íslenska

Minning um Margréti Kristínu Sigurðardóttur

Ég er ekki viss um að henni hafi litist sérstaklega vel á slánalega drenginn í leðurjakkanum sem kom með dóttur hennar á skrifstofuna á Rauðarárstígnum fyrir rúmum aldarfjórðungi. Erindið var heldur ekki reisnarlegt: Bíllinn bensínlaus við Hlemm og gott ef ekki við auralaus líka og því leituðum við til hennar eftir aðstoð.

Samband okkar var þó allt upp á við þaðan og okkur varð fljótt vel til vina, þó svo því færi fjarri að þetta væri í eina skiptið sem hún hljóp undir bagga með okkur.

Margrét var nefnilega kona sem hugsaði um sitt fólk og gekk fram í því að aðstoða, hjálpa og hlúa að hvar sem hún sá tækifæri til. Hjálpsöm og greiðvikin.

Henni þótti líka óskaplega gaman að elda og bera fram góðan mat og ég var enn á þeim aldri þar sem drengir taka hraustlega til matar síns. Þarna náðum við því líka vel saman. Samband sem við ræktuðum velflesta sunnudaga sem færi var á meðan við þekktumst.

“Töggur” er samt það orð sem ég held að lýsi tengdamömmu best. Ef einhver á það skilið að um hana sé sagt að það hafi verið töggur í henni, er það Margrét. Hún ruddi brautir sem húsmæður af hennar kynslóð höfðu fæstar áður kynnst, ruddi úr vegi því sem kunnu að virðast óyfirstíganlegar hindrunir í félaga- og velgjörðarstarfi sem hún tók þátt í og ruddi fjölskyldunni í gegnum ýmsa þunga skafla án þess að láta mikið á því bera.

Margrét Kristín Sigurðardóttir var einstök kona sem ég er þakklátur fyrir að fá að hafa þekkt. Minningin um góðhjartaða, röggsama og ósérhlífna konu lifir í okkur öllum sem kynntust henni.

Takk fyrir allt mín kæra.

Margrét og Ragnar nýgift á leið til Danmerkur í nám.

Þessi minningargrein birtist upphaflega í Morgunblaðinu þann 5. september 2022

Eftir Covid: Leiðarljós við uppbyggingu

Ég ætla ekki að fagna sigri eða setjast í spámannssæti um það hvenær eða hvernig þessum faraldri sem nú gengur yfir lýkur, en einn daginn gerist það og þegar vísindamennirnir og heilbrigðisstarfsmennirnir hafa lokið sínu starfi við að bjarga lífi og limum, þurfum við hin að takast á við uppbyggingarstarfið sem við tekur í efnahagslífinu og samfélaginu öllu.

Þessi pistill er tilraun til að koma í orð nokkrum atriðum sem ég tel að við ættum að hafa að leiðarljósi við það starf.

Ef velja ætti eitt orð til að lýsa því sem gengið hefur á síðustu vikur er það orðið “breytingar”. Þar til fyrir fáeinum vikum var mikið talað um þær öru breytingar sem hin svokallaða 4. iðnbylting átti að hafa í för með sér, og þau tækifæri og ógnir sem í því fælust. Talað var um að hraði þessarra breytinga yrði ólíkur nokkru sem við hefðum áður séð.

Að einhverju leyti má segja að nú hafi 4. iðnbyltingunni hafi verið flýtt:

 • Tæknivæðing í skólum sem hefði auðveldlega tekið 20 ár með hefðbundinni stefnumörkun hefur orðið á 20 dögum.
 • Breytingar á ferðavenjum sem hörðustu loftslagsaðgerðir hefðu ekki getað fært í orð að ná fyrir árið 2040 eða 2050 urðu á 2-3 vikum.
 • Breyting á starfsháttum fyrirtækja og stofnana sem hefði verið óhugsandi með öllu hefur víða verið gerð á einni nóttu.

Þessar breytingar eru allar öfgakenndar og því fer fjarri að við viljum halda í þær, en þær opna líklega augu okkar fyrir því að það voru allskyns millivegir færir. Millivegir sem við hreinlega sáum ekki áður.

Þegar breytingar verða svona hratt, höfum við tilhneigingu til að halda að að þeim loknum verði ekkert eins og áður. Að allt muni breytast – og nú sé tækifæri til að laga allt og byggja nýja hluti á nýjum grunni.

Við munum það sjálfsagt mörg í bankahruninu: Þá átti allt að breytast og ekkert að verða samt aftur. Auðvitað breyttist margt, en í raun var samfélagið sem smám saman reis upp úr því sennilega líkara því sem fyrir var en nokkurn óraði fyrir á meðan á því stóð.

Íhaldssemi er nefnilega sterkt afl – og oft ágætt. Hlutirnir hafa tilhneigingu til að leita í sama farið, og ef við ætlum að breyta öllu er kröftunum dreift svo víða að ekkert breytist. Allt verður eins á ný. Fæst okkar myndu líklega gráta það. Þaðan sem við horfum í dag, er það samfélag sem við bjuggum við fyrir bara 2-3 mánuðum ákaflega eftirsóknarvert. En það var sannarlega ekki gallalaust.

Ég held að það sé hollt að nálgast uppbyggingarverkefni næstu ára með þetta í huga. Hlutirnir hafa tilhneigingu til að leita í sama farið, en við höfum tækifæri til að horfa á það far, hugsa um það sem betur mátti fara og reyna að stýra hlutunum. Þannig getum við ýtt undir æskilegar breytingar, en forðast endurhvarf til þeirra hluta sem ef til vill voru það síður.

Og hver eru þá brýnustu úrlausnarefnin þegar kemur að atvinnulífinu?

Þegar ég þarf að útskýra Ísland og íslenskt efnahagslíf fyrir fólki erlendis nota ég undantekningarlítið þessa mynd:

Tekjuöflunin okkar samanstendur af þremur stórum stoðum og svo “einhverju öðru”. Síðan ég byrjaði í “business” fyrir bráðum 25 árum hefur umræðan um þetta alltaf skotið upp kollinum öðru hverju. Fyrst var það “Fjórða stoðin” svo “Alþjóðageirinn”, en óháð því hvað það er kallað og hugsanlegum blæbrigðamun á skilgreiningum er í raun verið að kalla eftir aukinni fjölbreytni og þar með mótvægi við áföllum í einni eða jafnvel fleirum af þessum stóru stoðum.

Með þetta í huga annars vegar, og hins vegar þá staðreynd að við stöndum frammi fyrir stórri áskorun við að milda höggið nú, þurfum við að horfa á það hvernig sem mest af þeim kostnaði sem fer í björgunaraðgerðirnar getur nýst til að fjárfesta í fjölbreyttari framtíð. Beina fólkinu og fjármagninu sem nú leitar að farvegi í uppbyggingu sem leiðir af sér fjölbreyttara efnahagslíf sem er þolnara fyrir áföllum.

Og þetta má ekki gera á kostnað núverandi burðarstoða umfram þær breytingar sem óumflýjanlegar eru þar. Þessar burðarstoðir þarf að verja. En það þarf að byggja upp samhliða þeim.

Upp með innviðina

Ég ætla að koma ykkur á óvart með því að byrja á að tala um steypu. Framkvæmdir í einkageiranum munu líklega svo gott sem stöðvast í bili, en þá er tækifæri til að byggja upp innviði sem mæta kröfum framtíðarinnar.

 • Ferðamannastaðir og þjóðvegir: Verum tilbúin að taka á móti gestunum þegar þeir fara að koma aftur.
 • Umhverfis- og loftslagsmál:
  • Orkuskipti: Ef eitthvert land á að skara framúr þegar kemur að rafbílavæðingu er það Ísland. Allur fólksbílaflotinn notar innan við þriðjung þeirrar orku sem notuð er í álverinu í Straumsvík. Í dag er öll sú orka aðkeypt fyrir tugi milljarða í gjaldeyri á ári hverju. Sú innviðauppbygging sem þarf hér kallar á mörg störf iðnaðarmanna um allt land. Og ekkert eitt skref kæmi okkur nær því að standa við skuldbindingar okkar samkvæmt Parísarsamkomulaginu en einmitt þetta. Af öllu því sem unnt væri að ráðast í nú er þetta augljósasta færið. Þetta hefur hreinlega ALLT með sér.
  • Almenningssamgöngur: Herðum á uppbyggingu almenningssamgangna. Það kallar á störf, léttir á öðrum innviðum og eykur lífsgæði bæði þeirra sem nota almenningssamgöngurnar og hinna sem áfram nota (rafmangs)bílinn.
 • Stafrænt Ísland: Nú er lag. Fólk hefur þurft að læra og komist að því að það er hægt að leysa ótrúlegustu hluti yfir netið og með stafrænum hætti. Opinberir aðilar hafa dregist langt afturúr í því að veita þannig þjónustu. Hraðari uppbygging hér eykur skilvirkni og þjónustustig hins opinbera, öllum til hagsbóta.

Samt ekki “tóm steypa”

Stóru geirarnir okkar þrír eru auðlindageirar. Mér vitanlega eru ekki miklar líkur á því að við finnum nýja auðlind sem skapar viðlíka verðmæti og þess vegna þurfum við að beina sjónum okkar að hugvitinu. Það er líka á því sviði sem verðmæti geta orðið til úr “engu” öðru en því að veita hugmyndaríku og drífandi fólki gott kaffi og gott starfsumhverfi.

Það besta sem Ísland hefði getað gert til að takast á við núverandi ástand hefði verið að setja stóraukinn kraft í nýsköpun fyrir 5-10 árum síðan. Næstbesta ráðið er þess vegna að gera það núna!

 • Ekki gleyma litlu fyrirtækjunum: 70% landsmanna vinna hjá litlum fyrirtækjum (færri en 250 starfsmenn, 50% hjá fyrirtækjum með færri en 50 starfsmenn) og þar verða ný störf til hraðar en hjá stórum fyrirtækjum. Litlu fyrirtækin hafa samt ekki sterka rödd og margar þeirra aðgerða sem henta stórum fyrirtækjum, henta litlum fyrirtækjum síður – hvað þá einyrkjum.
 • Gefum fyrirtækjum sem eru komin af stað “tímavél”: Þau fyrirtæki sem eru – og hafa verið – í uppbyggingu miðað við þann raunveruleika sem þangað til nýlega var, munu eiga erfitt á næstu misserum. Margir markaðir eru í algeru frosti og fjármögnunarleiðum hefur snarlega fækkað og orðið erfiðari. Hættan er að þessi fyrirtæki falli um koll núna og verði ekki á staðnum til að grípa tækifærin þegar allt lifnar við á ný. Hvatasjóðurinn Kría er mikilvægur þáttur hér og hann þarf að komast af stað strax og jafnvel stækka. En það þarf líklega líka að skoða aðrar leiðir, eins og víkjandi lán til fyrirtækja sem lenda í þessari biðstöðu. Hið hefðbundna bankakerfi sinnir ekki þessum fyrirtækjum og mun ekki geta gert það á sínum forsendum í þessu umhverfi heldur.
 • Hjálpum nýjum að komast af stað: Þau sprotafyrirtæki sem hafa verið að ná árangri á undanförnum árum fóru nær öll af stað í síðustu kreppu. Ég þekki það ágætlega sjálfur, stofnaði fyrirtæki 2008 og seldi það 2014. Sú sala mældist alveg á hagvísum. Og aðrir sem þá fóru af stað hafa náð miklu lengra. Nú er los á góðu fólki, gefum því tækifæri til að láta hugmyndir sínar verða að veruleika. Hér liggur beint við að stórefla Tækniþróunarsjóð (og þar er hreyfing nú þegar), og stuðla að þekkingarmiðlun milli þeirra aðila sem eru að fara af stað og hinna sem hafa reynsluna með markvissum sprotahröðlum eða álíka verkefnum.

Opið og sterkt samfélag

Að lokum megum við ekki gleyma því að Ísland þarf alþjóðlegt samstarf og viðskipti eins og maraþonhlaupari þarf súrefni.

Sú lexía sem við megum allra síst draga af þessu ástandi er að nú skuli hver hugsa um sig, loka landamærum og draga sig inn í skelina. Þvert á móti þurfum við að efla alþjóðlegt samstarf og samskipti, draga hingað alþjóðlega þekkingu og fjármagn og þora að vera þjóð á meðal þjóða.

Þetta er ekki bara mikilvæg brýning vegna þess að aðgangur að alþjóðamörkuðum er nauðsynlegur bæði stóru greinum dagsins í dag og nýju greinum framtíðarinnar, heldur liggur kannski hérna eitt stærsta tækifærið í þessu öllu saman.

Krísan sem nú gengur yfir heimsbyggðina er að sýna svo ekki verður um villst hversu mikils virði það er að búa í samfélögum með öfluga innviði, öryggisnet og samfélagsgerð. Það er sannarlega of snemmt að hrósa sigri, en ef svo fer fram sem horfir er Ísland að fara nokkuð vel útúr þessum faraldri heilsufarslega séð og í sterkri stöðu til að takast á við það sem á eftir kemur efnahagslega.

Samfélög sem sýna þann styrk munu verða eftirsóknarverð samfélög. Samfélögin þar sem brestirnir koma í ljós síður. Þegar upp úr þessum átökum er staðið munu margt drífandi fólk horfa til þess hvort hagsmunum þeirra og öryggi sé kannski betur borgið á öðrum stað í heiminum. Ef vel tekst til hjá okkur munu sum þeirra horfa til Íslands. Við eigum að taka vel á móti þeim öllum, en sérstaklega ekki leggja stein í götu þeirra sem geta hjálpað til við uppbygginguna. Við þurfum ekki að mennta öll þau sem eiga að standa undir atvinnulífi framtíðarinnar – við getum boðið þau velkomin að flytja hingað. Ég trúi því að þarna verði stórt sóknarfæri á næstu árum.

Ég held með öðrum orðum að Ísland verði aftur eftirsóknarverður áfangastaður. En ekki bara fyrir ferðamennina – sem munu koma aftur – heldur líka fyrir fólk sem er að leita að betra og öruggara samfélagi til að búa og starfa í.

Lokaðra Ísland er ávísun á meiri fábreytni og færri tækifæri, en opið á fjölbreytni, aukna viðspyrnu við áföllum og fleiri tækifæri.


Vonandi berum við gæfu til að nálgast þetta uppbyggingarstarf af svipaðri ákveðni og yfirvegun og í því hvernig tekist hefur verið á við heilsufarsógnina. Þá verða einn daginn verða vonandi fleiri en 3 stórar stoðir undir íslensku efnahagslífi og fleiri greinar til að grípa okkur í fallinu þegar óvænt og áhjákvæmileg áföll dynja á.

Minning um Ragnar S. Halldórsson

Tengdafaðir minn, Ragnar S. Halldórsson, er látinn. Ragnar var mikill maður, í öllum skilningi þeirra orða.

Þegar ég kynntist honum hafði hann að mestu lokið sínum starfsferli sem var langur og merkilegur. Ég held að það sé óhætt að segja að Ragnar hafi verið meðal þeirra manna sem fluttu nútímann til Íslands á síðari hluta seinustu aldar. Auk starfanna hjá ÍSAL, sem hann er auðvitað þekktastur fyrir, var hann meðal frumkvöðla í verðbréfaviðskiptum, hvatamaður að stofnun Háskólans í Reykjavík og kom að stofnun, fjármögnun og stjórnun fjölmargra fyrirtækja, stórra og smárra.

Ragnar var alltaf boðinn og búinn að hjálpa og laga, ekki síst með auknum frítíma. Þegar ég stofnaði mitt fyrsta fyrirtæki og vildi fá þangað nettengingu voru svörin þau að bið eftir slíku tæki að lágmarki 6 vikur. Ragnar fékk veður af þessu og morguninn eftir sótti hann mig snemma og gekk með mig á fund Þórarins V. sem þá var forstjóri Landssímans. Taugatrekktur unglingurinn ég gat rétt stamað upp úr mér hvers kyns var, Ragnar og Þórarinn skiptust svo á nokkrum gamansögum og seinna sama dag var komin blússandi nettenging í fyrirtækið.

Í annað skipti var ég á leiðinni á mikilvægan fund að morgni dags. Ég vakna fyrir allar aldir til að hafa mig til og undirbúa mig. Ég hef rakstur, en þar sem ég stend yfir baðherbergisvaskinum og renni klippunum í gegnum hárið gefa klippurnar sig. Þarna stend ég með eina rönd rakaða yfir miðjan skallann og er ekki skemmt, allra síst miðað við skellihlæjandi Möggu Dóru, sem skýst í símann og nær á pabba sinn áður en hann fer í morgunsundið. Fimm mínútum síðar er álskallinn sjálfur mættur inn á baðherbergisgólf heima hjá okkur með allar græjur til að ég geti lokið verkinu og látið taka mig alvarlega, enda hann eðli málsins samkvæmt vel græjaður til slíkra verka.

Á sunnudögum réðum við svo krossgátuna saman. Ragnar var margfróður og oftar en ekki var svo gripið til ýmissa uppflettirita en af þeim var gnógt á heimili Ragnars og Margrétar. Við Magga Dóra sáum svo um það sem netið gat hjálpað við. Þessi samvinna skilaði góðum árangri. Þau voru ófá símtölin frá Ragnari þar sem á mánudegi hann hringdi sigri hrósandi með orðið sem upp á vantaði og gátuna klára.

Ragnar var mikill sögumaður, og átti margar og merkilegar sögur. Sagnastíll hans var þannig að yfirleitt voru margar hliðarsögur og útúrdúrar. Oft þurfti að fletta upp í Samtíðarmönnum svo að örugglega væri rétt farið með ætterni eða ártöl og stundum lauk ekki endilega þeirri sögu sem lagt var upp með. Það kom þó ekki endilega að sök, hún var þá bara börnuð sem hliðarsaga í annarri frásögn síðar.

Síðustu árin var heilsu Ragnars farið að hraka. Hugurinn gaf eftir á undan líkamanum og að minnsta kosti einu sinni hélt ég að ég hefði kvatt Ragnar í hinsta sinn, en þessi stóri, sterki maður stóð alltaf upp aftur. Smám saman gaf skrokkurinn þó eftir líka og að lokum kom hinsta kallið og hvíldin þá orðin kærkomin.

Eftir standa djúp spor, ekki bara meðal fjölskyldu og fjölmargra vina, heldur í samfélaginu öllu.

Vertu sæll Ragnar, í huganum týnist höndin á mér í síðasta sinn í þinni í þéttingsföstu handabandi.

Þessa mynd rakst ég á í myndasafni fjölskyldunnar nýlega. Þessi ungi maður er sennilega að spá í spil og hugsa til framtíðar.

Þessi minningargrein birtist upphaflega í Morgunblaðinu þann 2. september 2019

Framtíð tölvutækninnar

IMG_2791 copyÞegar framtíð tölvutækninnar er rædd er vinsælt að mála dökkum litum. Segja að tölvurnar muni taka völdin, að tölvurnar muni taka störfin, að samskipti í gegnum tölvu muni útrýma mannlegum samskiptum og að þeir sem ráði yfir gögnum um okkur muni geta stjórnað skoðunum okkar, orðum og gjörðum.

Ég tek ekki undir neitt af þessu. Með því er ég ekki að stimpla mig inn sem bjartsýnismann, ég er – eins og ein mín stærsta fyrirmynd: læknirinn, samfélagsrýnirinn og gagnagoðið Hans Rosling sagði – gallharður möguleikamaður.

Möguleikarnir eru nefnilega óþrjótandi. Í gegnum tíðina hefur hver einasta tæknibylting verið útmáluð sem endilok heimsins eins og við þekkjum hann. Og þegar mönnum hefur verið bent á það, hafa þeir í hvert einasta skipti sagt: “Já, en núna er þetta öðruvísi”. Fjórða iðnbyltingin er ekkert öðruvísi. Hún er enn eitt skrefið sem mun færa okkur betri heim, betri lífsskilyrði og meira frelsi til að sinna nýjum og merkilegari verkefnum. Gervigreind mun gerbylta krabbameinsgreiningu og seinna krabbameinsrannsóknum, þannig að við munum þurfa að finna eitthvað nýtt til að deyja úr. Gervigreind mun vissulega “taka af okkur” mikið af störfum hversdagsins, en á móti skapa tíma til að sinna bóklestri, listsköpun og frjálsri hugsun. Með henni verða líka til ný störf sem líklega munu að miklu leyti snúast um umönnun og mannleg samskipti af ýmsum toga og virðing slíkra starfa vaxa. Því ber að fagna.

Tæknin mun líka halda áfram að skapa tíma til að slæpast. En við höfum gott af því að slæpast. Okkur langar innst inni til að slæpast og oft gerast góðir hlutir einmitt þegar við leyfum okkur það. Í gegnum tíðina hafa margir þeirra sem hafa haft hvað mest fram að færa til framfara í tækni, vísindum og listum einmitt verið þeir sem fengu tækifæri til að slæpast. Leonardo da Vinci, Isaac Newton og Ada Lovelace voru öll fólk sem nutu þess að fá að slæpast. Og við njótum ávaxtanna.

Þetta þýðir auðvitað ekki að allt sé fullkomið, eða að frábær framtíð sé sjálfsögð og sjálfgefin. Því fer fjarri. Þetta þýðir ekki heldur að við eigum að horfa framhjá vandamálum sem þarfnast úrlausnar, stórum sem smáum. En án trúar á því að þau verði leyst og að framtíðin geti orðið betri verður hún það aldrei.

Við þurfum að ræða siðferðilegar spurningar varðandi gervigreind. Við þurfum að ræða hvað vernd persónuupplýsinga þýðir á tímum samfélagsmiðla og umfangsmikillar miðlægrar gagnasöfnunar. Við þurfum að ræða valdið sem tæknirisar samtímans hafa með aðgangi sínum að slíkum upplýsingum og valdið sem þeir hafa til að stjórna því hvaða upplýsingar við sjáum og lesum.

Allt þetta eru áskoranir sem við þurfum að takast á við, en þetta eru ekki í eðli sínu byltingar ólíkar þeim sem urðu þegar prenttæknin var fundin upp, þegar gufuaflið ruddi sér til rúms eða þegar verksmiðjuvædd fjöldaframleiðsla tók yfir sífellt meira af viðfangsefnum verkamanna. Allt voru þetta tæknibreytingar sem höfðu í för með sér miklar samfélagslegar breytingar, en allar leiddu þær til lengri tíma til betri heims og betra lífs fyrir þorra mannkyns. Það gerðist ekki að umsvifalaust, né af sjálfu sér, heldur yfir allnokkurn tíma fyrir tilstuðlan öflugrar gagnrýni, nýrra laga og reglugerða og nýrrar hugsunar með breyttri tækni og samfélagsgerð.

Tæknin er ekki áhyggjuefni og framþróun hennar verður ekki stöðvuð. Í tækninni felast stórkostleg tækifæri en jafnframt krefjandi úrlausnarefni. Stærsta úrlausnarefnið er samt sem áður ekki tæknilegt. Það er að svara því hvaða samfélagsgerð tryggir að allir njóti þeirra ávaxta sem tækniframfarirnar hafa í för með sér og að tryggja að sú samfélagsgerð verði ofan á. Hingað til hefur mannkyninu borið gæfa til að gera það við hvert byltingarkennda framfarastigið á fætur öðru og ég hef óbilandi trú á að við gerum það áfram.


Þessi pistill var skrifaður sem hugvekja og lokaorð í bókinni “Tölvuvæðing í hálfa öld – Upplýsingatækni á Íslandi 1964-2014” sem Skýrslutæknifélag Íslands gaf út 2018.

Hann

HANN er sko engin kelling.

HANN man gömlu góðu dagana.

HANN ver skoðanir sínar af hörku.

HANN efast um sérfræðinga.

HANN trúir ekki á loftslagsbreytingar af mannavöldum.

HANN veit að nauðgun er oft bara stelpa með móral.

HANN vill harða löggæslu.

HANN er sjálfstæður maður í sjálfstæðu landi.

HANN vill að þetta fólk leysi sín vandamál heima hjá sér.

HANN trúir á Guð.

HANN vill fleiri akreinar.

HANN tekur upp hanskann fyrir Ísrael.

HANN veit að konur nota stundum fóstureyðingar sem getnaðarvörn.

HANN sér í gegnum opinberar skýringar á því sem gerðist 11. september.

HANN er stoltur af uppruna sínum.

HANN óttast um unga fólkið okkar sem ekkert getur og ekkert kann.

Þekkir þú HANN?

Factfulness eftir Hans Rosling: Leiðarvísir að rökréttri hugsun um heiminn

Í flestri umræðu heyrast hæst þær raddir sem eru á sitthvorum öfgunum. Þar liggja oft ríkustu hagsmunirnir, heitasta sannfæringin og sterkustu tilfinningarnar. Þegar svo er gefst lítið rými fyrir yfirvegaða umræðu þar sem dregin eru fram þau gögn sem máli skipta, ólík sjónarhorn vegin og metin og niðurstaða eða málamiðlun byggð á bestu fyrirliggjandi þekkingu, vísindalegri nálgun og vandaðri rökleiðslu.

Þess vegna er bók læknisins og gagnatöframannsins heitins Hans Rosling – Factfulness – svo kærkomin. Með snörpum og skemmtilegum skrifum sýnir hann okkur lesendum annars vegar fram á það hversu skökk og úrelt heimsmynd okkar er að mörgu leyti og gefur hins vegar ráð um það hvernig best sé að nálgast flókin úrlausnarefni, hvernig hægt er að vara sig á rangfærslum og forðast rangar ályktanir þegar tilfinningarnar, áróðurinn eða vanþekkingin verða rökunum yfirsterkari.

Sérsvið Roslings var lýðheilsa og dæmin í bókinni eru flest á sviði heilbrigðis og lýðfræði, en hann kemur víða við: náttúruvernd, stjórnsýsla, stjórnkerfi, fjölmiðlun, fyrirtækjarekstur, fjármálakerfið og fleira. Umfram allt á aðferðafræðin sem Rosling kennir með þessum dæmum í bókinni við á nánast öllum sviðum.

Inn í þetta blandast svo sögur frá ævintýralegum starfsferli Roslings, fyrst sem ungur læknir á vettvangi í mörgum fátækari ríkjum heims, síðar sem kennari í Svíþjóð og loks sem hálfgerð “gagnastjarna” sem ferðaðist um heiminn, flutti erindi og umgekkst margt af áhrifamesta fólkinu í heiminum. Frásagnirnar eru auðmjúkar og afhjúpandi. Margar hverjar stórskemmtilegar, en aðrar grafalvarlegar. Ég viðurkenni að mér vöknaði um augun að minnsta kosti í tvígang við lestur bókarinnar – annars vegar af mjög sorglegum afleiðingum af ákvarðanatöku sem Rosling átti þátt í og í hitt skiptið af hetjulegri framgöngu í hættulegum kringumstæðum í smáþorpi í Lýðveldinu Kongó (þá Zaire). Vísbending: Hetjan þar var ekki okkar maður Hans.

Rosling verður seint kenndur við ákveðna pólitíska hugmyndafræði. Raunar eru ein sterkustu skilaboð bókarinnar þau að heimurinn er svo margslunginn að svarið felst aldrei í einni stefnu sem leysi allt: Hann dásamar frjálsan markað, en bendir á að hann þýði ekki að það þurfi ekki reglur og sterk stjórnvöld. Hann talar fyrir jöfnuði og jafnrétti á mörgum sviðum, en bendir líka á að það þýði ekki að lausnin sé að stjórnvöld taki og dreifi gæðunum jafnt á alla.

Ég held að enginn lesandi leggi þessa bók frá sér án þess að hugmyndum hans eða hennar um heiminn hafi verið storkað, jafnvel á svolítið óþægilegan hátt – og í því felst styrkur bókarinnar. Með manngæsku, raunsæi og rökhyggju í fyrirrúmi gefur Rosling lesendum ástæðu til að anda aðeins léttar yfir fréttum símiðlanna en brýnir þá á sama tíma til að hjálpa til við að takast á við þau vandamál sem raunverulega þarfnast lausnar til að framtíðin haldi áfram á þeirri braut sem síðastliðnar aldir hafa verið: Framfarir sem hafa heilt yfir bætt lífsgæði manna alls staðar í heiminum stórkostlega. Og hann gefur okkur fulla ástæðu til að trúa því að svo geti orðið, ef við höldum ekki af braut vísinda, raka og yfirvegunar.

– – –

Hans Rosling lést úr krabbameini snemma árs 2017. Hann hafði þá tileinkað síðasta ár ævi sinnar því að rita þessa bók. Sonur hans Ola og tengdadóttir Anna sem höfðu unnið með honum lengi undir hatti Gapminder samtakanna sem Rosling stofnaði luku við verkið og halda vinnu Rosling áfram. Það er mikill missir af Rosling: Vísindi, ákvarðanataka byggð á þekkingu og gögnum og rökhyggja þurfa að eiga sinn “Attenborough” og Rosling er sennilega sá sem hefur komist næst því.

Horft niður um glerþakið

Ég hætti nýverið í vinnunni. Við taka nokkrir mánuðir af umhugsun, hvíld og ferðalögum sem er alveg tímabært eftir 10 ára hlaup með DataMarket og svo Qlik eftir að fyrirtækin runnu saman. Í haust fer ég svo örugglega aftur að gera það sem ég kann best: Að setja af stað eitthvað nýtt.

Hvað það nákvæmlega verður er enn í mótun, en ég er eiginlega búinn að hugsa meira um það hvernig ég vil gera það, en nákvæmlega hvað ég vil gera.

Eitt af því sem mér finnst mikilvægt er að tryggja að hópurinn sem að málum standi sé fjölbreyttur. Þar spila kynjahlutföllin stóra rullu. Ég hef áður skrifað um það hversu erfiðlega gekk að fá konur til starfa hjá DataMarket þrátt fyrir nokkuð ítarlegar tilraunir, m.a. í lykilstöður.

En nú er blaðið er autt og dauðafæri að byggja upp blandaðan hóp frá upphafi. Ég veit líka að ef ég gæti ekki að verður þetta umsvifalaust hópur sem samanstendur bara af fertugum körlum eins og mér.

Eitt af því sem ég hef velt talsvert fyrir mér í þessari dínamík eru samskipti fólks af sitthvoru kyninu og hvernig óttinn um að eitthvað annað búi að baki getur litað þau. Eða jafnvel óttinn við þann ótta.

Ég hef mjög gaman af að fylgjast með því sem skapandi fólk á Íslandi er að gera. Einu sinni til tvisvar í viku heyri ég í fólki sem ég þekki lítið eða ekkert, en er að setja af stað fyrirtæki, velta fyrir sér möguleikum eða leita ráða varðandi nýsköpun, fjármögnun, markaðssókn erlendis eða annað þar sem ég hef ef til vill eitthvað fram að færa.

Langoftast er þetta fólk sem ég er kynntur fyrir, eða hefur samband við mig að fyrra bragði, en það kemur líka fyrir að ég rekst á fólk sem mér finnst vera að gera áhugaverða hluti og hef samband við það að fyrra bragði.

Hins vegar er yfirgnæfandi meirihluti þessarra samskipta við karla. Og því meira sem ég hugsa um það, þeim mun meira held ég að það sé ekki í hlutfalli við karla umfram konur sem eru að gera Góða Hluti(TM) á þessum sviðum.

Ég viðurkenni til dæmis fúslega að ég er feimnari við að hafa af fyrra bragði samband við ungar konur sem ég þekki ekki, en eru að gera áhugaverða hluti, sennilega af lítt meðvituðum (fyrr en nú) ótta um að það verði á einhvern hátt misskilið: “Hey, ég hef verið að fylgjast á netinu með því sem þú ert að gera, og mér finnst það töff! Ertu til í spjall við tækifæri?” (ég get alveg verið ótvíræðari, en þið skiljið hvað ég meina)

Og kannski er þetta svona í hina áttina líka: Kannski eru kvenkyns frumkvöðlar ragari við að setja sig í samband við karlkyns mentora/fjárfesta vegna þess að alltof margir okkar hafa hagað sér eins og fífl í gegnum tíðina.

Hver sem ástæðan er, þá er þetta samskiptahindrun sem þarf að ryðja úr vegi til að jafna kynjahlutföllin í geiranum. Þannig að: Konur, ekki hika við að setja ykkur í samband ef þið eruð í sprotahugleiðingum. Og sömuleiðis skal ég reyna að láta ekki “óttann við óttann” hafa áhrif á mín samskipti og sækjast eftir samskiptum við frumkvöðla og efnilegt sprotafólk af báðum kynjum á sama hátt og auðvitað á nákvæmlega sömu forsendum.

Stjórnmálaflokkarnir og ég (2017)

Hvað ég kaus. Hvað ég kaus ekki – og af hverju.

Ég kaus utan kjörfundar í síðustu viku. Að venju hugsaði ég mig nokkuð vandlega um, en á endanum gat ég raðað öllum flokkunum 10 upp í röð sem ég var sáttur við. Sú röð fylgir hér fyrir neðan ásamt útskýringu með hverjum kosti í tvít-lengd eða skemmri.

 1. Viðreisn: Ég er ekki sannfærður enn, en tilraunin til að skapa frjálslyndan, heiðarlegan, alþjóða- og markaðssinnaðan jafnaðarmannaflokk þarf að fá annað tækifæri.
 2. Björt framtíð: Málefnalega sama og Viðreisn. Þessir flokkar hefðu átt að sameinast áður en listum var skilað inn. Veikara bakland, en fyrirmyndarfólk í forsvari.
 3. Píratar: Róttæki kosturinn sem ég gat hugsað mér. Tilhugsunin um “uppfært stýrikerfi” fellur mér í geð, en hópurinn hefur verið of óstabíll og óútreiknanlegur til að ég treysti honum fyrir mínu atkvæði.
 4. Samfylkingin: Hefur flust of mikið til vinstri síðustu ár. Finnst eins og þessi flokkur viti aldrei alveg hvert hann er að fara (né hvaðan hann kom).

  — Ekkert hér fyrir neðan kom raunverulega til greina —

 5. Framsóknarflokkurinn: Gamla “góða” framsókn komin aftur. Trausta sveitafólkið sem myndi bjarga mér úr skafli ef ég festist. Fólk forfeðra minna. Verst að hagsmuna- og stefnumál þeirra fara nánast ekki saman með mínum að neinu leyti. Óþægileg forsaga sem er ef til vill ekki alveg horfin.
 6. Vinstri græn: Treysti fólkinu, en ósammála stefnunni í eiginlega öllu.
 7. Sjálfstæðisflokkurinn: Treysti ekki fólkinu, en sammála (yfirlýstri) stefnu að mörgu leyti. Ef henni væri nú fylgt eftir…
 8. Alþýðufylkingin: Var ekki búið að fullreyna þessa hugmyndafræði?
 9. Flokkur fólksins: Þjóðernis- og einangrunarhyggja sem boðuð er með hræðsluáróðri á ekkert erindi í upplýstu nútímasamfélagi.
 10. Miðflokkurinn: Málefnalega sama og Flokkur fólksins, nema með Sigmund Davíð sem hefur fyrir löngu misst alla virðingu mína – og síst gert eitthvað til að vinna hana aftur.

Er ég þá ekki örugglega búinn að móðga alla?

Ég er ekki bjartsýnismaður

Margir sem þekkja mig segja mig bjartsýnismann. Það er sennilega vegna þess að ég sé flesta hluti í jákvæðu ljósi, hef almennt þá trú að fólki gangi gott til með gerðum sínum og sé tækifæri frekar en ógnir í flestum kringumstæðum. Ekki svo að skilja að ég láti ekki í mér heyra þegar mér finnst að eitthvað megi betur fara, en ég er bjargfastur í þeirri trú að heilt á litið batni heimurinn í sífellu – og raunar býsna hratt.

Að hluta til stafar þetta sjónarhorn auðvitað af því að ég hef verið mjög heppinn í lífinu. Heppinn að fæðast inn í góðar fjölskyldur, heppinn að alast upp í afar friðsælu og farsælu samfélagi, heppinn með heilsuna, lífsförunautinn, soninn, starfs- og viðskiptaferilinn og flest annað.

Heppni er afar vanmetinn þáttur í öllum velgengnissögum og oft eru þeir sem velgengni njóta þeir sem hvað blindastir eru á þær tilviljanir sem komu þeim þangað sem þeir eru.

Heppni er nauðsynleg allri velgengni, en það er ekki þar með sagt að hún sé nægjanleg. Eftirfarandi hefur verið eignað mörgum, en ég heyrði það fyrst haft eftir sænska skíðasnillingnum Ingmar Stenmark: “Því meira sem ég æfi mig, því heppnari verð ég.” Það þarf með öðrum orðum að haga málum þannig að þegar heppnina ber að garði, sé maður í aðstöðu til að njóta hennar. Og lykillinn að því er að horfa á heiminn með opnum augum: Sjá tækifærin þar sem aðrir sjá ógnirnar, vera tilbúin að taka vel ígrundaða áhættu frekar en að halda sig alltaf við það sem er öruggt og trúa því að almennt hafi hlutir tilhneigingu til að þróast í rétta átt ef nógu margir eru ákveðnir í að láta það gerast.

Bjartsýni er með öðrum orðum eins konar sjálfsköpuð sannindi: Með bjartsýni að vopni eykur maður líkurnar á betri framtíð. Noam Chomsky orðaði þetta svona (þýðingin er mín):

“Bjartsýni er aðferð til að skapa betri framtíð, því ef þú trúir því að framtíðin geti orðið betri ertu líklegari til að stíga fram og taka ábyrgð á því að svo verði.”

En það er líka full ástæða til að trúa því að framtíðin verði betri. Það er nokkurn veginn sama hvar drepið er niður fæti, gögnin sýna að á nær öllum sviðum hafa líf og lífsskilyrði og manna verið að batna. Ekki bara síðustu öldina eins og myndirnar hér að neðan sýna, heldur öldum og árþúsundum saman. Og það er ekkert sem bendir til þess að við séum nú á einhverjum tímapunkti þar sem þessi þróun ætti að snúast við.

Þetta þýðir auðvitað ekki að allt sé fullkomið, eða að frábær framtíð sé sjálfsögð og sjálfgefin – því fer fjarri. Þetta þýðir ekki heldur að við eigum að horfa framhjá vandamálum sem þarfnast úrlausnar, stórum sem smáum. En án trúar á því að þau verði leyst og að framtíðin geti orðið betri verður hún það aldrei.

Svartsýni og svört (og almennt kolröng) mynd sem fólk fær af heiminum við lestur og áhorf á hefðbundna símiðla er það sem helst ógna þessari þróun. Það vantar fleiri raddir sem segja frá framförunum, hinum ótúlega fallega og spennandi heimi sem við búum í og þeirri stórkostlegu framtíð sem að öllum líkindum bíður okkar:

 • Ef við trúum ekki að hægt sé að leysa kolefnaeldsneyti af hólmi mun okkur ekki takast það og þá verða loftslagsmálin ekki leyst.
 • Ef við trúum ekki að opnari landamæri, aukin alþjóðaviðskipti og aukið alþjóðlegt samstarf muni halda áfram að auka velferð heildarinnar, þá verða flóttamenn, þjóðernishyggja og öfgahópar ofan á.
 • Ef við trúum ekki að hægt sé að innræta ungum karlmönnum virðingu fyrir konum þá verður kynbundnu ofbeldi og launamun kynjanna ekki útrýmt.
 • Og ef við trúum ekki að við náum að taka til áður en gestirnir koma, þá verður drasl þegar þeir koma.

Það þarf að tala um lausnir, ekki bara kvarta yfir vandamálum. Það þarf meiri umfjöllun um möguleikana sem felast í tækni, vísindum, lækningum og samfélagsmálum. Það þarf að fara að minnsta kosti jafnmikil orka í að hrósa og fagna því sem vel er gert og í reiðina sem fer í að taka þátt í nýjustu “dellu dagsins“.

Það bendir nefnilega allt til þess að við getum skapað betri framtíð, ef við bara trúum því, gefum henni færi á að koma og hjálpum til þar sem við á.

Það er meira að segja stærðfræðilega sannað að bjartsýni lágmarkar eftirsjá í lífinu.

Rétt eins og ein af mínum stærstu fyrirmyndum – læknirinn, samfélagsrýnirinn og gagnagoðið Hans Rosling heitinn – sagði: “Ég er ekki bjartsýnismaður, ég er grafalvarlegur möguleikamaður.”

Borgaðu fyrir fjölmiðla – núna!

paperboyÖflugir fjölmiðlar eru samfélaginu nauðsynlegir og sjaldan frekar en einmitt nú. Ég ætla svo sem ekki að rekja í löngu máli hvers vegna, enda hafa margir gert það nýlega betur en ég nokkurn tímann gæti. Sjá til dæmis hér og hér.

Ég ætla hins vegar að skora á ykkur að taka ykkur til og borga fyrir þá fjölmiðla og þá fjölmiðlun sem ykkur líkar. Auglýsingatekjur – sem eru stærsti tekjustofn flestra fjölmiðla – eru ágætar, en þær stuðla hins vegar að einsleitri fjölmiðlun og hagsmunaárekstrar við auglýsendur geta líka dregið úr biti fjölmiðla sem reiða sig eingöngu á þær.

“Heilbrigðustu” tekjur hvers fjölmiðils eru tekjur sem koma beint frá lesendum í formi áskrifta eða beinna framlaga. Margir bestu fjölmiðlar heims sækja nú tekjur með þessum hætti í auknum mæli. Það er vel og þú ættir ekki að láta þitt eftir liggja í þeim efnum.

Hugsaðu þig um og veltu fyrir þér hvaða fjölmiðlar – innlendir og erlendir – þér finnast skerpa sýn þína á málefni líðandi stundar. Þetta snýst ekki endilega um miðla sem maður er alltaf sammála, heldur miðla sem vanda til verka, taka á mikilvægum málum og fá mann til að sjá málin frá nýju sjónarhorni. Þegar þú ert komin(n) að niðurstöðu skaltu verja 10 mínútum í að gerast áskrifandi eða vildarvinur þessarra fjölmiðla.

Þetta þarf ekki að kosta meira en andvirði fáeinna kaffibolla á mánuði, en ef allir gera þetta getum við gulltryggt framúrskarandi fjölmiðlaumhverfi.

Meðal þeirra innlendu fréttamiðla sem þú getur styrkt eða gerst áskrifandi að eru:

 • Kjarninn
  • (athugið: ég er stjórnarformaður og stærsti hluthafi Kjarnans og því ekki hlutlaus)
 • Frjáls fjölmiðlun / Fréttatíminn
  • (athugið að þetta átak er háð endurskipulagningu á rekstri Fréttatímans og ekki útséð með hvað úr verður, en sjálfsagt að setja sig á blað ef Fréttatíminn kom upp í hugann hér að ofan)
 • Stundin
 • Viðskiptablaðið
 • Morgunblaðið
 • DV

Af erlendum miðlum er af nógu að taka, en hér eru nokkrir góðir:

Mér telst til að á mínu heimili séum við áskrifendur/greiðendur að 10 ofantalinna miðla – auk 4-5 annarra með þrengri efnistök svo sem varðandi tækni, vísindi og viðskipti. Það er kannski vel í lagt (við erum heppin að vera svo vel aflögufær), en endilega finndu að minnsta kosti 3 miðla sem þér líkar og styrktu þá með framlagi eða áskrift.

Núna!

Takk 🙂