kosningar

Hægrimaður velur Vinstri Græn

picture-2Ég hef alltaf haft þann djöful að draga að þurfa að mynda mér mínar eigin skoðanir og geta ekki bara fylgt einhverri línu.

Gróft á litið aðhyllist ég kapítalisma og frjálshyggju þó ég hafi efasemdir um þær útfærslur sem beitt hefur verið síðustu áratugi. Ég trúi því samt að með breytingum og aðlögun muni þessar grunnstefnur mæta öðrum helstu lífsgildum mínum, þ.e.: jafnrétti, heiðarleika og varfærinni nýtingu náttúruauðlinda.

Þegar liðið hefur að kosningum hef ég reynt að átta mig á því hvaða flokkur eða framboð mér finnst líklegastur til að veita þessum lífsskoðunum mest brautargengi. Að vandlega íhuguðu máli, þá sýnist mér að í kosningunum eftir viku sé atkvæði mínu best varið til VG! Hvernig í ósköpunum má það vera?

Hér er smá úttekt á þeim kostum sem ég tel yfirhöfuð koma til greina, svona nokkurnveginn í vinsældaröð eins og hún er í kollinum á mér núna:

  • Sjálfstæðisflokkurinn: Þetta er flokkurinn sem ég kaus í allmörgum kosningum eftir að ég yfirhöfuð fór að fylgjast með pólitík. Í orði er þetta líklega sú stefna sem liggur næst mínum lífsskoðunum: Frjáls markaður, lágir skattar, lítil ríkisumsvif o.s.frv. Í verki hafa Ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks bara alls ekki sýnt þetta – satt að segja bara þvert á móti. Vitlaus stefna í atvinnu- og peningamálum síðustu ár, aðgerðaleysi í kjölfar hrunsins, viljaleysi til að horfast í augu við eigin mistök, hagsmunapot, baktjaldamakk og sterkar vísbendingar um hreina spillingu útiloka flokkinn alveg núna og þangað til hann tekur duglega til í sínum ranni. Ég gafst upp á þeim útaf Árna Johnsen á sínum tíma. Það mál gaf einfaldlega merki um að það væri eitthvað miklu meira að þarna, eins og síðar hefur komið á daginn. Loks er mannvalið bara alls ekki sannfærandi núna – þrátt fyrir einstaka undantekningar.
  • Framsóknarflokkurinn: Á tímabili í upphafi árs var ég á því að hér væri virkilega eitthvað gott að gerast. Ný forysta, ferskur og sannfærandi, nýr leiðtogi og loforð um breytingar. Eini gallinn var mjög svo vafasöm fortíð flokksins: Framsóknarflokkurinn var enn Framsóknarflokkurinn, sem síðan hefur einmitt komið á daginn. Þetta er enn sami gamli flokkurinn og breytingarnar engar. Þetta sannaðist endanlega þegar nýr formaður gat ekki einu sinni fylgt eftir áskorun í beinni útsendingu til eigin flokksmanns um að veita innsýn í prófkjörsbókhaldið sitt. Hann var þá ekki leiðtogi eftir allt saman. Og hvað var að gömlu Framsókn? Íraksstríðið, stóriðjustefnan, Alfreð Þorsteinsson, Finnur Ingólfsson, S-hópurinn, Orkuveitumálið, … á ég að halda áfram?
  • Borgarahreyfingin: Eina ferska blóðið í framboði. Það eitt og sér er stór kostur, en því miður ekki nægjanlegt. Margt gott í stefnunni, en ef til vill fullmikil reiði í gangi. “Frysting á eignum grunaðra auðmanna” er hugarfar sem hræðir mig. Það eru þegar ákvæði í lögum um frystingu eigna við rannsókn sakamála og þeim verður að sjálfsögðu beitt innan þess ramma sem þar býðst. Niðurfærsla vísitölu, afnám verðtryggingar og upptaka annars gjaldmiðils eru allt hlutir sem fólki finnst gott að heyra, en eru mjög flókin mál sem þarf að nálgast með mun meiri varfærni en fram kemur í stefnu flokksins. Ég er ekki viss um að frambjóðendur þeirra, sem upp tilhópa eru strangheiðarlegt og ágætt fólk, hafi fullkominn skilning á því hvaða vandamál er þar við að etja.
  • Samfylking: Flokkurinn sem ég myndi kjósa ef ekki væri fyrir tvennt: Samþykkt laga um fjárfestingasamning vegna álversins í Helguvík og afdráttarlausa afstöðu flokksins til Evrópusambandsins.

    Ef síðustu 5 ár hafa kennt okkur eitthvað, er það hversu óholl óhófleg áhersla á einstök verkefni eða greinar getur verið. Álversframkvæmdirnar fyrir austan settu af stað atburðarásina sem styrkti krónuna, blés út bankana og sprakk svo fyrir hálfu ári síðan. Eftir stöndum við með sama kaupmátt og fyrir framkvæmdirnar (og fallandi), margfalt meira atvinnuleysi (og vaxandi), miklu meiri skuldir (og óvissu), gjaldmiðil í henglum og það að 80% af raforkuframleiðslu okkar (og vaxandi) fara í starfsemi sem við erum að öllum líkindum að borga með þessi misserin. Á sama tíma náði önnur heilbrigð uppbyggingarstarfsemi ekki að njóta sín. Með Helguvík og Bakka er eins og menn ætli að lækna sárið á hálsinum með sömu fallexinni og Samfylkingin í þetta sinn í broddi fylkingar. Jæks!

    Í Evrópumálunum er ég efasemdamaður. Ekki andvígur, en afar varkár. Ég er ekki einu sinni sannfærður um að það sé rétt að fara í aðildarviðræður til að skoða hvað er í boði á meðan við erum “hnípin þjóð í vanda”. Við munum þurfa að komast upp úr mestu lægðinni á eigin spýtur og þó að stefnan inn í Evrópusambandið eyði etv. einhverri óvissu núna, þá munum við ekki fá að ganga þar inn fyrr en við þurfum ekki lengur á því að halda. Þegar þar að kemur eru framtíðarhorfur okkar bjartar hvort sem er utan eða innan sambands og það hversu ólíkt Ísland er Evrópu almennt (ég læt mér nægja að nefna aldurssamsetningu og auðlindir) fær mig til að efast um að okkar hag sé best borgið þar. Reyndar hef ég, eins og sagt var í upphafi, efasemdir um framtíð þeirrar tegundar hagfræði sem stunduð hefur verið um nær allan heim síðustu áratugi og held því að Evran eigi sér ekki framtíð frekar en aðrir gjaldmiðlar þeirrar stefnu. Evran er því slæm sem meginrök þess að ganga í sambandið.

    Loks þykir mér Samfylkingin hafa komist fulllétt frá þeirri ábyrgð sem hún ber sem annar tveggja stjórnarflokka í lokaaðdraganda hrunsins, þegar enn voru ótal tækifæri til að lágmarka skaðann.

  • Vinstri Græn: Ég er sammála þeim í málefnum stóriðjunnar. Ég er sammála þeim í Evrópumálum. Ég er meira að segja sammála þeim í málum sem einu sinni skiptu mig miklu máli eins og varðandi aðskilnað Ríkis og Kirkju. Ég er samt í grófum dráttum ósammála vinstri mönnum almennt og þar með mjög mörgu í stefnu VG, en ég treysti þeim og þau eru heiðarleg. Katrín Jakobs og Steingrímur Joð eru einu stjórnmálamennirnir sem hafa “gerst sekir” um það að segja óþægilegan sannleikann eins og hann blasir við og það met ég ósegjanlega mikið. Þetta gefur mér fyrirheit um nýja tíma í stjórnmálum – tíma gegnsæis og heiðarleika.

    Heimurinn er orðinn býsna öfugsnúinn þegar það þarf vinstra fólk til að taka til í ríkisfjármálunum eftir þenslu og hagstjórnarmistök hægri manna! En þannig er það og ég held að þau séu rétta fólkið til þess. VG mun komast upp með að lækka laun ríkisstarfsmanna, sem er mildasta og um leið áhrifaríkasta aðgerðin til að skera þar niður til skemmri tíma. Sjálfstæðisflokkurinn myndi aldrei geta það. Ekki þarf að óttast aukningu ríkisumsvifa þar sem þau eru nær alger eftir þjóðnýtingu bankanna í haust hvort eð er.

    Ég viðurkenni að ég er hræddur við gífuryrði Atla Gíslasonar um aðgerðir gegn auðmönnum og óttast Lilju Mósesdóttur sem helsta hugmyndafræðing þeirra í peningamálum. Ég er heldur ekki sáttur við barnalega afstöðu Guðfríðar Lilju og Kolbrúnar Halldórsdóttur í mörgum málum, en það er að mestu skaðlaust. Flokkurinn sem verður með þeim í stjórn mun vonandi forða okkur frá stærstu axarsköftunum.

    Að lokum má hugga sig við það að næsta Ríkisstjórn mun áreiðanlega ekki endast meira en eitt kjörtímabil – ef hún þá nær því – og þá verður að öllum líkindum orðin dugleg endurnýjun í pólitíkinni í heild. Þá getur maður mögulega kosið eitthvað sem manni raunverulega hugnast!

Sem sagt: X-V og beita útstrikunarpennanum óspart.

Svo mörg voru þau orð. Nú er það ykkar að snúa sannfæringu minni 🙂