Ég hef aðeins verið að velta þessari Vaðlaheiðargangaframkvæmd fyrir mér. Eins og oft vill verða skiptast háværustu raddirnar í tvo hópa á sitthvorum enda litrófsins: Annars vegar þá sem finna framkvæmdinni allt til foráttu og hins vegar þá sem vilja keyra verkið í gegn nánast án frekari umræðu eða umhugsunar.
Ég settist þess vegna aðeins yfir málið í morgun og fann til eftirfarandi gögn sem sýna samanburð á umferð um Víkurskarð (sem Vaðlaheiðargöng munu að mestu leysa af hólmi) og Hvalfjarðargöng á árunum 2000-2009:

Meðalfjöldi ferða yfir allt tímabilið er 1.014 bílar á dag um Víkurskarð, en 4.459 um Hvalfjarðargöng og hefur á báðum stöðum vaxið nokkuð jafnt og þétt ár frá ári. Þannig var meðalumferð á dag árið 2000:
- Víkurskarð: 834 ferðir
- Hvalfjarðargöng: 3.241 ferð
…en árið 2009:
- Víkurskarð: 1.253 ferðir
- Hvalfjarðargöng: 5.413
Þetta samsvarar því að umferð um Víkurskarð hafi að jafnaði vaxið um ca. 4,2% á ári, en um 5,3% á ári í Hvalfjarðargöngunum.
Ég birti þessi gögn á Facebook og þar sköpuðust í framhaldinu býsna fjörugar og fróðlegar umræður um málið.
Tryggvi Þór Herbertsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins blandaði sér meðal annars í þessar umræður með fróðlegu innleggi og bauðst til að senda mér þá arðsemisútreikninga sem hann hefði notað til að mynda sér skoðun á málinu í upphafi árs 2012, en Tryggvi hefur lýst sig fylgjandi framkvæmdinni.
Ég fékk leyfi Tryggva til að birta þessa útreikninga hans. Hér eru hans forsendur og niðurstöður (smellið á myndina til að skoða útreikningana sjálfa):

Ég hafði nokkrar athugasemdir við forsendur útreikninganna, sem ég sendi Tryggva um hæl:
- Þú reiknar með að öll umferð fari um göngin. Er ekki rétt að miða við 90%?
- Engir vextir á framkvæmdatíma?
- Rekstrarkostnaður Hvalfjarðarganga er 250 m.kr. á ári. Þú reiknar með 40 m.kr. á ári við Vaðlaheiðargöng. Hvernig rökstyðurðu þennan mun?
- Þú reiknar með að meðalveggjald notanda sé 1255 krónur (með vsk). Það er verulega mikið hærra (meira en 2x) en t.d. í Hvalfjarðargöngum. Er það raunhæft?
- Er tímasparnaðurinn ekki 11 mínútur (16 km á 90km hraða)?
- 1,5% vöxtur á umferð kann að vera hóflegt miðað við reynslu síðustu 10 ára (sjá að ofan). Má alveg hækka það aðeins. T.d. 2%
Tryggvi benti mér réttilega á að samanlagður tímasparnaður miðast við fjölda farþega í bíl og óhætt að reikna með að það séu fleiri en einn í bílnum. 40 m.kr. rekstrarkostnaðurinn er kominn frá Vaðlaheiðargöngum ehf og skýrður með ólíkri tækni, en hann er svo mikill að þar finnst mér skorta frekari rökstuðning. Almennt hefur verið talað um að veggjald verði 1000 krónur og það hlýtur að miðast við að sú upphæð sé með VSK – ekki án. 50 m.kr. sparnaður við vetrarþjónustu hljómar nokkuð hár, en ég geri ekki athugasemdir við það fyrr en að betur athuguðu máli.
Að teknu tilliti til þessara forsendubreytinga líta uppfærðar niðurstöður svona út. Blálituðu reitirnir merkja mínar breytingar. Að vísu er enn ekki gert ráð fyrir vöxtum á framkvæmdatíma (aftur má smella á myndina til að sjá útreikningana):

Niðurstaðan er vissulega töluvert ólík eftir þessar breytingar.
Ef þið hafið aðrar forsendur eða skoðanir á því hvernig eigi að gera þetta, getið þið svo bara sótt Excel-skrána og leikið ykkur með ykkar eigin forsendur og etv. hjálpar það ykkur við að mynda ykkur upplýsta skoðun á því hvert þessi framkvæmd eigi rétt á sér eða ekki. Mér finnst þetta a.m.k. hjálpleg æfing meðan opinber gögn málsins liggja ekki fyrir.
Burtséð frá ykkar niðurstöðum og skoðunum hvers og eins á Tryggvi Þór á hrós skilið fyrir bæði vinnubrögðin og þátttöku í opnum umræðum um málið. Meira svona!
Uppfært 17. nóv, 2011 kl 11:22: Hér að neðan hafa komið fram athugasemdir við útreikningana í módeli Tryggva og hann tekið undir þær. Eins bendir Tryggvi á að virðisaukaskattur af veggjaldinu sé 7%, ekki 25,5%. Ég hef því uppfært skjölin og myndirnar til samræmis við það, enda tilgangur þessarar tilraunar að nálgast rétt módel sem hver og einn geti skoðað sínar forsendur með.
Uppfært 17. nóv, 2011 kl 11:48: Setti inn þriðju útgáfu af forsendum þar sem flestar tölur eru teknar verulega niður með varfærni að leiðarljósi. Það gæti litið einhvern veginn svona út:

Mér sýnist vera smá villa í IRR útreikningnum, þ.e. aðeins er tekið tillit til rekstrartekna en rekstrargjöld koma ekki til frádráttar. Sé kostnaður dreginn frá fer IRR úr 3.2% niður í 1.3% m.v. forsendur Hjalla. Svipað er uppi á teningnum með útreikning á “þjóðfélagslegum sparnaði” sem er neikvæður upp á fleiri milljarða sé byggingar- og rekstrarkostnaður dregin frá.
Ég er mjög ánægður með ykkur Tryggva að deila þessum pælingum með jafn skýrum og opnum hætti
Góð ábending Ziggy. Það væri áhugavert að heyra frá Tryggva hans rök fyrir því að gera þetta með þessum hætti? IRR hlýtur að eiga að taka tillit til rekstrarafgangs, ekki hreinna tekna.
Ef við ætluðum hins vegar að taka Þjóðhagslega sparnaðinn með í þetta, þá megum við ekki bæði reikna IRR verkefnisins ÁN hans OG draga byggingar- og rekstrarkostnaðinn frá honum, er það? Þá væri réttara að reikna þjóðhagslegan sparnað inn sem tekjur, ekki satt? En ég viðurkenni að hér er ég kominn á hálann ís m.v. mína þekkingu.
Ég leit svo á að Tryggvi hefði viljandi tekið þjóðhagslega ávinninginn út fyrir sviga þannig að hægt væri að horfa á þá tölu sérstaklega – og held að það sé betri nálgun.
Ég er enginn sérfræðingur í útreikningi á “þjóðhagslegum sparnaði” en horfi á þetta einhvernveginn svona:
Heildarvirðisauki = Virðisauki bílstjóra + virðisauki eiganda jarðganga
Virðisauki bílstjóra = Verðmæti þess að fara um göngin – veggjald
Virðisauki eiganda = Veggjald – byggingarkostnaður – rekstrarkostnaður
Veggjaldið dettur þannig út úr jöfnunni og heildarvirðisaukinn verður einfaldlega: Verðmæti ökumanna að fara um göngin – byggingarkostnaður – rekstrarkostnaður
Punkturinn minn var sá að Tryggva áætlar að verðmæti bílstjóra að fara um göngin sé umtalsvert lægri en núvirtur byggingar og rekstrarkostnaður. Heildarvirðisauki þjóðfélagsins, séu þessar tölur réttar, er þannig neikvæður um nokkra milljarða. Þar sem enginn er þvingaður um göngin, virðast þessir útreikningar jafnframt sýna að áætlað veggjald upp á 1000kr er allt of hátt (nú eða að verðmæti ökumanna af göngunum sé vanmetið)
Sælir félagar, Þetta er rétt hjá Mr. Ziggy: það á að draga rekstrarkostnaðinn frá. Það lækkar IRRið niður í 4,5% (úr 5,1%) miðað við forsendur um rekstrarkostnað upp á 40 milljónir.
Það er hinsvegar ekki rétt að draga stofnfjárfestinguna frá þjóðhagslega sparnaðnum þar sem hann er einungis settur upp til að sýna sparnaðinn í tíma.
Annað varðandi forsendur, veggjaldið ber 7% VSK (ekki 25,5%).
Ég uppfærði skjalið m.v. þessar breyttu forsendur:
Sjá hér.
Takk fyrir þetta – virkilega ánægjulegt að geta tekið þátt í rökrænni vangaveltu um málið. En ég hef nokkrar athugasemdir sem að ég tel skekkja verulega niðurstöðuna.
1. Meðalumferð allt árið er notuð og áætlaðar tekjur vegna tímasparnaðar. Ég tel rétt ef að á að nota slíkt viðmið að taka ekki meðalumferð yfir árið, heldur meðalumferð utan mesta ferðamannatímans. Kúfurinn af umferðinni er að stærstum hluta ferðamenn og ég tel vafasamt að reikna þjóðinni tekjur af þeim per klst. í tímasparnaði.
2. Fram kom í athugasemd á veggnum þínum Hjálmar á Facebook, að meðalverð um Hvalfjarðargöngin væri aðeins 500 krónur á ferð. Hef litla trú á því að meðalverðið fyrir norðan verði mikið hærra en það og finnst afar óraunhæft að gefa sér “draumaforsendur” við útreikninga sem þessa.
3. Er þekkt hlutfall á milli viðhaldskostnaðar og launakostnaðar í Hvalfjarðargöngunum? Þar sem að stór hluti starfa við bæði göngin er af svipuðum toga, verður að teljast mjög líklegt að hlutfallslegur rekstrarkostnaður við Vaðlaheiðargöngin verði hærri en fyrir sunnan, enda deilist hann á færri ferðir.
Miðað við ofangreint tel ég sýnt að ekki sé rétt að tala um framkvæmdina með arðsemi í huga heldur aðeins sem aukinn kostnað.
Þá stendur fyrir mig bara eftir valið um hvort að það sé nauðsynlegur og ásættanlegur kostnaður.
Ég þekki ekki þennan veg vel en er ekki betra að bera breytingu á umferð frekar saman við Vestfjarðagöngin (Önundarfjörður-Skutulsfjörður) en Hvalfjarðargöngin? Umferð yfir Breiðadalsheiði lagðist nánast af en fólk mun alltaf eiga erindi í Hvalfjörðinn.
Frábært Hjalli, Svona innlegg frá óvilhöllum aðila í upplýsta umræðu er ómetanlegt. Tryggvi fær D mínus fyrir sína útreikninga en ekki falleinkun vegna viðleitni og leiðréttingar. Ferðin yfir heiðina er ákaflega falleg útsýnisleið sem ég hef oft notið að keyra, sérílagi austan frá og mun aldrei borga kr.1.000 fyrir að missa af því útsýni. Vitaskuld algerlega útópískt að reikna til verðmæta áætlaðan tímasparnað útlendinga sem þar að auki keyra um til að skoða fjöll að utan en ekki innan.
Gott að sjá þetta svart á hvítu þó niðurstaðan sé auðvitað mjög háð forsendunum. Er þó ekki viss um þetta 90% hlutfall af umferð fari í gegnum göngin. Það hlutfall verður eflaust líka hærra á veturna en mun lægra á sumrin – þannig gæti meðalhlutfallið verið nær 50%. Þá er ekkert horft í það að umferð í gegnum göngin verður eflaust að mestu þeir sem þurfa oft að keyra í gegn og verða þess vegna með einhver afsláttarkort. Í Hvalfjarðargöng kaupirðu t.d. um 100 ferðir á um 30þ þ.e. 300kr. ferðin. Þannig ef meðalverðið á að vera 1000 kr þá þarf verð á staka ferð að vera himinhátt. Held að síðasta dæmið hjá þér kl. 11:48 sé nærri lagi fyrir utan það að stofnkostnaðurinn verður aldrei 9ma heldur eflaust 25-50% hærri en það eins og vill gerast með “opinberar” framkvæmdir.
Auðvitað er galið að reikna tímasparnað útlendinga … hvað græðum við á því? Eru líkur á því að á þessum 11 mínútna sparnaði hefðu útlendingarnir keypt þeim mun meira kaffi á næstu bensínstöð?
IRR niðurstöðurnar eru mjög næmar breytingu á forsendum t.d. 10% til eða frá í hlutfalli umferðar um göngin breytir IRR um ca 1% … og svo 100kr breyting í veggjaldi breytir IRR um ca 0,9%. Held að það þurfi aðeins að velta fyrir sér áhættunni líka í þessu hvort forsendurnar standist.
Um að gera að prófa sig bara áfram með þessar forsendur. Menn eins og þú gætu jafnvel bætt næmnigreiningu við skjalið. Ég skal glaður birta það.
Hvað varðar framúrkeyrslu opinberra framkvæmda, þá er ég með býsna skemmtileg gögn um reynsluna í þeim efnum sem ég er að vonast til að fá leyfi til að birta. Það er reyndar óalgengt að verkefni fari 25-50% fram úr áætlun, en allt að 20% er ekki óalgengt – og reyndar dæmi um það í báðar áttir (undir og yfir áætlun).
Meira um það síðar.
Hér kemur mynd sem sýnir frávik frá áætlun við opinberar framkvæmdir síðastliðinn áratug:
Hjalli meðalhraðinn í Hvalfjarðargöngunum er líklegast í kringum 65km/klst en i þessum útreikningum er gert ráð fyrir að menn bruni í gegnum göngin á 90km/klst….hvernig lítur þetta út í tímasparnaði miðað við 65km/klst
Tímasparnaðurinn er meiri eftir því sem hægar er ekið. Gleðin við þetta allt saman er auðvitað að þú getur sótt Excel skjalið og prófað að breyta forsendunum sjálfur.
Annars skiptir sá liður ekki höfuðmáli. Kemur fram í þjóðhagslegum sparnaði sem er tekinn út fyrir sviga í arðsemisútreikninunum. Það sem meginmáli skiptir er hlutfall umferðar sem fer í gegnum göngin annars vegar og meðalveggjaldið hins vegar.
Hvernig væri að reikna út arðsemina við að gera við veginn um Víkurskarð þannig að þar væri vetrarfært, það þarf ekki eins mikla framkvæmd í það og að gera göng, aðeins að færa og laga veginn
Það sem ég hef aldrei skilið afhverju var ekki hlustað á heimamenn og vegurinn um Víkurskarð var byggður hinumegin í skarðinu sem er snjólettara yfir veturna, þyrfti kannski aldrei að moka, nei, það þarf að byggja veginn þar sem snjórinn er mestur.
Nú er verið að skoða hraðlest til Keflavíkur.
http://www.vb.is/frettir/116212/
Er hægt að skella in svipuðum útreikningum fyrir þá framkvæmd?