Ég hef áður gert nokkrar tilraunir með að draga upp mynd af bensínverði hér á landi miðað við þá þætti sem helst eru sagðir ráða verðmynduninni, þ.e. heimsmarkaðsverð á olíu og gengi bandaríkjadals.
Nú hefur heimsmarkaðsverðið snarfallið, en gengið á móti í hæstu hæðum. Mér fannst því tími til kominn að uppfæra þessi gögn og sjá hvernig málin standa. Ég einfaldaði líka framsetninguna dálítið frá fyrri færslum.
Á grafinu hér að neðan eru bara tvær línur. Annars vegar hið raunverulega bensínverð og hins vegar “Reiknað verð”. Gögnin um þróun bensínverðs hjá Hagstofunni ná aftur til mars 1997. Þá var bensínverðið um 78 krónur á lítrann. Reiknaða verðið er sett á sömu tölu þann mánuð, en svo látið þróast miðað við margfeldi á gengi dollars (þá 71,14 ISK) og heimsmarkaðsverð á olíu (þá 18,54 dollarar á tunnuna).

Þannig má lesa af grafinu að ef aðeins þessir tveir þættir réðu bensínverði hér á landi hefði lítrinn af bensíni farið yfir 600 krónur á tímabili í fyrra! Hámarkinu hefði verið náð í júlí: 636,7 krónur á lítrann. Nú væri það hins vegar komið NIÐUR í 254,4 krónur á lítrann. Raunverulega náði bensínverðið reyndar hámarki hér þennan sama mánuð: 184,3 krónur á lítrann, en er nú í kringum 146 krónur (95 okt, með þjónustu).
Af grafinu sést að sveiflur á gengi og olíuverði skila sér (kannski sem betur fer) ekki mjög hratt og alls ekki fyllilega í bensínverði til íslenskra neytenda. Á tímabilinu frá mars 1997 til september 1999 er reiknaða verðið talsvert lægra en raunverulega verðið, en hefur verið hærra nær óslitið síðan. Þetta myndu þeir sem hefðu hagsmuni af því örugglega túlka þannig að verðið frá olíufélögunum hafi verið “of hátt” á þessu tímabili, en hafi verið “of lágt” síðan, en tvennt ber þó að varast.
Annars vegar skiptir mjög miklu máli hvar upphafspunkturinn er settur. Hér ræðst það af því hversu langt aftur gögnin ná. Hins vegar endurtek ég það sem sagt var í upphaflegu færslunni. Það eru einfaldlega miklu fleiri þættir sem ráða bensínverði hér á landi heldur en þessir tveir, þar á meðal:
- Í október 1999 var gerð skattalagabreyting þar sem vörugjaldi á bensíni var breytt úr prósentu í fasta krónutölu.
- Þó hráolíuverð sveiflist til, þá hefur það ekki sömu áhrif á seinni stig vinnslunnar, s.s. hreinsun olíunnar og fullvinnslu í söluhæft eldsneyti á bíla.
- Flutningskostnaður á eldsneytinu hingað til lands helst ekki að fullu í hendur við eldsneytisverð.
- Innlendi þátturinn í verðinu er óháður ofangreindum sveiflum.
Til gamans má geta að verðbólgan á því tímabili sem grafið nær til er 86,6% (vísitalan fór úr 178,4 í 332,9). Það samsvarar svo að segja nákvæmlega þeirri hækkun sem orðið hefur á bensínverði á sama tímabili.