Hægrimaður velur Vinstri Græn

picture-2Ég hef alltaf haft þann djöful að draga að þurfa að mynda mér mínar eigin skoðanir og geta ekki bara fylgt einhverri línu.

Gróft á litið aðhyllist ég kapítalisma og frjálshyggju þó ég hafi efasemdir um þær útfærslur sem beitt hefur verið síðustu áratugi. Ég trúi því samt að með breytingum og aðlögun muni þessar grunnstefnur mæta öðrum helstu lífsgildum mínum, þ.e.: jafnrétti, heiðarleika og varfærinni nýtingu náttúruauðlinda.

Þegar liðið hefur að kosningum hef ég reynt að átta mig á því hvaða flokkur eða framboð mér finnst líklegastur til að veita þessum lífsskoðunum mest brautargengi. Að vandlega íhuguðu máli, þá sýnist mér að í kosningunum eftir viku sé atkvæði mínu best varið til VG! Hvernig í ósköpunum má það vera?

Hér er smá úttekt á þeim kostum sem ég tel yfirhöfuð koma til greina, svona nokkurnveginn í vinsældaröð eins og hún er í kollinum á mér núna:

  • Sjálfstæðisflokkurinn: Þetta er flokkurinn sem ég kaus í allmörgum kosningum eftir að ég yfirhöfuð fór að fylgjast með pólitík. Í orði er þetta líklega sú stefna sem liggur næst mínum lífsskoðunum: Frjáls markaður, lágir skattar, lítil ríkisumsvif o.s.frv. Í verki hafa Ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks bara alls ekki sýnt þetta – satt að segja bara þvert á móti. Vitlaus stefna í atvinnu- og peningamálum síðustu ár, aðgerðaleysi í kjölfar hrunsins, viljaleysi til að horfast í augu við eigin mistök, hagsmunapot, baktjaldamakk og sterkar vísbendingar um hreina spillingu útiloka flokkinn alveg núna og þangað til hann tekur duglega til í sínum ranni. Ég gafst upp á þeim útaf Árna Johnsen á sínum tíma. Það mál gaf einfaldlega merki um að það væri eitthvað miklu meira að þarna, eins og síðar hefur komið á daginn. Loks er mannvalið bara alls ekki sannfærandi núna – þrátt fyrir einstaka undantekningar.
  • Framsóknarflokkurinn: Á tímabili í upphafi árs var ég á því að hér væri virkilega eitthvað gott að gerast. Ný forysta, ferskur og sannfærandi, nýr leiðtogi og loforð um breytingar. Eini gallinn var mjög svo vafasöm fortíð flokksins: Framsóknarflokkurinn var enn Framsóknarflokkurinn, sem síðan hefur einmitt komið á daginn. Þetta er enn sami gamli flokkurinn og breytingarnar engar. Þetta sannaðist endanlega þegar nýr formaður gat ekki einu sinni fylgt eftir áskorun í beinni útsendingu til eigin flokksmanns um að veita innsýn í prófkjörsbókhaldið sitt. Hann var þá ekki leiðtogi eftir allt saman. Og hvað var að gömlu Framsókn? Íraksstríðið, stóriðjustefnan, Alfreð Þorsteinsson, Finnur Ingólfsson, S-hópurinn, Orkuveitumálið, … á ég að halda áfram?
  • Borgarahreyfingin: Eina ferska blóðið í framboði. Það eitt og sér er stór kostur, en því miður ekki nægjanlegt. Margt gott í stefnunni, en ef til vill fullmikil reiði í gangi. “Frysting á eignum grunaðra auðmanna” er hugarfar sem hræðir mig. Það eru þegar ákvæði í lögum um frystingu eigna við rannsókn sakamála og þeim verður að sjálfsögðu beitt innan þess ramma sem þar býðst. Niðurfærsla vísitölu, afnám verðtryggingar og upptaka annars gjaldmiðils eru allt hlutir sem fólki finnst gott að heyra, en eru mjög flókin mál sem þarf að nálgast með mun meiri varfærni en fram kemur í stefnu flokksins. Ég er ekki viss um að frambjóðendur þeirra, sem upp tilhópa eru strangheiðarlegt og ágætt fólk, hafi fullkominn skilning á því hvaða vandamál er þar við að etja.
  • Samfylking: Flokkurinn sem ég myndi kjósa ef ekki væri fyrir tvennt: Samþykkt laga um fjárfestingasamning vegna álversins í Helguvík og afdráttarlausa afstöðu flokksins til Evrópusambandsins.

    Ef síðustu 5 ár hafa kennt okkur eitthvað, er það hversu óholl óhófleg áhersla á einstök verkefni eða greinar getur verið. Álversframkvæmdirnar fyrir austan settu af stað atburðarásina sem styrkti krónuna, blés út bankana og sprakk svo fyrir hálfu ári síðan. Eftir stöndum við með sama kaupmátt og fyrir framkvæmdirnar (og fallandi), margfalt meira atvinnuleysi (og vaxandi), miklu meiri skuldir (og óvissu), gjaldmiðil í henglum og það að 80% af raforkuframleiðslu okkar (og vaxandi) fara í starfsemi sem við erum að öllum líkindum að borga með þessi misserin. Á sama tíma náði önnur heilbrigð uppbyggingarstarfsemi ekki að njóta sín. Með Helguvík og Bakka er eins og menn ætli að lækna sárið á hálsinum með sömu fallexinni og Samfylkingin í þetta sinn í broddi fylkingar. Jæks!

    Í Evrópumálunum er ég efasemdamaður. Ekki andvígur, en afar varkár. Ég er ekki einu sinni sannfærður um að það sé rétt að fara í aðildarviðræður til að skoða hvað er í boði á meðan við erum “hnípin þjóð í vanda”. Við munum þurfa að komast upp úr mestu lægðinni á eigin spýtur og þó að stefnan inn í Evrópusambandið eyði etv. einhverri óvissu núna, þá munum við ekki fá að ganga þar inn fyrr en við þurfum ekki lengur á því að halda. Þegar þar að kemur eru framtíðarhorfur okkar bjartar hvort sem er utan eða innan sambands og það hversu ólíkt Ísland er Evrópu almennt (ég læt mér nægja að nefna aldurssamsetningu og auðlindir) fær mig til að efast um að okkar hag sé best borgið þar. Reyndar hef ég, eins og sagt var í upphafi, efasemdir um framtíð þeirrar tegundar hagfræði sem stunduð hefur verið um nær allan heim síðustu áratugi og held því að Evran eigi sér ekki framtíð frekar en aðrir gjaldmiðlar þeirrar stefnu. Evran er því slæm sem meginrök þess að ganga í sambandið.

    Loks þykir mér Samfylkingin hafa komist fulllétt frá þeirri ábyrgð sem hún ber sem annar tveggja stjórnarflokka í lokaaðdraganda hrunsins, þegar enn voru ótal tækifæri til að lágmarka skaðann.

  • Vinstri Græn: Ég er sammála þeim í málefnum stóriðjunnar. Ég er sammála þeim í Evrópumálum. Ég er meira að segja sammála þeim í málum sem einu sinni skiptu mig miklu máli eins og varðandi aðskilnað Ríkis og Kirkju. Ég er samt í grófum dráttum ósammála vinstri mönnum almennt og þar með mjög mörgu í stefnu VG, en ég treysti þeim og þau eru heiðarleg. Katrín Jakobs og Steingrímur Joð eru einu stjórnmálamennirnir sem hafa “gerst sekir” um það að segja óþægilegan sannleikann eins og hann blasir við og það met ég ósegjanlega mikið. Þetta gefur mér fyrirheit um nýja tíma í stjórnmálum – tíma gegnsæis og heiðarleika.

    Heimurinn er orðinn býsna öfugsnúinn þegar það þarf vinstra fólk til að taka til í ríkisfjármálunum eftir þenslu og hagstjórnarmistök hægri manna! En þannig er það og ég held að þau séu rétta fólkið til þess. VG mun komast upp með að lækka laun ríkisstarfsmanna, sem er mildasta og um leið áhrifaríkasta aðgerðin til að skera þar niður til skemmri tíma. Sjálfstæðisflokkurinn myndi aldrei geta það. Ekki þarf að óttast aukningu ríkisumsvifa þar sem þau eru nær alger eftir þjóðnýtingu bankanna í haust hvort eð er.

    Ég viðurkenni að ég er hræddur við gífuryrði Atla Gíslasonar um aðgerðir gegn auðmönnum og óttast Lilju Mósesdóttur sem helsta hugmyndafræðing þeirra í peningamálum. Ég er heldur ekki sáttur við barnalega afstöðu Guðfríðar Lilju og Kolbrúnar Halldórsdóttur í mörgum málum, en það er að mestu skaðlaust. Flokkurinn sem verður með þeim í stjórn mun vonandi forða okkur frá stærstu axarsköftunum.

    Að lokum má hugga sig við það að næsta Ríkisstjórn mun áreiðanlega ekki endast meira en eitt kjörtímabil – ef hún þá nær því – og þá verður að öllum líkindum orðin dugleg endurnýjun í pólitíkinni í heild. Þá getur maður mögulega kosið eitthvað sem manni raunverulega hugnast!

Sem sagt: X-V og beita útstrikunarpennanum óspart.

Svo mörg voru þau orð. Nú er það ykkar að snúa sannfæringu minni 🙂

49 comments

  1. Ég verð að segja að ég er mjög sammála þér á heildina litið. Reyndar hef ég aldrei kosið Sjálfstæðisflokkinn og alltaf verið einhver flökkukind milli hinna flokkana. Árni Johnsen ætti að hafa verið næg ástæða fyrir fylgjendur þess flokks að breyta um skoðun. Og núna ‘mútu’-málin. Hinsvegar er ég ekkert heldur 100% ánægð með kosningamál og lista nokkurra hinna flokkanna en kannski verður maður það aldrei?

  2. Góð samantekt. Mér finnst reyndar afstaða vinstri grænna til Evrópusambandsins jafn afdráttarlaus og Samfylkingarinnar (nema í hina áttina) þannig að ég skil ekki alveg þá röksemd þína þe. varðandi afdráttarleysið.

    Mér finnst skemmtilegt þetta trend að gera opinberlega grein fyrir atkvæði sínu og hvernig menn komast að þeirri niðurstöðu (sbr líka http://trigger.is)

  3. Sæll. Skondið að lesa þetta. Ég kaus einmitt VG utankjörstaðar núna fyrir nokkrum dögum, í fyrsta sinn. Sammála þér í flestu og skil ekki fylgi Samfylkingar í ljósi þess að kjósendur eiga að refsa fyrir hegðan sem sýnd er á fyrstu mánuðum kreppunnar þegar Samfylkingin gerði allt sem hún gat til að pota áfram sínum eigin málum í stað þess að fókusa á að lágmarka skaðann, sbr. Evrópumálin og þrýstinginn sem hún reyndi að setja á Flokkinn í kringum jólin.

    kv.

    Benni

  4. Alveg til fyrirmyndar hvernig þú hugsar þig skipulega og málefnalega í gegn um þetta. Það væri nú gott ef allir gerðu slíkt hið sama.

    En auðvitað er ég ekki sammála niðurstöðunni, mér finnst eina trúverðuga framtíðarsýnin og lausnaáætlunin í dag vera leið Samfylkingar inn í ESB og upptaka evru. Ég held að það sé fullkomlega óraunsætt að ætla að halda áfram í krónuna, og við þurfum að losna út úr verðtryggingu, hávöxtum og almennum óstöðugleika í efnahagsmálum þannig að fyrirtæki geti farið að hugsa um framtíðina í staðinn fyrir gjaldeyrisvarnir.

    Vinstri grænir hafa ýmsu góðu og heiðarlegu fólki á að skipa, en þar eru líka óttalegir rugludallar og lýðskrumarar inni á milli sem myndu rústa atvinnulífi endanlega og eyðileggja réttarríkið ef þau fengju að ráða. Þannig að maður yrði að treysta því, eins og þú segir, að aðrir verði til þess að halda því fólki í öruggri fjarlægð.

  5. Sæll Hjalli og takk fyrir síðast. Ekki er víst þú munir það nema ég fríski upp á minnið. Við áttum ágætt spjall saman um mitt ár 2006 um mögulega vinnu í kringum Spurl/Ja.is á þeim tíma. Ég er í dag hjá Calidris sem er besta fyrirtæki landsins í dag.

    Nú er ég búinn að lesa röksemdafærsluna þína nokkrum sinnum, fyrst vegna þess að ég hef verið að glíma við sama vandamál og þú og svo margir, hvað ég eigi að kjósa, og svo líka vegna þess að ég fann mig ekki sammála þó nokkru í röksemdunum. Kannski ég reyni að snúa þér af villu vegar.

    Það er rétt að taka tvennt fram. Saga mín varðandi kosningar er sú að ég hef kosið Alþýðuflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn, ég kaus að greiða ekki atkvæði á meðan ég bjó erlendis og taldi mig ekki hafa næga innsýn til þess að réttlæta notkun atkvæðisins. Aðra flokka hef ég ekki kosið. Hitt er að þrátt fyrir að vera alinn upp í umhverfi röksemda, vísindalegra hugsana og útilokun tilfinninga og að hafa lokið námi í verkfræði og tölvunarfræði, þá er ég kominn á þá skoðun að tilfinningar spili verulega stórt hlutverk í pólitík og þá sérstaklega í því ástandi sem skapast hefur og er viðvarandi í dag. Ég er til dæmis tilfinningalega alfarið á móti inngöngu í ESB, tel okkur ekkert erindi eiga þar inn, tel það tímasóun að eyða í það tíma að sækja um og tel þessar tilraunir til stofnunar stórríkis stórhættulegt sem mun enda með menningarlegu stórslysi.

    Ég skal skrifa sér greinu um ESB en taldi rétt að þetta kæmi fram þar sem þetta hefur líklega veruleg áhrif á mínar skoðanir.

    Snúum okkur að röksemdafærslunni þinni. Ég skal reyna að hafa þetta stutt.

    Sjálfstæðisflokkurinn: Að mestu leyti sammála. Sjálfstæðisflokkurinn hefur einfaldlega ekki staðið sig í fylgja sinni grundvallarstefnu um frjálsan markað, lága skatta og minni ríkisumsvif heldur þvert á móti. Þarnast endurnýjunar.
    Framsóknarflokkurinn: Hér er ég alfarið ósammála þér. Þín einu rök virðast vera að Framsóknarflokkurinn hafi verið slæmur. Mesta raunverulega endurnýjunin hefur átt sér stað í

    Framsóknarflokknum. Fyrstu og nánast einu tillögurnar (hvort sem fólk sem sammála þeim eða ekki) komu fram fyrir margt löngu frá Framsókn. Fullyrðingin um að þetta sé sami flokkurinn er fullyrðing án nokkurra röksemda. Enginn flokkur mun verða samur eftir það sem undan er gengið síðustu mánuði. Formaðurinn talar af skynsemi og ábyrgð .

    Borgarahreyfingin. Sammála þér að mestu. Vil þó bæta við að einstaklingarnir í framboði hafa ekki boðið af sér góðan þokka og talanda sem má kannski skýra með reynsuleysi en ég get bara ekki kosið reitt fólk sem getur ekki komið skoðunum sínum almennilega á framfæri. Hættulega einfeldningslegt framboð.

    Samfylkingin. Hér ertu með skrýtna yfirlýsingu. Þú myndir kjósa Samfylkinguna ef ekki væri vegna stuðnings hennar við álversframkvæmdir annars vegar og afdráttarlausa afstöðu til ESB. En þetta er allt sem Samfylkingin er í dag . Hún stendur nánast ekki fyrir neitt annað í dag en inngöngu í ESB. Ég held að þú hafir átt við að ef Samfylkingin væri það sem stefnuskrá flokksins lýsir yfir, jöfnuður og velferð og þess háttar þá myndir þú kjósa þennan flokk. En Samfylkinguna rak alvarlega af leið og lýsir því einfaldlega yfir við öll tækifæri að hún vilji bara leysa allan vanda með því að láta ESB taka við stjórn landsins. ESB bjargar okkur er í raun það sem heyrist.

    Vinstri Græn. Í grundvallaratriðum ertu ekki sammála forsjárhyggju VG and leitar að atriðum þar sem þú ert þeim sammála vegna þess að þér finnst þú ekki geta kosið neitt annað. Hér er kannski mest að ráða för heyrist mér tilfinningar þínar varðandi ESB og stóriðju. Þú ert samt hræddur við VG eins og berlega kemur fram.

    Ég tel fullyrðinguna um að álversframkvæmdir hafi sett af stað atburðarásina ekki standast því jafnvel þótt við hefðum ekki farið í þær farmkvæmdir bendir allt sem upp er komið til þess að bankarnir hefðu samt sprungið og farið létt með það.

    Í raun held ég að niðurstaðan úr endurskoðaðri grein þinni ætti að vera sú að þú kjósir Framsóknarflokkinn, svo framalega sem þú lætur ekki gamlar syndir þess flokks ráða ferðinni. Það gæti verið ásættanlegt að ganga í ESB ef öllum skilyrði Framsóknarflokksins eru uppfyllt í samingum. (Ég myndi samt ekki vilja ganga í ESB þó svo væri ☺ ) Framsóknarflokkurinn styður jú núverandi virkjana og álversframkvæmdir sem mikla vinnu er búið að setja í en ekki þar með sagt að áframhald á slíkum verkefnum þurfi að verða enda líklega nóg komið í slíkum efnum.

    Ég tel sem sagt að þú þurfir að íhuga málin betur.

    Kveðja,

    Jón Árni.

    PS. Ég er EKKI búinn að ákveða hvað ég kýs.

  6. Fínn pistill.

    Ég kaupi ekki and-samfó rökin þín, held það sé illskárra að standa við einhverja gerða samninga fyrri stjórna en að henda þeim út. Að vísu er enginn að fara að byggja þetta fokking álver, en samt.

    Svo finnst mér kominn tími á fyrir löngu að sækja um aðild að Evrópusambandinu – og held reyndar að við getum vel staðið á því að vera ekki “Hnípin þjóð í vanda”, heldur í sóknarhug. Síðan kemur bara í ljós hvað hangir á spýtunni og þá geta menn tekið upplýsta afstöðu. Held að það væri skynsamlegt að gera þetta þó ekki væri nema til að losna undan “Það verður allt æðislegt/Nei, þeir koma og sækja fiskinn og sætu stelpurnar” kvakinu.

    Jón Árni hefur ágætis punkta, en raunveruleiki Framsóknar er dálítið öðruvísi en kosningastefnan. Þeir sem komast munu á þing fyrir Framsókn eru önnum kafnir við að sverja af sér alla stefnuskrá nýju Framsóknar, þannig að þeim er í engu treystandi til að framfylgja henni ef þeir slysuðust til valda. Eini maðurinn sem er öruggur inn og berst fyrir stefnunni er Birkir Jón – og benda má á að þar skorar Framsókn hæst.

  7. Eftir því sem ég les fleiri af mörgum þeim ágætlega undirbyggðu skoðunum sem koma hér fram, verður erfiðara að ákveða sig endanlega. Það er þessi tendens í manni að vera “sammála síðasta ræðumanni”
    Get farið okkra hringi í viku ennþá!

  8. Villi og Tóti: Ég þarf sennilega að útskýra efasemda-Evrópu rökin mín aðeins betur. Ég er bara hreint ekki bjartsýnn á framtíðina fyrir hönd Evrópu og tel mig hafa fyrir því ýmis rök, s.s. aldurssamsetningu, ósjálfbærni í orku- og öðrum auðlindamálum og fleira. Ég hef ekki einu sinni góðar bifur á ESB eins og það er í dag: tollamúrar í viðskiptum, skrifræði, hægferð og umfangsmikil stjórnsýsla. Jafnframt mun ESB alltaf ganga erinda stærstu þjóðanna og algengustu hagsmuna þegnanna fyrst og fremst og Ísland er svo ólíkt Evrópu að ég óttast að það muni oftar en ekki koma okkur illa.

    Ég vil s.s. ekki ganga inn í samband sem ég hef ekki trú á og nenni ekki að vera hluti af því í fallinu sem ég held að það muni taka innan fárra áratuga.

    Ég átta mig á að þetta er líklega jaðarskoðun og mun því ekki standast í ykkar augum.

    Sama gildir líklega um skoðun mína á Evrunni varðar, en ég hvet ykkur – hugmyndaríka og vel gefna vini mína – til að þið koma með frjóari lausnir en Evruna. Ég tala nú ekki um ef það eru meginrökin fyrir því að ganga í Evrópusambandið. Evran er mynt af gamla skóla hagfræðinnar, þeim skóla sem er að bíða alvarlegt skipbrot og við erum búin að prófa hann. Það þarf miklu róttækari hugsun í þessum málum. Ef mönnum tekst að blása enn einu sinni í ónýta hagblöðruna með þeirri peningaprentun sem er í gangi í heiminum í dag er framundan óðaverðbólga í nær öllum myntum. Við erum líka búin að prófa það.

    Jón Árni: Ég kaupi ekki þín rök um að ég sé framsóknarmaður. Flokkurinn hefur ekki sagt skilið við gömlu stefnuna, enn eru sömu jálkarnir að toga í spotta og framsókn þorir ekki að gera upp við fortíðina og klippa á þessa spotta. Upp með bækurnar, opna allt, viðurkenna mistök og útskýra fyrir okkur hvernig þeir eru öðruvísi núna – og ég mun kannski fara að fá trú á þeim. Samfylking á reyndar dálítið í land í þessu líka, en hefur – held ég – ekki jafn margt að fela.

    Ég er sammála þér í því að bankarnir hefðu líklega gert mikla skandala þó ekki hefði verið ráðist í álversframkvæmdirnar fyrir austan, enda hafa ríkisbankar næstum hvergi í heiminum verið einkavæddir án þess að því fylgi a.m.k. eitt massíft hrun í kjölfarið. Stóriðjuþenslan ýtti hins vegar undir spákaupmennsku með krónuna sem styrkti hana og bjó til mikið af “gervipeningum” sem bankarnir margfölduðu og tútnuðu út af, þannig að bólan hefði aldrei orðið nándar nærri eins stór né fallið jafn hátt ef ekki hefði verið fyrir þessa alltof stóru framkvæmd. Hvet þig til að horfa á innleggið mitt úr Silfrinu ef þú vilt fá rök IMF og annarra fyrir þessu á mannamáli.

  9. Skítt með gerða samninga, Alþingi getur ómögulega verið bundið af undirskriftagleði iðnaðarráðherra til þess að samþykkja lög. Þessir fjárfestingarsamningar vegna Reyðaráls og Helguvíkur eru sennilega það ömurlegasta sem ríkisstjórnir síðustu ára skilja eftir sig. Hvernig má það vera að það sé þetta lítil umræða í samfélaginu um lagasetningu þar sem eitt fyrirtæki fær sérdíl varðandi opinber gjöld, þ.á.m. vernd gegn skattahækkunum í marga áratugi?

    Ég hef ekkert á móti áliðnaðinum sem slíkum, ef þessi fyrirtæki geta stofnsett sig hér á landi á sömu forsendum og allir aðrir og án sérstakrar fyrirgreiðslu þá eru þau velkomin. En sagan sýnir bara að það virðist ómögulegt.

    Ég er til í að kjósa þann flokk sem stendur í lappirnar á móti þessu rugli. jafnvel þó að það sé VG.

  10. Ég treysti ekki Framsókn, held þeir detti í sama farið um leið og þeir hafa fylgi til þess. Vinstri Græn eru heiðarlegasta fólkið í framboði núna. Það fleytir þeim ansi langt hvað mig varðar. VG er líka sósíaldemókratískur flokkur ekki sósíalískur eins og margir virðast óttast.

  11. Flott greining og flott pæling fyrir utan ESB málin !

    Sammála Tóta kl.16.53
    Sammala Ketill kl.22.57

    Við held að við ættum að hiklaust að fara í aðildarviðræður og taka þannig upplýsta ákvörðun sem þjóð, alls ekki að láta fáeina stjórnmálamenn eina um þau mál.

    http://www.sammala.is

  12. Ég held að fólk ætti aðeins að skoða málin betur þegar það dæmir Framsókn

    Staðreyndin er sú að það er mjög auðvelt að segja að þetta sé ennþá sami spillingarflokkurinn og tengslin séu ekki rofin.
    Samt virðist fólk ekki geta fært rök fyrir því.
    Það er líka mjög fyndið að fólk skuli alltaf tala um S-hópinn og Framsókn, sérstaklega vegna þess að S-hópurinn alræmdi styrkti Samfylkinguna mikið meira en Framsókn árið 2007.

    Sjálfur er ég 6. maður á lista Framsóknar í suðurkjördæmi.
    Ég hef aldrei hitt Finn Ingólfsson né neinn af þeim sem oftast eru nefndir.

    Ég tel mig vera heiðarlegan og ég tel Sigmund Davíð vera það líka. Þess vegna bið ég fólk að hætta að dæma aðra af gjörðum skyldmenna þeirra.
    Dæmið mig frá mínum verkum.
    Eða er það frekja og hreinn og beinn bjánaskapur?

    Það er kannski rétt að taka það líka fram að það er búið að biðjast afsökunar á stuðningi við Íraksstríðið, sem ég harma mjög að hafi verið gert, en Jón Sigurðsson, þáverandi formaður, gerði það árið 2007.

    Einnig hefur Sigmundur Davíð beðið afsökunar á hluti Framsóknar á einkavæðingu bankanna.

    Fólki virðist ekki finnast þetta nóg, en hvað meira getum við gert? Við getum ekki breytt því sem orðið er, því miður, en við ætlum að leggja okkar af mörkum til þess að bæta ástandið.

    Með von um að fólk gefi okkur tækifæri og dæmi okkur af eigin gjörðum, en ekki gjörðum forvera okkar

    Einar Freyr Elínarson
    6. maður á B-lista Framsóknar í suðurkjördæmi

  13. Skil ekki hvernig fólk fær það út að Borgarahreyfingin sé samansafn af reiðu fólki? Og því þýði nú ekki að kjósa það. Þetta er einfaldlega afsökun fyrir ykkur að kjósa hana ekki. Þetta er eitt það ómálefnalegasta sem ég hef lesið.

    Ef einhverjir hafa sýnt af sér reiði í kosningasjónvörpum undanfarnar vikur þá eru það ekki þeir sem komu frá Borgarahreyfingunni. Ásbjörn Óttarson hefur sennilega sýnt mestu “reiðina” þó ég skil ekki þetta tal um einhverja reiði sem orsakar að maður ekki séð neitt annað en hefnigirni. Dytti ekki í hug að gagnrýna nokkurn mann fyrir að vera reiðan eftir þetta ástand.

    Geta ekki komið skoðunum sínum á framfæri? Er þér alvara? Ef eitthvað gerir mig reiðan þá er það svona setning. Það er nákvæmlega ekkert sem hindrar þig í að lesa stefnuskrá hreyfingarinnar á http://www.xo.is. Þó að menn séu ekki þjálfaðir ræðusnillingar er frekar ómarktækt að skjóta þá í kaf. Annars finnst mér það hafa einkennst hreyfinguna að taka það bara rólega og ekki vera með frekju og yfirgang og reyna tala sem lang mest. Hækka röddina og svo framvegis.

    Hjalli minn svo beini ég einni spurningu að þér. Mig langar bara að fá að vita af hverju þú óttast svo eftirfarandi setningu í stefnuskrá x-o “Frysting á eignum grunaðra auðmanna” Þetta er nákvæmlega eftir lögum. Málið er að stjórnvöld hafa ekki verið að framfylgja þeim. Það er réttlætismál og í samræmi við réttarríkið að frysta eigur grunaðra glæpamanna svo þeir komi þeim ekki undan.

    Komið nú með málefnalegar ástæður fyrir að kjósa ekki Borgarahreyfinguna ekki bara koma með eitthvað bull til að friða ykkar eigin samvisku. Borgarahreyfingin býður sig fram og er að berjast fyrir fólkið í landinu. Þið skuldið sjálfum ykkur að skoða þennan valkost mun betur.

    Kær kveðja Jóhann

  14. Einar Freyr

    Óskar Bergsson og Eykt
    Þetta er augljósara en FL Group og xD í minum augum.
    Boðið sem hann hélt og svo framvegis.

    Hér má einnig minnast á það þegar Alfreð svo eftirminnilega sagði á kjördæmafundi framsóknar um daginn að framsókn þyrfti ekki að sækja spillingu í aðra flokka þegar hann mælti gegn “vini” Sigmunds og auðvitað komast hann þá ekki í gegn.

    Þó þú sért heiðarlegur og líka jafn vel Sigmundur þá skiptir það engu þegar uppi er staðið. Þið eruð bara tveir menn.

  15. Við höfum svo sem tekið þessa umræðu annars staðar, en Evrópumálin eru að mínu mati það sem skiptir mestu máli í þessum kosningum. Mér finnst það merkilegt hvernig hin ýmsu samtök í atvinnulífinu og þá bæði launþega og vinnuveitendasamtök stilltu sér upp með einum stjórnmálaflokki í evrópunefndinni fyrir helgina – gegn öllum hinum stjórnmálaflokkunum.

    Þínar röksemdafærslur gegn ESB eru reyndar þær málefnalegustu (og framsýnustu) sem ég hef heyrt hingað til og fara langt fram úr upphrópununum sem maður heyrir frá andstæðingum ESB – sem geta ekki hugsað sér það að leyfa þjóðinni að fá það fast í hendi hvað felist í aðild – og kjósa síðan um það.

    Í þínum áhyggjuefnum eru hins vegar vafaatriðin of mörg og óljós til að hægt sé að byggja á þeim í dag, held ég. Og ef við getum ekki boðið sem fyrst upp á almennilegt umhverfi fyrir þekkingarfyrirtækin okkar til að flytja sína vöru út, fá inn erlenda fjárfesta og vinna í jafn stöðugu umhverfi og keppinautar þeirra erlendis er ansi mikil hætta á að við festumst í fiskinum og álinu.

  16. Arg – gleymdi tenglinum – ég er sem sagt þessi Kiddi (nóg sér maður af nafnlausum bot-kommentum frá stjórnmálamflokkunum þessa dagana)

  17. Þess má geta að hægri flokkur Dana heitir Venstre 🙂

    Með þá Anders Fogh Rasmussen, 2001-2009 og nú Lars Løkke Rasmussen, 2009 sem forsætisráðherra.

  18. Mjög áhugaverð lesning ég er sammála þér í flestu og væri alveg til í að kjósa VG ef ekki væri fyrir nokkra öfgaumhverfissinna sem telja flestu því sem heitir atvinna í dag til foráttu og að allar stóriðjur séu verk skrattans, vissulega er rétt að huga að umhverfisþáttum en það þarf líka að huga að áhrfium á samfélag manna.

    Ég tel að ný forysta Framsóknarflokksins sé virkilega að slíta tengslin við spillingaröflin sem þar riðu röftum það er kannski ekki búið að klára það en það eru vissulega merki um það.

    Varðandi það að Sigmundur Davíð hefði ekki skorað á Óskar Bergsson oppna bókhaldið sitt þá er það ekki rétt ég horfði á viðkomandi þátt og það kemur fram að hann skorar á Óskar sem ég tel vera gjörspilltan og gangi erinda Don Alfredo að opna upplýsingar um tengsl sín við Eykt.

  19. Góður pistill hjá þér og umhugsunarverður. Sakna þess samt að sjá ekki í honum Frjálslynda flokkinn. Kemur hann ekki til greina? Eftir því sem ég hef lesið hér þá virðist mér sem skoðanir þínar gætu vel fundið sér sess í þeim flokki.

    Sjálfstæðisflokkurinn kemur auðvitað ekki til greina sem val en það gera heldur ekki þeir flokkar sem aðhyllast ESB og mér finnst að VG sé heldur að snúast. Ég vil endilega sjá það jákvæða og neikvæða (að þínu mati) við Frjálslynda. Þar hefur átt sér stað hreinsun úr flokknum sem að mínu mati er til góðs. Sá flokkur stendur líka fast við hugsjónir sínar og ég er mikið að spá í greiða þeim atkvæði mitt. En minni skoðun er ekki lokið samt sem áður og enn allt opið..
    Takk fyrir góðan pistil.

  20. Flott hjá þér og er að mörgu leiti sammála þér sem fyrrv. nokkuð sannfærður sjálfstæðismaður. Vandamálið hins vegar við vinstri græna er að það eru fáir mjög hæfir (eins og Steingrímur og Katrín) en urmull af georgi bjarnfredasyni (næturvaktin), og ég held að menn eins og Atli Gíslason eigi marga stuðningsmenn innan flokksins. Það er hins vegar ákaflega dapurlegt að maður geti ekki kosið lengur sjálfstæðisflokkinn. Vonaðist eftir klofning úr honum sem væri hægt að kjósa.

  21. Sæll og þakka þér góðan pistil!
    Ég hef líka komist að þeirri niðurstöðu, að vilji maður að frjálst framtak einstaklingsins fái notið sín, þá sé VG skásti kosturinn í dag. Því valda efasemdir þeirra um
    stóriðjustefnu hinna flokkanna. Ofuráhersla á orkufreka stóriðju er nefnilega í framkvæmd andstæða þess, að frjálst framtak einstaklingsins geti orðið sú undirstaða efnalegra framfara, sem skásti hlutinn af eðli kapítalisimans á að tryggja. Ég tek samt undir með þeim, sem vara við öfgaumhverfisverndarsinnum í VG, en ég treysti því, að í stóru VG verði þeir hinir sömu ekki jafnáhrifamiklir og í litlu VG.

    Ég er líka sammála greiningu þinni á Evrópu. Tek fram, að mér hugnast sem mest menningarsamkipti við Evrópu og ber mikla virðingu fyrir því fólki, sem þar býr og menningu þess. En lýðræðishallinn á bandalaginu, einangrunarhyggjan, skökk aldurssamsetning samfara útlendingafóbíu (þótt ein leið þeirra til að laga aldurssamsetninguna sé innflutningur á vinnuafli og þar með fólki og fjölskyldum með tilheyrandi hugsanlega annarri trú, en ríkt hefur í Evrópu), allt þetta fælir mig frá ESB.

    Ég hef ekki áður séð jafnmiklar efasemdir um framtíð Evrunnar eins og þú hefur, en get samt bætt því við, að spennan innan Evrulands fer vaxandi í dag og Þjóðverjar standa ákveðið gegn því, að Seðlabanki ESB dragi að landi þær þjóðir, sem hafa farið illa að ráði sínu á undanförnum árum. Jafnframt hafna Þjóðverjar hugmyndinni um útgáfu sameiginlegra skuldabréfa Evrulands, sem þýðir aftur, að vafaálagið á veikari efnahagskima Evrópu eins og skuldabréf frá Grikklandi og Írlandi, hefur aukist uppá síðkastið.

    VG hefur margt ágætisfólk í framboði, en líka ólíkindatól. Ég ætla samt að láta VG njóta vafans í komandi kosningum, enda allir flokkar blanda af góðu og misgóðu fólki.

  22. Sammála þér í grófum dráttum. Fyrir utan ESB og Evruna. Auðvitað má ekki líta á það sem einhverja allsherjarlausn, heldur sem mikilvægt tól til þess að koma á stöðugleika í efnahagslífinu, eins konar akkeri. ESB er fullt af gerólíkum þjóðum og það er í rauninni ekki verið að reyna að strauja það út, þvert á móti.

  23. Takk fyrir góða og málefnalega umræðu. Það eru meira en 2.500 manns búnir að lesa þessa færslu og virðist lítið lát á.

    Bjarki: Sammála. Að standa við samninga fyrri stjórnar eru ömurleg rök fyrir því að gangast við þessu Helguvíkurbulli. Ef menn eru í alvöru á móti, eða halda/vona að þetta gerist ekki – þá eiga þeir að segja það og haga sér í samræmi við það. Raunveruleikinn er sá að Samfylkingin þorði ekki að taka skynsamlega afstöðu í þessu máli svo skömmu fyrir kosningar af ótta við fylgishrun hjá ákveðnum hópi. Eða þá að þeim finnst þetta bara svona frábær hugmynd og þá er ég enn ákveðnari!

    Ketill: Þó ég meti þig og þín orð mikils, þá duga þau ekki alveg. Ertu til í að lækna mig af ESB fóbíunni með rökum, og þá helst mótrökum við þau sem ég lýsi sem mínum áhyggjuefnum? Sama gildir um HG.

    Einar Freyr: Takk fyrir innleggið. Geriði upp við fortíðina í eitt skipti fyrir öll. Opnið bækurnar aftur til 2000, sama hversu subbulegar þær kunna að vera. Sýniði að formaðurinn hafi a.m.k. einhver ítök í eigin flokki með því að hann fylgi áskorun sinni til Óskars Bergssonar eftir og rekið Alferð úr flokknum. Þegar þetta er búið skal ég gefa ykkur 2-3 verkefni í viðbót og þá eruð þið orðnir nokkuð álitlegur kostur.

    Jóhann Gunnar: Ég hef á margan hátt samúð með þessu sjónarmiði, en stend við það sem ég sagði að ofan: Reiði er ekki góður útgangspunktur fyrir neinn og ég óttast að flokkinn skorti dýpri þekkingu á sumum af þeim efnahagsaðgerðum sem hann hyggst beita sér fyrir.

    Kiddi: Það er í sjálfu sér að mörgu leiti gott að standa í útflutningi frá Íslandi í dag – a.m.k. er gengi krónunnar að hjálpa þeim mikið. Stóri vandinn – og sá sem er þeim fullkomlega óþolandi – er að njóta ekki eðlilegrar fjármálaþjónustu og fjármögnunarmöguleika. Þetta eru að mínu mati sterkustu rökin með aðildarumsókn, en ég óttast að hún myndi ekki bjarga þeim vanda sem þau eru í akkúrat núna og væru þrátt fyrir allt búið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Þetta er reyndar það sem veldur efasemdum mínum um að það sé einu sinni rétt að sækja um á þessum tíma. Hnípin og óörugg þjóð gæti samþykkt eitthvað núna sem hún yrði alls ekki sátt við til lengri tíma – og þá er orðið býsna erfitt að bakka.

    Jens: Já, Sigmundur skoraði á Óskar í beinni, en bakkaði svo með það. Óverjandi veikleikamerki.

    Bára: Nei, Frálslyndir koma bara alls ekki til greina. Að vísu eru sumir rugludallarnir horfnir úr flokknum, en aðrir fylltu í skörðin. Afstaða þeirra í málefnum innflytjenda er ófyrirgefanleg, þó henni sé ekki hampað sérstaklega núna og framboðið er bara hreint ekki sannfærandi.

  24. Í sambandi við ESB þá hef ég í gegnum tíðina verið andvígur aðild vegna þeirra mörgu galla sem fylgja aðild. Þar má nefna gjaldþrota sjávarútvegsstefnu, skriffræði og almenna spillingu á svo mörgum sviðum. En mikilvægast er kannski hvert ESB er að þróast. Þetta er ekki lengur bara efnahagssamband og tollabandalag heldur eru hlutir eins social chapter, harmonization of taxation og Lissabon sáttmálinn hlutir sem orka tvímælis. Semsagt, þessi tilhneiging ESB til þess auka miðstýringuna í sem flestum málum.

    En að þessu sögðu, þá er það kannski betra en sú óstjórn sem hefur ríkt hér á landi. Í ljósi reynslunnar er stór spurning hvort okkur sé yfirleitt treystandi til þess að stjórna okkar eigin málum og því kannski best að færa sem mest af því valdi til Brussel.

    Að öðru leyti er ég sammála greiningunni á 4-flokkunum. Ég hef kosið D-listann en hann er málefnalega gjaldþrota í dag fyrir utan öll stóru innanbúðar vandamálin sem hrjá flokkinn.

    Valið stendur á milli V-G og nýju framboðanna.

  25. Ef frelsi einstaklingsins er þér mikilvægt getur þú þá kosið VG? Þeir eru á móti svo mörgu. Allt á að vera ríkisrekið sem getur varla hugnast þér. Hvenær hefur verið hægt að stjórna landinu án aðkomu Sjálfstæðisflokksins? Það stefnir í X-S og VG stjórn, held það væri betra ef Framsókn væri með.

  26. Sæll Hjalli,

    Það er ljóst að það eru margir munaðarlausir Sjálfstæðismenn þarna úti. Ég er einn þeirra þótt ég hafi ákveðið á halda áfram að kjósa flokkinn. Ástæðurnar eru eftirfarandi:

    Ég lít svo á að við séum á byrjunarreit. Flestir flokkar hafa einhvern djöful að draga. Þá, rétt eins og þú gerir, er rétt að horfa ískalt á stefnumál flokkanna.

    Við þurfum að forða fyrirtækjum frá gjaldþroti – þannig komum við í veg fyrir vaxandi atvinnuleysi og meiri eymd. Hugmyndir VG + Samfylkingar um störf innan ríkisgeirans eru ekki sannfærandi þar sem slík störf eru ekki sjálfbær. Í raun má halda því fram með rökum að eitt “ósjálfbært” starf hjá ríkinu kalli á tvö “sjálfbær” störf á almennum markaði.

    Í raun ætti að lækka skatta á fyrirtæki. Þannig aukum við vonir um að þau standi af sér þann storm sem nú blæs þeim í fang.

    Hátekjuskattshumyndir væntanlegaar vinstri stjórnar skila litlu, sérstaklega þegar tekið er tillit til þeirrar neysluminnkunnar sem slíkt hefði í för með sér. Það myndi svo aftur minnka súrefni til fyrirækja.

    Hátekjuskattur yrði svo bæði hækkaður reglulega og hátekjumarkið lækkað, þannig að fyrr en varir yrðu þeir sem eru með 350 þúsund allt í einu kallaðir hátekjufólk. Vinstristjórnin mun allaf geta réttlætt slíkar hækkannir sem skárri kost en hagræðing. Því miður.

    Stóra málið er auðvitað gengismálin og hvað skal gera við krónuna.

    Það er alveg ljóst að vinstriflokkarnir ætla að starfa saman að loknum kosningum. Aldrei áður hafa flokkar komið jafn bundnir til kosninga, ef frá er talin stjórn hinna vinnandi stétta. Því ætti að vera uppi í samfélaginu ríkari krafa um að þeir skýri út afstöðu sína til mála eins og Evrópusambandsins og krónunnar. Þetta eru stóru grundvallarmálin fyrir þessar kosningar.

    Ekki ætla ég að efast um góðan vilja vinstrimanna. Þetta er upp til hópa gott fólk – það þekki ég af eigin skinni. Hinsvegar greinir okkur á í grundvallaratriðum. Þessi grundvallagildi eiga að vera útgangspunktur ákvörðunnar okkar næstkomandi laugardag.

    Við erum á byrjunarreit.

  27. Ég er að mörgu leiti hægrisinnaður þó að ég sé á móti að flokka svona hluti. Og ég fyrirlít fólk sem segir sig vera “sjálfstæðisfólk” eða hvaða flokk sem það ákveður að líma sitt nafn við.(Getur eitthvað verið minna sjálfstætt).

    En.. Ég vil meira frelsi og þá ekki bara frelsi handa þeim ríku eins og xD hefur sýnt að sé það eina sem þeir vilji. Ég vil forræðishyggju burt. Ég vil minna ríki hér á landi. Þetta kerfi sem er komið hér upp er svo mikið lýti að það er fáránlegt. Stórt og óskilvirkt og til þess eitt gert að skapa ríkisstörf. Það er afleiðing veldis XD sem sagðist nú vera í frjálshyggjunni.

    En nei. Ég kýs VG núna vegna sömu ástæðu og þú. Ég skilaði inn auðu seinustu tvö skipti vegna þess að ég vildi annað hvort heiðarlegann hægri flokk eða ég vildi slútta þessu myglaða kerfi og finna nýja leið til að stjórna landinu.

    Og með ESB….. Útskýrið fyrir mér hvernig þetta eru ekki bara gömlu Sovíét pælingin endurvakin. Sama helvíti kjaftæði. Allir gallarnir af því helvíti og við fáum ekki einu sinni góðann her á móti. Spurjið Bosníu og Georgíu um kosti og galla þess að vera í svona samtökum.

  28. Palli: En reynslan sýnir okkur að það sem þú varar við með VG er akkúrat það sem XD gerir. 🙂

    Væri þá ekki tilvalið að kjósa ekki XD og fá sömu gallana en í staðinn einhverja alvöru náttúrustefnu og eitthvað annað en endalaus álver sem engum gera gott.

    Þessi 18 ár með XD hefur valdið því að tími lítilla fyrirtækja er nánast liðinn. Annað hvort ertu partur af samsteypu sem á sinn banka eða þér er ekki boðið í viðskiptabransann.

  29. Ókey, takk fyrir svarið. Ég fylli seint flokk rasista svo ég spyr þig. Hefurðu kynnt þér innflytjendastefnu flokksins af alvöru. Virðist sem þú sért kannski örlítið smitaður af niðurtali sem varð vegna orða Magnúsar sem nú er horfinn frá flokknum. Mér sýnist hinsvegar stefnan vera einkar skynsöm fyrir Ísland. Við VERÐUM að taka það með í dæmið að við erum rétt rúmlega 300 þús hræður og gætum aldrei tekið á móti innflytjendum/flóttamönnum svo vel væri gert, svo þúsundum skiptir. Því það sem innflytjendur/flóttamenn þurfa er er virkilega vel útfærðar móttökur, læknishjálp,menntun, viðurkenning á menntun þeirra sem og íslenskumenntun. Það að geta aðlagast þjóðfélagi annars lands er einmitt það að standa þetta allt til boða. Í dag finnst mér ekki mikið gert fyrir flóttamenn til dæmis… Stutt sagt, hver og einn getur til dæmis styrkt eitt barn hjá Unicef en enginn telur sá hinn sama geta fætt 1000. Þetta er það sem ég fæ að heyra frá talsmönnum flokksins og þykir þeim leitt hvað snúið hefur verið útúr þessum málum hjá þeim. En…hafir þú aðrar upplýsingar vil ég endilega heyra þær. Því auðvitað kaupi ég ekkert endilega stefnuskrá flokka ef gjörðir eru andstæðar…
    Bestu þakkir.

  30. Kjósandi,

    það eru nokkrar rangfærslur í þinni athugasemd. Þó einungis ein sem ég ætla að leiðrétta:
    Þú segir: “Hátekjuskattur yrði svo bæði hækkaður reglulega og hátekjumarkið lækkað, þannig að fyrr en varir yrðu þeir sem eru með 350 þúsund allt í einu kallaðir hátekjufólk.”

    Rétt er að það var hægri stjórn undir fjármálaráðuneyti Geirs Hilmars Haarde sem sá alfarið um að lækka viðmið hárra tekna þannig að meðaltekjufólk sat uppi með greiðslu hátekjuskatts. Þetta var markviss aðgerð hjá þeim bæði til þess að flytja skattbyrðina neðar í tekjustigann og til að auka óvinsældir með skattinn svo auðveldara yrði að afnema hann.

    Hjalli, þetta var góð greining hjá þér en ég verð að gera athugasemd við eina setningu:
    “Heimurinn er orðinn býsna öfugsnúinn þegar það þarf vinstra fólk til að taka til í ríkisfjármálunum eftir þenslu og hagstjórnarmistök hægri manna!”

    Aftur er hér um misskilning að ræða og væntingar til óreiðu vinstri en góðrar skipulagningar hægri. Staðreyndin er nefnilega sú að í gegnum tíðina hefur vinstri stjórn einmitt haft það hlutverk helst að taka til eftir óreiðustjórn hægri manna. Vinstri stjórnir hafa sett kúrsinn í rétta átt, leiðrétt óréttlæti og óhagræði, gert ríkisfyrirtæki að ferskum eignum – sem íhaldið reynir að selja aftur og aftur.

  31. Jóhanna: Ég var alls ekki meina að “óreiða” væri vinstrimál og “skipulag” hægra. Bara því að almenn og viðurkennd skoðun beggja póla er að “vinstri” feli í sér aukin ríkisumsvif og miðstýringu og “hægri” standi fyrir hið gagnstæða.

    Það er því öfugsnúið í okkar tilfelli að það falli á vinstri flokka að skera niður ríkisútgjöld og jafnvel dreifa valdi eftir valdatíma yfirlýsts hægri flokks.

    Reyndar tek ég undir með því sem fram kemur hér að ofan að “hægri” og “vinstri” eru full einföld hugtök, en þau hjálpa engu að síður eitthvað til við skilgreiningar og umræðu.

  32. Þegar þar að kemur eru framtíðarhorfur okkar bjartar hvort sem er utan eða innan sambands

    Mér finnst ég ekkert síður hafa ástæðu til að efast um bjartsýni þína en hræðsluáróður ýmissa annarra.

    Hnípin og óörugg þjóð gæti samþykkt eitthvað núna sem hún yrði alls ekki sátt við til lengri tíma – og þá er orðið býsna erfitt að bakka.

    Hnípin og óörugg þjóð gæti hummað eitthvað fram af sér núna sem hún sæi síðar að hefði verið nauðsynlegt – og þá er orðið býsna erfitt að bakka.

    Þótt þú teljir framtíð evrunnar og ESB svarta er ekki þar með ljóst að við eigum skárri kosti til lengri eða skemmri tíma. Mér finnst við taka meiri áhættu með því að ætla að standa áfram á eigin fótum og veðja á að við finnum einhverja töfralausn í gjaldeyrismálum.

    Þess vegna er ég sammála.

  33. Mér hefur alltaf þótt það leiðinlegt að nafnið “Frjálslyndi flokkurinn” sé upptekið af þeim stjórnmálasamtökum sem nú kalla sig þessu nafni. Það sem vantar hér á landi er flokkur sem í alvörunni aðhyllist frjálslynd gildi og staðsetur sig hægra meginn við miðju í efnahagsmálum (án þess að taka upp trúarbragðakenndar kreddur frjálshyggunar). Sjálfstæðisflokkurinn er ekki sá flokkur og ekki heldur Framsókn. Þó að í þessum tveimur flokkum sé hægt að finna fólk sem að uppfyllir skilyrðin þá eru flokkarnir í heild of háðir íhaldskurfum og sérhagsmunapoturum til þess að hægt sé að kjósa þá með góðri samvisku. Ég stóð sjálfan mig að því að gefa Framsókn séns í vetur þegar SDG var kjörinn formaður þar, kannski væri hægt að bjarga þessu hræi. Það var klikkuð bjartsýni, auðvitað var það aldrei séns!

    Ég er orðinn sannfærður um að það er vonlaust að breyta nústarfandi stjórnmálaflokkum innanfrá. Til þess að koma mínum gildum á framfæri þarf að koma til nýtt framboð frá grunni.

  34. Sæll aftur hjalli

    Ég þakka svarið. Mig langaði reyndar að láta þig vita að Þór Saari hagfræðingur hreyfingarinnar hefur víðtaka reynslu í efnahagsmálum í gegnum starf sitt fyrir OECD og fleira.

  35. Þetta er gott hjá þér og mjög gaman að lesa allar athugasemdir (flestar málefnalegar og án upphrópana og vitleisu). Ég hef sjaldnast kosið Sjálfstæðisflokkin en eins og sumir hér að þá hef ég ekki fest mig við neinn ákveðin flokk. Ég hef undanfarið verið að hugsa um Samfylkinguna og finst Jóhanna vera ein af þeim sem ég tel mig geta treyst. Ég er þó ekki sammála öllu þar og fanst til dæmis Bankamálaráðherran í kjölfar bankahrunsins koma með afskaplega einkennileg svor þar sem hann virtist ekki hafa vitað hitt eða þetta eða bara ekki neitt sem gerðist í hans ráðuneyti. Mín skoðun er að ef hann hafi ekki vitað um neitt að þá var hann bara alls ekki starfinu vaxin og eiginlega skrítið hvernig hann virðist ættla að komast aftur vel inn. Evrópumálin eru lika eitthvað sem ég er hálf hræddur við. Ég hef oftast verið með því að ganga þar inn en er hikandi núna. Eins og þú segir að þá erum við í ansi erfiðum málum og erfitt að standa á okkar við ingöngu. Meira hræddur er ég samt við að við komumst förum beint úr Íslenskri læg in í kanski væntanlega Evrópska lægð með Evrópusambandinu. Ég er þó ekki á móti aðildarviðræðum og sjálfsagt og kanski réttast að fara í þær en við megum ekki horfa blint þar inn og útiloka hugsanlega aðrar lausnir (það er ekkert endilega að þær séu til en ef þær eru til að þá þurfum við að geta seð þær en ekki einblína á eitthvað eitt sem á að bjarga öllu). Síðan þurfum við (og það fljótt) að fara að skoða aðra möguleika í gjaldmiðli og ekki endilega EVRU (sem við fáum ekki nema að ganga þar inn og vera þar inni í einhvern tíma fyrst, kanski ekki fyrr en við erum hvort eð er komin á kaf með krónunni). Það er hægt að skoða aðra mynt og á að gera það fyrir alvuru. Þótt Bretar séu sjálfsagt hálfgerðir óvinir að þá eru samt góð rök sem kom frá einhverjum með Breska pundinu. Pundið er sennileg líka búið að taka sína dífu (kanski). En komin út fyrir efnið – Kosningarnar. VG hefur komið úr dimmum dal þar sem ég taldi þá vera mikla Nei flokkin en nú sýnist mér þeir vera það sem maður getur treyst á eftir allt.
    Ég get samt ekki kosið þá þar sem ég er ekki á landinu og mér sínist á öllu vera svo “svakalegt” vesen að kjósa utankörstaða, þarf sennilega þá að fara til Bangkok eða eitthvað þaðan af verra (í augnablikinu er það ekki svo spennandi staður) þar er víst bara ræðismaður en ekki sendiráð svo það er kanski ekki nóg. Þó mig langi að hafa áhrif að þá sýnist mér ég eiginlega ekki geta gert það núna.
    Kjarri

  36. Góður pistill og fín umræða þrátt fyrir að vera engu nær um það hvað ég mun kjósa. Væri mikið til í að geta kosið fólk í stað stjórnmálaflokka…

  37. Ég er sammála þér um afar margt í þinni greiningu. Ég hef kosið Sjálfstæðisflokkinn hin síðari ár og var raunar virkur í flokkstarfinu um skeið en sagði mig úr flokknum í haust vegna þess hvernig haldið var á málum í aðdraganda bankahrunsins og í viðbrögðum við því. Þau mál hindra mig líka í því að geta kosið hann nú og af sömu ástæðum get ég tæpast kosið Framsókn eða Samfylkingu enda bera þeir flokkar sína sök á því hvernig komið er. Sams konar efasemdir um evruna og Evrópusambandið og þú lýsir hefðu þó líklega hindrað mig í að kjósa Samfylkinguna hvort eð er.

    Ég er hins vegar ósammála þér að því leyti að ég álít Borgarahreyfinguna vera álitlegri kost en VG. VG eru kannski full mikið vinstri og þrátt fyrir virðingarverða hreinskilni margra þeirra hef ég efasemdir um að efnahagsstefna þeirra skili okkur langt. Kannski eru það fordómar í mér, ég veit það ekki. En ég held að sú reiði sem kannski skín í gegn í stefnu Borgarahreyfingarinnar endurspegli þá reiði sem kraumar undir víðsvegar í samfélaginu og verður að teljast mjög skiljanleg, t.d. hjá fólki sem sér fram á þungan skuldaklafa eða vistarband í illseljanlegum íbúðum um alla fyrirsjáanlega framtíð. Sú krafa er hávær og réttmæt að sannleikurinn verði leiddur í ljós en það má auðvitað ekki fara út í nornaveiðar og það að slegið verði af sönnunarkröfum um sekt mögulegra sakborninga. Ég hef ekki sérstakar áhyggjur af því að svo yrði þótt Borgarahreyfingin kæmist til einhverra áhrifa enda myndu samstarfsflokkarnir væntanlega ,,forða okkur frá stærstu axarsköftunun” líkt og í tilfelli VG. Það að þeir tali um frystingu eigna ,,grunaðra” auðmanna bendir nú líka til þess að þeir ætlist til þess að fyrst liggi fyrir rökstuddur grunur um einhver tiltekin refsiverð brot sem sætt gætu sektum eða varðað skaðabótum. En eiginlega er ég sammála Atla Gíslasyni þegar hann segir að í mörgum af þessum tilfellum æpi hinn rökstuddi grunur hreinlega á mann. Ég held að hann væri góður kostur sem næsti dómsmálaráðherra. Það væri allavega óheppilegt að hafa dómsmálaráðherra úr Sjálfstæðisflokki, Samfylkingu eða Framsókn því það kann vel að vera að embættisfærslur einhverra úr þeirra röðum séu meðal þess sem þurfi að rannsaka. Svo kannski kysi ég VG eftir allt saman ef ég væri enn búsettur í Suðurkjördæmi.

  38. Sæll Hjalli,

    Góður pistill. Nákvæmlega sama hugarangur hrjáir mig þessa dagana. Væri ekki betri kostur ef við sem aðhyllumst hægri stefnu myndum fylkja liði og kjósa Sjálfstæðisflokkinn en strika alla sem einn út í efstu sætunum.

    Við sem erum á þessari línu virðumst öll kalla eftir því sama, meiri hreinsun, tiltekt og hreinskiptni. Mér leist ansi vel á nokkra í prófkjöri sjálfstæðismanna en ekki einn/ein einasti/einasta komst áfram í gott sæti.

    Gangi þér vel að komast að niðurstöðu fyrir laugardaginn.

    kveðja, Sigurjón

  39. Frábær pistill Hjalli og mörg fróðleg innlegg.

    Mínar vangaveltur:

    Ísland þarf gjaldmiðil sem getur brugðist við okkar aðstæðum hverju sinni. Krónan dugði okkur ágætlega til að komast úr sárri örbirgð í hóp ríkustu þjóða. Við erum enn meðal ríkustu þjóða þótt skuldir hafi vissulega aukist.

    Það var ekki krónan sem kom okkur í vanda, heldur rangar ákvarðanir þeirra sem fóru með valdið undanfarinn áratug: Sjálfstæðisflokkur, Samfylkingin og Framsókn. Ég trúi ekki þessum mönnum til að leysa vandann, síst af öllu ef þeir ætla bara að skella skuldinni á gjaldmiðilinn.

    Svo er ESB að ganga í gegnum mikla krísu núna og á næstu árum. Það er bara skynsamlegt að sjá til hvernig því reiðir af áður en við geysumst þarna inn.

    Það er deginum ljósara að þjóðin er klofin í afstöðu sinni til ESB. Það er mjög ógæfulegt að ætla að þvinga þetta ESB mál í gegn einmitt þegar við þurfum öll að vinna saman. Ég get ekki kosið flokk sem reiðubúinn til að kljúfa þjóðina.

    Eins og staðan er þá eru Vinstri Grænir langsamlega líklegastir til að fá mitt atkvæði. Þeir virðast tilbúnir til að takast á við verkefnin án þess að einblína bara á einfaldar töfralausnir eins og álver, ESB eða Evrur.

  40. Þú fellur í þá gryfju að halda að við séum nú á botninum og meira að segja kommúnismi geti ekki gert illt verra.

    Athugaðu að einstaklingsfrelsi og kapítalismi ganga út á að nýjir hlutir séu reyndir hvort heldur eru í tæknigeira fyrir 2000 eða fjármálageira fram að 2008. Menn taka skell og byrja aftur. Eina landið sem ekki hefur lent í bankakrísu er Norður Kórea.

    Þú bara manst að það þýðir ekki að koma og skæla þegar búið verður að:

    Banna aftur bjórinn
    Loka frjálsum fjölmiðlum
    Hætta við olíuleit á drekasvæðinu
    Komnir verða á 2% eignaskattar
    Hið “ofmetna” eignarréttarákvæði verður þurrkað út úr stjórnarskránni

    Ekki skil ég alveg hvernig þú getur verið andsnúinn atvinnufrelsi og réttarfari, sbr að svíkja gerða samninga um Helguvík.

    En jú VG eru náttúrulega svo miklir prinsipmenn sbr afnám. eftirlaunafrumvarpsins hræðilega, þ.e. mínus þann hluta sem fært hefur formanni flokksins milljónir á ári í aukagreiðslur.

    Og jú gleymum ekki prinsipinu með faglegar ráðningar, brottvikningar og réttindi opinberra starfsmanna án áminningar í starfi sbr. hin faglega brottvikning seðlabankastjóra til þriggja ára. Ekkert að athuga við hávaxtastefnuna síðan 2000. Slíkt væri vitaskuld ekki málefnalegt.

  41. Arnar: Í fyrsta lagi er nú töluvert á milli stefnu VG og kommúnisma. Í öðru lagi eru svo augljós og brýn verkefni framundan á líftíma þessarar ríkisstjórnar að það mun ekki gefast ráðrúm til að “banna bjórinn”, “loka frjálsum fjölmiðlum”, “afnema eignarréttinn” eða annað sem ég reyndar stórefast um að vaki fyrir þeim. Fólk lærir nefnilega af reynslunni – líka vinstra fólk.

    Ég viðurkenni fúslega að Kolbrún og fleiri voru næstum því búin að reka mig af sér með furðulegum yfirlýsingum um Drekasvæðið og minotkun á stöðu sinni til að keyra í gegn áragömul gælu-lög.

    2% eignaskattur mun aldrei verða settur á. Gæti trúað að þau reyndu einhverskonar “eignaskatt með persónuafslætti” – ömurlegt engu að síður, en ekki eins afleitt.

    Ég er alls ekki á móti atvinnufrelsi og ef Century væri a) trúverðugt fyrirtæki, b) að fjármagna sig á eðlilegan hátt, c) nyti ekki óeðlilegrar fyrirgreiðslu í formi sérstakrar lagasetningar og d) myndi borga það orkuverð sem hægt væri að fá fyrir þessa raforku ef hún væri seld með skynsamlegari hætti – þá mætti vel hugsa sér að þetta yrði að veruleika. Í núverandi ástandi eru stjórnmálamenn að teygja sig fáránlega langt í að “skapa störf” með fyrirgreiðslu við gjaldþrota fyrirtæki með ónýtt kredit.

    Sem hluthafi í Landsvirkjun, fyrir hönd hluthafa HS Orku og sem eigandi orkulindanna sem þessi fyrirtæki nota tel ég reyndar líka að það sé brýn þörf á að dreifa áhættu með því að fá fjölbreyttari kaupendur að orkunni.

    Og brottvikning Seðlabankastjórans var fullkomlega nauðsynleg þó það hefði mátt fylgja henni eftir með róttækari breytingum á peningamálastjórnun.

  42. Tilgangslítið að reyna að beita fortölum núna úr því skaðinn er skeður.

    Steingrímur hefur nú þegar sýnt sitt rétta andlit með því að kæra birtingu á því sama andliti í auglýsingu. Sjá hér: http://www.andriki.is/default.asp?art=24042009

    Soldið gróft talað um Century, vissulega ýmislegt skrítið gerst þar m.a. í tengslum við aðaleigandann Glenncore en félagið á nú m.a. Norðurál skuldlaust og hlutabréf hafa hækkað yfir 300% undanfarnar vikur. Eins og mér er meinilla við að bera í bætifláka fyrir eimyrjuspúandi verksmiðjur að þá er það nú einfaldlega þannig að orð skulu standa og búið er að semja um þetta. Að ætla að hætta bara við allt saman eftir að byrjað er á framkvæmdum í Helguvík gengur ekki.

    Landsvirkjun selur ekki orku lengur á undirverði. Það hefur hinsvegar OR gert því miður í seinni tíð.

    Gott að breytt peningamálastefna “hefði mátt fylgja” með brottvikningunni. Semsagt aðalatriðið var maðurinn en ekki sú stefna sem bankinn fer eftir og krassað hefur gjaldmiðlinum í tvígang. Sorry, en þetta er ekki málefnalegt.

  43. Ok, þetta hefði átt að vera “hefði átt að fylgja”. Þ.e.: Já: við þurfum nýja peningamálastefnu, en við þurftum líka að losna við þennan Seðlabankastjóra.

  44. Arnar: Það er rétt að það komi fram að menn voru roknir af stað í byggingu Helguvíkurálvers löngu áður en þessi fjárfestingarsamningur lá fyrir. Raunar voru forsvarsmenn þessa verkefnis mjög duglegir að benda á það að ólíkt Reyðarfirði og Bakka þá væru þeir að vinna þetta án nokkurrar fyrirgreiðslu frá ríkinu. Svo þegar fór að þrengja að voru þessir kappar fljótir í iðnaðarráðuneytið að væla út sérdíl í anda Alcoa. Auðvitað eru undiskriftir svona samninga með fyrirvara um samþykkt þingsins enda getur það aldrei verið bundið af einhverjum undiskriftum úti í bæ.

  45. Góðann dag , hér langar mig til að koma á framværi smá kurteisislegri ábendingu enda orðinn mun betur að mér í skrifum um svona mál en árum áður og varðar þetta litla innlegg umræðuna um rétt ríkisins til þess að taka ákvarðanir upp á eigin spýtur sem varða hagsmuni íslensku þjóðar.
    Ég er á móti rétti ríkisins til þess að taka eigin ákvarðanir og tel sjálfur að áframhaldandi seta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks við stjórnarandstöðu sé í raun ólögleg , það á við jafnt í stjórn sem og stjórnarandstöðu.
    Stjórnmálaflokkar sem haft hafa þingmenn sem eru sagðir meðlimir í leynifélögum svo sem Builderberg hópnum , eiga ekki rétt á sér neins staðar í heiminum að mati þeirra sem gagnrýnt hafa slíka starfsemi sem harðast.
    Alþingi verður að viðurkenna að það hafi sýnt fólki í landinu óvirðingu , sem m.a. hafi falist í framkvæmdum gegn vilja þess og broti á réttindum bænda sem búa í nálægð við stórfljót , sem og brotum á réttindum útlendinga sem sótt hafa um dvalarleyfi í neyð.
    Alþingi getur ekki skotist undan því að viðurkenna þessi brot þó að sitjandi ríkisstjórn hafi að mörgu leyti starfað betur heldur en hin fyrri.
    Alþingi var stofnun sem brást hlutverki sínu og sem vanvirti ákvæði Jónsbókar um breytingar á ásýnd stórfljóta , og því verður stofnunin hugsanlega að leggjast algjörlega af í þeirri mynd sem hún starfar nú , svo að íslenska þjóðin geti sjálf tekið ákvarðanir um þau mál sem varði hana mest , og þeir stjórnmálamenn sem hafi áður starfað á vegum Alþingis starfi framvegis í anda persónukosninga , þ.e. að hvert kjör þingmanns verði persónubundið.
    Með aðskilnaði frá ríki og ekki bara kirkju eingöngu er tryggt að almenningur þurfi ekki lengur að greiða himinháa skatta og líða stöðuga óvissu um framtíð vinsælla ferðamannaleiða. Niðurlagning Alþingis í núverandi mynd er ákvörðun sem öll þjóðin verður að taka eigi að rísa hér nýtt lýðveldi , sérstaklega í ljósi þeirrar viðurkenningar á ofangreindum staðreyndum sem Alþingi stendur fyrir , og sem væntanlega yrði þá staðfest af umboðsmanni Alþingis.
    Það er miklu alvarlegra mál en margir gera sér grein fyrir að Alþingi starfi sem byggingarverktaki og tilkynni það ekki í stjóarnarsáttmála , og að þar hafi starfað þingmenn sem hafi verið sagðir meðlimir í leynifélögum sem er brot gegn ákvæðum Stjórnarskrár Lýðveldisins , og sem haft hefur verulega alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir ófyrirséða framtíð Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokks.
    Annað hvort eru menn að vinna fyrir íslensku þjóðina , sem er framvkædastjóri þessa fyrirtækis , eða ekki – og ef ekki , þá geta þeir gera svo vel og sagt sig úr fyrirtækinu og fengið vinnu hjá öðru fyrirtæki.
    Ég er ekki að reyna að sýna Alþingi óvirðingu sjálfur eða dónaskap með þessu , en ég er að benda á , að Alþingi verði að viðurkenna að það hafi brugðist hlutskipti sínu og stefnt verkefni sínu þar með í voða , með svo ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir framtíð þess , að ljóst sé að þingið geti ekki lengur starfað í þeirri mynd sem það gerir núna. Borgarhreyfingin og Vinstri Grænir og Sjálfstæðisflokkur og Samfylking og margir fleiri hafa haft róttæklinga sem skipta sköpum fyrir íslenskt þjóðfélag og í sumum þessara flokka fá þeir ekki að njóta sín.
    Það er ljóst , að framtíð Alþingis er í húfi vegna heimskulegra ákvarðana stofnana sem eru undir starfsemi þess komnar , og sem teknar voru þvert gegn vilja íslensku þjóðarinnar , svo sem Kárahnjúkavirkjun og allt þetta rugl um aðildarumsókn að ESB sem er plat og frat.
    Ljóst er að þegar stofnun tekur plat og frat frammi fyrir raunhæfar lausnir á alvarlegum vandamálum sem krefjast beitingar hyggjuvits , þá er starfsemi þeirrar stofnunar eins og hún birtist í þeirri mynd sem hún hafði birst í undanfarna tvo áratugi , gersamlega úr sér gengin.
    Þetta þýðir að eftir breytingarnar , mega t.d. blaðamenn ekki lengur nefna Alþingi sem ´hið háa Alþingi´ , og að jafnvel þó að Alþingi starfi áfram í einhverri mynd eftir fullan aðskilnað frá ríkisvaldi , þá verði geta þingmanna til þess að taka ákvarðanir upp á eigin spýtur sem varða hagsmuni íslensku þjóðarinnar skert verulega.
    Ef að rétt reynist að innan Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafi starfað ráðherrar og þingmenn sem hafi verið að þjónusta einhvern Builderberg hóp og hópa sem rekið hafa álíka starfsemi telst það til brota gegn ákvæðum Stjórnarskrár Lýðveldisins , og það þýðir að þeir þingmenn hafi skemmt ímynd þeirra stjórnarflokka varanlega á landsvísu. Afdrif lífríkisins og umhverfisins á Íslandi getur svo ekki lengur verið háð geðþróttaákvörðunum yfirmanna stórfyrirtækja og alþingismanna sem tekið hafa ákvarðanir á borð við þær sem lýst hefur verið að ofan , svo sem virkjanirnar í Helgafellslandi og á Snæfellsnesi.
    Alþingi verður að gera sér grein fyrir því að í núverandi mynd gengur starfsemi þess ekki upp lengur.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s