Af rökræðum og skattareiknum

Ég er landleysingi í pólitík. Hef mjög mikinn áhuga á pólitískri umræðu og sterkar skoðanir á mörgum málum, en gæti aldrei fellt mig við það að elta einhverjar flokkslínur í flestum málum. Ég hallast reyndar að því að flokkshollusta sé að mörgu leyti þægindi sem fólk sækir í til að þurfa ekki að setja sig inn í málin og mynda sér sína eigin afstöðu.

Í hverju máli reyni ég einfaldlega að afla mér upplýsinga eins og kostur er. Lesa helstu röksemdafærslu beggja hliða og mynda mér smám saman skoðun útfrá því. Mér finnst það líka styrkur að geta skipt um skoðun þegar nýjar upplýsingar eða rök í málum koma upp á yfirborðið, þó að í pólitík virðist oftast litið á það sem veikleika – næstum jafn mikinn veikleika og að vera sammála “andstæðingum” sínum. Við höfum meira að segja haft forystumenn í stjórnmálum sem hreykja sér af því að hafa aldrei skipt um skoðun!

Þetta er einn af stóru drifkröftunum að baki DataMarket. Þjóðin á gríðarlega mikið af merkilegum gögnum sem liggja lítið – eða jafnvel ekkert – notuð hér og þar í samfélaginu. Með betra aðgengi að þessum gögnum og tólum sem hjálpa fólki að setja hlutina í samhengi, hef ég trú á því að við getum tekið miklu upplýstari ákvarðanir á öllum stigum þjóðlífsins: í einkalífinu, í fyrirtækjarekstri og í stjórnsýslunni.

Góð kenning sem ég hef oft stuðst við er að skoðanamyndun verði í þremur skrefum:

 1. Fyrst þurfa nauðsynlegar staðreyndir að liggja fyrir
 2. Síðan greinum við þessi gögn og staðreyndir með tiltækum tólum
 3. Loks byggir hvert okkar niðurstöðu eða dóma á undangenginni greiningu

Við þurfum ekki öll að komast að sömu niðurstöðu. Við höfum mismunandi lífsgildi, áherslur og sýn á það hvað skipti mestu máli í lífinu. Rökræða snýst í raun að miklu leyti um skref #2, þar sem fólk tekst á um greiningu staðreyndanna og reynir svo að fikra sig – og stundum andmælendur sína eða áheyrendur með sér – í átt að niðurstöðu. Í góðri rökræðu eru menn til í að sýna öðrum lífsgildum virðingu, meta forgangsröðun sína og reyna að sjá hlutina með augum annara. Ef menn leggja samt ekki út frá sömu staðreyndum – eða gögnum – verður rökræðan aldrei góð.

Sem dæmi mætti taka að tvær fylkingar eigi að mynda sér skoðun á ágæti samnings. Önnur fylkingin hefur séð samninginn og öll undirliggjandi gögn, en hin fylkingin ekki. Í þessu tilfelli er gagnslaust að reyna nokkurskonar rökræðu um ágæti samningsins. Það er ekkert til að greina – og allar tilraunir til þess verða fálmkenndar og gerðar í lausu lofti.

Þetta er ástæðan fyrir því að gagnsæi og opið gagnaaðgengi er lykilatriði í samfélaginu. Þannig munum við taka okkar bestu ákvarðanir og vera fær um að gagnrýna, mótmæla eða styðja það sem gert er með rökum – en ekki af pólitískri flokkshlýðni.

Skattareiknir

Hvatningin til að skrifa um þetta bloggfærslu núna er umræða sem skapast hefur undanfarna daga um nýlegan skattareikni Sjálfstæðisflokksins. Eins og fram hefur komið í umræðunni, á DataMarket þar hlut að máli. Við tókum að okkur að afla ýmissa gagna varðandi skattamál fyrir flokkinn. Í framhaldi af þeirri gagnaöflun settum við upp Excel-módel sem auglýsingastofan studdist við þegar reiknirinn var forritaður. Ákvörðun um endanlegar forsendur að baki þeim útreikningum og framsetningu niðurstaðnanna er tekin af flokksmönnum.

Samkvæmt okkar bestu vitund er reiknirinn villulaus eins og hann stendur nú. Fyrstu klukkutímana fór hann í loftið án þess að tekið væri tillit til nýs frítekmarks á fjármagnstekjur, en það var lagað um leið og ábending barst þar um. Eins voru mjög afmörkuð jaðarskilyrði sem leiddu til undarlegrar niðurstöðu þegar heimili með 2 fyrirvinnur var ofarlega í 2. skattþrepinu – það hefur einnig verið lagað. DataMarket ber ábyrgð á þessum villum og ónógum prófunum á líkaninu, en þeim var á engan hátt ætlað að villa um fyrir neinum, enda hefði það verið býsna óábyrg nálgun.

Enda er það líka svo að fæstir sem stungið hafa niður penna um þessa herferð Sjálfstæðisflokksins hafa haft neitt við útreikningana að athuga, heldur forsendurnar sem miðað er við. Og þá er eðlilegt að næsta spurning sé: Hvor fylkingin hefur rétt fyrir sér?

Svarið er etv. ekki hjálplegt: Báðir hafa rétt fyrir sér.

Staðreyndirnar liggja nokkuð skýrt fyrir. Þær eru í stuttu máli þessar:

 • Tekið verður upp þriggja þrepa tekjuskattskerfi þar sem skatthlutfallið verður:
  • 24,1% af fyrstu 200þús krónum tekjuskattstofns (mánaðarlaun að frádregnu iðgjaldi í lífeyrissjóð)
  • 27,0% af 200-650þús krónum
  • 33,0% af því sem fer yfir 650þús krónur
 • Persónuafsláttur hækkar um 2.000 krónur á mánuði frá því sem nú er og verður 44.205 krónur.
 • Fjármagnstekjuskattur verður 18% en þó aðeins af fjármagntekjum umfram 100þús krónur á ári.
 • Breytingar á neyslusköttum munu hafa áhrif til hækkunar verðlags, sem mun hafa áhrif á verðtryggð lán, innkaup, afborganir lána og aðra neyslu.

Sjálfstæðismenn kusu að fara þá leið að bera þessar staðreyndir saman við skattkerfið eins og það var í upphafi þessa árs og núgildandi lög. Þetta hefur eftirfarandi í för með sér:

 • Miðað er við eitt skattþrep með 24,1% tekjuskatti eins og var fyrri helming ársins.
 • Persónuafsláttur á skv. núgildandi lögum að hækka í takt við verðlag OG skv. samkomulagi aðila á launamarkaði um 2.000 krónur að auki. Þetta myndi þýða að hann yrði á næsta ári u.þ.b. 48.000 krónur á mánuði.
 • Miðað er við 10% fjármagnstekjuskatt eins og var fyrri helming ársins í ár.
 • Verðlagshækkanir vegna breytinga á skattkerfinu fyrr á þessu ári eru teknar með í reikninginn og verðlagsáhrif skattbreytinganna verða því samanlagt 1,8% í stað 0,8% – 1,0% áhrifa af breytingunum nú um áramótin.

Ríkisstjórnin vill hins vegar miða við kerfið eins og það er núna. Það þýðir að nýja kerfið er borið saman við:

 • Tvö skattþrep sem tóku gildi um mitt ár:
  • 24,1% af tekjum upp að 700þús krónum á mánuði
  • 32,1% af tekjum yfir 700þús krónum á mánuði
 • Núgildandi 15% fjármagnstekjuskatt.
 • 0,8% – 1,0% verðlagsáhrif skattbreytinga um áramótin.
 • Persónuafslátt upp á 42.205 krónur á mánuði eins og er á yfirstandandi ári.

Deilurnar snúast því ekki um það hvernig kerfið var eða verður – gögnin – heldur um túlkun þeirra eða greiningu. Enginn leggur til röng gögn, en hvor kýs að greina þau gögn með sínum hætti, væntanlega í von um að fá fólk á sína skoðun svo vitnað sé í þrjú skref rökræðunnar hér að ofan.

Menn geta svo gagnrýnt Sjálfstæðisflokkinn fyrir að teygja sínar forsendur inn á þetta ár og fyrir að það sé auðvelt að koma með svona gagnrýni í stjórnarandstöðu þegar menn standa ekki raunverulega frammi fyrir ákvarðanatökunni.

Að sama skapi væri hægt að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að tala um lækkun skatta með hækkun persónuafsláttar um 2.000 krónur en láta hjá líða að minnast á að að óbreyttu hefði hækkun persónuafsláttarins verið mun meiri. Eða það að kalla nýja eignaskattinn “auðlegðarskatt” og að tekjuöflun af honum “gefi um 3 ma. kr., er verði nýttir til að hækka greiðslur barnabóta og vaxtabóta”. Skattur á “auðlegð” er líklegri til vinsælda en “eigna”-skattur og þessir tilteknu 3 milljarðar fara auðvitað alveg jafnt í að greiða vaxtagjöld ríkissjóðs, reka Landspítalann, greiða listamannalaun eða hvað annað sem ríkið tekur sér fyrir hendur.

Hvert og eitt okkar verður að horfa á þetta með sínum eigin gagnrýna hætti og reyna að komast að eigin niðurstöðu um það hvað okkur þyki ásættanlegt og nauðsynlegt í ljósi stöðunnar. Það er þó allavega kostur að rökrætt skuli á grunni staðreynda, en ekki tilfinninga og upphrópana eins og allt of oft vill verða í pólitíkinni.

23 comments

 1. Takk fyrir þennan ágæta pistil sem ég get tekið undir að mestu leyti. Ég get þó ekki annað en sagt að mér finnst forsendur Sjálfstæðisflokksins sérkennilegar. Það væri allt í lagi að miða við núgildandi lög og samkomulag við aðila vinnumarkaðar (og taka þá áformaða hækkun persónuafsláttar eftir áramót með í reikninginn) en þá er líka óhjákvæmilegt að miða við núgildandi lög varðandi skattprósentu, en ekki lögin eins og þau voru fyrri hluta ársins. Það er ekki hægt að velja bara það sem hentar manni best.

 2. Eiríkur: Eins og ég nefni í pistlinum, má gagnrýna það við hvaða tímapunkt er miðað, en það er ekki ósamræmi í þessari nálgun Sjálfstæðismanna. 2.000 króna hækkun persónuafsláttar er hluti af 7.000 króna hækkun sem samið var um í þremur skrefum í febrúar 2008, þannig að samanburðurinn stendur svona m.t.t. til allra atriða fyrir hvaða viðmiðunardagsetningu sem vera skal fyrir mitt ár 2009.

  Til einföldunar gætum við sagt að viðmiðunarpunktur Sjálfstæðisflokksins sé t.d. 1. maí 2009.

  Og hafi það ekki komið skýrt fram þá er gert ráð fyrir 2.000 króna hækkun stjórnarinnar um áramót vs. verðtrygingu + 2.000 króna hækkun í núgildandi samningum og lögum.

 3. Takk, ég skil. Ég fellst á að það sé ekki ósamræmi í þessu í sjálfu sér. En að reikna út frá fyrri hluta ársins er nú eiginlega ekki hægt að kalla annað en blekkingu, finnst mér (og ég veit að það er ekki við þig að sakast). Mér finnst mega færa góð rök fyrir tveimur mismunandi viðmiðunarpunktum; annars vegar að reikna út frá sköttum eins og þeir eru núna, í desember 2009, og hins vegar að reikna út frá sköttum eins og þeir hefðu orðið í janúar 2010 að óbreyttum lögum. En 1. maí 2009 (eða einhver annar dagur fyrri hluta árs) er augljóslega valinn til að sýna breytingarnar í pólitísku ljósi, og þá hefði eins mátt velja einhvern tímapunkt í fyrra eða hitteðfyrra. Og ég biðst afsökunar að vera að ræða þetta hér á þínu bloggi þar sem þú berð enga ábyrgð á þessu – en sjálfstæðismennirnir sem maður ætti að ræða þetta við eru flestir búnir að loka á athugasemdir á sínum síðum.

 4. Eiríkur: Ekkert mál. Og enn til áréttingar: Þetta er m.v. hvernig skattarnir hefðu orðið árið 2010 án nokkurra breytinga á lögum eða samningum FRÁ því í maí á þessu ári. Mér gengur illa að koma þessu vel orðuðu frá mér.

  Líklega er Sjálfstæðisflokkurinn af reyna að koma þeim skilaboðum á framfæri að þeir hefðu ekki gert neitt af þessum breytingum síðustu 6 mánuði ef þeir hefðu verið við völd og þá hefði staðan verið öðruvísi fyrir heimilin sem þessu nemur.

  Hvort þeir hefðu getað staðið við það hefðu þeir verið við völd er svo allt önnur spurning sem við fáum aldrei svar við.

 5. Það hefði þá a.m.k. verið eðlilegra ef Sjálfstæðisflokkurinn miðaði við stöðuna eins og hún var þegar flokkurinn fór frá völdum. Samningurinn um hækkun persónuafsláttar var gerður eftir það, var það ekki? Og 2000 krónurnar kæmu þá ekki inn sem skattahækkun um áramót.

 6. Eiríkur: Þetta fer að líta út eins og mér sé sérlega annt um málstað Sjálfstæðismanna, en staðreyndin er sú að þetta samkomulag var s.s. gert í feb. 2008 (fyrir bráðum tveimur árum) í valdatíð Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Þannig að þetta myndi – sýnist mér – standast þá tillögu þína líka.

 7. Fyrirgefðu – ég las 2009, ekki 2008. Minn klaufaskapur, og ég fellst á að þetta stenst, út af fyrir sig. En sú skoðun mín er samt óbreytt að það hefði verið eðlilegt að miða við annaðhvort skatta í desember 2009 eða þá sem hefðu orðið í janúar 2010.

 8. Eiríkur: Áttaði mig á því að þetta var líklega mislestur. Þessi gagnrýni þín – þ.e. við hvaða tíma skal miðað – er fullkomlega réttlætanleg eins og ég benti á í pistlinum.

  Mjög gott að brýna þetta enn frekar og skýra það sem var óljóst í pistlinum.

 9. Takk fyrir góðan pistil, Hjalli. Skilmerkilega upp sett og ætti að gefa fólki tækifæri til að setja sig inn í málin. Því miður eru ansi margir sem kæra sig kollótta um það hvernig hlutirnir hanga saman og velja fremur að verja fyrri yfirlýsingar/skoðanir eða flokkshagsmuni – eins þú kemur inná í þínum pistli.

  Hvað varðar skattamál vil ég minna á orð Daniel Hannan úr frægri ræðu hans til Gordon Brown (myndbandtranscript):
  Prime Minister, you cannot carry on for ever squeezing the productive bit of the economy in order to fund an unprecedented engorgement of the unproductive bit. You cannot spend your way out of recession or borrow your way out of debt.

 10. Sjálfstæðisflokkurinn miðar við lögin sem eru í gildi. Samkvæmt þeim á persónuafslátturinn að hækka um ákveðna prósentu nú um áramótin.

  Ef ekkert er gert hækkar því prósentan og fólk borgar lægri skatta.

  Ríkisstjórnin er að breyta þessu. Persónuafslátturinn hækkar ekki jafn mikið og hann átti að hækka. Það er skattahækkun. Þetta er alveg skírt.

 11. Sæll,

  Mér finnst kenning þín um hvernig við mótum okkur skoðanir afar áhugaverð:

  1. Fyrst þurfa nauðsynlegar staðreyndir að liggja fyrir
  2. Síðan greinum við þessi gögn og staðreyndir með tiltækum tólum
  3. Loks byggir hvert okkar niðurstöðu eða dóma á undangenginni greiningu

  DataMarket dekkar tengingu á milli 1. og 2. atriðis afar vel, með því að endurspegla gögnin og staðreyndirnar á myndrænan og sýnilegan hátt. Hins vegar held ég að ekki megi vanmeta 3. þáttinn, sem getur einmitt reynst merkilega erfiður viðfangs, sérstaklega þegar tengja þarf saman gildismat ólíkra einstaklinga, og jafnvel mikils fjölda þeirra.

  Í þriðja lið þarf nefnilega að gera ráð fyrir samræðu, að ólíkt fólk hafi ólíkar skoðanir og setji sín markmið í samræmi við þá staðreynd. Eftir skýra samræðu ætti fólk að geta komið sér saman um hver þessi gildi eru og hvernig unnið skuli að því að gera þau að veruleika.

  Fyrirtækið sem ég starfa hjá í dag, Ambitiongroup, hefur sett saman aðferðafræði um hvernig hægt er að ræða þessi gildi á myndrænan hátt, þannig að allir aðilar átti sig á mikilvægi þeirra og skilji hvers vegna sum gildi þykja mikilvægari en önnur á viðkomandi tíma. Og síðan er þessum gildum fylgt eftir með verk- og starfsskipulagskerfi.

  Það væri gaman að kynna þetta betur fyrir þér ef þú hefur áhuga á að vita meira.

 12. Mér finnst mjög kjánalegt að verja sig með því að reikniniðurstaðan sé rétt þegar forsendan er röng. Ég get ekki skilið að nokkur haldi að þær ákvarðandi sem voru teknar áður en kreppan skall á gildi núna, þá var stefnt að því að lækka skatta og er sjálfstæðisflokkur að miða við það. Þau mundu ekki lækka skatta væru þau í ríkisstjórn því get ég lofað !

 13. Sammála Eiríki !

  “skoðun mín er samt óbreytt að það hefði verið eðlilegt að miða við annaðhvort skatta í desember 2009 eða þá sem hefðu orðið í janúar 2010.”

  Annað eru rangfærslur og ekki marktækt !!!

  Mér finnst skrýtið ef datamarket vill koma að því að verja það að reiknað sé út frá röngum forsendum til að blekkja fólk og hræða í pólitískum áróðri

 14. Sveinn: Takk fyrir það. Ég þykist vita að flokkur undir þinni stjórn myndi beita sér fyrir átakinu “Skattlaust Ísland 2012” 🙂

  V: Þetta snýst allt um viðmiðunarpunkt. Þetta er skattalækkun frá desember til janúar, en skattahækkun miðað við það hvernig janúar hefði orðið að óbreyttu. Snýst s.s. um sjónarhorn eins og er reyndar megin-inntak pistilsins.

  Hrannar: Rétt að fram komi að kenningin er ekki mín. Ég held bara mikið upp á hana. Þó DataMarket sé að einbeita sér að skrefum 1-2 og vilji sem mest láta öðrum skrefið frá 2 til 3 eftir, þá hef ég samt áhuga á að heyra meira af því sem þið eruð að gera. Sendu mér línu.

  Heiða B / HBH: Eins og fram kemur í niðurlagi pistilsins má benda á að það eru mikil þægindi fyrir Sjálfstæðisflokkinn að geta gagnrýnt málið sem stjórnarandstöðuflokkur og standa ekki frammi fyrir ákvarðanatökunni sjálf. Það er eðlilegt að halda því á lofti að þeirra nálgun væri mjög líklega önnur ef þau væru við völd.

  DataMarket er ekki að verja eitt eða neitt. Við tökum ekki afstöðu til þess hvað er rétt eða rangt í þessu. Í pistlinum er einfaldlega bent á að Sjálfstæðisflokkurinn kýs að miða við að lög og samningar stæðu óbreytt frá því 1. maí 2009, en ríkisstjórnin miðar við aðrar forsendur. Hvorugt er rangt, en hvort tveggja umdeilanlegt eftir því hvaða augum menn sjá málið.

 15. “Ég hallast reyndar að því að flokkshollusta sé að mörgu leyti þægindi sem fólk sækir í til að þurfa ekki að setja sig inn í málin og mynda sér sína eigin afstöðu”

  Ég gæti ekki verið meira sammála þér. Ég var einmitt að ræða þetta í dag og ég held að þetta sé eitt versta vandamál sem herjar á Íslenskt lýðræði.

  Mjög margt fólk virðist ekki nenna að leita sér upplýsinga eða yfir höfuð spá í fyrirliggjandi gögnum. Það samsvarar sér hinsvegar með einhverjum flokk og þegar það heyrir afstöðu viðkomandi flokks til eitthvers málefnis, þá ályktar það að sú afstaða hljóti að vera sú rétta.

  Það eru t.d. sára fáir sjallar eða framsóknarmenn sem eru hlyntir því að ganga frá Icesave og alltaf heyrir maður að þetta séu svo gífurlegar skuldbindingar sem setji börn okkar og barnabörn í skuldafjötra. Sama fólk kippti sér ekkert upp við þær fréttir að skuldir Reykjavíkurborgar væru að nálgast 282 milljarða.

  Datamarket er að gera góða hluti við að færa umræðuna yfir á hærra plan. Ég vona bara að fleira fólk nenni að kynna sér gögnin sem þið gerið svona aðgengileg.

  1. Haukur: Þakka hlý orð í okkar garð.

   Við erum óskaplega sammála um þetta. Dæmið sem þú dregur fram um skuldir borgarinnar vs. Icesave er áhugavert í þessu samhengi og sýnir hversu mjög skoðanir manna á skuldsetningu ráðast af stöðu þeirra í pólitík.

   Til að gæta jafnræðis er rétt að benda á að dæmið má líka setja upp í hina áttina: Sama fólkið berst fyrir því að Icesave verði samþykkt og agnúast út í skuldsetningu borgarinnar.

 16. Skattareiknirinn segir að hjá 400 þús. króna fólki séu áhrif skattbreytinga á ráðstöfunartekjur 18.400 kr. meiri ef fyrirvinnan er ein.
  Mér reiknast hinsvegar til að það muni 69.600 kr. á ári á sköttum í nýju kerfi eftir því hvort þessar tekjur skiptast jafnt á milli hjóna eða annar aðilinn aflar þeirra allra. Nánar: Ef hvort um sig hefur 200 þús. á mánuði lenda allar tekjurnar í fyrsta þrepi. Ef annað hefur 400 þús. kr. og hitt ekkert, þá lenda 200 þús. áfram í fyrsta þrepi en 200 þús. í öðru þrepi, í 2,9% hærri álagningu. Það gerir 5.800 kr. hærri skatt á mánuði, 69.600 kr. meira á ári.
  Hvort er það ég sem reikna vitlaust eða skattareiknirinn á xd.is?
  Og önnur spurning: Hversvegna eru verðlagsáhrif skattbreytinganna breytileg skv. skattareikninum eftir því hvort sett er inn ein fyrirvinna eða tvær?

 17. Finnur: Í öllum tilfellum er reiknað með því að tekjur heimilisins skiptist jafnt á milli fyrirvinnanna. Auðvitað er það sjaldnast raunin og þetta getur skekkt myndina eitthvað, en þó er rétt að taka tillit til þess að stjórnin hefur gefið sterklega til kynna að hjónum og sambýlisfólki muni standa til boða að telja sameiginlega fram til skatts sem í þessu tilliti myndi koma út á sama hátt og um tvo jafnlaunaða einstaklinga væri að ræða. Þetta á því alveg að standast skoðun, en við tökum öllum góðum ábendingum um annað.

  Verðlagsáhrifin eru mismunandi vegna þess að ráðstöfunartekjurnar eru mismunandi. Verðlagsáhrifin eru reiknuð út frá ráðstöfunartekjunum (gert ráð fyrir að 90% af ráðstöfunartekjum fari í neyslu, innkaup eða afborganir sem stýrast af neysluverði). Einstaklingur með 400þús í tekjur á mánuði hefur 280þús í ráðstöfunartekjur eftir iðgjald og skatta (í nýja kerfinu), en hjón með samtals 400þús í tekjur hafa 330þús í ráðstöfunartekjur. Munurinn stafar af því að þau njóta persónuafsláttar beggja og eru með allar sínar tekjur í neðsta skattþrepinu.

  Vona að þetta skýri málið, en tek öllum góðum ábendingum og frekari spurningum fagnandi.

 18. Hjalli: Takk fyrir svörin. Þau leiða í ljós að spurningar mínar voru byggðar á misskilningi: Valið milli einnar eða tveggja fyrirvinna er semsagt ekki á milli fjölda fyrirvinna innan einnar fjölskyldu eins og ég hélt, heldur í raun á milli þess hvort um er að ræða einstakling eða hjón/sambúðarfólk. En mér finnst framsetning skattareiknisins bjóða þessum misskilningi heim, skýrara gefði verið að valhnapparnir hétu einfaldlega “einstaklingur” og “hjón/sambúðarfólk.”
  Það eru nýjar fréttir að “ríkisstjórnin hafi gefið sterklega til kynna að hjónum og sambýlisfólki muni standa til boða að telja sameiginlega fram til skatts.” Það er annað en stendur í lagafrumvarpinu. Þar felst “samsköttunin” annars vegar í því að persónuafslátturinn er (áfram) að fullu millifæranlegur, og hinsvegar í því að tekjuhár maki getur sótt um að fá að nýta sér helminginn af því sem hinn aðilinn á ónotað í öðru þrepi. Það sem hann kann að eiga ónotað í fyrsta þrepi fellur samkvæmt þessu dautt, og þetta er ansi langt frá því að vera raunveruleg smasköttun.

  1. Mjög góð ábending með “Fjöldi fyrirvinna” vs. “Einstaklingur / Sambúðarfólk eða hjón” – ég kem því áleiðis til auglýsingastofunnar.

   Hitt er rétt að skv. frumvarpinu þá er þetta klárlega ekki fullkomin samsköttun. Umræðan eftir að frumvarpið kom fram hefur þó verið frekar í þá átt að þetta verði rýmkað – þó ég muni ekki til þess að neitt endanlegt hafi komið fram um það. Það er því rétt hjá þér að ef gefinn væri kostur á mismunandi tekjum einstaklinga ætti skv. frumvarpinu að reikna þetta öðru vísi og þá kæmu fram meiri áhrif skattabreytinganna en reiknirinn sýnir í dag. Um þetta er þó óvissa og það hefði flækt reikninn til muna að gefa kost á þessu.

   Virkilega góðar athugasemdir – ég tek þetta inn í módelin hjá mér og reyni að gera þessu skil þegar og ef þau verða notuð meira.

 19. Hjalli, hvernig færðu það út að tekjuskatturinn sé/verði á bilinu 24-33 prósent?

  Ertu þarna að draga frá útsvarið sem rennur til sveitarfélaganna?

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s