Næsta Ísland

Icesave-reiknir leiðréttur

Eftir ábendingu frá vökulum notanda, fundum við villu í Icesave-reikninum sem DataMarket setti í loftið í samvinnu við mbl.is í síðustu viku. Sjá fyrri færslu.

Villan gerði það að verkum að áhrif breyttrar kröfuraðar voru ofmetin í þeim tilfellum þegar endurheimtar eignir Landsbankans verða verulegar. Þetta hefur nú verið leiðrétt.

Að öðru leiti stendur reiknilíkanið óhaggað. Allar skýringar eru óbreyttar og eftir sem áður réttar.

DataMarket – sem ber ábyrgð á reikniverki Icesave-reiknisins – biðst afsökunar á þessum mistökum.

Áhrifin eru umtalsverð. Breytingin frá grunnforsendum, við það að breyta kröfuröðinni er 87,8 milljarðar króna nú í stað ríflega 200 milljarða áður. Frávik í öðrum dæmum fara – eins og segir í tilkynningunni – eftir því hve mikið af eignum Landsbankans endurheimtast.

Leiðrétting þessa efnis mun birtast á mbl.is í fyrramálið.

Þetta særir stoltið auðvitað töluvert. Ástæðuna fyrir því að þessi villa slæddist með má rekja til ónógra prófana áður en reiknirinn fór í loftið, en forsendurnar og útreikningarnir eru – eins og sjá má í útskýringum við reikninn – býsna margslungin.

Rétt skal vera rétt og við lærum af þessum mistökum.

Icesave reiknir mbl.is og DataMarket

Fyrr í kvöld var sett í loftið gagnvirk fréttaskýring um Icesave skudbindingarnar á mbl.is. Þetta er reiknivél þar sem lesa má skýringar við helstu álitaefni og óvissuþætti í samningnum og sjá hvaða áhrif breyttar forsendur hafa á skuldbindinguna sem ríkið tekst á hendur með samningnum, endurheimtur eigna og greiðsludreifinguna svo eitthvað sé nefnt.

Reiknirinn er samstarfsverkefni DataMarket (sem ég rek ásamt litlum hópi snillinga) og mbl.is. Smellið á myndina til að skoða reikninn:

Icesave reiknir

Ég er ekki síður stoltur af þeim skýringum sem settar eru fram með forsendunum, en sjálfum reikninum. Sérstaklega held ég að okkur hafi tekist að koma ágreiningnum um forgang krafna í skiljanlegan búning með þessari kynningu sem birt er í skýringum við þann lið reiknisins:

Ég vona að reiknirinn reynist hjálplegur við að skilja þetta stóra og flókna mál og mynda sér skoðun á því. Gagnrýni er að sjálfsögðu velkomin.

Hægrimaður velur Vinstri Græn

picture-2Ég hef alltaf haft þann djöful að draga að þurfa að mynda mér mínar eigin skoðanir og geta ekki bara fylgt einhverri línu.

Gróft á litið aðhyllist ég kapítalisma og frjálshyggju þó ég hafi efasemdir um þær útfærslur sem beitt hefur verið síðustu áratugi. Ég trúi því samt að með breytingum og aðlögun muni þessar grunnstefnur mæta öðrum helstu lífsgildum mínum, þ.e.: jafnrétti, heiðarleika og varfærinni nýtingu náttúruauðlinda.

Þegar liðið hefur að kosningum hef ég reynt að átta mig á því hvaða flokkur eða framboð mér finnst líklegastur til að veita þessum lífsskoðunum mest brautargengi. Að vandlega íhuguðu máli, þá sýnist mér að í kosningunum eftir viku sé atkvæði mínu best varið til VG! Hvernig í ósköpunum má það vera?

Hér er smá úttekt á þeim kostum sem ég tel yfirhöfuð koma til greina, svona nokkurnveginn í vinsældaröð eins og hún er í kollinum á mér núna:

 • Sjálfstæðisflokkurinn: Þetta er flokkurinn sem ég kaus í allmörgum kosningum eftir að ég yfirhöfuð fór að fylgjast með pólitík. Í orði er þetta líklega sú stefna sem liggur næst mínum lífsskoðunum: Frjáls markaður, lágir skattar, lítil ríkisumsvif o.s.frv. Í verki hafa Ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks bara alls ekki sýnt þetta – satt að segja bara þvert á móti. Vitlaus stefna í atvinnu- og peningamálum síðustu ár, aðgerðaleysi í kjölfar hrunsins, viljaleysi til að horfast í augu við eigin mistök, hagsmunapot, baktjaldamakk og sterkar vísbendingar um hreina spillingu útiloka flokkinn alveg núna og þangað til hann tekur duglega til í sínum ranni. Ég gafst upp á þeim útaf Árna Johnsen á sínum tíma. Það mál gaf einfaldlega merki um að það væri eitthvað miklu meira að þarna, eins og síðar hefur komið á daginn. Loks er mannvalið bara alls ekki sannfærandi núna – þrátt fyrir einstaka undantekningar.
 • Framsóknarflokkurinn: Á tímabili í upphafi árs var ég á því að hér væri virkilega eitthvað gott að gerast. Ný forysta, ferskur og sannfærandi, nýr leiðtogi og loforð um breytingar. Eini gallinn var mjög svo vafasöm fortíð flokksins: Framsóknarflokkurinn var enn Framsóknarflokkurinn, sem síðan hefur einmitt komið á daginn. Þetta er enn sami gamli flokkurinn og breytingarnar engar. Þetta sannaðist endanlega þegar nýr formaður gat ekki einu sinni fylgt eftir áskorun í beinni útsendingu til eigin flokksmanns um að veita innsýn í prófkjörsbókhaldið sitt. Hann var þá ekki leiðtogi eftir allt saman. Og hvað var að gömlu Framsókn? Íraksstríðið, stóriðjustefnan, Alfreð Þorsteinsson, Finnur Ingólfsson, S-hópurinn, Orkuveitumálið, … á ég að halda áfram?
 • Borgarahreyfingin: Eina ferska blóðið í framboði. Það eitt og sér er stór kostur, en því miður ekki nægjanlegt. Margt gott í stefnunni, en ef til vill fullmikil reiði í gangi. “Frysting á eignum grunaðra auðmanna” er hugarfar sem hræðir mig. Það eru þegar ákvæði í lögum um frystingu eigna við rannsókn sakamála og þeim verður að sjálfsögðu beitt innan þess ramma sem þar býðst. Niðurfærsla vísitölu, afnám verðtryggingar og upptaka annars gjaldmiðils eru allt hlutir sem fólki finnst gott að heyra, en eru mjög flókin mál sem þarf að nálgast með mun meiri varfærni en fram kemur í stefnu flokksins. Ég er ekki viss um að frambjóðendur þeirra, sem upp tilhópa eru strangheiðarlegt og ágætt fólk, hafi fullkominn skilning á því hvaða vandamál er þar við að etja.
 • Samfylking: Flokkurinn sem ég myndi kjósa ef ekki væri fyrir tvennt: Samþykkt laga um fjárfestingasamning vegna álversins í Helguvík og afdráttarlausa afstöðu flokksins til Evrópusambandsins.

  Ef síðustu 5 ár hafa kennt okkur eitthvað, er það hversu óholl óhófleg áhersla á einstök verkefni eða greinar getur verið. Álversframkvæmdirnar fyrir austan settu af stað atburðarásina sem styrkti krónuna, blés út bankana og sprakk svo fyrir hálfu ári síðan. Eftir stöndum við með sama kaupmátt og fyrir framkvæmdirnar (og fallandi), margfalt meira atvinnuleysi (og vaxandi), miklu meiri skuldir (og óvissu), gjaldmiðil í henglum og það að 80% af raforkuframleiðslu okkar (og vaxandi) fara í starfsemi sem við erum að öllum líkindum að borga með þessi misserin. Á sama tíma náði önnur heilbrigð uppbyggingarstarfsemi ekki að njóta sín. Með Helguvík og Bakka er eins og menn ætli að lækna sárið á hálsinum með sömu fallexinni og Samfylkingin í þetta sinn í broddi fylkingar. Jæks!

  Í Evrópumálunum er ég efasemdamaður. Ekki andvígur, en afar varkár. Ég er ekki einu sinni sannfærður um að það sé rétt að fara í aðildarviðræður til að skoða hvað er í boði á meðan við erum “hnípin þjóð í vanda”. Við munum þurfa að komast upp úr mestu lægðinni á eigin spýtur og þó að stefnan inn í Evrópusambandið eyði etv. einhverri óvissu núna, þá munum við ekki fá að ganga þar inn fyrr en við þurfum ekki lengur á því að halda. Þegar þar að kemur eru framtíðarhorfur okkar bjartar hvort sem er utan eða innan sambands og það hversu ólíkt Ísland er Evrópu almennt (ég læt mér nægja að nefna aldurssamsetningu og auðlindir) fær mig til að efast um að okkar hag sé best borgið þar. Reyndar hef ég, eins og sagt var í upphafi, efasemdir um framtíð þeirrar tegundar hagfræði sem stunduð hefur verið um nær allan heim síðustu áratugi og held því að Evran eigi sér ekki framtíð frekar en aðrir gjaldmiðlar þeirrar stefnu. Evran er því slæm sem meginrök þess að ganga í sambandið.

  Loks þykir mér Samfylkingin hafa komist fulllétt frá þeirri ábyrgð sem hún ber sem annar tveggja stjórnarflokka í lokaaðdraganda hrunsins, þegar enn voru ótal tækifæri til að lágmarka skaðann.

 • Vinstri Græn: Ég er sammála þeim í málefnum stóriðjunnar. Ég er sammála þeim í Evrópumálum. Ég er meira að segja sammála þeim í málum sem einu sinni skiptu mig miklu máli eins og varðandi aðskilnað Ríkis og Kirkju. Ég er samt í grófum dráttum ósammála vinstri mönnum almennt og þar með mjög mörgu í stefnu VG, en ég treysti þeim og þau eru heiðarleg. Katrín Jakobs og Steingrímur Joð eru einu stjórnmálamennirnir sem hafa “gerst sekir” um það að segja óþægilegan sannleikann eins og hann blasir við og það met ég ósegjanlega mikið. Þetta gefur mér fyrirheit um nýja tíma í stjórnmálum – tíma gegnsæis og heiðarleika.

  Heimurinn er orðinn býsna öfugsnúinn þegar það þarf vinstra fólk til að taka til í ríkisfjármálunum eftir þenslu og hagstjórnarmistök hægri manna! En þannig er það og ég held að þau séu rétta fólkið til þess. VG mun komast upp með að lækka laun ríkisstarfsmanna, sem er mildasta og um leið áhrifaríkasta aðgerðin til að skera þar niður til skemmri tíma. Sjálfstæðisflokkurinn myndi aldrei geta það. Ekki þarf að óttast aukningu ríkisumsvifa þar sem þau eru nær alger eftir þjóðnýtingu bankanna í haust hvort eð er.

  Ég viðurkenni að ég er hræddur við gífuryrði Atla Gíslasonar um aðgerðir gegn auðmönnum og óttast Lilju Mósesdóttur sem helsta hugmyndafræðing þeirra í peningamálum. Ég er heldur ekki sáttur við barnalega afstöðu Guðfríðar Lilju og Kolbrúnar Halldórsdóttur í mörgum málum, en það er að mestu skaðlaust. Flokkurinn sem verður með þeim í stjórn mun vonandi forða okkur frá stærstu axarsköftunum.

  Að lokum má hugga sig við það að næsta Ríkisstjórn mun áreiðanlega ekki endast meira en eitt kjörtímabil – ef hún þá nær því – og þá verður að öllum líkindum orðin dugleg endurnýjun í pólitíkinni í heild. Þá getur maður mögulega kosið eitthvað sem manni raunverulega hugnast!

Sem sagt: X-V og beita útstrikunarpennanum óspart.

Svo mörg voru þau orð. Nú er það ykkar að snúa sannfæringu minni 🙂

Hlutverk upplýsingatækni í rannsókn bankahrunsins

detectiveNú eru a.m.k. fjögur embætti að rannsaka ýmsa þætti bankahrunsins:

Talsvert hefur verið talað um verkaskiptingu þessarra embætta, hæfi þeirra og aðra umgjörð, en eitt af því sem hefur komið mér á óvart er hversu lítið hefur verið rætt um sjálfar rannsóknaraðferðirnar.

Í mínum huga er það alveg skýrt að eitt af lykilatriðunum í því að árangur náist í þessum rannsóknum er mikil og vönduð beiting upplýsingatækni. Þetta snýr bæði að því að skilja stóru mynd þeirrar atburðarásar sem átti sér stað hér á undanförnum árum sem og að finna og upplýsa einstök mál. Ég óttast hins vegar að of fáir skilji hversu mikilvægt þetta atriði er og hef flugufregnir fyrir því að a.m.k. sum þessarra embætta átti sig engan veginn á þeim verkefnum sem þau standa frammi fyrir hvað þetta varðar.

Hér eru nokkrir punktar sem etv. hjálpa til við að skilja stöðuna:

 • Allar fjármálaaðgerðir fara fram með einum eða öðrum hætti í tölvukerfum. Hjá íslensku bönkunum einum erum við að tala um hundruð þúsunda, jafnvel milljónir færslna á hverjum einasta degi í tugum ef ekki hundruðum mismunandi kerfa. Allar þessar aðgerðir eru skráðar með einhverjum hætti.
 • Auk þessarra færslna eru tölvupóstar og önnur tölvusamskipti skráð, auk þess sem öll símtöl manna á milli eru skráð og í mörgum tilfellum tekin upp skv. lögum. Um þau símtöl og tölvupóstar sem ekki eru skráð hjá bönkunum sjálfum eru til skráningar hjá fjarskiptafyrirtækjum og netveitum. Um símtölin er að lágmarki skráð að þau hafi átt sér stað og tölvupóstar og efni þeirra liggja alltaf fyrir a.m.k. í einhvern tíma hjá netveitum.
 • Afrit eru tekin af öllum gögnum bankanna – bæði úr fjármálakerfum og öðrum (t.d. skráakerfum allra vinnustöðva, póstkerfum, netþjónum o.s.fr.) – a.m.k. einu sinni á dag og þau geymd með ýmsum, öruggum hætti bæði innan og utan starfsstöðva bankanna í lengri og skemmri tíma. Sum þessarra gagna eru m.a.s. geymd í vörslu eftirlitsaðila lögum samkvæmt.
 • Ég hef nokkuð öruggar heimildir fyrir því að meðal allra fyrstu aðgerða stjórnvalda eftir hrun bankanna hafi verið að tryggja að afrit ýmissa tölvugagna kæmust í örugga vörslu þannig að ekki væri hægt að eiga við þau.
 • Mikið af þessum gögnum eru á sértæku sniði sem eiga við einstök, rándýr kerfi sem í notkun voru (og eru enn mörg hver) í bönkunum. Þessi gögn er mjög erfitt að lesa og túlka nema með notkun þessarra kerfa.
 • Allt í allt erum við hér að tala um gríðarlegt magn af gögnum – ég leyfi mér að giska á einhver hundruð terabæta fyrir þau ykkar sem sú tala segir eitthvað. Fyrir ykkur hin erum við að tala um jafngildi margra, stórra, þéttskipaðra vöruskemma ef gögnum ef prenta ætti ósköpin út.

Ef einhver hélt að svona rannsókn færi fram með aðferðafræði Matlock lögmanns með því að blaða í útprentum og afritum af pappírsskjölum, fingrafararannsókn og snjöllum yfirheyrslum á lykilvitnum, þá ættu ofangreindir punktar að sýna nokkuð glögglega að svo er ekki.

Ef ætlunin er að sanna – nú eða afsanna – kerfisbundið misferli, misræmi í afstemmingum, vísbendingar um óeðlileg verðbréfaviðskipti, samskipti aðila í tengslum við tiltekna atburði o.s.frv., þá verður það aðeins gert með býsna flókinni og sérhæfðri upplýsingatæknivinnu, mynsturgreiningum á stórum gagnasöfnum, leitarmöguleikum í hverskyns textagögnum og síðast en ekki síst þekkingu á þeim kerfum, aðferðum og starfsháttum sem viðgengust í bönkunum.

Til að taka af allan vafa um það, þá þykist ég alls ekki hafa þá þekkingu sem til þarf. Hana hefur reyndar varla nokkur einn maður. Við erum að tala um stórar og óhjákvæmilega dýrar aðgerðir, en án þeirra verður aldrei nema örlítið brot þessarar starfsemi rannsakað.

Ég vona að ofantaldir rannsóknaraðilar átti sig á þessu.

Að lokum eru hér örfá atriði sem mætti byrja á að skoða:

 • Fá a.m.k. einn stjórnanda eða millistjórnanda sem hafði með upplýsingatæknimál í hverjum banka með í rannsóknina. Ef með þarf má bjóða sektar og-/eða skuldaniðurfellingu gegnt samstarfi. Þannig fæst nauðsynleg þekking á innviðum og samhengi kerfanna, dýrmætur tími og miklir peningar sparast og líklega opnast möguleikar sem utanaðkomandi rannsakendur hefðu hreinlega ekki tök á að gera.
 • Fyrst mætti skoða afritasögu. Þar sést fljótt hvort nokkur gögn hafa horfið, átt hefur verið við skrár eftir á eða með öðrum hætti verið reynt að fela einhverjar slóðir. Þetta kynni vel að hafa verið reynt í einhverju óðagoti á ögurstundu, en er sennilega það “versta” sem einhver hefði getað gert þar sem það beinir grun beint að viðkomandi atriðum. Nær ómögulegt er að eiga þannig við gögn og afrit að slíkar slóðir sjáist ekki tiltölulega auðveldlega. Þannig er miklu líklegara að “ósnert” sönnunargögn týnist í öllu gagnaflóðinu en að tilraunir til yfirhylmingar skili árangri.
 • Greina samskiptasögu í öllum tiltækum gögnum. Hengja símanúmer og tölvupóstföng á persónur og beina sjónum að þeim sem eiga í samskiptum í kringum einstök viðskipti eða aðra atburði sem eru til rannsóknar. Eins má leita uppi öll gögn sem viðkoma tilteknum málum eða einstaklingum og rekja sig þannig í “hina áttina” frá áberandi miklum eða óvenjulegum samskiptum til viðskipta eða atburða sem eiga sér stað á svipuðum tíma. Slík greining myndi líka koma upp um samskipti milli aðila sem – ef allt væri með felldu – ættu alls ekki að eiga í samskiptum, annaðhvort vegna reglna um aðskilnað í starfsemi innan bankanna eða milli samkeppnisaðila, viðskiptablokka eða annarra.
 • Greina ýmsar lykiltölur í fjárflæði milli einstakra fyrirtækja, milli útibúa og milli landa og leita eftir skyndilegum breytingum á umfangi eða mynstrum í þessum viðskiptum.

Bara nokkrar hugmyndir – fleiri vel þegnar.

DataMarket í Silfri Egils

Á sunnudaginn var fékk ég tækifæri til þess að kynna hugmyndir okkar DataMarket fólks um gögn og gegnsæi í Silfri Egils.

Viðbrögðin hafa verið stórgóð og gaman að þetta virðist hafa fallið í góðan jarðveg. Upptöku af innlegginu má finna hér að neðan.

Því miður tapast talsvert við það minnka vídeóið svona niður, en frásögnin vegur það upp að einhverju leiti.

Gögnin sem fram komu í kynningunni verða öll fáanleg á Gagnatorgi um íslenskan efnahag, þegar við hleypum honum af stokkunum. Á vef DataMarket má skrá sig til að fá tilkynningu þegar gagnatorgið lítur dagsins ljós.

Loks má geta þess að Háskóli Íslands hefur boðið mér að flytja erindi af svipuðum toga næstkomandi mánudag. Þá gefst tími til að fara heldur dýpra í málin og vonandi líka fyrir einhverjar spurningar og svör.

Fyrirlesturinn verður öllum opinn og hefst kl. 12:30, mánudaginn 9. mars í stofu 102 á Háskólatorgi. Nánari upplýsingar.

Raunverulegt skatthlutfall á Íslandi

Uppfært 11. nóvember 2009: Sjá umræður um uppfært reiknilíkan.

– – –

Fyrirkomulag skattamála hefur verið dálítið í umræðunni síðustu daga og verður áreiðanlega talsvert fram yfir kosningar.

Sitt sýnist hverjum og mikið er talað um skattþrep, hátekjuskatta, hækkun persónuafsláttar og svo framvegis. Ég ákvað því að teikna einfalda mynd sem getur hjálpað talsvert við að átta sig á staðreyndunum í þessari umræðu.

Myndin hér að neðan sýnir “raunverulegt skatthlutfall” hjá meðal-Íslendingi sem fall af tekjum:

raunverulegt-skatthlutfallÞetta sýnir sem sagt það hlutfall af umsömdum mánaðarlaunum sem launþegi borgar í skatta, þ.e. tekjuskatt að viðbættu meðalútsvari, sem samkvæmt vef Ríkisskattstjóra er samanlagt 37,2%.

Við sjáum auðvitað fljótt að í raun borgar enginn alveg það hlutfall. Meira að segja sá sem er með 2 milljónir í mánaðarlaun borgar “bara” 35,09% í skatta. Ástæðan er auðvitað persónuafslátturinn, sem á yfirstandandi ári er 42.205 krónur á mánuði. Persónuafslátturinn þýðir sem sagt að raunverulegt skatthlutfall þess sem er með 200.000 krónur í mánaðarlaun er þó ekki nema 16,1%. Sá sem er með 300.000 í mánaðarlaun borgar raunverulega 23,13% af tekjum sínum í skatt og sá sem er með 500.000 krónur borgar 28,76% af tekjum sínum í skatta.

Með þessum hætti er kerfið okkar þegar þannig að þeir sem eru með hærri tekjur borga verulega hærra hlutfall af þeim í skatta. M.ö.o. tryggir persónuafslátturinn eins konar hátekjuskatt, en hefur þann kost umfram hann að mynda ekki skattþrep sem geta haft mjög neikvæð jaðaráhrif (eins og að hvetja launagreiðendur til að borga þóknanir umfram tiltekna upphæð frekar í formi einhverskonar fríðinda).

Vilji ríkið auka skatttekjur sínar er því mikið nær að breyta tekjuskatthlutfalli og persónuafslætti til að stilla af þessa kúrfu en að leggja á sérstaka hátekjuskatta.

Eins mætti skoða breytingu á neyslusköttum á borð við virðisaukaskattinn, því þar borgar sá sem er með hærri tekjur og eyðir duglega sannarlega mun meira til þjóðarbúsins (í krónum, ekki hlutfallslega) en sá sem hefur minna milli handanna. Auk þess hvetur það til sparnaðar.

Persónulega er ég mun meiri fylgismaður niðurskurðar í ríkisútgjöldum til að mæta þeim erfiðleikum sem framundan eru. Áhugasamir geta spreytt sig á því að finna útgjaldaliði sem skera mætti niður í þessari framsetningu á fjárlögunum.

Af mótmælum, ímyndarmálum og skrílslátum

Uppfært: Ég er Appelsínugulur.

Ég er sammála meginkröfum mótmælenda:

 • Ríkisstjórnin þarf að víkja
 • Stjórn og stjórnendur Seðlabanka og Fjármálaeftirlits þurfa að víkja
 • Boða þarf til kosninga sem fyrst

Framan af keypti ég þau rök að ekki væri rétt að “skipta um hest í miðri á”; að betra væri að hafa sitjandi stjórn við völd og leyfa henni að vinna sig út úr stöðunni í krafti þekkingar sinnar á aðstæðum en að nýtt fólk þyrfti að setja sig inn í stöðuna – hversu alvarleg svo sem mistök fyrri stjórnar voru.

Síðan þá hefur sýnt sig að það er ekkert plan. Sitjandi stjórn veit ekkert hvernig hún ætlar upp úr ánni og öslar hana miðja með bægslagangi og látum. Sé eitthvað plan í gangi, eru viðkomandi a.m.k. fullkomlega vanhæf um að miðla því hvert það plan er og efla trú innan lands eða utan á því að hér sé verið að vinna gott starf. Þessi skortur á miðlunarhæfileikum er í raun einn og sér nóg ástæða til að stjórnin þurfi að víkja, enda er það mikilvægasta í stöðunni að sýna að það sé eitthvað plan, að viðurkenna mistök, leita ráða hjá sér hæfara fólki og miðla þessum aðgerðum með almenningi.

Geir Haarde á að vera í sjónvarpinu í klukkutíma á hverjum mánudegi að segja okkur hvað planið er fyrir vikuna, hvaða nýju upplýsingar liggi nú fyrir, hverju hafi orðið ágengt, hvað hafi mistekist og hvernig sé verið að taka á því: Staða lýðveldisins.

Fyrir tækninördana mætti eiginlega segja að það þurfi að Scrum-a sig út úr ástandinu.

Ef boðað verður til kosninga þarf að gera það með óvenjulegum hætti. Við megum ekki við því að missa vikur eða mánuði á mikilvægustu stundum lýðveldisins í það að menn fari að heyja kosningabaráttu og ástandi versni enn hraðar með engan við stýrið. Satt best að segja held ég að það verði að finna leið til að koma á neyðarstjórn hæfra, ópólitískra (eða a.m.k. þverpólitískra) manna og kvenna á meðan kosningar eru undirbúnar. Hver sú leið er veit ég ekki enn.

Til að byggja upp traust má svo enginn koma að nýrri stjórn eða stofnunum Ríkisins hér eftir af þeim sem sannarlega má segja að hafi verið á vakt yfir þeim hlutum sem úrskeiðis fóru. Þar á meðal eru:

 • Geir H. Haarde sem forsætisráðherra á vakt og “Direktören for det hele”
 • Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sem leiðtogi í stjórnarsamstarfinu og ábyrg fyrir því
 • Árni Mathiesen sem fjármálaráðherra á vakt í versta efnahagshruni Vesturlanda í seinni tíð
 • Björgvin G. Sigurðsson sem viðskiptaráðherra á sömu vakt
 • Davíð Oddsson sem Seðlabankastjóri á sömu vakt, maðurinn sem sá allt fyrir en gerði samt ekkert í því
 • Eiríkur Guðnason og Ingimundur Friðriksson sem Seðlabankastjórar á sömu vakt
 • Jón Sigurðsson og Jónas Fr. Jónsson sem stjórnendur Fjármálaeftirlitsins sem sáu ekki á mælana meðan allt fór til fjandans
 • Aðrir stjórnarmenn Fjármálaeftirlitsins og fulltrúar í bankaráði Seðlabankans

Þetta er svo ekki tæmandi listi og er ekki í neinni sérstakri röð eftir eðli eða mikilvægi ábyrgðar.

Þrátt fyrir ofansagt, þá getur og má stjórnin ekki segja af sér eftir atburði eins og þá sem urðu í gær.

Ég VEIT að flestir mótmælendur höguðu sér vel og meintu vel, en það er líka staðreynd að þarna var allnokkur hópur fólks sem gekk fram með ofbeldi og skemmdarverkum og ögraði lögreglunni vísvitandi. Sökum slagsíðu sem alltaf er á fréttaflutningi virðist þetta án efa stærri hluti og alvarlegri en í raun var, en það breytir engu. Við viljum ekki eyðileggja ímynd okkar sem þjóðar enn meira en orðið er með því að láta líta út sem svo að við séum þjóð sem kemur stjórnvöldum frá með ofbeldi. Burtséð frá öllum staðreyndum málsins verður það sú mynd sem dregin verður upp í fjölmiðlum heimsins ef myndefni gærdagsins er sett í samhengi við það að ríkisstjórnin fari frá í dag. Ég tala nú ekki um ef þessi atburðarás vindur enn frekar upp á sig.

Við erum í nógu slæmum málum ímyndarlega – pössum okkur!

Það sem þarf eru fjölmenn, friðsöm mótmæli með skýrar kröfur.

Ég er tilbúinn að mæta til að leggja áherslu á ofansagt, en ég get ekki staðið undir því – í orðsins fyllstu merkingu – að einu sinni lítill hluti hópsins vaði uppi með þeim hætti sem sást í gær. Þá þarf ég að fara. Ég veit að það eru margir sem eru samstíga mér í þessu.

Því segi ég við mótmælendur: Fleiri og fleiri munu mæta og leggja málstað ykkar lið því fleiri klukkustundir og svo dagar líða án þess að til átaka eða skemmdarverka komi. Þetta tekur innan við viku.

Væri ekki áhrifaríkt að sjá ríkisstjórnina víkja undir tugum þúsunda þögulla, alvarlegra og yfirvegaðra mótmælenda? Væru það ekki góð skilaboð frá okkur um að Næsta Ísland verði byggt og stjórnað af skynsömu og vel meinandi fólki?

Gjaldeyrishöft og gengismál

Tveir punktar sem hafa skotið sér í kollinn á mér síðustu daga:

 • Gjaldeyrisreglur Seðlabankans: Stjórnvöld eru komin á það stig að búa til reglurnar “as they go along”. Villi var duglegur um helgina – fyrir hönd Verne og CCP – að benda á skaðsemi þessarra reglna fyrir sprotastarfsemi og erlendar fjárfestingar (nokkuð sem við þurfum einmitt nú frekar en nokkru sinni). Þessu var svarað með fundi í gær þar sem fram kom – samkvæmt fréttum“að gjaldeyrisreglurnar hefti ekki beina erlenda fjárfestingu. Túlkun Seðlabanka sé sú að bein erlend fjárfesting sé kaup á 10% eignarhlutur eða meira. Þetta þýðir að fyrirtæki hér geta fengið útlendinga til að fjárfesta í rekstrinum, ef eignarhlutur þeirra fer yfir 10%.”

  Ég er ekki að skálda þetta! Hvað gengur mönnum til? Í fyrsta lagi er ómögulegt að túlka orðanna hljóðan í reglum Seðlabankans á þennan veg. Þennan skilning fá aðeins þeir sem fara á fund hjá Seðlabanka og Viðskiptaráðherra og þá bara í orði eða hvað? Og hver eru rökin fyrir því að útlendingar megi eiga meira en 10% en ekki minna? Hvað ef þeir kaupa 15%, en svo minnkar eignahlutur þeirra síðar? Af hverju 10%? Þessu fylgja engin rök og erfitt einu sinni að ímynda sér hver þau gætu verið. Voru þeir ekki búnir að frétta að við “…kind of need the money”?

  Stærsti skaðinn af þessum gjörningi er samt sá að nú er orðið greinilegt að stjórnvöld eru komin í þann ham að þeim er trúandi til að setja hvaða reglur sem er, hvenær sem er og túlka þær svo eftir hentugleika. Undir slíkum kringumstæðum munu erlendir fjárfestar forðast Ísland eins og heitan eldinn og var nú nóg samt.

  Ég hef verið að vinna í tveimur verkefnum sem þetta hefur bein áhrif á. Nýja fyrirtækið mitt – DataMarket – mun reyndar ekki þurfa að sækja sér erlent fjármagn fyrr en líður á næsta ár, en ég óttast mjög skaðsemi þessa hringlandaháttar þá ef ekki verður búið að gerbreyta hér stjórn og skipulagi. Ég mun þurfa að íhuga mjög alvarlega að setja það upp sem erlent félag – og mig sem langar ekkert meira en að hjálpa til við að moka.

  Hitt er að ég hef verið að kynna Bandarískum fjárfestum á sviði endurnýjanlegra orkugjafa ýmis tækifæri hér. Þeir komu hér í nokkurra daga heimsókn fyrir fáum vikum síðan og sýndu ýmsum tækifærum áhuga. Uppbyggilegum tækifærum í fyrirtækjum sem þurfa að fjármagna umtalsverðar framkvæmdir á næstu árum. Við erum að fylgja þessum málum eftir núna, en ég get fullyrt að þetta rugl er ekki til að auka líkurnar á því að eitthvað verði af þeim plönum.

  Mynduð þið fjárfesta í Bólivíu ef stjórnvöld væru nýbúin að frysta peningalegar eignir útlendinga í landinu, jafnvel þó þau væru náðasamlega til í að túlka reglur sínar ykkur í hag eða veita ykkur undanþágu, a.m.k. á meðan þeim þóknast?

  Hélt ekki! En þetta er einmitt ímyndin sem tókst að búa til með laga- og reglusetningu síðustu viku. Glæsilegt alveg.

 • Lausn á krónuflóttanum? Áðurnefndar reglur eru settar til að reyna að koma í veg fyrir að gengi krónunnar falli eins og steinn við fleytinguna. Þó svo að segja öllum beri saman um að raungengi krónunnar (m.t.t. til vöruskiptajöfnuðar) sé tugum prósenta sterkara en það er nú (sjá áður í færslunni Greiningadeild Hjalla), þá gæti algert hrun nú gert það að verkum að fjármagnsflóttinn yrði enn meiri og orðið erfiðara að komast í styrkingarferli aftur. Ástæða lagasetningarinnar er því vel skiljanleg.

  Ég velti þó fyrir mér annarri leið. “Hræddustu krónurnar” eru krónur sem erlendir aðilar sem eiga í skuldabréfum hér á landi – jöklabréfin svokölluðu. Upphæð þessarra bréfa er í kringum 400 milljarðar króna. Af þeim er einhver hluti – segjum 200 milljarðar – sem munu fara um leið og þeir geta losað eitthvað af þessum fjármunum, nánast algerlega óháð gengi krónunnar eða verðinu sem þeir fá fyrir skuldabréfin. Þeir myndu ýkjulaust vera sáttir við að fá dollara fyrir krónur á genginu 250 og afar lélega ávöxtun á bréfunum sjálfum, líklega neikvæða. Að komast út með 20-25% af upphaflegri fjárfestingu myndu þeir túlka sem árangur. Þeir eru hræddir, þurfa að nota peninginn í annað og hafa engar forsendur eða aðstöðu til að meta eða nýta sér það hvort gengi krónunnar verði sterkara eftir 2 mánuði, hálft ár eða 3 ár. Þeir ætla bara að fara.

  Á móti eru svo aðilar sem hafa miklu meira innsæi í íslenskan fjármálamarkað og skilning á því hvernig gengið eigi eftir að þróast, sem eiga í dag eignir í erlendri mynt. Augljósasta dæmið eru lífeyrissjóðirnir. Eignir þeirra erlendis nema líklega um 5 milljörðum dollara (+/- milljarður til eða frá). Lífeyrissjóðirnir – og aðrir í svipaðri stöðu – gætu gert alger kostakaup núna. Samið um að kaupa hræddu krónurnar á genginu 200-250 á móti dollara og fengið um leið óviðjafnanlega ávöxtun á skuldabréfin þar sem verið væri að selja þau með verulegum afföllum. Á genginu 200 myndi þetta ekki kosta nema 1 milljarð dollara. Þó gengið myndi ekki síga nema í 110 aftur (margir trúa að 90 sé nær lagi) á næstu tveimur árum, er ljóst að kaupendurnir myndu fara hlæjandi alla leið í bankann með þennan díl.

  Og ekki nóg með það, þeir myndu á sama tíma lýsa trausti á að íslenska hagkerfið muni braggast og líklega mynda snöggan og snarpan botn í gengiskúrfuna sem marka myndi upphaf styrkingarferils hennar.

  Hvar er villan í þessu hjá mér?

Nýsköpun í Silfri Egils

Ég fékk tækifæri til að koma að nokkrum orðum um nýsköpun og uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs í Silfri Egils í dag.

Hér að neðan er upptaka af spjallinu.

P.S. Ég vona að RÚV sjái í gegnum fingur sér með að það er klárlega brot á höfundarrétti að setja efni frá þeim á YouTube. Það er bara ekki alveg nógu aðgengilegt að vísa á efni á þeirra eigin vef: Upptökur af Silfri dagsins á vef RÚV.

Svona verður Næsta Ísland

new-futureEin birtingarmynd kraftsins sem hefur verið leystur úr læðingi síðustu vikur er sú að almenn umræða er hætt að snúast um efnistökin í Séð og Heyrt og farin að snúast um stóru málin – málin sem skipta máli:

Hvernig viljum við hafa Næsta Ísland? Hvernig vinnum við okkur útúr núverandi ástandi? Hvernig á að stjórna landinu? Og hver á að gera það?

Ég hef tekið þátt í ótal samræðum um öll þessi mál síðustu vikur og tók af því tilefni saman nokkra áhugaverða punkta sem ég get sagt með nokkurri vissu að ég vilji sjá einkenna Næsta Ísland:

 • Besta mögulega umhverfi til nýsköpunar. Í slíku umhverfi byggist upp fjölbreytt atvinnulíf og útflutningstekjur okkar munu ekki standa lengur á aðeins 3-4 stoðum, heldur 10-20. Í þessu umhverfi felst m.a. einfalt og hagstætt skattkerfi, einföld fyrirtækjalöggjöf, öflugt stuðningskerfi, hvatar til áhættufjárfestinga o.fl. Sjá nánar í færslunni Af hverju nýsköpun? og á nyskopun.org.
 • Gjaldmiðill sem hefur verðgildi víðar en á Íslandi. Þetta er aðeins hægt með upptöku annars gjaldmiðils eða með því að setja traustan fót – s.s. gull – undir krónuna (sem NB er varla mögulegt úr þessu). Hugmyndir um einhliða upptöku Evru eru áhugaverðar, en líklega snúnari en gefið hefur verið í skyn. Fleytingu krónunnar með baklandi í stóru erlendu láni þarf að fylgja skýr áætlun um það hvernig gjaldeyrismálum verði háttað í framtíðinni. Slík áætlun gæti t.d. falið í sér að stefnt sé að upptöku annars gjaldmiðils innan 5 ára og hvernig gengi við þau skipti verði ákvarðað. Ég hef áður sett fram spádóm um gengi krónunnar eftir fleytingu, og hér er spádómur frá mér fróðari manni um málið.
 • Fagfólk í stöður ráðherra og helstu embættismanna. Þetta mætti t.a.m. gera á eftirfarandi hátt: Auglýst yrði eftir umsækjendum í stöðurnar. Nefndir fagfólks í hverju málefni (t.d. leiðtogar fyrirtækja og stofnana í viðkomandi greinum) myndu meta hæfi umsækjendanna og ef fleiri en einn er talinn jafnhæfastur eða -hæfust til verksins, kýs Alþingi milli þeirra. Alþingi, sem vinnuveitandi þeirra, getur svo sett viðkomandi af þyki hann eða hún ekki hafa staðið sig. Með þessu fæst líka nokkuð heilbrigður aðskilnaður alþingis og ríkisstjórnar. Á móti mætti fækka Alþingismönnum um 20.
 • Öll lög hafi “síðasta söludag”. Tryggt sé að öll lög komi til endurskoðunar ekki sjaldnar en á 10 ára fresti. Til athugunar sé hvort þau eigi enn rétt á sér eða megi að öðrum kosti bæta m.t.t. breyttra tíma. Svona má m.a. tryggja að löggjöfin taki tillit til tækninýjunga, breytinga í alþjóðaumhverfi o.s.frv.
 • Settur sé óháður verkefnastjóri yfir Alþingi. Verkefnastjórinn setur niður dagskrá ársins gróflega í upphafi árs og raðar svo nákvæmri dagskrá innan viku og dags. Enginn starfsmaður (les: alþingismaður) fær að fara heim fyrr en vinnu er lokið. Séu markmið ekki að nást, er það hins óháða verkefnisstjóra að meta mikilvægi og forgangsraða málum. Þingmenn eða flokkar mættu jafnvel fá fastan fjölda “mikilvægispunkta” sem þeir mega dreifa á sín mál yfir árið til að hafa áhrif á það hvaða mál eru tekin fyrir.
 • Landið allt eitt kjördæmi, ekkert lágmarksfylgi og röðun á kjörseðli. Kjördæmaskipanin tryggir jafnt vægi atkvæða og dregur úr kjördæmapoti (sem þá myndi líklega fá heitið “svæðapot”). Forgangsröðun á kjörseðli í stað þess að aðeins einum flokki sé greitt atkvæði (sjá t.d. löggjöf um þingkosningar í Ástralíu), hindrar öfgaöfl í að komast að, en afnám lágmarksfylgis tryggir á sama tíma að “litlar raddir” fá málsvara á þingi ef kjósendum þykir næg ástæða til.
 • Stóraukið gegnsæi í fjármálakerfinu. Skráning skulda- eða hlutabréfa á markað setji kröfur um fullkomið gagnsæi á rauntímaupplýsingum úr bókhaldi viðkomandi fyrirtækja. Þetta skapar þeim markað til að sækja sér fé, en gefur fjármagnseigendunum – í krafti hópsins – kleift að fylgjast grannt með stöðu fyrirtækjanna. Sama myndi gilda um sjóði, s.s. peningamarkaðssjóði, lífeyrissjóði eða aðra gjörninga sem mynda “strúktúra” ofan á markaðinn. Árs- og ársfjórðungsuppgjör eru úrelt fyrirbæri – rauntímaupplýsingagjöf er krafa nútímans. Ég hef áður skrifað um þetta í færslunni Framtíð viðskipta: Opið bókhald og fullkomið gegnsæi.
 • Stóraukið gegnsæi í fjármálum hins opinbera. Opið kerfi þar sem hver sem er getur skoðað, ekki bara samantekna liði í fjárlögum og rekstri, heldur kafað alveg niður í hverja einustu færslu hins opinbera og meðfylgjandi skýringar. Þetta tryggir frábært aðhald og dregur úr pólitískri fyrirgreiðslu af almannafé. Framsetningin á þessu gæti verið “glorified” útgáfa af framsetningu DataMarket á Fjárlagafrumvarpinu – þar sem hægt væri að kafa dýpra, sjá nánara niðurbrot, skoða fjármál einstakra stofnana og skýringar með öllu saman.
 • Öll samskipti við hið opinbera geti farið fram rafrænt. Þetta yrði ekki bara í formi vefsíðu, eins og við eigum t.d. að venjast með skattframtalið, heldur eiga bókhaldskerfi og önnur kerfi að geta tengst með sjálfvirkum hætti – með tímanum mætti jafnvel krefjast þess. Sjá bloggfærslu um “The Government API” sem ég skrifaði í fyrra. Þetta eykur skilvirkni, minnkar tvíverknað, fækkar villum og gerir – tvinnað saman við gagnsæiskröfurnar hér á undan – hverskyns undanskot afar erfið.
 • Skynsemi við ráðstöfun takmarkaðra auðlinda. Orkan, fiskurinn, andrúmsloftið og náttúran eru takmarkaðar, verðmætar auðlindir. Þær er rétt að nýta, en af skynsemi. Við hverja ráðstöfun á þessum gæðum, þarf að vega og meta ávinning á móti ókostum. Orkumálin eru þarna hvað umdeildust. Það er jafn vitlaust að vilja ekkert virkja framar eins og það er að vilja virkja allt sem virkjanlegt er. Okkar hagur er að sem mest fáist fyrir orkuna og ekki sé fórnað meiri hagsmunum fyrir minni. Þannig er augljóslega betra að fá marga meðalstóra kaupendur að orku – s.s. rannsóknagróðurhús, vélabú eða álþynnuverksmiðjur – en fáa stóra. Virðisauki samhliða orkusölunni er lykilatriði. Með tilliti til áherslu á fjölbreytni í atvinnulífi eru fleiri álver orðin hættuleg – eggin, körfurnar og allt það. Umfram allt þarf orkusala að fara fram á opnum markaði þar sem verð eru opinber og jafnræði gildir við tilboðsgerð.
 • Afnám hverskyns hindrana á vöruflutningum. Tollar, innflutningsgjöld og niðurgreiðslur ákveðinna framleiðslugreina búa til ójafnvægi sem býr til undarlega hvata og kemur í veg fyrir að við nýtum með besta hætti vinnuafl, landrými, fjármagn og verkvit í heiminum. Grænmetisrækt á Íslandi er því aðeins góð hugmynd að lágt orkuverð hér vegi upp kostnað við gróðurhús og mæti samt flutningskostnaði erlendis frá. Landbúnaður hér ætti að vera takmarkaður við þær greinar sem standast samkeppni við innfluttar vörur í gæðum og verði, eða eiga erindi á alþjóðamarkaði í samkeppni við erlendar vörur þar. Ég efast um að verksmiðjuframleiðsla á borð við svína- og kjúklingarækt geri það, en íslenskt kindakjöt er aftur á móti villibráð og þarf að koma á markað sem sem slíkri: munaðarvara í samkeppni við franska gæsalifur, rússneskan kavíar og lapplenskt hreindýrakjöt. Tollar og gjöld á vörur á borð við raftæki og neysluvörur eru hrein tímaskekkja.
 • Afnám hindrana á fjármagnsflutninga og eignarhald. Eignarhald einkaaðila ætti aldrei að takmarka við ákveðið þjóðerni. Viljum við (íslenska þjóðin) halda yfirráðum yfir ákveðnum auðlindum, eiga þær að vera í eigu ríksins, en nýtingarréttinn má leigja eða selja á opnum markaði. Með þessum hætti fáum við hingað erlent fjármagn í þær framkvæmdir eða verkefni sem okkur gætu reynst ofviða, aukum líkurnar á áhættufjármagni í greinum eins og orku eða sjávarútvegi og aukum samkeppni um þessar auðlindir sem leiðir af sér hærri tekjur til þjóðarbúsins.

Ég geri mér grein fyrir að margt af ofantöldu þarf að nálgast af varfærni. Sumt mun taka allmörg ár að færa til betri vegar og í mörgum tilfellum verður þörf á sérstökum aðgerðum til að gera umbreytinguna sem sársaukalausasta.

Ég tek öllum góðum rökum gegn þessum hugmyndum og áskil mér fullan rétt til að skipta um skoðun í ljósi slíkra, en tel þó að ofangreint standist allharða rökræðu.