nýsköpun

Fimm ráð handa frumkvöðlum

Start09Aðstandendur Start09 átaksins báðu mig um að skrifa nokkra punkta um það sem ég hefði lært af því að koma á fót sprotafyrirtækjum í gegnum tíðina. Textinn hér að neðan er útkoman úr því, en þessir punktar birtust á vefnum þeirra núna á mánudaginn.

Síðan ég útskrifaðist úr menntaskóla hef ég varla gert annað en að stofna og reyna að koma á legg sprotafyrirtækjum. Fyrirtækið sem ég rek núna – DataMarket – er fjórða fyrirtækið sem ég stofna í félagi við aðra undanfarin 12 ár. Sumt hefur gengið upp, annað ekki – eins og gengur. Í öllum tilfellum hafa verið bæði stórir sigrar og stór vonbrigði. Að starta sprotafyrirtæki er rússíbanareið: skemmtilegt, skelfilegt og alls ekki fyrir alla.

Hér eru fimm heilræði um sprotastarf sem ég þykist hafa lært sjálfur eða af öðrum í mínum rússíbanaferðum.

1. Haldið væntingunum í skefjum
Það er alveg saman hvað þið eruð klár, eruð með góða hugmynd, gott fólk, snjalla markaðssetningu, ómissandi vöru eða skothelt einkaleyfi – langlíklegasta niðurstaðan úr þessu sprikli er að fyrirtækið gangi ekki upp. Að það hætti rekstri eða renni út í sandinn þegar plönin ganga ekki eftir. Þetta er staðreynd. Tölfræðin einfaldlega segir það.

Langflest sprotafyrirtæki eru hætt starfsemi 3-4 árum eftir stofnun. Önnur malla áfram, etv. í ágætum rekstri en án þess að virkilega “meika það”. Mjög fá slá í gegn og í flestum tilfellum tekur það þá næstum áratug af harki. Frægð, frami og ríkidæmi er fágæt undantekning, ekki reglan. Og munið að hlutafé er einskis virði fyrr en einhver hefur keypt það af ykkur!

Þetta þýðir ekki að þið eigið ekki að hafa trú á því sem þið eruð að gera. Þið verðið að hafa það, annars eru örlögin ráðin strax. En væntingastjórnunin er mikilvæg, ekki bara fyrir þig, heldur líka fyrir fólkið í kringum ykkur: starfsfólkið, ættingja, vini og samstarfsaðila.

Hafiði fæturna á jörðinni, þó hausinn sé í skýjunum.

Það sem á að drífa ykkur áfram er möguleikinn á að dæmið gangi upp, ekki fullvissan um það… og svo auðvitað hvað þetta er fáránlega gaman!

2. Það sem þið eruð að gera er EKKI leyndarmál
Ekki hika við að segja öllum sem heyra vilja hvað þið eruð að fást við. Ekki halda að allir muni stela hugmyndinni ykkar. Þið eruð heppinn að fólk vill hlusta. Staðreyndin er sú að flestir eiga eftir að reynast hjálplegir: koma með góðar athugasemdir, tengja ykkur við verðmæta samstarfsaðila eða viðskiptavini, bera út fagnaðarerindið fyrir ykkur eða jafnvel vilja vinna með ykkur eða fjárfesta í hugmyndinni.

Veltið því fyrir ykkur eitt augnablik: Hversu margir eru í þeirri aðstöðu, skilja hugmyndina ykkar svo vel, geta komið saman þeim hóp og fjármagni sem til þarf og eru til í að leggja allt undir og um leið nógu bíræfinn til að taka YKKAR hugmynd og gera hana að veruleika fyrir framan nefið á ykkur? Enginn. Og þið mynduð hvort sem er mala þá, því það eruð þið sem eruð búin að velta fyrir ykkur öllum hliðum málsins í marga mánuði, búin að setja saman hóp, setja saman plan, átta ykkur á samkeppninni, skoða markhópinn, finna hentugustu leiðirnar til að dreifa vörunni og svo framvegis. Þið eruð fólkið til að gera þessa hugmynd að veruleika, aðrir sem hafa frumkvöðlaeðlið í sér eru hvort eð er með sínar eigin hugmyndir.

Þegar öllu er á botninn hvorlft er hugmyndin líka minnsti hlutinn af árangrinum. 99% árangursins næst með blóði svita og tárum, eða eins og Edison sagði: “It’s 1% inspiration and 99% perspiration”. Hann vissi líklega sitthvað um nýsköpun og sprotastarfsemi.

3. Leyfið ykkur að skipta um skoðun
Þegar þið eruð lögð af stað með nýsköpunarhugmynd er alveg gefið að tilviljanir munu leika stærsta hlutverkið í því hvernig til tekst. Þið leggið líklega af stað með nokkuð skýra hugmynd, en eftir því sem þið veltið henni betur fyrir ykkur, þeim mun fleiru komist þið að sem hefur áhrif á þá sýn. Hún kann jafnvel að virðast fjarlægari þegar þið áttið ykkur á því hvað það tekur langan tíma að þróa hana, hvað samkeppnin á viðkomandi markaði er í raun mikil og hversu erfitt er að ná til væntanlegra notenda hennar.

Þá er gott að muna að það er styrkleikamerki að skipta um skoðun. Ekki endilega að taka vinkilbeygju og fara að gera eitthvað allt annað, en að breyta stefnunni, forma hugmyndirnar og styrkja viðskiptaáætlunina með tilliti til nýrra upplýsinga. Ekki halda að fjárfestar eða samstarfsaðilar muni missa trúna á ykkur. Sé þetta gert með góðum rökum munu þeir þvert á móti öðlast aukna trú og nýjir aðilar fá hana.

Algengustu breytingar af þessu tagi er að finna sér smærri hillu eða áfanga á leiðinni að stóra markmiðinu. Líklega kemur í ljós að upphaflega hugmyndin var of stór í sniðum. Það reynist ekki raunhæft að sigra heiminn í einu skrefi, en það eru mögulega smærri sigrar á leiðinni þangað. Hugsanlega hefur lokatakmarkið alls ekki breyst, en þið hafið fundið ýmis smærri tækifæri á leiðinni þangað.

Ef þið hafið dottið niður á spennandi svið er eins víst að upphaflega lokatakmarkið náist aldrei, en að það séu áhugaverðar beygjur á leiðinni þangað sem etv. reynast mikið merkilegari en upphaflega takmarkið þegar allt kemur til alls.

4. Hafið góða sögu að segja
Þið þurfið að vera góðir sögumenn. Hvert er vandamálið sem er verið að leysa? Af hverju eruð þið fólkið til að gera það? Hvernig kviknaði hugmyndin? Svörin við þessum spurningum þurfa að vera spennandi sögur með upphaf, ris og endi. Helst spennu, drama, blóð og eltingaleiki líka ef vel á að vera.

Hvers vegna? Vegna þess að fólk elskar sögur. Þetta á eftir að hjálpa ykkur að komast að í fjölmiðlum, hjálpa ykkur að útskýra það sem þið eruð að fást við fyrir fjárfestum og samstarfsaðilum. Gera viðskiptavini áhugasama um að versla við ykkur. Allt er auðveldara ef þið getið sagt áhugaverðar sögur.

Hollensk verktakafyrirtæki eru það fyrsta sem fólki dettur í hug þegar á að reisa flóðvarnargarð einhversstaðar í heiminum, enda þekkja allir Holland sem landið undir sjávarmáli og hafa heyrt söguna um strákinn sem stakk puttanum í gatið. Þetta er frábær saga, en Hollensk fyrirtæki eru ekkert sérstaklega fær í að byggja flóðvarnargarða – þau sem það gera eru flest frá Belgíu!

Decode segir frábæra sögu um uppruna Íslendinga, Össur segir frábærar sögur um spretthlauparann Oscar Pistorius, Apple segir söguna af því hvernig tveir vinir smíðuðu fyrstu tölvurnar í bílskúrnum hjá foreldrum sínum, Coke segir söguna af leynilegu uppskriftinni og Richard Branson gerir í því að eltast við ævintýri til að geta vakið athygli á því sem Virgin er að fást við þá stundina. Þetta eru engar tilviljanir – fyrirtækin hafa komist áfram á þessum sögum, etv. mis-meðvituð um það hvað þau voru að gera.

5. Ógeðslega erfitt og skelfilega gaman
Það er ekkert 9-5 djobb að koma af stað nýju fyrirtæki. Þetta eru langir vinnudagar og þar fyrir utan verðiði vakin og sofin í að velta fyrir ykkur ýmsu sem við kemur fyrirtækinu. Kannski með áhyggjur af fjármálunum, kannski með frábæra nýja hugmynd sem getur betrumbætt vöruna, kannski bara lausn á vandamálinu sem þið voruð akkúrat að glíma við í dag.

Þar að auki eruð þið málsvarar fyrirtækisins hvar sem þið komið, hvort sem ykkur líkar betur eða verr. Gamlar frænkur eiga eftir að þurfa útskýringar í fermingarveislum á því “hvað það er nú eiginlega sem þú gerir?” og “hvernig færðu pening fyrir það?”, það verða líka tilviljanakennd tækifæri – þið lendið óvænt í matarboði með mikilvægum fjárfesti eða draumaviðskiptavininum og þá er betra að vera með allt á tæru.

Það verða vinnutarnir þar sem ljúka þarf hlutum fyrir mikilvægan fund, sýningu eða útgáfudagsetningu. 20 tíma vinnudagar, 3 í röð, pizzur og svefngalsi, stress, læti og jafnvel rifrildi.

Einmitt þess vegna er nauðsynlegt að þetta sé gaman. Ekki bara ánægjulegt, heldur ógeðslega gaman – það skemmtilegasta sem þið getið hugsað ykkur. Og það er akkúrat það sem á eftir að ráða mestu um það hvort vel tekst til. Ef vinnan er skemmtileg kemur allt hitt meira og minna af sjálfu sér, og jafnvel þó hlutirnir gangi ekki upp var það samt skemmtilegt. Hver getur sagt nei við því 🙂

Opin gögn og gagnsæi – yfirlýsing stjórnvalda

transparencyFyrir nokkrum vikum skrifaði ég færslu á bloggsíðu DataMarket um það sem kalla mætti “vægðarlaust gagnsæi“. Færslan gengur í stuttu máli út á það að leiðin til að endurreisa traust á Íslandi – jafnt inn á við sem út á við – felist í gagnsæi og heiðarleika á áður óþekktu stigi – að sýna svo ekki verður um villst að það sé ekkert að fela.

Færslan er skrifuð á ensku og hefur vakið dálitla athygli. Hún leiddi m.a. af sér viðtal í veftímaritinu Frontier Economy þar sem farið er dýpra í saumana á sumum þeim hugmyndum sem þar voru settar fram.

Ég hef líka skrifað og beitt mér fyrir opnum gögnum í töluverðan tíma. Opin gögn snúast í stuttu máli um það að öll gögn sem safnað er eða útbúin hjá opinberum aðilum eigi að vera opin og aðgengileg öllum, án hindrana, nema brýnar ástæður séu til annars, t.d. af persónuverndar- eða öryggissjónarmiðum. Á vefnum opingogn.net má nálgast drög að íslenskri þýðingu skilgreiningar á opnum gögnum.

Í raun má segja að opin gögn og vægðarlaust gagnsæi séu tvær hliðar á sama málinu:

 • Opin gögn snúast um meðferð gagna í umsjá hins opinbera.
 • Vægðarlaust gagnsæi snýst hins um það hvort e.t.v. sé ástæða til að safna eða framreiða einhver gögn til viðbótar við það sem þegar er í þeim tilgangi sérstaklega að upplýsa um framvindu eða stöðu mála.

obama-kundraUm þessar mundir gengur yfir heiminn vitundarvakning varðandi mikilvægi opinna gagna og þá sérstaklega “formfastra gagna” (e. structured data). Mest áberandi er þessi vakning í Bandaríkjunum, en þegar á fyrstu dögum í embætti gaf Obama út skýr fyrirmæli um það að opinberar stofnanir skyldu sem allra fyrst gera gagnasöfn sín aðgengileg almenningi á vefnum, án hindrana. Hann réð jafnframt í fyrsta skipti til starfa upplýsingatæknistjóra (CIO) við stjórnina – sá heitir Vivek Kundra og hefur lyft grettistaki á stuttum tíma. Helsta birtingarmynd þess er vefsvæðið Data.gov, þar sem nú má nálgast yfir 100 þúsund gagnasöfn frá hundruðum opinberra stofnanna. Þessi gögn hafa svo bæði fjölmiðlar, fyrirtæki og áhugasamir einstaklingar notað við afar áhugaverð verkefni sem opna ný tækifæri, auka skilning á flóknum þáttum samfélagsins og veita hinu opinbera aðhald.

berners-leeÍ Bretlandi hafa báðir stóru flokkarnir markað skýra stefnu í þessa veru. Stjórnin hefur þar að auki fengið til liðs við sig engan annan en Tim Berners-Lee. Berners-Lee hefur verið kallaður “faðir vefsins” og er vel að þeim titli kominn enda bjó hann til HTML staðalinn sem allar vefsíður og þar með vefurinn allur byggir á. Berners-Lee hefur í seinni tíð verið ötull talsmaður opinna gagna og hefur sennilega betri skilning á því en flestir hversu verðmætt opið aðgengi og samtengingar gagna úr ólíkum áttum getur verið.

roslingAð lokum má nefna sænska prófessorinn Hans Rosling, sem hefur með líflegri framsetningu gagna vakið marga – ekki síst alþjóðastofnanir á borð við Sameinuðu Þjóðirnar, OECD og jafnvel Evrópusambandið – til umhugsunar og góðra verka í því að gera sín gögn aðgengilegari en verið hefur.

Fáir hafa þó meiri þörf fyrir að meðtaka þessa hugmyndafræði en einmitt trausti rúnir Íslendingar. Ég veit fyrir víst að víða er vilji og sums staðar skilningur fyrir þessum málum, en mörg nýleg dæmi sýna mikilvægi þess að ná almennum vilja, skilningi og aðgerðum á þessu máli til þess að við getum byggt hér upp heiðarlegt samfélag trausts og samstöðu.

Í ríkjandi kerfi er litið svo á að öll gögn séu trúnaðarmál nema sérstök ástæða sé til að opna þau. Þessum hugsanahætti þarf að snúa við. Gögn opinberra aðila eiga hér eftir að vera opin nema sérstök ástæða sé til að vefja þau trúnaði.

Ég gerði mér því að leik að skrifa drög að örstuttri yfirlýsingu sem ég legg hér með til að ríkisstjórnin (og reyndar aðrir opinberir aðilar, s.s. sveitarfélög) geri að sinni og fylgi svo eftir með aðgerðum:

Öll gögn í umsjón opinberra aðila skulu hér eftir vera opin og aðgengileg almenningi án hindrana, nema brýnar ástæður séu til annars. Skilgreindar verða skýrar viðmiðunarreglur um hvað teljast ástæður til hindrana með tilliti til persónuverndar, öryggissjónarmiða og annara ríkari hagsmuna. Undantekningar skulu vera vel rökstuddar og skal ekki hindra aðgang meira en til að mæta þeim rökum.

Allar stofnanir hins opinbera skulu þegar í stað birta skrá yfir þau gögn og gagnasöfn sem þær ráða yfir og gera gögn þeirra aðgengileg á því formi sem þau eru nú á. Jafnframt skal skrá gagnasöfn sem ekki er opnaður aðgangur að, tilgreina efnistök þeirra, ástæður fyrir hindrunum á aðgengi og hvenær þeim hindrunum verði aflétt. Til lengri tíma skal leitast við að gera gögnin aðgengileg á stöðluðu, tölvutæku formi sem tekur tillit til allra þátta sem kveðið er á um í skilgreiningu opinna gagna.

Stofnanir skulu einnig gera úttekt á því hvort starfsemi þeirra gefi ástæðu til að safna sérstaklega gögnum umfram það sem þegar er gert í þeim tilgangi að auka gagnsæi á starfsemi sína eða á samfélagið almennt.

Það er ekki flókið að gefa þessa yfirlýsingu, ekki dýrt að fylgja henni eftir og reyndar að miklu leiti þegar kveðið á um þessa hluti í upplýsingalögum og annari stefnumörkun sem þegar hefur átt sér stað. Núna er bara ríkari ástæða en nokkru sinni til að láta verkin tala og endurbyggja þannig traustið sem tapaðist.

Framtíð og gengi íslensku krónunnar

picture-9Framtíð og gengi krónunnar er ein af stærstu spurningunum núna í endurreisninni, enda snertir þetta mál svo að segja alla aðra þætti sem máli skipta: skuldastöðu þjóðarbúsins, stöðu heimila og fyrirtækja, efnahag bankanna, vísitölu neysluverðs og svo framvegis.

Það skiptir því ekki litlu máli að reyna að átta sig á hvaða þættir munu ráða genginu og hvað verður um krónugreyið.

Ég skrifaði reyndar pistil í þessa veru upppúr miðjum október, sem mér sýnist hafa staðist tímans tönn ágætlega og standi að miklu leiti fyrir sínu þó margt hafi skýrst síðan þá. Það eru einna helst lokaorðin – þar sem ég fullyrði að stöðugleiki fáist aðeins með tengingu við stærra myntkerfi – sem ég er ekki alveg jafn viss um og áður. Það stafar að hluta til af þeirri vantrú sem ég hef öðlast á þá peningamálastjórnun sem flestar myntir heimsins notast við, en að hluta til af því að ég hef þá trú að litlar myntir geti nýst litlum hagkerfum betur en stórar EF rétt er haldið á spilunum.

(Það er hérna sem þið eigið að hrista hausinn í vantrú og hneykslan á vitleysunni í mér og gefa mér svo séns og lesa áfram)

Ekki sama króna og króna

Það sem við höfum kallað “íslensk króna” eru í rauninni margar myntir. Íslenska krónan lýtur þeirri gengis- og peningamálastefnu sem rekin er hverju sinni. Íslenska krónan sem lagði upp laupana í október síðastliðnum var tekin upp í mars 2001 þegar Seðlabankinn tók upp svokallað verðbólgumarkmið. Hún náði því aðeins 7 og 1/2 árs aldri.

Íslenska krónan sem við búum við núna í gjaldeyrishöftunum er svo önnur mynt. Ekkert vit er að reyna að lesa eitthvað í hreyfingar á skráðu gengi þeirrar krónu frá degi til dags. Til þess að átta okkur á því sem “markaðurinn er að segja” þyrftum við að vita hver er að kaupa, hver er að selja og hversu mikið. Sérstaklega skiptir máli hversu mikið Seðlabankinn tekur þátt í þessum viðskiptum.

Fram til 2001 setti Seðlabankinn sér ákveðin vikmörk í gengi krónunnar, þar áður voru önnur viðmið og svo koll af kolli. Sennilega hefur hin “íslenska króna” sem fyrst kom fram sem sjálfstæð mynt 1918 (hafði áður verið tengd dönsku krónunni) gengið í gegnum 10-20 tímabil mismunandi peningastjórnunnar og er því í raun rétt að tala um að 10-20 mismunandi gjaldmiðlar hafi verið hér í gangi síðan þá.

Þessar mismunandi stefnur í peningastjórnun eru mannanna verk og það erum við – Íslendingar – sem ráðum því hvernig henni er stýrt á hverjum tíma. Því miður höfum við ekki borið gæfu til að detta niður á góða leið í þessum málum, en við vitum þó a.m.k. um nokkrar útfærslur sem við ætlum hér eftir að forðast!

Næsti gjaldmiðill sem tekinn verður upp á Íslandi verður nefnilega ekki Evra, heldur enn ein útgáfa af íslenskri krónu. Þarna gildir einu hvort sótt verður um aðild að Evrópusambandinu eða ekki. Krónuna þarf fyrr en seinna að leysa úr gjaldeyrishöftunum, við munum búa við þá stefnu í a.m.k. 5 ár (líklega mun lengur) og það skiptir gríðarlega miklu máli hvaða aðferð verður þá fyrir valinu.

Helstu markmiðin við það val eru líklega:

 • Að stefnan hjálpi til við þá endurreisn sem framundan er á næstu árum.
 • Að koma í veg fyrir spákaupmennsku með gjaldmiðilinn.
 • Að hindra of hraðar breytingar í genginu, en jafnframt hafa sveigjanleika til að bregðast við langtíma breytingum á efnahag þjóðarinnar.
 • Að uppfylla skilyrði EES-samningsins um frjálst flæði fjármagns.

Vafalaust eru þessi markmið eitthvað fleiri.

Jafnvægis- og raungengi

Áður en lengra er haldið skulum við skoða tvö hugtök sem stundum koma upp í umræðunni, en fæstir vita hvað þýða í raun. Þetta eru hugtökin jafnvægisgengi og raungengi. Hvort tveggja eru tilraunir til að meta hvert “rétt gengi” gjaldmiðils er ef allt væri með felldu.

Í stuttu máli segir kenningin um raungengi að verð á samskonar vörum og þjónustu ætti alltaf að vera það sama milli landa, annars myndu einstaklingar nýta sér verðmuninn til hagnaðar. M.ö.o. ef verðlag t.d. hér á landi yrði áberandi hærra en í nágrannalöndunum myndi það þýða aukna verslun okkar erlendis (eða búferlaflutninga úr landi) og minnkandi áhuga útlendinga á að versla hér. Með sama hætti: ef verðlag hér yrði áberandi lægra þýddi það aukna verslun heima fyrir og aukinn áhuga útlendinga á verslun hér. Við höfum svo sannarlega séð þessar kenningar standast ágætlega síðustu mánuðina og jafnvel árin.

Hugtakið jafnvægisgengi virðist reyndar nokkuð á reiki og er stundum notað um raungengi eins og því er lýst hér að ofan. Sú merking sem ég á við er það gengi krónunnar sem veldur því að viðskiptajöfnuður við útlönd sé sem næst núlli. Með öðrum orðum, það gengi sem veldur því að tekjur okkar frá útlöndum séu sem næst gjöldum okkar til útlanda. Þarna spila inn í útflutningur og innflutningur, kaup og sala á þjónustu og síðast (en í okkar tilfelli alls ekki síst) fjármagnstekjur og -gjöld.

Reyndar leitast jafnvægis- og raungengi eins og þeim er lýst hér líklega við sama – eða mjög svipað – gengi til lengri tíma, en tímabundnar aðstæður geta valdið því að svo sé ekki (t.d. mikið streymi fjármagns í aðra hvora áttina, snöggar breytingar á inn- eða útflutningi o.s.frv.).

Þetta eru sem sagt mér vitanlega helstu kenningar um “rétt gengi” gjaldmiðla. Og hvert skyldi þá rétt gengi íslensku krónunnar vera? Seðlabankinn er svo vinsamlegur að mæla raungengi krónunnar. Hér má sjá þróun þess síðasta áratuginn:

raungengi-isk

Þessi mæling segir sem sagt til um það hvernig verðlag hér hefur þróast samanborið við nágrannalöndin. Eins og sjá má er raungengið í algeru sögulegu lágmarki og því full ástæða til að ætla að það ætti að styrkjast mjög verulega frá núverandi skráðu gengi. Tekið skal fram að vísitalan miðast eingöngu við verðlag eins og það var hér á landi í janúar 2000 og er því ekkert endilega “réttara” en annað. Meðaltal vísitölunnar þessi 10 ár er reyndar 99,6 – eða furðunærri upphafspunktinum.

Gengisfallið nú hefur valdið því að verðlag hér er verulega lægra en erlendis. Verðlag hér var klárlega verulega mikið hærra t.d. árið 2007. Raungengið liggur því þarna á milli, en útreikningur á “réttu raungengi” er mjög flókinn þar sem ekki er til nein samræmd neysluverðsmæling. Gefum okkur að gildið 90 færi nærri því að sýna sambærilegt verðlag hér og í helstu nágrannalöndum (þetta væri gagnlegt að reikna út á mun nákvæmari hátt).

Gamla góða gengisvísitala krónunnar væri skv. því nálægt 150 sem myndi þýða að Evran væri á 117, Dollarinn á 88 og Pundið á 130.

Það er hins vegar tvennt sem kemur í veg fyrir að jafnvægisgengið sé eins álitlegt:

 • Hræddu krónurnar” sem nefndar voru í fyrri færslu, þ.e. fjármagn sem útlendingar eiga í íslenskum krónum (t.d. jöklabréfum, öðrum krónubréfum og innistæðum) og svo að einhverju marki hræddar krónur Íslendinga sem ætla að skipta sínum fjármunum að einhverju eða jafnvel öllu leiti í erlenda mynt um leið og færi gefst vegna vantrúar sinnar á íslenskri efnahagsstjórnun.
 • Afborganir og vaxtagreiðslur af erlendum skuldum Íslendinga, þar sem þær greiðslur munu augljóslega þurfa að fara fram í erlendri mynt og mynda því streymi fjármagns úr landinu. Skuldir Íslendinga hver við annan í íslenskum krónum skipta engu í þessu samhengi. (Reyndar held ég að það sé hægt að eiga miklu meira við þær og stokka þær meira upp á nýtt en verið hefur í umræðunni – en það er mál í aðra færslu). Hér er auðvitað átt við skuldastöðu þjóðarinnar í heild, þ.e. ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja og heimila við erlenda aðila – ekki bara skuldir Ríkisins, sem mest hafa verið í umræðunni og mér sýnist reyndar ætla að verða tiltölulega viðráðanlegar.

Þetta eru semsagt þau atriði sem þarf að skýra til að átta sig á því hversu langt frá raungenginu gengi krónunnar ætti að vera á næstu misserum. Hér skiptir miklu máli hversu vel tekst til í ýmiskonar samningum. Margt bendir til að styttist í land hvað varðar erlendu fjármagseigendurna. Sú lending mun væntanlega hleypa þeim mest “desperat” út á mjög lágu gengi en festa þolinmóðara fé ýmist í lengri skuldabréfum hér á landi eða jafnvel í fjárfestingum í uppbyggingu (þá vona ég að hugmyndir Guðjóns Más um endurreisnarsjóð nái eyrum þeirra sem ráða).

Sömuleiðis virðist hylla undir samninga varðandi Icesave lánið (sem n.b. hefur mér vitanlega ekki enn verið veitt og hefur skv. því enn ekki kostað okkur krónu), en enn er mörgu ósvarað um aðra þætti sem skipta máli í þessu samhengi.

Næsta króna

Nú er ég bara leikmaður í þessu öllu saman, en ég sé ekki annað en það sé til tiltölulega einföld lausn sem uppfylli öll fyrr talin markmið og sé að auki tiltölulega einföld í framkvæmd.

Næsta króna verði einfaldlega miðuð við það að halda genginu rétt fyrir neðan jafnvægisgengi á hverjum tíma. Sem sagt að tryggja að í hverjum mánuði komi örlítið meiri gjaldeyrir til landsins en fari úr landi og hjá þjóðinni safnist smám saman upp gjaldeyrisforði. Þetta getur gerst á frjálsum og opnum markaði, með inngripum Seðlabanka ef markaðurinn leitar langt út fyrir þetta jafnvægi, enda á hann alltaf að hafa efni á því þar sem forðinn er verulegur nú þegar og mun að jafnaði aukast mánaðarlega með þessum aðgerðum.

Þetta mun þýða það að gengi krónunnar verður lágt fyrst um sinn meðan mestu afborganirnar fara fram af skuldunum, en gengið mun svo smám saman stefna á raungengið sem að ofan var nefnt.

Hvaða leið sem verður farin er a.m.k. ljóst í mínum huga að það má alls ekki negla gengið við neitt, hvorki vikmörk við Evru í tenglsum við inngöngu í ESB, annan gjaldmiðil né myntkörfu nema sá nagli sé nálægt raungenginu. Þangað mun gengið nefnilega sigla á endanum, þegar okkur hefur tekist að taka til eftir fyrrum valdhafa og aðra óráðsíumenn – þá sem fæddu af sér og hina sem svo myrtu – síðustu íslensku krónu.

Framtíðarsýn Íslands, endurreisn og uppbygging

Guðjón Már félagi minn hefur verið að vinna frábæra vinnu með Hugmyndaráðuneytið undanfarna mánuði, ásamt öllu því hæfileikaríka fólki sem hefur gefið sig að verkefninu með honum.

Hann er núna búinn að setja saman myndbönd sem lýsa þem hugmyndum sem þar hafa myndast um nauðsyn þess að Íslendingar hafi framtíðarsýn og hvernig endurreisn og uppbyggingu hér gæti verið háttað næstu ár.

Þetta er algert skylduáhorf fyrir alla sem láta sig framtíð Íslands einhverju varða:

Myndböndin á vef Hugmyndaráðuneytisins

DataMarket í Hugmyndaráðuneytinu á laugardaginn

gegnsæiDataMarket mun sjá um fund Hugmyndaráðuneytisins á laugardaginn kemur.

Efnistökin verða gegnsæi, óhindrað aðgengi að upplýsingum og nýting gagna við upplýsta ákvarðanatöku , en þetta eru allt lykilatriði fyrir Næsta Ísland og raunar heiminn allan við að vinda ofan af vantrausti í stjórnmálum, fjármálum og fyrirtækjarekstri.

Farið verður í gegnum hvernig hægt er að breyta þurrum gögnum í gagnlegar upplýsingar og jafnvel hreina afþreyingu með myndrænni framsetningu og bættu aðgengi.

Hugmyndaráðuneytið sjálft verður krufið til mergjar og skoðað hvernig sprotafyrirtæki og frumkvöðlar geta nýtt og miðlað upplýsingum sér til framdráttar.

Fjallað verður um nýstárlegar aðferðir við “algert gegnsæi” í fyrirtækjarekstri og að lokum kafað ofan í gögn sem varpa ljósi á ris og fall íslenska hagkerfisins -gögn sem hefðu getað varað við þróuninni miklu fyrr ef einhver hefði verið að horfa á mælana.

Fundurinn verður haldinn á veitingastaðnum Balthazar við Ingólfstorg (áður Victor, sjá kort). Fundurinn hefst kl. 16:30 og er öllum opinn, en gott ef þeir sem ætla að mæta skrá sig á Facebook síðu samkomunnar.

Bætt við 22. febrúar 2009:

Tími stórra breytinga

Gears conceptFljótlega eftir bankahrunið í byrjun október skrifaði ég bloggfærsluna Peningar vs. raunveruleg verðmæti.

Eins og margir aðrir verð ég líklega að viðurkenna að ég skildi ekki til fulls það sem var að gerast á þessum tíma, hvorki hvað viðkom Íslandi eða heiminum í heild. Ég hef í gegnum tíðina skapað mér ákveðið óþol fyrir því að skilja ekki eitthvað, sérstaklega þegar það hefur áhrif á mig eða mína nánustu og þess vegna fékk ég skyndilega mjög aukinn áhuga á hagfræði. Ég er síðan þá búinn að plægja mig í gegnum alls kyns fróðleik á vefnum og víðar og öðlast – að ég held – a.m.k. þokkalegan skilning á því hvernig hagkerfi heimsins er hugsað.

Niðurstaðan er í stuttu máli sú að ég held að ég hafi slegið naglann beinna á höfuðið þann 12. október síðastliðinn en mig óraði fyrir: Peningar og raunveruleg verðmæti hafa undanfarna áratugi átt ótrúlega lítið skylt við hvort annað. Þetta hefur verið hálfgerður “misskilningur”. Núna er sá misskilningur smám saman að komast upp, en það er löng leið ófarin þar til undið hefur verið ofan af honum að fullu.

Þetta er ef til vill ekki upplífgandi hugmynd, en ég skal rekja það sem leiðir mig að þessari niðurstöðu.

Hvert er hlutverk peninga?

Peningar hafa tvenns konar meginhlutverk:

 • Að liðka fyrir skiptum á vörum og þjónustu: Þessu er nokkuð vel lýst í þessari sögu af Róbinson Krúsó og Frjádegi. Frjádagur var góður að týna kókoshnetur og gat týnt 8 slíkar á dag. Krúsó gat bara týnt 2 kókoshnetur á dag, en hann gat veitt 8 fiska. Frjádagur var hins vegar ömurlegur veiðimaður og náði í besta falli 2 fiskum á dag. Hvorugur vildi einhæft mataræði, svo að í stað þess að þeir eyddu báðir hálfum deginum við hvora iðju fyrir sig og uppskæru samanlagt 5 kókoshnetur og 5 fiska sömdu þeir um að hvor gerði það sem honum fórst betur úr hendi allan daginn og þeir hefðu með sér vöruskipti. Þannig varð samanlagður afrakstur dagsins 8 fiskar og 8 kókoshnetur og ágóðinn er augljós. Annað af meginhlutverkum peninga er s.s. að auðvelda okkur að skiptast á fiskum og kókoshnetum, tölvuviðgerðum og tannlækningum í flóknu og víðfeðmu neti hæfileika og auðlinda.
 • Að varðveita verðmæti (e. store of value): Oft er það þannig að þegar ég get selt eitthvað, þá vantar mig kannski ekki neitt akkúrat þá stundina. Ég gæti t.d. selt fisk í dag, en viljað borga fyrir kokteila og gistingu á Spáni í sumar, eða jafnvel góða umönnun í ellinni (lífeyrir). Peningar liðka því ekki eingöngu fyrir vöruskiptum, heldur gera okkur kleift að geyma virði þeirrar vinnu eða auðlinda sem við seldum og flytja það til í rúmi (til Spánar) og tíma (til ellinnar).

Sú staðreynd að peningar hafa sinnt þessum tveim hlutverkum ágætlega á líklega mjög ríkan þátt í aukinni velmegun undangenginna 2 alda eða svo.

Í byrjun varð að tryggja það að fólk treysti peningum með því að byggja þá á einhverju sem fólk taldi “raunveruleg verðmæti”. Fyrst voru peningarnir sjálfir úr góðmálmum eins og silfri og gulli og þegar pappírspeningar komu til sögunnar voru þeir byggðir á einhverskonar fæti, t.d. gullfæti. Sem þýðir í stuttu máli að eignarhaldi á seðli fylgir loforð um það að seðlinum sé hægt að skipta fyrir ákveðið magn af gulli í tilteknum banka.

Þetta hefur ákveðið óhagræði í för með sér, því að á móti öllum þeim vöru- og þjónustuskiptum sem við viljum eiga í þarf að geyma gull í bankahólfi einhversstaðar. Gull sem svo er aldrei sótt eða hreyft, því allir treysta peningunum. Þetta fyrirkomulag hefur komist á nokkrum sinnum í mannkynssögunni og alltaf hefur sama hugmyndin skotið upp kollinum: Meðan allir treysta peningunum, þá þurfum við í raun ekki gullið. Eða a.m.k. ekki nema bara nóg fyrir þá örfáu sérvitringa sem láta á það reyna hvort það sé hægt að fá það afhent. Fóturinn er m.ö.o. afnuminn.

Þetta gerðist að fullu í okkar vestræna hagkerfi árið 1971 þegar Nixon þurfti dollara til að borga fyrir Víetnamstríðið. Hann setti prentvélarnar á fullt og bjó til dollara í stórum stíl til að borga skuldirnar. Með því braut hann ákvæði svokallaðs Bretton Woods samkomulags sem þjóðir heims höfðu gert með sér undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Samkomulagið fól í sér að Bandaríkin sæju um varðveislu gullfótar gjaldmiðla aðildarþjóðanna og að gengi þessara gjaldmiðla yrði hengt saman og þannig tengt þessum fæti. Bretton Woods markar reyndar líka upphaf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans.

Í sjálfu sér má segja að þetta sé allt í lagi. Þ.e.a.s. þetta er í lagi meðan allir treysta kerfinu. Við ætluðum hvort eð er aldrei að kaupa gull fyrir fiskinn sem við seldum. Meðan einhver er til í að afhenda mér kókoshnetur fyrir hann er ég sáttur og gullið skiptir ekki máli. Meðan peningarnir eru ávísun á vinnu eða verðmæti í framtíðinni eru allir sáttir, enda komu þeir sem greiðsla fyrir vinnu eða verðmæti í fortíðinni. Eða hvað?

Nú kemur held líklega stærsta lexían í þessum pistli. Ef þið hafið ekki meðtekið þennan sannleik áður þá er þetta mjög erfitt skref. Það tók mig nokkrar vikur að meðtaka þetta og afskrifa það að þetta væri ekki bara samsæriskenning einhverra vitleysinga: Peningar eru skuld. Stærsti hluti þeirra peninga sem eru til er ekki vísun í vinnu eða verðmæti sem afhent voru í fortíðinni, heldur á vinnu eða verðmæti sem á eftir að afhenda í framtíðinni.

Ekki nóg með þetta sé erfitt að meðtaka, heldur er annar erfiður sannleikur í þessu: Bankar framleiða peninga. Ekki bara Seðlabankar sem prenta peninga eins og við vitum, heldur bara venjulegir bankar eins og Kaupþing, Sparisjóður Svarfdæla og HSBC.

Það er til mjög góð teiknimynd sem útskýrir þetta mál ágætlega. Hún heitir Money as Debt. (Breytt 8. feb 2009, kl 22:30 – sjá athugasemdir)

Þetta er inntakið í teiknimyndinni Money as Debt, þó hún nái reyndar ekki öllum atriðum málsins alveg rétt.

Við skulum aftur á móti láta eftirfarandi dæmi nægja til að byrja að koma hausnum utan um málið: Þú ætlar að kaupa þér íbúð og ferð í banka til að sækja um lán. Bankinn tekur vel í það og lánar þér 20 milljónir. En hvaðan koma þessar 20 milljónir? Haltu þér fast. Bankinn býr til stærstan hluta þessara peninga úr loftinu einu saman! Hvernig getur hann það? Jú, með því að skrifa upp á lánið ert þú búinn lofa bankanum að vinna fyrir hann í framtíðinni. Þessa vinnu þína getur bankinn fært til bókar hjá sér sem eign á móti peningunum sem þeir lána þér. Bankakerfið allt tekur þessa eign góða og gilda og því eru orðnir til nýjir peningar sem sá sem seldi íbúðina getur núna notað til að kaupa sér fisk, kókoshnetur og utanlandsferðir.

Svokölluð bindiskylda segir til um hversu stóran hluta þessarrar upphæðar bankinn má búa til úr lausu lofti. 10% bindiskylda þýðir að bankinn þarf að hafa undir höndum 2 milljónir í beinhörðum peningum til að mega búa til hinar 18 milljónirnar. Þessar 2 milljónir geta t.d. verið innistæða foreldra þinna á bankabók.

Við getum sem sagt með mjög mikilli einföldun sagt að ef bindiskylda upp á 10% er fullnýtt sé 1 króna af hverjum 10 vinna sem unnin var í fortíðinni og hinar 9 ávísun á vinnu eða verðmæti í framtíðinni.

Vextir og vöxtur

Nú er það samt svo að vinna sem unnin er í dag er verðmætari en vinna sem unnin er eftir 10 ár. Þú vilt jú frekar láta lækna tönnina núna en bíða með það í 10 ár. Þess vegna fer sá sem á pening fram á það að fá vexti af eign sinni. (Sleppum algerlega verðbólgu í þetta skiptið til að einfalda málið). Þú borgar líka vexti til bankans af peningunum sem hann bjó til fyrir þig. Gjarnan er talað um að eðlilegir vextir séu 3-5% að raunvirði.

Nú skulum við aðeins stíga til baka, hætta að tala um peninga og velta fyrir okkur raunverulegum verðmætum og vexti þeirra (sjá aftur fyrri færslu). Ég held að gróft á litið megi skipta raunverulegum verðmætum í 3 flokka:

 • Endurnýjanlegar náttúruauðlindir: Til þessa flokks teljast lífrænar náttúruauðlindir s.s. fiskur, skógar og kornakrar; og endurnýjanlegir orkugjafar s.s. vatnsafl, sólarorka, jarðhiti o.fl. Þetta eru verðmæti sem vaxa “af sjálfu sér” og hægt er að taka af ákveðið magn á hverju ári án þess að skerða grunninn. Þannig getum við t.d. veitt ákveðið magn af fiski eða unnið ákveðið magn af orku árlega út í hið óendanlega ef við finnum rétt jafnvægi og réttar aðferðir. Hver slík auðlind gefur því af sér jafnt magn verðmæta á ári.
 • Aðrar náttúruauðlindir: Til þessa flokks teljast allar aðrar náttúruauðlindir, s.s. jarðefnaeldsneyti, góðmálmar, ólífrænt hráefni til framleiðslu o.þ.h. Þessar auðlindir getum við lært að nýta betur, en þær eru endanlegar, fara minnkandi og á einhverjum tímapunkti nær vinnsla þeirra hámarki. Í tilfelli olíunnar er þetta það sem kallað hefur verið “peak oil“. Hvort sem sá tími er þegar kominn, enn nokkur ár í hann eða jafnvel heil öld, er ljóst að sá punktur mun koma. Við brennum á hverju ári því magni af olíu sem varð til á milljónum ára, þannig að dæmið er ekki mjög flókið. Þessar auðlindir fara s.s. minnkandi.
 • Mannafl og hugvit: Þetta er vinnan sem við og tækin sem við notum geta skilað af sér. Mannkyninu fjölgar sífellt, þannig að grunnurinn vex ennþá (en mun og þarf að ná jafnvægi innan skamms). Mikilvægari þátturinn hér er raunar hugvitið, þekkingin og sérhæfingin sem Krúsó og Frjádagur þekktu svo vel. Þetta er í daglegu tali kallað framleiðniaukning, þar sem hver unnin klukkustund skilar af sér meiri verðmætum með nýrri verkþekkingu, sérhæfingu og verlagi. Þessi auðlind fer því vaxandi, en ekki auðvelt að geta sér til um takmörk hennar. Henni eru þó allnokkrar skorður settar af hinum gerðum verðmæta: Hversu mikils er ein vinnustund virði við að ýta bíl? Hvað þarf margar vinnustundir til að ýta bíl sömu vegalengd og einn lítri af bensíni getur gert? Hver á að ýta bílnum ef ekki er til bensín?

Við erum því með þrjár gerðir af raunverulegum verðmætum: Ein þeirra fer þverrandi, ein gefur af sér fast magn af verðmætum á ári og ein vex, en er þó takmörk sett af hinum tveimur. Ef aukningin í mannafli og hugviti jafnar út óendurnýjanlegu auðlindirnar, þá sitjum við uppi með flatan vöxt árlega, þ.e. jafna aukningu verðmæta á ári, en ekki veldisvöxt eins og vextir á peningum heimta.

Ef jafnvægið er öðruvísi þýðir það annað hvort að við getum reiknað með örlitlum veldisvexti verðmæta (framleiðnin vex hraðar en gengið er á náttúruauðlindirnar) eða minnkun verðmæta (við göngum hraðar á auðlindirnar en framleiðniaukningin nær að mæta). Hvort heldur sem er ætti þessi formúla að stefna á jafnvægi (veldisvöxtur hefur alltaf takmörk og hugvitið nær á einhverjum tímapunkti að mæta verðmætarýrnuninni).

Það má a.m.k. ljóst vera að veldisvöxtur verðmæta mun ekki ganga út í hið óendanlega. Veldisvöxtur peninga (sem eru uppfinning okkar mannanna) getur alveg haldið áfram, en það mun bara þýða að hver peningaeining mun benda á sífellt minni raunveruleg verðmæti.

Samhengi peninga, veldisvaxtar og náttúruauðlinda er lýst gríðarlega vel í fyrirlestri Chris Martenson: The Crash Course. Ég mæli eindregið með honum.

Lánabólan

Undanfarið hefur í heiminum öllum verið búið til gríðarlegt magn af peningum. Eins og sagt var hér að ofan eru þeir peningar ávísun á vinnu eða verðmæti í framtíðinni og fara auk þess fram á vexti. Til að mæta vöxtunum þarf að framleiða enn meira af peningum og því hefur verið reynt að nýta hráefni til peningaframleiðslu til hins ítrasta. Hráefnið í peninga eru einfaldlega lántakendur. Hvort sem það erum við almúginn að taka lán fyrir íbúð eða bíl, eða eignarhaldsfélög og vogunarsjóðir að taka lán fyrir uppkaupum á fyrirtækjum er hægt að nota okkur sem lántakendur til að framleiða peninga til að mæta kröfunni um síaukna peninga.

Þetta getur augljóslega ekki gengið út í hið óendanlega. Peningaframleiðsla í veldisvexti verður að hætta og kerfið er dæmt til að hrynja. Við getum mögulega skuldsett sjálf okkur til dauðadags (betra þó, ef við vitum af því), en innan mjög skamms mun einhver sjá í gegnum þokuna og hugsa “þetta getur ekki gengið, við borgum ekki”.

Reyndar virðist ekki þurfa að koma til þess. Árið 2007 kom að því að það fundust ekki lengur fleiri lántakendur til að nota sem hráefni í meiri peningaframleiðslu. Sífellt fleiri gátu ekki borgað af lánunum sínum, sérstaklega þeir sem ætluðu að borga af þeim með vöxtunum af síðasta láni sem þeir tóku og leiðréttingarferli hófst.

Þegar lántakandi getur ekki lengur borgað af láninu sínu og það fellur á hann þá hverfur peningurinn sem varð til þegar hann tók lánið. Þetta er það sem er að gerast í heiminum núna. Það er ekki bara svo að einhverjir hafi skotið peningum undan og feli þá einhversstaðar þar sem ekki er hægt að ná í þá – þó það hafi vafalaust gerst að litlu leiti. Mest af þessum peningum er samt bara horfinn: Púff, bang – ekki lengur til!

Enda var hann bara loft og vísaði ekki á raunveruleg verðmæti – alveg eins og ég grísaði á í október þegar ég vissi sáralítið um þessi mál.

Eða eins og Voltaire sagði víst: “Paper money eventually returns to its intrinsic value – zero.”

Niðurstaðan

Eins og Georg Bjarnfreðarson hefði vafalaust bent á er þetta kerfi sem við höfum lifað við “bara misskilningur”. Það er rétt hjá honum, en það getur verið frekar sársaukafullt að leiðrétta misskilning, sérstaklega þegar um svona gígantískan misskilning er að ræða. Vangræði Georgs blikna a.m.k. í samanburðinum.

Leiðréttingarferlið sem farið er í gang verður langt og snúið. Ég held persónulega að það eigi enn eftir að hverfa mjög miklir peningar áður en þeir ná samhengi við raunveruleg verðmæti. Leiðréttingar hafa líka tilhneygingu til að skjóta yfir markið og verða að brotlendingu í stað snertilendingar eins og við þekkjum. Leiðréttingin mun hafa í för með sér miklar tilfærslur á völdum og auði, sem í mörgum tilfellum kann að vera sanngjarnt en mun klárlega valda miklum óstöðugleika á meðan á því stendur.

Jafnframt þarf að koma upp nýju peningakerfi í heiminum, því í grunninn eru bæði peningar og lán alger forsenda fyrir því að við getum haldið áfram að nota, njóta og deila gæðum jarðarinnar. M.v. deilurnar sem spruttu um styttuna af Tómasi Guðmundssyni, gæti ég trúað að menn ættu eftir að vera nokkra stund að koma sér saman um eitthvað eins og þetta.

Þegar öllu er á botninn hvolft eru Íslendingar auðugir af raunverulegum verðmætum af öllum þeim þrem gerðum sem að ofan eru nefndar og því alls ekki útséð með það hvar við munum standa að – segjum – 10 árum liðnum þegar þessi “misskilningur” verður vonandi nokkurnveginn úr sögunni.

– – –

P.S. Ég er enn bara amatör í þessum fræðum og bið því lesendur um að gagnrýna, pota í og leiðrétta það sem hér að ofan er sagt til að skerpa skilning minn og annarra á viðfangsefninu.

Verkefnin vantar ekki…

Áður birt á vef Hugmyndaráðuneytisins.

Á hverjum morgni labba ég fram hjá aðstöðu Listaháskólans við Skipholt. Þar í glugga stendur “Stefnumót bænda og hönnuða”. Smá Gúggl leiddi í ljós að þetta er verkefni sem hlaut styrk frá Tækniþróunarsjóði Rannís og er “frumkvöðlaverkefni í þágu atvinnulífsins þar sem tvær starfstéttir eru leiddar saman til að skapa einstaka afurð.”

Þetta er auðvitað frábært framtak, en getum við ekki tekið okkur þetta til fyrirmyndar á ótal sviðum eins og “ástandið” er?

Sem dæmi, þá varð ég undrandi á því þegar ég var að taka saman lista yfir sprotafyrirtæki hér á landi hversu mörg þeirra – sérstaklega þau sem ekki eru í hugbúnaðarbransanum – eru með arfaslakar vefsíður. Þarna er tækifæri fyrir vefsnillinga að taka til hendinni. Búa til vel útlítandi, vel skrifaða vefi, leitarvélabesta fyrir þau orð sem máli skipta, beita Facebook, YouTube og öðrum samfélagsmiðlum þar sem það á við og jafnvel búa til hnitmiðaða, en ódýra vefauglýsingaherferð, t.d. með Google Ads.

Ástæðan fyrir því að viðkomandi fyrirtæki eru ekki með betri vefsíðu eru líklega tíma- og peningaskortur og mögulega skilningsleysi, miklu frekar en áhugaleysi. Þessi fyrirtæki myndu því vafalaust taka því fegins hendi ef einhver kæmi til þeirra og bæðist til að taka vefmálin í gegn. Greiðsla gæti hreinlega falist í tekjuskiptingu á þeim tekjum sem andlitslyftingin skilaði. Þetta á í mörgum tilfellum að vera hægt að mæla býsna nákvæmlega, t.d. aukinn fjöldi (eða jafnvel upphaf) pantanna í gegnum vefinn. Ég væri til í að smíða nýjan vef fyrir sum þessarra fyrirtækja fyrir 10-20% af þeim tekjum sem ég held að hægt væri að skapa þeim með betri vef.

Útfærslur varðandi útlagðan kostnað, tekjuskiptingu, samningstíma, viðhald og annað getur verið margskonar, en grundvallaratriðið er það að hvorugur aðilinn þarf að leggja neitt til (nema vinnu sína auðvitað) til að láta á þetta reyna.

Svipað fyrirkomulag mætti sjá fyrir sér í fleiri sérfræðistörfum: sölumálum, almennum markaðsmálum, fjármálaumsjón, gerð viðskiptaáætlana og svo mætti lengi telja.

Aðalmálið er að allir græða. Verkefnalausir fá verkefni og í framhaldinu tekjur í samræmi við árangur, fyrirtækin fá ódýra aðstoð og möguleika á nýjum tekjum (eða sparnað, t.d. með betra aðhaldi í fjármálunum) og öllum er í hag að sem best takist til.

Ég hvet fyrirtæki sem etv. hafa ekki úr nægum verkefnum að moða og fólk sem misst hefur vinnuna til að hugsa út fyrir boxið og finna tækifæri af þessum toga þar sem þeir geta boðið krafta sína og þekkingu með öðru sniði en almennt tíðkast, t.d. eins og hér er lýst.

Tæknispá 2009

Ég hef tvisvar ráðist í það í kringum áramót að gera “Tæknispár” fyrir komandi ár á Íslandi (2006 og 2008). Í fyrra minntist ég t.d. á tiltölulega lítið þekktan þátt í starfsemi bankanna: Erlenda innlánsreikninga sem nefndust Kaupthing Edge og Icesave og spáði því að bankarnir ættu eftir að útvíkka þessa starfsemi. Maður ætti kannski að fara varlega!

Annars er ég bara nokkuð sáttur við árangurinn fyrir 2008, þó vissulega hafi ekki allt gengið eftir og annað gengið lengra en mig grunaði. Dæmi hver fyrir sig.

En hvað um það. Hér koma nokkrir punktar um það sem mér þykir líklegt að muni gerast á komandi ári í tæknigeiranum á Íslandi:

 • Fjöldi nýrra tæknifyrirtækja verður stofnaður: “Neyðin kennir naktri…”, og allt það. Það er fjöldi hæfileikaríks tæknifólks þarna úti að missa vinnuna. Margir búa yfir hugmyndum að vörum eða vilja koma hæfileikum sínum í verð á annan hátt. Stærsti kostnaðarliður – a.m.k. hugbúnaðarfyrirtækja – er launaliðurinn og útlögðum kostnaði á að vera hægt að halda í algeru lágmarki ef fólk er þannig stemmt. Sprotaapparatið YCombinator í Bandaríkjunum er ágætis dæmi um umhverfi sem skapað hefur verið fyrir svona fyrirtæki. Fjármögnun á bilinu 5.000-50.000 dollarar, aðstaða fyrir 2-5 manna teymi (ef þau vinna ekki bara heiman að frá sér), auk tengslamyndunar og handleiðslu frá reyndara fólki. Allt ætti þetta að virka vel í íslenskum raunveruleika þar sem lítið er um áhættufjármagn um þessar mundir, en mikið af hæfileikafólki að leita verkefna. Rétt er þó að minna á að YCombinator er sprottið upp á góðæristímum og áherslan hér verður að vera á verðmæti “í núinu” (tekjur sem duga fyrir lágmarksrekstri innan 12 mánaða) í stað langra þróunarverkefna og óljósra tekjumöguleika. Viðskiptaáætlanir sem hafa auglýsingar sem aðaltekjulind munu ekki eiga upp á pallborðið næstu 2-4 árin.
 • CCP mun halda áfram að vaxa: Þetta þrautseiga sprotafyrirtæki, sem hefur náð að byggja tekjustraum sem svarar ágætri loðnuvertíð með hugvitinu einu saman, mun halda áfram sigurgöngu sinni. Tryggur leikendahópur sem telur á við íslensku þjóðina, stöðugar viðbætur og fjölgun dreifingarleiða (EVE Online mun nú fara í búðir aftur eftir að hafa verið dreift eingöngu á netinu undanfarin ár) mun valda því. Sagan segir líka að í efnahagsþrengingum leiti fólk í afþreyingu og nú hafa einfaldlega mun fleiri heimsbúar tímann sem þarf í áhugamál á borð við fjölspilunarleiki. Mánaðargjaldið svarar til einnar bíóferðar en endist virkum spilurum í 4-8 tíma skemmtun á dag, alla daga mánaðarins. Þróun stendur einnig yfir á næsta leik CCP, fjölspilunarleik sem byggir á World of Darkness heiminum. Hann mun varla líta dagsins ljós á árinu, en gefur góð fyrirheit um komandi tíð hjá fyrirtækinu, þar sem hann á sér þegar dyggan aðdáendahóp og höfðar til breiðari hóps en EVE heimurinn, ekki síst meðal kvenþjóðarinnar sem hingað til hefur ekki verið áberandi í fjölspilunarleikjum.
 • Ríkið mun styrkja nýsköpunarstarf með margvíslegum hætti: Að einhverju leiti er þetta þegar komið fram og mikið er talað, næstum nóg til að maður trúi því að það sé ekki bara fagurgali. Einföldustu aðgerðirnar, eins og að beina atvinnuleysisgreiðslum í gegnum fyrirtæki til uppbyggingar nýrra starfa kosta ríkið nettó núll og eru augljósar. Aðrar, eins og niðurfelling skatta nýráðinna starfsmanna eða skattaafsláttur á einstaklinga og fyrirtæki gegn fjárfestingu í nýsköpun eru djarfari, en þó mögulegar. Mikilvægast er þó fyrir alla þessa starfsemi að bankakerfið, gjaldeyrismiðlun og önnur stoðkerfi komist aftur í eðlilegan farveg. Fjárfestingasjóðurinn Frumtak er sömuleiðis mikilvægt gæfuspor.
 • Ódýrari valkostir í fjarskiptum munu ná almennri notkun: Í nokkur ár hafa verið í boði ýmsar mjög svo frambærilegar lausnir í fjarskiptum, sem kosta minna en hinar hefbundnu, eða jafnvel bara hreint ekki neitt. Í einhverjum tilfellum hafa þessar lausnir jafnvel eitthvað fram yfir hinar hefðbundnu (t.d. myndsímtöl og einföld hópsímtöl í Skype), en í öðrum tilfellum, t.d. þegar kemur að farsímalausnum, þurfa notendur að sætta sig við lítilsháttar vesen, skert gæði eða aðra vankanta við notkun slíkra lausna. Einhverjar þessarra lausna hafa verið ágætlega þekktar um skeið, en þó ekki náð almennri útbreiðslu. Nú er hins vegar tími aðhalds hjá bæði fyrirtækjum og einstaklingum. Ég spái því að kreppan verði til þess að þessar lausnir nái verulega aukinni útbreiðslu og ef það gerist er það breyting sem er komin til að vera. Ég held því að kreppan eigi eftir að koma verulega illa niður á fjarskiptageiranum í skertri notkun og þar með tekjum. Þó má ekki gleyma því að þessar nýju lausnir notast allar við kerfi fjarskiptafyrirtækjanna og ganga nær allar út á að flytja með einum eða öðrum hætti yfir í gagnasamskipti það sem áður fór um hefbundna símakerfið. Þetta kallar því frekar á breytingu í viðskiptamódelum fjarskiptafyrirtækjanna en algeru hruni þeirra, því einhver þarf að borga fyrir uppbyggingu og rekstur kerfanna eftir sem áður.
 • Gegnsæi og opin miðlun upplýsinga: Leiðin til að byggja á ný upp traust í viðskiptum og fjármálastarfsemi, er aukið gegnsæi og hraðari og opnari miðlun upplýsinga. Ég vísa í fyrri færslu mína um Framtíð viðskipta til nánari útskýringar. Ég spái því að þessi sjónarmið muni byrja að ryðja sér til rúms á árinu, þó breytingin í heild sinni mun taka mun lengri tíma. Þessar breytingar gætu byrjað hvort heldur er hjá Ríkinu (með áherslu á opin gögn), eða hjá einkaaðilum sem vilja auka traust þjóðfélagsins með því að sýna svo ekki verður um villst að þau hafi ekkert að fela.
 • Netið verður þungamiðja pólitísks starfs: Unga fólkið er búið að fá áhuga á pólitík. Facebook-kynslóðin er við stjórnvölin og meira en þriðjungur þjóðarinnar skráður þar. Merki um þetta má reyndar þegar sjá víða. Á fundum borgarstjórnar undanfarið má sjá stöðubreytingar og færslur frá allnokkrum borgarfulltrúum á meðan á fundunum stendur (sönn saga). Fjöldafundir og mótmæli eru skipulögð á netinu. Komi til kosninga munu Facebook, MySpace, Twitter og YouTube spila stóran þátt. Gömlu pólitíkusarnir munu ekki vita hvaðan á þá stendur veðrið. Ég geng svo langt að halda því fram að þetta geti haft úrslitaáhrif í kosningabaráttunni, hvort sem um verður að ræða ný framboð eða að einhver gömlu flokkanna ranki við sér. Í Bandaríkjunum hefur verið talað um að kosningabarátta Baracks Obama hafi verið sú fyrsta sem “skildi Internetið”. Framboðin hér munu þurfa að gera slíkt hið sama.

Hvað haldið þið að gerist í tæknimálum árið 2009?

Kreppan er kerfisvilla

Risaskjaldbaka á Galapagos-eyjumGátan er leyst: Kreppan er kerfisvilla.

Með:

 • …þá peningamálastefnu sem var í gangi,
 • …örmyntina okkar – krónuna,
 • …götótt regluverk
 • …vanbúið eftirlitskerfi; og
 • …þær ytri aðstæður sem verkuðu á hagkerfið – fyrst til vaxtar og svo til hafta

…var þetta óhjákvæmilegt.

Þetta hefur sem sagt ekkert með einstaka auðmenn, banka eða fjárfestingarfyrirtæki að gera, þó það dragi í sjálfu sér ekkert úr ábyrgð þeirra þegar og ef í ljós kemur að þeir hafi brotið reglur, lög og siðferði í einhverjum málum.

Frjáls markaður er lífrænt kerfi. Ótal aðilar mætast í gríðarstórri og flókinni heild sem enginn hefur fullkomna yfirsýn yfir, né áttar sig á afleiðingum stórra eða smárra atvika á afkomu einstakra tegunda eða vistkerfisins í heild. Eins og önnur lífræn kerfi reynir markaðurinn á þanmörk sín á alla mögulega vegu, en lífræn kerfi eru jafnframt framúrskarandi við að finna lausnir sem henta vel þeim aðstæðum sem umhverfið býður upp á hverju sinni. Stöðugt umhverfi leiðir af sér fjölbreytt kerfi sem leitar jafnvægis, óstöðugt eða takmarkað umhverfi leiðir til sérhæfingar sem getur reynst dýrkeypt.

Þannig þróast finkur með langan og boginn gogg þar sem blóm með djúpa blómbotna bjóða upp á ljúffengan hunangssafa. Þannig spretta upp menn eins og Hannes Smárason í því fyrirtækjaumhverfi sem hér var boðið upp á. Ef ekki finkan, þá fyllir einhver önnur tegund þessa hillu vistkerfisins. Ef ekki Hannes, þá einhver annar.

Þegar meiriháttar breytingar verða á fæðuframboði, munu sum dýrin neyðast til að skipta yfir í fæðu sem þau voru ekki vön að borða áður. Þegar alþjóðleg lánsfjárkreppa skellur á mun einhver stofna hávaxta innlánsreikninga í stað þess að fjármagna sig með lánsfé. Ef ekki Landsbankinn, þá einhver annar.

Munurinn á vistkerfinu og hagkerfinu er sá að umgjörð hagkerfisins er mannanna verk. Henni er hægt að breyta til að bregðast við breyttum aðstæðum. Auka fæðuframboðið, stækka beitarsvæðin, grisja skóginn.  Umgjörðinni okkar var ekki breytt nógu hratt né reglunum fylgt nógu vel eftir. Finkurnar kláruðu hunangssafann, grasið reyndist rándýrunum óætt og vistkerfið hrundi.

Gjaldeyrishöft og gengismál

Tveir punktar sem hafa skotið sér í kollinn á mér síðustu daga:

 • Gjaldeyrisreglur Seðlabankans: Stjórnvöld eru komin á það stig að búa til reglurnar “as they go along”. Villi var duglegur um helgina – fyrir hönd Verne og CCP – að benda á skaðsemi þessarra reglna fyrir sprotastarfsemi og erlendar fjárfestingar (nokkuð sem við þurfum einmitt nú frekar en nokkru sinni). Þessu var svarað með fundi í gær þar sem fram kom – samkvæmt fréttum“að gjaldeyrisreglurnar hefti ekki beina erlenda fjárfestingu. Túlkun Seðlabanka sé sú að bein erlend fjárfesting sé kaup á 10% eignarhlutur eða meira. Þetta þýðir að fyrirtæki hér geta fengið útlendinga til að fjárfesta í rekstrinum, ef eignarhlutur þeirra fer yfir 10%.”

  Ég er ekki að skálda þetta! Hvað gengur mönnum til? Í fyrsta lagi er ómögulegt að túlka orðanna hljóðan í reglum Seðlabankans á þennan veg. Þennan skilning fá aðeins þeir sem fara á fund hjá Seðlabanka og Viðskiptaráðherra og þá bara í orði eða hvað? Og hver eru rökin fyrir því að útlendingar megi eiga meira en 10% en ekki minna? Hvað ef þeir kaupa 15%, en svo minnkar eignahlutur þeirra síðar? Af hverju 10%? Þessu fylgja engin rök og erfitt einu sinni að ímynda sér hver þau gætu verið. Voru þeir ekki búnir að frétta að við “…kind of need the money”?

  Stærsti skaðinn af þessum gjörningi er samt sá að nú er orðið greinilegt að stjórnvöld eru komin í þann ham að þeim er trúandi til að setja hvaða reglur sem er, hvenær sem er og túlka þær svo eftir hentugleika. Undir slíkum kringumstæðum munu erlendir fjárfestar forðast Ísland eins og heitan eldinn og var nú nóg samt.

  Ég hef verið að vinna í tveimur verkefnum sem þetta hefur bein áhrif á. Nýja fyrirtækið mitt – DataMarket – mun reyndar ekki þurfa að sækja sér erlent fjármagn fyrr en líður á næsta ár, en ég óttast mjög skaðsemi þessa hringlandaháttar þá ef ekki verður búið að gerbreyta hér stjórn og skipulagi. Ég mun þurfa að íhuga mjög alvarlega að setja það upp sem erlent félag – og mig sem langar ekkert meira en að hjálpa til við að moka.

  Hitt er að ég hef verið að kynna Bandarískum fjárfestum á sviði endurnýjanlegra orkugjafa ýmis tækifæri hér. Þeir komu hér í nokkurra daga heimsókn fyrir fáum vikum síðan og sýndu ýmsum tækifærum áhuga. Uppbyggilegum tækifærum í fyrirtækjum sem þurfa að fjármagna umtalsverðar framkvæmdir á næstu árum. Við erum að fylgja þessum málum eftir núna, en ég get fullyrt að þetta rugl er ekki til að auka líkurnar á því að eitthvað verði af þeim plönum.

  Mynduð þið fjárfesta í Bólivíu ef stjórnvöld væru nýbúin að frysta peningalegar eignir útlendinga í landinu, jafnvel þó þau væru náðasamlega til í að túlka reglur sínar ykkur í hag eða veita ykkur undanþágu, a.m.k. á meðan þeim þóknast?

  Hélt ekki! En þetta er einmitt ímyndin sem tókst að búa til með laga- og reglusetningu síðustu viku. Glæsilegt alveg.

 • Lausn á krónuflóttanum? Áðurnefndar reglur eru settar til að reyna að koma í veg fyrir að gengi krónunnar falli eins og steinn við fleytinguna. Þó svo að segja öllum beri saman um að raungengi krónunnar (m.t.t. til vöruskiptajöfnuðar) sé tugum prósenta sterkara en það er nú (sjá áður í færslunni Greiningadeild Hjalla), þá gæti algert hrun nú gert það að verkum að fjármagnsflóttinn yrði enn meiri og orðið erfiðara að komast í styrkingarferli aftur. Ástæða lagasetningarinnar er því vel skiljanleg.

  Ég velti þó fyrir mér annarri leið. “Hræddustu krónurnar” eru krónur sem erlendir aðilar sem eiga í skuldabréfum hér á landi – jöklabréfin svokölluðu. Upphæð þessarra bréfa er í kringum 400 milljarðar króna. Af þeim er einhver hluti – segjum 200 milljarðar – sem munu fara um leið og þeir geta losað eitthvað af þessum fjármunum, nánast algerlega óháð gengi krónunnar eða verðinu sem þeir fá fyrir skuldabréfin. Þeir myndu ýkjulaust vera sáttir við að fá dollara fyrir krónur á genginu 250 og afar lélega ávöxtun á bréfunum sjálfum, líklega neikvæða. Að komast út með 20-25% af upphaflegri fjárfestingu myndu þeir túlka sem árangur. Þeir eru hræddir, þurfa að nota peninginn í annað og hafa engar forsendur eða aðstöðu til að meta eða nýta sér það hvort gengi krónunnar verði sterkara eftir 2 mánuði, hálft ár eða 3 ár. Þeir ætla bara að fara.

  Á móti eru svo aðilar sem hafa miklu meira innsæi í íslenskan fjármálamarkað og skilning á því hvernig gengið eigi eftir að þróast, sem eiga í dag eignir í erlendri mynt. Augljósasta dæmið eru lífeyrissjóðirnir. Eignir þeirra erlendis nema líklega um 5 milljörðum dollara (+/- milljarður til eða frá). Lífeyrissjóðirnir – og aðrir í svipaðri stöðu – gætu gert alger kostakaup núna. Samið um að kaupa hræddu krónurnar á genginu 200-250 á móti dollara og fengið um leið óviðjafnanlega ávöxtun á skuldabréfin þar sem verið væri að selja þau með verulegum afföllum. Á genginu 200 myndi þetta ekki kosta nema 1 milljarð dollara. Þó gengið myndi ekki síga nema í 110 aftur (margir trúa að 90 sé nær lagi) á næstu tveimur árum, er ljóst að kaupendurnir myndu fara hlæjandi alla leið í bankann með þennan díl.

  Og ekki nóg með það, þeir myndu á sama tíma lýsa trausti á að íslenska hagkerfið muni braggast og líklega mynda snöggan og snarpan botn í gengiskúrfuna sem marka myndi upphaf styrkingarferils hennar.

  Hvar er villan í þessu hjá mér?