fjárlög

Fjárlögin í myndum – uppfærsla

Gögnin frá annarri umræðu Alþingis um fjárlagafrumvarpið 2009 komu inn á Fjárlagavefinn um helgina.

Í tilefni af því uppfærði ég myndræna framsetningu DataMarket á fjárlögunum (sjá upphaflega bloggfærslu) til að hægt sé að sjá með nokkuð þægilegum hætti þær breytingar sem gerðar hafa verið á útgjöldum Ríkisins og einstakra ráðuneyta í meðförum þingsins.

Ég bætti líka inn leitarmöguleika, þannig að hægt er að slá inn hluta úr heiti einstakra rekstrarliða til að finna þá í frumvarpinu.

Það væri gríðarlega gaman að taka þetta “alla leið” og tengja t.d. saman myndritin og viðeigandi skýringatexta í sjálfu frumvarpinu, sem og að lesa inn eldri fjárlög, breytingar á þeim í meðförum þingsins og svo auðvitað samanburð við ríkisreikning sama árs.

Það er svona viku vinna að ganga vel frá þessu, þannig að það gerist líklega ekki fyrr en ég fæ kostunaraðila á þetta, eða DataMarket þarf að vinna gögnin upp í tengslum við önnur verkefni.

Það má smella á myndina til að opna nýju græjuna:

Fjárlagafrumvarpið í myndum

Fjárlagafrumvarp ársins 2009 var kynnt í dag. Frumvarpið sjálft er doðrantur sem fáir hafa undir höndum. Hægt er að lesa sig í gegnum frumvarpið á Fjárlagavef Fjármálaráðuneytisins, en það er ekki beinlínis aðgengilegt og ekki auðvelt að átta sig á stóru samhengi hlutanna.

DataMarket brást skjótt við og vann gögnin á meðfærilegara form. Útkoman er vefsvæði þar sem hægt er að sjá með þægilegum hætti í hvað stjórnvöld ætla að nota peningana okkar á komandi ári.

Á forsíðunni er yfirlit yfir ráðuneytin, raðað eftir útgjaldaröð. Með því að smella á súluna fyrir eitthvert ráðuneytið birtist skipting útgjalda þess og svo koll af kolli. Gögnin ná reyndar bara 3 þrep niður og oft langar mann að komast dýpra, en fjárlagafrumvarpið nær einfaldlega ekki lengra. Næsta þrep eru rekstraráætlanir einstakra stofnana og þær eru ekki fáanlegar að svo komnu máli.

Ég fullyrði að aldrei hefur verið jafnauðvelt að túlka, rýna og gagnrýna fjárlagafrumvarp á Íslandi eins og með þessu einfalda tóli. Ég bendi á að ef þið viljið efna til umræðu um einstök ráðuneyti eða rekstrarliði, þá á hvert þeirra sér sína slóð, sem hægt er að tengja beint á í bloggi eða senda tengil í tölvupósti eða á MSN.

Hér eru – sem dæmi – áætluð útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs á komandi ári.

Skemmtið ykkur!

– – –

P.S. Þeir sem hafa áhuga á að komast í sjálf gögnin á einhverju formi sem leyfir frekari úrvinnslu (t.d. í Excel) eru hvattir til að setja sig í samband.