Þessi spá mín um þróun komandi árs í heimi tækninnar birtist í hátíðarútgáfu Kjarnans fyrir nokkrum dögum.
Hér eru 6 hlutir sem ég spái því að muni gerast, eða við munum að minnsta kosti sjá stór skref í átt að á árinu 2014.
- “Tölvan er dauð”, hefði Nietzsche kannski sagt. Það er nú kannski ekki alveg svo, en á meðan fartölvusala stendur nokkurnveginn í stað og borðtölvur eru sannarlega deyjandi fyrirbæri, er snjallsíma- og spjaldtölvueign á hraðri uppleið. Sífellt stærri hluti netnotkunar fer nú fram í gegnum þessi tæki. Þessi þróun mun halda áfram á árinu 2014 og því munum við sjá miklu fleiri vefsvæði þannig úr garði gerð að þau geri ráð fyrir að notkun sé að meirihluta með þessum hætti, eða “mobile first”, eins og það er kallað upp á ensku. Vonandi munu flestir vefir (íslenskir fréttavefir, ég er að tala við ykkur!) hætta að halda úti aðskildum vefslóðum fyrir mismunandi tæki og einbeita sér frekar að vefhönnun sem aðlagar sig að skjástærð og eiginleikum þess tækis sem lesandinn er að nota hverju sinni.
- Öppin hverfa: Síðustu ár hefur verið það alheitasta að búa til “öpp” til að sinna hinum ýmsu afmörkuðu verkefnum á farsímum og spjaldtölvum. Við erum þarna á sama stigi farsímaþróunarinnar og þegar allir kepptust við að dreifa margmiðlunarefni fyrir tölvur á geisladiskum um og fyrir aldamótin. App er í eðli sínu forrit sem er sérskrifað til að keyra á tilteknu stýrikerfi og jafnvel afmörkuðum útgáfum þess. Geisladiskarnir dóu þegar bandbreidd á netinu og vafrar þróuðust nægilega til að ná að skapa í flestum tilfellum nokkurnveginn sömu upplifun á hefðbundinni vefsíðu og en ná í staðinn margfaldri dreifingu á við það sem diskarnir buðu upp á. Öppin hafa sannarlega sína kosti, en mörg þeirra eru í raun ekkert annað en þunn skel utan um það sem vafrinn í tækinu getur gert hvort sem er. Eftir því sem vafrar og vefþjónustur verða almennt í boði sem bjóða upp á þægilegar smágreiðslur, einfaldar leiðir til að “branda” og bókamerkja vefsíður á aðalvalmyndir tækjanna og ekki síst bjóða upp á þann sýnileika sem “app store”-in bjóða upp á, munu hefðbundnar vefsíður sækja á aftur, enda má ná sömu upplifun á þann hátt, en spara sér að gera sérstaka útgáfu fyrir hverja gerð stýrikerfis. Öppin munu enn eiga sinn sess, en meira í líkingu við það sem við þekkjum sem muninn á forriti og vefsíðu á tölvunni okkar.
- Símafyrirtæki í vanda: Símafyrirtæki, einkum þau rótgrónari, hafa um langt árabil haft gífurlega framlegð af landlínuáskriftum – tækni sem fáir nota, en margir borga fyrir. Í þónokkurn tíma hafa þau reyndar þurft að þola að ný heimili bætist ekki endilega í þennan hóp, enda upfyllir nettenging og farsímaáskrift allar fjarskiptaþarfir og -venjur ungs fólks. Nú er þessi tekjustraumur farinn að láta verulega á sjá og eftir því sem ljósleiðaratengingar og 4G farsímasamband verður algengara og áreiðanlegra eru eldri hóparnir jafnvel að segja upp landlínuáskriftunum líka. Alltaf leiðinlegt þegar fólk hættir að gefa manni peninga.
- Facebook alls staðar: Fyrir nokkrum árum lét ég hafa eftir mér að “Facebook væri sjónvarpið” í þeim skilningi að nú væri kvöldrútínan á heimilum landsmanna farin að snúast um að vaska upp, hátta börnin og fara svo á Facebook í stað þess – eða í raun samhliða því – að horfa á sjónvarpið. Nú er Facebook orðið miklu meira en það. Facebook er til að mynda líka dagblaðið (á dauðum stundum í deginum), sígarettan (til að taka sér hlé) og sjampóbrúsinn (til að lesa á klósettinu). Þetta er gríðarlega sterk staða sem fyrirtækið og fyrirbærið Facebook er komið í og með nær 1 af hverjum 5 jarðarbúum sem notendur eru þeir rétt að byrja að nýta sér þessa stöðu til að afla tekna. Það kæmi mér ekki á óvart að við ættum eftir að sjá Facebook rúlla út greiðslulausnum (PayPal), vefleit (Google) og verslunarlausnum (Amazon) áður en langt um líður. Og það er fátt sem getur hindrað þeirra í þessari samkeppni. Ekkert fyrirtæki veit meira um notandann, langanir hans, þrár og drauma – og hvernig má uppfylla þá.
- Þrívíddarprentun: 2014 er ár þrívíddarprentarans. Tæknin er orðin nógu góð og ódýr til að fara að komast í almenna útbreiðslu, og notkunarmöguleikarnir eru fleiri en flesta órar fyrir. Hönnuðir eru auðvitað fyrir allnokkru búnir að tileinka sér þessa tækni sér til mikils gagns, en með almennri útbreiðslu munu hlutirnir komast á verulegt skrið. Fólk mun prenta sér leikföng, nytjahluti og listmuni. Föndurfíklar fá alveg ný tækifæri fyrir útrás. Möguleikarnir í kennslu eru ótakmarkaðir. Heimurinn er áþreifanlegur og áþreifanlegir hlutir höfða til fólks á allt annan og “náttúrulegari” hátt en það sem er bara til í tölvu. Aukin útbreiðsla mun líka kveikja nýjar hugmyndir, sprotafyrirtæki munu spretta upp og hlutirnir fara að gerast á þessum vettvangi með auknum hraða. Hugmyndaríkt fólk mun láta sér detta í hug hluti til að nýta þessa tækni á vegu sem ómögulegt er að spá fyrir um. Ég spái því sem sagt að einhver muni gera eitthvað með þessari tækni sem mér tekst ekki að spá fyrir um!
- Sprotauppskeran heldur áfram: Árið 2013 fórum við að sjá uppskeruna af þeirri bylgju sprotafyrirtækja sem mörg hver fóru af stað eftir hrunið 2008 þegar margt hugmyndaríkt og kraftmikið fólk stóð á krossgötum í lífinu og ákvað að eltast við gamla – og stundum nýja – drauma. Plain Vanilla, Meniga, Clara, Betware og fleiri voru að ná eftirtektarverðum árangri á árinu. Við eigum eftir að sjá nokkur slík dæmi til viðbótar árið 2014 og þá fer athygli fjárfesta sem leita logandi ljósi að nýjum bólum til að blása í á bakvið gjaldeyrishöft að beinast að þessum geira. 2014 verður upphaf nýrrar sprotabólu. Þar mun margt misgáfulegt gerast, en heildaráhrifin verða sannarlega af hinu góða. Íslenski tæknigeirinn ætti að búa sig undir nýja rússíbanareið!
2 comments