Stjórnmálaflokkarnir og ég (2017)

Hvað ég kaus. Hvað ég kaus ekki – og af hverju.

Ég kaus utan kjörfundar í síðustu viku. Að venju hugsaði ég mig nokkuð vandlega um, en á endanum gat ég raðað öllum flokkunum 10 upp í röð sem ég var sáttur við. Sú röð fylgir hér fyrir neðan ásamt útskýringu með hverjum kosti í tvít-lengd eða skemmri.

  1. Viðreisn: Ég er ekki sannfærður enn, en tilraunin til að skapa frjálslyndan, heiðarlegan, alþjóða- og markaðssinnaðan jafnaðarmannaflokk þarf að fá annað tækifæri.
  2. Björt framtíð: Málefnalega sama og Viðreisn. Þessir flokkar hefðu átt að sameinast áður en listum var skilað inn. Veikara bakland, en fyrirmyndarfólk í forsvari.
  3. Píratar: Róttæki kosturinn sem ég gat hugsað mér. Tilhugsunin um “uppfært stýrikerfi” fellur mér í geð, en hópurinn hefur verið of óstabíll og óútreiknanlegur til að ég treysti honum fyrir mínu atkvæði.
  4. Samfylkingin: Hefur flust of mikið til vinstri síðustu ár. Finnst eins og þessi flokkur viti aldrei alveg hvert hann er að fara (né hvaðan hann kom).

    — Ekkert hér fyrir neðan kom raunverulega til greina —

  5. Framsóknarflokkurinn: Gamla “góða” framsókn komin aftur. Trausta sveitafólkið sem myndi bjarga mér úr skafli ef ég festist. Fólk forfeðra minna. Verst að hagsmuna- og stefnumál þeirra fara nánast ekki saman með mínum að neinu leyti. Óþægileg forsaga sem er ef til vill ekki alveg horfin.
  6. Vinstri græn: Treysti fólkinu, en ósammála stefnunni í eiginlega öllu.
  7. Sjálfstæðisflokkurinn: Treysti ekki fólkinu, en sammála (yfirlýstri) stefnu að mörgu leyti. Ef henni væri nú fylgt eftir…
  8. Alþýðufylkingin: Var ekki búið að fullreyna þessa hugmyndafræði?
  9. Flokkur fólksins: Þjóðernis- og einangrunarhyggja sem boðuð er með hræðsluáróðri á ekkert erindi í upplýstu nútímasamfélagi.
  10. Miðflokkurinn: Málefnalega sama og Flokkur fólksins, nema með Sigmund Davíð sem hefur fyrir löngu misst alla virðingu mína – og síst gert eitthvað til að vinna hana aftur.

Er ég þá ekki örugglega búinn að móðga alla?

One comment

  1. Algjörlega frábær greining. Eins og töluð út úr mínu hjarta.

    Kær kveðja,

    Guðbrandur Magnússon

    On 22 Oct 2017 00:50, “hjalli.com – Hjálmar Gíslason” wrote:

    > Hjalmar Gislason posted: “Hvað ég kaus. Hvað ég kaus ekki – og af hverju. > Ég kaus utan kjörfundar í síðustu viku. Að venju hugsaði ég mig nokkuð > vandlega um, en á endanum gat ég raðað öllum flokkunum 10 upp í röð sem ég > var sáttur við. Sú röð fylgir hér fyrir neðan ásamt útskýr” >

Leave a comment