Sprotafyrirtæki á leið úr landi?

Í gær hringdi í mig fréttamaður frá Stöð 2. Hann hafði haft af því ávæning að DataMarket og fleiri sprotafyrirtæki væru “á leið úr landi”. Ég útskýrði fyrir honum að hvað okkur varðaði væri fyrirtækið einfaldlega komið á þann stað í lífinu að nú þyrfti að leggja áherslu á að ná erlendum viðskiptavinum og jafnvel fá erlenda fjárfesta að fyrirtækinu. Eftir stutt spjall varð úr að hann kæmi og tæki við mig stutt viðtal um þær áskoranir sem við sæum helstar í því.

Við spjölluðum vel og lengi – líklega hafa þeir tekið a.m.k. 15 mínútur af efni þar sem ég fór vítt yfir sviðið og útskýrði umfram allt að við þyrftum við að gera tvennt erlendis:

  1. Koma upp sölu- og markaðsstarfsemi þar sem við erum nær verðandi viðskiptavinum okkar, eða a.m.k. stærri hópi en þeim sem við höfum úr að moða hér á landi.
  2. Gera erlendum fjárfestum sem hugsanlega vildu koma að félaginu kleift að leggja fé inn í fyrirtæki sem starfrækt er í lagaumhverfi sem þeir þekkja, skilja og eru vanir. Fyrir bandaríska fjárfesta þýðir þetta oftast fyrirtæki sem sett eru upp í Delaware-fylki (þó starfsemin sé oftast allt annars staðar).

Þar sem mig grunaði að Stöð 2 væri jafnvel að höggva eftir því hvort gjaldeyrishöft, niðurstaðan úr Icesave-kosningunni, aðild (eða ekki) að ESB, Ríkisstjórnin, stjórnarandstaðan eða önnur heit pólitísk mál væru að þvælast fyrir okkur, lagði ég áherslu á að það væru ýmsar áskoranir tengdar því að vera á Íslandi, en áskoranir við sprotastarfsemi væru alls staðar. Helsta *landfræðilega* áskorunin við það að vera á Íslandi er sú sama í huga helstu sprota- og vaxtarfjárfestingasjóða heimsins og nánast alls staðar annars staðar í heiminum: Ísland er ekki í Silicon Valley 😉

Sömuleiðis lagði ég ríka áherslu á það að hér væri að mörgu leyti gott umhverfi til að taka fyrstu skrefin með sprotafyrirtæki. Hér er mikil og góð tækniþekking og þó atvinnulaust hæfileikafólk í upplýsingatækni finnist ekki hér frekar en annars staðar í heiminum er engu að síður hægt að setja saman mjög öfluga kjarnahópa sem stýra munu þróun um ókomna tíð þó að líklega þurfi að leita í stærra samfélag þegar og ef fyrirtæki komast á þann stað að þurfa hundruð starfsmanna við þróun.

Staða okkar væri sem sagt sú að við værum að skoða möguleikana á því að setja upp skrifstofu erlendis og að setja fyrirtækið upp með einhverjum hætti sem ekki fækkaði fjölda mögulegra fjárfesta á “tækniatriðum” eins og því að þeir þyrftu að setja sig inn í íslenskt lagaumhverfi, gjaldeyrishöft og pólitískan stöðugleika á Íslandi. Fjármögnunarferli sprotafyrirtækja snýst um að fækka ástæðum fjárfestis til að segja “nei” þangað til hann hefur enga og getur ekki annað en sagt “já”. Þetta er einfaldlega einn liður í því og flest skrefin væru alveg þau sömu og við hefðum tekið á þessu stigi á líftíma fyrirtækisins þó aldrei hefði orðið bankahrun og engin gjaldeyrishöft væru.

Að loknu þessu yfirvegaða og jákvæða spjalli kvöddumst við og fréttamaðurinn hafði úr ofangreindu og fleiru að moða til að klippa saman frétt um málið.

Viti menn! Önnur frétt í fréttatíma Stöðvar 2 er “Fimm sprotafyrirtæki á leið úr landi” og inngangurinn í svipuðum æsifréttarstíl. Smellið á myndina til að sjá innslagið í heild:

Miðað við spjallið eru nokkur atriði sem ég er svolítið hissa á í þessari frétt:

  • “Fimm sprotafyrirtæki á leið úr landi”, er ekki það sama og að þau vilji starfrækja viðskiptahluta starfseminnar erlendis. Hvað DataMarket varðar – og ég veit að það gildir um flest, ef ekki öll, hinna fyrirtækjanna sem nefnd voru – stendur ekki til og er engin ástæða til að flytja þróunarstarfið úr landi.
  • Í inngangi segir “gjaldeyrishöft gera það að verkum að erlendir fjárfestar forðast að fjárfesta hér á landi”. Það þarf nú líklega ekki að koma neinum á óvart, en eins og kemur reyndar fram í fréttinni eru höftin alls ekki upphaf og endir alls. Á þessu eru lausnir og þetta bara eitt af fjölmörgum úrlausnarefnum.
  • Hvað er Sjálfstæðisfálkinn og Valhöll að gera í bakgrunni við kynningu fréttarinnar?!? (Ég ætla reyndar að gefa mér að það séu einhver mistök, a.m.k. skil ég hvorki beina né dulda tengingu þeirra við fréttina)

…að öðru leyti er ekkert við fréttina að athuga. Þetta er veruleikinn eins og hann blasir við mér á þessum tímapunkti.

Það er hins vegar til marks um umræðuna á Íslandi í dag að fyrir þessa lýsingu mína hef ég í dag fengið að heyra að ég sé: ESB-sinni, andstæðingur ríkisstjórnarinnar, stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar, ósáttur við niðurstöðu Icesave-kosningarinnar og ýmslegt fleira … sem nota bene er allt sagt í gagnrýnistón.

Meðan þau atriði sem ég er gagnrýndur fyrir eru úr öllum – þar með talið gagnstæðum – áttum, ætti ég samt kannski ekki að hafa of miklar áhyggjur af því 😉

3 comments

  1. Frábær samantekt. Að öllu leiti og þú stóðst þig eins og hetja við þetta.

    Fréttamenn reyna alltaf að finna krassandi fyrirsagnir og “hook” – maður þarf bara að reyna að hunsa það og vona að almenningur kunni að taka upplýsingunum með fyrirvara..

    (sorry, vill ekki vera stafsetningafastisti, en stja=>setja)

  2. Hjalli,
    Þetta var frábært viðtal. Ég hef aldrei sjálfur heldur upplifað viðtöl við mig, hvort sem er á prenti, hljóðvarpi eða sjónvarpi, á Íslandi eða USA, þar sem mér hafa fundist mínar áherslur komast fullkomlega til skila.
    Í flestum tilvikum er þetta fjórðungur til helmingur af punktunum sem skila sér, hitt er áhersla og/eða misskilningur fréttamanns.
    Go for it!
    /Heimir

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s