opin gögn

Af rökræðum og skattareiknum

Ég er landleysingi í pólitík. Hef mjög mikinn áhuga á pólitískri umræðu og sterkar skoðanir á mörgum málum, en gæti aldrei fellt mig við það að elta einhverjar flokkslínur í flestum málum. Ég hallast reyndar að því að flokkshollusta sé að mörgu leyti þægindi sem fólk sækir í til að þurfa ekki að setja sig inn í málin og mynda sér sína eigin afstöðu.

Í hverju máli reyni ég einfaldlega að afla mér upplýsinga eins og kostur er. Lesa helstu röksemdafærslu beggja hliða og mynda mér smám saman skoðun útfrá því. Mér finnst það líka styrkur að geta skipt um skoðun þegar nýjar upplýsingar eða rök í málum koma upp á yfirborðið, þó að í pólitík virðist oftast litið á það sem veikleika – næstum jafn mikinn veikleika og að vera sammála “andstæðingum” sínum. Við höfum meira að segja haft forystumenn í stjórnmálum sem hreykja sér af því að hafa aldrei skipt um skoðun!

Þetta er einn af stóru drifkröftunum að baki DataMarket. Þjóðin á gríðarlega mikið af merkilegum gögnum sem liggja lítið – eða jafnvel ekkert – notuð hér og þar í samfélaginu. Með betra aðgengi að þessum gögnum og tólum sem hjálpa fólki að setja hlutina í samhengi, hef ég trú á því að við getum tekið miklu upplýstari ákvarðanir á öllum stigum þjóðlífsins: í einkalífinu, í fyrirtækjarekstri og í stjórnsýslunni.

Góð kenning sem ég hef oft stuðst við er að skoðanamyndun verði í þremur skrefum:

 1. Fyrst þurfa nauðsynlegar staðreyndir að liggja fyrir
 2. Síðan greinum við þessi gögn og staðreyndir með tiltækum tólum
 3. Loks byggir hvert okkar niðurstöðu eða dóma á undangenginni greiningu

Við þurfum ekki öll að komast að sömu niðurstöðu. Við höfum mismunandi lífsgildi, áherslur og sýn á það hvað skipti mestu máli í lífinu. Rökræða snýst í raun að miklu leyti um skref #2, þar sem fólk tekst á um greiningu staðreyndanna og reynir svo að fikra sig – og stundum andmælendur sína eða áheyrendur með sér – í átt að niðurstöðu. Í góðri rökræðu eru menn til í að sýna öðrum lífsgildum virðingu, meta forgangsröðun sína og reyna að sjá hlutina með augum annara. Ef menn leggja samt ekki út frá sömu staðreyndum – eða gögnum – verður rökræðan aldrei góð.

Sem dæmi mætti taka að tvær fylkingar eigi að mynda sér skoðun á ágæti samnings. Önnur fylkingin hefur séð samninginn og öll undirliggjandi gögn, en hin fylkingin ekki. Í þessu tilfelli er gagnslaust að reyna nokkurskonar rökræðu um ágæti samningsins. Það er ekkert til að greina – og allar tilraunir til þess verða fálmkenndar og gerðar í lausu lofti.

Þetta er ástæðan fyrir því að gagnsæi og opið gagnaaðgengi er lykilatriði í samfélaginu. Þannig munum við taka okkar bestu ákvarðanir og vera fær um að gagnrýna, mótmæla eða styðja það sem gert er með rökum – en ekki af pólitískri flokkshlýðni.

Skattareiknir

Hvatningin til að skrifa um þetta bloggfærslu núna er umræða sem skapast hefur undanfarna daga um nýlegan skattareikni Sjálfstæðisflokksins. Eins og fram hefur komið í umræðunni, á DataMarket þar hlut að máli. Við tókum að okkur að afla ýmissa gagna varðandi skattamál fyrir flokkinn. Í framhaldi af þeirri gagnaöflun settum við upp Excel-módel sem auglýsingastofan studdist við þegar reiknirinn var forritaður. Ákvörðun um endanlegar forsendur að baki þeim útreikningum og framsetningu niðurstaðnanna er tekin af flokksmönnum.

Samkvæmt okkar bestu vitund er reiknirinn villulaus eins og hann stendur nú. Fyrstu klukkutímana fór hann í loftið án þess að tekið væri tillit til nýs frítekmarks á fjármagnstekjur, en það var lagað um leið og ábending barst þar um. Eins voru mjög afmörkuð jaðarskilyrði sem leiddu til undarlegrar niðurstöðu þegar heimili með 2 fyrirvinnur var ofarlega í 2. skattþrepinu – það hefur einnig verið lagað. DataMarket ber ábyrgð á þessum villum og ónógum prófunum á líkaninu, en þeim var á engan hátt ætlað að villa um fyrir neinum, enda hefði það verið býsna óábyrg nálgun.

Enda er það líka svo að fæstir sem stungið hafa niður penna um þessa herferð Sjálfstæðisflokksins hafa haft neitt við útreikningana að athuga, heldur forsendurnar sem miðað er við. Og þá er eðlilegt að næsta spurning sé: Hvor fylkingin hefur rétt fyrir sér?

Svarið er etv. ekki hjálplegt: Báðir hafa rétt fyrir sér.

Staðreyndirnar liggja nokkuð skýrt fyrir. Þær eru í stuttu máli þessar:

 • Tekið verður upp þriggja þrepa tekjuskattskerfi þar sem skatthlutfallið verður:
  • 24,1% af fyrstu 200þús krónum tekjuskattstofns (mánaðarlaun að frádregnu iðgjaldi í lífeyrissjóð)
  • 27,0% af 200-650þús krónum
  • 33,0% af því sem fer yfir 650þús krónur
 • Persónuafsláttur hækkar um 2.000 krónur á mánuði frá því sem nú er og verður 44.205 krónur.
 • Fjármagnstekjuskattur verður 18% en þó aðeins af fjármagntekjum umfram 100þús krónur á ári.
 • Breytingar á neyslusköttum munu hafa áhrif til hækkunar verðlags, sem mun hafa áhrif á verðtryggð lán, innkaup, afborganir lána og aðra neyslu.

Sjálfstæðismenn kusu að fara þá leið að bera þessar staðreyndir saman við skattkerfið eins og það var í upphafi þessa árs og núgildandi lög. Þetta hefur eftirfarandi í för með sér:

 • Miðað er við eitt skattþrep með 24,1% tekjuskatti eins og var fyrri helming ársins.
 • Persónuafsláttur á skv. núgildandi lögum að hækka í takt við verðlag OG skv. samkomulagi aðila á launamarkaði um 2.000 krónur að auki. Þetta myndi þýða að hann yrði á næsta ári u.þ.b. 48.000 krónur á mánuði.
 • Miðað er við 10% fjármagnstekjuskatt eins og var fyrri helming ársins í ár.
 • Verðlagshækkanir vegna breytinga á skattkerfinu fyrr á þessu ári eru teknar með í reikninginn og verðlagsáhrif skattbreytinganna verða því samanlagt 1,8% í stað 0,8% – 1,0% áhrifa af breytingunum nú um áramótin.

Ríkisstjórnin vill hins vegar miða við kerfið eins og það er núna. Það þýðir að nýja kerfið er borið saman við:

 • Tvö skattþrep sem tóku gildi um mitt ár:
  • 24,1% af tekjum upp að 700þús krónum á mánuði
  • 32,1% af tekjum yfir 700þús krónum á mánuði
 • Núgildandi 15% fjármagnstekjuskatt.
 • 0,8% – 1,0% verðlagsáhrif skattbreytinga um áramótin.
 • Persónuafslátt upp á 42.205 krónur á mánuði eins og er á yfirstandandi ári.

Deilurnar snúast því ekki um það hvernig kerfið var eða verður – gögnin – heldur um túlkun þeirra eða greiningu. Enginn leggur til röng gögn, en hvor kýs að greina þau gögn með sínum hætti, væntanlega í von um að fá fólk á sína skoðun svo vitnað sé í þrjú skref rökræðunnar hér að ofan.

Menn geta svo gagnrýnt Sjálfstæðisflokkinn fyrir að teygja sínar forsendur inn á þetta ár og fyrir að það sé auðvelt að koma með svona gagnrýni í stjórnarandstöðu þegar menn standa ekki raunverulega frammi fyrir ákvarðanatökunni.

Að sama skapi væri hægt að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að tala um lækkun skatta með hækkun persónuafsláttar um 2.000 krónur en láta hjá líða að minnast á að að óbreyttu hefði hækkun persónuafsláttarins verið mun meiri. Eða það að kalla nýja eignaskattinn “auðlegðarskatt” og að tekjuöflun af honum “gefi um 3 ma. kr., er verði nýttir til að hækka greiðslur barnabóta og vaxtabóta”. Skattur á “auðlegð” er líklegri til vinsælda en “eigna”-skattur og þessir tilteknu 3 milljarðar fara auðvitað alveg jafnt í að greiða vaxtagjöld ríkissjóðs, reka Landspítalann, greiða listamannalaun eða hvað annað sem ríkið tekur sér fyrir hendur.

Hvert og eitt okkar verður að horfa á þetta með sínum eigin gagnrýna hætti og reyna að komast að eigin niðurstöðu um það hvað okkur þyki ásættanlegt og nauðsynlegt í ljósi stöðunnar. Það er þó allavega kostur að rökrætt skuli á grunni staðreynda, en ekki tilfinninga og upphrópana eins og allt of oft vill verða í pólitíkinni.

Nýja Kauphöll takk

kauphoell.width-900.jpgUndanfarna daga hafa verið ræddar í fjölmiðlum hugmyndir um að skrá í Kauphöllina fyrirtæki sem bankarnir hafa tekið yfir og koma þeim þannig í almenningseigu.

Í grunninn held ég að þetta sé góð hugmynd. Að mörgu leiti betri en beint söluferli í umsjón bankanna sjálfra og án alls efa betra en það handstýrða og ógagnsæja ferli sem virðist vera í gangi með önnur.

Hins vegar þarf Kauphöllin að taka verulega til í sínum ranni ef hún á að verða vettvangur þessara viðskipta. Ég er ekki einu sinni viss um að Kauphöllin í þeirri mynd sem hún hefur verið starfrækt eigi sér viðreisnar von. Ástæðan? Jú, Kauphöllin er ein þeirra stofnana sem gerbrást í aðdraganda Hrunsins og þarf að líta í eigin barm, viðurkenna mistök sína og ábyrgð og breyta starfsháttum og reglum áður en hún er tilbúin til að taka þátt í endurreisnarstarfinu.

Byrjum á smá bakgrunnsupplýsingum…

Um hlutafélög
Hlutafélög eru stórmerkilegar stofnanir. Þau gera fólki úr ólíkum áttum kleift að taka saman höndum um verkefni sem hver og einn hefði verið ófær um einn og sér. Sumir geta lagt mikið til þeirrar hugmyndar eða þess verks sem fyrir höndum er og aðrir minna, en ramminn á að tryggja að allir sitji við sama borð og njóti ávaxtanna – og taki á sig áhættuna – í hlutfalli við það sem þeir leggja til.

Að auki takmarkar hlutafélagaformið ábyrgð hluthafanna við það fé sem þeir leggja félaginu til og þannig geta menn lagt verkefni lið, án þess að eiga á hættu að tapa öðru en því sem þeir hafa eyrnamerkt verkefninu. Þetta er líka mikilvægt, því fáir myndu leggja áhættusömu verkefni lið ef það gæti sjálfkrafa stofnað öllum eigum þeirra í hættu. Þetta á líka að öllu jöfnu að þýða það að hlutafélag fái aldrei að stofna til skuldbindinga umfram það sem hlutaféð, rekstur fyrirtækisins og eignir þess geti staðið undir.

Hlutafélög verða þannig til þess að margvísleg verkefni geta orðið að veruleika, sem annars yrðu ekki og ýta þannig undir nýsköpun, skapa störf og auka – þegar vel tekst til – lífsgæði okkar og samfélag. Gunnhugmyndin á bakvið hlutafélagaformið er því besta mál.

Hlutabréfamarkaðir eru að sama skapi mikilvægir. Virk viðskipti með hlutabréf í félagi mynda verð á þeim og meta þannig í raun í sífellu stöðu og framtíðarhorfur fyrirtækisins. Þetta gerir fólki sem lagt hefur verkefni til fé kleift að losa fjármuni á sanngjörnu verði á hverjum tíma og njóta þannig ávaxtanna – eða taka á sig það tap – sem orðið hefur yfir það tímabil sem viðkomandi hlutur var í þeirra eigu. Þetta minnkar enn frekar tregðu fólks við að leggja fé í hlutafélag. Ekki þarf að bíða þar til verkefninu er lokið, eða fyrirtækið fer að borga arð til að geta losað um það fé sem lagt var inn.

Það má því segja að hlutafélög og góður hlutabréfamarkaður sé forsenda fyrir kröftugu atvinnulífi, nýsköpun og uppbyggingu.

Íslenska Kauphöllin var aftur á móti ekki góður hlutabréfamarkaður – og Kofinn sem eftir stendur verður aldrei góð Höll nema til komi grundvallarbreytingar á starfsemi hennar.

Upplýsingagjöf

Lykillinn að ofangreindum kostum hlutafélaga og hlutabréfamarkaða er öflug upplýsingagjöf. Því betri upplýsingar sem kaupendur og eigendur hluta í félaginu hafa um stöðu þess á hverjum tíma, því betri aðstöðu eru þeir í til að meta áhættu og möguleika félagsins. Það er því algert lykilatriði að allir hafi jafnan og eins mikinn aðgang að upplýsingum eins og hægt er – annars skapast ójafnvægi og óvissa um þá þætti sem þurfa að liggja til grundvallar við verðmat hlutanna.

Þetta er líka reynt að tryggja með hlutafélagalögunum og starfsreglum hlutabréfamarkaða. Þeir sem hafa meiri upplýsingar um starfsemina en aðrir, s.s. stjórnendur, stjórnarmenn og í sumum tilvikum aðrir starfsmenn fyrirtækjanna, kallast innherjar – og um viðskipti þeirra með hluti gilda aðrar reglur en um almenna fjárfesta. Öllum öðrum á að tryggja jafnan og öruggan aðgang að upplýsingum. Í tilfelli kauphalla er þetta gert með reglum um birtingu ársreikninga, ársfjórðungsuppgjöra og þess á milli sérstakra tilkynninga ef ástæða er til.

Hrunið kom upp um algera brotalöm í þessari upplýsingagjöf í íslensku Kauphöllinni. Það vantaði svo sem sjaldnast upp á það að umræddum skjölum væri skilað (þó þess séu dæmi, einkum eftir Hrun), en þau sögðu bara ekki alla söguna. Reyndar má segja að þau hafi oft sagt bara einhverja allt aðra sögu – sögu af einhverjum félögum sem aldrei voru til nema í hugum eigendanna og þeirra sem sáu um “upplýsinga”-gjöfina:

 • Flókið net krosseignatengsla kom í veg fyrir að eignarhald á félögunum væri ljóst;
 • Stórlega ýktar “óefnislegar eignir” og “viðskiptavild” (sem reyndar eru hvort tveggja hugtök sem eiga fullan rétt á sér ef rétt er með farið) komu í veg fyrir að nokkuð væri hæft í efnahagsreikningum fyrirtækjanna;
 • Sýndarviðskipti – oft með lánum frá félögunum sjálfum – héldu uppi falsaðri eftirspurn eftir bréfum og þar með verði þeirra; og
 • Tap af óvarlegum viðskiptum var falið með því að selja “eitraðar eignir” inn í nýstofnuð dótturfélög sem áttu svo jafnvel ekkert annað.
 • Endurskoðendur félaganna kvittuðu upp á allt saman með glöðu geði og léðu þessum upplýsingum þar með trúverðugleika.

Þessi listi gæti hæglega verið lengri og lengist reyndar sífellt eftir því sem fleiri kurl koma til grafar.

Allt þetta átti sér stað í Kauphöllinni – þeirri sem nú ætlar að taka þátt í endurreisninni. Þeim til varnar má reyndar segja að það sama hefur að einhverju leiti átt sér stað í kauphöllum úti um allan heim, en það þýðir ekki að við eigum bara að endurvekja sama kerfið. Það partý er búið og ef það verður aftur veisla, verður hún á allt öðrum forsendum, með öðrum boðslista og mun hófstilltari skemmtiatriðum.

Við eigum ekki að sætta okkur við óbreytt fyrirkomulag. Ef við ætlum að virkja kosti hlutafélagaformsins aftur til fulls þarf nýja hugsun og nýjar reglur.

Annan október í fyrra, þegar hamfarirnar voru varla byrjaðar, skrifaði ég þessa færslu sem stendur jafnvel enn frekar fyrir sínu nú en þá. Ég held ég noti bara eftirfarandi klausu úr henni til að lýsa því hvert ég er að fara:

Lög um upplýsingagjöf í kauphallarviðskiptum eiga sér meira en aldarlanga sögu og tilgangur þeirra er að markaðsaðilar sitji við sama borð með bestu fáanlegu upplýsingar á hverjum tíma. Á þeim tíma sem lögin eru mótuð, hefur ársfjórðungsleg birting á rekstrartölum líklega verið ansi stíf krafa – jaðrað við það að vera rauntíma upplýsingagjöf með þeirra tíma tækni. Í dag er þessu öðruvísi farið. Það er ekkert sem stoppar kauphallir í að setja kröfur um rauntímaaðgengi að hverju sem þeir kjósa. Já – jafnvel inn í bókhald fyrirtækjanna, sjóðsstreymi þeirra, útistandandi kröfur og eignastöðu.

Þannig gæti fjárfestir, hvort sem hann er að fjárfesta í hlutabréfum, skuldabréfum, eða einhverjum sjóðum, grafið sig niður í minnstu smáatriði fjárfestingar sinnar. Svolítið eins og DataMarket og fjárlögin, nema bara á miklu stærri skala og með miklu meiri nákvæmni.

Ef svona hefði verið, hefðu margir verið búnir að benda á samsetninguna í Sjóði 9 og hversu mikið hékk þar á fáum, tengdum aðilum. Það hefði líka verið búið að grafa í alla undirmálsvafningana og gagnrýna þá. Hrunið stafar af miklu leiti af því að fáir, ef nokkur, hafði tækin til að sjá í gegnum flækjuna sem búið var að spinna í allskyns fjármálagjörningum.

Ég held að þegar þessum hamförum á fjármálamörkuðum lýkur og menn fara að endurskoða leikreglurnar, sé eitthvað á þessa leið líklegt til að verða ofan á. Ekkert annað en fullkomið gegnsæi á öll tiltæk gögn getur aukið tiltrú almennings á þessum mörkuðum aftur.

Warren Buffet fjárfestir aldrei í neinu sem hann skilur ekki. Með rauntímaaðgang í undirliggjandi vef fjármála- og bókhaldskerfa myndu allir hafa tólin til að skilja það sem að baki fjárfestingum þeirra og hópnum sem heild treystandi til að veita markaðsaðilum aðhald með því að rýna í þessar tölur með og beita allskyns greiningar- og birtingartólum til að koma auga á veilurnar í kerfinu.

– – –

Aðrar færslur frá mér (og DataMarket) um tengd málefni:

Opin gögn á Alþingi

detectiveStundum verður manni að ósk sinni hraðar en við mætti búast.

Fyrir sjö vikum síðan birti ég bloggfærslu undir titlinum “Opin gögn og gagnsæi – yfirlýsing stjórnvalda“. Þar fór ég yfir þá vitundarvakningu sem er að verða varðandi aðgengi að opinberum gögnum og gagnasöfnum, hvernig þetta spilar inn í þá gagnsæisumræðu sem nú er í gangi og gerði mér að leik að skrifa drög að stuttri yfirlýsingu sem ég lagði til að hið opinbera gerði að sinni.

Núna á föstudaginn var lögð fram þingsályktunartillaga, sem er efnislega í stórum dráttum samhljóma þessum drögum mínum.

Tillagan er lögð fram af breiðum hópi þingmanna, en það er þó að öðrum ólöstuðum varaþingmaður VG – Davíð Stefánsson – sem hefur átt frumkvæðið af því að keyra þetta áfram. Davíð hefur verið mjög áhugasamur um þessi málefni a.m.k. frá því að hann sat fyrirlestur í Hugmyndaráðuneytinu í byrjun árs þar sem ég flutti erindi um opin gögn og gagnaframsetningu. Reyndar hafa pólitíkusar úr – ég held ég megi segja – öllum flokkum sýnt málinu mikinn skilning og áhuga, enda er þetta mál sem í raun ætti ekki að höfða betur til einnar stefnu í pólitík en annarar.

Nú verður gaman að fylgjast með þessu máli í meðförum þingsins og sjá hvort þetta leiði til lagabreytinga og breytts hugsanaháttar varðandi aðgengi að opinberum gögnum.

Ég mæli með að fólk lesi tillöguna. Þetta er heilt yfir aðgengilegur, góður og umfram allt gáfulegur texti.

Opin veðurgögn – skref í rétta átt

Á þriðjudaginn var stigið lítið en mikilvægt skref í átt að opnum gögnum á Íslandi.

Þá var nefnilega opnaður aðgangur almennings að Gagnatorgi veðurupplýsinga. Á þessu gagnatorgi má með einföldum hætti nálgast allar veðurathuganir Veðurstofu Íslands sem skráðar eru í gagnagrunna hennar. Þessar athuganir taka til u.þ.b. 200 veðurstöðva víðsvegar um landið og ná í sumum tilvikum allt aftur til ársins 1931.

Mörgum þeim sem e.t.v. eru ekki heitir áhugamenn um veðurfar og veðurupplýsingar kann að finnast lítið til koma, enda er virkni lausnarinnar tiltölulega afmörkuð og augljósar viðbætur sem hægt er að gera t.d. til að bæta myndræna framsetningu þessara veðurgagna og almennt upplýsingagildi. Lausninni var þó ekki ætlað að gera annað eða meira á þessu stigi málsins en að gera gögnin auðveldlega aðgengileg skólafólki, áhugamönnum um veðurfar og öðrum sem kunna að hafa gagn af þeim.

Mig langar samt að benda á að þetta er að mörgu leiti mjög merkilegt skref, því það setur það tóninn fyrir það sem koma skal í opnu gagnaaðgengi hér á landi.

Veðurgögnin sem þarna er opnað aðgengi að eru afurð áratuga starfs óeigingjarnra athugunarmanna, veðurfræðinga, tæknimanna og annara sem komið hafa að því að byggja upp öflugt kerfi veðurathugana hér á landi. Og frá og með þriðjudeginum skila þessi gögn sér jafnóðum inn í Gagnatorg veðurupplýsinga og eru samstundis aðgengileg landsmönnum öllum.

Þetta eru þau gögn sem liggja að baki þeim veðurspám, spálíkönum og veðurrannsóknum sem stundaðar hafa verið hér á landi; ómetanlegur grunnur að þekkingu, öryggi landsmanna og nýtingu okkar á gæðum lands og sjávar.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að opið aðgengi almennings, skólafólks, fræðasamfélags og einkafyrirtækja að þessum gögnum mun leiða af sér enn meiri þekkingu, fróðleik og verðmæti. Menntaskólanemendur munu nota Gagnatorgið til heimildaöflunar, grunnskólanemendur munu þar kynnast samhengi vindstyrks og vindáttar í sinni heimabyggð og af hverju afi segir að það komi alltaf þoka þegar hann er “að austan”. Flugáhugamenn munu finna flugvöllum sínum stað og ef til vill mun einhver áhugamaður um veðurfar gera merkilega uppgötvun um veðrið á Akureyri. Hver veit?

Líklega eiga merkilegustu áhrif þess að opna aðgengi að þessum gögnum eftir að vera eitthvað sem við höfum ekki hugmyndaflug til að ímynda okkur núna.

Ég tek heilshugar undir það sem Menntamálaráðherra sagði við opnun gagnatorgsins:

Opinber gögn sem safnað hefur verið fyrir opinbert fé eru fjársjóður sem enn er að stóru leiti óuppgötvaður. Veðurgögn eru aðeins eitt af ótal dæmum.

Opið gagnaaðgengi tilheyrir alls ekki einhverri ákveðinni stefnu í pólitík – þetta er eitt af þeim málum sem allir ættu að geta verið sammála um hvort sem þeir aðhyllast svokallaða hægri- eða vinstri-stefnu í pólitík. Óheft og jafnt aðgengi að upplýsingum er t.d. grundvallaratriði í frjálsum markaðsbúskap og þó ólíkar stefnur greini á um hve mikil umsvif ríkisins eigi að vera, held ég að fólk sé almennt sammála um að okkur beri að hámarka verðmæti þess sem unnið er fyrir opinbert fé.

Í opnara aðgengi að gögnum hins opinbera bíða fjölmörg tækifæri vísindamanna, skólafólks, nýsköpunar og atvinnulífs framtíðarinnar. Opnun Gagnatorgs veðurupplýsinga er bara lítið skref á þeirri braut, en ég er viss um að við munum á næstu mánuðum og árum sjá aðgengi opnað að fjölmörgum öðrum gagnasöfnum sem munu knýja nýsköpun og þekkingu og auka aðhald almennings og fjölmiðla að starfsemi jafnt hins opinbera sem einkaaðila.

Nú er undir áhugamönnum um veður, vísindi og opið gagnaaðgengi að sýna hvað í þeim – og veðurgögnunum – býr og sanna þar með hverju opið gagnaaðgengi getur áorkað.

– – –

Það eru fyrirtækin Reiknistofa í veðurfræði og DataMarket (sem undirritaður rekur ásamt öðrum) sem standa að þróun og rekstri Gagnatorgsins.

Opin gögn og gagnsæi – yfirlýsing stjórnvalda

transparencyFyrir nokkrum vikum skrifaði ég færslu á bloggsíðu DataMarket um það sem kalla mætti “vægðarlaust gagnsæi“. Færslan gengur í stuttu máli út á það að leiðin til að endurreisa traust á Íslandi – jafnt inn á við sem út á við – felist í gagnsæi og heiðarleika á áður óþekktu stigi – að sýna svo ekki verður um villst að það sé ekkert að fela.

Færslan er skrifuð á ensku og hefur vakið dálitla athygli. Hún leiddi m.a. af sér viðtal í veftímaritinu Frontier Economy þar sem farið er dýpra í saumana á sumum þeim hugmyndum sem þar voru settar fram.

Ég hef líka skrifað og beitt mér fyrir opnum gögnum í töluverðan tíma. Opin gögn snúast í stuttu máli um það að öll gögn sem safnað er eða útbúin hjá opinberum aðilum eigi að vera opin og aðgengileg öllum, án hindrana, nema brýnar ástæður séu til annars, t.d. af persónuverndar- eða öryggissjónarmiðum. Á vefnum opingogn.net má nálgast drög að íslenskri þýðingu skilgreiningar á opnum gögnum.

Í raun má segja að opin gögn og vægðarlaust gagnsæi séu tvær hliðar á sama málinu:

 • Opin gögn snúast um meðferð gagna í umsjá hins opinbera.
 • Vægðarlaust gagnsæi snýst hins um það hvort e.t.v. sé ástæða til að safna eða framreiða einhver gögn til viðbótar við það sem þegar er í þeim tilgangi sérstaklega að upplýsa um framvindu eða stöðu mála.

obama-kundraUm þessar mundir gengur yfir heiminn vitundarvakning varðandi mikilvægi opinna gagna og þá sérstaklega “formfastra gagna” (e. structured data). Mest áberandi er þessi vakning í Bandaríkjunum, en þegar á fyrstu dögum í embætti gaf Obama út skýr fyrirmæli um það að opinberar stofnanir skyldu sem allra fyrst gera gagnasöfn sín aðgengileg almenningi á vefnum, án hindrana. Hann réð jafnframt í fyrsta skipti til starfa upplýsingatæknistjóra (CIO) við stjórnina – sá heitir Vivek Kundra og hefur lyft grettistaki á stuttum tíma. Helsta birtingarmynd þess er vefsvæðið Data.gov, þar sem nú má nálgast yfir 100 þúsund gagnasöfn frá hundruðum opinberra stofnanna. Þessi gögn hafa svo bæði fjölmiðlar, fyrirtæki og áhugasamir einstaklingar notað við afar áhugaverð verkefni sem opna ný tækifæri, auka skilning á flóknum þáttum samfélagsins og veita hinu opinbera aðhald.

berners-leeÍ Bretlandi hafa báðir stóru flokkarnir markað skýra stefnu í þessa veru. Stjórnin hefur þar að auki fengið til liðs við sig engan annan en Tim Berners-Lee. Berners-Lee hefur verið kallaður “faðir vefsins” og er vel að þeim titli kominn enda bjó hann til HTML staðalinn sem allar vefsíður og þar með vefurinn allur byggir á. Berners-Lee hefur í seinni tíð verið ötull talsmaður opinna gagna og hefur sennilega betri skilning á því en flestir hversu verðmætt opið aðgengi og samtengingar gagna úr ólíkum áttum getur verið.

roslingAð lokum má nefna sænska prófessorinn Hans Rosling, sem hefur með líflegri framsetningu gagna vakið marga – ekki síst alþjóðastofnanir á borð við Sameinuðu Þjóðirnar, OECD og jafnvel Evrópusambandið – til umhugsunar og góðra verka í því að gera sín gögn aðgengilegari en verið hefur.

Fáir hafa þó meiri þörf fyrir að meðtaka þessa hugmyndafræði en einmitt trausti rúnir Íslendingar. Ég veit fyrir víst að víða er vilji og sums staðar skilningur fyrir þessum málum, en mörg nýleg dæmi sýna mikilvægi þess að ná almennum vilja, skilningi og aðgerðum á þessu máli til þess að við getum byggt hér upp heiðarlegt samfélag trausts og samstöðu.

Í ríkjandi kerfi er litið svo á að öll gögn séu trúnaðarmál nema sérstök ástæða sé til að opna þau. Þessum hugsanahætti þarf að snúa við. Gögn opinberra aðila eiga hér eftir að vera opin nema sérstök ástæða sé til að vefja þau trúnaði.

Ég gerði mér því að leik að skrifa drög að örstuttri yfirlýsingu sem ég legg hér með til að ríkisstjórnin (og reyndar aðrir opinberir aðilar, s.s. sveitarfélög) geri að sinni og fylgi svo eftir með aðgerðum:

Öll gögn í umsjón opinberra aðila skulu hér eftir vera opin og aðgengileg almenningi án hindrana, nema brýnar ástæður séu til annars. Skilgreindar verða skýrar viðmiðunarreglur um hvað teljast ástæður til hindrana með tilliti til persónuverndar, öryggissjónarmiða og annara ríkari hagsmuna. Undantekningar skulu vera vel rökstuddar og skal ekki hindra aðgang meira en til að mæta þeim rökum.

Allar stofnanir hins opinbera skulu þegar í stað birta skrá yfir þau gögn og gagnasöfn sem þær ráða yfir og gera gögn þeirra aðgengileg á því formi sem þau eru nú á. Jafnframt skal skrá gagnasöfn sem ekki er opnaður aðgangur að, tilgreina efnistök þeirra, ástæður fyrir hindrunum á aðgengi og hvenær þeim hindrunum verði aflétt. Til lengri tíma skal leitast við að gera gögnin aðgengileg á stöðluðu, tölvutæku formi sem tekur tillit til allra þátta sem kveðið er á um í skilgreiningu opinna gagna.

Stofnanir skulu einnig gera úttekt á því hvort starfsemi þeirra gefi ástæðu til að safna sérstaklega gögnum umfram það sem þegar er gert í þeim tilgangi að auka gagnsæi á starfsemi sína eða á samfélagið almennt.

Það er ekki flókið að gefa þessa yfirlýsingu, ekki dýrt að fylgja henni eftir og reyndar að miklu leiti þegar kveðið á um þessa hluti í upplýsingalögum og annari stefnumörkun sem þegar hefur átt sér stað. Núna er bara ríkari ástæða en nokkru sinni til að láta verkin tala og endurbyggja þannig traustið sem tapaðist.

Tugmilljarða misræmi í Icesave skjölum

Ég bið ykkur um að lesa eftirfarandi færslu mjög vandlega og með gagnrýnum huga áður en þið dragið nokkrar ályktanir, eða hefjið upphrópanir út frá því sem hér kemur fram. Þetta er afar viðkvæmt efni, óvíst að ég hafi rétt fyrir mér og góðar líkur á að það sem hér kemur fram eigi sér eðlilegar skýringar sem hafi engin áhrif þegar allt kemur til alls. Sem sagt: Anda rólega

Uppfært 20. ágúst, 2009 kl. 18:20: Skýring hefur fengist á fyrra atriðinu sem nefnt er í færslunni. Sjá athugasemd #7 í athugasemdakerfinu.

Uppfært 21. ágúst 2009 kl 18:30: Skýring hefur nú einnig fengist á síðara atriðinu. Sjá athugasemd #8 í athugasemdakerfinu.

Ég er kreppuklámhundur. Að hluta til hef ég afsökun. Það að liggja yfir gögnum er vinnan mín – meira að segja það að liggja yfir Icesave-gögnum.

Ég er þess vegna búinn að skoða fleiri tölur og velta mér meira uppúr því hvernig þessir hlutir hanga saman en mér er hollt. Við það hafa vaknað nokkrar spurningar, sem ég hef – þrátt fyrir margvíslegar tilraunir – ekki getað fengið viðhlýtandi skýringu á. Hér að neðan má sjá tvö þessara atriða. Bæði þessi atriði eru í besta falli einfaldur misskilningur minn eða saklaus mistök þeirra sem í hlut eiga, en í versta falli tugmilljarða yfirsjónir við meðferð málsins. Ég ætla að gera ráð fyrir því fyrrnefnda þar til annað kemur í ljós.

1. 150 milljón evra misræmi í Icesave skjölum

Í lánasamningnum við Hollendinga er eftirfarandi klausa (í íslenskri þýðingu af Ísland.is):

2.1.2 Fjárhæð endurgreiðslunnar nemur 1.329.242.850 evrum (einum milljarði þrjú hundruð tuttugu og níu milljónum tvö hundruð fjörtíu og tvö þúsund átta hundruð og fimmtíu evrum).

Í skjali sem hefur gengið manna á milli um dreifingu innistæðufjárhæða á Icesave reikningunum er hins vegar þetta yfirlit:

icesave-distribution

Ég sé þetta skjal ekki í þeim gögnum sem lögð hafa verið fram á vef Alþingis með málinu, en það á uppruna sinn í Landsbankanum, virðist tekið saman í lok mars á þessu ári og á að sýna stöðuna þann 8. október 2008, daginn eftir að Landsbankinn var tekinn yfir.

Talan sem ég hef dregið rauðan kassa utan um eru heildarinnistæður á Icesave í Hollandi undir 20.887 evra markinu. Hún ætti sem sagt að samsvara lánsfjárhæðinni, en eins og sjá má er hún þarna 1.180.611.896 eða u.þ.b. 150 milljónum evra lægri en lánsfjárhæðin. Allar tölur aðrar, s.s. heildarinnistæður og fjöldi innlánseigenda stemma við önnur gögn sem fram hafa komið. Í samningnum við Hollendinga er enginn fyrirvari er gerður við þessa upphæð og því um endanlega fjárhæð að ræða.

Ég hef enga ástæðu til að efast um uppruna skjalsins sem um ræðir. Það er auðvitað hugsanlegt að seinna hafi komið í ljós einhver skekkja og nýtt skjal verið útbúið, en það er allavegana þess virði að fá skýringar á þessum mun. 150 milljón evrur eru jú u.þ.b. 27,5 milljarðar króna á gengi dagsins og það 27,5 milljarðar sem við þurfum að borga til baka og borga vexti af næstu árin.

Í tilfelli bresku reikningana eru samsvarandi fjárhæðir 2.350.000.000 og 2.239.478.713 pund. Þar munar sem sagt ca. 110 milljón pundum. Samningurinn við Breta er hins vegar að þessu leyti aðeins annars eðlis. Þar kemur fram að um lánalínu sé að ræða, upphæðin sé hámark og að endanleg upphæð verði að líkindum lægri og ráðist af útgreiðslum breska ríkisins og breska innlánstryggingasjóðsins. Að auki er í Excel-skjalinu reiknað með að 20.887 evra lágmarkstryggingin samsvari 16.500 pundum, en í samningnum er miðað við annað gengi og þar samsvarar hún 16.873 pundum sem skýrir hluta þessa mismunar. Ég hef því ekki áhyggjur af breska samningnum að þessu leyti.

2. Misræmi í endurheimtuferlum á eignum Landsbanka
Einu gögnin sem hafa – mér vitanlega – verið gerð opinber um áætlaðan endurheimtuferil á eignum LÍ, eru í fylgiskjali 2 með skriflegri umsögn SÍ um Icesave (bls. 18). Þar er þessi tafla:

icesave-si-fylgiskjal2

Þarna eru höfuðstóll og greiðslur gefnar upp í GBP, EUR og svo (væntanlega) reiknað samanlagt yfir í ISK. Gengisforsendurnar fyrir hvorn gjaldmiðil eru svo gefnar í öftustu 2 dálkunum.

Aftur hef ég samt dregið rauðan kassa utan um nokkrar tölur. Ég fór nefnilega að vinna með þessar talnaraðir og þá kom í ljós að fyrstu 7 árin kemur formúlan ((Greiðslur í GBP * Gengi GBP) + (Greiðslur í EUR * Gengi EUR)) ekki heim og saman við Greiðslur í ISK.

Tökum 2009 sem dæmi. Þar er sagt að greiðslur í krónum séu 66.112 milljónir (rúmir 66 milljarðar). Greiðslur í pundum eru hins vegar 220 milljónir og í evrum 125 milljónir. Miðað við gengisforsendurnar í öftustu tveim dálkunum lítur formúlan þá svona út ((220 * 177,46) + (125 * 158,18)) = 58.814 milljónir (tæpir 59 milljarðar). Þarna munar s.s. einum 7 milljörðum. Þessi skekkja er gegnum gangandi í þessum dálki allt til ársins 2015 að því ári meðtöldu, þ.e. á þeim tíma sem eignir Landsbankans eiga að vera að koma til lækkunar á höfuðstólnum.

Samtals munar á þessum 7 árum rétt rúmum 79 milljörðum á reiknaðri fjárhæð og þeirri sem fram kemur í töflunni, þannig að spurningin er: Hvor talan er rétt?

Ég vona að minnsta kosti að enginn sé að taka stórar ákvarðanir útfrá þessum tölum nema viðkomandi viti hverju má treysta í þessu og hvort möguleiki sé á að rangar eða misvísandi tölur liggi nokkur staðar sem forsendur útreikninga t.d. á greiðslubyrði vegna samningsins.

– – –

Eins og ég sagði í upphafi færslunnar: Vonandi á þetta sér hvort tveggja góðar og gildar skýringar og ég vil ekki valda stormi í vatnsglasi með þessum vangaveltum. Mér líður bara ekki vel með skekkjur upp á meira en 100 milljarða í gögnum sem liggja til grundvallar einu af stærstu málum í sögu þjóðarinnar.

Með öðrum orðum: Ekki rjúka upp til handa og fóta og halda að ég hafi rétt fyrir mér með þetta og að afleiðingarnar séu með einhverjum hætti tjón eða hugsanlegt tjón af þeim stærðargráðum sem hér um ræðir. Fyrst skulum við sjá hvort það er ekki einhver þarna úti sem getur bent mér á mistúlkun í ofangreindum atriðum, eða komið með ný gögn eða haldbærar skýringar á þessum skekkjum.

Icesave-reiknir leiðréttur

Eftir ábendingu frá vökulum notanda, fundum við villu í Icesave-reikninum sem DataMarket setti í loftið í samvinnu við mbl.is í síðustu viku. Sjá fyrri færslu.

Villan gerði það að verkum að áhrif breyttrar kröfuraðar voru ofmetin í þeim tilfellum þegar endurheimtar eignir Landsbankans verða verulegar. Þetta hefur nú verið leiðrétt.

Að öðru leiti stendur reiknilíkanið óhaggað. Allar skýringar eru óbreyttar og eftir sem áður réttar.

DataMarket – sem ber ábyrgð á reikniverki Icesave-reiknisins – biðst afsökunar á þessum mistökum.

Áhrifin eru umtalsverð. Breytingin frá grunnforsendum, við það að breyta kröfuröðinni er 87,8 milljarðar króna nú í stað ríflega 200 milljarða áður. Frávik í öðrum dæmum fara – eins og segir í tilkynningunni – eftir því hve mikið af eignum Landsbankans endurheimtast.

Leiðrétting þessa efnis mun birtast á mbl.is í fyrramálið.

Þetta særir stoltið auðvitað töluvert. Ástæðuna fyrir því að þessi villa slæddist með má rekja til ónógra prófana áður en reiknirinn fór í loftið, en forsendurnar og útreikningarnir eru – eins og sjá má í útskýringum við reikninn – býsna margslungin.

Rétt skal vera rétt og við lærum af þessum mistökum.

Icesave reiknir mbl.is og DataMarket

Fyrr í kvöld var sett í loftið gagnvirk fréttaskýring um Icesave skudbindingarnar á mbl.is. Þetta er reiknivél þar sem lesa má skýringar við helstu álitaefni og óvissuþætti í samningnum og sjá hvaða áhrif breyttar forsendur hafa á skuldbindinguna sem ríkið tekst á hendur með samningnum, endurheimtur eigna og greiðsludreifinguna svo eitthvað sé nefnt.

Reiknirinn er samstarfsverkefni DataMarket (sem ég rek ásamt litlum hópi snillinga) og mbl.is. Smellið á myndina til að skoða reikninn:

Icesave reiknir

Ég er ekki síður stoltur af þeim skýringum sem settar eru fram með forsendunum, en sjálfum reikninum. Sérstaklega held ég að okkur hafi tekist að koma ágreiningnum um forgang krafna í skiljanlegan búning með þessari kynningu sem birt er í skýringum við þann lið reiknisins:

Ég vona að reiknirinn reynist hjálplegur við að skilja þetta stóra og flókna mál og mynda sér skoðun á því. Gagnrýni er að sjálfsögðu velkomin.

100 dagar – tilraun í “opnu aðhaldi”

sjs-jsÞann 11. maí kynnti ný ríkisstjórn stjórnarsáttmála sinn og samhliða honum aðgerðaáætlun yfir verkefni sem hún hyggðist ljúka á fyrstu 100 dögum stjórnarsetunnar. Að flestu leyti eru svona vinnubrögð til fyrirmyndar: gagnsemi “to-do” lista er margsönnuð og þarna voru að auki sett fram mælanleg og nokkuð skýr markmið fyrir fyrstu skref nýrrar stjórnar.

Ég ákvað því að gera smá tilraun með áhrifamátt netsins og “opins aðhalds” við ríkisstjórnina og setti samdægurs upp einfalda vefsíðu þar sem atriðin á voru listuð og dagarnir taldir niður. Síðan þá hef ég merkt við atriði eftir því sem þau hafa verið kláruð og ég hef orðið þess var. Þannig er hægt að fylgjast með því hver staðan í þessum aðgerðum er á hverjum tíma.

Þetta hefur verið mjög áhugaverð tilraun. Alls hafa hátt í 20þús manns skoðað listann og ég hef fengið fjöldan allan af tölvupóstskeytum um atriði sem er lokið, álitaefni og aðrar ábendingar. Þessi skeyti hafa spannað allt litrófið bæði í pólitík og samfélagsstöðu. Þannig veit ég fyrir víst að fylgst er með þessum lista af þingmönnum, aðstoðarmönnum ráðherra, stjórnarandstæðingum og fólki sem hefur (greinilega) afar heitar skoðanir á þjóðfélagsmálum.

Tvívegis hefur stjórnin svo sent frá sér tilkynningar um það hvernig þeim miði í að vinna niður þennan aðgerðalista. Sú fyrri (sem reyndar var frétt á RÚV, en nokkuð örugglega byggð á tilkynningu frá forsætisráðuneytinu) birtist þann 30. maí síðastliðinn. Þar sagði að 10 atriðum af 48 væri lokið. Þá hafði ég aðeins merkt við 4 atriði á listanum og þetta kom mér því nokkuð á óvart. Ég lagðist yfir listann og leitaði heimilda um þessi 10 atriði. Viðmiðunin var sú að til að atriði teldist lokið væri hægt að finna á helstu fréttamiðlum eða vefmiðlum stjórnarráðsins staðfestingu á því að atriðinu væri sannanlega lokið. Niðurstaðan var sú að í 4 tilfellum af þessum 10 fann ég engar heimildir – aðrar en frétt RÚV – um að svo væri í raun og veru.

Síðari tilkynningin barst nú á föstudaginn. Þar segir að 21 atriði af 48 sé lokið. Ég fór yfir þennan lista með sama hætti og komst að því að mér höfðu sannanlega yfirsést nokkur atriði sem lokið hefur verið við eða tilkynnt um síðustu daga. Hins vegar get ég alls ekki kvittað undir 21 atriði. Mín niðurstaða er sú að 15 atriðum sé lokið.

Viðmiðunin er – sem fyrr sagði – að hægt sé að finna staðfestingu á því að verkefnunum sé lokið, en sömuleiðis virðist stjórnin túlka “aðgerðir” nokkuð duglega sér í hag. Hér er útlistun á þeim atriðum sem orkuðu tvímælis í mínum huga, þar á meðal þeim 6 þar sem ég er ósammála túlkuninni í tilkynningu stjórnarinnar:

 • Liður númer 5 í tilkynningu ráðuneytisins segir að ríkisstjórnin hafi “Stóraukið samráð við hagsmunasamtök á vinnumarkaði þar sem skipst hefur verið á skoðunum um ríkisfjármál, atvinnumál og stöðugleikasáttmála.” Þetta atriði er ekki á hinum upphaflega lista. Þar er aftur á móti #31: “Samráðsvettvangur ríkisstjórnar, sveitarfélaga, landbúnaðarins og aðila vinnumarkaðarins settur á fót.” Er þetta sami punkturinn? Eru fulltrúar sveitarfélaga og landbúnaðarins með í þessu “stóraukna samráði”? Vísar þetta til viðræðna um stöðugleikasáttmálann svokallaða?
  Niðurstaða: Ég gef þessu – þar til þessi orðalagsbreyting hefur verið útskýrð.
   
 • Atriði númer 6 í tilkynningunni segir að stjórnin hafi “Hafið vinnu við gerð yfirlits um stöðu og þróun lykilstærða í samfélaginu til að skilgreina vanda samtímans og framtíðarvalkosti í mikilvægum málaflokkum.” Þetta samsvarar atriði #47 á upphaflega listanum. Ég gat ekki fundið neinar heimildir aðrar en fréttatilkynningar stjórnvalda um að þessu atriði væri lokið. Hvað er verið að gera? Hver er að gera það? Hvar getum við fylgst með þessari vinnu?
  Niðurstaða: Ekki merkt við.
   
 • Atriði númer 14 í tilkynningu ráðuneytisins segir að stjórnin hafi “Skipað starfshóp til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða með þátttöku allra stjórnmálaflokka á Alþingi og fjölmargra hagsmunasamtaka.” Þetta samsvarar punkti #7 í upphaflega listanum sem hljóðar einfaldlega svo: “Endurskoðun hafin á fiskveiðistjórnunarkerfinu.” Besta heimild sem ég fann um aðgerðir tengdar þessu atriði var tilkynning sjávarútvegsráðuneytisins frá 5. júní. Þar segir að “Jón Bjarnason [hafi] ákveðið að skipa starfshóp um endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar” og að “eftirtöldum aðilum verið boðið að tilnefna fulltrúa í starfshópinn…”. Ég get ekki fallist á það að þetta þýði að endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins sé hafin. Starfshópurinn hefur eftir því sem næst verður komist ekki einu sinni verið skipaður og þar með engin vinna hafin.
  Niðurstaða: Ekki merkt við.
   
 • Atriði númer 15 í tilkynningunni segir að stjórnvöld hafi “Lagt fram náttúruverndaráætlun til ársins 2013 til þess að stuðla að traustri verndun íslenskrar náttúru og framkvæmd alþjóðlegra samninga um náttúruvernd á Íslandi.” Þetta samsvarar atriði #39 á upphaflega listanum: “Náttúruverndaráætlun til ársins 2013 lögð fram á Alþingi.” Reyndin er sú að þessi áætlun var lögð fram í desember 2008 og ef marka má feril málsins á vef Alþingis hefur ekkert verið hreyft við þessu máli á yfirstandandi þingi og þar með ekki á starfstíma núverandi ríkisstjórnar. Það er líklega rétt að merkja við þetta atriði, en erfitt fyrir starfandi ríkisstjórn að eigna sér heiðurinn af því.
  Niðurstaða: Merkt sem lokið, en um leið útskrifað sem ódýrasta aðgerð stjórnarinnar á listanum – henni var lokið áður en stjórnin tók til starfa 🙂
   
 • Atriði númer 17 í tilkynningunni: “[Ríkisstjórnin hefur] hafið vinnu við endurskoðun upplýsingalaga til að auka aðgengi almennings og fjölmiðla að opinberum upplýsingum.” samsvarar atriði #22 á upphaflega listanum: “Endurskoðun hafin á upplýsingalögum í því augnamiði að auka aðgengi almennings og fjölmiðla að upplýsingum stjórnarráðsins.” Samkvæmt þessari frétt forsætisráðuneytisins frá 22. maí, sýnist mér að um þetta gildi hið sama og um atriði 14. Í frétt ráðuneytisins felst ekkert nýtt. “Ákvörðun” ríkisstjórnarinnar þann 19. maí var að gera það sem hún var þegar búin að segjast ætla að gera í 100 daga áætluninni. Nefndin hefur – skv. því sem næst verður komist – ekki verið skipuð og því ekki hægt að segja að vinna við endurskoðun þessarra laga sé hafin.
  Niðurstaða: Ekki merkt við.
   
 • Atriði númer 18 í tilkynningunni segir að stjórnin hafi “Hafið vinnu við mótun menningarstefnu til framtíðar í samráði við listamenn.” Þetta samsvarar atriði #42 á upphaflega listanum. Í menntamálaráðuneytinu hefur verið starfrækt svokölluð Skrifstofa menningarmála að minnsta kosti frá árinu 2004. Meðal hlutverka hennar er að “[undirbúa] mótun menningarstefnu, [hafa] umsjón með framkvæmd hennar og annast almenna stjórnsýslu á sviði menningarmála.” Það væri því býsna ódýrt að telja það til afreka nýju ríkisstjórnarinnar. Um það að þessi vinna hafi breyst eða hún tekin til endurskoðunar í tíma nýrrar stjórnar get ég engar heimildir fundið á vefjum stjórnarráðsins eða fréttamiðlum og því ómögulegt að sannreyna að eitthvað hafi verið gert í þessu máli.
  Niðurstaða: Ekki merkt við fyrr en skýrt hefur verið hver munurinn er á áformum stjórnarinnar og þeirri vinnu sem þegar var í gangi. Ef sá munur er ekki til staðar má merkja við þetta atriði, en þá lendir það í harðri samkeppni við náttúruverndaráætlunina um ódýrasta bragðið á listanum.
   
 • Atriði 21 í tilkynningunni segir að stjórnin hafi “Tekið ákvörðun um eigendastefnu og eignarhald bankanna í ríkisstjórn.” Þetta samsvarar atriði #3 í upphaflega listanum. Þetta er gott að heyra – stórtíðindi reyndar – en ómögulegt að sannreyna fyrr en þessi ákvörðun hefur verið gefin út og birt almenningi. Ég get því ekki merkt við þennan lið – en ólíklegt að það fari framhjá manni þegar ákvörðunin sem sagt er að liggi fyrir verður kynnt!
  Niðurstaða: Ekki merkt við.

Okkur ríkisstjórninni ber s.s. ekki alveg saman um framgang hennar. Að hluta til er um túlkunaratriði að ræða, í einhverjum tilfellum segist stjórnin vera búin með atriði sem hún hefur/getur ekki sagt okkur frá og í einhverjum tilfellum er líklega bara um skort á upplýsingagjöf stjórnarinnar – eða leitarhæfileikum mínum að ræða.

Tilraunin heldur augljóslega áfram næstu 65 dagana og ég er nokkuð viss um að það á fleira áhugavert eftir að koma út úr henni. Ábendingar, hugmyndir og gagnrýni velkomin.

Blessað bankahrunið

gegnsæiÉg hef ýjað að því alveg frá því á fyrstu dögunum eftir hrun, en ég verð sífellt vissari í minni sök: Mikið óskaplega höfðum við gott af þessu bankahruni.

Þjóðfélagið var orðið fársjúkt og það virðist sama hvar stungið er á sárin, alls staðar vellur gröfturinn út. Viðskiptalíf og stjórnmál hafa auðvitað alltaf verið samofin á Íslandi, en síðustu ár virðist sá vefnaður hafa tekið á sig nýjar og ljótari myndir. Kolkrabbar og smokkfiskar eru eftirsóknarverð gæludýr við hliðina á þeim sem virðast hafa gengið hér laus.

Líklega hefur þetta gerst í einhverskonar viðleitni stjórnmálaaflanna til að halda í völdin í breyttum heimi – heimi sem þau breyttu sjálf. Stjórnvöld hverra stefna átti að standa fyrir “frelsi til athafna” og minnkandi afskipti ríkisins, voru ekki staðfastari í trúnni en svo að undir þeim þöndust umsvif ríkisins út, skattheimta jókst (jú víst: hlutfall fjárlaga af þjóðarframleiðslu hefur farið stighækkandi allar götur síðan 1980 og líklega mun lengur). Frelsi til athafna hefur reyndar verið mjög rúmt – helst til rúmt reyndar – hjá þeim sem velþóknun hefur verið á.

Til að byrja með virðast menn hafa haldið að þeir gætu stjórnað umræðu og atburðarás eftir bankahrunið eins og hverri annarri – enda þaulvant fólk á ferð: Höldum okkar striki – engin þörf á iðrun eða yfirbót. Afsökunarbeiðni er veikleikamerki. Gerum ekki neitt og vandamálið hverfur. Álver og virkjun stoppa í gatið. Aukum þorskkvótann. Finnum olíu. Biðjum góðan Guð um að blessa okkur.

En í þetta sinn voru afglöpin of stór og skrattinn er við það að verða laus. Allskyns rannsóknarnefndir sem sumar hverjar eru m.a.s. skipaðar “röngu fólki” – jafnvel útlendingum – hafa nú aðgang að allskyns skjölum og krafan um gegnsæi og heiðarleika er að verða býsna óþolandi. Það er meira að segja talað um að það sé göfugt að kjafta frá hlutum sem gætu skipt máli. Einhverjir eru m.a.s. farnir að gera það. “En þá gæti sannleikurinn komið í ljós!” Það má auðvitað ekki undir nokkrum kringumstæðum gerast.

Styrkveitingar til Sjálfstæðisflokksins í lok árs 2006 eru bara toppurinn á ísjakanum. Ímyndið ykkur hvað á eftir að koma í ljós þegar menn fara að skoða í kjölinn hvernig staðið var að einkavæðingum síðustu tveggja áratuga, þegar fjármál í prófkjörsbaráttu verða skoðuð, þegar hagsmunatengsl byggingarfyrirtækja og skipulagsyfirvalda verða skýrari, þegar bókhald áranna 2000-2005 verður opnað. Já eða 2008 – það væri nú a.m.k. fróðlegt að sjá það.

Einhvernveginn grunar mig að það séu fá stjórnmálaöfl sem einhver völd hafa haft sem munu koma alveg hrein útúr þessari lúsaskoðun. Það virðist bara enginn átta sig á því að fólk er tilbúið að fyrirgefa, það vill bara sjá iðrun og heyra sannleikann. Sá flokkur sem kemur fram að fyrra bragði og segir okkur allar svæsnu sögurnar af sjálfum sér er sá sem við eigum eftir að treysta mest hér eftir. Því verra því betra – eða þannig. Stigiði fram og segið: “Sjáið allan skítinn okkar – svona vorum við, en nú höfum við sagt skilið við það fólk og þær hugmyndir og horfum fram á veginn”. Þetta mun kalla á frekari játningar og frekari mannfórnir, en það er ekki hægt að ganga “hreint til verks” með skítinn upp á bak.

Framsókn var næstum búin að fatta þetta, enda líklega með eina erfiðustu fortíðina. Skipti um forystu, lofaði góðu, en svo var kippt í gamla þræði sem augljóslega lágu víða um flokkinn og þoldu ekki of miklar breytingar. Þeirra tækifæri liggur samt í uppgjöri við fortíðina, þeir gætu líklega ennþá skorað ein 10% með stórsókn í heiðarleika.

Aðalatriðið framundan er auðvitað uppbyggingin. En við vitum ekki hverjum við getum treyst fyrir þeirri uppbyggingu með okkur. Þeim flokki sem gerir upp fortíðina með mest afgerandi hætti er trúandi til að standa að uppbyggingu sem byggir á nýjum gildum: gegnsæi, heiðarleika og trausti. Þessar kosningar snúast varla einu sinni um stefnu, bara að finna einhvern sem maður treystir nokkurn veginn að sé ekki fyrst og fremst að hugsa um eigin hag.

Fyrir þá stjórnmálamenn sem fatta það ekki núna, verður fallið bara stærra seinna. Stjórnvöld og fólkið í landinu þarf að vera saman í liði við að byggja upp – annars gerist hér aldrei neitt. Gamla pólitíkin er búin að vera: málþóf, andúð á hugmyndum annarra og hannaðar atburðarásir eru svoooo “fyrir kreppu” (f.k.)

Ég hef sagt útlendingum frá því að á Íslandi sé stundum talað um “Blessað stríðið” til að útskýra fyrir þeim hvers konar grundvallarbreytingar seinni heimsstyrjöldin hafði á íslenskt samfélag. Stríðinu fylgdi hér gríðarleg lífskjarabót og Ísland náði á örskömmum tíma svipaðri stöðu og þjóðirnar í kringum okkur sem ekki svo löngu áður höfðu virst heilli öld á undan okkur.

Ég ætla að leyfa mér að spá því að innan tíu ára verði farið að tala um “blessað bankahrunið” og þær góðu breytingar sem það hafði í för með sér, þegar Ísland tók forystu í gegnsæi og heiðarleika eftir “móralskt stríð” undangenginna ára.