Fimm staðreyndir um skattkerfið – reiknilíkan

Picture 17Við hjá DataMarket vorum að uppfæra reiknilíkan sem við gerðum í fyrra til að lýsa staðgreiðsluskattakerfinu á Íslandi. Líkanið tekur núna mið af nýjustu fáanlegu gögnum um launadreifingu landsmanna, hátekjuskattinum sem lagður var á í sumar og svo er hægt að stilla upp fleiri en einu hátekjuþrepi.

Þannig má t.d. bera saman áætlaða staðgreiðslu af núverandi kerfi og þriggja þrepa kerfinu sem sagt er að sé til umræðu í stjórnkerfinu. Út frá því má áætla að samanlögð staðgreiðsla hækki um tæpa 10 milljarða við þessa breytingu (eða rúmlega 15 ef miðað er við að enginn hátekjuskattur væri tekinn, líkt og var í upphafi þessa árs).

Módelinu er – eins og öðru sem við gerum hjá DataMarket – ætlað að lýsa staðreyndum út frá bestu fáanlegu upplýsingum og stuðla að upplýstri umræðu um flókin mál sem þó skipta okkur öll máli. Við reynum okkar besta til að það sem sett er fram í nafni fyrirtækisins sé hlutlaust og sannleikanum samkvæmt. Nóg er víst af villandi umræðu samt.

Ég hvet ykkur til að skoða módelið og sjá hvaða áhrif ólíkar leiðir hafa á ykkar kjör. Á efri tveim myndunum getið þið t.d. séð hvaða áhrif skattbreytingar hafa á ykkar eigin ráðstöfunartekjur.

– – –

Að þessu sögðu langar mig að setja fram nokkrar persónulegar skoðanir og athugasemdir með hliðsjón af reiknilíkaninu. Þær eru s.s. mínar eigin og ekki settar fram í nafni fyrirtækisins (enda hafa fyrirtæki ekki skoðanir):

  • Skatthlutfall af meðaltekjum er um 28%: Þetta er staðreynd. Meðaltals heildartekjur skv. Hagstofunni voru 454þús á mánuði 2008. Þegar tekið hefur verið tillit til persónuafsláttarins þýðir það að einstaklingur með þær tekjur borgar u.þ.b. 125þús krónur á mánuði í staðgreiðsluskatt. Það sem meira er: Sá sem hefur 200þús krónur í tekjur borgar aðeins um 16% sinna tekna í skatt og sá sem hefur 1 milljón á mánuði myndi borga 33%, jafnvel þó enginn væri hátekjuskatturinn. Milljón króna maðurinn borgaði þannig um 330þús, meðan 200þús króna maðurinn borgar 32þús krónur. Það er því mikil einföldun að segja að á Íslandi sé 37% tekjuskattur.
  • Enginn mun greiða 47% skatt: Jafnvel þótt róttækustu hugmyndir sem heyrst hafa um hátekjuskattsþrepin verði að veruleika mun enginn greiða 47% skatt af heildartekjum sínum. Í því þriggja þrepa kerfi sem nefnt hefur verið myndi einstaklingur með 1,6 milljónir króna í mánaðarlaun þó “aðeins” borga rétt rúmlega 41% tekna sinna í skatt.
  • Persónuafslátturinn er einfaldasta hátekjuskattkerfið: Eins og sjá má af ofangreindum dæmum erum við erum þegar með kerfi sem leggur mun hærri skattbyrði á þá sem hafa hæstu tekjurnar. Þetta er gert með persónuafslættinum. Hann tryggir það að þeir sem hafa lægstu tekjurnar greiði litla sem enga skatta og þeir sem hafa hæstu skattana greiði meira. Takið t.d. eftir því í fyrsta punktinum hér að ofan að einstaklingur með 5 sinnum hærri tekjur (milljón á móti 200þús á mánuði) greiðir 10 sinnum hærri skatta. Án þrepa myndast svo engir skrítnir hvatar til að umbuna starfsmönnum með frídögum eða öðrum fríðindum frekar en að hækka þá í launum, eða fara á annan hátt í kringum lögin eða anda þeirra.
  • Þrepaskatturinn skapar samfélaginu kostnað: Ef þriggja þrepa skattur verður að veruleika er framundan heilmikil vinna. Gera þarf breytingar á bókhaldskerfum allra fyrirtækja, og því miður eru þau mjög mis-sveigjanleg. Aukin vinna verður við eftirlit og utanumhald á vegum skattstjóra og innheimtuaðila, skattframtal verður flóknara, meiri hætta á mistökum o.s.frv., o.s.frv. Ég leyfi mér að fullyrða að samanlagður kostnaður samfélagsins við hugbúnaðarbreytingarnar einar vegna þessa nýja kerfis verði ekki undir einum milljarði króna. Og ef einhver vill halda því fram að það sé nú bara atvinnuskapandi, skal þeim hinum sama bent á að það er ekki atvinnuleysi í stétt hugbúnaðarfólks. Þvert á móti er vöntun á hæfu fólki.
  • Hægt er að ná sama tekjuauka OG HJÁLPA ÞEIM LAUNALÆGSTU MEIRA án þrepaskattsins: Eins og sýnt var í upphafi mun 3 þrepa kerfið færa ríkinu u.þ.b. 10 milljarða tekjuauka m.v. það tveggja þrepa kerfi sem nú er í notkun. Þeir launalægstu munu njóta lítillega góðs af lækkun á grunnþrepinu og þeir tekjuhæstu munu greiða verulega meira. En sjáið nú ÞETTA DÆMI. Þarna er aðeins eitt þrep. Persónuafslátturinn hefur verið hækkaður í 58.500 kr á mánuði og skatthlutfallið í 42,8%. Tekjuauki ríkisins er sá sami en þeir tekjulægstu koma mun betur út. Sá sem hefur 200þús á mánuði greiðir í þessu módeli rúmlega 5.000 krónum minna en í núverandi kerfi og nærri 3.000 krónum minna en í fyrirhuguðu 3 þrepa kerfi. Skatturinn á þá tekjuhæstu er hins vegar nokkuð svipaður og nú er og væri t.d. enn rétt undir 40% af tekjum í kringum 1,6 milljónir á mánuði, eða mjög svipaður og í núverandi 2 þrepa kerfi.

Ef sækja á svona miklar viðbótarskatttekjur í vasa almennings á annað borð, af hverju þá að flækja hlutina þegar þeir geta verið einfaldir?

Þangað til einhver færir góð rök fyrir öðru leyfi ég mér að fullyrða: Fjölþrepa skattkerfi er heimskulegt! Það hefur fjölmarga ókosti og enga kosti sem kerfi persónuafsláttar getur ekki leyst á betri og einfaldari hátt.

11 comments

  1. Væri gaman ef þið mynduð reikna út heildarskattlagningu með tilliti til VSK (þeas sem fellur á meðalútgjöld heimilis) og annarra skatta sem koma til viðbótar tekjuskattlagningu.

  2. Hvernig var skattprósentan (og persónuafsl. framreiknaður m.t.t. vísitölu) áður en stjórnin byrjaði að frysta persónuafsláttinn til að geta lækkað skattprósentuna til að líta betur út á pappír og hjálpa þeim hæst launuðu?

    Vorum við ekki assgoti nálægt þessu 42,8% – 58.500 kr. kerfi fyrir 15 árum eða svo?

  3. “Persónuafslátturinn er einfaldasta hátekjuskattkerfið”

    Til gamans má benda á að einfaldasta hátekjuskattkerfið sem við höfum er í raun að taka hlutfall af launum í skatt en ekki fasta upphæð. Það að taka fasta upphæð í skatt væri jafn “óréttlátt” og að borga mishá laun yfirhöfuð, eða hvað?
    Nema hvað, með hlutfalli fær sameiginleg þjónusta okkar auðvitað hærri upphæð.

    kveðja

  4. Góð umræða og nauðsynleg.

    Þó er eitt sem mér finnst villa um fyrir fólki og það er staðreyndin um tekjuaukan fyrir ríkissjóð. Það er í sjálfu sér ekki rangt að segja að aukning tekjuskattsprósentunar eða þrepabreytingin myndi færa ríkinu auknar tekjur EN .. það er ef slíkar breytingar stæðu einar og sér.

    Staðreyndin er hins vegar sú að ef ég er að borga talsverðan skatt og hef ekki mikið aflögu og ríkið eykur skatttökuna þá mun ég einfaldlega þurfa að draga saman í neyslu sem þýðir minni skatttekjur ríkisins af öðrum toga. Heildaráhrifin væru sem sagt engan vegin sú upphæð sem reiknast út frá hærri skattprósentu. Þetta vita menn en vilja ekki ræða margir hverjir, en reyna að leysa með því að hækka virðisaukann þannig að þó ég dragi saman í neyslu þá fái ríkið örlítið meira þar. Niðurstaðan verður þá alltaf sú að ríkið fær ekki eins mikið og það reiknaði sér, verslun og iðnaður fá minna í sinn hlut vegna samdráttar í neyslu og aukinnar skattheimtu og þurfa að draga saman seglin sem aftur veldur auknu atvinnuleysi sem aftur eykur útgjöld ríkisins.

    Kveðja,

    Jón Árni

  5. E: Já, það væri gaman að gera fleiri hlutum skattkerfisins skil með þessum hætti. Heilt yfir má reyndar fá mjög góða nálgun á það hver skattheimta er í hagkerfi með því að deila fjárlögum (tekjum ríkisins) með þjóðarframleiðslu. Á Íslandi er þetta hlutfall rúmur þriðjungur (ca 35%) og hefur farið hækkandi um allnokkurt skeið.

    Einar Jón: Ég hugsa að þegar persónuafslátturinn var settur á hafi hann ekki verið fjarri þessu hlutfalli ef reiknað er á föstu verðlagi, jafnvel hærri. Það er auðvitað ekkert annað en aukin skattheimta að hækka EKKI persónuafslátt í takt við aukningu á útgjöldum ríkisins.

    Benedikt Bragi: Hárrétt. Auðvitað tryggir hlutfallslegur skattur það að þeir sem hafa hærri tekjur borgi líka hærri skatta. Það er til fólk sem heldur því fram að eina “sanngjarna” kerfið sé skattur sem nemur fastri fjárhæð á mann á ári, óháð tekjum. Þeir menn eru nú samt líklega tiltölulega lítill hópur allra lengst til hægri á pólitíska skalanum. Þetta er engu að síður góð áminning um það að kerfið er engan veginn sjálfsagt eins og það er.

    Jón Árni: Við skiljum þessi áhrif viljandi eftir í módelinu, þar sem þau verða alltaf “subjective” og enginn veit í raun hvar við erum á Laffer kúrvunni á hverjum tíma. Hver og einn getur hins vegar túlkað þá “hráu” niðurstöðu sem við skilum með fyrirvörum á borð við að aukin skattheimta muni breyta annari hegðun sem dragi úr skatttekjum ríkisins og það er fullkomlega rökrétt.

  6. Má ég dirfast að biðja um að bætt sé við grafinu “Launabreyting sem hlutfall af tekjum” á síðuna með reiknilíkaninu?
    Það gæti verið checkbox efst til að þið séuð ekki alltaf að búa það til að óþörfu.

    Svoleiðis graf er 1. mynd í eftirfarandi athugasemd, og gefur að mínu mati mun skýrari mynd af því hvernig breytingin hefur áhrif.
    http://www.orvitinn.com/2009/11/10/10.15/#athugasemd-20091110170925

  7. Það er mjög einföld ástæða fyrir því að vinstrimenn kjósa að innheimta skatt í þrepum frekar en með stigvaxandi skattprósentu eftir því sem laun hækka m.v. persónuafsláttinn – “samfélagslegt réttlæti”. Það er einfaldlega ásetningur yfirvalda og hugmyndafræðilegur drifkraftur þeirra að flokka fólk í ákveðin hólf, kalla þau “tekjulága”, “meðaltekjur” og “hátekjur”, og skattleggja í stökkum.

    Ekki hagkvæmnissjónarmið, ekki spurning um að gera innheimtu tekjuskatts sem auðveldasta, heldur hugmyndafræðileg aðferðarfræði.

  8. Geir: Það er líka hugmyndafræðileg aðferðarfræði að stýra samfélögum eftir þröngum hagkvæmnissjónarmiðum einum saman.

  9. skil ekki hversvegna persónuafsláttur er bara ekki notaður ásammt flötum % skatti til að leysa öll vandamál. Þá þarf ekki skattleysismörk, hægt að veita barnafjölskyldum afslátt per barn o.s.fr.

    1. Óli: “Persónuafsláttur” og “skattleysismörk” eru bara tvær hliðar á sama peningi. Persónuafslátturinn í ár er t.d. 42.205 krónur á mánuði. Staðgreiðsluhlutfallið er 37,2%. Skattleysismörkin eru þá 42.205 / 0.372 = 113.454 krónur á mánuði.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s