Ég hef tvisvar ráðist í það í kringum áramót að gera “Tæknispár” fyrir komandi ár á Íslandi (2006 og 2008). Í fyrra minntist ég t.d. á tiltölulega lítið þekktan þátt í starfsemi bankanna: Erlenda innlánsreikninga sem nefndust Kaupthing Edge og Icesave og spáði því að bankarnir ættu eftir að útvíkka þessa starfsemi. Maður ætti kannski að fara varlega!
Annars er ég bara nokkuð sáttur við árangurinn fyrir 2008, þó vissulega hafi ekki allt gengið eftir og annað gengið lengra en mig grunaði. Dæmi hver fyrir sig.
En hvað um það. Hér koma nokkrir punktar um það sem mér þykir líklegt að muni gerast á komandi ári í tæknigeiranum á Íslandi:
- Fjöldi nýrra tæknifyrirtækja verður stofnaður: “Neyðin kennir naktri…”, og allt það. Það er fjöldi hæfileikaríks tæknifólks þarna úti að missa vinnuna. Margir búa yfir hugmyndum að vörum eða vilja koma hæfileikum sínum í verð á annan hátt. Stærsti kostnaðarliður – a.m.k. hugbúnaðarfyrirtækja – er launaliðurinn og útlögðum kostnaði á að vera hægt að halda í algeru lágmarki ef fólk er þannig stemmt. Sprotaapparatið YCombinator í Bandaríkjunum er ágætis dæmi um umhverfi sem skapað hefur verið fyrir svona fyrirtæki. Fjármögnun á bilinu 5.000-50.000 dollarar, aðstaða fyrir 2-5 manna teymi (ef þau vinna ekki bara heiman að frá sér), auk tengslamyndunar og handleiðslu frá reyndara fólki. Allt ætti þetta að virka vel í íslenskum raunveruleika þar sem lítið er um áhættufjármagn um þessar mundir, en mikið af hæfileikafólki að leita verkefna. Rétt er þó að minna á að YCombinator er sprottið upp á góðæristímum og áherslan hér verður að vera á verðmæti “í núinu” (tekjur sem duga fyrir lágmarksrekstri innan 12 mánaða) í stað langra þróunarverkefna og óljósra tekjumöguleika. Viðskiptaáætlanir sem hafa auglýsingar sem aðaltekjulind munu ekki eiga upp á pallborðið næstu 2-4 árin.
- CCP mun halda áfram að vaxa: Þetta þrautseiga sprotafyrirtæki, sem hefur náð að byggja tekjustraum sem svarar ágætri loðnuvertíð með hugvitinu einu saman, mun halda áfram sigurgöngu sinni. Tryggur leikendahópur sem telur á við íslensku þjóðina, stöðugar viðbætur og fjölgun dreifingarleiða (EVE Online mun nú fara í búðir aftur eftir að hafa verið dreift eingöngu á netinu undanfarin ár) mun valda því. Sagan segir líka að í efnahagsþrengingum leiti fólk í afþreyingu og nú hafa einfaldlega mun fleiri heimsbúar tímann sem þarf í áhugamál á borð við fjölspilunarleiki. Mánaðargjaldið svarar til einnar bíóferðar en endist virkum spilurum í 4-8 tíma skemmtun á dag, alla daga mánaðarins. Þróun stendur einnig yfir á næsta leik CCP, fjölspilunarleik sem byggir á World of Darkness heiminum. Hann mun varla líta dagsins ljós á árinu, en gefur góð fyrirheit um komandi tíð hjá fyrirtækinu, þar sem hann á sér þegar dyggan aðdáendahóp og höfðar til breiðari hóps en EVE heimurinn, ekki síst meðal kvenþjóðarinnar sem hingað til hefur ekki verið áberandi í fjölspilunarleikjum.
- Ríkið mun styrkja nýsköpunarstarf með margvíslegum hætti: Að einhverju leiti er þetta þegar komið fram og mikið er talað, næstum nóg til að maður trúi því að það sé ekki bara fagurgali. Einföldustu aðgerðirnar, eins og að beina atvinnuleysisgreiðslum í gegnum fyrirtæki til uppbyggingar nýrra starfa kosta ríkið nettó núll og eru augljósar. Aðrar, eins og niðurfelling skatta nýráðinna starfsmanna eða skattaafsláttur á einstaklinga og fyrirtæki gegn fjárfestingu í nýsköpun eru djarfari, en þó mögulegar. Mikilvægast er þó fyrir alla þessa starfsemi að bankakerfið, gjaldeyrismiðlun og önnur stoðkerfi komist aftur í eðlilegan farveg. Fjárfestingasjóðurinn Frumtak er sömuleiðis mikilvægt gæfuspor.
- Ódýrari valkostir í fjarskiptum munu ná almennri notkun: Í nokkur ár hafa verið í boði ýmsar mjög svo frambærilegar lausnir í fjarskiptum, sem kosta minna en hinar hefbundnu, eða jafnvel bara hreint ekki neitt. Í einhverjum tilfellum hafa þessar lausnir jafnvel eitthvað fram yfir hinar hefðbundnu (t.d. myndsímtöl og einföld hópsímtöl í Skype), en í öðrum tilfellum, t.d. þegar kemur að farsímalausnum, þurfa notendur að sætta sig við lítilsháttar vesen, skert gæði eða aðra vankanta við notkun slíkra lausna. Einhverjar þessarra lausna hafa verið ágætlega þekktar um skeið, en þó ekki náð almennri útbreiðslu. Nú er hins vegar tími aðhalds hjá bæði fyrirtækjum og einstaklingum. Ég spái því að kreppan verði til þess að þessar lausnir nái verulega aukinni útbreiðslu og ef það gerist er það breyting sem er komin til að vera. Ég held því að kreppan eigi eftir að koma verulega illa niður á fjarskiptageiranum í skertri notkun og þar með tekjum. Þó má ekki gleyma því að þessar nýju lausnir notast allar við kerfi fjarskiptafyrirtækjanna og ganga nær allar út á að flytja með einum eða öðrum hætti yfir í gagnasamskipti það sem áður fór um hefbundna símakerfið. Þetta kallar því frekar á breytingu í viðskiptamódelum fjarskiptafyrirtækjanna en algeru hruni þeirra, því einhver þarf að borga fyrir uppbyggingu og rekstur kerfanna eftir sem áður.
- Gegnsæi og opin miðlun upplýsinga: Leiðin til að byggja á ný upp traust í viðskiptum og fjármálastarfsemi, er aukið gegnsæi og hraðari og opnari miðlun upplýsinga. Ég vísa í fyrri færslu mína um Framtíð viðskipta til nánari útskýringar. Ég spái því að þessi sjónarmið muni byrja að ryðja sér til rúms á árinu, þó breytingin í heild sinni mun taka mun lengri tíma. Þessar breytingar gætu byrjað hvort heldur er hjá Ríkinu (með áherslu á opin gögn), eða hjá einkaaðilum sem vilja auka traust þjóðfélagsins með því að sýna svo ekki verður um villst að þau hafi ekkert að fela.
- Netið verður þungamiðja pólitísks starfs: Unga fólkið er búið að fá áhuga á pólitík. Facebook-kynslóðin er við stjórnvölin og meira en þriðjungur þjóðarinnar skráður þar. Merki um þetta má reyndar þegar sjá víða. Á fundum borgarstjórnar undanfarið má sjá stöðubreytingar og færslur frá allnokkrum borgarfulltrúum á meðan á fundunum stendur (sönn saga). Fjöldafundir og mótmæli eru skipulögð á netinu. Komi til kosninga munu Facebook, MySpace, Twitter og YouTube spila stóran þátt. Gömlu pólitíkusarnir munu ekki vita hvaðan á þá stendur veðrið. Ég geng svo langt að halda því fram að þetta geti haft úrslitaáhrif í kosningabaráttunni, hvort sem um verður að ræða ný framboð eða að einhver gömlu flokkanna ranki við sér. Í Bandaríkjunum hefur verið talað um að kosningabarátta Baracks Obama hafi verið sú fyrsta sem “skildi Internetið”. Framboðin hér munu þurfa að gera slíkt hið sama.
Hvað haldið þið að gerist í tæknimálum árið 2009?
Fín spá Hjalli 🙂
Ég er einstaklega sammála þér með netið og kosningabaráttu. Ég held það hafi einfaldlega sýnt sig undanfarið að stjórnmálamenn búa ekki lengur við það að blöð eru prentuð daginn eftir og sjónvarpsfréttir séu á föstum tíma á kvöldin. Hraðinn í fréttaumfjöllun er orðinn mun meiri og þeir hafa ekki jafn mikla stjórn á umræðunni. Almenningur á mun auðveldara með að láta skoðun sína í ljós en áður.
En hvað er sprota- eða nýsköpunarfyrirtæki? Lýtur það öðrum lögmálum en önnur fyrirtæki? Er ekki eðli reksturs fyrirtækja að ef þú ætlar að koma inn á markað að þú uppfyllir einfaldlega eitt af tveimur skilyrðum:
a) Leysir verkefnið á ódýrari máta en aðrir á markaði
b) Leysir verkefnið betur en aðrir á markaði
Ætlaði auðvitað að segja að stjórnmálamenn byggju ekki lengur við það að fréttir væru eingöngu í blöðum daginn eftir og í sjónvarpsfréttum á kvöldin.
Skilgreiningar eru alltaf snúnar og engin skörp skil, en á Nýsköpun.org er að finna tilraunir til að skilgreinina nýsköpun og sprotafyrirtæki.
Fyrirtæki sem uppfylla skilyrðin sem þú nefnir eru örugglega nýsköpunarfyrirtæki, en það eru ekki öll fyrirtæki stofnuð með þetta í huga. Sem dæmi má nefna fjárfestingafélög (nema þau beiti á einhvern hátt nýstárlegum aðferðum), eignarhaldsfélög og félög sem stofnuð eru utan um hefðbundna starfsemi, s.s. verktöku í byggingariðnaði eða jarðvinnslu (enn og aftur nema þar sé beitt nýstárlegum aðferðum).
Reyndar held ég að í þessu samhengi verði “atvinnuuppbygging” lykilorð, frekar en nýsköpun og að ríkið muni þ.a.l. styrkja framtak sem leitt getur til nýrra starfa, jafnvel þó það flokkist ekki undir ströngustu skilgreiningar á nýsköpun eða sprotastarfsemi.
Spot on eins og venjulega.
Ég vona að það verði ekki bara pólitíkusar heldur líka að fyrirtæki verði opnari og tileinki sér social web (hvað segir maður? samfélags veftækni?) til að hvetja til, taka þátt í og spila stærra hlutverk í samfélagi og samskiptum milli neytenda og fyrirtækja.