krónan

Íslenska hagkerfið sett í samhengi

Þrátt fyrir að Money:Tech ráðstefnan hafi verið slegin af, ákváðum við DataMarket menn að halda áfram með fyrirlesturinn um ris og fall íslenska hagkerfisins. Meira um hann og birtingu hans síðar.

Hér er samt önnur mynd sem segir meira en mörg orð. Flatarmál myntanna sýnir hlutfallslega stærð þeirra hagkerfa sem hana nota:

isk-relative

Engu að síður hefur maður heyrt sögur af því að íslenska krónan hafi verið ein af þeim 6-8 myntum sem margir alþjóðlegir gjaldeyrismiðlarar sýndu hvað mesta athygli. Geðveiki?

Athugið að flatarmálið getur verið villandi. Svona liti þetta út ef það væri sett í stöplarit.
isk-relative-cols

P.S. Stærðin sem þarna er borin saman er verg þjóðarframleiðsla viðkomandi þjóða. Sem viðskiptamynt er dollarinn í raun margfalt stærri.

Bensínverð – eina ferðina enn

Ég hef áður gert nokkrar tilraunir með að draga upp mynd af bensínverði hér á landi miðað við þá þætti sem helst eru sagðir ráða verðmynduninni, þ.e. heimsmarkaðsverð á olíu og gengi bandaríkjadals.

Nú hefur heimsmarkaðsverðið snarfallið, en gengið á móti í hæstu hæðum. Mér fannst því tími til kominn að uppfæra þessi gögn og sjá hvernig málin standa. Ég einfaldaði líka framsetninguna dálítið frá fyrri færslum.

Á grafinu hér að neðan eru bara tvær línur. Annars vegar hið raunverulega bensínverð og hins vegar “Reiknað verð”. Gögnin um þróun bensínverðs hjá Hagstofunni ná aftur til mars 1997. Þá var bensínverðið um 78 krónur á lítrann. Reiknaða verðið er sett á sömu tölu þann mánuð, en svo látið þróast miðað við margfeldi á gengi dollars (þá 71,14 ISK) og heimsmarkaðsverð á olíu (þá 18,54 dollarar á tunnuna).

Þróun bensinverðs

Þannig má lesa af grafinu að ef aðeins þessir tveir þættir réðu bensínverði hér á landi hefði lítrinn af bensíni farið yfir 600 krónur á tímabili í fyrra! Hámarkinu hefði verið náð í júlí: 636,7 krónur á lítrann. Nú væri það hins vegar komið NIÐUR í 254,4 krónur á lítrann. Raunverulega náði bensínverðið reyndar hámarki hér þennan sama mánuð: 184,3 krónur á lítrann, en er nú í kringum 146 krónur (95 okt, með þjónustu).

Af grafinu sést að sveiflur á gengi og olíuverði skila sér (kannski sem betur fer) ekki mjög hratt og alls ekki fyllilega í bensínverði til íslenskra neytenda. Á tímabilinu frá mars 1997 til september 1999 er reiknaða verðið talsvert lægra en raunverulega verðið, en hefur verið hærra nær óslitið síðan. Þetta myndu þeir sem hefðu hagsmuni af því örugglega túlka þannig að verðið frá olíufélögunum hafi verið “of hátt” á þessu tímabili, en hafi verið “of lágt” síðan, en tvennt ber þó að varast.

Annars vegar skiptir mjög miklu máli hvar upphafspunkturinn er settur. Hér ræðst það af því hversu langt aftur gögnin ná. Hins vegar endurtek ég það sem sagt var í upphaflegu færslunni. Það eru einfaldlega miklu fleiri þættir sem ráða bensínverði hér á landi heldur en þessir tveir, þar á meðal:

  • Í október 1999 var gerð skattalagabreyting þar sem vörugjaldi á bensíni var breytt úr prósentu í fasta krónutölu.
  • Þó hráolíuverð sveiflist til, þá hefur það ekki sömu áhrif á seinni stig vinnslunnar, s.s. hreinsun olíunnar og fullvinnslu í söluhæft eldsneyti á bíla.
  • Flutningskostnaður á eldsneytinu hingað til lands helst ekki að fullu í hendur við eldsneytisverð.
  • Innlendi þátturinn í verðinu er óháður ofangreindum sveiflum.

Til gamans má geta að verðbólgan á því tímabili sem grafið nær til er 86,6% (vísitalan fór úr 178,4 í 332,9). Það samsvarar svo að segja nákvæmlega þeirri hækkun sem orðið hefur á bensínverði á sama tímabili.

Gjaldeyrishöft og gengismál

Tveir punktar sem hafa skotið sér í kollinn á mér síðustu daga:

  • Gjaldeyrisreglur Seðlabankans: Stjórnvöld eru komin á það stig að búa til reglurnar “as they go along”. Villi var duglegur um helgina – fyrir hönd Verne og CCP – að benda á skaðsemi þessarra reglna fyrir sprotastarfsemi og erlendar fjárfestingar (nokkuð sem við þurfum einmitt nú frekar en nokkru sinni). Þessu var svarað með fundi í gær þar sem fram kom – samkvæmt fréttum“að gjaldeyrisreglurnar hefti ekki beina erlenda fjárfestingu. Túlkun Seðlabanka sé sú að bein erlend fjárfesting sé kaup á 10% eignarhlutur eða meira. Þetta þýðir að fyrirtæki hér geta fengið útlendinga til að fjárfesta í rekstrinum, ef eignarhlutur þeirra fer yfir 10%.”

    Ég er ekki að skálda þetta! Hvað gengur mönnum til? Í fyrsta lagi er ómögulegt að túlka orðanna hljóðan í reglum Seðlabankans á þennan veg. Þennan skilning fá aðeins þeir sem fara á fund hjá Seðlabanka og Viðskiptaráðherra og þá bara í orði eða hvað? Og hver eru rökin fyrir því að útlendingar megi eiga meira en 10% en ekki minna? Hvað ef þeir kaupa 15%, en svo minnkar eignahlutur þeirra síðar? Af hverju 10%? Þessu fylgja engin rök og erfitt einu sinni að ímynda sér hver þau gætu verið. Voru þeir ekki búnir að frétta að við “…kind of need the money”?

    Stærsti skaðinn af þessum gjörningi er samt sá að nú er orðið greinilegt að stjórnvöld eru komin í þann ham að þeim er trúandi til að setja hvaða reglur sem er, hvenær sem er og túlka þær svo eftir hentugleika. Undir slíkum kringumstæðum munu erlendir fjárfestar forðast Ísland eins og heitan eldinn og var nú nóg samt.

    Ég hef verið að vinna í tveimur verkefnum sem þetta hefur bein áhrif á. Nýja fyrirtækið mitt – DataMarket – mun reyndar ekki þurfa að sækja sér erlent fjármagn fyrr en líður á næsta ár, en ég óttast mjög skaðsemi þessa hringlandaháttar þá ef ekki verður búið að gerbreyta hér stjórn og skipulagi. Ég mun þurfa að íhuga mjög alvarlega að setja það upp sem erlent félag – og mig sem langar ekkert meira en að hjálpa til við að moka.

    Hitt er að ég hef verið að kynna Bandarískum fjárfestum á sviði endurnýjanlegra orkugjafa ýmis tækifæri hér. Þeir komu hér í nokkurra daga heimsókn fyrir fáum vikum síðan og sýndu ýmsum tækifærum áhuga. Uppbyggilegum tækifærum í fyrirtækjum sem þurfa að fjármagna umtalsverðar framkvæmdir á næstu árum. Við erum að fylgja þessum málum eftir núna, en ég get fullyrt að þetta rugl er ekki til að auka líkurnar á því að eitthvað verði af þeim plönum.

    Mynduð þið fjárfesta í Bólivíu ef stjórnvöld væru nýbúin að frysta peningalegar eignir útlendinga í landinu, jafnvel þó þau væru náðasamlega til í að túlka reglur sínar ykkur í hag eða veita ykkur undanþágu, a.m.k. á meðan þeim þóknast?

    Hélt ekki! En þetta er einmitt ímyndin sem tókst að búa til með laga- og reglusetningu síðustu viku. Glæsilegt alveg.

  • Lausn á krónuflóttanum? Áðurnefndar reglur eru settar til að reyna að koma í veg fyrir að gengi krónunnar falli eins og steinn við fleytinguna. Þó svo að segja öllum beri saman um að raungengi krónunnar (m.t.t. til vöruskiptajöfnuðar) sé tugum prósenta sterkara en það er nú (sjá áður í færslunni Greiningadeild Hjalla), þá gæti algert hrun nú gert það að verkum að fjármagnsflóttinn yrði enn meiri og orðið erfiðara að komast í styrkingarferli aftur. Ástæða lagasetningarinnar er því vel skiljanleg.

    Ég velti þó fyrir mér annarri leið. “Hræddustu krónurnar” eru krónur sem erlendir aðilar sem eiga í skuldabréfum hér á landi – jöklabréfin svokölluðu. Upphæð þessarra bréfa er í kringum 400 milljarðar króna. Af þeim er einhver hluti – segjum 200 milljarðar – sem munu fara um leið og þeir geta losað eitthvað af þessum fjármunum, nánast algerlega óháð gengi krónunnar eða verðinu sem þeir fá fyrir skuldabréfin. Þeir myndu ýkjulaust vera sáttir við að fá dollara fyrir krónur á genginu 250 og afar lélega ávöxtun á bréfunum sjálfum, líklega neikvæða. Að komast út með 20-25% af upphaflegri fjárfestingu myndu þeir túlka sem árangur. Þeir eru hræddir, þurfa að nota peninginn í annað og hafa engar forsendur eða aðstöðu til að meta eða nýta sér það hvort gengi krónunnar verði sterkara eftir 2 mánuði, hálft ár eða 3 ár. Þeir ætla bara að fara.

    Á móti eru svo aðilar sem hafa miklu meira innsæi í íslenskan fjármálamarkað og skilning á því hvernig gengið eigi eftir að þróast, sem eiga í dag eignir í erlendri mynt. Augljósasta dæmið eru lífeyrissjóðirnir. Eignir þeirra erlendis nema líklega um 5 milljörðum dollara (+/- milljarður til eða frá). Lífeyrissjóðirnir – og aðrir í svipaðri stöðu – gætu gert alger kostakaup núna. Samið um að kaupa hræddu krónurnar á genginu 200-250 á móti dollara og fengið um leið óviðjafnanlega ávöxtun á skuldabréfin þar sem verið væri að selja þau með verulegum afföllum. Á genginu 200 myndi þetta ekki kosta nema 1 milljarð dollara. Þó gengið myndi ekki síga nema í 110 aftur (margir trúa að 90 sé nær lagi) á næstu tveimur árum, er ljóst að kaupendurnir myndu fara hlæjandi alla leið í bankann með þennan díl.

    Og ekki nóg með það, þeir myndu á sama tíma lýsa trausti á að íslenska hagkerfið muni braggast og líklega mynda snöggan og snarpan botn í gengiskúrfuna sem marka myndi upphaf styrkingarferils hennar.

    Hvar er villan í þessu hjá mér?