Ísland: Allir í pólitík, en enginn að stjórna

3540167945_ac260d6722_bNú er ég búinn að fylgjast með íslenskri pólitík frá útlöndum í bráðum 3 ár. Kemur í ljós að það er bráðhollt og gefur nýtt sjónarhorn á hlutina.

Með hverjum mánuðinum sem líður verð ég bæði reiðari og leiðari. Ísland er að mörgu leyti einstakt og frábært, en á engu að síður við nokkur mjög djúpstæð vandamál að etja. Sum í kjölfar hrunsins, önnur sem hafa verið lengur í gerjun, en hafa sannarlega ekki batnað eftir hrun. Þetta eru vandamál af því tagi sem munu ráða því hvort ungt og efnilegt fólk muni velja sér framtíðarbúsetu á Íslandi eða ekki og þar af leiðandi hafa meira um framtíð Íslands að segja en nokkuð annað. Með öðrum orðum, engin smámál!

Nú kann einhver að horfa á hagtölur og segja að á Íslandi sé allt í himnalagi. Vandinn er bara sá að innan fjármagnshafta er ekkert að marka hagtölurnar. Hagmælingar á Íslandi í dag eru svolítið eins og að ætla að taka veðrið uppi á jökli í hríðarkófi – en inni í tjaldi. Kannski kósí innandyra og mælarnir staðfesta það. Þú ert samt uppi á jökli, í hríðarbyl og engin björgunarsveit á leiðinni.

Gjaldeyrismálin eru eitt vandamálið. Fyrir ungt fólk sem hefur ekki stofnað til mikilla skuldbindinga á Íslandi, er heimurinn allur undir. Af hverju að velja að fá laun í gjaldmiðli sem hvergi er tekinn trúanlegur og takmarka lífeyris-, fjárfestinga- og sparnaðarkosti sína við þennan sama gjaldmiðil og örmarkað sem sagan sýnir að skoppar eins og korkur í stórsjó?

Gjaldeyrishöftin valda líka bólumyndun á öllum mörkuðum, ekki síst húsnæðismarkaði. Af hverju að velja að kaupa eða leigja íbúð sem er dýrari en sambærileg íbúð borgum með stærri og fleiri tækifæri og hærri laun? Hvað þá á markaði þar sem vextir eru margfaldir á við það sem býðst annars staðar?

Vandinn við höftin er sá að margar þær leiðir sem raunverulega munu létta á þeim munu hafa aðrar og jafnvel enn verri afleiðingar í för með sér: Gengisfall, sem leiðir af sér verðbólgu, sem hækkar lánin, sem veldur óstöðugleika á vinnumarkaði, sem…

Það eru til lausnir. Seðlabankinn hefur kortlagt þær fyrir löngu. Það eru ekki þær sem er verið að vinna að.

Samfélag sem ungt fólk vill búa í býður líka upp á gott skólakerfi á viðráðanlegum kjörum. Sérstaklega er mikilvægt að hafa nútímalegt háskólaumhverfi með öflugu samstarfi háskóla, atvinnulífs og fjárfesta. Slíkt ýtir undir nýsköpun sem skapar störf og áskoranir fyrir klárt og vel menntað fólk. Háskólarnir á Íslandi eru langt í frá fjármagnaðir með þeim hætti að þeir standi undir þessu.

Og svo þarf gott heilbrigðiskerfi. Það snýst bæði um tæki og aðstöðu, en umfram allt um fólk. Fólk sem hefur menntað sig erlendis og verður að finnast aðlaðandi að flytja heim. Til þess þarf að bjóða góð laun, en allt ofantalið þarf líka að vera á réttri leið.

Þetta eru allt leysanleg mál. Fyrsta skrefið er skýr framtíðarsýn. Að ákveða hvers konar samfélagi við viljum stefna að, ekki seinna á kjörtímabilinu, ekki eftir næstu kosningar, heldur til 20-30 ára.

Þegar ég horfi á stjórnmálin heima á Íslandi, þá sé ég enga framtíðarsýn, bara þras. Þras sem að mestu leyti snýst um fortíðina, dægurmál og tilraunir til að kenna hvert öðru um allt sem ekki er í lagi.

Það eru allir í pólitík og enginn í stjórnmálum.

Tæknispá 2015

Ég hef stundum dundað mér við að skoða sérstaklega ríkjandi strauma og stefnur í tæknimálum og gera “tæknispá” fyrir komandi ár með áherslu á Ísland. Þetta er auðvitað til gamans gert meira en nokkuð annað, en skerpir hugsanir manns og hugmyndir sem síðan getur nýst í leik og starfi í framhaldinu.

Spáin í fyrra birtist einmitt í Kjarnanum og heppnaðist nokkuð vel, þó – og þá sérstaklega þegar – ég segi sjálfur frá. Sumt gekk að nokkru eða öllu leyti eftir. Annað ætla ég engu að síður að halda mig við þó ef til vill hafi sumt reynst ganga hægar en ég hélt fram. Facebook mun til dæmis koma fram með greiðslulausn á árinu, annars má ég hundur heita!

Að því sögðu eru hér nokkur atriði sem ég hef trú á að muni setja mark sitt á tæknigeirann á Íslandi á árinu 2015:

  • Sýndarveruleiki: Næsta útgáfa af sýndarveruleikabúnaði er að líta dagsins ljós. Það er býsna erfitt að lýsa því fyrir þeim sem ekki hafa prófað hversu sterkt þessi tækni grípur mann. Hljóð- og myndgæði eru orðin slík að heilinn gleymir fljótt að ekki er um raunveruleikann að ræða og tafarlaust viðbragð við hreyfingum höfuðs og líkama því sem næst fullkomnar blekkinguna. Nokkrir framleiðendur munu að öllum líkindum setja sýndarveruleikagræjur á almennan markað á þessu ári. Oculus Rift, sem hóf sögu sína á Kickstarter, en var keypt af Facebook á árinu sem leið á tvo milljarða bandaríkjadala, setti að mörgu leyti tóninn hér og er með mjög lofandi tækni, en Sony er þeim skammt að baki og Samsung nálgast markaðinn á talsvert annan hátt með áherslu á þráðlausa tækni. Það er enginn vafi í mínum huga að þessi tækni verður komin í mjög almenna notkun innan 3-5 ára, þó erfitt sé að spá um það nákvæmlega hversu hraður vöxturinn verður.

    Eins og með flesta nýja tækni þarf áhugavert efni og lausnir til að nýta tæknina og sýna hvað í henni býr. Allnokkur íslensk nýsköpunarfyrirtæki eru þegar farin að prófa sig áfram á þessu sviði. CCP greip Oculus Rift báðum höndum mjög snemma. Valkyrie leikurinn sem þeir útbjuggu og byggir á EVE Online heiminum er með vinsælustu sýniforritum fyrir þessa tækni nú þegar. Nokkur sprotafyrirtæki hafa líka þegar litið dagsins ljós á Íslandi sem vinna með þessa tækni og má ætla áhugaverðra hluta frá þeim á árinu. Þar á meðal eru Sólfar, Mure (sem nýlega fékk fjármögnun frá Eyri) og Aldin. Ég spái því að við eigum eftir að heyra mikið af þessum fyrirtækjum á síðari hluta ársins þegar nær dregur almennri dreifingu á þessum nýju sýndarveruleikalausnum.

  • Rauntímavinnsla: Hafi síðustu ár verið ár gríðargagna (e. “Big Data”), þá eru þau næstu ár rauntímavinnslu á þessum gögnum. Tölvukerfi, allt frá stjórnkerfum vinnslulína í matvælafyrirtækjum yfir í viðskiptakerfi fjármálamarkaða framleiða gríðarlegt magn gagna. Hingað til hefur verið nógu krefjandi að ná að grípa þessi gögn og greina þau svo og vinna úr þeim eftir á. Eftir því sem tækninni til þess fleygir fram og reiknigetan verður meiri – í takti við lögmál Moores – er að verða raunhæfur kostur að vinna úr þessum gögnum og bregðast við í rauntíma, jafnvel með sjálfvirkum hætti. Þetta mun hafa í för með sér bætta þjónustu, aukna framleiðni og færri glötuð tækifæri í hvers kyns framleiðslu, sölu og þjónustu. Þetta svið hefur hlotið nafnið Operational Intelligence, sem nefna mætti “rekstrargreind” upp á íslensku. Að minnsta kosti eitt íslenskt sprotafyrirtæki – Activity Stream – hefur þegar náð umtalsverðum árangri á þessu sviði og líklegt að framsækin íslensk fyrirtæki munu byrja að huga að rekstrargreindarlausnum þegar á þessu ári.
  • Sprotageirinn fær fjármagn: Þetta er nánast endurtekning á spádómi fyrra árs, en með vaxandi árangri íslenskra sprotafyrirtækja er loksins útlit fyrir að umtalsvert fjármagn fari að leita í nýsköpunargeirann. Annað væri eiginlega fráleitt. Lífeyris- og fjárfestingasjóðir innan fjármagnshafta geta varla haldið áfram að blása í fasteigna- og hlutbréfabólur innanlands án þess að einhverjum verði á endanum litið til þeirra stóru – en sannarlega áhættusömu – ávöxtunarmöguleika sem liggja í hraðvaxtarfyrirtækjum með alþjóðlegar áherslur. Þarna eru meira að segja tækifæri til að komast – að minnsta kosti óbeint – í tekjur og söluhagnað í erlendri mynt!

    Frá aldamótum hefur ekki verið um auðugan garð að gresja í fjármögnunarkostum fyrir sprota- og vaxtafyrirtæki og undanfarin misseri má segja að þar hafi verið nær alger þurrð þegar fjárþörfin er komin yfir fáa tugi milljóna króna. Nú er raunverulega útlit fyrir að það breytist. Nokkrir aðilar hafa verið að undirbúa stofnun áhættufjárfestingasjóða, hvern þeirra af stærðargráðunni 4-5 milljarðar króna. Ég spái því að tveir af þessum hópum nái markmiði sínu og verði þá þar með tveir stærstu sjóðir af slíku tagi sem settir hafa verið upp á Íslandi. Þetta mun breyta nýsköpunarlandslaginu verulega og gera íslenskum frumkvöðlunm kleift að reyna sínar hugmyndir hraðar og ákveðnar en hingað til hefur tíðkast.

    Sífellt fleiri aðilar í þessum geira eru líka að ná að mynda sterk tengsl við erlenda fjárfesta, bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum. Slík tengsl geta undið hratt upp á sig ef vel gengur og eru allmörg dæmi um að nýsköpunarklasar hafi myndast hér og þar í heiminum í kringum eitt eða tvö sprotafyrirtæki sem náð hafa árangri og þar með beint kastljósi og tengslum “heim”.

  • Plain Vanilla leggur allt undir: Spútnikfyrirtækið Plain Vanilla stendur í ströngu þessa dagana. Eins og fram hefur komið allt frá því að fyrirtækið tók inn stóra fjármögnun frá heimsþekktum fjárfestum í lok árs 2013, stefnir fyrirtækið á að breyta spurningaleiknum vel heppnaða – QuizUp – í samfélagsnet sem tengi saman fólk með sameiginleg áhugamál. Ef þeim tekst viðlíka vel til með þessa umbreytingu og þeim tókst með markaðfærslu leiksins í upphafi getur þetta verið ótrúlega stórt tækifæri. Áhættan er mikil, en það sem reynt er við er af svipuðu tagi og það sem Instagram, Snapchat eða WhatsApp hefur áður tekist: að ná með sterkum hætti til tuga eða jafnvel hundruða milljóna manna. Takist það – sem auðvitað er langt í frá gefið – mun “Thor” hugsanlega í alvöru standa frammi fyrir því að þurfa að svara spurningunni hvort hann sé til í að selja fyrirtækið fyrir milljarð dollara (spólið á ca. 4:10 í myndbandinu). Líklega hefur ekkert íslenskt sprotafyrirtæki áður staðið frammi fyrir jafn stóru tækifæri. Til að þetta gangi upp þarf ekki bara frábæra útfærslu, framúrskarandi markaðssetningu og sterka eftirfylgni, heldur líka heilmikla heppni. Þetta mun allt spilast út með einhverjum hætti núna á árinu og verður verulega spennandi að fylgjast með.
  • Íslendingar læra alþjóðlega sölu og markaðssetningu: Það sem háð hefur flestum íslenskum tæknifyrirtækjum í gegnum tíðina er markviss og góð sölu- og markaðsstarfsemi. Mörg þeirra hafa verið með glimrandi góðar hugmyndir, fína tækni, pakkað þeirri tækni inn sem ágætum vörum en síðan klikkað algerlega á sölu- og markaðsstarfinu. Mér skilst reyndar að þetta sé að sumu leyti tilfellið í sjávarútveginum líka og margir sem telja að þar sé hægt að gera miklu betur, þó þar sé þetta starf auðvitað allt annars eðlis. Núna erum við hins vegar að læra þetta – og það hratt. Og það er allt að gerast í gegnum ferðamannaiðnaðinn. Fyrirtæki í þeim geira, allt frá flugfélögunum Icelandair og WOW niður í smáa ferðaþjónustuaðila eru að ná býsna góðum tökum á markaðssetningu á leitarvélum og samfélagsmiðlum og sölu í gegnum vefinn.

    Það verður ómetanlegt þegar þessi þekking fer að leita á önnur – og að sumu leyti gjöfulli – mið og íslensk fyrirtæki í tæknigeiranum, þar sem framlegðin getur verið margfalt meiri, fara að njóta krafta þeirra sem nú eru að læra þessi fræði “hands on” í ferðageiranum. Þetta mun nýtast íslenskum tæknifyrirtækjum vel, sérstaklega þeirri gerð tæknifyrirtækja sem einmitt eru ef til vill best til þess fallin að vera með stóran hluta eða jafnvel alla sína starfsemi á Íslandi, það er hugbúnaðarfyrirtækja á einstaklings- eða smáfyrirtækjamarkaði sem veita þjónustu sína alfarið yfir netið (e. SaaS).

Já, sannarlega áhugavert ár framundan í íslenska tækniheiminum. Gleðilegt tækniár, 2015.

Upphaflega birt á Kjarnanum

Verið hrædd … annars!

32023051_b62775ff58_oHræðsla er sterk tilfinning. Hún hefur þróast með okkur af góðri ástæðu. Þegar kemur að því að bregðast við hugsanlegum hættum lifðu þeir forfeður okkar af sem hlupu oftar en ekki í skjól – líka þegar óttinn var ástæðulaus. Óttinn ýtir líka á okkur að bregðast hratt við og þá á þann veg sem fyrst kemur upp í hugann. Rökhugsun víkur þegar óttinn hefur tekið völdin.

Svona hugleysi hentaði hægfara, bragðgóðri bráð á gresjum Afríku vel. Það hentaði í raun ágætlega allt fram á síðustu aldir. Hinir huglausu réðu etv. ekki miklu í miðöldum, en þeir voru síður brytjaðir í spað þegar valdastéttirnar tókust á.

Heimurinn hefur hins vegar gerbreyst, ekki síst á þeim áratugum sem liðnir eru frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Öfugt við það sem halda mætti þegar fylgst er með fréttum hefur heimurinn sífellt orðið öruggari. Í dag er það svo að flest okkar sem erum svo heppin að búa í ríkari hluta heimsins getum ferðast um nánast alla jörðina, ótrúlega örugg fyrir stríðum, ofbeldi og sjúkdómum. Þökk sé annars vegar samfélagsþróun sem í auknum mæli kann að meta öryggi, stöðugleika, lög og reglu og hins vegar vísindum og verkfræði sem hafa fært okkur þekkingu til smíða farartæki og bjóða náttúröflunum byrginn í stóru sem smáu.

Þetta er algert einsdæmi í veraldarsögunni, og í raun alveg ótrúlegt afrek mannsandans.

Samt erum við flest skíthrædd við heiminn. Ekki bara við útlönd og ferðalög, heldur allt sem ýtir á óþægindarammann: Samskipti við ókunnuga, mannfjölda, möguleikann á að missa vinnuna, óvenjulegan mat og í rauninni flest það sem ekki tilheyrir daglegri rútínu okkar.

Og á þetta óöryggi okkar er óspart spilað. Við erum minnt á ógnvænlega atburði (árásirnar 11. september, Hrunið), sagt að óþekkt og oftast nafnlaus hætta steðji að okkur þannig að svipaðir atburðir gætu endurtekið sig (ISIS, erlendir hrægammasjóðir) og að viðbrögð við hættunni séu ekki á okkar færi. Þannig færum við og sættum við okkur við að færa meira vald og peninga til stjórnvalda, fyrirtækja og stofnana (aðgangur að persónuupplýsingum, handstýring hagkerfisins). Það er merkileg “tilviljun” hvað þeir sem við afhendum völdin eru oft þeir sömu og fluttu okkur skilaboðin til að byrja með.

Ekki svo að skilja að hryðjuverkaógn sé ekki til, nú eða harðir fjármálamenn sem einskis svífast í viðskiptum við lasburða hagkerfi. Hugrekki er dyggð, en fífldirfska ekki. En við hverri ógn þarf að bregðast í hlutfalli við hina raunverulegu, en ekki uppskrúfuðu áhættu. Ekki glepjast af sölumönnum óttans, það sem fyrir þeim vakir gengur oftast þvert á hagsmuni okkar hinna.

Staðreyndin er sú að stærstu ógnirnar sem að okkur steðja eru ósköp vel þekktar. Svo vel að þær eru allt að því leiðinlegar. Hjartasjúkdómar, krabbamein og umferðarslys. Ef við borðum sæmilega, hreyfum okkur, keyrum varlega, spennum beltin, högum okkur skikkanlega gagnvart náttúrunni og náunganum og HÆTTUM AÐ VERA SVONA HRÆDD VIÐ ALLT eru yfirgnæfandi líkur á að við lifum stórgóðu lífi vel fram á níræðisaldurinn.

Og þegar þar að kemur sakar ekki að hafa stigið nokkrum sinnum út fyrir þægindarammann og áttað sig á að útsýnið er hreint ekki svo slæmt þaðan. Heimurinn er of stór, og lífið of merkilegt til að verja því gagnrýnislítið, lafhræddur við nýjust ógnina sem haldið er að okkur.

5 ástæður fyrir því að ég fjárfesti í Kjarnanum

Kjarninn-logoEins fram hefur komið í fréttum tók lítill hópur höndum saman nýlega og lagði Kjarnanum til aukið hlutafé. Ég var ákveðin driffjöður í því ferli og er sérstaklega stoltur af því að geta lagt mín lóð á þessar vogarskálar.

Það er greinilegt að Kjarninn á sér dyggan aðdáendahóp, sem hefur kannski komið einna best fram í því að ég held að fleiri hafi óskað mér til hamingju með fjárfestinguna í Kjarnanum, en söluna á DataMarket sem tilkynnt var um á svipuðum tíma!

Fyrir þau ykkar sem ekki þekkið til Kjarnans, þá er besta leiðin til að kynnast honum í gegnum daglega fréttabréfið, eina fréttabréfið sem ég fæ í tölvupósthólfið mitt daglega og hlakka til að lesa (ok, ég skrökva því reyndar – fréttabréfið frá Quartz er líka frábært). En endilega skráið ykkur fyrir fréttabréfi Kjarnans og prófið.

En það hafa líka margir spurt mig hver hvatinn að fjárfestingunni sé. Það hafa ekki margir – ef nokkur – orðið ríkur á rekstri fjölmiðils á Íslandi, og oftar en ekki hafa menn blandað sér í fjölmiðlarekstur í hreinu hagsmunapoti, hvort heldur er pólitísku eða viðskiptalegu.

Mér finnst þess vegna alveg tilvalið að rekja þær 5 ástæður sem liggja að baki minni fjárfestingu í Kjarnanum.

    1. Framúrskarandi fjölmiðill: Fyrst og fremst finnst mér Kjarninn einfaldlega hafa borið höfuð og herðar yfir aðra miðla þegar kemur að fréttaflutningi og fréttaskýringum af efnahagsmálum, viðskiptum og stjórnmálum á Íslandi frá því að hann kom fram á sjónarsviðið. Kjarninn hefur skrifað af dýpt og þekkingu um flókin viðfangsefni sem varða Íslendinga miklu. Þeir hafa jafnframt safnað að sér kraftmiklum hópi pistlahöfunda sem margir hverjir hafa hrist upp í landanum.

    Þýðir það að ég sé sammála öllu sem birst hefur í Kjarnanum? Alls ekki.

    Þýðir það að ég hafi ekki séð mistök eða að mér finnst undarlega vinkla á málefni í Kjarnanum? Hreint ekki.

    En þýðir það að ég muni nú, sem stjórnarformaður, skipta mér af því um hvað er skrifað og hvernig. Uuuu, nei.

    Ég satt að segja vona að ég haldi áfram að sjá þar hluti sem ég er ósammála, sem stuða mig og koma jafnvel óþægilega við mína hagsmuni. Maður lærir ekkert af því að umgangast eingögngu fólk sem maður er sammála.

    2. Sjálfstæðir blaðamenn: Það sem fær mig til að treysta því að eignarhald og hagsmunatengsl muni ekki hafa áhrif á ritstjórnarstefnu Kjarnans er það að sennilega hafa engir blaðamenn á Íslandi sýnt sjálfstæði sitt með jafn afgerandi hætti og þeir Þórður Snær og Magnús Halldórsson gerðu í aðdraganda stofnunar Kjarnans. Einhverjir munu sjálfsagt vilja draga í efa að hagsmunir eigenda og/eða auglýsenda muni ekki skipta máli hér. Gagnrýnendur munu leita færa þar, en ég óttast að þeir muni ekki finna margt til að festa hendur á. Kjarninn er ekki skoðanalaus fjölmiðill, en hann dregur ekki vagn neins stjórnmálaflokks eða viðskiptablokkar.

    3. Áhugi á viðfangsefninu: Ég er alger fjölmiðlafíkill og hef alltaf haft gaman af þjóðmálaumræðu. Ég hef sagt við þá Kjarna-menn ítrekað í þessu ferli að ef ég væri nú að stofna (mitt fimmta) nýsköpunarfyrirtæki, þá væri það á sviði fjölmiðlunar. Það er gríðarlega mikil gerjun á þessum vettvangi um þessar mundir og rótgrónir fjölmiðlar leita nánast örvæntingarfullir að nýjum viðskiptamódelum þar sem þau gömlu stráfalla. Á sama tíma hefur þörfin fyrir djúpa og greinandi fjölmiðlun sennilega sjaldan verið meiri – og miklir hagsmunir í húfi, bæði fyrir almenning og atvinnulífið. Allt þetta öskrar “tækifæri” í mín eyru. Það er gaman að fá að dýfa litlu tánni í þessa þróun, þó maður sé upptekinn við annað dags daglega.

    4. Fyrirsjáanlegar breytingar á auglýsingamarkaði: Ofantalið er gott og blessað, en það eru líka viðskiptaástæður fyrir áhuga mínum á þessum markaði og þessum miðli. Íslenski auglýsingamarkaðurinn er ótrúlega gamaldags. Eitt af því sem er gamaldags við hann er reyndar hversu litlar upplýsingar eru til um hann, en gróflega áætlað er stærð hans eitthvað yfir 10 milljarðar króna á ári. Þar af fara um 35% í prentauglýsingar, en rétt rúmlega 10% í auglýsingar á stafrænum miðlum (vef og farsíma). Sambærileg hlutföll eru 12% og 32% á Bandaríkjamarkaði, og stafræni hlutinn vex hratt. Ég er sannfærður um að íslenski markaðurinn mun færast hratt í átt að svipuðu jafnvægi og sá bandaríski. Ein helsta ástæðan fyrir því að þessi breyting hefur verið svona hæg á Íslandi er að allir stóru vefmiðlarnir eiga hagsmuna að gæta annað hvort í prenti, í ljósvakamiðlum, eða bæði. Og af hverju ættu þeir að slátra mjólkurkúnni meðan hún enn gefur.

    Þess vegna er “digitally native” miðill eins og Kjarninn, með breiðan en nokkuð skýrt skilgreindan markhóp, í lykilstöðu til að grípa skerf af þessari tilfærslu þegar hún verður. Þetta eru líklega meira en 2 milljarðar króna árlega sem munu leita í nýjan farveg. Þeir munu ekki allir fara úr prentmiðlunum í stafræna íslenska miðla. Dágóður hluti mun fara til Google og Facebook í formi auglýsinga, eða í ráðningar á fólki sem sér um markaðssetningu á samfélagsmiðlum og “content marketing” á vefjum fyrirtækjanna sjálfra, en þarna er samt mikið sóknarfæri fyrir öflugan miðil og Kjarninn ætlar sér stóra hluti þegar þessi tilfærsla verður. Þar ætlum við líka að leiða ákveðnar breytingar því framtíð auglýsinga á vefnum liggur ekki í vefborðum og Modernus-vefmælingum þó þannig fari mestöll markaðssetning á vefnum fram á Íslandi í dag. Meira um það síðar!

    5. Öflugur hópur: Umfram allt er það þó hópurinn sem að baki Kjarnanum stendur sem fær mig til að trúa á framtíð fyrirtækisins og fjölmiðilsins. Þessi hópur hefur náð miklum árangri á stuttum tíma og þó þar hafi verið lítið á milli handanna til að byggja á hafa þeir engu að síður náð að byggja upp miðil og vörumerki sem fólk treystir, stóran og dyggan lesendahóp og áhrif langt umfram það sem ætla mætti af svona litlum og ungum fjölmiðli.

Þess vegna er okkur alvara með Kjarnann, og þess vegna fjárfesti ég í honum.

Qlik kaupir DataMarket

dm-qlik-logos

Þær eru stórar og skemmtilegar fréttirnar sem við gátum loksins deilt opinberlega núna í kvöld.

Viðskiptagreindarfyrirtækið Qlik sendi eftir lokun markaða í Bandaríkjunum frá sér tilkynningu þess efnis að það hafi keypt allt hlutafé í DataMarket ehf.

DataMarket er því hér með í raun orðið “Qlik á Íslandi” (og já, það er fyndið þegar maður segir það upphátt! 🙂 )

Aðeins meira um Qlik og þetta allt saman á bloggsíðu DataMarket. Um kaupin sjálf og fyrirætlanirnar í framhaldinu munum við ekki segja meira en þar kemur fram í bili.

Þar sem ég þykist viss um að margir vilji vita hvað þetta þýðir fyrir starfsemi DataMarket á Íslandi og hvernig þetta gekk allt fyrir sig, þá er rétt að koma nokkrum hlutum að:

  • Óbreytt þjónusta við viðskiptavini: Þjónusta við viðskiptavini okkar á Íslandi verður óbreytt. Viðskiptavinir munu fá póst þess efnis eftir helgi og við munum glaðir veita frekari upplýsingar.
  • Fjárfest verður í aukinni þróun á Íslandi: Við erum ekki – frekar en fyrri daginn – að flytja úr landi. Þvert á móti stefnum við á umtalsverða uppbyggingu hér á næstu misserum og munum fljótlega þurfa að finna fólk til að fylla í ný og spennandi störf. Það verður virkilega gaman að geta boðið íslensku gagna- og hugbúnaðarfólki upp á tækifæri til að vinna hjá stóru og farsælu alþjóðlegu fyrirtæki.
  • Gjaldeyrishöftin verða að fara: Þetta er búið að vera langt og snúið ferli, og stærsti flækju- og áhættuþátturinn í ferlinu öllu var íslenskt efnahagsumhverfi. Gjaldeyrishöft, “gulir miðar”, undanþágur og lagabreytingar sem höfðu bein áhrif á fyrirhugaða útfærslu viðskiptanna kölluðu á mikla yfirlegu, ráðgjöf, kostnað, áhættu og óvissu sem hvorki kaupandinn né seljendur hefðu þurft að glíma við annars staðar. Það er þó rétt að taka fram að starfsmenn Seðlabanka reyndust okkur vel og á endanum fannst viðunandi lausn á öllum málum. Þeir sem eiga pirringinn skilinn eru þeir sem ollu því að setja þurfti höftin á til að byrja með, og svo stjórnvöld (núverandi og fyrrverandi) sem ekki hafa fundið leið út úr þeim.
  • Það munar um minna: Kaupverðið kemur svo sem fram í tilkynningunni, þannig að það er ekkert leyndarmál. Fjárfestar eru allir að fá mjög góða ávöxtun á sitt fé og eru ánægðir með árangurinn. Þetta er meira að segja nóg til að hreyfa nálina pínulítið í einhverjum hagstærðum, sem er umhugsunarvert. Að 15 manns sem setjast niður við Klapparstíg með svolitla fjármögnun, kaffi og aðgang að internetinu geti búið til slík verðmæti í formi hugverka. Með öðrum orðum: Með því einu að hugsa um það.

Ég er auðvitað stoltur af því að hafa fengið að leiða þessa uppbyggingu, en umfram allt er þetta árangur heildarinnar. Hópsins sem stóð að baki fyrirtækinu með fjármögnun og stjórnarsetu og hinum ýmsu sem gáfu okkur góð ráð og bendingar og studdu áfram þegar á þurfti að halda. Tækniþróunarsjóður og endurgreiðsla rannsóknar- og þróunarkostnaðar frá Ríkinu skipti okkur líka miklu. En umfram allt er þetta samt árangur starfsmanna, bæði núverandi og fyrrverandi. Þið hafið búið til afburðatækni sem nú finnur sér farveg á markað í gegnum stórt og alþjóðlegt fyrirtæki – og gæti breytt markaði viðskiptagreindarlausna til frambúðar þegar nýjum lausnum verður hleypt af stokkunum undir merkjum Qlik. En meira um það síðar.

Stórt TAKK til ykkar sem stóðuð með okkur í þessu. Nú tekur við nýr og spennanndi áfangi á nýjum vettvangi!

(Fá)brotið þjóðfélag

Við þekkjum öll söguna um uppgang Íslands á 20. öldinni. Fátækasta ríki Evrópu varð eitt þeirra allra ríkustu.

Það má örugglega rekja þennan uppgang til margvíslegra þátta, jafnt innri sem ytri, jafnt ráðgerðum sem tilviljanakenndum. En það sem einkennir þennan tíma öðru fremur er samt aukin fjölbreytni í efnahagslífinu. Árið 1870 störfuðu meira en 80% þjóðarinnar við landbúnað. Aðrar greinar voru eðli málsins samkvæmt ekki mjög áberandi. Árið 1990 störfuðu innan við 5% í landbúnaði og er nú innan við 3%. Engin ein grein atvinnulífsins er lengur áberandi stærst þegar kemur að mannafla.

Atvinnuskipting_1801-1990

Þetta gerðist samt ekki átakalaust. Ég er ekkert óskaplega gamall, en ég man þó samt vel að þegar ég fór í fyrsta skipti til útlanda þurfti pabbi að mæta með farseðlana í Sparisjóðinn til að fá þann gjaldeyrisskammt sem ríkinu þótti hæfilegur fyrir fólk sem var að ana til útlanda að gamni sínu. Ég er líka alinn upp í dreifbýlinu og í sveitinni hjá öfum mínum og ömmum leyndi sér ekkert hvernig stuðningur við réttan stjórnmálaflokk hafði í gegnum tíðina verið nauðsynlegur fyrir framgang í þeirri stétt. Það hefði líklega á stórum hlutum 20. aldarinnar verið “pólitískur ómöguleiki” að vera bóndi og kjósa ekki Framsóknarflokkinn, eða a.m.k. segjast gera það. Þó það hafi augljóslega verið fyrir mína tíð, hafa þeir greinilega verið ansi öflug tæki, skömmtunarmiðarnir!

Tíundi áratugurinn var þess vegna glæsilegur lokahnykkur á þessu framfaraskeiði Íslands. Við tók stjórn sem tók til við að opna landið, koma á meira frelsi í viðskiptum, draga úr ríkisafskiptum á fjölmörgum sviðum og draga ríkið út úr ýmiskonar rekstri sem er miklu betur kominn í samkeppni á einkamarkaði. EES samningurinn varð að veruleika, gjaldeyrishöft hurfu, snefill af samkeppni myndaðist á fáeinum sviðum, alþjóðleg fyrirtæki urðu til og uxu og ríkisfyrirtæki voru mörg hver einkavædd. Viðskiptablokkir stjórnmálaflokkanna leystust að miklu leyti upp. Fjölbreytnin jókst enn meira og þó ástandið hafi ekki verið fullkomið má alveg halda því fram að í upphafi 21. aldarinnar hafi Ísland verið í býsna góðum málum.

Það er nefnilega erfitt að halda öðru fram en að fyrri hluti valdaskeiðs Davíðs Oddssonar hafi verið afar farsæll. Hefði Davíð hætt í stjórnmálum árið 2001 hefði krafan á Austurvelli 2008 og 2009 verið að fá Davíð aftur í stól forsætisráðherra.

En hefði þá verið einhver atburðarás sem leiddi til uppákoma á Austurvelli? Vandinn er nefnilega sá að Davíð, Sjálfstæðisflokkurinn – og auðvitað Framsókn – höfðu þrátt fyrir allt lært of mikið af forverum sínum í íslenskri pólitík. Þeir gátu ekki sleppt hendinni af fyrirgreiðslupólitíkinni og miðstýringunni: Ofvaxnar miðstýrðar framkvæmdir á Austurlandi, skelfileg handstýrð einkavæðing bankanna í hendur “hinna þóknanlegu” samkvæmt helmingaskiptareglunni og ótrúleg útþensla ríkisins. Útgjöld ríkisins jukust á árunum 1998-2007 um nærri 50% að raunvirði – og það undir stjórn fólksins sem kynnti á sínum yngri árum hugtakið “báknið burt”! Allt þetta myndaði eitraðan kokteil með þeirri furðuhugmynd Seðlabankans að hægt væri að stýra minnstu mynt í heimi – þar sem minniháttar ásláttarvilla hjá stórbanka jafnast á við stærð efnahagskerfisins – með sömu peningastefnunni og notuð er til að stýra stærstu myntkerfum heimsins þar sem utanaðkomandi áhrif eru hverfandi. Þess má geta í framhjáhlaupi að að frátöldum gjaldeyrishöftunum er þetta sú peningastefna sem Seðlabankinn virðist enn halda að sé best til fallin til að stýra smámyntinni okkar, etv. með aðeins meiri kork og kút.

Útkomuna úr þessu þarf varla að rifja upp fyrir nokkrum manni.

Vandinn sem við stöndum frammi fyrir núna er að við höfum færst ár – eða jafnvel áratugi – aftur á bak á sumum þeim sviðum þar sem framfarir höfðu orðið svo miklar. Það virðist vera verulegur vilji meðal áhrifamikilla afla í samfélaginu að halda því þannig, eða hverfa jafnvel enn lengra til fortíðar: Lokun, handstýring, miðstýring og útdeiling gæða til vildarvina. Mér finnst það ansi hart ef sonur minn þarf að alast upp við umhverfi sem – hvað höft og fyrirgreiðslur varðar – minnir meira á ástandið sem ríkti þegar afar mínar og ömmur voru upp á sitt besta, heldur en það sem gerist í dag í löndunum í kringum okkur.

En allt þetta á sér skýringar.

Þó fjölbreytileikinn hafi aukist, er hann samt ekki meiri en svo þegar kemur að útflutningi en að þrjár greinar draga í búið 75% af gjaldeyristekjunum: Fiskveiðar, stóriðja og ferðaþjónusta, því sem næst fjórðung hver. Fjórðungurinn sem eftir er kemur svo frá “einhverju öðru”. Sumir virðast túlka þetta sem augljóst merki um það að okkur beri að einbeita okkur að því að hlúa að þessum þremur greinum og allt annað sé augljóslega fánýtt. Þeim yfirsést að allar þessar þrjár greinar eru háðar takmörkuðum auðlindum: Útgerðin fisknum í sjónum, stóriðjan orkunni í fallvötnum og háhita, og ferðamannaþjónustan einstakri og víða ósnortinni náttúru sem verður fljótt minna virði við meiri átroðning og fleiri virkjanir. Vaxtarbroddurinn liggur því í “einhverju öðru”, í greinunum sem geta skapað verðmæti úr “engu”; breytt góðri hugmynd í ábatasaman rekstur með hugvitinu einu saman: Hönnun, hugbúnaðargerð, líftækni, listsköpun og svo auðvitað hugviti sem eykur verðmæti náttúruauðlindanna. Og athugið, þetta á ekki að koma í stað hinna greinanna, heldur þarf einfaldlega að geta þrifist og dafnað samhliða þeim.

Hagsmunir útgerðarinnar

Þessi mynd sýnir vel hvar hagsmunir útgerðinnar liggja:

BreytingarVNV-og-aflaverðmæta

Frá 1990-2007 hélst vísitala neysluverðs og útflutningsverðmæti sjávarafurða nokkurnveginn í hendur, þ.e. útflutningsverðmætið var svo að segja það sama að raunvirði. En með gengisfallinu 2008 dregur sundur og á hverju ári síðan hefur útflutningsverðmæti sjávarútvegsins aukist meira en sem nemur verðbólgu, m.ö.o. útgerðin fær raunverulega meira og meira greitt fyrir afurðirnar sínar að raunvirði á hverju ári frá og með 2008. Það er ekki furða að þeir vilji verja þetta ástand með kjafti og klóm.

Til þess að “eitthvað annað” gangi upp þarf umhverfið að vera hagfellt. Efnahags- og lagaumhverfið stöðugt, menntunin góð, flutningar fólks, fjármagns og þjónustu á milli landa hindrunarlitlir og frelsi til athafna sem mest. Það þarf líka að bjóða upp á lífsskilyrði sem eru eftirsóknarverð fyrir fólk með menntun, reynslu og hæfileika til að vinna slík störf. Sú þekking er nefnilega mjög alþjóðleg og fólkið sem starfar í þeim á auðvelt með að finna störf hvar sem er í heiminum – og er oft mjög opið fyrir því. Ég þekki marga Íslendinga sem falla í þennan hóp og ég heyri sífellt fleiri tala eins og Björgvin Ingi Ólafsson gerir í frábærri grein í Viðskiptablaðinu nýverið. Taugin er römm, en það er ekki hægt að láta hvað sem er yfir sig ganga.

Og þarna fara skammtímahagsmunir gömlu greinanna og þeirra nýju svo sannarlega ekki saman. Auðlindagreinarnar þrífast vel í lokuðu, handstýrðu og miðstýrðu umhverfi – þar sem stjórnmálin geta útdeilt gæðunum til vildarvina og njóta til baka stuðnings þegar kemur að kosningum; þar sem helst er hægt að fella gengið þegar afurðaverðið er ekki nógu hátt eða laun starfsfólksins ekki nógu lág; þar sem búið er að koma því þannig fyrir að orkufyrirtæki í almenningseigu niðurgreiða orku til stóriðjunnar þegar verðlag er óheppilegt á álmörkuðum – í skiptum fyrir nokkur störf í heimahéraði þess stjórnmálamanns sem réði málaflokknum fyrir áratugum, þegar viðkomandi verksmiðja var sett upp.

Að þessu leyti er Ísland skólabókardæmi um auðlindabölvunina: Það er of mikið af verðmætum náttúrugæðum á framfæri stjórnmálamanna. Úthlutunarvald þessarra gæða færir stjórnmálamönnunum gríðarleg völd en heldur á sama tíma lífskjörum viðunandi án stórkostlegrar fyrirhafnar. Á meðan svo er hafa hagsmunir og þarfir þessarrra greina forgang á allt annað í umhverfinu. En þetta er viðkvæmt jafnvægi eins og dæmin sanna og það er erfiðara að stunda þessa starfsemi jafn grímulaust og gert var í gamla daga.

Og Newton sjálfur forði okkur frá því að finna að auki olíu á meðan svona er komið fyrir okkur. Ísland sem olíuríki yrði að óbreyttu líkara Sameinuðu arabísku furstadæmunum en Noregi.

Það er auðvitað margt sem þarf að laga hérna, og það er ekki bara bankið í ofninum á langa ganginum. Þeir hlutir sem standa upp úr eru samt:

  • Nothæfur, alþjóðlegur og haftalaus gjaldmiðill
  • Almennt og stöðugt lagaumhverfi
  • Agað stjórnmálakerfi þar sem hagsmunir heildarinnar eru settir framar sérhagsmunum

En meira um hvern þessarra punkta í næsta pistli.

Della dagsins

Della dagsins

Smellið til að fá stærri mynd

Ég hef lengi verið heillaður af “dellu dagsins” – málinu sem “allir” á Íslandi hafa sterka skoðun á í örfáa daga og hverfa svo úr umræðunni, oftast án þess að hún hafi skilað neinu.

Um jólin ákvað ég að gera mér að leik í nokkrar vikur að skrá niður helstu dellurnar sem dúkka upp. Myndin hér að ofan sýnir 42 daga af þessum dellum. Það skal tekið fram að “mælingin” er algerlega huglæg og byggir ekki á neinum vísindum eða mælanlegri stærð, heldur bara tilfinningu fyrir “umræðunni”.

Það er svolítið skondið að líta yfir þetta og hugsa til baka. Eru kannski atriði á listanum sem þið munið eftir að hafa verið “alveg brjáluð” yfir, en voruð búin að gleyma? Veriði nú heiðarleg.

Flest eru þetta smámál sem engu skipta í stóra samhengi hlutanna, en jafnvel því sem skiptir máli er svo hvort eð er aldrei fylgt eftir (né hinu ef út í það er farið). Eða hver eru t.d. svörin við eftirfarandi spurningum:

  • Er Ölgerðin hætt að selja iðnaðarsalt til matvælaframleiðenda?
  • Nærist Ölfusárlax enn á kúknum úr Selfossbúum?
  • Er hundurinn Lúkas enn á lífi?

Væri kannski hægt að nota þann tíma og þá orku sem fer í þessi upphlaup betur? Hér eru til dæmis eldri vangaveltur um heilbrigt “upplýsingaæði”. Þær gætu verið ágætur upphafspunktur.

– – –

P.S. Fyrir þá sem hafa svo áhuga á að rifja uppþotin á myndinni hér að ofan upp, þá er þetta listi þeirra atriða sem komust á myndina:

Ótalin á myndinni eru engu að síður atriði eins og:

Auk málsins sem var í gangi allan tímann, hafði verið í gangi í margar vikur fyrir jól og sér engan veginn fyrir endann á: Leki á minnisblaði innanríkisnáðuneytisins

…og svo er Icesave að koma aftur!

Krónuheilkennið

Mynd: Danny Nicholson

Mynd: Danny Nicholson

  • Það var krónan* sem olli fáránlegu innstreymi fjármagns á bóluárunum (nú “snjóhengjan”)
  • Það var krónan sem gerði íslensku bönkunum kleift að vaxa langt umfram svipaða banka annars staðar í heiminum
  • Það var vegna krónunnar sem sá vöxtur olli kerfisáhættu meðal 300þús manns sem ekki höfðu sér neitt til saka unnið (annað en að vera ekki búin að sjá í gegnum krónuna)
  • Það var krónan sem minnkaði kaupmátt Íslendinga í Hruninu
  • Það er krónan sem þarf að plástra með gjaldeyrishöftum og draga þar með úr tækifærum Íslendinga til þátttöku í alþjóðaviðskiptum og -tækifærum
  • Það er krónan sem þarf að plástra með verðtryggingu og gerir það að verkum að Íslendingum bjóðast ekki og mun ekki bjóðast sambærileg kjör til fjármögnunar húsnæðiskaupa og fólki í nágrannalöndunum.

Samt elska menn krónuna. Hvað er þetta? Eitthvað tilbrigði við Stokkhólmsheilkennið?

Og svo þetta sé nú ekki bara kvart og kvein án þess að leggja til lausnir, er best að ég vitni af hógværð í 2 árum yngri sjálfan mig:

Þetta er mikilvægasta mál íslensks samtíma. Miklu mikilvægara en flestir gera sér grein fyrir,

[…]

Að halda – og halda fram – að aðeins ein leið sé fær og skella sjálfkrafa skollaeyrum við öllum hugmyndum um annað er barnaskapur. Möguleikarnir eru fjölmargir. Viðfangsefnið er að finna þann sem hefur fæsta galla.

Það þarf að fá bestu hagfræðinga og peningamálamenn samtímans til að vega og meta þessa kosti í opnu ferli þar sem jafnframt er lögð áhersla á að útskýra stöðuna, leiðirnar og kosti og galla hverrar um sig á einfaldan og skiljanlegan hátt fyrir almenningi. Jafnframt þarf að tryggja að öllum spurningum og ábendingum sem upp koma sé svarað skýrt og skilmerkilega og þær metnar inn í leiðirnar eftir því sem við á áður en ákvörðun er tekin.

Af gjaldeyrishöftum, dægurþrasi og sandkassapólitík, 12. apríl 2012

* Krónan er hér í merkingunni íslenska krónan með því peningastjórnunakerfi sem komið var á laggirnar 2001 og hefur ekki verið breytt í neinum grundvallaratriðum að öðru leyti en að bæta við gjaldeyrishöftum.

Tæknispá 2014

Þessi spá mín um þróun komandi árs í heimi tækninnar birtist í hátíðarútgáfu Kjarnans fyrir nokkrum dögum.

Hér eru 6 hlutir sem ég spái því að muni gerast, eða við munum að minnsta kosti sjá stór skref í átt að á árinu 2014.

  • “Tölvan er dauð”, hefði Nietzsche kannski sagt. Það er nú kannski ekki alveg svo, en á meðan fartölvusala stendur nokkurnveginn í stað og borðtölvur eru sannarlega deyjandi fyrirbæri, er snjallsíma- og spjaldtölvueign á hraðri uppleið. Sífellt stærri hluti netnotkunar fer nú fram í gegnum þessi tæki. Þessi þróun mun halda áfram á árinu 2014 og því munum við sjá miklu fleiri vefsvæði þannig úr garði gerð að þau geri ráð fyrir að notkun sé að meirihluta með þessum hætti, eða “mobile first”, eins og það er kallað upp á ensku. Vonandi munu flestir vefir (íslenskir fréttavefir, ég er að tala við ykkur!) hætta að halda úti aðskildum vefslóðum fyrir mismunandi tæki og einbeita sér frekar að vefhönnun sem aðlagar sig að skjástærð og eiginleikum þess tækis sem lesandinn er að nota hverju sinni.
  • Öppin hverfa: Síðustu ár hefur verið það alheitasta að búa til “öpp” til að sinna hinum ýmsu afmörkuðu verkefnum á farsímum og spjaldtölvum. Við erum þarna á sama stigi farsímaþróunarinnar og þegar allir kepptust við að dreifa margmiðlunarefni fyrir tölvur á geisladiskum um og fyrir aldamótin. App er í eðli sínu forrit sem er sérskrifað til að keyra á tilteknu stýrikerfi og jafnvel afmörkuðum útgáfum þess. Geisladiskarnir dóu þegar bandbreidd á netinu og vafrar þróuðust nægilega til að ná að skapa í flestum tilfellum nokkurnveginn sömu upplifun á hefðbundinni vefsíðu og en ná í staðinn margfaldri dreifingu á við það sem diskarnir buðu upp á. Öppin hafa sannarlega sína kosti, en mörg þeirra eru í raun ekkert annað en þunn skel utan um það sem vafrinn í tækinu getur gert hvort sem er. Eftir því sem vafrar og vefþjónustur verða almennt í boði sem bjóða upp á þægilegar smágreiðslur, einfaldar leiðir til að “branda” og bókamerkja vefsíður á aðalvalmyndir tækjanna og ekki síst bjóða upp á þann sýnileika sem “app store”-in bjóða upp á, munu hefðbundnar vefsíður sækja á aftur, enda má ná sömu upplifun á þann hátt, en spara sér að gera sérstaka útgáfu fyrir hverja gerð stýrikerfis. Öppin munu enn eiga sinn sess, en meira í líkingu við það sem við þekkjum sem muninn á forriti og vefsíðu á tölvunni okkar.
  • Símafyrirtæki í vanda: Símafyrirtæki, einkum þau rótgrónari, hafa um langt árabil haft gífurlega framlegð af landlínuáskriftum – tækni sem fáir nota, en margir borga fyrir. Í þónokkurn tíma hafa þau reyndar þurft að þola að ný heimili bætist ekki endilega í þennan hóp, enda upfyllir nettenging og farsímaáskrift allar fjarskiptaþarfir og -venjur ungs fólks. Nú er þessi tekjustraumur farinn að láta verulega á sjá og eftir því sem ljósleiðaratengingar og 4G farsímasamband verður algengara og áreiðanlegra eru eldri hóparnir jafnvel að segja upp landlínuáskriftunum líka. Alltaf leiðinlegt þegar fólk hættir að gefa manni peninga.
  • Facebook alls staðar: Fyrir nokkrum árum lét ég hafa eftir mér að “Facebook væri sjónvarpið” í þeim skilningi að nú væri kvöldrútínan á heimilum landsmanna farin að snúast um að vaska upp, hátta börnin og fara svo á Facebook í stað þess – eða í raun samhliða því – að horfa á sjónvarpið. Nú er Facebook orðið miklu meira en það. Facebook er til að mynda líka dagblaðið (á dauðum stundum í deginum), sígarettan (til að taka sér hlé) og sjampóbrúsinn (til að lesa á klósettinu). Þetta er gríðarlega sterk staða sem fyrirtækið og fyrirbærið Facebook er komið í og með nær 1 af hverjum 5 jarðarbúum sem notendur eru þeir rétt að byrja að nýta sér þessa stöðu til að afla tekna. Það kæmi mér ekki á óvart að við ættum eftir að sjá Facebook rúlla út greiðslulausnum (PayPal), vefleit (Google) og verslunarlausnum (Amazon) áður en langt um líður. Og það er fátt sem getur hindrað þeirra í þessari samkeppni. Ekkert fyrirtæki veit meira um notandann, langanir hans, þrár og drauma – og hvernig má uppfylla þá.
  • Þrívíddarprentun: 2014 er ár þrívíddarprentarans. Tæknin er orðin nógu góð og ódýr til að fara að komast í almenna útbreiðslu, og notkunarmöguleikarnir eru fleiri en flesta órar fyrir. Hönnuðir eru auðvitað fyrir allnokkru búnir að tileinka sér þessa tækni sér til mikils gagns, en með almennri útbreiðslu munu hlutirnir komast á verulegt skrið. Fólk mun prenta sér leikföng, nytjahluti og listmuni. Föndurfíklar fá alveg ný tækifæri fyrir útrás. Möguleikarnir í kennslu eru ótakmarkaðir. Heimurinn er áþreifanlegur og áþreifanlegir hlutir höfða til fólks á allt annan og “náttúrulegari” hátt en það sem er bara til í tölvu. Aukin útbreiðsla mun líka kveikja nýjar hugmyndir, sprotafyrirtæki munu spretta upp og hlutirnir fara að gerast á þessum vettvangi með auknum hraða. Hugmyndaríkt fólk mun láta sér detta í hug hluti til að nýta þessa tækni á vegu sem ómögulegt er að spá fyrir um. Ég spái því sem sagt að einhver muni gera eitthvað með þessari tækni sem mér tekst ekki að spá fyrir um!
  • Sprotauppskeran heldur áfram: Árið 2013 fórum við að sjá uppskeruna af þeirri bylgju sprotafyrirtækja sem mörg hver fóru af stað eftir hrunið 2008 þegar margt hugmyndaríkt og kraftmikið fólk stóð á krossgötum í lífinu og ákvað að eltast við gamla – og stundum nýja – drauma. Plain Vanilla, Meniga, Clara, Betware og fleiri voru að ná eftirtektarverðum árangri á árinu. Við eigum eftir að sjá nokkur slík dæmi til viðbótar árið 2014 og þá fer athygli fjárfesta sem leita logandi ljósi að nýjum bólum til að blása í á bakvið gjaldeyrishöft að beinast að þessum geira. 2014 verður upphaf nýrrar sprotabólu. Þar mun margt misgáfulegt gerast, en heildaráhrifin verða sannarlega af hinu góða. Íslenski tæknigeirinn ætti að búa sig undir nýja rússíbanareið!

Lítil fyrirtæki, lykill stórra framfara – þrjár ástæður

Setningarerindi sem ég flutti á Smáþingi nú í dag:

Komiði sæl…

Það er mér sannur heiður að fá að setja þetta Smáþing, enda er efnið brýnt og mér sérstaklega hugleikið.

Sa-litla-Island-orange-400x160pix-2_943295987Einhverra hluta vegna er það þannig að við Íslendingar virðumst hrífast af stórum lausnum; einhverju einu stóru sem á að breyta öllu. Þetta hefur síst af öllu breyst eftir að við reyndum það síðasta sem átti að breyta öllu – alþjóðlega bankastarfsemi. Til að bjarga okkur úr klandrinu sem það kom okkur í einblína margir á eina stóra lausn:

  • Taka einhliða upp annan gjaldmiðil
  • Finna olíu
  • Skipta um stjórnarskrá
  • Leggja sæstreng til Evrópu
  • Endurgreiða fólki verðbólguna
  • Byggja tvö risaálver í einu
  • Þjónusta gullæði á Grænlandi
  • o.s.frv.

Margt eru þetta auðvitað ágæt verkefni sem gaman væri að sjá verða að veruleika í hæfilegum skömmtum og umfram allt á sínum eigin forsendum.

Hin raunverulega lausn liggur hins vegar ekki í einhverju einu stóru. Hin raunverulega lausn er miklu nærtækari. Hin raunverulega lausn er sennilega líka miklu leiðinlegari. Hin raunverulega lausn er að einhverju leyti hér í þessum fundarsal.

Það er kominn tími til að hlúa að hinu smáa, hina fjölbreytta og hinu marga. Velgengni atvinnu- og efnahagslífsins er fyrst og fremst fólgin í því að tryggja litlum fyrirtækjum brautargengi. Að skapa litlum fyrirtækjum almennt, hagfellt umhverfi sem leyfir framtakssömu fólki að spreyta sig á þeim sviðum þar sem það hefur þekkingu, kraft og hugmyndir og sjá hvað verður úr því.

Og ég segi þetta ekki bara út í bláinn. Lítil fyrirtæki eru raunverulegur lykill að stórum og merkilegum hlutum.

Fyrir það fyrsta eru lítil og meðalstór fyrirtæki stærsti vinnustaður landsins. Upp undir helmingur launafólks vinnur hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum, eða líklega á milli 80 og 90 þúsund manns. Hjá litlum fyrirtækjum verða líka til flest störf. Þessari tölfræði er reyndar nokkuð ábótavant á Íslandi, en sé tekið mið af því sem gerist í löndunum í kringum okkur má gera ráð fyrir að um 2/3 hlutar nýrra starfa skapist hjá þessum hópi fyrirtækja.

Þess vegna eru lítil fyrirtæki svo mikilvæg.

Í annan stað skapa lítil fyrirtæki fjölbreytni. Margar þeirra þjóða sem best vegnar í heiminum eru þær sem eiga hvað erfiðast með að svara spurningunni: Hverjir eru ykkar helstu atvinnuvegir? Íslendingar eiga ekki erfitt með það: Ál, fiskur og túrismi. Stundum er jafnvel talað í hálfgerðum hæðnistón um “eitthvað annað”. En leiðin til að standast áföll í einstökum greinum er einmitt sú að tryggja fjölbreytni í samsetningu atinnulífsins; að gera LÍKA eitthvað annað. Ekki á kostnað stóru greinanna, heldur samhliða þeim.

Þess vegna eru lítil fyrirtæki svo mikilvæg.

Í þriðja lagi verða lítil fyrirtæki stundum stór. Það þurfa ekki öll lítil fyrirtæki að stefna að því að verða stór, en fólk virðist oft gleyma að í 100 fjögurra manna fyrirtækjum eru jafn mörg störf og í einu 400 manna fyrirtæki. Munurinn er sá að upp úr 100 fjögurra manna fyrirtæki spretta tíu 60 manna fyrirtæki og mögulega ein “stórstjarna” með mörg hundruð stafsmenn. Í réttu umhverfi fá þær framkvæmdir sem eru á einhvern hátt ófullkomnar – sem reynslan sýnir að eru stærstur hluti þeirra – að deyja drottni sínum, en réttu hugmyndirnar fá að vaxa og dafna og verða að verða að stórum og kraftmiklum fyrirtækjum af eigin rammleik.

Fyrirtæki sem byggt er upp þannig stendur á miklu traustari grunni en fyrirtæki sem er handsnúið í gang í krafti stjórnvalda.

Þess vegna eru lítil fyrirtæki svo mikilvæg.

Ráðherra … og aðrir ráðamenn.

Það er náttúrulega ýmsilegt sem þarf að laga hérna – og það er ekki bara bank í ofnunum eins og sagt var í óborganlegu Fóstbræðra-sketsji um árið. Hér væri freistandi að nefna til sögunnar gjaldeyrishöft og skort á fjármögnunarkostum. En ég ætla ekki að fara út í þá sálma hér.

Umfram allt þurfa frumkvöðlar og framtakssamt fólk nefnilega að gera hlutina sjálft. Við uppbyggingu á nær hverju fyrirtæki koma ítrekað upp augnablik þar sem kringumstæður og einstakar ákvarðanir skilja milli feigs og ófeigs. Einstigið á milli þess að slá í gegn og að fara í hundana getur verið býsna mjótt. Ég þekki það … og hef fallið útaf því, báðum megin. Umhverfið sem stjórnvöld skapa er sjaldnast það sem ríður baggamuninn.

Ef við erum ósátt við aðstæður sem stjórnvöld skapa er sjálfsagt að útskýra í hverju það felst og vinna með þeim að því að breyta og bæta, en spurningin sem fólkið á Litla Íslandi þarf samt umfram allt að spyrja sig er ekki: Hvað get ég gert fyrir tilstuðlan stjórnvalda? Heldur: hvað get ég gert óháð þeim?

Ég segi Smáþing hér með sett. Gangi ykkur vel í dag.