Tími stórra breytinga

Gears conceptFljótlega eftir bankahrunið í byrjun október skrifaði ég bloggfærsluna Peningar vs. raunveruleg verðmæti.

Eins og margir aðrir verð ég líklega að viðurkenna að ég skildi ekki til fulls það sem var að gerast á þessum tíma, hvorki hvað viðkom Íslandi eða heiminum í heild. Ég hef í gegnum tíðina skapað mér ákveðið óþol fyrir því að skilja ekki eitthvað, sérstaklega þegar það hefur áhrif á mig eða mína nánustu og þess vegna fékk ég skyndilega mjög aukinn áhuga á hagfræði. Ég er síðan þá búinn að plægja mig í gegnum alls kyns fróðleik á vefnum og víðar og öðlast – að ég held – a.m.k. þokkalegan skilning á því hvernig hagkerfi heimsins er hugsað.

Niðurstaðan er í stuttu máli sú að ég held að ég hafi slegið naglann beinna á höfuðið þann 12. október síðastliðinn en mig óraði fyrir: Peningar og raunveruleg verðmæti hafa undanfarna áratugi átt ótrúlega lítið skylt við hvort annað. Þetta hefur verið hálfgerður “misskilningur”. Núna er sá misskilningur smám saman að komast upp, en það er löng leið ófarin þar til undið hefur verið ofan af honum að fullu.

Þetta er ef til vill ekki upplífgandi hugmynd, en ég skal rekja það sem leiðir mig að þessari niðurstöðu.

Hvert er hlutverk peninga?

Peningar hafa tvenns konar meginhlutverk:

 • Að liðka fyrir skiptum á vörum og þjónustu: Þessu er nokkuð vel lýst í þessari sögu af Róbinson Krúsó og Frjádegi. Frjádagur var góður að týna kókoshnetur og gat týnt 8 slíkar á dag. Krúsó gat bara týnt 2 kókoshnetur á dag, en hann gat veitt 8 fiska. Frjádagur var hins vegar ömurlegur veiðimaður og náði í besta falli 2 fiskum á dag. Hvorugur vildi einhæft mataræði, svo að í stað þess að þeir eyddu báðir hálfum deginum við hvora iðju fyrir sig og uppskæru samanlagt 5 kókoshnetur og 5 fiska sömdu þeir um að hvor gerði það sem honum fórst betur úr hendi allan daginn og þeir hefðu með sér vöruskipti. Þannig varð samanlagður afrakstur dagsins 8 fiskar og 8 kókoshnetur og ágóðinn er augljós. Annað af meginhlutverkum peninga er s.s. að auðvelda okkur að skiptast á fiskum og kókoshnetum, tölvuviðgerðum og tannlækningum í flóknu og víðfeðmu neti hæfileika og auðlinda.
 • Að varðveita verðmæti (e. store of value): Oft er það þannig að þegar ég get selt eitthvað, þá vantar mig kannski ekki neitt akkúrat þá stundina. Ég gæti t.d. selt fisk í dag, en viljað borga fyrir kokteila og gistingu á Spáni í sumar, eða jafnvel góða umönnun í ellinni (lífeyrir). Peningar liðka því ekki eingöngu fyrir vöruskiptum, heldur gera okkur kleift að geyma virði þeirrar vinnu eða auðlinda sem við seldum og flytja það til í rúmi (til Spánar) og tíma (til ellinnar).

Sú staðreynd að peningar hafa sinnt þessum tveim hlutverkum ágætlega á líklega mjög ríkan þátt í aukinni velmegun undangenginna 2 alda eða svo.

Í byrjun varð að tryggja það að fólk treysti peningum með því að byggja þá á einhverju sem fólk taldi “raunveruleg verðmæti”. Fyrst voru peningarnir sjálfir úr góðmálmum eins og silfri og gulli og þegar pappírspeningar komu til sögunnar voru þeir byggðir á einhverskonar fæti, t.d. gullfæti. Sem þýðir í stuttu máli að eignarhaldi á seðli fylgir loforð um það að seðlinum sé hægt að skipta fyrir ákveðið magn af gulli í tilteknum banka.

Þetta hefur ákveðið óhagræði í för með sér, því að á móti öllum þeim vöru- og þjónustuskiptum sem við viljum eiga í þarf að geyma gull í bankahólfi einhversstaðar. Gull sem svo er aldrei sótt eða hreyft, því allir treysta peningunum. Þetta fyrirkomulag hefur komist á nokkrum sinnum í mannkynssögunni og alltaf hefur sama hugmyndin skotið upp kollinum: Meðan allir treysta peningunum, þá þurfum við í raun ekki gullið. Eða a.m.k. ekki nema bara nóg fyrir þá örfáu sérvitringa sem láta á það reyna hvort það sé hægt að fá það afhent. Fóturinn er m.ö.o. afnuminn.

Þetta gerðist að fullu í okkar vestræna hagkerfi árið 1971 þegar Nixon þurfti dollara til að borga fyrir Víetnamstríðið. Hann setti prentvélarnar á fullt og bjó til dollara í stórum stíl til að borga skuldirnar. Með því braut hann ákvæði svokallaðs Bretton Woods samkomulags sem þjóðir heims höfðu gert með sér undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Samkomulagið fól í sér að Bandaríkin sæju um varðveislu gullfótar gjaldmiðla aðildarþjóðanna og að gengi þessara gjaldmiðla yrði hengt saman og þannig tengt þessum fæti. Bretton Woods markar reyndar líka upphaf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans.

Í sjálfu sér má segja að þetta sé allt í lagi. Þ.e.a.s. þetta er í lagi meðan allir treysta kerfinu. Við ætluðum hvort eð er aldrei að kaupa gull fyrir fiskinn sem við seldum. Meðan einhver er til í að afhenda mér kókoshnetur fyrir hann er ég sáttur og gullið skiptir ekki máli. Meðan peningarnir eru ávísun á vinnu eða verðmæti í framtíðinni eru allir sáttir, enda komu þeir sem greiðsla fyrir vinnu eða verðmæti í fortíðinni. Eða hvað?

Nú kemur held líklega stærsta lexían í þessum pistli. Ef þið hafið ekki meðtekið þennan sannleik áður þá er þetta mjög erfitt skref. Það tók mig nokkrar vikur að meðtaka þetta og afskrifa það að þetta væri ekki bara samsæriskenning einhverra vitleysinga: Peningar eru skuld. Stærsti hluti þeirra peninga sem eru til er ekki vísun í vinnu eða verðmæti sem afhent voru í fortíðinni, heldur á vinnu eða verðmæti sem á eftir að afhenda í framtíðinni.

Ekki nóg með þetta sé erfitt að meðtaka, heldur er annar erfiður sannleikur í þessu: Bankar framleiða peninga. Ekki bara Seðlabankar sem prenta peninga eins og við vitum, heldur bara venjulegir bankar eins og Kaupþing, Sparisjóður Svarfdæla og HSBC.

Það er til mjög góð teiknimynd sem útskýrir þetta mál ágætlega. Hún heitir Money as Debt. (Breytt 8. feb 2009, kl 22:30 – sjá athugasemdir)

Þetta er inntakið í teiknimyndinni Money as Debt, þó hún nái reyndar ekki öllum atriðum málsins alveg rétt.

Við skulum aftur á móti láta eftirfarandi dæmi nægja til að byrja að koma hausnum utan um málið: Þú ætlar að kaupa þér íbúð og ferð í banka til að sækja um lán. Bankinn tekur vel í það og lánar þér 20 milljónir. En hvaðan koma þessar 20 milljónir? Haltu þér fast. Bankinn býr til stærstan hluta þessara peninga úr loftinu einu saman! Hvernig getur hann það? Jú, með því að skrifa upp á lánið ert þú búinn lofa bankanum að vinna fyrir hann í framtíðinni. Þessa vinnu þína getur bankinn fært til bókar hjá sér sem eign á móti peningunum sem þeir lána þér. Bankakerfið allt tekur þessa eign góða og gilda og því eru orðnir til nýjir peningar sem sá sem seldi íbúðina getur núna notað til að kaupa sér fisk, kókoshnetur og utanlandsferðir.

Svokölluð bindiskylda segir til um hversu stóran hluta þessarrar upphæðar bankinn má búa til úr lausu lofti. 10% bindiskylda þýðir að bankinn þarf að hafa undir höndum 2 milljónir í beinhörðum peningum til að mega búa til hinar 18 milljónirnar. Þessar 2 milljónir geta t.d. verið innistæða foreldra þinna á bankabók.

Við getum sem sagt með mjög mikilli einföldun sagt að ef bindiskylda upp á 10% er fullnýtt sé 1 króna af hverjum 10 vinna sem unnin var í fortíðinni og hinar 9 ávísun á vinnu eða verðmæti í framtíðinni.

Vextir og vöxtur

Nú er það samt svo að vinna sem unnin er í dag er verðmætari en vinna sem unnin er eftir 10 ár. Þú vilt jú frekar láta lækna tönnina núna en bíða með það í 10 ár. Þess vegna fer sá sem á pening fram á það að fá vexti af eign sinni. (Sleppum algerlega verðbólgu í þetta skiptið til að einfalda málið). Þú borgar líka vexti til bankans af peningunum sem hann bjó til fyrir þig. Gjarnan er talað um að eðlilegir vextir séu 3-5% að raunvirði.

Nú skulum við aðeins stíga til baka, hætta að tala um peninga og velta fyrir okkur raunverulegum verðmætum og vexti þeirra (sjá aftur fyrri færslu). Ég held að gróft á litið megi skipta raunverulegum verðmætum í 3 flokka:

 • Endurnýjanlegar náttúruauðlindir: Til þessa flokks teljast lífrænar náttúruauðlindir s.s. fiskur, skógar og kornakrar; og endurnýjanlegir orkugjafar s.s. vatnsafl, sólarorka, jarðhiti o.fl. Þetta eru verðmæti sem vaxa “af sjálfu sér” og hægt er að taka af ákveðið magn á hverju ári án þess að skerða grunninn. Þannig getum við t.d. veitt ákveðið magn af fiski eða unnið ákveðið magn af orku árlega út í hið óendanlega ef við finnum rétt jafnvægi og réttar aðferðir. Hver slík auðlind gefur því af sér jafnt magn verðmæta á ári.
 • Aðrar náttúruauðlindir: Til þessa flokks teljast allar aðrar náttúruauðlindir, s.s. jarðefnaeldsneyti, góðmálmar, ólífrænt hráefni til framleiðslu o.þ.h. Þessar auðlindir getum við lært að nýta betur, en þær eru endanlegar, fara minnkandi og á einhverjum tímapunkti nær vinnsla þeirra hámarki. Í tilfelli olíunnar er þetta það sem kallað hefur verið “peak oil“. Hvort sem sá tími er þegar kominn, enn nokkur ár í hann eða jafnvel heil öld, er ljóst að sá punktur mun koma. Við brennum á hverju ári því magni af olíu sem varð til á milljónum ára, þannig að dæmið er ekki mjög flókið. Þessar auðlindir fara s.s. minnkandi.
 • Mannafl og hugvit: Þetta er vinnan sem við og tækin sem við notum geta skilað af sér. Mannkyninu fjölgar sífellt, þannig að grunnurinn vex ennþá (en mun og þarf að ná jafnvægi innan skamms). Mikilvægari þátturinn hér er raunar hugvitið, þekkingin og sérhæfingin sem Krúsó og Frjádagur þekktu svo vel. Þetta er í daglegu tali kallað framleiðniaukning, þar sem hver unnin klukkustund skilar af sér meiri verðmætum með nýrri verkþekkingu, sérhæfingu og verlagi. Þessi auðlind fer því vaxandi, en ekki auðvelt að geta sér til um takmörk hennar. Henni eru þó allnokkrar skorður settar af hinum gerðum verðmæta: Hversu mikils er ein vinnustund virði við að ýta bíl? Hvað þarf margar vinnustundir til að ýta bíl sömu vegalengd og einn lítri af bensíni getur gert? Hver á að ýta bílnum ef ekki er til bensín?

Við erum því með þrjár gerðir af raunverulegum verðmætum: Ein þeirra fer þverrandi, ein gefur af sér fast magn af verðmætum á ári og ein vex, en er þó takmörk sett af hinum tveimur. Ef aukningin í mannafli og hugviti jafnar út óendurnýjanlegu auðlindirnar, þá sitjum við uppi með flatan vöxt árlega, þ.e. jafna aukningu verðmæta á ári, en ekki veldisvöxt eins og vextir á peningum heimta.

Ef jafnvægið er öðruvísi þýðir það annað hvort að við getum reiknað með örlitlum veldisvexti verðmæta (framleiðnin vex hraðar en gengið er á náttúruauðlindirnar) eða minnkun verðmæta (við göngum hraðar á auðlindirnar en framleiðniaukningin nær að mæta). Hvort heldur sem er ætti þessi formúla að stefna á jafnvægi (veldisvöxtur hefur alltaf takmörk og hugvitið nær á einhverjum tímapunkti að mæta verðmætarýrnuninni).

Það má a.m.k. ljóst vera að veldisvöxtur verðmæta mun ekki ganga út í hið óendanlega. Veldisvöxtur peninga (sem eru uppfinning okkar mannanna) getur alveg haldið áfram, en það mun bara þýða að hver peningaeining mun benda á sífellt minni raunveruleg verðmæti.

Samhengi peninga, veldisvaxtar og náttúruauðlinda er lýst gríðarlega vel í fyrirlestri Chris Martenson: The Crash Course. Ég mæli eindregið með honum.

Lánabólan

Undanfarið hefur í heiminum öllum verið búið til gríðarlegt magn af peningum. Eins og sagt var hér að ofan eru þeir peningar ávísun á vinnu eða verðmæti í framtíðinni og fara auk þess fram á vexti. Til að mæta vöxtunum þarf að framleiða enn meira af peningum og því hefur verið reynt að nýta hráefni til peningaframleiðslu til hins ítrasta. Hráefnið í peninga eru einfaldlega lántakendur. Hvort sem það erum við almúginn að taka lán fyrir íbúð eða bíl, eða eignarhaldsfélög og vogunarsjóðir að taka lán fyrir uppkaupum á fyrirtækjum er hægt að nota okkur sem lántakendur til að framleiða peninga til að mæta kröfunni um síaukna peninga.

Þetta getur augljóslega ekki gengið út í hið óendanlega. Peningaframleiðsla í veldisvexti verður að hætta og kerfið er dæmt til að hrynja. Við getum mögulega skuldsett sjálf okkur til dauðadags (betra þó, ef við vitum af því), en innan mjög skamms mun einhver sjá í gegnum þokuna og hugsa “þetta getur ekki gengið, við borgum ekki”.

Reyndar virðist ekki þurfa að koma til þess. Árið 2007 kom að því að það fundust ekki lengur fleiri lántakendur til að nota sem hráefni í meiri peningaframleiðslu. Sífellt fleiri gátu ekki borgað af lánunum sínum, sérstaklega þeir sem ætluðu að borga af þeim með vöxtunum af síðasta láni sem þeir tóku og leiðréttingarferli hófst.

Þegar lántakandi getur ekki lengur borgað af láninu sínu og það fellur á hann þá hverfur peningurinn sem varð til þegar hann tók lánið. Þetta er það sem er að gerast í heiminum núna. Það er ekki bara svo að einhverjir hafi skotið peningum undan og feli þá einhversstaðar þar sem ekki er hægt að ná í þá – þó það hafi vafalaust gerst að litlu leiti. Mest af þessum peningum er samt bara horfinn: Púff, bang – ekki lengur til!

Enda var hann bara loft og vísaði ekki á raunveruleg verðmæti – alveg eins og ég grísaði á í október þegar ég vissi sáralítið um þessi mál.

Eða eins og Voltaire sagði víst: “Paper money eventually returns to its intrinsic value – zero.”

Niðurstaðan

Eins og Georg Bjarnfreðarson hefði vafalaust bent á er þetta kerfi sem við höfum lifað við “bara misskilningur”. Það er rétt hjá honum, en það getur verið frekar sársaukafullt að leiðrétta misskilning, sérstaklega þegar um svona gígantískan misskilning er að ræða. Vangræði Georgs blikna a.m.k. í samanburðinum.

Leiðréttingarferlið sem farið er í gang verður langt og snúið. Ég held persónulega að það eigi enn eftir að hverfa mjög miklir peningar áður en þeir ná samhengi við raunveruleg verðmæti. Leiðréttingar hafa líka tilhneygingu til að skjóta yfir markið og verða að brotlendingu í stað snertilendingar eins og við þekkjum. Leiðréttingin mun hafa í för með sér miklar tilfærslur á völdum og auði, sem í mörgum tilfellum kann að vera sanngjarnt en mun klárlega valda miklum óstöðugleika á meðan á því stendur.

Jafnframt þarf að koma upp nýju peningakerfi í heiminum, því í grunninn eru bæði peningar og lán alger forsenda fyrir því að við getum haldið áfram að nota, njóta og deila gæðum jarðarinnar. M.v. deilurnar sem spruttu um styttuna af Tómasi Guðmundssyni, gæti ég trúað að menn ættu eftir að vera nokkra stund að koma sér saman um eitthvað eins og þetta.

Þegar öllu er á botninn hvolft eru Íslendingar auðugir af raunverulegum verðmætum af öllum þeim þrem gerðum sem að ofan eru nefndar og því alls ekki útséð með það hvar við munum standa að – segjum – 10 árum liðnum þegar þessi “misskilningur” verður vonandi nokkurnveginn úr sögunni.

– – –

P.S. Ég er enn bara amatör í þessum fræðum og bið því lesendur um að gagnrýna, pota í og leiðrétta það sem hér að ofan er sagt til að skerpa skilning minn og annarra á viðfangsefninu.

49 comments

 1. Takk fyrir frábæra kenslustund í hagfræði og þú er greininlega mikil auðlind þegar kemur að hugviti.

  Ætli það sé ekki kostur þegar um svona víðferm mál er að ræða að vera “amatör”. Hagfræðingar lærðu þetta í hag101 og eru svo allt of sjaldan minntir á “the basics”. Á reyndar við um allar hugvitsgreinar þegar öllu er á botnin hvolft.

  kv.
  StjaniGunnars

 2. Frábær pistill Hjalli, eins og vanalega, ég er í svipuðum sporum og þú – algjör amatör – en hef svipaða sýn á þetta. Mér hefur fundist vöxtur/þensla í þessu fjármálakerfi okkar byggjast að einhverju leiti á því að auka flæðið á fjármagni með lánastarfsemi og það að verða ríkur snúist um það að stofna fyrirtæki sem setur krana á þetta flæði með því að búa til nógu stóra debet-kredit gjá þaðan sem tappað er af í formi hárra launa og aðkeyptrar þjónustu frá fyrirtækjum í eigu vina og ættingja. Nú þegar allt er á kúpunni eru eignir þessara fyrirtækja horfnar og skuldirnar eftir ásamt uppsprengdu vöru- og íbúðaverði vegna hárra launa og fyrirtækin fara á hausin án þess að nokkur maður virðist bera ábyrgð á því.. fyrir utan bankana. Ég og þú, sem höfum einungis tekið lán frá bönkunum fyrir þaki yfir höfuðið sem við erum að borga fyrir með því að skapa alvöru verðmæti verðum að taka á okkur hærri vexti/verðtryggingu af þessum lánum, hærri skatta og hærra vöruverð. Öllum þessum matador-peningum sem urðu til í bönkunum virðumst við nú þurfa að breyta í alvöru verðmæti á komandi árum.
  Þar er ég sumsé ósammála þér – ég held að það sé langt frá því að allir þessir peningar/lán munu einfaldlega hverfa.

 3. Ég hef eins og fleiri verið að pæla líka í þessum hlutum en er bara amatör, ég myndi samt vilja bæta smá pælingu við þetta.

  Eins og bent hefur verið á er fullt af peningum sem þurfa að “hverfa” en vandamálið er að á Íslandi er verðtrygging.

  Ef heildar upphæð verðtryggðra peninga í umferð er meiri en hinir raunverulegu peningar leiðir það af sér óðaverðbólgu og á endanum algjört verðleysi gjaldmiðilsins.

  Ég gæti alveg trúað að Íslendingar hafi á undanförnum árum prentað fleiri verðtryggðar krónur en komandi kynslóðir geta mögulega staðið undir, hvað haldið þið?

 4. Skemmtilegur skilningur á “loftbóluhagfræðinni”
  Ég hefði viljað sjá nánari skýringar á “verðtryggingarloftbólukrónunni”, sumir segja að hún sé mun verðmætari og meðfærilegri en “gullið”. Hún hækkar líka bara “loftbólukrónuverðmætið” og hækkar. “Verðtryggingarloftbólan” er sennilega orðin svo þunn að hún sést ekki í þessari “loftbóluhagfræði” enda við það að springa og þá taka önnur vísindi við en “loftbóluhagfræðin” og kanna hvað olli þessum gríðarlega “Miklahvell loftbóluhagfræðinnar”.

  Spennandi þessi “loftbóluhagfræði” og “skemmtileg”.

  Góð grein hjá þér.

 5. Jóhannes Björn birti ágæta bók, Falið vald árið 1979. Hægt er að nálgast hana ásamt fleiri efni á vald.org.

 6. Þakka góð viðbrögð.

  StjaniGunnars: Takk. Persónulega finnst mér jaðra við mannréttindabrot að hafa ekki verið mataður á undirstöðuatriðum í hagfræði í grunnskóla, eða a.m.k. menntaskóla. Við hefðum þá e.t.v. átt meiri möguleika á að átta okkur á ruglinu í kringum okkur undanfarin ár, í staðinn fyrir að afskrifa þetta bara sem hluti sem við – venjulega fólkið – skiljum ekki.

  Guðmundur: Í pistlinum hér að ofan er ég ekkert sérstaklega að tala um íslenskar aðstæður og ég er heldur ekki að segja að allar þær skuldir sem stofnað hefur verið til muni hverfa, heldur einfaldlega að þegar lántakandi getur ekki lengur greitt af láni sínu og það fellur á hann, þá hverfa ÞEIR peningar. Seðlabankinn hefur t.a.m. ekki birt tölur um peningamagn í umferð hér á landi síðan í október (tölur fyrir september). Þá var svokallað M3 (sem eru peningar í víðasta skilningi og tekur m.a. til allra skuldabréfa og annarra eigna á móti lánum) um 1.400 milljarðar króna. Mér kæmi ekki á óvart að a.m.k. 30% þessarra peninga hafi horfið með bönkunum og jafnvel meira en 50% muni hverfa þegar lán einstaklinga og fyrirtækja sem ekki geta lengur staðið við skuldbindingar sínar hafa verið afskrifuð að auki. Hins vegar er alveg spurning hvað verður um skuldirnar okkar ef ég hef rétt fyrir mér með algera uppstokkun á peningakerfi heimsins. Þangað til vísa ég á úttekt Villa Þorsteins á skuldastöðu Íslands. Það er besta og yfirvegaðasta samantektin sem ég hef enn séð um þau mál.

  Jarl og Páll: Verðtryggingin er flókið fyrirbæri. Vandinn er í raun ekki verðtryggingin sem slík, heldur það að sumt er verðtryggt og annað ekki. Ég er sjálfur ekki frá því að við værum betur sett með gjaldmiðilinn verðtryggða krónu (fyrir bæði lán og og eignir) en þá blöndu sem við höfum núna. Það væri algert glapræði að taka verðtrygginguna af núna án þess að gera um leið stórfelldar breytingar aðrar, t.d. á Íbúðalánasjóði.

  Björn Friðgeir: Ég breytti tilvísuninni á Money as Debt hér að ofan eftir þína ábendingu og reyndar fleiri. Ég horfði á Money as Debt fyrir nokkrum mánuðum síðan og hún var meðal þess sem fékk mig til að grafa dýpra í þessi mál. Hún er vissulega svolítið “samsæriskenningarleg” á köflum, en það versta (og það sé ég núna, en sá ekki þá) að hún fer ekki fullkomlega rétt með í öllum tilfellum. Grunninntak hennar stendur þó fullkomlega: peningar eru skuldir og bankar búa til peninga úr loftinu.

  Ég held að það sé tilefni til að skrifa sérstaka færslu um það hvernig nákvæmlega þessi peningaframleiðsla fer fram, hvernig seðlabankar eiga að geta haft áhrif á hana með stýrivöxtum og bindiskyldu og hvert hlutverk veða er í þessari peningaframleiðslu.

  Einnig held ég að það sé ástæða til að kafa aðeins betur í verðbólguna og hennar hlutverk í kerfinu eins og það er hugsað. Það kann að hafa verið of mikil einföldun að sleppa henni í upphaflegu færslunni, en hún var nógu löng og snúin til að byrja með.

 7. Á léttu nótunum er hér líka ein tilvitnun í Hitchhikers’ Guide to the Galaxy, sem á ágætlega við í þessu samhengi.

  “This planet has — or rather had — a problem, which was this: most of the people living on it were unhappy for pretty much of the time. Many solutions were suggested for this problem, but most of these were largely concerned with the movements of small green pieces of paper, which is odd because on the whole it wasn’t the small green pieces of paper that were unhappy.”

  🙂

 8. Sæll Hjalli

  Mig langar að koma með eitt atriði inn í þessa umræðu.

  Seðlabanki Íslands prentar peninga og ákvarðar bindiskyldu viðskiptabankana okkar. Segjum að bindiskyldan sé 10% og prentaðar íslenskar krónur eru 1.000.000. Viðskiptabankarnir fá þennan pening til útlána. En þar sem bindiskylda er þá má bankinn ekki lána nema 900.000 kr. Bankinn er þá með 100.000 kr. og má ekki lána það út.
  Gæjinn sem fékk 900.000 kr. að láni keypti bíl og bílasalinn tekur við peningnum og leggur inn í bankann. Bankinn getur nú lánað aftur út. Hann getur lánað 810.000 kr. því hann verður að halda aftur 10% af innlánum sínum. Að lokum kemur þessi 810.000 kr aftur sem innlán frá öðrum aðila og aftur getur bankinn lánað 729.000 því 81.000 kr. verður bankinn að halda eftir vegna bindiskyldu. Þetta heldur áfram og áfram og áfram. Að lokum (ef það eru einhver lok) þá er bankinn búinn að lána út í viðskiptalífið níu sinnum meiri pening en hann er í raun og veru með. Hann lánaði 9.000.000 út (getið prufað að reikna þetta t.d. 10.000 sinnum í excel) og er með 1.000.000 í bindingu vegna bindiskyldu. Bindiskyldan gerir það að verkum að grunnfé peninga (prentaðir seðlar og mynt) eru alltaf til í bönkunum.

  Þegar talað er um peningamagn í umferð þá er ekki verið að tala um grunnfé peninga. Bindiskylda bankana ákvarðar peningamagn í umferð og kallast ein tala tengdu þessu “Peningamargfaldari”

  10% bindiskylda = Peningamargfaldari 10 (1/0,1)
  50% bindiskylda = Peningamargfaldari 2 (1/0,5)
  5% bindiskylda = Peningamargfaldari 20 (1/0,05)

  Því hærri sem bindiskyldan er því minni peningar verða í umferð. Verðbólgan er t.d. háð því hversu margir peningar eru í umferð. Ástæðan er sú að, ef peningamagn minnkar þá er virði hverjar krónu meiri en áður sem leiðir til þess að þú getur keypt 2 epli nú en 1 epli áður sem þýðir að verð á epli hefur hríðlækkað, verðbólga hefur lækkað.

  Þetta er eitt af stýriverkfærum seðlabankans og þarf að fara gætilega með.

  Ég er nú líka amature í þessum fræðum þó ég hafi sótt nokkur hagfræði námskeið. Þetta eru grunnfræði sem geta verið svo miklu flóknari í practice.

  Bið að heilsa..
  Kári Georgsson

 9. Góð grein hjá þér Hjalli.

  Gott að vita að það eru menn eins og þú reiðubúnir að kafa aðeins dýpra ofan í þessi mál og gefi sér svo tíma til að upplýsa okkur hin á mannamáli. Hugvit er klárlega það sem ætti að vera að virkja hjá vorri þjóð. Skemmtileg ummæli um Hitchhikers Guide To The Galaxy hjá þér. Er svarið þá ekki bara 42 ?

 10. Ég held að fyrri ummæli mín hafi misskilist, ætla að reyna að koma þessu betur frá mér, það sem ég hef áhyggjur af eru verðtryggð innlán en ekki útlán, innlán til banka, lífeyrissjóða og ríkisins.

  Undanfarin ár hafa margir ávaxtað sparifé sitt langt umfram hagvöxt, mig grunar að mikið að þessu fé hafi leitað í verðtryggingu undanfarin misseri. Verðtryggingin á að tryggja að sömu “gæði” fáist þegar féð er tekið út og þegar féð var lagt inn.

  Hvað gerist ef það verður ekki nóg af “gæðum” afgangs á Íslandi í framtíðinni til að standa undir þessu uppblásnu verðtryggðu krónum?

 11. HEIÐARLEG VIÐSKIPTI = Þú lánar mér .flösku af brennivíni og ég borga þér 1 flösku til baka + pelal. Þú færð pelann í verðlaun fyrir að lána mér flöskuna.
  VERÐTRYGGING= Þú lánar mér flösku og vilt fá 10 flöskur til baka.ergó: ég þarf að fara í meðferð. Get ekki borgað.

 12. Guð blessi þig, Hjalli. Mjög fín samantekt hjá þér að vanda. Það þarf meira af málefnalegri gagnrýni um þessi mál – sérstaklega í ‘bloggheimum’ sem eru að drukkna í sleggjudómum og dónaskap – en einnig í heimi stjórnmálanna, sem er þessa dagana að fullur af sýndarmennsku og aukaatriðum (http://tinyurl.com/syndarmennska) fremur en heiðarlegum tilraunum til að vinna í raunverulegum vandamálum.

  ‘Money asDebt’ myndin er góð til að vekja fólk til meðvitundar (þótt hún sé ekki alveg laus við samsæris-brag) en Chris Martenson er náttúrulega klassiker.

 13. Hæ,

  Af minni takmörkuðu hagfræðiþekkingu vil ég halda fram að það sé galli (nokkuð stór) á “The Crash Course” þegar fjallað er um peningamagn í umferð að það er vísað í peningamagn út frá fólksfjölda í upphafi en síðan “virðist” frekari fólksfjölgun ekki vera höfð með í reiknignum og peningamagn eitt og sér notað.

  Það kann vel að vera að það skipti ekki öllu en mér hefði fundist það gefa réttari mynd af þróuninni að sjá þetta út frá fólksfjölgun. Ef peningar eru ávísun á framtíðarverðmæti og framtíðarvinnu þá skiptir væntanlega máli hversu margir eru “á svæðinu” til að vinna hana.

  Kveðja,
  -Stefán

 14. Ég kem inn á samhengið við fólksfjölda í færslunni hér að ofan. Fólksfjöldin HEFUR áhrif á magn raunverulegra verðmæta, en er ekki endilega ráðandi þáttur í því í samanburði við náttúruauðlindir og framleiðniaukningu.

 15. Vegna “fjölda áskorana” þá er í mjög fljótu bragði einkum tvennt sem ég vil benda á:

  Eitt af fjórum til fimm hlutverkum peninga er að vera mælieining, en það má ekki gleyma að ólíkt “föstum” mælieiningum metrakerfisins, er mælieining peninga síbreytileg. Með því að ofureinfalda má halda því fram að bankar búi til peninga en það er MJÖG mikilvægur munur á að búa til peninga og búa til verðmæti úr lofti. Að baki “peningaprentunarinnar” eru nefnilega verðmæti svo sem veð eða væntingar. Þau eru líka síbreytileg, húsnæðisverð hækkar og lækkar.

  Aukinheldur er ein forsenda sem þú gefur þér sem ég á mjög erfitt með að meðtaka: Í upptalningu á “raunverulegum verðmætum” finnst mér vanta áhrif framboðs eftirspurnar á verðmæti. Nú má vera að á Grænlandi sé besta kaffihús í heimi, en samt sem áður er dýrasta kaffibollann í heimi að finna á kaffihúsi í París. “Raunveruleg verðmæti” er því einnig háð síbreytileika mælieiningarinnar. Þannig myndi þverrandi auðlind aukast að verðmæti. Við höfum nýlega séð þetta td með olíuverð…. Í haust fór olíuverð í hæstu hæðir og er núna með því lægsta sem verið hefur, vegna áhrifa framboðs og eftirspurnar. “Raunveruleg verðmæti” eru því afstæð og sveiflast eftir duttlungum framboðs og eftirspurnar. Hlutirnir eru þess virði sem menn eru til í að borga fyrir þá og þegar menn eru ekki lengur til í að borga fyrir hluti þá eru þeir einskis virði…

 16. Takk Breki.

  Fyrri pukturinn þinn er nú í raun megininntakið í færslunni að ofan, þ.e. peningar og verðmæti eru úr takti hvort við annað. Þar erum við því sammála. Ég er hins vegar á því að það sé meðal þess sem er að kerfinu.

  Framboð og eftirspurn hafa að sjálfsögðu áhrif á verð einstakra hluta innbyrðis, en erfitt að sjá að það breyti neinu um tilurð raunverulegra verðmæta. Ef þú ert tilbúinn að borga meira fyrir kaffibolla ertu klárlega á sama tíma að borga ekki fyrir eitthvað annað og þar sem á baki greiðslunni þinni þyrftu helst að vera raunveruleg verðmæti (sem aukast ekki á sama hátt og peningar eins og við erum sammála um), þá hefur eftirspurn ekki áhrif á tilurð verðmæta. Sem sagt “afstæð” eins og þú bendir á, en bara innbyrðis – ekki í heild.

  Sömuleiðis mætti segja að ef ég væri tilbúinn að borga þér fyrir kaffibollann með fölsuðum peningum (sem klárlega hafa engin raunveruleg verðmæti á bakvið sig), þá hef ég aukið eftirspurnina eftir kaffinu þínu. Spurningin er svo hvort það eru mikið meiri raunveruleg verðmæti á bakvið hina gríðarlegu peningaprentun síðustu missera, en á bakvið falsaða peninginn minn? Ef veðin sem áttu að vera að baki þeim voru hlutabréf í eignarhaldsfélaginu sem fékk lánið (eða sem lánið var notað til að kaupa í) þá held ég varla. Samt mátti ég kaupa mér kaffi fyrir þann pening og auka þar með eftirspurn eftir því – án þess að bakvið það væru nein raunveruleg verðmæti.

 17. Góð færsla, og gott að sjá að fleiri og fleiri eru að læra um þennan grundvallar sannleika um peningana. Undarlegt að hugsa til þess að stór prósenta heimsins hefur ekki hugmynd um kerfið sem það lifir og hrærist í virkar.

  En nú er kerfið riðar til falls og almúginn fattar að það er kerfið sjálft sem er rotið. Við byrjum að hugsa um hvernig hægt væri að breyta reglunum þannig að að kerfið geti gengið án reglulegs afréttingar-hruns. Er þetta ekki rétti tíminn til að íhuga endurskoðun á að peningar=æðsta gildi samfélagsins?

 18. Góð grein skýrir ansi margt. Langar að nota tækifærið og benda á “storyofstuff.com”
  Þar er skýrt út hvernig þriðji heimurinn er arðrændur og hvernig það getur ekki gengið til lengdar hverni hagkerfi heimsins er stjórnað.

 19. Takk fyrir góða grein.

  Athugið að fólksfjöldi er, eins og hugvit, háður náttúrulegum uppsprettum, því við höfum ekki nóg til að fæða og klæða alla.

 20. Viðar: Point taken. Færslan sem þú vísar á er líka þannig skrifuð að það er erfitt að verjast henni 🙂

  Við verðum þá að bíða eftir að einhver komi og hreki það sem hér stendur að ofan á skiljanlegan hátt. Eða halda áfram að horfa á hrunið í kringum okkur sem bendir til að þetta sé nú ekki tóm steypa…

 21. Heill og sæll,

  og þakka þér kærlega fyrir að skilgreina hugtakið peningar. Ég hef lengi haldið því fram að peningar vaxi á trjám í orðsins fyllstu merkingu (enda pappír) en útskýringin á margfeldisáhrifunum var rökstuðningurinn sem mig vantaði…

  Reyndar ætla ég að breyta fullyrðingunni minni héðan af í; “skuldir vaxa á trjám”.

  Frábært framtak!

  Og ég las líka færsluna hér að ofan um nörda, sérfræðiþekkingu og hagfræði og verð nú að segja að hann hrekur ekki neitt af því sem þú segir. Í það minnsta gerir hann það ekki með neinum heimildum, heldur gífuryrðum og fullyrðingum sem hann er einmitt að gagnrýna aðra fyrir að gera… sjálfur útskýrir hann svo að þetta sé stílbragð hjá honum en um leið gerir hann öllum ómögulegt fyrir að svara skrifum hans þar sem þeir sem ekki eru sammála honum eða órökstuddum staðhæfingum hans hljóta að falla ósjálfrátt í þann flokk fólks sem hann er að gera lítið úr… nánar tiltekið fólk sem hefur ekki sérfræðiþekkingu en vill reyna að skilja hagkerfi heimsins betur. Þá finnst mér nú æskilegra að halda uppi opnum og skemmtilegum skoðanaskiptum um mál sem við viljum skilja betur 🙂

 22. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að þú fallir ekki í flokkinn sem hann er að skamma, það að kynna sér hlutina og kynna sína sýn á heiminn er aldrei slæmt! Það sem hann er frekar að bauna á eru þeir sem halda því fram að þetta sé einfalt og það sé ég hvergi hjá þér :).

 23. Sæll Hjálmar!

  Ég er hagfræðingur að mennt og þykir alltaf áhugavert að sjá hvernig aðrir skynja þessa fræðigrein okkar, tel það hjálpa okkur að þróast.

  Grein þín er fín en þó er það ekki allskostar rétt sem þú segir um peningatilbúning bankanna. Bankar geta ekki lánað peninga sem þeir eiga ekki, eða öllu heldur hafa ekki til umráða. Bindiskyldan er í raun það hlutfall innlána sem bankar taka á móti sem þeir mega síðan ekki lána aftur, meðal annars til þess að bankarnir eigi einhverja sjóði ef þeir verða fyrir áhlaupi. Eftir að tekið hefur verið móti innláninu getur bankinn síðan “búið til” peninga með því að lána þá aftur út og það ræðst síðan af bindiskyldunni hversu mikla peninga bankinn getur búið til. Ef bindiskyldan er 50% getur hann tvöfaldað peningamagnið, ef hún er 4% getur hann 25-faldað peningamagnið o.s.frv. Víða er bindiskylda ekki til staðar og þá er það hlutverk hins alvitra markaðar að hafa hemil á peningaframleiðslunni.

  En það er ekki þannig að banki geti lánað peninga sem hann hefur ekki til umráða. Þú getur ekki labbað inn í banka sem er með 0 krónur í eigin sjóðum og beðið um 20 milljón króna lán. Til þess að geta lánað þér verður bankinn sjálfur að taka lán eða eiga peningana.

 24. Sverrir: Takk fyrir kommentið. Gaman að fá einhvern sem í alvöru veit eitthvað um málið inn í umræðuna með okkur amatörunum 🙂

  Endilega leiðréttu eftirfarandi ef rangt er farið með.

  Eina uppspretta peninga er bankakerfið (ef önnur er til, þá máttu nefna hana). Peningar ERU búnir til á móti skuld einhversstaðar annarsstaðar og allar innistæður (sem þurfa að vera fyrir hendi eins og þú bendir á) urðu til sem lán einhversstaðar annarsstaðar.

  Þar sem innlánið er aldrei tekið út af bankareikningnum mínum þegar lánað er á móti því, þá URÐU TIL við það nýjir peningar. Peningamagn í umferð hefur aukist, því bæði innlánið mitt og útlánið á móti því (sem nú gæti verið t.d. innistæða hjá smiðnum sem smíðaði húsið mitt) eru talin. Og þá má banki smiðsins strax fara að búa til nýja peninga úr innistæðu hans. Þess vegna segi ég að peningarnir séu búnir til úr engu.

  Ég sagði aftur á móti aldrei að um þetta giltu engar reglur, að bankinn gæti búið til óendanlegt magn peninga, eða að hann gæti búið þá til án þess að mæta ákveðnum skilyrðum. Það er því fullkomlega rétt að banki sem á engar eignir getur ekki búið til neina peninga. Til að útvega 20 milljón króna lánið í dæminu mínu þarf bankinn þar til gert hráefni, þ.e. innistæðu annars vegar (2 milljónir m.v. 10% bindiskyldu) og lántakanda (kaupanda íbúðarinnar) til að geta búið peninginn til.

  Öruggt veð Á svo að koma á móti láninu til að á baki nýju peninginum séu einhver verðmæti. Við höfum hinsvegar séð að það hefur aldeilis verið þverbrotið undanfarin ár og á lækkandi húsnæðismarkaði eru ekki einu sinni veð í íbúðum nógu góð til að standa undir peningaframleiðslunni.

  Endilega skýrðu og leiðréttu ef þetta er ekki rétt með farið.

 25. @Sverrir Ég er mjög sammála þessu hjá þér nema hvað ég vil gera athugasemd við síðustu málsgreinina, ég vil nefnilega meina að ég geti tekið lán hjá banka sem getur ekki fjármagnað upphæðina fyrr en eftir að ég legg fram veð.

  Hér er t.d. eitt einfaldað dæmi
  1. Ég labba inn í banka og bið um lán upp á 100milljónir króna
  2. Bankinn tekur 100milljóna daglán frá Seðlabankanum
  3. Bankinn gengur frá láninu til mín gegn veði sem ég legg fram.
  4. Bankinn tekur langtímalán frá Seðlabankanum og notar til þess framsölu á veðinu sem ég lagði til.

  Hvaðan koma peningarnir sem bankinn lánar mér? Semsagt hver hafði þá til umráða á undan mér?

  Það er svo þess virði að minnast á að bindiskylda af innistæðum er 2% (50x margföldun), bindiskylda af innistæðum sem eru bundnar til 2 ára eða lengur er 0% (!)

  Ég er ekki hagfræðingur.

 26. Hjálmar: Öll verðmætasköpun er uppspretta peninga, ef dreginn er fiskur úr sjó er það uppspretta peninga einhvers staðar í heiminum en langstærstur hluti margföldunarferlisins verður til í bankakerfinu.

  Innlánið ER tekið af reikningnum þínum en alla jafna er til nógu mikið af lausafé í bankanum til þess að hann geti greitt þér út peningana þína ef vilt taka út. Ef hins vegar verður áhlaup á bankann, sbr. Icesave eða Northern Rock, eiga fæstir bankar nægt lausafé til þess að greiða öllum. Lykillinn er traust, eins og þú nefndir, en þegar traustið hverfur þá verða gerð áhlaup og bankar komast í greiðsluþrot sem er nánast örugg ávísun á gjaldþrot.

  Vonandi skýrir þetta afganginn, annars hóarðu bara :).

  Gummih: Til þess að fá daglán verður bankinn að hafa veð sem seðlabanki samþykkir.

 27. Frábær grein Hjálmar

  Mér finst ég vera á svipuðum nótum í þessu. “kjáni í hagfræði en ég er sæmilegur í rökfræði. ”
  En ég rak samt augun í nokkuð sem mér finnst ekki rétt hugsað hjá þér. En þú talar svolítið eins og að hagfræðin hafi búið til hagkerfi heimsins og að á bak við hagkerfin séu djúp og merkileg raunvísindi.
  Ég tel að hagkerfi þau sem við búum við séu til kominn fyrir tilviljanakennda þróun og að þau hafi í raun orðið til á undan hagfræðinni og þróist bara með mannskepnunni í heimi þar sem breyturnar eru óendanlega margar. Hagfræðingar nútímans sem telja sig sjá ókomna hlut eru í því ljósi svolítið eins og spámenn fyrri tíma Þar sem alltaf sprettur ein og ein upp sem getur sagst hafa haft rétt fyrir sér í ljósi samtímaatburða. Ég held hinsvegar að það séu oftast bara tilviljanir því breyturnar í jöfnunni eru óendanlega margar og vel flestar þeirra áhrifamestu eins og náttúrhamfarir og afglöp eða stjórnspeki stjórnmálamanna eru ekki einu sinni með í hagfræðikenningunum.
  í þessu ljósi er eiginlega jafn hættulegt að hlusta á aðvarannir úrtölumanna og að hlusta ekki á þær.

 28. Sverrir: En peningurinn sem var “tekinn” af bankareikningnum mínum er samt tvítalinn sem peningur í efnahag bankans og peningamagni í umferð, ekki satt?

  Þannig að það varð til “nýr peningur”.

  Hugmyndin er að bankar framleiði bara pening á móti raunverulegri verðmætasköpun eins og þú bendir á. Vandinn (sem er megininntakið í greininni að ofan) er að verðmætasköpun er mjög teygjanlegt hugtak. Bankakerfið virðist t.d. hafa talið undanfarið að verðmætasköpun ætti sér stað í allskyns eignarhaldsfélögum og öðrum stöðum í fjármálakerfinu sjálfu og framleitt peninga á móti því, með þeim afleiðingum sem við erum að sjá.

  Ég held að við séum að segja sama hlutinn, bara á mismunandi hátt 🙂

 29. Guðmundur: Takk. Svo það sé sagt, þá held ég því ekki fram að hagfræði sé raunvísindi, en er að ýja að því að hún ætti kannski að vera meira í þá áttina.

  Sammála því að núverandi hagkerfi er afleiðing af röð tilviljana, með einhverjum inngripum hagfræðinga og stjórnmálamanna.

 30. Sennilega erum við að segja það sama, verðmætasköpun bankakerfisins getur verið svolítið tvíræð svo ekki sé meira sagt en þá er traustið lykillinn að öllu. Nú ríkir ekkert traust, hvergi, og því er ástandið í heiminum eins og það er.

  Peningamagnsmælingarnar eiga að dekka efnahag bankanna, þekki reyndar ekki tæknilegu atriðin hvað varðar flutning á milli landa (frjáls flutningur fjármagns yfir landamæri er breyta sem flækir þetta einn meira), þannig að tvítalning á ekki að eiga sér stað.

  Hins vegar verður til nýr peningur vegna þess að þú leggur pening inn í bankann og tekur lán. Kannski hefur bankinn meira að segja verið að lána þér þína eigin peninga ;).

 31. Þetta með traustið er einmitt svolítið skemmtilegur punktur, þetta er (ein helsta) ástæðan fyrir ofuráherslu bankamanna á vel smurða framkomu, íburð í fasteignum og fleira. Tilfinningin sem fólk þarf að hafa er að þarna sé til endalaust af peningum (sem er svo misrétt niðurstaða).

 32. hvet ykkur að fara á googlevideo.com og horfa á zeitgeist addendum myndina
  þar eru hlutirnir skoðaðir frá víðu sjónarhorni

 33. Góð úttekt Hjalli, ég komst að nákvæmlega sömu niðurstöðu og þú eftir að hafa kynnt mér þessi “how to make/fake money” fræði.

  Ég sé a.m.k. 4 “nýjar” leiðir til að búa til peninga sem voru ekki við lýði fyrir afnám gullfótarins.

  – ríkið hefur farið að prenta peninga í gegnum Seðlabankana til að standa straum af stórum verkefnum (eða feika hagvöxt)
  – peningar hafa orðið til með lánveitingum hjá fjármálastofnunum, og eins og þið bendið á vaxa peningarnir í veldishlutfalli
  – hlutabréfamarkaðurinn bjó til “væntingapeninga” þ.e. gengi hlutabréfa endurspeglaði ekki verðmæti heldur (óraunhæfar) væntingar. Þessi “væntingaverðmæti” voru svo notuð sem veð gegn lánum (tvöfalt hókuspókus a la Sterling)
  – greiðslukortafyrirtæki búa til peninga með skammtímalánum, vanalega greitt við næstu mánaðarmót, en í USA gátu menn safnað “unsupervised” langtímaskuldum með nógu mörgum (veltu) kreditkortum.

  Allt þetta gengur gegn gömlu hagfræðilögmálunum um að peningamagn í umferð verði að endurspegla verðmæti í þjóðfélaginu og að kerfið leiti í jafnvægi (sic).

  Það sem mér finnst óhugnarlegast við þetta allt, er að fólk er neytt til að borga fyrir tilbúnu peningana með alvöru peningum (og það er engin leið að þekkja muninn).

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s