarinnar og ýmslegt fleira … sem nota bene er allt sagt í gagnrýnistón.

Meðan þau atriði sem ég er gagnrýndur fyrir eru úr öllum – þar með talið gagnstæðum – áttum, ætti ég samt kannski ekki að hafa of miklar áhyggjur af því 😉

Nörd ársins!

Ég varð þess heiðurs aðnjótandi síðastliðinn föstudag að hljóta nafnbótina Nörd ársins 2010.

Ég hef lengi beðið eftir því að einhver efndi til keppni sem ég ætti möguleika á að vinna og full ástæða til að þakka Skýrr fyrir að gera það.

Reyndar grunar mig að réttnefni titilsins væri “Athyglissjúkasta nörd ársins 2010” þar sem ég á ekki roð í marga af þeim sem hlutu tilnefningu í eiginlegum nördaskap. Líklega hefur fólki dottið í hug að tilnefna mig þar sem sum þeirra nörda-verkefna sem ég hef verið að vinna að hafa hlotið töluverða athygli, en það er auðvitað ekki síður að þakka þeim eðalnördum sem hafa unnið með mér að hlutum eins og DataMarket, Já.is og öðrum nördaskap í gegnum tíðina.

Einu sinni þótti niðurlægjandi að vera kallaður “nörd”. Fólk skiptist í þrjá hópa: “nörd”, venjulegt fólk og “töffara”. Það er hins vegar alltaf að sýna sig betur og betur að 21. öldin er öld nördanna. Þrjú dæmi:

 • Þrír ríkustu menn í heimi eru nörd
 • Borgarstjórinn í Reykjavík “var einu sinni nörd”
 • Obama hefði aldrei orðið forseti Bandaríkjanna nema með hjálp nörda-vina sinna

Eða eins og Bill Gates hafði einu sinni eftir í góðri ræðu: “Verið góð við nördana, það eru góðar líkur á að þið munið vinna fyrir eitt þeirra í framtíðinni”.

Takk fyrir mig, takk Skýrr, takk allir sem hafa nördast með mér í gegnum tíðina. Eins og sjá má var ég “geðveikislega” ánægður með titilinn:

Allt er æðislegt en enginn er ánægður!

Það kann að virðast fráleitt þegar horft er á venjulegan fréttatíma, en við lifum á tímum mestu velmegunar, öryggis og friðar sem mannkynið hefur nokkurntíman upplifað. Fólk lifir lengur, minna hlutfall mannkyns líður skort og minni líkur eru á að vera myrtur af náunganum eða drepinn í stríði en nokkru sinni fyrr.

Okkar helstu vandamál felast í því að við erum svo mörg og höfum það svo gott að við verðum orðið að fara varlega til að skemma ekki plánetuna sem við búum á og taka með því tækifæri af komandi kynslóðum til að hafa það jafn gott.

Þetta eru staðreyndir. Og þarna í allra efstu þrepunum í lífsgæðastiganum á þessum mestu velmegunartímum frá upphafi erum við Íslendingar.

Já, ennþá!

Lífsgæðin á Íslandi fóru frá því að vera á flestum mælikvörðum eins og Mónakó yfir í að vera á flestum mælikvörðum eins og í Danmörku. Frá ofurallsnægtum til allsnægta – það var nú allt fallið.

Svo tipla allir á tánum og segja að það megi ekki gera lítið úr vandamálum fólksins á Íslandi. Rugl! Það á einmitt að gera lítið úr þeim.

Enginn frasi fer meira í taugarnar á mér um þessar mundir, en að Ísland sé “orðið þriðjaheimsríki”. Þeir sem segja svona hafa svo sannarlega ekki komið til slíkra ríkja. Ég hef heimsótt þau allnokkur og veit því hvað ég er að tala um.

Hefur þú notað plastpoka sem salernisaðstöðu nýlega? Drukkið úr skólpvatninu? Hjá nágrönnunum? Efast um að eiga morgunmat í fyrramálið? Ekki vitað hvort þú þyrftir að yfirgefa heimilið í nótt vegna yfirvofandi árása?

Fæstir setja frið ofarlega á lista yfir forgangsatriði í lífinu sem aldrei hafa upplifað ófrið.

Ef þú hefur þak yfir höfuðið, mat á disknum og rennandi vatn í krananum hefur þú það betra en 5 af hverjum 6 jarðarbúum. Mér er alveg sama hvað hver segir: Á Íslandi búum við svo sannarlega við þannig kerfi að enginn þarf að lifa í ótta við að missa neitt af þessu, jafnvel þó hann missi “aleiguna” eins og það er kallað. Og langflest höfum við það reyndar miklu, miklu betra.

Það versta við Hrunið er að það er orðin ásættanleg hegðun að væla og bera sig illa. Hver er ekki lengur sinnar gæfu smiður, heldur er hin voðalega ógæfa okkar allra einhverjum öðrum að kenna. Alltaf. Öll.

Svo sannarlega var hér fólk sem framdi glæpi, gerðist sekt um vanrækslu og margir eru sekir um alvarlegan dómgreindarbrest. Flest fórum við að einhverju leyti óvarlega.

Já, glæpamönnum þarf að refsa, já, margir mega skammast sín. Engar áhyggjur, það er verið að rannasaka þessi mál og fólk mun fá sína refsingu – þetta tekur allt tíma og einn af kostunum við það að búa ekki í þróunarríki er að við höfum við lög og rétt til að takast á við svona mál. Og jafnvel þó einhverjir sleppi frá dómskerfinu þá veldur það okkur ekki meiri skaða en orðinn er. Þau þurfa aftur á móti að horfast í augu við eigin samvisku og fólkið í kringum sig. Ég ímynda mér að það sé flestu þessu fólki nú þegar ansi erfitt. Margir eiga seint og illa afturkvæmt til Íslands.

Það er rík ástæða fyrir því að hefnigirni, öfund og langrækni eru ekki talin til dyggða. Það eru aftur á móti hugrekki, samkennd og jafnaðargeð.

Það er fráleitt að bera sig saman við og sakna þess sem var á árunum 2006 og 2007. Það var ekki innistæða fyrir því góðæri sem þá var og ástæðan fyrir því að sum okkar upplifðu það að ferðast um eins og kóngar í útlöndum þar sem allt var hræódýrt og önnur okkar töldu sig hafa efni á því að taka lán fyrir alltof stórum húsum, dýrum bílum og jafnvel bara til að lifa hátt var einmitt sama ástæðan og sú sem varð til þess að allt hrundi á hliðina.

“Þá” var ekki raunverulegt. “Núna” er raunverulegt og reyndar standa öll efni til þess að raunveruleikinn verði fljótlega einhvers staðar mitt á milli.

Það er allt í lagi að gráta stundum, en það er ástæða fyrir því að við venjum börnin okkar af því að suða, nöldra og væla. Heil þjóð af vælukjóum er ekki skemmtileg þjóð. Heil þjóð af fólki sem horfir til framtíðar og gerir hluti til að breyta til hins betra og byggja upp er það hins vegar.

Í Hruninu liggja tækifæri – tækifæri til að byggja upp betra samfélag en það sem var og líka betra en það sem er, en það gerist ekki með því að væla – það gerist með því að GERA.

Hættum þessu helvítis væli og förum að gera eitthvað uppbyggilegt.

Uppfært 8. desember, 2013: Þar sem NBC hefur ákveðið að loka á myndbandið hér að ofan á YouTube, þá verðið þið að fara hingað eða hingað eða hingað til að horfa á það.

Gagnatorg DataMarket komið í loftið!

Í vikunni opnuðum við hjá DataMarket almennan aðgang að gagnatorginu okkar.

Ég ætla að skrifa meira um það á persónulegu nótunum fljótlega, en læt nægja í bili afrit af tilkynningunni sem við sendum áskrifendum að fréttabréfinu okkar í gær (þið getið gerst áskrifendur hér).

Kæri áhugamaður um DataMarket,

Miðvikudagurinn 12. maí var stór dagur fyrir okkur, en þá opnuðum við fyrir almennan aðgang að lausninni sem við erum búin að vera að þróa í rúmlega eitt og hálft ár.

Það er okkur sönn ánægja að kynna til sögunnar gagnatorgið: DataMarket.com

DataMarket tekur saman töluleg gögn frá ýmsum opinberum aðilum og gerir þau aðgengileg á einum stað með samræmdum eiginleikum, s.s. leitarmöguleikum, samanburði, tengingum við fréttaefni og aðra viðburði, og niðurhali gagna til dæmis til notkunar í Excel.

Það sem komið er inn eru meira og minna öll gögn sem birt eru opinberlega frá:

 • Hagstofu Íslands, þar með talin gögn úr ritinu Hagskinnu sem er yfirlit yfir sögulegar hagtölur.
 • Seðlabanka Íslands
 • Vinnumálastofnun
 • Fasteignaskrá
 • Orkustofnun; og
 • Ferðamálaráði

Að auki eru þar gögn frá Ríkislögreglustjóra og öll töluleg gögn úr skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.

Öll þessi gögn eru frá og með deginum í dag aðgengileg öllum netnotendum án endurgjalds á DataMarket

Þarna er að finna meira en 2.500 gagnasett frá framangreindum aðilum og samanlagt meira en sjö milljón tímaraðir um allt á milli himins og jarðar, þar á meðal: hitastig á Stykkishólmi, barnsfæðingar á mánuði frá 1853, atvinnuleysi iðnaðarmanna, raforkuframleiðslu með jarðvarma, útbreiðslu DVD spilara og kílóverð á súpukjöti svo fátt eitt sé nefnt.

Hvernig nýtist DataMarket mér?

Það fer algerlega eftir því við hvað þú starfar, á hverju þú hefur áhuga og hvaða ákvörðunum þú stendur frammi fyrir, en við erum handviss um að flestir geta notað DataMarket sér til gagns eða fróðleiks þegar þeir hafa tileinkað sér grunneiginleika þess.

Hér eru nokkur dæmi sem ef til vill kveikja einhverjar hugmyndir:

Einhverjir gætu líka haft áhuga á að bera saman mánaðarlaun bankastjóra þriggja stóru bankanna á árunum 2004-2008.

Ágæt leið til að kynnast eiginleikum DataMarket er að skoða þessi sýnidæmi og jafnvel fylgja þeim skref fyrir skref.

Innskot HG: Hér er myndband sem sýnir eitt þessarra sýnidæma:

Hafðu samband!

Þar sem DataMarket er spánný lausn, vitum við að þið eigið eftir að rekast á lausa enda sem við höfum gleymt að hnýta, hluti sem betur mega fara og fá hugmyndir sem gætu nýst okkur við áframhaldandi þróun. Þess vegna hvetjum við ykkur til að taka þátt í umræðum á spjallborðinu okkar eða senda okkur línu á hjalp@datamarket.com

Ef þið hafið áhuga á að vita meira um starfsemina, skoða samstarfsfleti eða forvitnast um hvaðeina sem snýr að lausninni eða fyrirtækinu, þá er netfangið datamarket@datamarket.com.

Takk fyrir að taka þátt í þessu með okkur. Njóttu DataMarket!

Kveðjur,

DataMarket-hópurinn

Orðið.is: Lóð á vogarskálar Opinna Gagna

Í hádeginu í dag voru úrslitin í verðlaunasamkeppninni “Þú átt orðið” kynnt. Það voru fyrirtækið og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sem stóðu fyrir þessari keppni.

Forsaga keppninnar

Forsagan er í stuttu máli sú að forritunarteymi Já og forveri þess – fyrirtækið Spurl – sem Já keypti fyrir nokkrum árum* hafa um árabil átt í samstarfi við Orðabók Háskólans (sem nú er hluti Árnastofnunar) á sviði tungutækni. Það samstarf hefur sérstaklega snúist um Beygingalýsingu íslensks nútímamáls, en það er gagnasafn sem inniheldur beygingarmyndir meira en 270 þúsund íslenskra orða.

Já hefur nýtt sér þetta safn með ýmsum hætti, t.d. til að tryggja að leit á vefnum Já.is finni íslensk nöfn, götuheiti, staði og fyrirtæki óháð því í hvaða beygingarmynd fyrirspurnir eru skrifaðar (ertu að leita að “Laugavegi” eða “Laugavegur“, “sýslumaður” eða “sýslumanninum”, o.s.frv.), við gerð tillagna þegar leitarorð eru rangt slegin inn “Leit að ‘laugvegur‘ skilaði engum niðurstöðum. Áttirðu við ‘Laugavegur’?” o.s.frv.

Já-fólk hefur því lengi vitað hvers konar verðmæti felast í þessum gögnum og við vorum nokkuð viss um að þau verðmæti kæmu fyrst almennilega í ljós þegar aðgangur að þessum gögnum væri opnaður frekar. Þannig kviknaði hugmyndin að því að Já myndi styrkja Árnastofnun og gera stofnuninni þannig kleift að aflétta þeirri gjaldtöku sem hingað til hefur verið á notkun þessarra gagna. Það varð úr, og til að hvetja hugmyndaríka einstaklinga til dáða var auk þess ákveðið að blása til þessarar verðlaunasamkeppni.

Opið aðgengi leiðir til nýsköpunar

Orðavindan

1. verðlaun í keppninni hlaut orðaleikurinn Orðavinda

Í stuttu máli tókst þessi tilraun vonum framar. 20 álitlegum verkefnum var skilað inn á tilsettum tíma. Það skemmtilegasta við þau var hversu fjölbreytt þau voru. Þannig náðu t.d. verðlaunaverkefnin fjögur allt frá nýrri málfræðilega áhugaverðri nálgun við orðflokkun, til tölvuleikja og allt frá gagnlegu tóli fyrir vefnotendur, til “startpakka” fyrir forritara sem vilja nýta sér þessi gögn til annarra góðra verka.

Og þetta var vonandi bara byrjunin. Ég er sannfærður um að miklu fleiri en þeir sem tóku þátt í samkeppninni munu nýta sér þessi gögn hér eftir með margvíslegum hætti og veit reyndar af nokkrum slíkum verkefnum sem eru í gangi.

Þessi afrakstur styrkti mig enn frekar í trúnni um það hversu mikil verðmæti er hægt að leysa úr læðingi með því að opna aðgengi að gagnasöfnum á vegum opinberra aðila. Fjársjóðir á borð við þennan liggja vannýttir og jafnvel ónotaðir hjá stofnunum og fyrirtækjum úti um allt land, en gætu orðið að nýjum vörum, nýjum tækifærum og jafnvel nýrri þekkingu ef aðferðafræði Opinna Gagna fengi að ráða.**

Vonandi verður þingsályktunartillagan góða sem samþykkt var í þá veru fyrir áramótin sem fyrst til þess að þessi mál komist á skrið hér á landi.

– – –

* Ég var stofnandi og einn af aðaleigendum Spurl á sínum tíma
** Gögnin í Beygingarlýsingunni eru reyndar strangt til tekið ekki að öllu leyti “opin” skv. skilgreiningu opinna gagna, en sannarlega opnari en þau voru.

Tæknispá 2010

Ég hef nokkrum sinnum áður ráðist í það um áramót að skrifa smá hugleiðingar um það sem komandi ár gæti borið með sér í tæknigeiranum á Íslandi. Spáin fyrir nýliðið ár heppnaðist býsna vel, þannig að nú er kominn tími til að rýna aftur í telauf og garnir og spá fyrir um næstu misserin.

 • Sprotaheimurinn: Það eru magnaðir hlutir að gerast í heimi nýsköpunar og sprotastarfsemi í tæknigeiranum. Eftir 5-6 steindauð ár þar á undan, brustu allar flóðgáttir við hrun bankanna. Þar kemur líklega tvennt til: 1) Hreyfing á fólki sem ýmist missti vinnuna, eða fékk nóg og yfirgaf stöður sem kannski voru aldrei sérlega skemmtilegar, bara vel borgaðar; og 2) Gerbreytt afstaða almennings, stjórnvalda og fjölmiðla – það var loksins komið veður til að skapa.
  • Fyrstu ávextirnir af sprotum hrunsins: Allnokkur sprotafyrirtæki komu frá sér úrvalsvörum árið 2009. Má þar nefna: heimilisfjármálagræjuna Meniga, tölvuleikina Peter und Vlad og Audiopuzzle frá Dexoris, Vaktarann frá CLARA sem fylgist með umræðu á netinu, tölvuleikina Symbol6, Soft Freak Fiesta og Vikings of Thule frá Gogogic og smálánaþjónustuna Uppsprettu.

   Sum þessara fyrirtækja voru jafnvel stofnuð eftir hrun, þannig að hraðinn er mikill. Ég reikna með að sjá enn meiri grósku í þessu á komandi ári. Öll áðurnefnd fyrirtæki eru ýmist að þróa endurbættar útgáfur af sínum vörum eða nýjar vörur væntanlegar frá þeim á árinu. Til viðbótar má nefna að vörur eða stórar viðbætur eru væntanlegar frá næstum öllum hinum fyrirtækjunum í Icelandic Gaming Industry (IGI) auk Mobilitus, Medizza, Gogoyoko, DataMarket og ýmsum fleirum sem ég er ýmist að gleyma eða hreinlega veit ekki af. Eins hlakka ég mikið til að sjá og kynnast betur því sem koma mun út úr “hands-on” nýsköpunarsetrinu í Toppstöðinni.

   Ég sé því fyrir mér að í sprotaheiminum verði árið 2010 enn viðburðaríkara en nýliðið ár og þar verða líklega bæði stórir sigrar og talsverð vonbrigði.

  • Of miklir peningar: Það eru að safnast býsna miklir peningar í sjóði sem ætla að fjárfesta í efnilegum sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum á næstunni: Frumtak, sem upphaflega átti að verða 4,5 milljarða sjóður hefur úr meira en helmingi þeirrar upphæðar að moða þrátt fyrir einhverja óvissu um fjárframlög gömlu bankanna; Bjarkar-sjóðurinn sem er í umsjón Auðar Capital stefnir vel á annan milljarð; Nýsköpunarsjóður hefur úr talsverðu að moða; Tækniþróunarsjóður hefur 720 milljónir á fjárlögum næsta árs, af hverjum líklega um helmingur fer til slíkra fyrirtækja. Að auki eru allnokkrir hópar að setja saman bæði litla og umtalsvert stóra sjóði sem ætlað er að fjárfesta í tækifærum af þessu tagi. Ég hugsa að það láti nærri að 5-7 milljarðar séu eyrnamerktir í sprota- og nýsköpunarfjárfestingar þessa dagana!

   Þetta er auðvitað langt frá því að vera vandamál í sjálfu sér, en allir þessir peningar eru að elta tiltölulega fá – raunverulega góð – tækifæri. Hættan við allt þetta fé er sú að það leiti of víða og að forsvarsmenn sjóðanna hafi ekki þolinmæði til að bíða eftir tækifærum sem þeir hafa raunverulega tröllatrú á. Þannig gæti farið svo að of mörg fyrirtæki fái litlar frumfjárfestingar, en svo verði of litlir peningar eftir til að fylgja eftir þeim sem klóra sig fram úr fyrstu árunum og tryggja að þau nái virkilega að blómstra. Þetta hefur gerst áður. Nýsköpunarsjóður, eins og hann var rekinn í kringum árið 2000, er mjög gott dæmi um slíkt. Líklega hefði komið meira útúr honum með færri og stærri fjárfestingum.

   Sem sagt: Gott að það sé úr miklu fé að moða, en því má ekki smyrja of þunnt.

  • Of fátt hæft fólk: Það er ekkert atvinnuleysi í tæknigeiranum. Það er auðvitað alltaf slagur um besta fólkið, en það er vöntun á fólki af öllum stærðum og gerðum. Að einhverju leyti stafar þetta af því að aðsókn í tölvu- og tækninám var áberandi lítil á uppgangstíma bankanna. Við höfum ekki alið upp mikið af slíku fólki síðustu árin. Hins vegar stafar þetta af því að eftirspurnin hefur líklega aldrei verið meiri. Þó eitthvað hafi dregið saman í tölvudeildum bankanna og hjá sumum þjónustufyrirtækjum í upplýsingatæknigeiranum er það þó minna en ætla mætti. A.m.k. einn bankinn er m.a.s. að bæta við sig fólki um þessar mundir. Á sama tíma ætlar t.d. CCP eitt og sér að bæta við sig 160 manns á næstu mánuðum (þó ekki bara á Íslandi) og hefur þegar vaxið gríðarlega. Lauslega áætlað starfa um 200 manns hjá sprotafyrirtækjunum sem nefnd voru hér að ofan og restin af atvinnulífinu hefur tekið slakanum í upplýsingatæknigeiranum fegins hendi og ráðið til sín töluvert af fólki sem þau höfðu ekki tök á að slást um við bankana á sínum tíma.

   Ég sé fyrir mér að þessi mannekla muni hamla vexti sprotafyrirtækja umtalsvert.

  • Leikjabólan: Góður maður reiknaði út að Ísland ætti innan við 10 menn sem væru framúrskarandi (meira en 3 staðalfrávik frá meðaltali) í hverju sem er. Þetta gilti jafnt um Seðlabankastjóra sem sundmenn. Þessi staðreynd, að viðbættum þeim skorti á fólki sem er í upplýsingatæknigeiranum almennt veldur mér svolitlum áhyggjum fyrir hönd íslenska tölvuleikjaiðnaðarins sem nú er í örum vexti. Það kemur alls ekki á óvart að ýmsir feti í fótspor velgengninnar sem CCP fagnar, og heilt yfir er auðvitað frábært að sjá gróskuna sem m.a. kemur fram í starfsemi IGI. En gæðin, fólkið og hugmyndaauðgin hljóta að dreifast full þunnt þegar svona mikið er um að vera í jafn sérhæfðum geira og raun ber vitni.

   Ég spái því að þessi mikla starfsemi á þröngu sviði eigi eftir að sliga einhver leikjafyrirtæki, sem annars hafa alla burði til að slá í gegn.

 • Gögn og meiri gögn: Ýmis málefni sem tengjast gögnum, og þá ekki síst opnum gögnum eru mér afar hugleikin. Hér er tvennt sem ég sé fyrir mér að gerist í þeim efnum á árinu.
  • Opin gögn: Á haustmánuðum 2009 var lögð fram þingsályktunartillaga 12 þingmanna, jafnt úr stjórn sem stjórnarandstöðu, um opnara aðgengi að opinberum gögnum. Jafnframt var lögð fram fyrirspurn til forsætisráðherra um afstöðu hennar til þessara mála. Þótt svarið sem barst nú rétt fyrir áramótin sé afar varfærið og taki ekki djúpt í árinni, er boltinn greinilega farinn að rúlla varðandi það að breyta umgjörð þessara mála.

   Ég sé fyrir mér að breytingar verði gerðar á upplýsingalögum áður en árið er úti, aðgengi að opinberum gögnum rýmkað til mikilla muna og að áherslan verði á “upplýsingaskyldu stjórnvalda fremur en upplýsingarétt almennings” eins og segir í niðurlagi þingsályktunartillögunnar.

  • Greining gagna: Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið mun mjög líklega sýna, svo ekki verður um villst, hversu mikill máttur upplýsingatækninnar er þegar kemur að því að greina gögn. Ég á von á að sjá þar tengslanet, atburðarásir og hreinlega uppljóstranir á einstökum málum sem fengnar hafa verið með því að keyra greiningar á gríðarlegt magn gagna í leit að eftirtektarverðum mynstrum, óeðlilegum færslum og grunsamlegum tengslum og samskiptum ýmissa aðila. Ég skrifaði pistil um þetta efni í byrjun árs og þykist vita að þessi mál hafi verið tekin traustum tökum.

   Ég sé fyrir mér að þetta muni opna augu atvinnulífsins og stjórnvalda fyrir því hversu verðmæt og öflug greining og úrvinnsla gagna getur verið.

 • Vélabú og annar milli-orkufrekur iðnaður: Mér leiðist orðið “gagnaver” og held mig því við að reyna að koma nýyrðinu “vélabú” að í staðinn. Vélabú Verne var mikið í umræðunni í lok árs. Ég tel litlar líkur á að verkefnið detti uppfyrir, en það er þó ljóst að aðkoma Novator mun breytast. Það hefur alltaf legið fyrir að þeirra hlutur myndi minnka við þá fjárfestingu sem nú er á lokametrunum. Ekki er ólíklegt að hlutafjáraukningin sé á bilinu 25%-50% og þá fer 40% hlutur Novators í Verne niður í 20%-30%. Eins er ekki alveg loku fyrir það skotið að Novator verði keypt út úr hluthafahópnum til að sefa gagnrýnisraddirnar. Verkefnið er hins vegar af þeirri stærðargráðu að það verður varla stoppað. 90 milljarða fjárfesting í erlendum gjaldeyri er satt að segja svo stór að burtséð frá öllum framkvæmdunum, störfunum og öðrum umsvifum, kann slíkt gjaldeyrisinnstreymi jafnvel að lyfta gengi krónunnar lítillega. Það er líklegt til að hljóma eins og of góð músík í eyrum fleiri en bara stjórnmálamanna.

  Eins er með þessu verkefni loksins verið að dreifa orkueggjunum okkar í fleiri körfur en áliðnaðarins eins. Segja má að aflþynnuverksmiðja Becromal hafi verið fyrsta skrefið í þá átt í seinni tíð. Ýmsar þreifingar eru einnig í gangi um framleiðslu bæði á sólarkísil og koltrefjum.

  Ég sé fyrir mér (og vona) að fleiri slík verkefni komist af stað á árinu og þá í stað álvers á Bakka og jafnvel líka í Helguvík.

 • Pólitík og netið: Um síðustu áramót spáði ég því að netið, og þá ekki síst samfélagsvefir, ættu eftir að leika lykilhlutverk í pólitísku starfi árið 2009. Þetta er reyndar orðið svo áberandi núna að það er ótrúlegt að á sama tíma fyrir ári síðan voru til dæmis aðeins örfáir stjórnmálamenn og líklega enginn stjórnmálaflokkur með opna síðu á Facebook.

  Við sáum líka ýmsa aðra pólitíska vinkla spretta upp úr þessum jarðvegi: Mótmælin voru að miklu leyti skipulögð á Facebook, Appelsínuguli-hópurinn, hópar með og á móti ESB, með og á móti ýmsum útgáfum af Icesave samningum, með og á móti lýðræði, með og á móti sól. 2010 verða sveitastjórnarkosningar og strax má sjá þess merki að frambjóðendur í prófkjörum og listar sem boðnir eru fram eru komnir í startholurnar með Facebook-viðveru, Twitter-tilraunir og notkun nýrra miðla til að dreifa upplýsingum og áróðri.

  Að teknu tilliti til takmarkaðra fjárráða held ég að Facebook og netið verði þungamiðjan í aðdraganda þessara sveitastjórnarkosninga, sérstaklega í stærri sveitarfélögunum.

 • Opinn hugbúnaður: Sífellt fleiri eru að átta sig á því að í boði eru ágætir valkostir við flestan séreignarhugbúnað. Ýmislegt mælir með aukinni notkun opins hugbúnaðar jafnt hjá hinu opinbera, í einkageiranum og á heimilum landsins. Kostnaður er eitt þeirra atriða, en þó ekki endilega eins borðleggjandi og hörðustu fylgimenn vilja meina. Þjálfunarkostnaður, þjónusta og töpuð vinna á meðan skiptin fara fram er umtalsverður og sumar “commercial” lausnir standa reyndar samkeppni frá opnum hugbúnaði enn langtum framar (og öfugt – svo það sé sagt).

  Persónulega þykja mér rök á borð við þau að gæta þess að starfsaðferðir festist ekki í viðjum einstakra framleiðanda, t.d. vegna lokaðra skráarsniða eða að verkferlar krefjist ákveðinna, dýrra séreignarlausna vega mun þyngra. Eins þarf skólakerfið að gæta þess að draga ekki vagn tiltekinna fyrirtækja. Það er hins vegar jákvæð þróun að sem flestir átti sig á því að það eru valkostir við þann hugbúnað sem þeir hafa vanist.

  Ég sé fyrir mér að opinn hugbúnaður muni ryðja sér nokkuð afgerandi til rúms hjá hinu opinbera á árinu og í auknum mæli í einkageiranum líka.

 • Hræringar á fjarskiptamarkaði: Fjarskiptamarkaðurinn er – eins og svo margt annað í samfélaginu – dálítið upp í loft eftir bankahrunið.

  Teymi, aðaleigandi Vodafone fór á hausinn árið 2009, félögin fengu gríðarmiklar skuldir afskrifaðar og eignarhaldið er núna í höndum Landsbankans að mestu leyti. Landsbankinn leysti jafnframt til sín stóran hluta í Tali á árinu.

  Nova hefur gengið framúrskarandi vel að ná til sín viðskiptavinum í farsímaþjónustu, en er nánast örugglega enn rekið með allmiklum halla. Ólíklegt er að eigendur hafi mikið fé til að standa undir því áfram og því er 2010 líklega árið sem Nova þarf að fara að standa undir sér. Það þýðir væntanlega gerbreytta verðskrá og tilboð. Fyrirtækið er að auki að stórum hluta í eigu Novators, og ég get ímyndað mér að stjórnendur Nova hafi svitnað verulega í látunum vegna Verne. Það er aldrei að vita hvenær sambærileg reiði gæti bitnað á öðrum fyrirtækjum sem tengjast Novator og Nova liggur vel við höggi, þar sem fyrirtækið starfar á einstaklingsmarkaði fyrst og fremst.

  Hlutdeild Símans á farsímamarkaði fór í fyrsta sinn niður fyrir 50% á árinu, en fyrirtækið er engu að síður í afburðastöðu í fjarskiptageiranum í heild. Afkoma Símans er líklega mjög góð eins og alltaf hefur verið, en eignarhaldið gæti raskast verulega á árinu. Síminn er jú í eigu Skipta og þar liggja að mestu leyti lánin sem notuð voru til kaupanna á Símanum á sínum tíma. Skipti eru svo aftur í eigu Exista og “Exista er í eigu guðs almáttugs” eins og einn félagi minn komst að orði.

  Það er engin leið að sjá fyrir hvernig þessi markaður á eftir að stokkast upp á árinu, en það er deginum ljósara að hér verða miklar hræringar. Ólíklegt er að Síminn fái að taka of mikinn þátt í samþjöppun á þessum markaði af samkeppnisástæðum og því ætla ég að leyfa mér að spá því að eignarhald Nova, Tals og Vodafone eigi eftir að renna saman að einhverju leyti á árinu 2010.

Hvað haldið þið að muni gerast á árinu? Einhver til í að veðja á móti mér í einhverjum af þessum vangaveltum? Er ég úti á þekju í einhvejrum málum?

Gleðilegt tækniár!

Nýja Kauphöll takk

kauphoell.width-900.jpgUndanfarna daga hafa verið ræddar í fjölmiðlum hugmyndir um að skrá í Kauphöllina fyrirtæki sem bankarnir hafa tekið yfir og koma þeim þannig í almenningseigu.

Í grunninn held ég að þetta sé góð hugmynd. Að mörgu leiti betri en beint söluferli í umsjón bankanna sjálfra og án alls efa betra en það handstýrða og ógagnsæja ferli sem virðist vera í gangi með önnur.

Hins vegar þarf Kauphöllin að taka verulega til í sínum ranni ef hún á að verða vettvangur þessara viðskipta. Ég er ekki einu sinni viss um að Kauphöllin í þeirri mynd sem hún hefur verið starfrækt eigi sér viðreisnar von. Ástæðan? Jú, Kauphöllin er ein þeirra stofnana sem gerbrást í aðdraganda Hrunsins og þarf að líta í eigin barm, viðurkenna mistök sína og ábyrgð og breyta starfsháttum og reglum áður en hún er tilbúin til að taka þátt í endurreisnarstarfinu.

Byrjum á smá bakgrunnsupplýsingum…

Um hlutafélög
Hlutafélög eru stórmerkilegar stofnanir. Þau gera fólki úr ólíkum áttum kleift að taka saman höndum um verkefni sem hver og einn hefði verið ófær um einn og sér. Sumir geta lagt mikið til þeirrar hugmyndar eða þess verks sem fyrir höndum er og aðrir minna, en ramminn á að tryggja að allir sitji við sama borð og njóti ávaxtanna – og taki á sig áhættuna – í hlutfalli við það sem þeir leggja til.

Að auki takmarkar hlutafélagaformið ábyrgð hluthafanna við það fé sem þeir leggja félaginu til og þannig geta menn lagt verkefni lið, án þess að eiga á hættu að tapa öðru en því sem þeir hafa eyrnamerkt verkefninu. Þetta er líka mikilvægt, því fáir myndu leggja áhættusömu verkefni lið ef það gæti sjálfkrafa stofnað öllum eigum þeirra í hættu. Þetta á líka að öllu jöfnu að þýða það að hlutafélag fái aldrei að stofna til skuldbindinga umfram það sem hlutaféð, rekstur fyrirtækisins og eignir þess geti staðið undir.

Hlutafélög verða þannig til þess að margvísleg verkefni geta orðið að veruleika, sem annars yrðu ekki og ýta þannig undir nýsköpun, skapa störf og auka – þegar vel tekst til – lífsgæði okkar og samfélag. Gunnhugmyndin á bakvið hlutafélagaformið er því besta mál.

Hlutabréfamarkaðir eru að sama skapi mikilvægir. Virk viðskipti með hlutabréf í félagi mynda verð á þeim og meta þannig í raun í sífellu stöðu og framtíðarhorfur fyrirtækisins. Þetta gerir fólki sem lagt hefur verkefni til fé kleift að losa fjármuni á sanngjörnu verði á hverjum tíma og njóta þannig ávaxtanna – eða taka á sig það tap – sem orðið hefur yfir það tímabil sem viðkomandi hlutur var í þeirra eigu. Þetta minnkar enn frekar tregðu fólks við að leggja fé í hlutafélag. Ekki þarf að bíða þar til verkefninu er lokið, eða fyrirtækið fer að borga arð til að geta losað um það fé sem lagt var inn.

Það má því segja að hlutafélög og góður hlutabréfamarkaður sé forsenda fyrir kröftugu atvinnulífi, nýsköpun og uppbyggingu.

Íslenska Kauphöllin var aftur á móti ekki góður hlutabréfamarkaður – og Kofinn sem eftir stendur verður aldrei góð Höll nema til komi grundvallarbreytingar á starfsemi hennar.

Upplýsingagjöf

Lykillinn að ofangreindum kostum hlutafélaga og hlutabréfamarkaða er öflug upplýsingagjöf. Því betri upplýsingar sem kaupendur og eigendur hluta í félaginu hafa um stöðu þess á hverjum tíma, því betri aðstöðu eru þeir í til að meta áhættu og möguleika félagsins. Það er því algert lykilatriði að allir hafi jafnan og eins mikinn aðgang að upplýsingum eins og hægt er – annars skapast ójafnvægi og óvissa um þá þætti sem þurfa að liggja til grundvallar við verðmat hlutanna.

Þetta er líka reynt að tryggja með hlutafélagalögunum og starfsreglum hlutabréfamarkaða. Þeir sem hafa meiri upplýsingar um starfsemina en aðrir, s.s. stjórnendur, stjórnarmenn og í sumum tilvikum aðrir starfsmenn fyrirtækjanna, kallast innherjar – og um viðskipti þeirra með hluti gilda aðrar reglur en um almenna fjárfesta. Öllum öðrum á að tryggja jafnan og öruggan aðgang að upplýsingum. Í tilfelli kauphalla er þetta gert með reglum um birtingu ársreikninga, ársfjórðungsuppgjöra og þess á milli sérstakra tilkynninga ef ástæða er til.

Hrunið kom upp um algera brotalöm í þessari upplýsingagjöf í íslensku Kauphöllinni. Það vantaði svo sem sjaldnast upp á það að umræddum skjölum væri skilað (þó þess séu dæmi, einkum eftir Hrun), en þau sögðu bara ekki alla söguna. Reyndar má segja að þau hafi oft sagt bara einhverja allt aðra sögu – sögu af einhverjum félögum sem aldrei voru til nema í hugum eigendanna og þeirra sem sáu um “upplýsinga”-gjöfina:

 • Flókið net krosseignatengsla kom í veg fyrir að eignarhald á félögunum væri ljóst;
 • Stórlega ýktar “óefnislegar eignir” og “viðskiptavild” (sem reyndar eru hvort tveggja hugtök sem eiga fullan rétt á sér ef rétt er með farið) komu í veg fyrir að nokkuð væri hæft í efnahagsreikningum fyrirtækjanna;
 • Sýndarviðskipti – oft með lánum frá félögunum sjálfum – héldu uppi falsaðri eftirspurn eftir bréfum og þar með verði þeirra; og
 • Tap af óvarlegum viðskiptum var falið með því að selja “eitraðar eignir” inn í nýstofnuð dótturfélög sem áttu svo jafnvel ekkert annað.
 • Endurskoðendur félaganna kvittuðu upp á allt saman með glöðu geði og léðu þessum upplýsingum þar með trúverðugleika.

Þessi listi gæti hæglega verið lengri og lengist reyndar sífellt eftir því sem fleiri kurl koma til grafar.

Allt þetta átti sér stað í Kauphöllinni – þeirri sem nú ætlar að taka þátt í endurreisninni. Þeim til varnar má reyndar segja að það sama hefur að einhverju leiti átt sér stað í kauphöllum úti um allan heim, en það þýðir ekki að við eigum bara að endurvekja sama kerfið. Það partý er búið og ef það verður aftur veisla, verður hún á allt öðrum forsendum, með öðrum boðslista og mun hófstilltari skemmtiatriðum.

Við eigum ekki að sætta okkur við óbreytt fyrirkomulag. Ef við ætlum að virkja kosti hlutafélagaformsins aftur til fulls þarf nýja hugsun og nýjar reglur.

Annan október í fyrra, þegar hamfarirnar voru varla byrjaðar, skrifaði ég þessa færslu sem stendur jafnvel enn frekar fyrir sínu nú en þá. Ég held ég noti bara eftirfarandi klausu úr henni til að lýsa því hvert ég er að fara:

Lög um upplýsingagjöf í kauphallarviðskiptum eiga sér meira en aldarlanga sögu og tilgangur þeirra er að markaðsaðilar sitji við sama borð með bestu fáanlegu upplýsingar á hverjum tíma. Á þeim tíma sem lögin eru mótuð, hefur ársfjórðungsleg birting á rekstrartölum líklega verið ansi stíf krafa – jaðrað við það að vera rauntíma upplýsingagjöf með þeirra tíma tækni. Í dag er þessu öðruvísi farið. Það er ekkert sem stoppar kauphallir í að setja kröfur um rauntímaaðgengi að hverju sem þeir kjósa. Já – jafnvel inn í bókhald fyrirtækjanna, sjóðsstreymi þeirra, útistandandi kröfur og eignastöðu.

Þannig gæti fjárfestir, hvort sem hann er að fjárfesta í hlutabréfum, skuldabréfum, eða einhverjum sjóðum, grafið sig niður í minnstu smáatriði fjárfestingar sinnar. Svolítið eins og DataMarket og fjárlögin, nema bara á miklu stærri skala og með miklu meiri nákvæmni.

Ef svona hefði verið, hefðu margir verið búnir að benda á samsetninguna í Sjóði 9 og hversu mikið hékk þar á fáum, tengdum aðilum. Það hefði líka verið búið að grafa í alla undirmálsvafningana og gagnrýna þá. Hrunið stafar af miklu leiti af því að fáir, ef nokkur, hafði tækin til að sjá í gegnum flækjuna sem búið var að spinna í allskyns fjármálagjörningum.

Ég held að þegar þessum hamförum á fjármálamörkuðum lýkur og menn fara að endurskoða leikreglurnar, sé eitthvað á þessa leið líklegt til að verða ofan á. Ekkert annað en fullkomið gegnsæi á öll tiltæk gögn getur aukið tiltrú almennings á þessum mörkuðum aftur.

Warren Buffet fjárfestir aldrei í neinu sem hann skilur ekki. Með rauntímaaðgang í undirliggjandi vef fjármála- og bókhaldskerfa myndu allir hafa tólin til að skilja það sem að baki fjárfestingum þeirra og hópnum sem heild treystandi til að veita markaðsaðilum aðhald með því að rýna í þessar tölur með og beita allskyns greiningar- og birtingartólum til að koma auga á veilurnar í kerfinu.

– – –

Aðrar færslur frá mér (og DataMarket) um tengd málefni:

Opin veðurgögn – skref í rétta átt

Á þriðjudaginn var stigið lítið en mikilvægt skref í átt að opnum gögnum á Íslandi.

Þá var nefnilega opnaður aðgangur almennings að Gagnatorgi veðurupplýsinga. Á þessu gagnatorgi má með einföldum hætti nálgast allar veðurathuganir Veðurstofu Íslands sem skráðar eru í gagnagrunna hennar. Þessar athuganir taka til u.þ.b. 200 veðurstöðva víðsvegar um landið og ná í sumum tilvikum allt aftur til ársins 1931.

Mörgum þeim sem e.t.v. eru ekki heitir áhugamenn um veðurfar og veðurupplýsingar kann að finnast lítið til koma, enda er virkni lausnarinnar tiltölulega afmörkuð og augljósar viðbætur sem hægt er að gera t.d. til að bæta myndræna framsetningu þessara veðurgagna og almennt upplýsingagildi. Lausninni var þó ekki ætlað að gera annað eða meira á þessu stigi málsins en að gera gögnin auðveldlega aðgengileg skólafólki, áhugamönnum um veðurfar og öðrum sem kunna að hafa gagn af þeim.

Mig langar samt að benda á að þetta er að mörgu leiti mjög merkilegt skref, því það setur það tóninn fyrir það sem koma skal í opnu gagnaaðgengi hér á landi.

Veðurgögnin sem þarna er opnað aðgengi að eru afurð áratuga starfs óeigingjarnra athugunarmanna, veðurfræðinga, tæknimanna og annara sem komið hafa að því að byggja upp öflugt kerfi veðurathugana hér á landi. Og frá og með þriðjudeginum skila þessi gögn sér jafnóðum inn í Gagnatorg veðurupplýsinga og eru samstundis aðgengileg landsmönnum öllum.

Þetta eru þau gögn sem liggja að baki þeim veðurspám, spálíkönum og veðurrannsóknum sem stundaðar hafa verið hér á landi; ómetanlegur grunnur að þekkingu, öryggi landsmanna og nýtingu okkar á gæðum lands og sjávar.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að opið aðgengi almennings, skólafólks, fræðasamfélags og einkafyrirtækja að þessum gögnum mun leiða af sér enn meiri þekkingu, fróðleik og verðmæti. Menntaskólanemendur munu nota Gagnatorgið til heimildaöflunar, grunnskólanemendur munu þar kynnast samhengi vindstyrks og vindáttar í sinni heimabyggð og af hverju afi segir að það komi alltaf þoka þegar hann er “að austan”. Flugáhugamenn munu finna flugvöllum sínum stað og ef til vill mun einhver áhugamaður um veðurfar gera merkilega uppgötvun um veðrið á Akureyri. Hver veit?

Líklega eiga merkilegustu áhrif þess að opna aðgengi að þessum gögnum eftir að vera eitthvað sem við höfum ekki hugmyndaflug til að ímynda okkur núna.

Ég tek heilshugar undir það sem Menntamálaráðherra sagði við opnun gagnatorgsins:

Opinber gögn sem safnað hefur verið fyrir opinbert fé eru fjársjóður sem enn er að stóru leiti óuppgötvaður. Veðurgögn eru aðeins eitt af ótal dæmum.

Opið gagnaaðgengi tilheyrir alls ekki einhverri ákveðinni stefnu í pólitík – þetta er eitt af þeim málum sem allir ættu að geta verið sammála um hvort sem þeir aðhyllast svokallaða hægri- eða vinstri-stefnu í pólitík. Óheft og jafnt aðgengi að upplýsingum er t.d. grundvallaratriði í frjálsum markaðsbúskap og þó ólíkar stefnur greini á um hve mikil umsvif ríkisins eigi að vera, held ég að fólk sé almennt sammála um að okkur beri að hámarka verðmæti þess sem unnið er fyrir opinbert fé.

Í opnara aðgengi að gögnum hins opinbera bíða fjölmörg tækifæri vísindamanna, skólafólks, nýsköpunar og atvinnulífs framtíðarinnar. Opnun Gagnatorgs veðurupplýsinga er bara lítið skref á þeirri braut, en ég er viss um að við munum á næstu mánuðum og árum sjá aðgengi opnað að fjölmörgum öðrum gagnasöfnum sem munu knýja nýsköpun og þekkingu og auka aðhald almennings og fjölmiðla að starfsemi jafnt hins opinbera sem einkaaðila.

Nú er undir áhugamönnum um veður, vísindi og opið gagnaaðgengi að sýna hvað í þeim – og veðurgögnunum – býr og sanna þar með hverju opið gagnaaðgengi getur áorkað.

– – –

Það eru fyrirtækin Reiknistofa í veðurfræði og DataMarket (sem undirritaður rekur ásamt öðrum) sem standa að þróun og rekstri Gagnatorgsins.