Tæknispá 2010

Ég hef nokkrum sinnum áður ráðist í það um áramót að skrifa smá hugleiðingar um það sem komandi ár gæti borið með sér í tæknigeiranum á Íslandi. Spáin fyrir nýliðið ár heppnaðist býsna vel, þannig að nú er kominn tími til að rýna aftur í telauf og garnir og spá fyrir um næstu misserin.

  • Sprotaheimurinn: Það eru magnaðir hlutir að gerast í heimi nýsköpunar og sprotastarfsemi í tæknigeiranum. Eftir 5-6 steindauð ár þar á undan, brustu allar flóðgáttir við hrun bankanna. Þar kemur líklega tvennt til: 1) Hreyfing á fólki sem ýmist missti vinnuna, eða fékk nóg og yfirgaf stöður sem kannski voru aldrei sérlega skemmtilegar, bara vel borgaðar; og 2) Gerbreytt afstaða almennings, stjórnvalda og fjölmiðla – það var loksins komið veður til að skapa.
    • Fyrstu ávextirnir af sprotum hrunsins: Allnokkur sprotafyrirtæki komu frá sér úrvalsvörum árið 2009. Má þar nefna: heimilisfjármálagræjuna Meniga, tölvuleikina Peter und Vlad og Audiopuzzle frá Dexoris, Vaktarann frá CLARA sem fylgist með umræðu á netinu, tölvuleikina Symbol6, Soft Freak Fiesta og Vikings of Thule frá Gogogic og smálánaþjónustuna Uppsprettu.

      Sum þessara fyrirtækja voru jafnvel stofnuð eftir hrun, þannig að hraðinn er mikill. Ég reikna með að sjá enn meiri grósku í þessu á komandi ári. Öll áðurnefnd fyrirtæki eru ýmist að þróa endurbættar útgáfur af sínum vörum eða nýjar vörur væntanlegar frá þeim á árinu. Til viðbótar má nefna að vörur eða stórar viðbætur eru væntanlegar frá næstum öllum hinum fyrirtækjunum í Icelandic Gaming Industry (IGI) auk Mobilitus, Medizza, Gogoyoko, DataMarket og ýmsum fleirum sem ég er ýmist að gleyma eða hreinlega veit ekki af. Eins hlakka ég mikið til að sjá og kynnast betur því sem koma mun út úr “hands-on” nýsköpunarsetrinu í Toppstöðinni.

      Ég sé því fyrir mér að í sprotaheiminum verði árið 2010 enn viðburðaríkara en nýliðið ár og þar verða líklega bæði stórir sigrar og talsverð vonbrigði.

    • Of miklir peningar: Það eru að safnast býsna miklir peningar í sjóði sem ætla að fjárfesta í efnilegum sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum á næstunni: Frumtak, sem upphaflega átti að verða 4,5 milljarða sjóður hefur úr meira en helmingi þeirrar upphæðar að moða þrátt fyrir einhverja óvissu um fjárframlög gömlu bankanna; Bjarkar-sjóðurinn sem er í umsjón Auðar Capital stefnir vel á annan milljarð; Nýsköpunarsjóður hefur úr talsverðu að moða; Tækniþróunarsjóður hefur 720 milljónir á fjárlögum næsta árs, af hverjum líklega um helmingur fer til slíkra fyrirtækja. Að auki eru allnokkrir hópar að setja saman bæði litla og umtalsvert stóra sjóði sem ætlað er að fjárfesta í tækifærum af þessu tagi. Ég hugsa að það láti nærri að 5-7 milljarðar séu eyrnamerktir í sprota- og nýsköpunarfjárfestingar þessa dagana!

      Þetta er auðvitað langt frá því að vera vandamál í sjálfu sér, en allir þessir peningar eru að elta tiltölulega fá – raunverulega góð – tækifæri. Hættan við allt þetta fé er sú að það leiti of víða og að forsvarsmenn sjóðanna hafi ekki þolinmæði til að bíða eftir tækifærum sem þeir hafa raunverulega tröllatrú á. Þannig gæti farið svo að of mörg fyrirtæki fái litlar frumfjárfestingar, en svo verði of litlir peningar eftir til að fylgja eftir þeim sem klóra sig fram úr fyrstu árunum og tryggja að þau nái virkilega að blómstra. Þetta hefur gerst áður. Nýsköpunarsjóður, eins og hann var rekinn í kringum árið 2000, er mjög gott dæmi um slíkt. Líklega hefði komið meira útúr honum með færri og stærri fjárfestingum.

      Sem sagt: Gott að það sé úr miklu fé að moða, en því má ekki smyrja of þunnt.

    • Of fátt hæft fólk: Það er ekkert atvinnuleysi í tæknigeiranum. Það er auðvitað alltaf slagur um besta fólkið, en það er vöntun á fólki af öllum stærðum og gerðum. Að einhverju leyti stafar þetta af því að aðsókn í tölvu- og tækninám var áberandi lítil á uppgangstíma bankanna. Við höfum ekki alið upp mikið af slíku fólki síðustu árin. Hins vegar stafar þetta af því að eftirspurnin hefur líklega aldrei verið meiri. Þó eitthvað hafi dregið saman í tölvudeildum bankanna og hjá sumum þjónustufyrirtækjum í upplýsingatæknigeiranum er það þó minna en ætla mætti. A.m.k. einn bankinn er m.a.s. að bæta við sig fólki um þessar mundir. Á sama tíma ætlar t.d. CCP eitt og sér að bæta við sig 160 manns á næstu mánuðum (þó ekki bara á Íslandi) og hefur þegar vaxið gríðarlega. Lauslega áætlað starfa um 200 manns hjá sprotafyrirtækjunum sem nefnd voru hér að ofan og restin af atvinnulífinu hefur tekið slakanum í upplýsingatæknigeiranum fegins hendi og ráðið til sín töluvert af fólki sem þau höfðu ekki tök á að slást um við bankana á sínum tíma.

      Ég sé fyrir mér að þessi mannekla muni hamla vexti sprotafyrirtækja umtalsvert.

    • Leikjabólan: Góður maður reiknaði út að Ísland ætti innan við 10 menn sem væru framúrskarandi (meira en 3 staðalfrávik frá meðaltali) í hverju sem er. Þetta gilti jafnt um Seðlabankastjóra sem sundmenn. Þessi staðreynd, að viðbættum þeim skorti á fólki sem er í upplýsingatæknigeiranum almennt veldur mér svolitlum áhyggjum fyrir hönd íslenska tölvuleikjaiðnaðarins sem nú er í örum vexti. Það kemur alls ekki á óvart að ýmsir feti í fótspor velgengninnar sem CCP fagnar, og heilt yfir er auðvitað frábært að sjá gróskuna sem m.a. kemur fram í starfsemi IGI. En gæðin, fólkið og hugmyndaauðgin hljóta að dreifast full þunnt þegar svona mikið er um að vera í jafn sérhæfðum geira og raun ber vitni.

      Ég spái því að þessi mikla starfsemi á þröngu sviði eigi eftir að sliga einhver leikjafyrirtæki, sem annars hafa alla burði til að slá í gegn.

  • Gögn og meiri gögn: Ýmis málefni sem tengjast gögnum, og þá ekki síst opnum gögnum eru mér afar hugleikin. Hér er tvennt sem ég sé fyrir mér að gerist í þeim efnum á árinu.
    • Opin gögn: Á haustmánuðum 2009 var lögð fram þingsályktunartillaga 12 þingmanna, jafnt úr stjórn sem stjórnarandstöðu, um opnara aðgengi að opinberum gögnum. Jafnframt var lögð fram fyrirspurn til forsætisráðherra um afstöðu hennar til þessara mála. Þótt svarið sem barst nú rétt fyrir áramótin sé afar varfærið og taki ekki djúpt í árinni, er boltinn greinilega farinn að rúlla varðandi það að breyta umgjörð þessara mála.

      Ég sé fyrir mér að breytingar verði gerðar á upplýsingalögum áður en árið er úti, aðgengi að opinberum gögnum rýmkað til mikilla muna og að áherslan verði á “upplýsingaskyldu stjórnvalda fremur en upplýsingarétt almennings” eins og segir í niðurlagi þingsályktunartillögunnar.

    • Greining gagna: Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið mun mjög líklega sýna, svo ekki verður um villst, hversu mikill máttur upplýsingatækninnar er þegar kemur að því að greina gögn. Ég á von á að sjá þar tengslanet, atburðarásir og hreinlega uppljóstranir á einstökum málum sem fengnar hafa verið með því að keyra greiningar á gríðarlegt magn gagna í leit að eftirtektarverðum mynstrum, óeðlilegum færslum og grunsamlegum tengslum og samskiptum ýmissa aðila. Ég skrifaði pistil um þetta efni í byrjun árs og þykist vita að þessi mál hafi verið tekin traustum tökum.

      Ég sé fyrir mér að þetta muni opna augu atvinnulífsins og stjórnvalda fyrir því hversu verðmæt og öflug greining og úrvinnsla gagna getur verið.

  • Vélabú og annar milli-orkufrekur iðnaður: Mér leiðist orðið “gagnaver” og held mig því við að reyna að koma nýyrðinu “vélabú” að í staðinn. Vélabú Verne var mikið í umræðunni í lok árs. Ég tel litlar líkur á að verkefnið detti uppfyrir, en það er þó ljóst að aðkoma Novator mun breytast. Það hefur alltaf legið fyrir að þeirra hlutur myndi minnka við þá fjárfestingu sem nú er á lokametrunum. Ekki er ólíklegt að hlutafjáraukningin sé á bilinu 25%-50% og þá fer 40% hlutur Novators í Verne niður í 20%-30%. Eins er ekki alveg loku fyrir það skotið að Novator verði keypt út úr hluthafahópnum til að sefa gagnrýnisraddirnar. Verkefnið er hins vegar af þeirri stærðargráðu að það verður varla stoppað. 90 milljarða fjárfesting í erlendum gjaldeyri er satt að segja svo stór að burtséð frá öllum framkvæmdunum, störfunum og öðrum umsvifum, kann slíkt gjaldeyrisinnstreymi jafnvel að lyfta gengi krónunnar lítillega. Það er líklegt til að hljóma eins og of góð músík í eyrum fleiri en bara stjórnmálamanna.

    Eins er með þessu verkefni loksins verið að dreifa orkueggjunum okkar í fleiri körfur en áliðnaðarins eins. Segja má að aflþynnuverksmiðja Becromal hafi verið fyrsta skrefið í þá átt í seinni tíð. Ýmsar þreifingar eru einnig í gangi um framleiðslu bæði á sólarkísil og koltrefjum.

    Ég sé fyrir mér (og vona) að fleiri slík verkefni komist af stað á árinu og þá í stað álvers á Bakka og jafnvel líka í Helguvík.

  • Pólitík og netið: Um síðustu áramót spáði ég því að netið, og þá ekki síst samfélagsvefir, ættu eftir að leika lykilhlutverk í pólitísku starfi árið 2009. Þetta er reyndar orðið svo áberandi núna að það er ótrúlegt að á sama tíma fyrir ári síðan voru til dæmis aðeins örfáir stjórnmálamenn og líklega enginn stjórnmálaflokkur með opna síðu á Facebook.

    Við sáum líka ýmsa aðra pólitíska vinkla spretta upp úr þessum jarðvegi: Mótmælin voru að miklu leyti skipulögð á Facebook, Appelsínuguli-hópurinn, hópar með og á móti ESB, með og á móti ýmsum útgáfum af Icesave samningum, með og á móti lýðræði, með og á móti sól. 2010 verða sveitastjórnarkosningar og strax má sjá þess merki að frambjóðendur í prófkjörum og listar sem boðnir eru fram eru komnir í startholurnar með Facebook-viðveru, Twitter-tilraunir og notkun nýrra miðla til að dreifa upplýsingum og áróðri.

    Að teknu tilliti til takmarkaðra fjárráða held ég að Facebook og netið verði þungamiðjan í aðdraganda þessara sveitastjórnarkosninga, sérstaklega í stærri sveitarfélögunum.

  • Opinn hugbúnaður: Sífellt fleiri eru að átta sig á því að í boði eru ágætir valkostir við flestan séreignarhugbúnað. Ýmislegt mælir með aukinni notkun opins hugbúnaðar jafnt hjá hinu opinbera, í einkageiranum og á heimilum landsins. Kostnaður er eitt þeirra atriða, en þó ekki endilega eins borðleggjandi og hörðustu fylgimenn vilja meina. Þjálfunarkostnaður, þjónusta og töpuð vinna á meðan skiptin fara fram er umtalsverður og sumar “commercial” lausnir standa reyndar samkeppni frá opnum hugbúnaði enn langtum framar (og öfugt – svo það sé sagt).

    Persónulega þykja mér rök á borð við þau að gæta þess að starfsaðferðir festist ekki í viðjum einstakra framleiðanda, t.d. vegna lokaðra skráarsniða eða að verkferlar krefjist ákveðinna, dýrra séreignarlausna vega mun þyngra. Eins þarf skólakerfið að gæta þess að draga ekki vagn tiltekinna fyrirtækja. Það er hins vegar jákvæð þróun að sem flestir átti sig á því að það eru valkostir við þann hugbúnað sem þeir hafa vanist.

    Ég sé fyrir mér að opinn hugbúnaður muni ryðja sér nokkuð afgerandi til rúms hjá hinu opinbera á árinu og í auknum mæli í einkageiranum líka.

  • Hræringar á fjarskiptamarkaði: Fjarskiptamarkaðurinn er – eins og svo margt annað í samfélaginu – dálítið upp í loft eftir bankahrunið.

    Teymi, aðaleigandi Vodafone fór á hausinn árið 2009, félögin fengu gríðarmiklar skuldir afskrifaðar og eignarhaldið er núna í höndum Landsbankans að mestu leyti. Landsbankinn leysti jafnframt til sín stóran hluta í Tali á árinu.

    Nova hefur gengið framúrskarandi vel að ná til sín viðskiptavinum í farsímaþjónustu, en er nánast örugglega enn rekið með allmiklum halla. Ólíklegt er að eigendur hafi mikið fé til að standa undir því áfram og því er 2010 líklega árið sem Nova þarf að fara að standa undir sér. Það þýðir væntanlega gerbreytta verðskrá og tilboð. Fyrirtækið er að auki að stórum hluta í eigu Novators, og ég get ímyndað mér að stjórnendur Nova hafi svitnað verulega í látunum vegna Verne. Það er aldrei að vita hvenær sambærileg reiði gæti bitnað á öðrum fyrirtækjum sem tengjast Novator og Nova liggur vel við höggi, þar sem fyrirtækið starfar á einstaklingsmarkaði fyrst og fremst.

    Hlutdeild Símans á farsímamarkaði fór í fyrsta sinn niður fyrir 50% á árinu, en fyrirtækið er engu að síður í afburðastöðu í fjarskiptageiranum í heild. Afkoma Símans er líklega mjög góð eins og alltaf hefur verið, en eignarhaldið gæti raskast verulega á árinu. Síminn er jú í eigu Skipta og þar liggja að mestu leyti lánin sem notuð voru til kaupanna á Símanum á sínum tíma. Skipti eru svo aftur í eigu Exista og “Exista er í eigu guðs almáttugs” eins og einn félagi minn komst að orði.

    Það er engin leið að sjá fyrir hvernig þessi markaður á eftir að stokkast upp á árinu, en það er deginum ljósara að hér verða miklar hræringar. Ólíklegt er að Síminn fái að taka of mikinn þátt í samþjöppun á þessum markaði af samkeppnisástæðum og því ætla ég að leyfa mér að spá því að eignarhald Nova, Tals og Vodafone eigi eftir að renna saman að einhverju leyti á árinu 2010.

Hvað haldið þið að muni gerast á árinu? Einhver til í að veðja á móti mér í einhverjum af þessum vangaveltum? Er ég úti á þekju í einhvejrum málum?

Gleðilegt tækniár!

6 comments

  1. Mér líst sérstaklega vel á þessa spá þína um manneklu! En það er kannski af því ég er sjálf sífellt að leita að nýjum og spennandi verkefnum 🙂

  2. Þetta er nú bara flest spot on sýnist mér eins og fyrri daginn.
    Hef einmitt mikið verið að hafa áhyggjur af manneklunni sem næsta skrefi sprotavæðingarinnar.
    Eins og þú bendir réttilega á, þá eru mörg fyrirtæki að stökkva á leikjageirann en hér á landi er ekki í boði nein tölvuleikjafræði. Að vísu ferðu lant á grunn fögunum tölvunarfræði, stærðfræði og margmiðlunarhönnun, en það eru ekki stórir árgangar sem við höfum úr að moða þar.
    Öll þessi fyrirtæki þurfa að vera með sterka vefi og ég hef séð auglýsingar frá sömu fyrirtækjunum viku eftir viku í leit að fólki með reynslu í þeim bransa.

    Varðandi pólitíkina og netið, þá hélt ég að þingheimur myndi stökkva á þann bát fyrir seinustu kosningar. Ég held að þau séu ekki enn tilbúin. Jú það var fengið fólk í að stofna facebook síður og þannig, en þetta er allt óvirkt. Engin raunveruleg stefna og lítil sem engin samskipti.
    Byltingin í neti og pólitík mun koma frá kjósendum og grasrótinni held ég.

  3. Ríkisbankar sem yfirtaka fjarskiptafélög á borð við Teymi og setja ríkissímamenn yfir þau og koma á góðum ríkisbrag á reksturinn munu eiga erfitt með að finna út hvernig ná eigi út arðsemi í rekstri.

    Þú manst vitaskuld vel eftir netbólunni sem sprakk 2000, síðan kom hrávöru og bankabólan. Vonum bara að ríkisbólan muni lifa vel og lengi, a.m.k. fyrir kjósendur VG.

  4. Flott greining.

    Smá viðbót varðandi bjöllukúrfuna og staðalfrávikin. Af 318.000 hræðum sem dreifast með normalkúrvu í tiltekinni hæfni eða færni, þá eru 430 manns ofan við 3 staðalfrávik frá miðju og 10 manns ofan við 4 staðalfrávik frá miðju. Í Bandaríkjunum eru tölurnar vitaskuld þúsund sinnum stærri, í hlutfalli við mannfjöldann. Við erum oft að keppa við aðrar þjóðir, til dæmis í gæðum stjórnsýslu, og eigum þá aðeins örfáar hræður sem búast má við að séu í heimsklassa á viðkomandi sviði. Þess vegna er mjög mikilvægt fyrir Íslendinga að vanda mannval, og gleyma frændhygli, flokkshestum og ójafnrétti (t.d. kynja).

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s