Minning um Ragnar S. Halldórsson

Tengdafaðir minn, Ragnar S. Halldórsson, er látinn. Ragnar var mikill maður, í öllum skilningi þeirra orða.

Þegar ég kynntist honum hafði hann að mestu lokið sínum starfsferli sem var langur og merkilegur. Ég held að það sé óhætt að segja að Ragnar hafi verið meðal þeirra manna sem fluttu nútímann til Íslands á síðari hluta seinustu aldar. Auk starfanna hjá ÍSAL, sem hann er auðvitað þekktastur fyrir, var hann meðal frumkvöðla í verðbréfaviðskiptum, hvatamaður að stofnun Háskólans í Reykjavík og kom að stofnun, fjármögnun og stjórnun fjölmargra fyrirtækja, stórra og smárra.

Ragnar var alltaf boðinn og búinn að hjálpa og laga, ekki síst með auknum frítíma. Þegar ég stofnaði mitt fyrsta fyrirtæki og vildi fá þangað nettengingu voru svörin þau að bið eftir slíku tæki að lágmarki 6 vikur. Ragnar fékk veður af þessu og morguninn eftir sótti hann mig snemma og gekk með mig á fund Þórarins V. sem þá var forstjóri Landssímans. Taugatrekktur unglingurinn ég gat rétt stamað upp úr mér hvers kyns var, Ragnar og Þórarinn skiptust svo á nokkrum gamansögum og seinna sama dag var komin blússandi nettenging í fyrirtækið.

Í annað skipti var ég á leiðinni á mikilvægan fund að morgni dags. Ég vakna fyrir allar aldir til að hafa mig til og undirbúa mig. Ég hef rakstur, en þar sem ég stend yfir baðherbergisvaskinum og renni klippunum í gegnum hárið gefa klippurnar sig. Þarna stend ég með eina rönd rakaða yfir miðjan skallann og er ekki skemmt, allra síst miðað við skellihlæjandi Möggu Dóru, sem skýst í símann og nær á pabba sinn áður en hann fer í morgunsundið. Fimm mínútum síðar er álskallinn sjálfur mættur inn á baðherbergisgólf heima hjá okkur með allar græjur til að ég geti lokið verkinu og látið taka mig alvarlega, enda hann eðli málsins samkvæmt vel græjaður til slíkra verka.

Á sunnudögum réðum við svo krossgátuna saman. Ragnar var margfróður og oftar en ekki var svo gripið til ýmissa uppflettirita en af þeim var gnógt á heimili Ragnars og Margrétar. Við Magga Dóra sáum svo um það sem netið gat hjálpað við. Þessi samvinna skilaði góðum árangri. Þau voru ófá símtölin frá Ragnari þar sem á mánudegi hann hringdi sigri hrósandi með orðið sem upp á vantaði og gátuna klára.

Ragnar var mikill sögumaður, og átti margar og merkilegar sögur. Sagnastíll hans var þannig að yfirleitt voru margar hliðarsögur og útúrdúrar. Oft þurfti að fletta upp í Samtíðarmönnum svo að örugglega væri rétt farið með ætterni eða ártöl og stundum lauk ekki endilega þeirri sögu sem lagt var upp með. Það kom þó ekki endilega að sök, hún var þá bara börnuð sem hliðarsaga í annarri frásögn síðar.

Síðustu árin var heilsu Ragnars farið að hraka. Hugurinn gaf eftir á undan líkamanum og að minnsta kosti einu sinni hélt ég að ég hefði kvatt Ragnar í hinsta sinn, en þessi stóri, sterki maður stóð alltaf upp aftur. Smám saman gaf skrokkurinn þó eftir líka og að lokum kom hinsta kallið og hvíldin þá orðin kærkomin.

Eftir standa djúp spor, ekki bara meðal fjölskyldu og fjölmargra vina, heldur í samfélaginu öllu.

Vertu sæll Ragnar, í huganum týnist höndin á mér í síðasta sinn í þinni í þéttingsföstu handabandi.

Þessa mynd rakst ég á í myndasafni fjölskyldunnar nýlega. Þessi ungi maður er sennilega að spá í spil og hugsa til framtíðar.

Þessi minningargrein birtist upphaflega í Morgunblaðinu þann 2. september 2019

One comment

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s