Blessað bankahrunið

gegnsæiÉg hef ýjað að því alveg frá því á fyrstu dögunum eftir hrun, en ég verð sífellt vissari í minni sök: Mikið óskaplega höfðum við gott af þessu bankahruni.

Þjóðfélagið var orðið fársjúkt og það virðist sama hvar stungið er á sárin, alls staðar vellur gröfturinn út. Viðskiptalíf og stjórnmál hafa auðvitað alltaf verið samofin á Íslandi, en síðustu ár virðist sá vefnaður hafa tekið á sig nýjar og ljótari myndir. Kolkrabbar og smokkfiskar eru eftirsóknarverð gæludýr við hliðina á þeim sem virðast hafa gengið hér laus.

Líklega hefur þetta gerst í einhverskonar viðleitni stjórnmálaaflanna til að halda í völdin í breyttum heimi – heimi sem þau breyttu sjálf. Stjórnvöld hverra stefna átti að standa fyrir “frelsi til athafna” og minnkandi afskipti ríkisins, voru ekki staðfastari í trúnni en svo að undir þeim þöndust umsvif ríkisins út, skattheimta jókst (jú víst: hlutfall fjárlaga af þjóðarframleiðslu hefur farið stighækkandi allar götur síðan 1980 og líklega mun lengur). Frelsi til athafna hefur reyndar verið mjög rúmt – helst til rúmt reyndar – hjá þeim sem velþóknun hefur verið á.

Til að byrja með virðast menn hafa haldið að þeir gætu stjórnað umræðu og atburðarás eftir bankahrunið eins og hverri annarri – enda þaulvant fólk á ferð: Höldum okkar striki – engin þörf á iðrun eða yfirbót. Afsökunarbeiðni er veikleikamerki. Gerum ekki neitt og vandamálið hverfur. Álver og virkjun stoppa í gatið. Aukum þorskkvótann. Finnum olíu. Biðjum góðan Guð um að blessa okkur.

En í þetta sinn voru afglöpin of stór og skrattinn er við það að verða laus. Allskyns rannsóknarnefndir sem sumar hverjar eru m.a.s. skipaðar “röngu fólki” – jafnvel útlendingum – hafa nú aðgang að allskyns skjölum og krafan um gegnsæi og heiðarleika er að verða býsna óþolandi. Það er meira að segja talað um að það sé göfugt að kjafta frá hlutum sem gætu skipt máli. Einhverjir eru m.a.s. farnir að gera það. “En þá gæti sannleikurinn komið í ljós!” Það má auðvitað ekki undir nokkrum kringumstæðum gerast.

Styrkveitingar til Sjálfstæðisflokksins í lok árs 2006 eru bara toppurinn á ísjakanum. Ímyndið ykkur hvað á eftir að koma í ljós þegar menn fara að skoða í kjölinn hvernig staðið var að einkavæðingum síðustu tveggja áratuga, þegar fjármál í prófkjörsbaráttu verða skoðuð, þegar hagsmunatengsl byggingarfyrirtækja og skipulagsyfirvalda verða skýrari, þegar bókhald áranna 2000-2005 verður opnað. Já eða 2008 – það væri nú a.m.k. fróðlegt að sjá það.

Einhvernveginn grunar mig að það séu fá stjórnmálaöfl sem einhver völd hafa haft sem munu koma alveg hrein útúr þessari lúsaskoðun. Það virðist bara enginn átta sig á því að fólk er tilbúið að fyrirgefa, það vill bara sjá iðrun og heyra sannleikann. Sá flokkur sem kemur fram að fyrra bragði og segir okkur allar svæsnu sögurnar af sjálfum sér er sá sem við eigum eftir að treysta mest hér eftir. Því verra því betra – eða þannig. Stigiði fram og segið: “Sjáið allan skítinn okkar – svona vorum við, en nú höfum við sagt skilið við það fólk og þær hugmyndir og horfum fram á veginn”. Þetta mun kalla á frekari játningar og frekari mannfórnir, en það er ekki hægt að ganga “hreint til verks” með skítinn upp á bak.

Framsókn var næstum búin að fatta þetta, enda líklega með eina erfiðustu fortíðina. Skipti um forystu, lofaði góðu, en svo var kippt í gamla þræði sem augljóslega lágu víða um flokkinn og þoldu ekki of miklar breytingar. Þeirra tækifæri liggur samt í uppgjöri við fortíðina, þeir gætu líklega ennþá skorað ein 10% með stórsókn í heiðarleika.

Aðalatriðið framundan er auðvitað uppbyggingin. En við vitum ekki hverjum við getum treyst fyrir þeirri uppbyggingu með okkur. Þeim flokki sem gerir upp fortíðina með mest afgerandi hætti er trúandi til að standa að uppbyggingu sem byggir á nýjum gildum: gegnsæi, heiðarleika og trausti. Þessar kosningar snúast varla einu sinni um stefnu, bara að finna einhvern sem maður treystir nokkurn veginn að sé ekki fyrst og fremst að hugsa um eigin hag.

Fyrir þá stjórnmálamenn sem fatta það ekki núna, verður fallið bara stærra seinna. Stjórnvöld og fólkið í landinu þarf að vera saman í liði við að byggja upp – annars gerist hér aldrei neitt. Gamla pólitíkin er búin að vera: málþóf, andúð á hugmyndum annarra og hannaðar atburðarásir eru svoooo “fyrir kreppu” (f.k.)

Ég hef sagt útlendingum frá því að á Íslandi sé stundum talað um “Blessað stríðið” til að útskýra fyrir þeim hvers konar grundvallarbreytingar seinni heimsstyrjöldin hafði á íslenskt samfélag. Stríðinu fylgdi hér gríðarleg lífskjarabót og Ísland náði á örskömmum tíma svipaðri stöðu og þjóðirnar í kringum okkur sem ekki svo löngu áður höfðu virst heilli öld á undan okkur.

Ég ætla að leyfa mér að spá því að innan tíu ára verði farið að tala um “blessað bankahrunið” og þær góðu breytingar sem það hafði í för með sér, þegar Ísland tók forystu í gegnsæi og heiðarleika eftir “móralskt stríð” undangenginna ára.

3 comments

  1. Enn og aftur hittir þú naglann á höfuðið Hjalli.
    Það væri gaman að sjá einhvern af gömlu flokkunum taka af skarið í heiðarleika og stefnumótun.
    Í staðin virðast þeir bara vilja klára þessar kosningar sem fyrst án þess að lofa neinu né breyta.

  2. Takk fyrir gódan pistil.
    Vona ad thú hafir rétt fyrir thér med sídustu málsgreinina 🙂

  3. Heilmikið til í þessu, það er ákveðið hreinsunarferli í gangi sem var að mörgu leiti fyrirsjáanlegt og óumflýjanlegt. Vonandi lærum við af þessu í stað þess að sökkva aftur í freistingar og ofureyðslu þegar betur árar og vonandi þurfa þeir sem ekki skulda að borga of mikið. Og mig langar að bæta við að þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Ísland gengur í gegnum erfiða tíma þó okkar kynslóð hafi aldrei séð neitt nema uppgang. Foreldrar okkar hafa upplifað ýmislegt, t.d. óðaverðbólgu, 11% verðtryggð lán, horfna síld, omfl. Þetta er heldur ekki í fyrsta sinn sem við fáum lán hjá Alþjóða Gjaldeyrissjóðnum, eða rífumst við Breta. Við þurfum að taka á því næstu árin en við skröltum í gegnum þetta.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s