Eftir Covid: Leiðarljós við uppbyggingu

Ég ætla ekki að fagna sigri eða setjast í spámannssæti um það hvenær eða hvernig þessum faraldri sem nú gengur yfir lýkur, en einn daginn gerist það og þegar vísindamennirnir og heilbrigðisstarfsmennirnir hafa lokið sínu starfi við að bjarga lífi og limum, þurfum við hin að takast á við uppbyggingarstarfið sem við tekur í efnahagslífinu og samfélaginu öllu.

Þessi pistill er tilraun til að koma í orð nokkrum atriðum sem ég tel að við ættum að hafa að leiðarljósi við það starf.

Ef velja ætti eitt orð til að lýsa því sem gengið hefur á síðustu vikur er það orðið “breytingar”. Þar til fyrir fáeinum vikum var mikið talað um þær öru breytingar sem hin svokallaða 4. iðnbylting átti að hafa í för með sér, og þau tækifæri og ógnir sem í því fælust. Talað var um að hraði þessarra breytinga yrði ólíkur nokkru sem við hefðum áður séð.

Að einhverju leyti má segja að nú hafi 4. iðnbyltingunni hafi verið flýtt:

  • Tæknivæðing í skólum sem hefði auðveldlega tekið 20 ár með hefðbundinni stefnumörkun hefur orðið á 20 dögum.
  • Breytingar á ferðavenjum sem hörðustu loftslagsaðgerðir hefðu ekki getað fært í orð að ná fyrir árið 2040 eða 2050 urðu á 2-3 vikum.
  • Breyting á starfsháttum fyrirtækja og stofnana sem hefði verið óhugsandi með öllu hefur víða verið gerð á einni nóttu.

Þessar breytingar eru allar öfgakenndar og því fer fjarri að við viljum halda í þær, en þær opna líklega augu okkar fyrir því að það voru allskyns millivegir færir. Millivegir sem við hreinlega sáum ekki áður.

Þegar breytingar verða svona hratt, höfum við tilhneigingu til að halda að að þeim loknum verði ekkert eins og áður. Að allt muni breytast – og nú sé tækifæri til að laga allt og byggja nýja hluti á nýjum grunni.

Við munum það sjálfsagt mörg í bankahruninu: Þá átti allt að breytast og ekkert að verða samt aftur. Auðvitað breyttist margt, en í raun var samfélagið sem smám saman reis upp úr því sennilega líkara því sem fyrir var en nokkurn óraði fyrir á meðan á því stóð.

Íhaldssemi er nefnilega sterkt afl – og oft ágætt. Hlutirnir hafa tilhneigingu til að leita í sama farið, og ef við ætlum að breyta öllu er kröftunum dreift svo víða að ekkert breytist. Allt verður eins á ný. Fæst okkar myndu líklega gráta það. Þaðan sem við horfum í dag, er það samfélag sem við bjuggum við fyrir bara 2-3 mánuðum ákaflega eftirsóknarvert. En það var sannarlega ekki gallalaust.

Ég held að það sé hollt að nálgast uppbyggingarverkefni næstu ára með þetta í huga. Hlutirnir hafa tilhneigingu til að leita í sama farið, en við höfum tækifæri til að horfa á það far, hugsa um það sem betur mátti fara og reyna að stýra hlutunum. Þannig getum við ýtt undir æskilegar breytingar, en forðast endurhvarf til þeirra hluta sem ef til vill voru það síður.

Og hver eru þá brýnustu úrlausnarefnin þegar kemur að atvinnulífinu?

Þegar ég þarf að útskýra Ísland og íslenskt efnahagslíf fyrir fólki erlendis nota ég undantekningarlítið þessa mynd:

Tekjuöflunin okkar samanstendur af þremur stórum stoðum og svo “einhverju öðru”. Síðan ég byrjaði í “business” fyrir bráðum 25 árum hefur umræðan um þetta alltaf skotið upp kollinum öðru hverju. Fyrst var það “Fjórða stoðin” svo “Alþjóðageirinn”, en óháð því hvað það er kallað og hugsanlegum blæbrigðamun á skilgreiningum er í raun verið að kalla eftir aukinni fjölbreytni og þar með mótvægi við áföllum í einni eða jafnvel fleirum af þessum stóru stoðum.

Með þetta í huga annars vegar, og hins vegar þá staðreynd að við stöndum frammi fyrir stórri áskorun við að milda höggið nú, þurfum við að horfa á það hvernig sem mest af þeim kostnaði sem fer í björgunaraðgerðirnar getur nýst til að fjárfesta í fjölbreyttari framtíð. Beina fólkinu og fjármagninu sem nú leitar að farvegi í uppbyggingu sem leiðir af sér fjölbreyttara efnahagslíf sem er þolnara fyrir áföllum.

Og þetta má ekki gera á kostnað núverandi burðarstoða umfram þær breytingar sem óumflýjanlegar eru þar. Þessar burðarstoðir þarf að verja. En það þarf að byggja upp samhliða þeim.

Upp með innviðina

Ég ætla að koma ykkur á óvart með því að byrja á að tala um steypu. Framkvæmdir í einkageiranum munu líklega svo gott sem stöðvast í bili, en þá er tækifæri til að byggja upp innviði sem mæta kröfum framtíðarinnar.

  • Ferðamannastaðir og þjóðvegir: Verum tilbúin að taka á móti gestunum þegar þeir fara að koma aftur.
  • Umhverfis- og loftslagsmál:
    • Orkuskipti: Ef eitthvert land á að skara framúr þegar kemur að rafbílavæðingu er það Ísland. Allur fólksbílaflotinn notar innan við þriðjung þeirrar orku sem notuð er í álverinu í Straumsvík. Í dag er öll sú orka aðkeypt fyrir tugi milljarða í gjaldeyri á ári hverju. Sú innviðauppbygging sem þarf hér kallar á mörg störf iðnaðarmanna um allt land. Og ekkert eitt skref kæmi okkur nær því að standa við skuldbindingar okkar samkvæmt Parísarsamkomulaginu en einmitt þetta. Af öllu því sem unnt væri að ráðast í nú er þetta augljósasta færið. Þetta hefur hreinlega ALLT með sér.
    • Almenningssamgöngur: Herðum á uppbyggingu almenningssamgangna. Það kallar á störf, léttir á öðrum innviðum og eykur lífsgæði bæði þeirra sem nota almenningssamgöngurnar og hinna sem áfram nota (rafmangs)bílinn.
  • Stafrænt Ísland: Nú er lag. Fólk hefur þurft að læra og komist að því að það er hægt að leysa ótrúlegustu hluti yfir netið og með stafrænum hætti. Opinberir aðilar hafa dregist langt afturúr í því að veita þannig þjónustu. Hraðari uppbygging hér eykur skilvirkni og þjónustustig hins opinbera, öllum til hagsbóta.

Samt ekki “tóm steypa”

Stóru geirarnir okkar þrír eru auðlindageirar. Mér vitanlega eru ekki miklar líkur á því að við finnum nýja auðlind sem skapar viðlíka verðmæti og þess vegna þurfum við að beina sjónum okkar að hugvitinu. Það er líka á því sviði sem verðmæti geta orðið til úr “engu” öðru en því að veita hugmyndaríku og drífandi fólki gott kaffi og gott starfsumhverfi.

Það besta sem Ísland hefði getað gert til að takast á við núverandi ástand hefði verið að setja stóraukinn kraft í nýsköpun fyrir 5-10 árum síðan. Næstbesta ráðið er þess vegna að gera það núna!

  • Ekki gleyma litlu fyrirtækjunum: 70% landsmanna vinna hjá litlum fyrirtækjum (færri en 250 starfsmenn, 50% hjá fyrirtækjum með færri en 50 starfsmenn) og þar verða ný störf til hraðar en hjá stórum fyrirtækjum. Litlu fyrirtækin hafa samt ekki sterka rödd og margar þeirra aðgerða sem henta stórum fyrirtækjum, henta litlum fyrirtækjum síður – hvað þá einyrkjum.
  • Gefum fyrirtækjum sem eru komin af stað “tímavél”: Þau fyrirtæki sem eru – og hafa verið – í uppbyggingu miðað við þann raunveruleika sem þangað til nýlega var, munu eiga erfitt á næstu misserum. Margir markaðir eru í algeru frosti og fjármögnunarleiðum hefur snarlega fækkað og orðið erfiðari. Hættan er að þessi fyrirtæki falli um koll núna og verði ekki á staðnum til að grípa tækifærin þegar allt lifnar við á ný. Hvatasjóðurinn Kría er mikilvægur þáttur hér og hann þarf að komast af stað strax og jafnvel stækka. En það þarf líklega líka að skoða aðrar leiðir, eins og víkjandi lán til fyrirtækja sem lenda í þessari biðstöðu. Hið hefðbundna bankakerfi sinnir ekki þessum fyrirtækjum og mun ekki geta gert það á sínum forsendum í þessu umhverfi heldur.
  • Hjálpum nýjum að komast af stað: Þau sprotafyrirtæki sem hafa verið að ná árangri á undanförnum árum fóru nær öll af stað í síðustu kreppu. Ég þekki það ágætlega sjálfur, stofnaði fyrirtæki 2008 og seldi það 2014. Sú sala mældist alveg á hagvísum. Og aðrir sem þá fóru af stað hafa náð miklu lengra. Nú er los á góðu fólki, gefum því tækifæri til að láta hugmyndir sínar verða að veruleika. Hér liggur beint við að stórefla Tækniþróunarsjóð (og þar er hreyfing nú þegar), og stuðla að þekkingarmiðlun milli þeirra aðila sem eru að fara af stað og hinna sem hafa reynsluna með markvissum sprotahröðlum eða álíka verkefnum.

Opið og sterkt samfélag

Að lokum megum við ekki gleyma því að Ísland þarf alþjóðlegt samstarf og viðskipti eins og maraþonhlaupari þarf súrefni.

Sú lexía sem við megum allra síst draga af þessu ástandi er að nú skuli hver hugsa um sig, loka landamærum og draga sig inn í skelina. Þvert á móti þurfum við að efla alþjóðlegt samstarf og samskipti, draga hingað alþjóðlega þekkingu og fjármagn og þora að vera þjóð á meðal þjóða.

Þetta er ekki bara mikilvæg brýning vegna þess að aðgangur að alþjóðamörkuðum er nauðsynlegur bæði stóru greinum dagsins í dag og nýju greinum framtíðarinnar, heldur liggur kannski hérna eitt stærsta tækifærið í þessu öllu saman.

Krísan sem nú gengur yfir heimsbyggðina er að sýna svo ekki verður um villst hversu mikils virði það er að búa í samfélögum með öfluga innviði, öryggisnet og samfélagsgerð. Það er sannarlega of snemmt að hrósa sigri, en ef svo fer fram sem horfir er Ísland að fara nokkuð vel útúr þessum faraldri heilsufarslega séð og í sterkri stöðu til að takast á við það sem á eftir kemur efnahagslega.

Samfélög sem sýna þann styrk munu verða eftirsóknarverð samfélög. Samfélögin þar sem brestirnir koma í ljós síður. Þegar upp úr þessum átökum er staðið munu margt drífandi fólk horfa til þess hvort hagsmunum þeirra og öryggi sé kannski betur borgið á öðrum stað í heiminum. Ef vel tekst til hjá okkur munu sum þeirra horfa til Íslands. Við eigum að taka vel á móti þeim öllum, en sérstaklega ekki leggja stein í götu þeirra sem geta hjálpað til við uppbygginguna. Við þurfum ekki að mennta öll þau sem eiga að standa undir atvinnulífi framtíðarinnar – við getum boðið þau velkomin að flytja hingað. Ég trúi því að þarna verði stórt sóknarfæri á næstu árum.

Ég held með öðrum orðum að Ísland verði aftur eftirsóknarverður áfangastaður. En ekki bara fyrir ferðamennina – sem munu koma aftur – heldur líka fyrir fólk sem er að leita að betra og öruggara samfélagi til að búa og starfa í.

Lokaðra Ísland er ávísun á meiri fábreytni og færri tækifæri, en opið á fjölbreytni, aukna viðspyrnu við áföllum og fleiri tækifæri.


Vonandi berum við gæfu til að nálgast þetta uppbyggingarstarf af svipaðri ákveðni og yfirvegun og í því hvernig tekist hefur verið á við heilsufarsógnina. Þá verða einn daginn verða vonandi fleiri en 3 stórar stoðir undir íslensku efnahagslífi og fleiri greinar til að grípa okkur í fallinu þegar óvænt og áhjákvæmileg áföll dynja á.

One comment

  1. Góður pistill, og sammála rafvæðingu bílaflotans en við megum ekki gleyma metaninu sem við eigum eiginlega of mikið af og von er á meiru, þökks sé “snillingunum” hjá Sorpu, við verðum að nota þetta og sumir segja að metanbílar séu þeir umhverfisvænustu. Furðu lítill áhugi á að nota þetta núna miðað við sem var, en Íslendingar eru jú eins og kindahjörð varðandi flesta hluti, það virðist alltaf þurfa að vera bara ein leið.

Leave a comment