Ég er ekki bjartsýnismaður

Margir sem þekkja mig segja mig bjartsýnismann. Það er sennilega vegna þess að ég sé flesta hluti í jákvæðu ljósi, hef almennt þá trú að fólki gangi gott til með gerðum sínum og sé tækifæri frekar en ógnir í flestum kringumstæðum. Ekki svo að skilja að ég láti ekki í mér heyra þegar mér finnst að eitthvað megi betur fara, en ég er bjargfastur í þeirri trú að heilt á litið batni heimurinn í sífellu – og raunar býsna hratt.

Að hluta til stafar þetta sjónarhorn auðvitað af því að ég hef verið mjög heppinn í lífinu. Heppinn að fæðast inn í góðar fjölskyldur, heppinn að alast upp í afar friðsælu og farsælu samfélagi, heppinn með heilsuna, lífsförunautinn, soninn, starfs- og viðskiptaferilinn og flest annað.

Heppni er afar vanmetinn þáttur í öllum velgengnissögum og oft eru þeir sem velgengni njóta þeir sem hvað blindastir eru á þær tilviljanir sem komu þeim þangað sem þeir eru.

Heppni er nauðsynleg allri velgengni, en það er ekki þar með sagt að hún sé nægjanleg. Eftirfarandi hefur verið eignað mörgum, en ég heyrði það fyrst haft eftir sænska skíðasnillingnum Ingmar Stenmark: “Því meira sem ég æfi mig, því heppnari verð ég.” Það þarf með öðrum orðum að haga málum þannig að þegar heppnina ber að garði, sé maður í aðstöðu til að njóta hennar. Og lykillinn að því er að horfa á heiminn með opnum augum: Sjá tækifærin þar sem aðrir sjá ógnirnar, vera tilbúin að taka vel ígrundaða áhættu frekar en að halda sig alltaf við það sem er öruggt og trúa því að almennt hafi hlutir tilhneigingu til að þróast í rétta átt ef nógu margir eru ákveðnir í að láta það gerast.

Bjartsýni er með öðrum orðum eins konar sjálfsköpuð sannindi: Með bjartsýni að vopni eykur maður líkurnar á betri framtíð. Noam Chomsky orðaði þetta svona (þýðingin er mín):

“Bjartsýni er aðferð til að skapa betri framtíð, því ef þú trúir því að framtíðin geti orðið betri ertu líklegari til að stíga fram og taka ábyrgð á því að svo verði.”

En það er líka full ástæða til að trúa því að framtíðin verði betri. Það er nokkurn veginn sama hvar drepið er niður fæti, gögnin sýna að á nær öllum sviðum hafa líf og lífsskilyrði og manna verið að batna. Ekki bara síðustu öldina eins og myndirnar hér að neðan sýna, heldur öldum og árþúsundum saman. Og það er ekkert sem bendir til þess að við séum nú á einhverjum tímapunkti þar sem þessi þróun ætti að snúast við.

Þetta þýðir auðvitað ekki að allt sé fullkomið, eða að frábær framtíð sé sjálfsögð og sjálfgefin – því fer fjarri. Þetta þýðir ekki heldur að við eigum að horfa framhjá vandamálum sem þarfnast úrlausnar, stórum sem smáum. En án trúar á því að þau verði leyst og að framtíðin geti orðið betri verður hún það aldrei.

Svartsýni og svört (og almennt kolröng) mynd sem fólk fær af heiminum við lestur og áhorf á hefðbundna símiðla er það sem helst ógna þessari þróun. Það vantar fleiri raddir sem segja frá framförunum, hinum ótúlega fallega og spennandi heimi sem við búum í og þeirri stórkostlegu framtíð sem að öllum líkindum bíður okkar:

  • Ef við trúum ekki að hægt sé að leysa kolefnaeldsneyti af hólmi mun okkur ekki takast það og þá verða loftslagsmálin ekki leyst.
  • Ef við trúum ekki að opnari landamæri, aukin alþjóðaviðskipti og aukið alþjóðlegt samstarf muni halda áfram að auka velferð heildarinnar, þá verða flóttamenn, þjóðernishyggja og öfgahópar ofan á.
  • Ef við trúum ekki að hægt sé að innræta ungum karlmönnum virðingu fyrir konum þá verður kynbundnu ofbeldi og launamun kynjanna ekki útrýmt.
  • Og ef við trúum ekki að við náum að taka til áður en gestirnir koma, þá verður drasl þegar þeir koma.

Það þarf að tala um lausnir, ekki bara kvarta yfir vandamálum. Það þarf meiri umfjöllun um möguleikana sem felast í tækni, vísindum, lækningum og samfélagsmálum. Það þarf að fara að minnsta kosti jafnmikil orka í að hrósa og fagna því sem vel er gert og í reiðina sem fer í að taka þátt í nýjustu “dellu dagsins“.

Það bendir nefnilega allt til þess að við getum skapað betri framtíð, ef við bara trúum því, gefum henni færi á að koma og hjálpum til þar sem við á.

Það er meira að segja stærðfræðilega sannað að bjartsýni lágmarkar eftirsjá í lífinu.

Rétt eins og ein af mínum stærstu fyrirmyndum – læknirinn, samfélagsrýnirinn og gagnagoðið Hans Rosling heitinn – sagði: “Ég er ekki bjartsýnismaður, ég er grafalvarlegur möguleikamaður.”

One comment

Leave a comment