Ég skrifaði í haust um orðróminn sem hefur gengið undanfarið hálft ár eða svo um nýja símann og sjónvarpsgræjuna frá Apple.
Á þriðjudaginn gerðist það svo. Steve Jobs steig fram á sviðið af sinni alkunnu snilld og heillaði tækniheiminn upp úr skónum. Hamagangurinn í kjölfarið er svo mikill að AppleTV (sem gekk undir vinnuheitinu iTV) hefur nánast týnst í umræðunni. Sjálfur held ég að það sú græja sé næstum jafn kollvarpandi og iPhone.
En samt, bara næstum…
iPhone er græjan sem ég held að við tölvunördarnir höfum flestir látið okkur dreyma um í nokkur ár. Hún sameinar iPod, síma og nettengda lófatölvu í lítið, nett og ótrúlega fallegt tæki. Tengist bæði þráðlausum staðarnetum og gegnum GPRS (3G útgáfan kemur síðar). Keyrir MacOS X. Öllu stjórnað með næmum snertiskjá með hærri upplausn en áður hefur þekkst – og þeir lofa m.a.s. mjög góðum batterí tíma (5 tímar í tali, 16 tímar í tónlistarspilun)! Ég get varla beðið. Í júní verður hægt að fá þessa græju í Bandaríkjunum og í haust í Evrópu.
AppleTV verður hægt að fá strax í febrúar – þannig að það verður að duga í bili að fikta bara í henni 😉
Ég mæli með að fólk kíki á keynote-ið hans Jobs þar sem þetta er allt kynnt til sögunnar. Maðurinn er frábær show-maður og vídeóið er þess virði fyrir það eitt. Ég ætlaði niðrúr sófanum þegar hann sýndi “Merge calls” – fídusinn (teaser).
Það er í rauninni ýmislegt að segja í stóru samhengi hlutanna um þessa innkomu Apple á fjarskipta- og lófatölvumarkaðinn, en ég ætla að geyma það – ég er aðeins að melta þetta allt. Tek það kannski í tæknispánni fyrir 2007 sem ég er að setja saman. Sú fyrir 2006 er hér – ég reyndist nú bara nokkuð sannspár…
Þetta er sannarlega mögnuð græja. Margt er enn óljóst – Jobs er þó búinn að gefa út smá bömmer fréttir (fyrir mig a.m.k.) þ.e. síminn mun ekki taka við neinu nema Apple eða Apple viðurkenndum hugbúnaði sbr:
http://www.43folders.com/2007/01/12/no-iphone-apps/
Góða helgi!
FÓ
Já, þetta er killer græja – en síminn minn sem ég keypti á 35þús fyrir rúmu ári er samt með snertiskjá með hærri upplausn
640 x 320 ;o)
http://www.nokia7710.com
Verst að hann er hel böggaður og NOKIA ætluðu sér að droppa þessari línu (þó það gæti breyst núna)
Svo ég myndi nú glaður skipta honum fyrir iPhone … eða 1/3 úr iPhone :oD