Horft niður um glerþakið

Ég hætti nýverið í vinnunni. Við taka nokkrir mánuðir af umhugsun, hvíld og ferðalögum sem er alveg tímabært eftir 10 ára hlaup með DataMarket og svo Qlik eftir að fyrirtækin runnu saman. Í haust fer ég svo örugglega aftur að gera það sem ég kann best: Að setja af stað eitthvað nýtt.

Hvað það nákvæmlega verður er enn í mótun, en ég er eiginlega búinn að hugsa meira um það hvernig ég vil gera það, en nákvæmlega hvað ég vil gera.

Eitt af því sem mér finnst mikilvægt er að tryggja að hópurinn sem að málum standi sé fjölbreyttur. Þar spila kynjahlutföllin stóra rullu. Ég hef áður skrifað um það hversu erfiðlega gekk að fá konur til starfa hjá DataMarket þrátt fyrir nokkuð ítarlegar tilraunir, m.a. í lykilstöður.

En nú er blaðið er autt og dauðafæri að byggja upp blandaðan hóp frá upphafi. Ég veit líka að ef ég gæti ekki að verður þetta umsvifalaust hópur sem samanstendur bara af fertugum körlum eins og mér.

Eitt af því sem ég hef velt talsvert fyrir mér í þessari dínamík eru samskipti fólks af sitthvoru kyninu og hvernig óttinn um að eitthvað annað búi að baki getur litað þau. Eða jafnvel óttinn við þann ótta.

Ég hef mjög gaman af að fylgjast með því sem skapandi fólk á Íslandi er að gera. Einu sinni til tvisvar í viku heyri ég í fólki sem ég þekki lítið eða ekkert, en er að setja af stað fyrirtæki, velta fyrir sér möguleikum eða leita ráða varðandi nýsköpun, fjármögnun, markaðssókn erlendis eða annað þar sem ég hef ef til vill eitthvað fram að færa.

Langoftast er þetta fólk sem ég er kynntur fyrir, eða hefur samband við mig að fyrra bragði, en það kemur líka fyrir að ég rekst á fólk sem mér finnst vera að gera áhugaverða hluti og hef samband við það að fyrra bragði.

Hins vegar er yfirgnæfandi meirihluti þessarra samskipta við karla. Og því meira sem ég hugsa um það, þeim mun meira held ég að það sé ekki í hlutfalli við karla umfram konur sem eru að gera Góða Hluti(TM) á þessum sviðum.

Ég viðurkenni til dæmis fúslega að ég er feimnari við að hafa af fyrra bragði samband við ungar konur sem ég þekki ekki, en eru að gera áhugaverða hluti, sennilega af lítt meðvituðum (fyrr en nú) ótta um að það verði á einhvern hátt misskilið: “Hey, ég hef verið að fylgjast á netinu með því sem þú ert að gera, og mér finnst það töff! Ertu til í spjall við tækifæri?” (ég get alveg verið ótvíræðari, en þið skiljið hvað ég meina)

Og kannski er þetta svona í hina áttina líka: Kannski eru kvenkyns frumkvöðlar ragari við að setja sig í samband við karlkyns mentora/fjárfesta vegna þess að alltof margir okkar hafa hagað sér eins og fífl í gegnum tíðina.

Hver sem ástæðan er, þá er þetta samskiptahindrun sem þarf að ryðja úr vegi til að jafna kynjahlutföllin í geiranum. Þannig að: Konur, ekki hika við að setja ykkur í samband ef þið eruð í sprotahugleiðingum. Og sömuleiðis skal ég reyna að láta ekki “óttann við óttann” hafa áhrif á mín samskipti og sækjast eftir samskiptum við frumkvöðla og efnilegt sprotafólk af báðum kynjum á sama hátt og auðvitað á nákvæmlega sömu forsendum.

Leave a comment