Framtíð tölvutækninnar

IMG_2791 copyÞegar framtíð tölvutækninnar er rædd er vinsælt að mála dökkum litum. Segja að tölvurnar muni taka völdin, að tölvurnar muni taka störfin, að samskipti í gegnum tölvu muni útrýma mannlegum samskiptum og að þeir sem ráði yfir gögnum um okkur muni geta stjórnað skoðunum okkar, orðum og gjörðum.

Ég tek ekki undir neitt af þessu. Með því er ég ekki að stimpla mig inn sem bjartsýnismann, ég er – eins og ein mín stærsta fyrirmynd: læknirinn, samfélagsrýnirinn og gagnagoðið Hans Rosling sagði – gallharður möguleikamaður.

Möguleikarnir eru nefnilega óþrjótandi. Í gegnum tíðina hefur hver einasta tæknibylting verið útmáluð sem endilok heimsins eins og við þekkjum hann. Og þegar mönnum hefur verið bent á það, hafa þeir í hvert einasta skipti sagt: “Já, en núna er þetta öðruvísi”. Fjórða iðnbyltingin er ekkert öðruvísi. Hún er enn eitt skrefið sem mun færa okkur betri heim, betri lífsskilyrði og meira frelsi til að sinna nýjum og merkilegari verkefnum. Gervigreind mun gerbylta krabbameinsgreiningu og seinna krabbameinsrannsóknum, þannig að við munum þurfa að finna eitthvað nýtt til að deyja úr. Gervigreind mun vissulega “taka af okkur” mikið af störfum hversdagsins, en á móti skapa tíma til að sinna bóklestri, listsköpun og frjálsri hugsun. Með henni verða líka til ný störf sem líklega munu að miklu leyti snúast um umönnun og mannleg samskipti af ýmsum toga og virðing slíkra starfa vaxa. Því ber að fagna.

Tæknin mun líka halda áfram að skapa tíma til að slæpast. En við höfum gott af því að slæpast. Okkur langar innst inni til að slæpast og oft gerast góðir hlutir einmitt þegar við leyfum okkur það. Í gegnum tíðina hafa margir þeirra sem hafa haft hvað mest fram að færa til framfara í tækni, vísindum og listum einmitt verið þeir sem fengu tækifæri til að slæpast. Leonardo da Vinci, Isaac Newton og Ada Lovelace voru öll fólk sem nutu þess að fá að slæpast. Og við njótum ávaxtanna.

Þetta þýðir auðvitað ekki að allt sé fullkomið, eða að frábær framtíð sé sjálfsögð og sjálfgefin. Því fer fjarri. Þetta þýðir ekki heldur að við eigum að horfa framhjá vandamálum sem þarfnast úrlausnar, stórum sem smáum. En án trúar á því að þau verði leyst og að framtíðin geti orðið betri verður hún það aldrei.

Við þurfum að ræða siðferðilegar spurningar varðandi gervigreind. Við þurfum að ræða hvað vernd persónuupplýsinga þýðir á tímum samfélagsmiðla og umfangsmikillar miðlægrar gagnasöfnunar. Við þurfum að ræða valdið sem tæknirisar samtímans hafa með aðgangi sínum að slíkum upplýsingum og valdið sem þeir hafa til að stjórna því hvaða upplýsingar við sjáum og lesum.

Allt þetta eru áskoranir sem við þurfum að takast á við, en þetta eru ekki í eðli sínu byltingar ólíkar þeim sem urðu þegar prenttæknin var fundin upp, þegar gufuaflið ruddi sér til rúms eða þegar verksmiðjuvædd fjöldaframleiðsla tók yfir sífellt meira af viðfangsefnum verkamanna. Allt voru þetta tæknibreytingar sem höfðu í för með sér miklar samfélagslegar breytingar, en allar leiddu þær til lengri tíma til betri heims og betra lífs fyrir þorra mannkyns. Það gerðist ekki að umsvifalaust, né af sjálfu sér, heldur yfir allnokkurn tíma fyrir tilstuðlan öflugrar gagnrýni, nýrra laga og reglugerða og nýrrar hugsunar með breyttri tækni og samfélagsgerð.

Tæknin er ekki áhyggjuefni og framþróun hennar verður ekki stöðvuð. Í tækninni felast stórkostleg tækifæri en jafnframt krefjandi úrlausnarefni. Stærsta úrlausnarefnið er samt sem áður ekki tæknilegt. Það er að svara því hvaða samfélagsgerð tryggir að allir njóti þeirra ávaxta sem tækniframfarirnar hafa í för með sér og að tryggja að sú samfélagsgerð verði ofan á. Hingað til hefur mannkyninu borið gæfa til að gera það við hvert byltingarkennda framfarastigið á fætur öðru og ég hef óbilandi trú á að við gerum það áfram.


Þessi pistill var skrifaður sem hugvekja og lokaorð í bókinni “Tölvuvæðing í hálfa öld – Upplýsingatækni á Íslandi 1964-2014” sem Skýrslutæknifélag Íslands gaf út 2018.

Leave a comment