Besta ræða Steve Jobs

Steve Jobs er fallinn frá. Hann er öllum frumkvöðlum fyrirmynd og við erum mörg sem lítum upp til hans. Í minningu kappans ákvað ég að færa í íslenska þýðingu bestu ræðu Steve Jobs, og reyndar eina bestu ræðu sögunnar að mínu mati.

Ræðan var flutt við úskrift nemenda úr Stanford-háskóla þann 12. júní árið 2005 og á erindi við alla, ekki bara tölvufólk og sprotaflón, heldur alla sem velta fyrir sér lífinu og tilverunni:

Það er mér heiður að vera með ykkur í dag þegar þið brautskráist frá einum besta háskóla heims. Í sannleika sagt er þetta það næsta sem ég hef komist slíkri útskrift. Mig langar að segja ykkur þrjár sögur úr lífi mínu. Það er allt og sumt. Engin stórræði. Bara þrjár sögur.

Fyrsta sagan fjallar um það að mynda tengingar.

Ég hætti í námi við Reed-háskóla eftir 6 mánaða skólagöngu, en var viðloðandi skólann í aðra 18 mánuði áður en ég sagði að fullu skilið við skólann. En af hverju hætti ég þá?

Sagan hefst áður en ég fæddist. Líffræðileg móðir mín var ungur og ógiftur háskólanemi og ákvað að gefa mig til ættleiðingar. Hún hafði sterka skoðun á því að fólkið sem ættleiddi mig ætti að vera háskólagengið fólk. Það hafði því verið gengið frá því að ég yrði ættleiddur af lögfræðingi og konunni hans. Nema hvað, þegar ég skaust í heiminn ákváðu þau á síðustu stundu að þau vildu heldur stelpu. Foreldrar mínir, sem voru á biðlista, fengu því símtal um miðja nótt: “Óvænt erum við hér með nýfæddan strák; viljið þið taka hann?” Þau svöruðu: “Að sjálfsögðu.” Líffræðileg móðir mín komst síðar að því að mamma hafði aldrei útskrifast úr háskóla og pabbi hafði aldrei lokið menntaskólanámi. Hún neitaði því að skrifa undir endanlegu ættleiðingarskjölin. Það var ekki fyrr enn nokkrum mánuðum síðar þegar foreldrar mínir lofuðu að ég myndi fara í háskólanám að hún féllst á að ganga frá pappírunum.

Og 17 árum síðar fór ég í háskóla. Í barnaskap mínum valdi ég skóla sem var næstum eins dýr og Stanford. Þetta þýddi að allur sparnaður verkafólksins, foreldra minna, fór í skólagjöldin mín. Að sex mánuðum liðnum sá ég ekki að námið væri þess virði. Ég hafði enga hugmynd um hvað ég vildi gera í lífinu og enga hugmynd um hvernig háskólinn myndi hjálpa mér að svara þeirri spurningu. Og hér var ég að eyða öllum þeim sparnaði sem foreldrar mínir höfðu safnað á lífsleiðinni. Þannig að ég ákvað að segja mig frá náminu og treysti því að þetta myndi allt reddast einhvern veginn. Þessi ákvörðun hræddi mig mjög, en þegar ég lít til baka sé ég að þetta var einhver besta ákvörðun sem ég hef nokkurntíman tekið. Um leið og ég hætti í formlega náminu þurfti ég ekki lengur að sækja kúrsa sem ég hafði engan áhuga á og gat laumast inn í kúrsa sem virtust áhugaverðir.

Þetta var ekki eintóm gleði og hamingja. Ég var ekki með herbergi á heimavist þannig að ég svaf á gólfinu í herbergjum vina minna. Ég safnaði flöskum sem ég seldi fyrir 5 sent til að kaupa mat og á hverjum sunnudegi gekk ég 7 mílur þvert yfir bæinn til að fá eina almennilega máltíð í Hare Krishna-hofinu. Mér fannst þetta frábært. Og margt af því sem ég rakst með því að elta forvitni mína og brjóstvit reyndist mér ómetanlegt síðar. Ég skal gefa ykkur eitt dæmi:

Reed-háskóli bauð á þessum tíma upp á nám í skrautritun. Hugsanlega besta slíka nám sem boðið var upp á í landinu. Á háskólasvæðinu var hvert einasta plakat, hver einasta merking á hverri einustu skúffu, fallega skrautrituð. Þar sem ég hafði hætt í formlegu námi og þurfti ekki að stunda hefðbundin fög, ákvað ég að læra skrautritun. Ég lærði muninn á steinskrift og þverendaletri, um breytilegt bil á milli stafa eftir samstæðum þeirra og hvað það er sem gerir framúrskarandi letur framúrskarandi. Þetta var fallegt, sagnfræðilegt og hafði listrænan blæ þeirrar gerðar sem vísindin ná ekki að fanga, og þetta heillaði mig.

Ekkert af þessu hafði minnstu möguleika til að nýtast mér seinna á ævinni. En tíu árum síðar, þegar við vorum að hanna fyrstu Macintosh tölvuna, rifjaðist þetta allt upp fyrir mér. Og við útfærðum þetta allt sem hluta af Makkanum. Hún var fyrsta tölvan með fallegu letri. Ef ég hefði ekki sótt akkúrat þennan áfanga í háskóla hefði Makkinn aldrei boðið upp á mismunandi leturgerðir eða hlutfallslegt stafabil. Og þar sem Windows apaði bara upp það sem Makkinn gerði, hefði sennilega engin einkatölva boðið upp á slíkt. Ef ég hefði ekki hætt í námi hefði ég aldrei sótt þennan áfanga í skrautritun og einkatölvur byðu ef til vill ekki upp á fallegt letur. Auðvitað var ómögulegt að átta sig á þessari tengingu þegar ég var í háskólanum, en það var mjög auðvelt þegar litið var til baka 10 árum síðar.

Ég endurtek, það er ómögulegt að sjá tengingar fyrirfram; þú getur einungis áttað þig á þeim þegar þú lítur til baka. Þú verður því að treysta því að hlutirnir tengist einhvern veginn seinna á lífsleiðinni. Þú þarft að treysta einhverju – tilfinningunni í maganum, örlögunum, lífinu, karma, einhverju. Þessi nálgun hefur aldrei svikið mig og hún hefur mótað líf mitt.

Önnur sagan fjallar um ástríðu og missi

Ég var heppinn – ég fann mína ástríðu snemma í lífinu. Við Woz stofnuðum Apple í bílskúr foreldra minna þegar ég var tvítugur. Við unnum hörðum höndum, og á 10 árum óx Apple úr því að vera við tveir í bílskúr í tveggja milljarða dollara fyrirtæki með 4.000 starfsmenn. Við hleyptum af stokkunum okkar bestu vöru – Macintosh tölvunni – ári áður og ég var rétt nýorðinn þrítugur. Og þá var mér sagt upp. Hvernig getur manni verið sagt upp störfum hjá fyrirtæki sem maður stofnar sjálfur? Tjah, samhliða vexti Apple réðum við til starfa mann sem ég taldi ákaflega hæfileikaríkan til að reka fyrirtækið með mér, og það gekk vel fyrsta árið eða svo. Þá tók framtíðarsýn okkar ólíka stefnu sem leiddi á endanum til ósættis. Stjórn fyrirtækisins tók afstöðu með honum. Þannig að þrítugur var ég settur af. Og það með mjög áberandi hætti. Allt það sem ég hafði beint kröftunum að því að byggja upp sem fullorðinn maður var farið, og það nísti inn að beini.

Ég vissi hreint ekki hvað ég átti að gera í nokkra mánuði. Mér fannst ég hafa brugðist fyrri kynslóð frumkvöðla – að ég hefði misst kyndilinn sem mér var færður. Ég fór á fund David Packard og Bob Noyce og reyndi að biðja þá afsökunar á að hafa mistekist svona hrapalega. Ég var opinberlega misheppnaður og ég hugsaði jafnvel um að flýja úr dalnum. En ég tók smám saman að átta mig á einu – ég hafði enn ástríðu fyrir því sem ég var að fást við. Atburðarásin hjá Apple hafði ekki breytt því neitt. Mér hafði verið hafnað, en ég var enn ástfanginn. Og ég ákvað að byrja upp á nýtt.

Ég áttaði mig ekki á því þá, en það kom í ljós að brottreksturinn frá Apple var það besta sem hefði getað hent mig. Í stað byrðanna sem fylgdu góðum árangri kom léttirinn af því að vera byrjandi á ný, ekki jafn viss í minni sök og áður. Þetta frelsi leiddi til einhvers frjóasta tímabils lífs míns.

Á næstu fimm árum stofnaði ég fyrirtæki sem hét NeXT, annað sem heitir Pixar og varð ástfanginn af ótrúlegri konu sem varð síðar eiginkona mín. Pixar framleiddi heimsins fyrstu tölvugerðu teiknimynd, Toy Story, og er í dag öflugasti teiknimyndaframleiðandi veraldar. Merkileg atburðarás varð til þess að Apple keypti NeXT, ég fór aftur til Apple og tæknin sem við þróuðum hjá NeXT er hjartað í endurreisn Apple. Og við Laurene eigum saman yndislega fjölskyldu.

Ég er nokkuð sannfærður um að ekkert af þessu hefði gerst ef ég hefði ekki verið rekinn frá Apple. Þetta var ekki bragðgott meðal, en það virðist vera að sjúklingurinn hafi þurft á því að halda. Stundum slær lífið mann í höfuðið með múrsteini. Ekki missa trúna. Ég er sannfærður um að það eina sem hélt mér gangandi var ástríðan fyrir því sem ég fékkst við. Maður verður að finna þessa ástríðu. Þetta gildir jafnt um lífið sem lífsförunautana. Vinnan er stór hluti af lífinu og eina leiðin til að vera virkilega ánægður er finnast maður vera að vinna framúrskarandi vinnu. Og leiðin til að vinna framúrskarandi vinnu er að hafa ástríðu fyrir því sem maður er að gera. Ef þú hefur ekki fundið hana ennþá, haltu áfram að leita. Ekki sætta þig við minna. Eins og með önnur hjartans mál, veistu þegar það rétta er fundið. Og, eins og öll góð sambönd, batnar það bara með árunum. Haldu áfram að leita þar til þú hefur fundið þína ástríðu. Ekki sætta þig við minna.

Þriðja sagan er um dauðann.

Þegar ég var 17 ára, las ég tilvitnun sem var eitthvað á þessa leið: “Ef þú verð hverjum degi eins og hann væri þinn síðasti, muntu á endanum hafa rétt fyrir þér.” Þetta hafði áhrif á mig, og síðan þá, síðustu 33 ár, hef ég litið í spegilinn á hverjum morgni og spurt sjálfan mig: “Ef dagurinn í dag væri síðasti dagur lífs míns, myndi mig langa að gera það sem ég er að fara að gera í dag?” Og í hvert skipti sem svarið hefur verið “Nei” of marga daga í röð, veit ég að ég þarf að breyta einhverju.

Hafandi í huga að innan skamms muni ég deyja er mikilvægasta tækið sem ég hef fundið til að hjálpa mér við að taka stóru ákvarðanirnar á lífsleiðinni. Vegna þess að næstum allt – allar væntingar, allt stolt, allur ótti við niðurlæginguna sem felst í mistökum – allt þetta bliknar í samanburði við dauðann og eftir stendur það sem raunverulega skiptir máli. Hafandi í huga að innan skamms muni maður deyja er besta aðferðin sem ég kann til að forðast þá hugsanavillu að maður hafi einhverju að tapa. Þú ert þegar nakinn. Það er ástæðulaust að fylgja ekki draumum sínum eftir.

Fyrir um það bil ári síðan var ég greindur með krabbamein. Ég fór í rannsókn klukkan hálf átta um morguninn og hún sýndi svo ekki var um að villast æxli í brisinu. Ég vissi ekki einu sinni hvað bris var. Læknarnir sögðu mér að þetta væri nær örugglega ólæknandi mein og að ég mætti búast við því að eiga þrjá til sex mánuði ólifaða. Læknirinn ráðlagði mér að fara heim og koma mínum málum í farveg, sem þýðir á læknamáli að maður eigi að búa sig undir dauðann. Það þýðir að reyna að segja börnunum þínum á nokkrum mánuðum allt það sem þú hélst að þú hefðir næstu 10 ár til að segja þeim. Það þýðir að ganga þannig um hnútana að fráfall þitt sé eins fyrirhafnarlítið og mögulegt er fyrir fjölskylduna. Það þýðir að kveðja fólkið sitt.

Þennan dag lifði ég við þessa greiningu. Um kvöldið fór ég í magaspeglun, þar sem þeir tróðu slöngu niður hálsinn á mér, í gegnum magann, alla leið niður í garnirnar, stungu nál í brisið og náðu nokkrum frumum úr æxlinu. Ég var í lyfjamóki, en eiginkona mín, sem var með mér á staðnum sagði að þegar læknarnir skoðuðu frumurnar í smásjá fóru þeir að gráta þar sem í ljós kom að þetta var mjög sjaldgæf gerð krabbameins í brisi sem unnt er að lækna með skurðaðgerð. Ég fór í þessa skurðaðgerð og nú er allt í góðu lagi.

Þetta er það næsta sem ég hef komist því að standa frammi fyrir dauðanum, og ég vona að þetta sé það næsta sem ég kemst því í nokkra áratugi til viðbótar. Eftir þessa upplifun get ég þó sagt ykkur af heldur meiri sannfæringu en þegar dauðinn var fyrir mér aðeins gagnlegt, en fjarlægt hugtak:

Engan langar til að deyja. Jafnvel fólk sem vill fara til himna vill ekki deyja til að komast þangað. Og samt er dauðinn það sem bíður okkar allra. Enginn hefur nokkru sinni sloppið við hann. Og þannig á það líka að vera, vegna þess að Dauðinn er líklega besta uppfinning Lífsins. Hann er það sem drífur áfram þróun Lífsins. Hann grisjar úr það gamla og býr til rými fyrir það nýja. Núna eruð þið það nýja, en einn daginn eftir ekki svo ýkja langan tíma, verðið þið smám saman það gamla og verðið grisjuð úr. Þið fyrirgefið dramatíkina, en svona er þetta.

Þið hafið takmarkaðan tíma. Ekki sóa honum í að lifa lífi einhvers annars. Ekki festast í viðjum einhverra kredda – að lifa lífinu með hliðsjón af því sem öðru fólki finnst. Ekki láta háværar skoðanir annarra yfirgnæfa ykkar innri rödd. Og mikilvægast af öllu, hafið kjark til að fylgja því sem hjartað og brjóstvitið segir ykkur. Einhvern veginn vita þau hvað þið raunverulega viljið. Allt annað er aukaatriði.

Þegar ég var ungur var gefið út magnað rit sem nefndist The Whole Earth Catalog. Þetta var ein af biblíum minnar kynslóðar. Upphafsmaðurinn var náungi hér í nágrenninu, í Menlo Park, að nafni Stewart Brand. Ljóðræn nálgun hans gaf ritinu líf. Þetta var í lok 7. áratugarins, fyrir tíma einkatölva og umbrotsforrita. Ritið var því allt unnið með ritvélum, skærum og Polaroid myndavélum. Þetta var eins konar Google í pappírsformi, 35 árum áður en Google kom til sögunnar: unnið af hugsjón og stútfullt af frábærum upplýsingum, viðhorfum og hugmyndum.

Stewart og hans fólk gáfu út nokkur tölublöð af The Whole Earth Catalog. Þegar það hafði runnið sitt skeið á enda gáfu þeir út sérstakt lokatölublað. Þetta var um miðjan 8. áratuginn og ég var á ykkar aldri. Á baksíðu síðasta tölublaðsins var ljósmynd af sveitavegi snemma morguns, sveitavegi eins og þeim sem maður gæti farið um á puttaferðalagi ef maður væri í ævintýrahug. Undir myndinni stóð: “Verið hungruð. Verið flón.” (“Stay hungry. Stay foolish.”) Þetta voru þeirra lokaorð þegar þau kvöddu. Verið hungruð. Verið flón. Og þetta er það sem ég hef alltaf óskað sjálfum mér. Og núna, þegar þið útskrifist, óska ég ykkur þess sama.

Verið hungruð. Verið flón.

Takk fyrir kærlega.

Hér má svo horfa á ræðuna í flutningi Jobs:

Og hér má svo nálgast upprunalega enska textann.

5 comments

    1. Hárrétt Hjalti. Ég hugsaði ekki einu sinni um þetta og skrifaði án þess að hugsa mig tvisvar um, líklega vegna þess að hann fór í lifrarígræðslu. Lagfært.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s