Eins og glöggir netverjar hafa ef til vill tekið eftir er kominn upp nýr og breyttur vefur hjá Símaskránni.
Við Spurl menn komum að þessu eins og flestum leitarverkefnum landsins þessa dagana – bráðum getiði ekki einu sinni leitað að bíllyklunum ykkar án þess að við komum þar við sögu.
Eins og á Emblu notum við beygingar leitarorða, þannig að ekki þarf lengur að slá inn heimilisföng í þágufalli (eða ákveðin föll annarra orða) eins og í gömlu símaskránni.
Eins lögðum við talsvert uppúr því að koma allri leitinni í einn einfaldan leitarreit þannig að hægt sé að slá inn hluti eins og [tölvur selfossi], [veitingahús 101] eða [hjálmar laugavegi] í stað þess að nota “ítarlega leit” með mörgum og illskiljanlegum leitarboxum.
Af öðrum nýjum möguleikum sem snerta leitina má nefna:
- Leitarniðurstöður birtast í stafrófsröð (já, merkilegt nokk var það ekki þannig)
- Fellivalblað (AutoComplete) stingur upp á leitarstrengjum þegar slegið er inn (byrjið að slá inn nafnið ykkar og tölvan les hug ykkar :))
- Leitin á gulu síðunum hefur verið stórbætt. Fyrirtæki geta skráð ítarlegri upplýsingar um sig og keypt leitarorð sem gerir það að verkum að þau birtast þegar leitað er að þeim orðum. Prófið t.d. [adsl], [veislur], [fermingar]. Við birtum svo “tengd leitarorð” sem geta hjálpað til við að leiða fólk áfram í leit að þjónustu. Þessi hluti á eftir að verða gríðarlega skemmtilegur eftir því sem skráningunum fjölgar.
- Við birtum stafsetningarleiðréttingar þegar ekkert finnst (ef þú slærð óvart inn [Sigurðurr] eða [fermyngar])
Einna stoltastur er ég samt að hraðanum. Leitin er yfirleitt að taka innan við 0,1 sekúndu og svörin virðast í raun birtast “samstundis” þrátt fyrir að verið sé að gera allt ofantalið. Sama gildir um fellivalblaðið, sem er “arfahratt”. Umferðin á þennan vef er gríðarlega mikil, en eftir smá hiksta fyrstu tvo dagana (á mánudag og þriðjudag í síðustu viku), hefur leitarvélin ekki einu sinni svitnað þrátt fyrir að þurfa stundum að afgreiða all-mörg hundruð fyrirspurnir á mínútu.
Af öðrum endurbótum á vefnum (sem ekki snúa að Spurl) ber hæst ný og stórbætt kort í boði Gagarín og Hnit – sem ég hef reyndar aðeins nefnt áður. Viðmótið er hannað af Reyni snilling hjá Hugsmiðjunni og svo öllu púslað saman af Origo sem forrituðu vefinn utan kortanna og leitarinnar.
Skemmtilegt verkefni sem tók á, á köflum – en útkoman stórfín. Við erum að safna saman athugasemdum (merkilegt nokk er þetta þrátt fyrir allt ekki gallalaust), þannig að það er vel þegið að fá ábendingar um betrumbætur eða galla annað hvort í comment hér eða beint í tölvupósti.
Kíkiði allavegana á gripinn.
Alveg til fyrirmyndar…
Gott internet þarna á ferð 🙂
Það væri sniðugt að kenna fólki á wild card leit (tölvun* Fi* kóp*).
Einnig mætti afnvel hafa Lucene indexana og leiðbeiningar um hvernig megi leita í þeim einhversstaðar fyrir úber nördana.
Gott framtak, svona á internetið að vera.
Loksins fer síminn að gera þetta almennilega.
Kv. Stígur