Þann 1. apríl síðastliðinn stofnaði ég banka. Þetta er alþjóðlegt fjármálafyrirtæki og af þeim sökum var höfuðstóllinn auðvitað í erlendri mynt: 1.000 evrur í fimm brakandi 200 evra seðlum.
Sökum framtaksleysis hefur lánastarfsemin látið á sér standa og seðlarnir eru enn á náttborðinu – og nú líður að fyrsta ársfjórðungsuppgjörinu. Mér skilst að greiningardeildir bankanna bíði í ofvæni.
Ég geri auðvitað upp í krónum, enda fékk ég ekki leyfi til annars frekar en aðrar bankastofnanir – það er víst hættulegt fyrir þjóðarhaginn.
Útlitið er svona líka glæsilegt. 1.000 evrurnar sem ég keypti 1. apríl fyrir 120.340 krónur reynast nú vera 131.810 króna virði. 9,5% ávöxtun á 3 mánuðum. Það jafngildir nærri 44% ávöxtun á ársgrundvelli – og þeir segja að það sé kreppa!
Rétt áðan hringdi svo vinur minn frá Frakklandi. Hann spurði út í bankastarfsemina. Þar sem hann skilur auðvitað ekki verðmæti í íslenskum krónum umreiknaði ég hagnaðinn – 11.470 krónur – í evrur og gat stoltur sagt honum að hagnaður fjórðungsins væri 87 evrur og ef svo héldi fram sem horfði yrði ég búinn að tvöfalda höfuðstólinn á rétt um tveimur árum. Hann óskaði mér til hamingju með að vera búinn að finna mína hillu í lífinu – það væri ekki að spyrja að þessum Íslendingum þegar bankastarfsemi væri annars vegar.
Eftir að við slitum samtalinu varð mér litið á fagurlega sléttaða seðlana, sem enn eru í bréfaklemmunni sem ég fékk í Laugavegsútibúi Landsbankans. Til öryggis tók ég klemmuna af og taldi.
Hvar eru þessar 87 evrur?