Della dagsins

Della dagsins

Smellið til að fá stærri mynd

Ég hef lengi verið heillaður af “dellu dagsins” – málinu sem “allir” á Íslandi hafa sterka skoðun á í örfáa daga og hverfa svo úr umræðunni, oftast án þess að hún hafi skilað neinu.

Um jólin ákvað ég að gera mér að leik í nokkrar vikur að skrá niður helstu dellurnar sem dúkka upp. Myndin hér að ofan sýnir 42 daga af þessum dellum. Það skal tekið fram að “mælingin” er algerlega huglæg og byggir ekki á neinum vísindum eða mælanlegri stærð, heldur bara tilfinningu fyrir “umræðunni”.

Það er svolítið skondið að líta yfir þetta og hugsa til baka. Eru kannski atriði á listanum sem þið munið eftir að hafa verið “alveg brjáluð” yfir, en voruð búin að gleyma? Veriði nú heiðarleg.

Flest eru þetta smámál sem engu skipta í stóra samhengi hlutanna, en jafnvel því sem skiptir máli er svo hvort eð er aldrei fylgt eftir (né hinu ef út í það er farið). Eða hver eru t.d. svörin við eftirfarandi spurningum:

 • Er Ölgerðin hætt að selja iðnaðarsalt til matvælaframleiðenda?
 • Nærist Ölfusárlax enn á kúknum úr Selfossbúum?
 • Er hundurinn Lúkas enn á lífi?

Væri kannski hægt að nota þann tíma og þá orku sem fer í þessi upphlaup betur? Hér eru til dæmis eldri vangaveltur um heilbrigt “upplýsingaæði”. Þær gætu verið ágætur upphafspunktur.

– – –

P.S. Fyrir þá sem hafa svo áhuga á að rifja uppþotin á myndinni hér að ofan upp, þá er þetta listi þeirra atriða sem komust á myndina:

Ótalin á myndinni eru engu að síður atriði eins og:

Auk málsins sem var í gangi allan tímann, hafði verið í gangi í margar vikur fyrir jól og sér engan veginn fyrir endann á: Leki á minnisblaði innanríkisnáðuneytisins

…og svo er Icesave að koma aftur!

8 comments

 1. Gengst við því að ég tók þátt í tveimur toppum þarna 😛
  Þ.e. frískuldamark sem er að virðist sérsniðið fyrir útvalda, sem að er að sjálfsögðu ömurlegt mál og ég held að sé enn verið að fylgja eftir í þinginu. Eins er ég mjög sorgmæddur yfir því að við ein norðurlandaþjóða höfum ákveðið að fara “all in” með ráðamenn, embættismenn og fylgdarlið til Sochi.

  Hinum málunum fann ég mig ekki í líklega eða er einfaldlega orðinn langþreyttur á einmitt þessum tilgangslausu toppum og látum, öllum þessum “réttlátu” skoðunum sem svo margir virðast hafa og þurfa að alhæfa útfrá.

 2. Þetta er athyglisvert. Hvað sjálfan mig varðar þá sýnist mér í fljótu bragði að ég hafi tjáð mig (yfirleitt bara á Facebook) um flest þessara mála. En, ég tel líka að langflest þeirra snúist um hluti sem mikilvægt sé að gagnrýna, jafnvel þótt umræðan um þá deyi hratt út.

  Samfélagsumræða er nefnilega ekki þannig að hlutirnir séu ræddir í mánuð og síðan komist að niðurstöðu sem allir sætta sig við. Þvert á móti tekur það oft ár og jafnvel áratugi, fyrir almenning að komast að sameiginlegri niðurstöðu, sem gengur þvert á það sem meirihlutinn var upphaflega sannfærður um. Dæmi um slíkt eru bann við reykingum, afstaðan til samkynhneigðra og nú síðast refsistefnan gegn fíkniefnaneytendum, þar sem orðið hefur dramatísk viðhorfsbreyting bara síðasta árið.

  Þessar umturnandi breytingar á almenningsálitinu verða ekki án mikillar umræðu, yfir langan tíma. Því er það misskilningur sem hér er verið að gefa í skyn, að þessi umræða samanstandi af gagnslausum upphlaupum.

  1. Það sem mig langaði að gera með þessu var að SPEGLA þjóðfélagsumræðuna eins og hún birtist mér, en alls ekki að gera lítið úr öllum þeim málum sem þar koma upp (þó mörg þeirra séu sannarlega alger stormur í vatnsglasi). Ég er persónulega þeirrar SKOÐUNAR að umræðan gæti skilað meiru ef hún væri ekki jafn upphlaupakennd og raun ber vitni, heldur tæki fastar á færri málum og fylgdi þeim betur eftir.

   Þar er samt margt sem veldur, þ.á.m. viðskiptamódel fjölmiðla sem í dag leyfa ekki alvöru eftirfylgni og rannsóknarblaðamennsku, en þrífast þess í stað á og ýta undir tilfinningaklám, slúður og espingar.

   1. Já, ég held ég sé nokkuð sammála þér í þessu. Fjölmiðlar gætu vafalaust, með lítilli fyrirhöfn, stuðlað að því að umræðan væri að hluta vitrænni, t.d. með því að standa bókstaflega fyrir “ritdeilum” nokkurra penna um tiltekið málefni, þar sem lagt væri upp úr að fólk rökdræddi einmitt málflutning hvert annars, og þyrfti þannig að mæta rökum með rökum.

 3. Þetta er frábært framtak hjá þér Hjálmar. Dellan sem viðgengs í deiglunni á Íslandi hefur lengi farið í taugarnar á mér og mér finnst gaman að sjá þetta sett myndrænt upp, mynd segir jú meira ein þúsund orð. Ég man eftir “átaki” sem fréttastofa Stöðvar 2 fór í til að setja fjórða valds pressu á Ingibjörgu Sólrúnu með því að birta part úr ræðu um eitthvað sem ég man ekki hvað var (auðvitað…) í hverjum einasta fréttatíma. Það má auðvitað deila um aðferðina en það leið ekki að löngu þar til allir voru stokknir á meðvirknivagninn og fréttastofan sökuð um eineltistilburði. Svo til hvers að fylgja málum eftir? Við erum sem þjóð að kafna úr meðvorkun og meðvirkni með þeim sem lenda í óþægilegri aðstöðu.

  Eitt besta atriðið í síðasta skaupi var Vodafone sketsinn og einmitt setningin; “Hver gerði alla brjálaða í næstum heila viku en svo var öllum drullusama. Og hver er svo búinn að hækka aftur í Kauphöllinni. Essasú?”

  Og til að svara spurningunum:
  Er Ölgerðin hætt að selja iðnaðarsalt til matvælaframleiðenda? Ég veit það ekki, ætli það ekki.

  Nærist Ölfusárlax enn á kúknum úr Selfossbúum? Já, um sinn. En um það var fjallað í héraðsblaðinu Dagskránni að í ár muni Árborg taka í gagnið nýja skólphreinsistöð við Selfoss. En þetta veit ég bara því ég bý í næsta bæ við og fæ því hérðasblaðið inn um lúguna hjá mér.

  Er hundurinn Lúkas enn á lífi? Hann lifir alla vega góðu lífi í hugtakinu “Lúkasarmál”.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s