Hlutverk upplýsingatækni í rannsókn bankahrunsins

detectiveNú eru a.m.k. fjögur embætti að rannsaka ýmsa þætti bankahrunsins:

Talsvert hefur verið talað um verkaskiptingu þessarra embætta, hæfi þeirra og aðra umgjörð, en eitt af því sem hefur komið mér á óvart er hversu lítið hefur verið rætt um sjálfar rannsóknaraðferðirnar.

Í mínum huga er það alveg skýrt að eitt af lykilatriðunum í því að árangur náist í þessum rannsóknum er mikil og vönduð beiting upplýsingatækni. Þetta snýr bæði að því að skilja stóru mynd þeirrar atburðarásar sem átti sér stað hér á undanförnum árum sem og að finna og upplýsa einstök mál. Ég óttast hins vegar að of fáir skilji hversu mikilvægt þetta atriði er og hef flugufregnir fyrir því að a.m.k. sum þessarra embætta átti sig engan veginn á þeim verkefnum sem þau standa frammi fyrir hvað þetta varðar.

Hér eru nokkrir punktar sem etv. hjálpa til við að skilja stöðuna:

 • Allar fjármálaaðgerðir fara fram með einum eða öðrum hætti í tölvukerfum. Hjá íslensku bönkunum einum erum við að tala um hundruð þúsunda, jafnvel milljónir færslna á hverjum einasta degi í tugum ef ekki hundruðum mismunandi kerfa. Allar þessar aðgerðir eru skráðar með einhverjum hætti.
 • Auk þessarra færslna eru tölvupóstar og önnur tölvusamskipti skráð, auk þess sem öll símtöl manna á milli eru skráð og í mörgum tilfellum tekin upp skv. lögum. Um þau símtöl og tölvupóstar sem ekki eru skráð hjá bönkunum sjálfum eru til skráningar hjá fjarskiptafyrirtækjum og netveitum. Um símtölin er að lágmarki skráð að þau hafi átt sér stað og tölvupóstar og efni þeirra liggja alltaf fyrir a.m.k. í einhvern tíma hjá netveitum.
 • Afrit eru tekin af öllum gögnum bankanna – bæði úr fjármálakerfum og öðrum (t.d. skráakerfum allra vinnustöðva, póstkerfum, netþjónum o.s.fr.) – a.m.k. einu sinni á dag og þau geymd með ýmsum, öruggum hætti bæði innan og utan starfsstöðva bankanna í lengri og skemmri tíma. Sum þessarra gagna eru m.a.s. geymd í vörslu eftirlitsaðila lögum samkvæmt.
 • Ég hef nokkuð öruggar heimildir fyrir því að meðal allra fyrstu aðgerða stjórnvalda eftir hrun bankanna hafi verið að tryggja að afrit ýmissa tölvugagna kæmust í örugga vörslu þannig að ekki væri hægt að eiga við þau.
 • Mikið af þessum gögnum eru á sértæku sniði sem eiga við einstök, rándýr kerfi sem í notkun voru (og eru enn mörg hver) í bönkunum. Þessi gögn er mjög erfitt að lesa og túlka nema með notkun þessarra kerfa.
 • Allt í allt erum við hér að tala um gríðarlegt magn af gögnum – ég leyfi mér að giska á einhver hundruð terabæta fyrir þau ykkar sem sú tala segir eitthvað. Fyrir ykkur hin erum við að tala um jafngildi margra, stórra, þéttskipaðra vöruskemma ef gögnum ef prenta ætti ósköpin út.

Ef einhver hélt að svona rannsókn færi fram með aðferðafræði Matlock lögmanns með því að blaða í útprentum og afritum af pappírsskjölum, fingrafararannsókn og snjöllum yfirheyrslum á lykilvitnum, þá ættu ofangreindir punktar að sýna nokkuð glögglega að svo er ekki.

Ef ætlunin er að sanna – nú eða afsanna – kerfisbundið misferli, misræmi í afstemmingum, vísbendingar um óeðlileg verðbréfaviðskipti, samskipti aðila í tengslum við tiltekna atburði o.s.frv., þá verður það aðeins gert með býsna flókinni og sérhæfðri upplýsingatæknivinnu, mynsturgreiningum á stórum gagnasöfnum, leitarmöguleikum í hverskyns textagögnum og síðast en ekki síst þekkingu á þeim kerfum, aðferðum og starfsháttum sem viðgengust í bönkunum.

Til að taka af allan vafa um það, þá þykist ég alls ekki hafa þá þekkingu sem til þarf. Hana hefur reyndar varla nokkur einn maður. Við erum að tala um stórar og óhjákvæmilega dýrar aðgerðir, en án þeirra verður aldrei nema örlítið brot þessarar starfsemi rannsakað.

Ég vona að ofantaldir rannsóknaraðilar átti sig á þessu.

Að lokum eru hér örfá atriði sem mætti byrja á að skoða:

 • Fá a.m.k. einn stjórnanda eða millistjórnanda sem hafði með upplýsingatæknimál í hverjum banka með í rannsóknina. Ef með þarf má bjóða sektar og-/eða skuldaniðurfellingu gegnt samstarfi. Þannig fæst nauðsynleg þekking á innviðum og samhengi kerfanna, dýrmætur tími og miklir peningar sparast og líklega opnast möguleikar sem utanaðkomandi rannsakendur hefðu hreinlega ekki tök á að gera.
 • Fyrst mætti skoða afritasögu. Þar sést fljótt hvort nokkur gögn hafa horfið, átt hefur verið við skrár eftir á eða með öðrum hætti verið reynt að fela einhverjar slóðir. Þetta kynni vel að hafa verið reynt í einhverju óðagoti á ögurstundu, en er sennilega það “versta” sem einhver hefði getað gert þar sem það beinir grun beint að viðkomandi atriðum. Nær ómögulegt er að eiga þannig við gögn og afrit að slíkar slóðir sjáist ekki tiltölulega auðveldlega. Þannig er miklu líklegara að “ósnert” sönnunargögn týnist í öllu gagnaflóðinu en að tilraunir til yfirhylmingar skili árangri.
 • Greina samskiptasögu í öllum tiltækum gögnum. Hengja símanúmer og tölvupóstföng á persónur og beina sjónum að þeim sem eiga í samskiptum í kringum einstök viðskipti eða aðra atburði sem eru til rannsóknar. Eins má leita uppi öll gögn sem viðkoma tilteknum málum eða einstaklingum og rekja sig þannig í “hina áttina” frá áberandi miklum eða óvenjulegum samskiptum til viðskipta eða atburða sem eiga sér stað á svipuðum tíma. Slík greining myndi líka koma upp um samskipti milli aðila sem – ef allt væri með felldu – ættu alls ekki að eiga í samskiptum, annaðhvort vegna reglna um aðskilnað í starfsemi innan bankanna eða milli samkeppnisaðila, viðskiptablokka eða annarra.
 • Greina ýmsar lykiltölur í fjárflæði milli einstakra fyrirtækja, milli útibúa og milli landa og leita eftir skyndilegum breytingum á umfangi eða mynstrum í þessum viðskiptum.

Bara nokkrar hugmyndir – fleiri vel þegnar.

8 comments

 1. Góð grein HG, en ég er talsvert svartsýnn á að e-r tileinki sér þessar rannsóknaraðferðir á meðan einföld mál eins og verkefnastjórnun virðist í molum. Samhæfing og markviss verkefnastjórnun var augljóslega ekki til staðar fyrstu vikur eftir hrun og hefur lítið batnað.
  Uppistaðan í þessum rannsóknargrúppum sýnist mér vera allt frá fjárvana skipuðum embættismönnum “upp í” undirmáls lögfræðinga. Eru það þeir sem munu koma með tillögur um svona vinnu aðferðir? Don’t think so.

 2. Ágætis punktar. Ein smávægileg athugasemd:

  “Um þau símtöl og tölvupóstar sem ekki eru skráð hjá bönkunum sjálfum eru til skráningar hjá fjarskiptafyrirtækjum og netveitum. Um símtölin er að lágmarki skráð að þau hafi átt sér stað og tölvupóstar og efni þeirra liggja alltaf fyrir a.m.k. í einhvern tíma hjá netveitum.”

  Varðandi tölvupóstinn, þá er þetta einfaldlega rangt. Það getur hæglega verið (og er jafnvel sennilegt) að netveitur bankanna hafi engin afrit af tölvupóstinum, einfaldlega vegna þess að bankarnir nota póstkerfi netveitanna sinna ekki neitt heldur sjá sjálfir um sinn tölvupóst. Sjá:

  host -tMX kaupthing.is
  kaupthing.is mail is handled by 10 mx1-is.kaupthing.is.
  kaupthing.is mail is handled by 10 mx1-se.kaupthing.is.

  $ host -tMX glitnir.is
  glitnir.is mail is handled by 10 mx2.isb.is.
  glitnir.is mail is handled by 500 mx3.isb.is.
  glitnir.is mail is handled by 10 mx1.isb.is.

  $ host -tMX landsbankinn.is
  landsbankinn.is mail is handled by 10 mx3.landsbankinn.is.
  landsbankinn.is mail is handled by 20 mx4.landsbankinn.is.

  Hinsvegar er það rétt að bankarnir sjálfir hafa vonandi tekið góð afrit af tölvupóstinum sínum og þau afrit eru vonandi til í bankahólfi einhversstaðar.

 3. Þetta er rétt hjá þér Bjarni, en kemur þó líklega ekki að sök eins og þú bendir á.

  Þetta var aðeins of stór fullyrðing hjá mér.

  Reyndar liggja líklega póstar hjá netveitum þeirra sem þeir skiptust á póstum við (utan bankanna), en það er orðið ansi mikið stærra, flóknara og erfiðara mál að eiga við (í praktík ómögulegt nema fyrir mjög afmarkaðar og hnitmiðaðar rannsóknir).

 4. Sæll Hjalli

  Skemmtilega fersk framsetning á tölulegum gögnum hjá þér/Datamarket. Ég sá þig í Silfrinu og fannst kynningin fræðandi.

  Í Silfrinu minntistu á skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þar sem fram kom að fjárfestingar Landsvirkjunar á næstu árum (eftir apríl 2004) hefði vakið áhuga spákaupmanna á Íslandi.

  Hvaða skýrsla AGS er það?

  Bestu kveðjur
  Hrafn Malmquist
  nemi í stjórnmálafræði

 5. Ég hef helst verið að lesa þessar svokölluðu “Article IV” skýrslur:
  http://www.imf.org/external/country/isl/index.htm?type=9998#56

  Þar kemur skýrt fram t.d. bæði í 2007 og 2008 skýrslunum að vöxturinn / bólan hér á landi hafi hafist með stórum álversframkvæmdum. Þetta hafi svo leitt af sér skilyrði, bæði í formi fyrirsjáanlegrar styrkingar gjaldmiðilsins og seinna í háum stýrivöxtum, sem hafi valdið þeim mikla áhuga sem “carry-traders” fengu á íslenska hagkerfinu.

  Bendi t.d. á Box 1. á síðu 4 í 2008 skýrslunni og “Staff appraisal > Background” kaflana aftast í báðum skjölunum.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s