Af mótmælum, ímyndarmálum og skrílslátum

Uppfært: Ég er Appelsínugulur.

Ég er sammála meginkröfum mótmælenda:

 • Ríkisstjórnin þarf að víkja
 • Stjórn og stjórnendur Seðlabanka og Fjármálaeftirlits þurfa að víkja
 • Boða þarf til kosninga sem fyrst

Framan af keypti ég þau rök að ekki væri rétt að “skipta um hest í miðri á”; að betra væri að hafa sitjandi stjórn við völd og leyfa henni að vinna sig út úr stöðunni í krafti þekkingar sinnar á aðstæðum en að nýtt fólk þyrfti að setja sig inn í stöðuna – hversu alvarleg svo sem mistök fyrri stjórnar voru.

Síðan þá hefur sýnt sig að það er ekkert plan. Sitjandi stjórn veit ekkert hvernig hún ætlar upp úr ánni og öslar hana miðja með bægslagangi og látum. Sé eitthvað plan í gangi, eru viðkomandi a.m.k. fullkomlega vanhæf um að miðla því hvert það plan er og efla trú innan lands eða utan á því að hér sé verið að vinna gott starf. Þessi skortur á miðlunarhæfileikum er í raun einn og sér nóg ástæða til að stjórnin þurfi að víkja, enda er það mikilvægasta í stöðunni að sýna að það sé eitthvað plan, að viðurkenna mistök, leita ráða hjá sér hæfara fólki og miðla þessum aðgerðum með almenningi.

Geir Haarde á að vera í sjónvarpinu í klukkutíma á hverjum mánudegi að segja okkur hvað planið er fyrir vikuna, hvaða nýju upplýsingar liggi nú fyrir, hverju hafi orðið ágengt, hvað hafi mistekist og hvernig sé verið að taka á því: Staða lýðveldisins.

Fyrir tækninördana mætti eiginlega segja að það þurfi að Scrum-a sig út úr ástandinu.

Ef boðað verður til kosninga þarf að gera það með óvenjulegum hætti. Við megum ekki við því að missa vikur eða mánuði á mikilvægustu stundum lýðveldisins í það að menn fari að heyja kosningabaráttu og ástandi versni enn hraðar með engan við stýrið. Satt best að segja held ég að það verði að finna leið til að koma á neyðarstjórn hæfra, ópólitískra (eða a.m.k. þverpólitískra) manna og kvenna á meðan kosningar eru undirbúnar. Hver sú leið er veit ég ekki enn.

Til að byggja upp traust má svo enginn koma að nýrri stjórn eða stofnunum Ríkisins hér eftir af þeim sem sannarlega má segja að hafi verið á vakt yfir þeim hlutum sem úrskeiðis fóru. Þar á meðal eru:

 • Geir H. Haarde sem forsætisráðherra á vakt og “Direktören for det hele”
 • Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sem leiðtogi í stjórnarsamstarfinu og ábyrg fyrir því
 • Árni Mathiesen sem fjármálaráðherra á vakt í versta efnahagshruni Vesturlanda í seinni tíð
 • Björgvin G. Sigurðsson sem viðskiptaráðherra á sömu vakt
 • Davíð Oddsson sem Seðlabankastjóri á sömu vakt, maðurinn sem sá allt fyrir en gerði samt ekkert í því
 • Eiríkur Guðnason og Ingimundur Friðriksson sem Seðlabankastjórar á sömu vakt
 • Jón Sigurðsson og Jónas Fr. Jónsson sem stjórnendur Fjármálaeftirlitsins sem sáu ekki á mælana meðan allt fór til fjandans
 • Aðrir stjórnarmenn Fjármálaeftirlitsins og fulltrúar í bankaráði Seðlabankans

Þetta er svo ekki tæmandi listi og er ekki í neinni sérstakri röð eftir eðli eða mikilvægi ábyrgðar.

Þrátt fyrir ofansagt, þá getur og má stjórnin ekki segja af sér eftir atburði eins og þá sem urðu í gær.

Ég VEIT að flestir mótmælendur höguðu sér vel og meintu vel, en það er líka staðreynd að þarna var allnokkur hópur fólks sem gekk fram með ofbeldi og skemmdarverkum og ögraði lögreglunni vísvitandi. Sökum slagsíðu sem alltaf er á fréttaflutningi virðist þetta án efa stærri hluti og alvarlegri en í raun var, en það breytir engu. Við viljum ekki eyðileggja ímynd okkar sem þjóðar enn meira en orðið er með því að láta líta út sem svo að við séum þjóð sem kemur stjórnvöldum frá með ofbeldi. Burtséð frá öllum staðreyndum málsins verður það sú mynd sem dregin verður upp í fjölmiðlum heimsins ef myndefni gærdagsins er sett í samhengi við það að ríkisstjórnin fari frá í dag. Ég tala nú ekki um ef þessi atburðarás vindur enn frekar upp á sig.

Við erum í nógu slæmum málum ímyndarlega – pössum okkur!

Það sem þarf eru fjölmenn, friðsöm mótmæli með skýrar kröfur.

Ég er tilbúinn að mæta til að leggja áherslu á ofansagt, en ég get ekki staðið undir því – í orðsins fyllstu merkingu – að einu sinni lítill hluti hópsins vaði uppi með þeim hætti sem sást í gær. Þá þarf ég að fara. Ég veit að það eru margir sem eru samstíga mér í þessu.

Því segi ég við mótmælendur: Fleiri og fleiri munu mæta og leggja málstað ykkar lið því fleiri klukkustundir og svo dagar líða án þess að til átaka eða skemmdarverka komi. Þetta tekur innan við viku.

Væri ekki áhrifaríkt að sjá ríkisstjórnina víkja undir tugum þúsunda þögulla, alvarlegra og yfirvegaðra mótmælenda? Væru það ekki góð skilaboð frá okkur um að Næsta Ísland verði byggt og stjórnað af skynsömu og vel meinandi fólki?

20 comments

 1. Heyr heyr Hjalli!

  Þinn munnur talar sem minn.

  En hvernig gerist ofangreint? Hvernig tryggjum við að rödd okkar heyrist fyrir háværum öskrunum?

  Ég tel að ljóst sé að eitt og eitt blogg nær ekki eyrum þeirra sem eru ábyrgir fyrir atburðum gærdagsins. Eitthvað meira þarf að gerast.

  Ég hef því miður sjaldan talist til aktivista. Líklega hef ég verið of sofandi til þess. En ég er vöknuð. Og finn mig knúna til að gera mitt til að hafa áhrif á ástandið.

  Hvernig gerist það?

 2. “en það er líka staðreynd að þarna var allnokkur hópur fólks sem gekk fram með ofbeldi og skemmdarverkum og ögraði lögreglunni vísvitandi”

  Skiptum um hest, ekki seinna en strax!

  Ef við berum okkar saman við aðrar þjóðir hafi mótmælin farið ótrúlega vel fram. Það þýðir ekkert að vera að væla yfir einhverjum nokkrum ólátabelgjum, svoleiðis fólk verður alltaf til, hvort okkur líkar betur eða verr. Það er nákvæmlega ekkert sem við getum gert til þess að koma í veg fyrir að þannig fólk mæti á mótmælin.

  Svo finnst mér ekki gott hjá þér að nota þetta orð, ofbeldi. Það var ekkert ofbeldi í gangi, ekki þá nema ofbeldi lögreglu sem notaði piparúða og kylfur á fólk.

  Passaðu þig að detta ekki í þessa gryfju, ofbeldi gegn dauðum hlutum eins og jólatrjám er ekki ofbeldi. Sýnum þessum orði virðingu, því það gæti farið svo að raunverulegt ofbeldi brjótist út.

 3. Bendi á umfjöllun Nei um atburðina í gær:

  “Rétt er að ítreka að blaðamaður hefur, frá því klukkan eitt í dag, ekki orðið vitni að eða heyrt af einu einasta tilfelli þess að mótmælandi beiti lögreglu ofbeldi eða veiti líkamsáverka. Ef frá er talin ein meint brotin rúða – og nú Oslóartréð, sem var víst hvort eð er komið á síðasta söludag, hafa mótmælendur ekki einu sinni unnið tjón á hlutum.”

  http://this.is/nei/?p=2894

 4. Þetta er afskaplega skynsamlegur póstur, eins og við var að búast. Ég er þér 100% sammála. Ég á líka svolítið erfitt með að standa öxl í öxl við fólk sem öskrar “lýðræði” og hendir kínverjum í lögreglumenn. Það er hvorki snoturt né snyrtilegt, eins og stendur í Albin-bókunum.

  Svo kemur aftur að spurningu sem ég las einhversstaðar á bloggi – “hva’ – eiga mótmæli bara að vera *þægileg*?”. Ég veit ekki hvort ríkisstjórninni yrði komið frá þótt 20.000 manns fylltu miðbæinn og stæðu þöglir.

  Ein af staðreyndum málsins er að ef ríkisstjórnin hefur úthaldið til þess arna getur hún alveg setið sem fastast út kjörtímabilið. Mér skilst að það séu fáar skynsamlegar leiðir til þess að hrófla við kremkexmaulurunum.

  Það er hinsvegar skrýtið að sitja útí London og horfa á mótmæli við alþingishúsið.

 5. Hjalli, eina leiðin til láta ekki ólátabelgina (skemmdarvargana) eyðileggja friðsamlegu mótmælin, er að mæta og vera friðsamlegur … drekkja þeim í fjöldanum.

  Það að kverúlantast af blogghliðarlínunni og tala um skrílslæti og gagnrýna mótmælin/mótmælendurna gerir fátt annað en bólstra málsstað valdhafanna sem þú segist vilja sjá hverfa úr starfi.

  Málið er að það er næstum útilokað að ríkisstjórnin segi af sér … mun raunhæfara markmið með mótmælunum er að þrýsta á hinn þögla hluta Samfó og Sjalla í röðum alþingismanna, að splundra ríkisstjórnarmeirihlutanum innanfrá. Ég held að það sé að takast.

 6. “ég get ekki staðið undir því […] að einu sinni lítill hluti hópsins vaði uppi með þeim hætti sem sást í gær. Þá þarf ég að fara.”

  Þetta viðhorf útilokar í raun alla þátttöku þess sem það hefur – því þá er andstæðingum mótmælanna í lófa lagið að mæta, einn eða tveir, og vera með smá leiðindi þar til fólkið sem hugsar svona er horfið á braut.

 7. Ég var á Austurvelli í gær eftir hádegi og í gærkvöldi fram að miðnætti. Ég sá ekkert ofbeldi. Ég sá bros á andlitum fólks sem gladdist yfir því að loksins er að myndast alvöru samstaða og kraftur hjá fólkinu. Það er rétt sem Már hér að ofan segir, við meigum ekki láta ólátabelgina stöðva okkur hin. Mætum og sýnum hvað það er stór hluti þjóðarinnar sem vill ríkisstjórnina burt.
  Sé þig vonandi á Austurvelli á eftir.

 8. „Það að kverúlantast af blogghliðarlínunni og tala um skrílslæti og gagnrýna mótmælin/mótmælendurna gerir fátt annað en bólstra málsstað valdhafanna sem þú segist vilja sjá hverfa úr starfi.“

  Naah, ég kaupi þetta ekki. Í fyrsta lagi bólstrar það ekki málstað þeirra fyrir fimmaur, heldur í mesta lagi beinir athyglinni örskotsstund frá því hversu armur hann er (og á móti er athyglinni beint rakleitt að því, annars staðar í sama bloggi).

  Í öðru lagi er hér áhersla lögð á að „skrílslætin“ hafi einskorðast við minnihluta mótmælenda — helst má gagnrýna að orðið hafi ratað í fyrirsögn og þannig fengið meira vægi en best hefði verið.

  Og í þriðja lagi gerir það bara heilmikið annað: það er hvatning til mótmælenda að halda mótmælunum flekklausum — og það eru ekki lítilvæg skilaboð. Íslendingar eru ekki mótmælaþjóð, það þarf mikið til að fá okkur út á torg (eins og ærið hefur verið kvartað undan) — og lítið til að fæla okkur aftur heim. Eins og Hjalli segir, „Ég veit að það eru margir sem eru samstíga mér í þessu.“ Þú veist að það er rétt, og það þýðir ekkert að kalla þá bara alla kverúlanta á hliðarlínunni.

  Ef mótmælin eiga að skila árangri skiptir sköpum að þau séu slík að sem breiðastur þverskurður af þessari friðelskandi og konfliktfælnu þjóð geti skrifað undir þau og tekið þátt í þeim af heilum hug. Ef þau samanstanda bara af (a) þeim sem finnst kúl að henda kínverjum í lögreglumenn og hrópa „fokkings fasistar“, og (b) þeim sem eru til í að standa við hliðina á (a), þá eru þau dæmd til að verða fámenn og þar með áhrifalítil. Hjalli vill að þau verði það ekki. Ég líka.

 9. En Gunnlaugur, mér er spurn: hvernig ætlið þið að losna við þessa örfáu óróaseggi?

  Er ekki einmitt málið að mæta og sýna gott fordæmi? Höfða til þeirra innan hópsins, æsa hópinn á jákvæðan hátt upp í því að standa uppi í hárinu á þeim og skamma þá til yfirvegunar og jákvæðrar þátttöku með okkur hinum.

  Það er allavega vonlaust mál að ætla að fæla þá burt með því að mæta ekki. Vandlætingarblogg hefur afar takmarkaðan fælingarmátt á svona óróaseggi?

 10. Lesið og skilið – flest allt góðir punktar sem óþarfi er að munnhöggvast um.

  Ég held að lausnin sé að líta dagsins ljós. Meira síðar.

 11. „Vandlætingarblogg hefur afar takmarkaðan fælingarmátt á svona óróaseggi?“

  Má vera. Áhrifamáttur þess skánar a.m.k. ekki við að óróaseggir sjái þig hæða það sem „vandlætingarblogg“ og „kverúlans.“

  „Höfða til þeirra innan hópsins, æsa hópinn á jákvæðan hátt upp í því að standa uppi í hárinu á þeim og skamma þá til yfirvegunar og jákvæðrar þátttöku með okkur hinum.“

  Það hljómar vel („æsa hópinn“ kannski ekki svo vel, en ég skil hvað þú meintir 🙂 ) — og reyndar mjög ólíkt þessu konfliktfælna fólki sem um ræðir, þ.m.t. mér sjálfum, en það er gott og gilt að hvetja það til meiri áræðni.

  En er ekki Hjalli einmitt að skamma til yfirvegunar og jákvæðrar þátttöku í þessu bloggi? Og fær skít og skömm frá þér fyrir? Fyndi hann betri hljómgrunn hjá óróaseggjunum sjálfum á staðnum, en hjá hófsömum og friðsömum manni eins og þér á blogginu?

 12. Rétt — óþarfi að munnhöggvast. Sjálfsagt er meiri von til að hafa góð áhrif á (potential) óróaseggina í eigin persónu en í fjarlægð á bloggi, og sjálfsagt erum við miklu meira sammála en ósammála.

 13. Það er magnað að horfa á mótmælin hérna úti í Ameríku, í gegnum tölvuna. Ég er sammála, það má ekki láta ólátabelgi taka yfir, en það er nú varla hægt að segja að fólk hafi verið með ofbeldi þarna. Lögreglan fór greinilega offari með piparspray og táragas og það er ekki skrýtið að fólk verði reitt þegar það er beitt slíku ofbeldi að tilefnislausu.

  Mikilvægt að við gleymum ekki hvaða glæpir hafa verið framdir gegn íslensku þjóðinni, við erum ekki að tala um bensínhækkanir, heldur landráð! og mikilvægast er að þeir mæti í mótmælin sem afleiðingar efnahagshrunsins munu bitna verst á og það eru fjölskyldurnar í landinu! Mömmur og pabbar, afar og ömmur, frændur, frænkur, sem sagt ÞÚ! já, og ÞÚ þarna líka.

 14. Appelsínugulur er málið.

  Þar með fer ekki á milli mála hverjir standa fyrir hvað og ólátaseggirnir geta ekki dregið athyglina að sér, né geta stjórnmálamenn dreift henni með því að benda á “skrílinn”.

 15. Takk fyrir góðann pistil Hjálmar.

  Gunnlaugur, ég held að enginn sé að gefa Hjálmari skít eða skömm hér, mér sýnist allflestir sjá hversu skynsamlegar og hófstilltar tillögur hans eru.

  Ég var staddur báða dagana niðri við þinghús og stjórnarráð. Báða dagana var ég meðal þeirra fyrstu á staðinn og fékk því góða yfirsýn yfir hvernig málin þróuðust.

  Mér sýnist því miður lögreglustjóri hafa hleypt öllu í bál og brand þann 20. janúar með því að sleppa kolóðum sérsveitarmönnum með kylfur og gasbrúsa á fólk, sem raunverulega áttu sér einskis ills von. Áður en nokkur vissi af var búið að snúa niður nokkra krakka og handjárna úti í horni, að því er virtist að handahófi, síðan var tekið til við að sprauta piparúða á fjöldann, og glerskyldir notaðir til að berja á þeim.

  Þetta gerðist allt áður en fréttamenn komu með myndavélar, og þeir náðu bara myndum af fólki sem var að sturlast úr bræði eftir að hafa tekið við þessum árásum.

  Mér segir svo hugur að þetta hafi verið, að nokkru leyti af ráðnum hug, og skipanirnar hafi komið að ofan, frá dómsmálaráðherra sjálfum. Breyta skrílnum í múg…. Þannig fær maður yfirhöndina. Síðan var lögreglumönnum gert að taka við ástandinu og þeir misstu stjórn á því alloft, stundum hélt ég hreinlega að illa myndi fara.

  Sem betur fer fór mun skár en til var stofnað af lögreglumönnum. Og einstaklingar lögreglunnar eiga samúð mína alla. Þeim er mikil vorkunn að þurfa að standa í þessu, fyrir þennann málsstað.

 16. Ég var á mótmælunum í gærkvöldi, þar voru margir appelsínugulir og stemmingin var alveg til fyrirmyndar. Það var stöðugur sláttur meðan ég var þarna og ég varð ekki vitni að neinu veseni, engu. Þarna stóð fólk bara í rokinu og rigningar og slydduskúrum og mótmælti fram á nótt. Ég hefði ekki trúað þessu fyrir ári.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s