Ég er landleysingi í pólitík. Hef mjög mikinn áhuga á pólitískri umræðu og sterkar skoðanir á mörgum málum, en gæti aldrei fellt mig við það að elta einhverjar flokkslínur í flestum málum. Ég hallast reyndar að því að flokkshollusta sé að mörgu leyti þægindi sem fólk sækir í til að þurfa ekki að setja sig inn í málin og mynda sér sína eigin afstöðu.
Í hverju máli reyni ég einfaldlega að afla mér upplýsinga eins og kostur er. Lesa helstu röksemdafærslu beggja hliða og mynda mér smám saman skoðun útfrá því. Mér finnst það líka styrkur að geta skipt um skoðun þegar nýjar upplýsingar eða rök í málum koma upp á yfirborðið, þó að í pólitík virðist oftast litið á það sem veikleika – næstum jafn mikinn veikleika og að vera sammála “andstæðingum” sínum. Við höfum meira að segja haft forystumenn í stjórnmálum sem hreykja sér af því að hafa aldrei skipt um skoðun!
Þetta er einn af stóru drifkröftunum að baki DataMarket. Þjóðin á gríðarlega mikið af merkilegum gögnum sem liggja lítið – eða jafnvel ekkert – notuð hér og þar í samfélaginu. Með betra aðgengi að þessum gögnum og tólum sem hjálpa fólki að setja hlutina í samhengi, hef ég trú á því að við getum tekið miklu upplýstari ákvarðanir á öllum stigum þjóðlífsins: í einkalífinu, í fyrirtækjarekstri og í stjórnsýslunni.
Góð kenning sem ég hef oft stuðst við er að skoðanamyndun verði í þremur skrefum:
- Fyrst þurfa nauðsynlegar staðreyndir að liggja fyrir
- Síðan greinum við þessi gögn og staðreyndir með tiltækum tólum
- Loks byggir hvert okkar niðurstöðu eða dóma á undangenginni greiningu
Við þurfum ekki öll að komast að sömu niðurstöðu. Við höfum mismunandi lífsgildi, áherslur og sýn á það hvað skipti mestu máli í lífinu. Rökræða snýst í raun að miklu leyti um skref #2, þar sem fólk tekst á um greiningu staðreyndanna og reynir svo að fikra sig – og stundum andmælendur sína eða áheyrendur með sér – í átt að niðurstöðu. Í góðri rökræðu eru menn til í að sýna öðrum lífsgildum virðingu, meta forgangsröðun sína og reyna að sjá hlutina með augum annara. Ef menn leggja samt ekki út frá sömu staðreyndum – eða gögnum – verður rökræðan aldrei góð.
Sem dæmi mætti taka að tvær fylkingar eigi að mynda sér skoðun á ágæti samnings. Önnur fylkingin hefur séð samninginn og öll undirliggjandi gögn, en hin fylkingin ekki. Í þessu tilfelli er gagnslaust að reyna nokkurskonar rökræðu um ágæti samningsins. Það er ekkert til að greina – og allar tilraunir til þess verða fálmkenndar og gerðar í lausu lofti.
Þetta er ástæðan fyrir því að gagnsæi og opið gagnaaðgengi er lykilatriði í samfélaginu. Þannig munum við taka okkar bestu ákvarðanir og vera fær um að gagnrýna, mótmæla eða styðja það sem gert er með rökum – en ekki af pólitískri flokkshlýðni.
Skattareiknir
Hvatningin til að skrifa um þetta bloggfærslu núna er umræða sem skapast hefur undanfarna daga um nýlegan skattareikni Sjálfstæðisflokksins. Eins og fram hefur komið í umræðunni, á DataMarket þar hlut að máli. Við tókum að okkur að afla ýmissa gagna varðandi skattamál fyrir flokkinn. Í framhaldi af þeirri gagnaöflun settum við upp Excel-módel sem auglýsingastofan studdist við þegar reiknirinn var forritaður. Ákvörðun um endanlegar forsendur að baki þeim útreikningum og framsetningu niðurstaðnanna er tekin af flokksmönnum.
Samkvæmt okkar bestu vitund er reiknirinn villulaus eins og hann stendur nú. Fyrstu klukkutímana fór hann í loftið án þess að tekið væri tillit til nýs frítekmarks á fjármagnstekjur, en það var lagað um leið og ábending barst þar um. Eins voru mjög afmörkuð jaðarskilyrði sem leiddu til undarlegrar niðurstöðu þegar heimili með 2 fyrirvinnur var ofarlega í 2. skattþrepinu – það hefur einnig verið lagað. DataMarket ber ábyrgð á þessum villum og ónógum prófunum á líkaninu, en þeim var á engan hátt ætlað að villa um fyrir neinum, enda hefði það verið býsna óábyrg nálgun.
Enda er það líka svo að fæstir sem stungið hafa niður penna um þessa herferð Sjálfstæðisflokksins hafa haft neitt við útreikningana að athuga, heldur forsendurnar sem miðað er við. Og þá er eðlilegt að næsta spurning sé: Hvor fylkingin hefur rétt fyrir sér?
Svarið er etv. ekki hjálplegt: Báðir hafa rétt fyrir sér.
Staðreyndirnar liggja nokkuð skýrt fyrir. Þær eru í stuttu máli þessar:
- Tekið verður upp þriggja þrepa tekjuskattskerfi þar sem skatthlutfallið verður:
- 24,1% af fyrstu 200þús krónum tekjuskattstofns (mánaðarlaun að frádregnu iðgjaldi í lífeyrissjóð)
- 27,0% af 200-650þús krónum
- 33,0% af því sem fer yfir 650þús krónur
- Persónuafsláttur hækkar um 2.000 krónur á mánuði frá því sem nú er og verður 44.205 krónur.
- Fjármagnstekjuskattur verður 18% en þó aðeins af fjármagntekjum umfram 100þús krónur á ári.
- Breytingar á neyslusköttum munu hafa áhrif til hækkunar verðlags, sem mun hafa áhrif á verðtryggð lán, innkaup, afborganir lána og aðra neyslu.
Sjálfstæðismenn kusu að fara þá leið að bera þessar staðreyndir saman við skattkerfið eins og það var í upphafi þessa árs og núgildandi lög. Þetta hefur eftirfarandi í för með sér:
- Miðað er við eitt skattþrep með 24,1% tekjuskatti eins og var fyrri helming ársins.
- Persónuafsláttur á skv. núgildandi lögum að hækka í takt við verðlag OG skv. samkomulagi aðila á launamarkaði um 2.000 krónur að auki. Þetta myndi þýða að hann yrði á næsta ári u.þ.b. 48.000 krónur á mánuði.
- Miðað er við 10% fjármagnstekjuskatt eins og var fyrri helming ársins í ár.
- Verðlagshækkanir vegna breytinga á skattkerfinu fyrr á þessu ári eru teknar með í reikninginn og verðlagsáhrif skattbreytinganna verða því samanlagt 1,8% í stað 0,8% – 1,0% áhrifa af breytingunum nú um áramótin.
Ríkisstjórnin vill hins vegar miða við kerfið eins og það er núna. Það þýðir að nýja kerfið er borið saman við:
- Tvö skattþrep sem tóku gildi um mitt ár:
- 24,1% af tekjum upp að 700þús krónum á mánuði
- 32,1% af tekjum yfir 700þús krónum á mánuði
- Núgildandi 15% fjármagnstekjuskatt.
- 0,8% – 1,0% verðlagsáhrif skattbreytinga um áramótin.
- Persónuafslátt upp á 42.205 krónur á mánuði eins og er á yfirstandandi ári.
Deilurnar snúast því ekki um það hvernig kerfið var eða verður – gögnin – heldur um túlkun þeirra eða greiningu. Enginn leggur til röng gögn, en hvor kýs að greina þau gögn með sínum hætti, væntanlega í von um að fá fólk á sína skoðun svo vitnað sé í þrjú skref rökræðunnar hér að ofan.
Menn geta svo gagnrýnt Sjálfstæðisflokkinn fyrir að teygja sínar forsendur inn á þetta ár og fyrir að það sé auðvelt að koma með svona gagnrýni í stjórnarandstöðu þegar menn standa ekki raunverulega frammi fyrir ákvarðanatökunni.
Að sama skapi væri hægt að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að tala um lækkun skatta með hækkun persónuafsláttar um 2.000 krónur en láta hjá líða að minnast á að að óbreyttu hefði hækkun persónuafsláttarins verið mun meiri. Eða það að kalla nýja eignaskattinn “auðlegðarskatt” og að tekjuöflun af honum “gefi um 3 ma. kr., er verði nýttir til að hækka greiðslur barnabóta og vaxtabóta”. Skattur á “auðlegð” er líklegri til vinsælda en “eigna”-skattur og þessir tilteknu 3 milljarðar fara auðvitað alveg jafnt í að greiða vaxtagjöld ríkissjóðs, reka Landspítalann, greiða listamannalaun eða hvað annað sem ríkið tekur sér fyrir hendur.
Hvert og eitt okkar verður að horfa á þetta með sínum eigin gagnrýna hætti og reyna að komast að eigin niðurstöðu um það hvað okkur þyki ásættanlegt og nauðsynlegt í ljósi stöðunnar. Það er þó allavega kostur að rökrætt skuli á grunni staðreynda, en ekki tilfinninga og upphrópana eins og allt of oft vill verða í pólitíkinni.