tölvur & tækni

Þróun búsetu á Íslandi

DM-iconHjá DataMarket erum við alltaf að fikra okkur áfram í meðhöndlun og framsetningu ólíkra gagna.

Áherslan hjá okkur þessa dagana er mikið á íslenskum efnahags- og þjóðfélagsgögnum, enda stefnum við á að opna svokallað Gagnatorg um íslenskan efnahag innan skamms.

Við ákváðum að æfa okkur aðeins í framsetningu landfræðilegra gagna og reyna að gera breytingum á búsetu landsmanna síðustu öldina skil.

Gögnin sem við unnum með að þessu sinni voru mannfjöldatölur eftir sveitarfélögum sem Hagstofan heldur utan um. Afraksturinn má sjá í vídeóinu hér að neðan. Hver hringur á kortinu táknar s.s. eitt sveitarfélag og stærð hans (nánar tiltekið flatarmál) fólksfjöldann. Þar sem sveitarfélög hafa bæði sundrast og sameinast á þessum tíma, segir vídeóið einnig nokkra sögu um þá þróun, ekki síst undir það síðasta, en miklar sameingar hafa átt sér stað síðasta rúma áratuginn.

Að túlka íbúafjölda sveitarfélags í einum punkti er auðvitað aldrei yfir vafa hafið og segir aðeins hálfa söguna. Reyndar dreymir okkur um að útbúa síðar annað vídeó sem segi sýni eiginlega búsetuþróun miklu nákvæmar og betur, en það þarf að bíða – a.m.k. um hríð.

Smellið á myndina hér að neðan til að opna myndbandið í fullum gæðum.

Á glænýju bloggi DataMarket má svo finna nánari upplýsingar um það hvernig myndbandið var unnið, hvaðan gögnin eru fengin, hvernig þau voru unnin og svo framvegis.

urbanization

Hlutverk upplýsingatækni í rannsókn bankahrunsins

detectiveNú eru a.m.k. fjögur embætti að rannsaka ýmsa þætti bankahrunsins:

Talsvert hefur verið talað um verkaskiptingu þessarra embætta, hæfi þeirra og aðra umgjörð, en eitt af því sem hefur komið mér á óvart er hversu lítið hefur verið rætt um sjálfar rannsóknaraðferðirnar.

Í mínum huga er það alveg skýrt að eitt af lykilatriðunum í því að árangur náist í þessum rannsóknum er mikil og vönduð beiting upplýsingatækni. Þetta snýr bæði að því að skilja stóru mynd þeirrar atburðarásar sem átti sér stað hér á undanförnum árum sem og að finna og upplýsa einstök mál. Ég óttast hins vegar að of fáir skilji hversu mikilvægt þetta atriði er og hef flugufregnir fyrir því að a.m.k. sum þessarra embætta átti sig engan veginn á þeim verkefnum sem þau standa frammi fyrir hvað þetta varðar.

Hér eru nokkrir punktar sem etv. hjálpa til við að skilja stöðuna:

 • Allar fjármálaaðgerðir fara fram með einum eða öðrum hætti í tölvukerfum. Hjá íslensku bönkunum einum erum við að tala um hundruð þúsunda, jafnvel milljónir færslna á hverjum einasta degi í tugum ef ekki hundruðum mismunandi kerfa. Allar þessar aðgerðir eru skráðar með einhverjum hætti.
 • Auk þessarra færslna eru tölvupóstar og önnur tölvusamskipti skráð, auk þess sem öll símtöl manna á milli eru skráð og í mörgum tilfellum tekin upp skv. lögum. Um þau símtöl og tölvupóstar sem ekki eru skráð hjá bönkunum sjálfum eru til skráningar hjá fjarskiptafyrirtækjum og netveitum. Um símtölin er að lágmarki skráð að þau hafi átt sér stað og tölvupóstar og efni þeirra liggja alltaf fyrir a.m.k. í einhvern tíma hjá netveitum.
 • Afrit eru tekin af öllum gögnum bankanna – bæði úr fjármálakerfum og öðrum (t.d. skráakerfum allra vinnustöðva, póstkerfum, netþjónum o.s.fr.) – a.m.k. einu sinni á dag og þau geymd með ýmsum, öruggum hætti bæði innan og utan starfsstöðva bankanna í lengri og skemmri tíma. Sum þessarra gagna eru m.a.s. geymd í vörslu eftirlitsaðila lögum samkvæmt.
 • Ég hef nokkuð öruggar heimildir fyrir því að meðal allra fyrstu aðgerða stjórnvalda eftir hrun bankanna hafi verið að tryggja að afrit ýmissa tölvugagna kæmust í örugga vörslu þannig að ekki væri hægt að eiga við þau.
 • Mikið af þessum gögnum eru á sértæku sniði sem eiga við einstök, rándýr kerfi sem í notkun voru (og eru enn mörg hver) í bönkunum. Þessi gögn er mjög erfitt að lesa og túlka nema með notkun þessarra kerfa.
 • Allt í allt erum við hér að tala um gríðarlegt magn af gögnum – ég leyfi mér að giska á einhver hundruð terabæta fyrir þau ykkar sem sú tala segir eitthvað. Fyrir ykkur hin erum við að tala um jafngildi margra, stórra, þéttskipaðra vöruskemma ef gögnum ef prenta ætti ósköpin út.

Ef einhver hélt að svona rannsókn færi fram með aðferðafræði Matlock lögmanns með því að blaða í útprentum og afritum af pappírsskjölum, fingrafararannsókn og snjöllum yfirheyrslum á lykilvitnum, þá ættu ofangreindir punktar að sýna nokkuð glögglega að svo er ekki.

Ef ætlunin er að sanna – nú eða afsanna – kerfisbundið misferli, misræmi í afstemmingum, vísbendingar um óeðlileg verðbréfaviðskipti, samskipti aðila í tengslum við tiltekna atburði o.s.frv., þá verður það aðeins gert með býsna flókinni og sérhæfðri upplýsingatæknivinnu, mynsturgreiningum á stórum gagnasöfnum, leitarmöguleikum í hverskyns textagögnum og síðast en ekki síst þekkingu á þeim kerfum, aðferðum og starfsháttum sem viðgengust í bönkunum.

Til að taka af allan vafa um það, þá þykist ég alls ekki hafa þá þekkingu sem til þarf. Hana hefur reyndar varla nokkur einn maður. Við erum að tala um stórar og óhjákvæmilega dýrar aðgerðir, en án þeirra verður aldrei nema örlítið brot þessarar starfsemi rannsakað.

Ég vona að ofantaldir rannsóknaraðilar átti sig á þessu.

Að lokum eru hér örfá atriði sem mætti byrja á að skoða:

 • Fá a.m.k. einn stjórnanda eða millistjórnanda sem hafði með upplýsingatæknimál í hverjum banka með í rannsóknina. Ef með þarf má bjóða sektar og-/eða skuldaniðurfellingu gegnt samstarfi. Þannig fæst nauðsynleg þekking á innviðum og samhengi kerfanna, dýrmætur tími og miklir peningar sparast og líklega opnast möguleikar sem utanaðkomandi rannsakendur hefðu hreinlega ekki tök á að gera.
 • Fyrst mætti skoða afritasögu. Þar sést fljótt hvort nokkur gögn hafa horfið, átt hefur verið við skrár eftir á eða með öðrum hætti verið reynt að fela einhverjar slóðir. Þetta kynni vel að hafa verið reynt í einhverju óðagoti á ögurstundu, en er sennilega það “versta” sem einhver hefði getað gert þar sem það beinir grun beint að viðkomandi atriðum. Nær ómögulegt er að eiga þannig við gögn og afrit að slíkar slóðir sjáist ekki tiltölulega auðveldlega. Þannig er miklu líklegara að “ósnert” sönnunargögn týnist í öllu gagnaflóðinu en að tilraunir til yfirhylmingar skili árangri.
 • Greina samskiptasögu í öllum tiltækum gögnum. Hengja símanúmer og tölvupóstföng á persónur og beina sjónum að þeim sem eiga í samskiptum í kringum einstök viðskipti eða aðra atburði sem eru til rannsóknar. Eins má leita uppi öll gögn sem viðkoma tilteknum málum eða einstaklingum og rekja sig þannig í “hina áttina” frá áberandi miklum eða óvenjulegum samskiptum til viðskipta eða atburða sem eiga sér stað á svipuðum tíma. Slík greining myndi líka koma upp um samskipti milli aðila sem – ef allt væri með felldu – ættu alls ekki að eiga í samskiptum, annaðhvort vegna reglna um aðskilnað í starfsemi innan bankanna eða milli samkeppnisaðila, viðskiptablokka eða annarra.
 • Greina ýmsar lykiltölur í fjárflæði milli einstakra fyrirtækja, milli útibúa og milli landa og leita eftir skyndilegum breytingum á umfangi eða mynstrum í þessum viðskiptum.

Bara nokkrar hugmyndir – fleiri vel þegnar.

DataMarket í Silfri Egils

Á sunnudaginn var fékk ég tækifæri til þess að kynna hugmyndir okkar DataMarket fólks um gögn og gegnsæi í Silfri Egils.

Viðbrögðin hafa verið stórgóð og gaman að þetta virðist hafa fallið í góðan jarðveg. Upptöku af innlegginu má finna hér að neðan.

Því miður tapast talsvert við það minnka vídeóið svona niður, en frásögnin vegur það upp að einhverju leiti.

Gögnin sem fram komu í kynningunni verða öll fáanleg á Gagnatorgi um íslenskan efnahag, þegar við hleypum honum af stokkunum. Á vef DataMarket má skrá sig til að fá tilkynningu þegar gagnatorgið lítur dagsins ljós.

Loks má geta þess að Háskóli Íslands hefur boðið mér að flytja erindi af svipuðum toga næstkomandi mánudag. Þá gefst tími til að fara heldur dýpra í málin og vonandi líka fyrir einhverjar spurningar og svör.

Fyrirlesturinn verður öllum opinn og hefst kl. 12:30, mánudaginn 9. mars í stofu 102 á Háskólatorgi. Nánari upplýsingar.

Tæknispá 2009

Ég hef tvisvar ráðist í það í kringum áramót að gera “Tæknispár” fyrir komandi ár á Íslandi (2006 og 2008). Í fyrra minntist ég t.d. á tiltölulega lítið þekktan þátt í starfsemi bankanna: Erlenda innlánsreikninga sem nefndust Kaupthing Edge og Icesave og spáði því að bankarnir ættu eftir að útvíkka þessa starfsemi. Maður ætti kannski að fara varlega!

Annars er ég bara nokkuð sáttur við árangurinn fyrir 2008, þó vissulega hafi ekki allt gengið eftir og annað gengið lengra en mig grunaði. Dæmi hver fyrir sig.

En hvað um það. Hér koma nokkrir punktar um það sem mér þykir líklegt að muni gerast á komandi ári í tæknigeiranum á Íslandi:

 • Fjöldi nýrra tæknifyrirtækja verður stofnaður: “Neyðin kennir naktri…”, og allt það. Það er fjöldi hæfileikaríks tæknifólks þarna úti að missa vinnuna. Margir búa yfir hugmyndum að vörum eða vilja koma hæfileikum sínum í verð á annan hátt. Stærsti kostnaðarliður – a.m.k. hugbúnaðarfyrirtækja – er launaliðurinn og útlögðum kostnaði á að vera hægt að halda í algeru lágmarki ef fólk er þannig stemmt. Sprotaapparatið YCombinator í Bandaríkjunum er ágætis dæmi um umhverfi sem skapað hefur verið fyrir svona fyrirtæki. Fjármögnun á bilinu 5.000-50.000 dollarar, aðstaða fyrir 2-5 manna teymi (ef þau vinna ekki bara heiman að frá sér), auk tengslamyndunar og handleiðslu frá reyndara fólki. Allt ætti þetta að virka vel í íslenskum raunveruleika þar sem lítið er um áhættufjármagn um þessar mundir, en mikið af hæfileikafólki að leita verkefna. Rétt er þó að minna á að YCombinator er sprottið upp á góðæristímum og áherslan hér verður að vera á verðmæti “í núinu” (tekjur sem duga fyrir lágmarksrekstri innan 12 mánaða) í stað langra þróunarverkefna og óljósra tekjumöguleika. Viðskiptaáætlanir sem hafa auglýsingar sem aðaltekjulind munu ekki eiga upp á pallborðið næstu 2-4 árin.
 • CCP mun halda áfram að vaxa: Þetta þrautseiga sprotafyrirtæki, sem hefur náð að byggja tekjustraum sem svarar ágætri loðnuvertíð með hugvitinu einu saman, mun halda áfram sigurgöngu sinni. Tryggur leikendahópur sem telur á við íslensku þjóðina, stöðugar viðbætur og fjölgun dreifingarleiða (EVE Online mun nú fara í búðir aftur eftir að hafa verið dreift eingöngu á netinu undanfarin ár) mun valda því. Sagan segir líka að í efnahagsþrengingum leiti fólk í afþreyingu og nú hafa einfaldlega mun fleiri heimsbúar tímann sem þarf í áhugamál á borð við fjölspilunarleiki. Mánaðargjaldið svarar til einnar bíóferðar en endist virkum spilurum í 4-8 tíma skemmtun á dag, alla daga mánaðarins. Þróun stendur einnig yfir á næsta leik CCP, fjölspilunarleik sem byggir á World of Darkness heiminum. Hann mun varla líta dagsins ljós á árinu, en gefur góð fyrirheit um komandi tíð hjá fyrirtækinu, þar sem hann á sér þegar dyggan aðdáendahóp og höfðar til breiðari hóps en EVE heimurinn, ekki síst meðal kvenþjóðarinnar sem hingað til hefur ekki verið áberandi í fjölspilunarleikjum.
 • Ríkið mun styrkja nýsköpunarstarf með margvíslegum hætti: Að einhverju leiti er þetta þegar komið fram og mikið er talað, næstum nóg til að maður trúi því að það sé ekki bara fagurgali. Einföldustu aðgerðirnar, eins og að beina atvinnuleysisgreiðslum í gegnum fyrirtæki til uppbyggingar nýrra starfa kosta ríkið nettó núll og eru augljósar. Aðrar, eins og niðurfelling skatta nýráðinna starfsmanna eða skattaafsláttur á einstaklinga og fyrirtæki gegn fjárfestingu í nýsköpun eru djarfari, en þó mögulegar. Mikilvægast er þó fyrir alla þessa starfsemi að bankakerfið, gjaldeyrismiðlun og önnur stoðkerfi komist aftur í eðlilegan farveg. Fjárfestingasjóðurinn Frumtak er sömuleiðis mikilvægt gæfuspor.
 • Ódýrari valkostir í fjarskiptum munu ná almennri notkun: Í nokkur ár hafa verið í boði ýmsar mjög svo frambærilegar lausnir í fjarskiptum, sem kosta minna en hinar hefbundnu, eða jafnvel bara hreint ekki neitt. Í einhverjum tilfellum hafa þessar lausnir jafnvel eitthvað fram yfir hinar hefðbundnu (t.d. myndsímtöl og einföld hópsímtöl í Skype), en í öðrum tilfellum, t.d. þegar kemur að farsímalausnum, þurfa notendur að sætta sig við lítilsháttar vesen, skert gæði eða aðra vankanta við notkun slíkra lausna. Einhverjar þessarra lausna hafa verið ágætlega þekktar um skeið, en þó ekki náð almennri útbreiðslu. Nú er hins vegar tími aðhalds hjá bæði fyrirtækjum og einstaklingum. Ég spái því að kreppan verði til þess að þessar lausnir nái verulega aukinni útbreiðslu og ef það gerist er það breyting sem er komin til að vera. Ég held því að kreppan eigi eftir að koma verulega illa niður á fjarskiptageiranum í skertri notkun og þar með tekjum. Þó má ekki gleyma því að þessar nýju lausnir notast allar við kerfi fjarskiptafyrirtækjanna og ganga nær allar út á að flytja með einum eða öðrum hætti yfir í gagnasamskipti það sem áður fór um hefbundna símakerfið. Þetta kallar því frekar á breytingu í viðskiptamódelum fjarskiptafyrirtækjanna en algeru hruni þeirra, því einhver þarf að borga fyrir uppbyggingu og rekstur kerfanna eftir sem áður.
 • Gegnsæi og opin miðlun upplýsinga: Leiðin til að byggja á ný upp traust í viðskiptum og fjármálastarfsemi, er aukið gegnsæi og hraðari og opnari miðlun upplýsinga. Ég vísa í fyrri færslu mína um Framtíð viðskipta til nánari útskýringar. Ég spái því að þessi sjónarmið muni byrja að ryðja sér til rúms á árinu, þó breytingin í heild sinni mun taka mun lengri tíma. Þessar breytingar gætu byrjað hvort heldur er hjá Ríkinu (með áherslu á opin gögn), eða hjá einkaaðilum sem vilja auka traust þjóðfélagsins með því að sýna svo ekki verður um villst að þau hafi ekkert að fela.
 • Netið verður þungamiðja pólitísks starfs: Unga fólkið er búið að fá áhuga á pólitík. Facebook-kynslóðin er við stjórnvölin og meira en þriðjungur þjóðarinnar skráður þar. Merki um þetta má reyndar þegar sjá víða. Á fundum borgarstjórnar undanfarið má sjá stöðubreytingar og færslur frá allnokkrum borgarfulltrúum á meðan á fundunum stendur (sönn saga). Fjöldafundir og mótmæli eru skipulögð á netinu. Komi til kosninga munu Facebook, MySpace, Twitter og YouTube spila stóran þátt. Gömlu pólitíkusarnir munu ekki vita hvaðan á þá stendur veðrið. Ég geng svo langt að halda því fram að þetta geti haft úrslitaáhrif í kosningabaráttunni, hvort sem um verður að ræða ný framboð eða að einhver gömlu flokkanna ranki við sér. Í Bandaríkjunum hefur verið talað um að kosningabarátta Baracks Obama hafi verið sú fyrsta sem “skildi Internetið”. Framboðin hér munu þurfa að gera slíkt hið sama.

Hvað haldið þið að gerist í tæknimálum árið 2009?

DataMarket hleypt af stokkunum

Jæja, þá er komið að því. Fyrsti áfangi nýja fyrirtækisins – DataMarket – lítur dagsins ljós í dag.

Eins og líklega hefur mátt lesa á milli línanna (og af nafninu) snýst DataMarket um að koma upp markaði fyrir kaup og sölu á gögnum. Þarna er einkum átt við tölfræði og töflugögn hverskonar, eða það sem upp á ensku hefur verið kallað “structured data”.

Undir þessa skilgreiningu falla m.a. hagtölur, markaðsrannsóknir, gengisupplýsingar og önnur fjármálagögn, veðurupplýsingar, íþróttaúrslit, sjónvarpsdagskrár, bílategundir, þróun í meðalþyngd ástralskra karlmanna og svo framvegis. Í raun hver þau gögn sem eðlilegt væri að setja fram sem töflu.

Gögn af þessu tagi koma víða við sögu í fyrirtækjarekstri, stjórnsýslu og í raun á svo að segja öllum sviðum mannlífsins. Það kemur mér því sífellt á óvart hversu erfitt er að finna góð gögn, fá þau afhent á hentugu sniði, að ekki sé talað um hverskonar samkeyrslu eða myndræna framsetningu.

DataMarket ætlar sér að takast á við þessi vandamál.

Í þessum fyrsta fasa kynnum við “þjónustufyrirtækið DataMarket”. Frá og með deginum í dag bjóðum við fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum upp á gagnaöflunarþjónustu. Við sjáum sem sagt um að finna þau gögn sem leitað er að, göngum frá leyfismálum, samkeyrum gögn úr ólíkum áttum og vörpum gögnunum á það snið sem viðskiptavinurinn óskar. Að auki tökum við að okkur að útbúa myndræna og/eða gagnvirka framsetningu á hvers kyns gögnum – það sem við kjósum að kalla gagnagræjur.

Þetta er að miklu leyti gert til að fá betri tilfinningu fyrir markaðnum. Átta okkur á því hvar þörfin er mest, hvers konar verkefni skjóta upp kollinum og hvar mögulega viðskiptavini okkar svíður helst þegar kemur að gagnamálum. Þessa reynslu munum við svo nota til að forgangsraða við frekari uppbyggingu DataMarket.

Markmiðið er að DataMarket verði með tímanum öflugur markaður sem leiði saman kaupendur og seljendur gagna í þægilegu sjálfsafgreiðslukerfi. Mikil vinna er óunnin þar til sú sýn verður að veruleika. Fyrstu skrefin í þá átt verða þó stigin fljótlega á næsta ári. Þú munum við opna vísi að slíkum markaði sem þó mun hafa mjög afmörkuð efnistök.

Með þessum litlu skrefum vonumst við til að geta byggt fyrirtækið upp á skynsamlegan hátt með endurgjöf sem beini okkur rétta braut í átt að lagtímamarkmiðinu.

Allar ábendingar, hugmyndir og umkvartanir eru velkomin, hvort heldur er í athugasemdum hér á blogginu, eða í tölvupósti.

Umhverfi sprotafyrirtækja

Mér var bent á skýrslu um umhverfi sprotafyrirtækja á Íslandi, sem ég man að ég sá á sínum tíma – og minnir reyndar að ég hafi tekið þátt í að svara:

Þetta er býsna góð úttekt á þessu umhverfi og gagnlegur leiðarvísir, núna þegar virkilega þarf að huga að þessum málum og þá ekki síst þeim fyrirtækjum sem einmitt eru komin af stað. Ég leyfi mér að draga fram eina mynd úr skýrslunni sem sýnir svart á hvítu hve sorglega þessi mál hafa þróast undanfarin ár.

Stofnár sprotafyrirtækja

Sprotastarfsemi í stormviðri

Þrátt fyrir að bjartsýni sé nauðsynleg, má hún auðvitað ekki vera úr tengslum við raunveruleikann.

Mig langaði þess vegna til að benda á stórgott lesefni sem setur nýsköpun, frumkvöðlastarfsemi og reyndar fyrirtækjarekstur almennt í núverandi þrengingum í ágætt samhengi.

 • Annars vegar er það kynning sem bandaríski VC sjóðurinn Sequoia Capital, hélt fyrir sín fyrirtæki í síðustu viku. Þessi sjóður hefur meðal annars komið snemma inn í fyrirtæki á borð við Apple, Yahoo!, Google og Flextronics, þannig að það er full ástæða til að hlusta á þeirra ráðleggingar. Myndin sem þeir draga upp af hagkerfi heimsins er ekki glæsileg, en þeir leggja líka til punkta fyrir fyrirtækin til að vinna sig framúr því.

 • Hins vegar er það grein Pauls Graham – sprotafjárfestis og frumkvöðuls: Why to Start a Startup in a Bad Economy?, en þar fer hann í gegnum það af hverju fjárfestar og frumkvöðlar ættu (og ættu ekki) að stofna fyrirtæki núna og reyndar af hverju staða efnahagsmála er afgangsstærð í þeirri spurningu.

Myndræn framsetning gagna: Mannfjöldaþróun á Íslandi

Eins og nafnið gefur til kynna snýst DataMarket um öflun og miðlun hvers kyns gagna. Ég er þessvegna búinn að vera að velta mér mikið síðustu vikurnar uppúr allskyns gagnamálum og þeim möguleikum sem góð og aðgengileg gögn opna.

Myndræn framsetning er eitt af því sem getur gefið gögnum mjög aukið vægi og – ef vel tekst til – dregið fram staðreyndir sem annars eru faldar í talnasúpunni.

Ég gerði smá tilraun með mannfjöldagögn frá Hagstofunni. Byggt á tölum um aldurs- og kynjaskiptingu frá 1841 til dagsins í dag bjó ég til gagnvirka hreyfimynd sem sýnir hvernig mannfjöldapíramídinn (einnig þekkt sem aldurspíramídi) þróast á tímabilinu. Útkomuna má sjá með því að smella á myndina hér að neðan.

Smellið á myndina til að spila

 

Græni liturinn sýnir 18 ára og yngri, rauði liturinn 67 ára og eldri og guli liturinn þá sem eru þar á milli.

Myndin bendir á nokkrar áhugaverða hluti í mannfjöldaþróun Íslendinga:

 • Barnadauði: Fyrstu árin er sorglegt að sjá hvernig yngstu árgangarnir – sérstaklega sá allra yngsti – ná ekki að færast upp. Þetta segir sína sögu um barnadauða, aðbúnað barna og “heilsugæslu” þessa tíma.
 • “Baby boom”: Fram að lokum seinni heimstyrjaldarinnar vex og eldist þjóðin nokkuð jafnt og þétt. Reyndar dregur aðeins úr fæðingum framan af seinna stríði, en svo verður alger sprenging – það sem kallað er “baby boom” upp á ensku og á sér klárlega sína hliðstæðu hér. Þessi “barnasprengja” hefur verið rakin til aukinnar hagsældar, betra heilbrigðiskerfis og almennrar bjartsýni í kjölfar stríðsins. Uppúr 1960 jafnast svo stærð árganganna út aftur með tilkomu getnaðarvarna og skipulagðari barneignum en tíðkuðust fram að því.
 • Erlent vinnuafl: Síðasta sagan í þessum gögnum sýnir svo uppgangssveiflu síðustu ára. Ef þið skrefið ykkur í gegnum árin frá 2005-2008 (til þess eru örvatakkarnir) má sjá greinilega aukningu í aldurshópnum á bilinu 20-50 ára, sérstaklega karla megin. Aldurshópar geta eðli málsins ekki stækkað af náttúrulegum ástæðum (enginn fæðist 25 ára) þannig að þessi aukning stafar af aðfluttum umfram brottflutta. Þarna er líklega kominn hluti þess erlenda vinnuafls sem hingað hefur leitað í góðæri og framkvæmdum síðustu ára.

Sjálfsagt má lesa fleira út úr þessari mynd, en ég eftirlæt ykkur frekari greiningu 🙂

Örfá orð um tæknina

Myndin er gerð í stórskemmtilegu tóli sem nefnist Processing og gerir svona vinnslu tiltölulega einfalda. Hægt er að keyra bæði stakar myndir og vídeó út úr Processing, en til að ná fram gagnvirkni er keyrt út svokallað Java Applet. Sjálfur væri ég hrifnari af að sjá þetta sem Flash, þar sem stuðningur við það er almennari og útfærsla þess í vöfrunum á margan hátt skemmtilegri en Java (fljótara að ræsast, flöktir síður, o.fl.), en það verður ekki á allt kosið.

Allar hugmyndir, ábendingar og álit vel þegin.

Opin gögn – nýtt vefsvæði

Við erum, nokkrir félagar, að hleypa af stokkunum í dag nýju vefsvæði: opingogn.net

Það er hann Borgar sem fékk hugmyndina að þessu framtaki í vor eftir að ég flutti erindi um aðgengi að opinberum gögnum á hádegisverðarfundi sem Sjá og Marimo stóðu fyrir. Borgar setti upp vefinn og hýsir hann, en við Már höfum reynt að vera duglegir að hjálpa til.

Vefurinn er Wiki-vefur, þannig að við hvetjum sem flesta til að hjálpa til.

Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í tilgang vefsins hér enda á hann að útskýra sig sjálfur. Þeir sem reglulega lesa þetta blogg eru líka líklega búnir að fá nóg af boðskapnum:

Uppfært 11:41: Eyjan gerði Opnum Gögnum skil í morgunsárið.

Tvær skemmtilegar tæknisögur

Ég er svo heppinn að vera þessa dagana staddur á ráðstefnu sem nefnist Web 2.0 Expo í San Francisco. Fyrsti dagurinn var í gær og margt fróðlegt sem þar kom fram. Að öðrum ólöstuðum stóð þó fyrirlestur Clay Shirky, prófessors við NYU. Shirky er einskonar upplýsingatækni-félagsfræðingur, þ.e. hann veltir mikið fyrir sér þeim breytingum sem eru að verða á samfélaginu samhliða þróun upplýsingatækninnar.

Hér eru tvær stórskemmtilegar og merkilegar sögur sem hann sagði í erindi sínu í gær – hér lauslega endursagðar af mér á íslensku:

Shirky var í viðtali við sjónvarpsfréttamann sem var að velta fyrir sér samfélagsmiðlum á borð við Wikipediu. Shirky byrjar að segja henni sögu um færsluna um Plútó og hvernig Wikipedia-samfélagið tók á því þegar Plútó var lækkaður í tign úr reikistjörnu í loftstein á óvenjulegri braut um sólina. Þetta var nokkuð stórt mál og menn tókust á um breytingarnar, en komust þó að niðurstöðu.

Viðbrögð fréttamannsins sem Shirky hafði ætlað að heilla með þessari sögu voru svona “lúser-stara”, þögn og svo “Hvernig hefur fólkið tíma í svona lagað?”.

Við þetta snappaði Shirky víst og benti henni á að engum sem ynni við sjónvarp réttlættist að spyrja svona. Og svo fór hann að reikna: Heildartíminn sem hefur farið í að byggja upp Wikipediu – allar greinar á öllum tungumálum – er núna um 100 milljón vinnustundir. Þetta er vissulega há tala – enda stórkostlegt verk í flesta staði – en ef hún er sett í samhengi við sjónvarpsáhorf verður hún að nánast engu. Um síðustu helgi eyddu Bandaríkjamenn einir 100 milljón stundum í það eitt að horfa á auglýsingar í sjónvarpinu! Á ári horfa Bandaríkjamenn á sjónvarp í 200 milljarða klukkustunda og heimurinn allur um það bil 1000 milljarða stunda. Það eru 10.000 Wikipediur – á ári!

Tíminn sem fréttakonan var að spyrja um kemur til af minnkandi sjónvarpsáhorfi og Shirky bað menn um að ímynda sér hvað við gætum átt von á að sjá ef núverandi trend um minnkandi sjónvarpsáhorf heldur áfram að gefa af sér svipaða vinnu.

Hin sagan er miklu sætari, en bendir líka á áhugaverða breytingu.

Faðir og fjögurra ára dóttir eru að horfa á Disney-teiknimynd í sjónvarpinu. Nú kemur að einhverjum kafla í myndinni þar sem dótturinni fannst heldur lítið vera að gerast. Hún stendur upp og skríður á bakvið sjónvarpið.

Pabbinn á von á einhverju skemmtilegu eins og að hún sé að athuga hvort hún geti náð teiknmyndafígúrunum sem séu þarna einhvernvegin inni í eða á bakvið imbakassann, en í staðinn fer hún að róta í snúrunum.

Pabbinn spyr hana hvað hún sé að gera.

“Leita að músinni” var auðvitað svarið sem hann fékk.

Fjögurra ára krakkar vita nefnilega að skjár sem ekki er með mús eða ekki a.m.k. hægt að eiga í gagnvirkum samskiptum við með einhverjum hætti – er bilaður skjár. Þetta er kynslóðin sem við erum að ala upp og segir sennilega mikið um það hvernig upplýsinga- og afþreyingarneysla á eftir að breytast á næstu árum.

Datt í hug að deila þessu með ykkur 🙂