Borgaðu fyrir fjölmiðla – núna!

paperboyÖflugir fjölmiðlar eru samfélaginu nauðsynlegir og sjaldan frekar en einmitt nú. Ég ætla svo sem ekki að rekja í löngu máli hvers vegna, enda hafa margir gert það nýlega betur en ég nokkurn tímann gæti. Sjá til dæmis hér og hér.

Ég ætla hins vegar að skora á ykkur að taka ykkur til og borga fyrir þá fjölmiðla og þá fjölmiðlun sem ykkur líkar. Auglýsingatekjur – sem eru stærsti tekjustofn flestra fjölmiðla – eru ágætar, en þær stuðla hins vegar að einsleitri fjölmiðlun og hagsmunaárekstrar við auglýsendur geta líka dregið úr biti fjölmiðla sem reiða sig eingöngu á þær.

“Heilbrigðustu” tekjur hvers fjölmiðils eru tekjur sem koma beint frá lesendum í formi áskrifta eða beinna framlaga. Margir bestu fjölmiðlar heims sækja nú tekjur með þessum hætti í auknum mæli. Það er vel og þú ættir ekki að láta þitt eftir liggja í þeim efnum.

Hugsaðu þig um og veltu fyrir þér hvaða fjölmiðlar – innlendir og erlendir – þér finnast skerpa sýn þína á málefni líðandi stundar. Þetta snýst ekki endilega um miðla sem maður er alltaf sammála, heldur miðla sem vanda til verka, taka á mikilvægum málum og fá mann til að sjá málin frá nýju sjónarhorni. Þegar þú ert komin(n) að niðurstöðu skaltu verja 10 mínútum í að gerast áskrifandi eða vildarvinur þessarra fjölmiðla.

Þetta þarf ekki að kosta meira en andvirði fáeinna kaffibolla á mánuði, en ef allir gera þetta getum við gulltryggt framúrskarandi fjölmiðlaumhverfi.

Meðal þeirra innlendu fréttamiðla sem þú getur styrkt eða gerst áskrifandi að eru:

  • Kjarninn
    • (athugið: ég er stjórnarformaður og stærsti hluthafi Kjarnans og því ekki hlutlaus)
  • Frjáls fjölmiðlun / Fréttatíminn
    • (athugið að þetta átak er háð endurskipulagningu á rekstri Fréttatímans og ekki útséð með hvað úr verður, en sjálfsagt að setja sig á blað ef Fréttatíminn kom upp í hugann hér að ofan)
  • Stundin
  • Viðskiptablaðið
  • Morgunblaðið
  • DV

Af erlendum miðlum er af nógu að taka, en hér eru nokkrir góðir:

Mér telst til að á mínu heimili séum við áskrifendur/greiðendur að 10 ofantalinna miðla – auk 4-5 annarra með þrengri efnistök svo sem varðandi tækni, vísindi og viðskipti. Það er kannski vel í lagt (við erum heppin að vera svo vel aflögufær), en endilega finndu að minnsta kosti 3 miðla sem þér líkar og styrktu þá með framlagi eða áskrift.

Núna!

Takk 🙂

Leave a comment