Minning um Margréti Kristínu Sigurðardóttur

Ég er ekki viss um að henni hafi litist sérstaklega vel á slánalega drenginn í leðurjakkanum sem kom með dóttur hennar á skrifstofuna á Rauðarárstígnum fyrir rúmum aldarfjórðungi. Erindið var heldur ekki reisnarlegt: Bíllinn bensínlaus við Hlemm og gott ef ekki við auralaus líka og því leituðum við til hennar eftir aðstoð.

Samband okkar var þó allt upp á við þaðan og okkur varð fljótt vel til vina, þó svo því færi fjarri að þetta væri í eina skiptið sem hún hljóp undir bagga með okkur.

Margrét var nefnilega kona sem hugsaði um sitt fólk og gekk fram í því að aðstoða, hjálpa og hlúa að hvar sem hún sá tækifæri til. Hjálpsöm og greiðvikin.

Henni þótti líka óskaplega gaman að elda og bera fram góðan mat og ég var enn á þeim aldri þar sem drengir taka hraustlega til matar síns. Þarna náðum við því líka vel saman. Samband sem við ræktuðum velflesta sunnudaga sem færi var á meðan við þekktumst.

“Töggur” er samt það orð sem ég held að lýsi tengdamömmu best. Ef einhver á það skilið að um hana sé sagt að það hafi verið töggur í henni, er það Margrét. Hún ruddi brautir sem húsmæður af hennar kynslóð höfðu fæstar áður kynnst, ruddi úr vegi því sem kunnu að virðast óyfirstíganlegar hindrunir í félaga- og velgjörðarstarfi sem hún tók þátt í og ruddi fjölskyldunni í gegnum ýmsa þunga skafla án þess að láta mikið á því bera.

Margrét Kristín Sigurðardóttir var einstök kona sem ég er þakklátur fyrir að fá að hafa þekkt. Minningin um góðhjartaða, röggsama og ósérhlífna konu lifir í okkur öllum sem kynntust henni.

Takk fyrir allt mín kæra.

Margrét og Ragnar nýgift á leið til Danmerkur í nám.

Þessi minningargrein birtist upphaflega í Morgunblaðinu þann 5. september 2022

Leave a comment