Fimm ráð handa frumkvöðlum

Start09Aðstandendur Start09 átaksins báðu mig um að skrifa nokkra punkta um það sem ég hefði lært af því að koma á fót sprotafyrirtækjum í gegnum tíðina. Textinn hér að neðan er útkoman úr því, en þessir punktar birtust á vefnum þeirra núna á mánudaginn.

Síðan ég útskrifaðist úr menntaskóla hef ég varla gert annað en að stofna og reyna að koma á legg sprotafyrirtækjum. Fyrirtækið sem ég rek núna – DataMarket – er fjórða fyrirtækið sem ég stofna í félagi við aðra undanfarin 12 ár. Sumt hefur gengið upp, annað ekki – eins og gengur. Í öllum tilfellum hafa verið bæði stórir sigrar og stór vonbrigði. Að starta sprotafyrirtæki er rússíbanareið: skemmtilegt, skelfilegt og alls ekki fyrir alla.

Hér eru fimm heilræði um sprotastarf sem ég þykist hafa lært sjálfur eða af öðrum í mínum rússíbanaferðum.

1. Haldið væntingunum í skefjum
Það er alveg saman hvað þið eruð klár, eruð með góða hugmynd, gott fólk, snjalla markaðssetningu, ómissandi vöru eða skothelt einkaleyfi – langlíklegasta niðurstaðan úr þessu sprikli er að fyrirtækið gangi ekki upp. Að það hætti rekstri eða renni út í sandinn þegar plönin ganga ekki eftir. Þetta er staðreynd. Tölfræðin einfaldlega segir það.

Langflest sprotafyrirtæki eru hætt starfsemi 3-4 árum eftir stofnun. Önnur malla áfram, etv. í ágætum rekstri en án þess að virkilega “meika það”. Mjög fá slá í gegn og í flestum tilfellum tekur það þá næstum áratug af harki. Frægð, frami og ríkidæmi er fágæt undantekning, ekki reglan. Og munið að hlutafé er einskis virði fyrr en einhver hefur keypt það af ykkur!

Þetta þýðir ekki að þið eigið ekki að hafa trú á því sem þið eruð að gera. Þið verðið að hafa það, annars eru örlögin ráðin strax. En væntingastjórnunin er mikilvæg, ekki bara fyrir þig, heldur líka fyrir fólkið í kringum ykkur: starfsfólkið, ættingja, vini og samstarfsaðila.

Hafiði fæturna á jörðinni, þó hausinn sé í skýjunum.

Það sem á að drífa ykkur áfram er möguleikinn á að dæmið gangi upp, ekki fullvissan um það… og svo auðvitað hvað þetta er fáránlega gaman!

2. Það sem þið eruð að gera er EKKI leyndarmál
Ekki hika við að segja öllum sem heyra vilja hvað þið eruð að fást við. Ekki halda að allir muni stela hugmyndinni ykkar. Þið eruð heppinn að fólk vill hlusta. Staðreyndin er sú að flestir eiga eftir að reynast hjálplegir: koma með góðar athugasemdir, tengja ykkur við verðmæta samstarfsaðila eða viðskiptavini, bera út fagnaðarerindið fyrir ykkur eða jafnvel vilja vinna með ykkur eða fjárfesta í hugmyndinni.

Veltið því fyrir ykkur eitt augnablik: Hversu margir eru í þeirri aðstöðu, skilja hugmyndina ykkar svo vel, geta komið saman þeim hóp og fjármagni sem til þarf og eru til í að leggja allt undir og um leið nógu bíræfinn til að taka YKKAR hugmynd og gera hana að veruleika fyrir framan nefið á ykkur? Enginn. Og þið mynduð hvort sem er mala þá, því það eruð þið sem eruð búin að velta fyrir ykkur öllum hliðum málsins í marga mánuði, búin að setja saman hóp, setja saman plan, átta ykkur á samkeppninni, skoða markhópinn, finna hentugustu leiðirnar til að dreifa vörunni og svo framvegis. Þið eruð fólkið til að gera þessa hugmynd að veruleika, aðrir sem hafa frumkvöðlaeðlið í sér eru hvort eð er með sínar eigin hugmyndir.

Þegar öllu er á botninn hvorlft er hugmyndin líka minnsti hlutinn af árangrinum. 99% árangursins næst með blóði svita og tárum, eða eins og Edison sagði: “It’s 1% inspiration and 99% perspiration”. Hann vissi líklega sitthvað um nýsköpun og sprotastarfsemi.

3. Leyfið ykkur að skipta um skoðun
Þegar þið eruð lögð af stað með nýsköpunarhugmynd er alveg gefið að tilviljanir munu leika stærsta hlutverkið í því hvernig til tekst. Þið leggið líklega af stað með nokkuð skýra hugmynd, en eftir því sem þið veltið henni betur fyrir ykkur, þeim mun fleiru komist þið að sem hefur áhrif á þá sýn. Hún kann jafnvel að virðast fjarlægari þegar þið áttið ykkur á því hvað það tekur langan tíma að þróa hana, hvað samkeppnin á viðkomandi markaði er í raun mikil og hversu erfitt er að ná til væntanlegra notenda hennar.

Þá er gott að muna að það er styrkleikamerki að skipta um skoðun. Ekki endilega að taka vinkilbeygju og fara að gera eitthvað allt annað, en að breyta stefnunni, forma hugmyndirnar og styrkja viðskiptaáætlunina með tilliti til nýrra upplýsinga. Ekki halda að fjárfestar eða samstarfsaðilar muni missa trúna á ykkur. Sé þetta gert með góðum rökum munu þeir þvert á móti öðlast aukna trú og nýjir aðilar fá hana.

Algengustu breytingar af þessu tagi er að finna sér smærri hillu eða áfanga á leiðinni að stóra markmiðinu. Líklega kemur í ljós að upphaflega hugmyndin var of stór í sniðum. Það reynist ekki raunhæft að sigra heiminn í einu skrefi, en það eru mögulega smærri sigrar á leiðinni þangað. Hugsanlega hefur lokatakmarkið alls ekki breyst, en þið hafið fundið ýmis smærri tækifæri á leiðinni þangað.

Ef þið hafið dottið niður á spennandi svið er eins víst að upphaflega lokatakmarkið náist aldrei, en að það séu áhugaverðar beygjur á leiðinni þangað sem etv. reynast mikið merkilegari en upphaflega takmarkið þegar allt kemur til alls.

4. Hafið góða sögu að segja
Þið þurfið að vera góðir sögumenn. Hvert er vandamálið sem er verið að leysa? Af hverju eruð þið fólkið til að gera það? Hvernig kviknaði hugmyndin? Svörin við þessum spurningum þurfa að vera spennandi sögur með upphaf, ris og endi. Helst spennu, drama, blóð og eltingaleiki líka ef vel á að vera.

Hvers vegna? Vegna þess að fólk elskar sögur. Þetta á eftir að hjálpa ykkur að komast að í fjölmiðlum, hjálpa ykkur að útskýra það sem þið eruð að fást við fyrir fjárfestum og samstarfsaðilum. Gera viðskiptavini áhugasama um að versla við ykkur. Allt er auðveldara ef þið getið sagt áhugaverðar sögur.

Hollensk verktakafyrirtæki eru það fyrsta sem fólki dettur í hug þegar á að reisa flóðvarnargarð einhversstaðar í heiminum, enda þekkja allir Holland sem landið undir sjávarmáli og hafa heyrt söguna um strákinn sem stakk puttanum í gatið. Þetta er frábær saga, en Hollensk fyrirtæki eru ekkert sérstaklega fær í að byggja flóðvarnargarða – þau sem það gera eru flest frá Belgíu!

Decode segir frábæra sögu um uppruna Íslendinga, Össur segir frábærar sögur um spretthlauparann Oscar Pistorius, Apple segir söguna af því hvernig tveir vinir smíðuðu fyrstu tölvurnar í bílskúrnum hjá foreldrum sínum, Coke segir söguna af leynilegu uppskriftinni og Richard Branson gerir í því að eltast við ævintýri til að geta vakið athygli á því sem Virgin er að fást við þá stundina. Þetta eru engar tilviljanir – fyrirtækin hafa komist áfram á þessum sögum, etv. mis-meðvituð um það hvað þau voru að gera.

5. Ógeðslega erfitt og skelfilega gaman
Það er ekkert 9-5 djobb að koma af stað nýju fyrirtæki. Þetta eru langir vinnudagar og þar fyrir utan verðiði vakin og sofin í að velta fyrir ykkur ýmsu sem við kemur fyrirtækinu. Kannski með áhyggjur af fjármálunum, kannski með frábæra nýja hugmynd sem getur betrumbætt vöruna, kannski bara lausn á vandamálinu sem þið voruð akkúrat að glíma við í dag.

Þar að auki eruð þið málsvarar fyrirtækisins hvar sem þið komið, hvort sem ykkur líkar betur eða verr. Gamlar frænkur eiga eftir að þurfa útskýringar í fermingarveislum á því “hvað það er nú eiginlega sem þú gerir?” og “hvernig færðu pening fyrir það?”, það verða líka tilviljanakennd tækifæri – þið lendið óvænt í matarboði með mikilvægum fjárfesti eða draumaviðskiptavininum og þá er betra að vera með allt á tæru.

Það verða vinnutarnir þar sem ljúka þarf hlutum fyrir mikilvægan fund, sýningu eða útgáfudagsetningu. 20 tíma vinnudagar, 3 í röð, pizzur og svefngalsi, stress, læti og jafnvel rifrildi.

Einmitt þess vegna er nauðsynlegt að þetta sé gaman. Ekki bara ánægjulegt, heldur ógeðslega gaman – það skemmtilegasta sem þið getið hugsað ykkur. Og það er akkúrat það sem á eftir að ráða mestu um það hvort vel tekst til. Ef vinnan er skemmtileg kemur allt hitt meira og minna af sjálfu sér, og jafnvel þó hlutirnir gangi ekki upp var það samt skemmtilegt. Hver getur sagt nei við því 🙂

3 comments

 1. Flott færsla hjá þér.

  Ég tek þig til fyrirmyndar og hef ákveðið að starfa með sprotafyrirtæki hér í Noregi sem einmitt vill stuðla að meira gagnsæi í rekstri verkefna, fyrirtækja og stofnana. Þetta er þó ekki data mining eins og þú hefur verið að fást við.

  Þessa grein ætla ég að prenta út og lesa oftar en einu sinni. 🙂

  Til hamingju annars með þetta:

  http://apps.datamarket.net/fjarlagafrumvarp_2010/?lidur=&sbr=on

  Bestu kveðjur frá Noregi,

  Hrannar

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s